Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 212. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 368  —  212. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneyti, Guðmund Guðbjarnason frá ríkisskattstjóra, Hannes G. Sigurðsson og Sigurð Pál Hauksson frá Samtökum atvinnulífsins, Arnar Sigurmundsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva og Árna Gunnarsson og Grím Sæmundsen frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Félagi löggiltra endurskoðenda, PriceWaterhouseCoopers hf., Alþýðusambandi Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Samorku, Samtökum iðnaðarins, Kauphöll Íslands, Samtökum fjárfesta og frá Samtökum atvinnulífsins, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva sameiginlega.
    Frumvarpi þessu er, í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, ætlað að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja vegna efnahagsástandsins. Er lagt til að fyrirtæki sem að öðru leyti uppfylla skilyrði laganna verði gefinn kostur á að sækja um heimild ársreikningaskrár til að gera upp ársreikninga sína í erlendri mynt fyrir árin 2008 og 2009.
    Í umsögnum sem nefndinni hafa borist hefur verið undirstrikuð þörfin á að láta heimild frumvarpsins vara lengur en til 15. desember 2008 og leggur nefndin til að því verði breytt í 30. desember.
    Fulltrúar atvinnulífsins sem komu á fund nefndarinnar lögðu til að skilyrði 3. tölul. 8. gr. laga um ársreikninga fyrir heimild til færslu bókhalds og samningar ársreikninga í erlendri mynt yrðu rýmkuð. Það væri til þess fallið að færa framkvæmd ársreikningaskrár til meira samræmis við alþjóðlega reikningsskilastaðla og auka möguleika fyrirtækja til að færa ársreikninga til uppgjörs í erlendri mynt, t.d. orkufyrirtækja og fyrirtækja í ferðaþjónustunni. Að óbreyttu mundu það einkum vera sjávarútvegsfyrirtæki sem gætu nýtt sér heimild frumvarpsins.
    Af hálfu fjármálaráðuneytis kom fram sá skilningur að umrætt skilyrði laga um ársreikninga væri í framkvæmd álitið efnislega samhljóða þeim alþjóðlegu reikningsskilastöðlum sem um það fjölluðu. Enn fremur færi betur á að athugasemdir atvinnulífsins kæmu til skoðunar í tengslum við annað frumvarp sem varðar breytingar á lögum um ársreikninga og fjármálaráðherra hefur lagt fram (þskj. 362, 245. mál).
    Nefndin fellst á sjónarmið ráðuneytisins og bendir á að frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er skammtímaráðstöfun gerð í ljósi sérstakra aðstæðna sem felur í sér frávik frá 9. gr. laga um ársreikninga. Er um að ræða afturvirka en ívilnandi breytingu.
    Nefndin bendir hins vegar á að mörg fyrirtæki sem gera upp í íslenskri mynt en hafa meginhluta bæði skulda og tekna í erlendri mynt, og jafnvel einnig hluta gjalda, sýna á pappírnum mikið tap vegna stórkostlegrar veikingar krónunnar undanfarið vegna þess að skuldir þeirra hækka strax á árinu og mynda mikið gengistap en tekjurnar, sem hækka munu næstu árin af sömu ástæðu og eiga að standa undir skuldunum, valda ekki samsvarandi hagnaði í bókhaldinu nema í nokkra mánuði. Ef litið er á rekstur slíkra fyrirtækja frá sjónarhorni erlendrar myntar hefur í raun ekkert breyst, hvorki skuldir né tekjur, en innlendur kostnaður hefur lækkað. Staða slíkra fyrirtækja hefur því styrkst, ef eitthvað er, vegna gengisfalls krónunnar en bókhald í íslenskum krónum sýnir miklu verri stöðu þeirra, sem ekki er rétt. Þetta á við um mörg sjávarútvegsfyrirtæki, fyrirtæki í ferðaþjónustu og iðnfyrirtæki í útflutningi, t.d. álfyrirtæki. Mikilvægt er að fyrirtæki sýni ekki slæma bókhaldslega stöðu að ósekju sem getur skaðað þau mjög mikið gagnvart erlendum lánveitendum.
    Með hliðsjón af framansögðu ítrekar nefndin það sem fram hefur komið á fundum hennar að í núverandi efnahagsástandi gefi uppgjör í íslenskri mynt ekki glögga mynd af raunverulegri stöðu margra fyrirtækja og að huga verði að breytingum á skilyrðum 8. gr. ársreikningalaga. Enn fremur að ekki eigi að túlka umrædda lagagrein þrengra en alþjóðlegir reikningsskilastaðlar gefa tilefni til.
    Loks leggur nefndin til að 2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins falli brott þar sem ákvæðið virðist ekki hafa sjálfstæða þýðingu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 1. gr.
     a.      Dagsetningin „15. desember 2008“ í 1. efnismgr. verði: 30. desember 2008.
     b.      Síðari efnismálsgrein falli brott.

    Gunnar Svavarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og styður álitið með fyrirvara.

Alþingi, 16. des. 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson.



Bjarni Benediktsson.


Birkir J. Jónsson.


Lúðvík Bergvinsson.



Katrín Jakobsdóttir.


Kjartan Ólafsson.