Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 247. máls.

Þskj. 364  —  247. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
og lögum nr. 97/1987, um vörugjald.


(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2008“ í ákvæði til bráðabirgða X og XI í lögunum kemur: 31. desember 2009.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2008“ í ákvæði til bráðabirgða VII, IX og X í lögunum kemur: 31. desember 2009.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.
3. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2008“ í ákvæði til bráðabirgða IX í lögunum kemur: 31. desember 2009.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að framlengdar verði um eitt ár þær tímabundnu undanþágur frá vörugjöldum og virðisaukaskatti sem gilda um tiltekin vistvæn ökutæki samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 97/1987, 29/1993 og 50/1988. Að óbreyttu renna umræddar undanþágur út í lok árs 2008.
    Nánar tiltekið er í umræddum ákvæðum um að ræða bifreiðar sem búnar eru vélum sem nýta rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu, ökutæki sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, bifreiðar sem búnar eru vélum og öðrum búnaði sem miðast við að bifreið nýti metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu og ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri og búnar eru aflvélum samkvæmt EUROIII- staðli Evrópusambandsins. Einnig eiga hér undir sérhæfðir varahlutir í vetnisbifreiðar sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni.
    Þar sem ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvernig staðið skuli að heildarskattlagningu ökutækja og eldsneytis, þ.m.t. vistvænna ökutækja, er með frumvarpi þessu lagt til að umræddar undanþágur frá vörugjöldum og virðisaukaskatti verði framlengdar um eitt ár.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
og lögum nr. 97/1987, um vörugjald.

    Í gildandi lögum nr. 97/1987, 29/1993 og 50/1988 eru tímabundnar heimildir til 31. desember 2008 til þess í fyrsta lagi að lækka vörugjald af svonefndum tvíorkubifreiðum sem knúnar eru með metangasi eða rafmagni að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu, í öðru lagi til lækkunar á endurgreiðslu 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu umhverfisvænna hópferðabifreiða. Í þriðja lagi til niðurfellingar vörugjalds af ökutækjum sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni og í fjórða lagi til niðurfellingar vörugjalds á sérhæfða varahluti í vetnisbifreiðar.
    Í frumvarpinu er lagt til að framangreindar heimildir verði framlengdar til 31. desember 2009. Ekki er gert ráð fyrir að framlenging á þessum heimildum hafi teljandi áhrif á tekjur eða gjöld ríkissjóðs.