Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 243. máls.
Þskj. 357  —  243. mál.
Frumvarp til laga

um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)

I. KAFLI
Breyting á lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands vera 855 kr. á mánuði árið 2009 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári.

II. KAFLI
Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993,
með síðari breytingum.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði a-liðar 1. mgr. 30. gr., IX. kafla, X. kafla og XI. kafla laga þessara, reglugerða sem settar eru með stoð í lögunum og búvörusamninga sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við Bændasamtök Íslands og einstök landssamtök framleiðenda búvöru, þar sem m.a. er kveðið á um að framlög ríkissjóðs samkvæmt samningunum taki mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs, þá skulu heildarframlög ríkissjóðs samkvæmt ofangreindum heimildum vegna almanaksársins 2009 nema þeirri fjárhæð sem hér greinir:
     a.      Framlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar dags. 25. janúar 2007 skulu nema 4.137,0 m.kr.
     b.      Framlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu dags. 10. maí 2004 skulu nema 5.634,0 m.kr.
     c.      Framlög samkvæmt aðlögunarsamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða dags. 12. mars 2002 skulu nema 413,0 m.kr.

III. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.
3. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „13,03%“ í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur: 13,28%.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði í 1. og 2. mgr. 24. gr. laganna skal sveitarstjórn ákveða fyrir 30. desember 2008 hvaða hundraðshluti verði lagðar á tekjur manna á árinu 2009, sbr. 1. mgr. 23. gr. laganna svo og 1. mgr. 9. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákvörðun sveitarstjórnar skal sömuleiðis tilkynna fjármálaráðuneytinu eigi síðar en 30. desember 2008.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998,
með síðari breytingum.
5. gr.

    Orðið ,,Þingeyjarumdæmi” í 2. mgr. 11. gr. laganna fellur brott og í stað orðsins „hvert“ í sömu málsgrein kemur: hvort.

V. KAFLI
Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.
6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „metnar að 50 hundraðshlutum“ í 1. málsl. a-liðar 1. mgr. kemur: teljast til tekna.
     b.      2. málsl. 2. mgr. fellur brott.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum.
7. gr.

    Í stað „480.000 kr.“ í 3. mgr. 13. gr. laganna kemur: 400.000 kr.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.
8. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „22,75%“ í 1. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: 24%.

9. gr.

    Í stað „874“ í 1. málsl. 4. mgr. B-liðar 67. gr. laganna kemur: 987.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „57.891“ í 3. mgr. A-liðar kemur: 61.191.
     b.      Í stað fjárhæðanna „144.116“, „171.545“, „240.034“ og „246.227“ í 4. mgr. A-liðar kemur: 152.331, 181.323, 253.716 og 260.262.
     c.      Í stað fjárhæðanna „524.469“, „688.517“ og „852.562“ í 3. málsl. 3. mgr. B-liðar kemur: 554.364, 727.762 og 901.158.
     d.      Í stað fjárhæðanna „179.713“, „231.125“, „297.194“ og „655“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 189.957, 244.299, 314.134 og 692.
     e.      Orðin „svo og gjaldföllnum afborgunum og vöxtum af lánum Íbúðalánasjóðs“ í 14. mgr. B-liðar falla brott.

11. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 38/2008, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, orðast svo:
    Umsýsla stórfyrirtækja skv. 5.–7. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal hefjast 1. janúar 2010. Ríkisskattstjóri skal fyrir árslok 2009 tilkynna formlega þeim fyrirtækjum sem falla undir tilgreind ákvæði að þau heyri undir Reykjavíkurumdæmi. Samkvæmt framansögðu heyra ákvarðanir er varða skatta og gjöld, sem tilgreind eru í II. kafla laga nr. 90/2003, undir sama umdæmi frá og með 1. janúar 2010. Jafnframt verður forræði í öllum málum aðila sem falla undir 5.–7. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003 í Reykjavíkurumdæmi, óháð því hvort ákvörðun varðar endurskoðun, eftirlit eða kæruúrskurði tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003 og þeirra skatta og gjalda sem tilgreind eru í II. kafla. Þetta ákvæði tekur einnig til ólokinna mála að teknu tilliti til ákvæða 97. gr. laga nr. 90/2003 um endurupptöku skattlagningar.

12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 8. mgr. A-liðar 68. gr., sbr. reglugerð nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta, verður barnabótum ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga á árinu 2009.

VIII. kafli
Brottfall laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., nr. 133/2005,
með síðari breytingum.

13. gr.

    Lög um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., nr. 133/2005, með síðari breytingum, eru felld úr gildi.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.
14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „metnar að 50 hundraðshlutum“ í 1. málsl. a-liðar 2. mgr. kemur: teljast til tekna.
     b.      2. málsl. 3. mgr. og 2. málsl. 4. mgr. falla brott.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða við lögin:
     a.      10. tölul. ákvæðisins fellur brott.
     b.      Við bætist nýr töluliður sem orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 69. gr. laganna skulu bætur almannatrygginga, sem og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., hækka um 9,6% á árinu 2009.

X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
16. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum skv. IV. kafla, þ.m.t. á fæðingarstofnunum, sbr. þó 23. gr., 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. eða ákvæði sérlaga.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna:
     a.      Við töluliðinn bætast fjórir nýir málsliðir sem verða 1..4. málsl. og orðast svo: Komu vegna innlagnar á sjúkrahús, sbr. 1. mgr. 18. gr. Gjaldið nær m.a. til kostnaðar við innritun og aðstöðu og er heimilt að innheimta einu sinni fyrir hverja legu á sjúkrahúsi. Ekki er þó heimilt að taka gjald vegna innlagnar á fæðingardeild. Gjald fyrir þjónustu skal vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum.
     b.      Í stað orðsins „Almenna“ í 1. málsl., sem verður 5. málsl., kemur: Enn fremur almenna.

XI. KAFLI
Gildistaka.
18. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009 nema ákvæði 3. og 4. gr. sem taka gildi þegar í stað. Ákvæði 7. gr. á við um foreldra barna sem fæðast 1. janúar 2009 eða síðar. Ákvæði 8. og 9. gr. koma til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2009 og við álagningu tekjuskatts á árinu 2010. Ákvæði 10. gr. kemur til framkvæmda við álagningu á árinu 2009 vegna tekna og eigna á árinu 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Efnahagskreppa sú sem Íslendingar þurfa nú að takast á við í kjölfar hruns íslensku bankanna hefur í för með sér mikinn samdrátt í tekjum ríkisins á komandi ári. Ef ekki verður gripið til ráðstafana mun hallinn á ríkissjóði fara yfir 200 milljarða króna árið 2009. Af þeim sökum verða við 2. umræðu fjárlaga fluttar fjölmargar breytingartillögur sem miða að því að draga úr hallanum eins og unnt er. Er þá jafnframt verið að fylgja efnahagsáætlun þeirri sem unnin var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sbr. þingsályktun sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Með frumvarpi þessu eru lagðar til samsvarandi breytingar á lögum.
    Frumvarpið skiptist í ellefu kafla og er þeim raðað upp í aldursröð þeirra laga sem verið er að breyta. Í I. kafla er lögð til breyting á lögum um sóknargjöld þannig að fjárhæð þeirra hækki ekki eins og núgildandi lög gera ráð fyrir milli áranna 2008 og 2009. Í II. kafla er lagt til að sett verði þak á útgjöld ríkisins árið 2009 vegna búvörusamninga.
    Í III. kafla er lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að hækka útsvar um 0,25 prósentustig eða úr 13,03% í 13,28%. Áætlað er að þessi hækkun geti skilað sveitarfélögum allt að 2 milljörðum króna í útsvarstekjur miðað við það að öll sveitarfélög landsins fullnýti heimildina. Verði frumvarpið að lögum mun það skapa mun betri forsendur fyrir rekstri sveitarsjóðanna á næstu árum, en að öllu óbreyttu hefði stefnt í allnokkra tekjulækkun hjá mörgum sveitarfélögum vegna hinna miklu umskipta sem orðið hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar.
    Staða sveitarfélaganna er vissulega misjöfn en reikna má með að meiri hluti sveitarfélaga muni nýta sér hina nýju heimild, sem frumvarp þetta hefur í för með sér, til að leggja á útsvar umfram það sem er í ár. Á yfirstandandi ári nýttu 63 sveitarfélög sér heimild til hámarksálagningar útsvars, 15 sveitarfélög lögðu á lægra útsvar og þar af voru 3 sem lögðu á lágmarksútsvar, en það er 11,24%. Ekki er með frumvarpinu lögð til breyting á lágmarksútsvari.
    Þrátt fyrir að almennur frestur til að taka ákvörðun um útsvar komandi tekjuárs sé 1. desember, sbr. 1. mgr. 24 gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og að upplýsa beri fjármálaráðuneytið um þá ákvörðun fyrir 15. desember, er með frumvarpinu lag til að sveitarfélög hafi frest til loka árs 2008 til að taka ákvörðun um útsvarsprósentu og tilkynna hana til fjármálaráðuneytisins.
    Í IV. kafla er lögð til breyting á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, í sparnaðarskyni.
    Í V. og IX. kafla er að finna tillögur til breytinga á lögum um málefni aldraðra annars vegar og almannatryggingar hins vegar varðandi aukin áhrif fjármagnstekna á lífeyristryggingar jafnframt því sem frítekjumarki 70 ára og eldri er breytt til samræmis við frítekjumark annarra hópa lífeyrisþega.
    Í VI. kafla er gert ráð fyrir að greiðslur vegna fæðingarorlofs verði að hámarki 400.000 kr. á mánuði í stað 480.000 kr.
    Í VII. kafla eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að tekjuskattur einstaklinga verði hækkaður um 1,25 prósentustig, úr 22,75% í 24%. Markmiðið með þessari hækkun er tvíþætt. Annars vegar er hækkun um 1% til að mæta versnandi afkomu ríkissjóðs, sbr. tillögur ríkisstjórnarinnar um sparnaðaraðgerðir í kjölfar þeirra breytinga sem orðið hafa á efnahagsumhverfinu frá því að fjárlagafrumvarp ársins 2009 var lagt fram á Alþingi þann 1. október sl. Áætlað er að þessi hækkun skili ríkissjóði nálægt 7 milljörðum króna. Hins vegar er hækkun um 0,25% sem ætlað er að fjármagna sérstakt 1 milljarðs króna framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og greiðslur ríkissjóðs á fasteignagjöldum, eða samtals um nálægt 1,5 milljörðum króna.
    Í öðru lagi er lögð til hækkun á viðmiðunarfjárhæðum sjómannaafsláttar, barnabóta og vaxtabóta frá 1. janúar 2009 í samræmi við upphaflegar forsendur fjárlagafrumvarps fyrir komandi ár. Verði frumvarpið að lögum mun grunnfjárhæð sjómannaafsláttar hækka um 12,9% og viðmiðunarfjárhæðir barnabóta og vaxtabóta um 5,7%. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs vegna hækkunar viðmiðunarfjárhæða sjómannaafsláttar, barnabóta og vaxtabóta verði um 1 milljarður króna.
    Í þriðja lagi er lagt til að vaxtabótum verði ekki skuldajafnað á móti gjaldföllnum afborgunum og vöxtum af lánum Íbúðalánasjóðs ásamt sambærilegri tímabundinni breytingu hvað varðar skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, og er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 14. nóvember sl. um aðgerðir í þágu heimilanna.
    Í fjórða lagi er lagt til að stofnun sérstakrar einingar um skattaumsýslu stórfyrirtækja skv. 5.–7. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði frestað um eitt ár og hefjist 1. janúar 2010 í stað 1. janúar 2009.
    Í VIII. kafla er lagt til að lög nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., verði felld úr gildi. Breytingartillögur við 2. umræðu fjárlaga munu gera ráð fyrir frestun ýmissa framkvæmda sem kveðið er á um lögunum. Vegna gjörbreyttra aðstæðna í efnahagslífi þjóðarinnar frá því lögin voru sett þykir réttast að fella þau hreinlega úr gildi og að ákvarðanir um fjármögnun framkvæmda og verkefna sem þar er fjallað um verði teknar árlega á vettvangi fjárlaga.
    Í X. kafla er lögð til sú breyting á nýsettum lögum um sjúkratryggingar að heimilað verði að taka komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús.
    Í XI. kafla er loks að finna ákvæði um gildistöku breytinganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Fjárhæð sóknargjalda er ákvörðuð með þeim hætti að ákveðin grunnfjárhæð hækkar milli ára samkvæmt 3. tölul. 2. gr. laganna með því að ofan á hana bætist hækkun sem kann að verða á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga á öllu landinu, milli næstliðinna tekjuára á undan tekjuárinu. Gjaldið reiknast fyrir alla einstaklinga, 16 ára og eldri, og er deilt út sem ákveðinni hlutdeild í tekjuskatti til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga samkvæmt lögum um skráð trúfélög, nr. 108/1999, og Háskólasjóðs. Þróun sóknargjalda hefur verið þannig síðastliðin 4 ár, að árið 2005 voru þau 662,90 kr. á hvern einstakling á mánuði, árið 2006 voru þau 719,91 kr., árið 2007 voru þau 791 kr. og árið 2008 voru þau 872 kr. Lagt er til að sóknargjöld á árinu 2009 verði 855 kr. og er það um 2% lækkun miðað við sóknargjöld yfirstandandi árs. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 var þegar gert ráð fyrir 28 millj. kr. lækkun á þessari fjárheimild frá því sem annars hefði orðið. Í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar um lækkun útgjalda vegna efnahagsástandsins við 2. umræðu fjárlaga er gert ráð fyrir að útgöldin lækki til viðbótar um 300 millj. kr. á næsta ári.

Um 2. gr.

    Í búvörusamningum ríkisins við samtök bænda er kveðið á um að framlög samkvæmt samningunum taki mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs, sbr. grein 6.1. í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar, 6. gr. samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og grein 7.2. í aðlögunarsamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða.
    Með frumvarpsgreininni er ráðgert að skerða þessa vísitölutengingu með þeim hætti að framlög samkvæmt samningunum á samningsárinu 2009 hækki ekki meir en áætlað var að þau mundu hækka þegar fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi til fjárlaga ársins 2009 í byrjun október sl.
    Segja má að sammerkt sé með þeim búvörusamningum sem gerðir hafa verið á síðustu árum að þeir stefni einkum að því að lækka vöruverð og tryggja að kjör bænda séu sambærileg við kjör annarra stétta. Með þeim er m.a. stefnt að aukinni hagræðingu, viðhaldi stöðugleika og undirbúningi fyrir aukna samkeppni erlendis frá. Ríkissjóður veitir verulegar fjárhæðir til bænda og samtaka þeirra á grundvelli samninganna.
    Til þess er að líta að þau réttindi sem hér koma til skerðingar eru um greiðslu framleiðslustuðnings án beins endurgjalds af hálfu viðtakenda. Skerðingin er almenns eðlis og bundin við takmarkaðan tíma. Hún er einn liður í viðamiklum aðhaldsráðstöfunum sem ríkinu er nauðugt að ráðast í vegna þeirra miklu efnahagsáfalla sem yfir þjóðina hafa dunið. Verður því ekki talið að þessi breyting stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar jafnvel þótt gripið yrði inn í gildandi samninga ríkis og bænda.
    Loks er rétt að geta þess að verði frumvarpsgreinin að lögum er eðlilegt að miða við að skerðing framlaga komi með jafnri hlutfallstölu niður á einstaka undirliði búvörusamninganna nema um annað verði samið, en í öllum samningunum er að finna heimildir til endurskoðunar á þeim.

Um 3. og 4. gr.

    Samkvæmt 3. gr. hækkar hámarksútsvarsprósenta úr 13,03 í 13,28, eða um 0,25 prósentustig. Sveitarfélög ákveða fyrir 31. desember 2008 hver verður álagningarprósenta útsvars á árinu 2009 og tilkynna það fjármálaráðuneyti. Lágmarksútsvarsprósenta breytist ekki, verður áfram 11,24.
    Samkvæmt 4. gr. ber sveitarfélagi að ákveða ekki síðar en 30. desember 2008 hver verður álagningarprósenta útsvars á tekjur ársins 2009. Ákvörðunina skal tilkynna til fjármálaráðuneytis eigi síðar en þann sama dag. Ástæðan fyrir þessum fresti er sú að mörg sveitarfélög, sem þegar hafa tekið ákvörðun um útsvar á grundvelli gildandi laga, þurfa svigrúm til þess að endurmeta ákvörðun sína með hliðsjón af þeim breytingum sem frumvarp þetta mun leiða af sér.

Um 5. gr.

    Með þessari grein frumvarpsins er ráðgert að fækka héraðsdýralæknum í Þingeyjarumdæmi úr tveimur í einn.

Um 6. gr.

    Hér eru lagðar til efnislega sömu breytingar hvað varðar útreikning á þátttöku vistmanna í greiðslu dvalarkostnaðar og gert er ráð fyrir í 14. gr. frumvarpsins varðandi útreikning bóta lífeyristrygginga. Tekjur samkvæmt lögum um málefni aldraðra eru skilgreindar í 26. gr. laganna, en þar segir m.a. að fjármagnstekjur skuli metnar að 50 hundraðshlutum við útreikning á vistunarframlagi og að atvinnutekjur 70 ára og eldri teljist ekki til tekna. Er því gert ráð fyrir sömu efnisbreytingum og lagðar eru til að gerðar verði á lögum um almannatryggingar, þ.e. annars vegar að fjármagnstekjur teljist að fullu til tekna eftir að 90 þús. kr. frítekjumarki er náð og hins vegar að tekjur vistmanns af atvinnu hafi áhrif við útreikning á fjárhæð vistunarframlags eftir að frítekjumarkinu er náð. Þannig gildi sama frítekjumark gagnvart öllum vistmönnum eða 100 þús. kr. á mánuði.

Um 7. gr.

    Lagt er til að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðist við meðaltalsmánaðartekjur foreldra að fjárhæð 500.000 kr. þannig að mánaðarleg útgreiðsla sjóðsins til foreldris verði að hámarki 400.000 kr. Þetta gerir það að verkum að greiðslur til foreldra með lægri mánaðartekjur en 500.000 kr. að meðaltali verða 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili eins og verið hefur.
    Þessari breytingu er ætlað að leiða til sparnaðar í útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp í ríkisfjármálum. Undirstrikað er að þau sjónarmið sem sett voru fram þegar hámark var sett á greiðslurnar á árinu 2004 eiga enn við og því er lögð áhersla á að litið sé svo á að um tímabundna aðgerð sé að ræða. Þess vegna verður stefnt á endurskoðun á fjárhæð hámarksgreiðslna til hækkunar um leið og aðstæður í ríkisfjármálum leyfa.

Um 8. gr.

    Í 66. gr. tekjuskattslaga er kveðið á um skatthlutfall manna. Í samræmi við tillögur ríkisstjórnarinnar um sparnaðaraðgerðir í kjölfar þeirra breytinga sem orðið hafa á efnahagsumhverfinu frá því að fjárlagafrumvarp ársins 2009 var lagt fram á Alþingi þann 1. október sl. er lagt til að tekjuskattur einstaklinga verði hækkaður um 1,25 prósentustig, úr 22,75% í 24%. Um frekari skýringar vísast til almennra athugasemda.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að grunnfjárhæð sjómannaafsláttar verði hækkuð um 12,9% frá 1. janúar 2009 sem komi til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2009.

Um 10. gr.

    Með ákvæði þessu er lögð til hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta og vaxtabóta um 5,7% sem komi til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2009.
    Þá er lagt til að vaxtabótum verði ekki skuldajafnað á móti gjaldföllnum afborgunum og vöxtum af lánum Íbúðalánasjóðs, sem er liður í aðgerðum stjórnvalda í þágu heimilanna.

Um 11. gr.

    Lagt er til að umsýslu stórfyrirtækja skv. 5.–7. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verði frestað og hefjist 1. janúar 2010 í stað 1. janúar 2009.

Um 12. gr.

    Með ákvæði til bráðabirgða er lagt til að á árinu 2009 verði barnabótum ekki skuldajafnað á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga, og er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í þágu heimilanna.

Um 13. gr.

    Sjá almennar athugasemdir.

Um 14. gr.

    Lagt er til að tvær breytingar verði gerðar á tekjuhugtaki almannatryggingalaga sem skilgreint er í 16. gr. laganna.
    Í a-lið er gert ráð fyrir að fjármagnstekjur komi að fullu til skerðingar á tekjutengdum greiðslum lífeyristrygginga í stað þess að tekjurnar skerði bætur að 50 hundraðshlutum. Lagt er til að frítekjumark, að upphæð 90 þús. kr. á ári, sem kom inn í lögin fyrr á þessu ári í því skyni að draga úr of- og vangreiðslum bóta vegna fjármagnstekna, haldist óbreytt. Fyrstu 90 þús. kr. skerða því ekki tekjutengdar bætur lífeyristrygginga en fjármagnstekjur yfir þeim mörkum skerða bætur að fullu og eftir þeim reglum sem um það gilda í lögunum. Hið sama gildir um greiðslu vasapeninga skv. 48. gr. laganna. Er talið sanngjarnt að fjármagnstekjur yfir frítekjumarkinu skerði bætur í sama hlutfalli og aðrar tekjur, t.d. tekjur af atvinnu og frá lífeyrissjóðum.
    Í b-lið er gert ráð fyrir að við útreikning tekjutengdra bóta lífeyristrygginga og vasapeninga verði frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 70 ára og eldri hið sama og hjá örorkulífeyrisþegum og ellilífeyrisþegum sem ekki hafa náð 70 ára aldri, þ.e. 100 þús. kr. á mánuði. Hefur það sætt nokkurri gagnrýni að frítekjumark vegna atvinnutekna þeirra lífeyrisþega sem eru undir 70 ára aldri sé lægra en annarra og því ekki ósanngjarnt við þær aðstæður sem nú ríkja að frítekjumark allra lífeyrisþega sé hið sama. Innan við 1.000 ellilífeyrisþegar 70 ára og eldri hafa atvinnutekjur yfir 100 þús. kr. á mánuði og munu þeir eftir sem áður geta aflað sér tekna upp að því marki án þess að bætur þeirra skerðist. Heildartekjur ellilífeyrisþega sem býr einn og hefur 100 þús. kr. á mánuði í atvinnutekjur nema því um 236 þús. kr. á mánuði að meðtöldum bótum almannatrygginga. Fari atvinnutekjurnar yfir 100 þús. kr. á mánuði munu þær skerða bætur samkvæmt þeim reglum sem um það gilda í lögum um almannatryggingar, á sama hátt og hjá ellilífeyrisþegum á aldursskeiðinu 67–69 ára og hjá örorkulífeyrisþegum.

Um 15. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að 10. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar verði felldur brott. Í ákvæðinu er kveðið á um að á tímabilinu 1. apríl 2008 til og með 31. desember 2009 sé hægt að óska eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins að gerður verði samanburður á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku laga nr. 17/2008, en með þeim lögum var að fullu afnumin tenging bóta lífeyristrygginga við tekjur maka. Leiði samanburðurinn til hærri bóta samkvæmt eldri lögum skal stofnunin greiða hærri bæturnar á því tímabili. Ákvæðið er framhald af 8. tölul. bráðabirgðaákvæðis laganna sama efnis, en frá því að byrjað var að draga úr vægi tekna maka við útreikning bóta lífeyristrygginga í janúar 2007 hefur verið hægt að óska eftir slíkum samanburði. Þeim sem hafa notið þessa samanburðar hefur fækkað reglulega eftir því sem bætur lífeyristrygginga hafa hækkað og er reiknað með að á árinu 2009 verði þeir aðeins á bilinu 500.600 talsins. Þessi hópur lífeyrisþega á það sammerkt að hafa þó nokkrar eigin tekjur, eða um og yfir 150 þús. kr. á mánuði. Þá er hér um fremur lágar fjárhæðir að ræða í bótum, en innan við 20 manns hafa 20 þús. kr. eða meira út úr samanburðargreiðslunni og þeir einstaklingar hafa allir yfir 200 þús. kr. á mánuði í aðrar tekjur. Með því að afnema ákvæðið úr lögunum munu tekjur maka endanlega hætta að hafa áhrif á útreikning bóta lífeyristrygginga og því er þetta til mikillar einföldunar á lífeyristryggingakerfinu. Ákvæðið um samanburð á útreikningi bóta samkvæmt núgildandi og eldri reglum dregur mjög úr sparnaði sem ætlað er að ná með 1. gr. frumvarpsins þar sem samanburðurinn dregur mjög úr lækkun greiðslna vegna þeirra breytinga sem þar eru lagar til.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til, í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins, að bætur almannatrygginga, sem og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., hækki um 9,6% á árinu 2009. Til viðbótar því mun lágmarksframfærslutrygging sem mælt er fyrir um í reglugerð, sem sett er á grundvelli laga um félagslega aðstoð, hækka um 20%, úr 150 þús. kr. í 180 þús. kr. á mánuði sem tryggir sérstaklega hag tekjulægstu bótaþeganna. Þeim lífeyrisþegum sem fá bætur á grundvelli lágmarksframfærslutryggingarinnar mun fjölga verulega með breytingunni en reikna má með að um það bil tólf þúsund lífeyrisþegar fái bætur á grundvelli hennar á árinu 2009, en þeir voru um fjögur þúsund á árinu 2008.

Um 16. gr.

    Með frumvarpinu er fyrirhuguð sú breyting á lögum um sjúkratryggingar að taka upp nýtt gjald vegna heilbrigðisþjónustu, þ.e. komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús. Í samræmi við það er lagt til að í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar verði vísað til 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna þar sem kveðið er á um komugjaldið.

Um 17. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á 29. gr. laganna en greinin fjallar um gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu og aðstoð sem sjúkratryggðir eiga rétt á á grundvelli laga eða samninga. Lagt er til að í 2. tölul. verði sett inn ákvæði er heimilar að taka upp komugjald við innlögn á sjúkrahús sem nái m.a. til kostnaðar við innritun og aðstöðu. Sérstaklega er kveðið á um að gjaldið skuli vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum. Eðli málsins samkvæmt skal komugjald aðeins innheimt einu sinni vegna hverrar innlagnar og legu á sjúkrahúsi og önnur gjaldtaka af inniliggjandi sjúklingi er ekki heimil. Ekki er gert ráð fyrir innheimtu gjalds fyrir innlögn vegna fæðingar í samræmi við núgildandi ákvæði 1. og 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna sem kveða á um að ekki sé heimilt að taka gjald fyrir mæðra- og ungbarnavernd.
    Heimild ráðherra skv. 1. mgr. 29. gr. laganna til að kveða nánar á um gjald í reglugerð, þar á meðal fjárhæð þess, nær til þessa gjalds eins og annarra þjónustugjalda sem kveðið er á um í þeirri málsgrein. Í reglugerð getur ráðherra þannig t.d. kveðið á um hámark komugjalds fyrir þá einstaklinga sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús oft á ári.
    Með töku komugjalds vegna innlagnar á sjúkrahús skapast meira samræmi og jafnræði í gjaldtöku, enda er tekið komugjald vegna komu á slysadeild, bráðamóttöku og göngudeild, auk gjalds vegna rannsókna hjá þeim sem ekki eru inniliggjandi. Þess má geta að komugjöld vegna innlagnar eru innheimt á sjúkrahúsum í Svíþjóð og Finnlandi og er því síður en svo um einsdæmi að ræða á Norðurlöndunum.
    Sú breyting á gjaldtöku sem hér er lögð til mun falla undir hámark á greiðsluþátttöku einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu, í samræmi við vinnu nefndar um gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni sem þingmennirnir Pétur H. Blöndal og Ásta R. Jóhannesdóttir hafa stýrt.

Um 18. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum til að draga úr verulegum halla á rekstri ríkissjóðs sem horfur eru á að verði að óbreyttu. Í kjölfar þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á efnahagsumhverfinu frá því að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2009 var lagt fram á Alþingi þann 1. október sl. hafa áætlanir um tekjur og gjöld ríkissjóðs á næsta ári verið teknar til endurskoðunar. Útlit er fyrir að tekjur dragist verulega saman frá fyrri áætlunum og að útgjöld aukist mikið á sama tíma, m.a. vegna aukins atvinnuleysis, hækkandi verðlags, gengisfalls íslensku krónunnar og ekki síst vegna stóraukinnar vaxtabyrði af skuldum sem horfur eru á að ríkissjóður þurfi að taka á sig í kjölfar áfalla á fjármálakerfi landsins. Að óbreyttu voru horfur á að halli ríkissjóðs á árinu 2009 gæti orðið nálægt 215 milljarðar króna á greiðslugrunni.
    Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að halli ríkissjóðs verði svo mikill hefur ríkisstjórnin ákveðið að grípa til ráðstafana á tekju- og gjaldahlið í samræmi við efnahagsáætlun unna í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að halli á ríkissjóði á árinu 2009 verði ekki meiri en sem nemur um 165–170 milljörðum króna á greiðslugrunni. Með það að markmiði hefur ríkisstjórnin ákveðið að setja fram áætlun um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem skili a.m.k. 45 milljarða króna betri afkomu en orðið hefði að óbreyttu. Að öðrum kosti hefði þurft að afla fjármögnunar á þeim útgjöldum með lántökum á þeim kjörum sem nú eru í boði.
    Á tekjuhlið fjárlaga fela aðgerðirnar í sér að tekjuskattur einstaklinga verði hækkaður og það skili um 7 mia. kr. tekjum. Á gjaldhlið er um að ræða ráðstafanir til að lækka eða koma í veg fyrir útgjaldaaukningu sem nemi um 38 mia. kr. Þegar hafa verið lagðar fram tillögur um slíkar ráðstafanir fyrir 2. umræðu frumvarps til fjárlaga 2009 sem nema um 30 mia. kr. og er gert ráð fyrir að frekari aðgerðir sem skili 8 mia. kr. lækkun útgjalda felist í tillögum við 3. umræðu. Sumar þessara ráðstafana fela í sér að gera þarf breytingar á lagaákvæðum sem að þeim snúa og koma fram tillögur um þann hluta í þessu frumvarpi. Í öðrum tilvikum þarf ekki lagabreytingar til að lækkun á útgjöldum nái fram að ganga.
    Frumvarpið skiptist í tólf kafla og eru lagðar til breytingar sem lúta bæði að tekjum og gjöldum ríkissjóðs. Á tekjuhlið er gerð tillaga um að lögum um tekjuskatt verði breytt þannig að tekjuskattsprósentan hækki um 1,25%. Þar af er um 1% af hækkun tekjuskattsins vegna versnandi afkomu ríkissjóðs og er áætlað að það auki tekjurnar um 7 milljarða kr. á ári. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að skatturinn hækki um 0,25% til að standa undir sérstöku aukaframlagi að fjárhæð 1 mia. kr. til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og til að mæta því að álagningarprósenta fasteignagjalda verður ekki lækkuð eins og áformað var, en það svarar til um 0,5 mia. kr. Áætlað er að tekjuskatturinn gæti hækkað samtals um 8,5 til 9 milljarða kr. vegna þessa. Í frumvarpinu er einnig lagt til að sveitarfélögunum verði heimilað að hækka útsvar um 0,25% eða úr 13,03% í 13,28%. Þessi hækkun getur skilað sveitarfélögunum allt að 2 mia. kr. hærri tekjum ef þau nýta sér öll heimildina að fullu. Þessi ráðstöfun hefur ekki áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir allverulegum breytingum til að lækka útgjöld ríkissjóðs. Í fyrsta lagi er lagt til að einingarverð sóknargjalda hækki ekki milli ára miðað við hækkun á meðaltekjuskattsstofni heldur verði það 855 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldaári. Um er að ræða 2% lækkun á einingaverðinu sem gildir á þessu ári. Með þessu móti er áformað að sóknargjöld til trúfélaga lækki samtals um 328 milljónir kr., miðað við það sem annað hefði orðið. Þar af var þegar búið að gera ráð fyrir 28 m.kr. í fjárlagafrumvarpinu. Auk þess hefur í fjárlagafrumvarpinu verið gert ráð fyrir að framlag vegna sóknargjalda í Háskólasjóð verði ekki lengur lögboðið og að það lækki um 15 m.kr. við þá breytingu og verði í þess stað bein fjárveiting að fjárhæð 226 m.kr. Því til viðbótar er nú gert ráð fyrir að sú fjárveiting lækki um 118 m.kr. í tillögum um lækkun á útgjöldum menntamálaráðuneytins við aðra umræðu frumvarpsins.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að þak verði sett á hækkun búvörusamninga vegna ákvæða um tengingu framlaga við vísitölu neysluverðs. Verðhækkunin verði þannig óbreytt frá því sem reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu eða 5,7%. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs vegna þessa verði um 800 m.kr. lægri en ella á næsta ári.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á málefnum aldraðra og almannatryggingum varðandi aukin áhrif fjármagnstekna á lífeyristryggingar, auk þess sem frítekjumarki 70 ára og eldri er breytt til samræmis við frítekjumark annarra hópa. Samtals lækka þessar breytingar útgjöld ríkissjóðs um rúman 1 mia.kr. Einnig er gert ráð fyrir því í þessum hluta frumvarpsins að hækkun á bótum almannatrygginga um næstu áramót verði óbreytt frá forsendum fjárlagafrumvarpsins, eða 9,6%, fremur en að miðað verði við vísitölu neysluverðs. Er áætlað að þannig verði komið í veg fyrir um 5,9 mia. kr. aukningu útgjalda. Í tengslum við þá breytingu er á hinn bóginn flutt tillaga við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins um að sérstök viðbót á elli- og örorkulífeyri til þeirra sem engar aðrar greiðslur hafa hækki um 20% og verði 180 þús. kr. á mánuði. Talið er að það auki útgjöld ríkissjóðs um 2 mia. kr. á ári.
    Í fjórða lagi er í þessu frumvarpi lagt til að greiðslur vegna fæðingarorlofs verði að hámarki 400.000 kr. á mánuði. Hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði muni þannig miðast við meðalmánaðartekjur foreldris að fjárhæð 500.000 kr. en breytingin hefur ekki áhrif á greiðslur til þeirra sem hafa lægri laun. Gert er ráð fyrir að þessi breyting dragi úr aukningu útstreymis úr sjóðnum á næsta ári sem nemur um 400 m.kr.
    Í fimmta lagi er gerð tillaga um að fresta því að koma á fót sérstakri einingu um skattaumsýslu stórfyrirtækja og leiðir það til 40 m.kr. lækkunar útgjalda á næsta ári.
    Í sjötta lagi er í kafla um sjúkratryggingar lagt til að heimilað verði að taka upp sérstakt innritunargjald vegna innlagnar á sjúkrahús með ákveðnum undantekningum og afslætti fyrir tiltekna hópa. Sértekjur heilbrigðisstofnana af gjaldinu eru áætlaðar um 360 m.kr. á næsta ári.
    Í sjöunda lagi er lagt til að lög um ráðstöfun á söluandvirði Landsíma Ísland hf. verði felld niður þar sem gert er ráð fyrir að fresta ýmsum framkvæmdum sem kveðið er á um í lögunum. Sá framkvæmdakostnaður nemur um 700 m.kr. til viðbótar við aðrar framkvæmdir af þessum toga sem þegar hafði verið fallið frá í fjárlagafrumvarpinu.
    Loks er eins og áður segir áformað að greiðslur í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði auknar um 1 mia. kr. og að fasteignagjöld ríkissjóðs lækki ekki um 500 m.kr. eins og reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu sem fjármagnað verði með 0,25% hækkun tekjuskatts.
    Auk þessa eru lagðar til breytingar sem ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs frá því sem þegar hafði verið gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins 2009. Þar má nefna hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta og vaxtabóta og ákvæði um að ekki verði kveðið á um skuldajöfnun vaxtabóta og barnabóta á móti gjaldföllnum opinberum gjöldum.
    Eins og að framan greinir er áformað að aðgerðir í ríkisfjármálum bæti afkomu ríkissjóðs alls um 45 mia.kr. Af þeim aðgerðum sem felast í þessu frumvarpi er áætlað að tekjur ríkissjóðs aukist um 8,5 til 9 milljarða króna. Tillögur í frumvarpinu sem miða að breytingum á útgjaldahlið, bæði til lækkunar og hækkunar, ættu að samanlagt að draga úr eða koma í veg fyrir útgjaldaaukningu sem nemur 8,1 mia. kr., nettó. Verði frumvarpið óbreytt að lögum leiðir það þannig til þess að rekstrarhalli ríkissjóðs verði um það bil 16,5 til 17 mia. kr. minni en annars hefði orðið.