Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 386  —  152. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Loga Kjartansson frá umhverfisráðuneyti, Kristin Einarsson, Þórarin Svein Arnarsson og Lárus Ólafsson frá Orkustofnun, Guðjón Bragason og Jönu Friðfinnsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitafélaga, Sigurð B. Halldórsson frá Samtökum iðnaðarins, Stefán Thors og Þorvald Þorsteinsson frá Skipulagsstofnun.
    Umsagnir bárust frá Byggðastofnun, Brunamálastofnun, Bændasamtökum Íslands, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Hafrannsóknastofnuninni, Landhelgisgæslu Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Siglingastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun, auk þess bárust minnisblöð frá iðnaðarráðuneytinu.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem heyra undir iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti vegna kolvetnisstarfsemi.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, þess efnis að skerpt verði á skilyrðum varðandi útgáfu leyfa og að svæðisgjöld verði lækkuð, sem og leyfisgjöld fyrir rannsóknarleyfi. Á móti verði tekið upp sérstakt umsóknargjald sem leggist á alla umsækjendur. Þá er gert ráð fyrir að ríkið geti stofnað hlutafélag um þátttöku í vinnslu kolvetnis.
    Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á skipulags- og byggingarlögum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og lögum um brunavarnir. Með breytingunum er ætlunin að setja skýrari lagaumgjörð um skipulags-, mengunarvarna- og öryggismál í tengslum við rannsóknir, leit og vinnslu kolvetnis á hafsvæðunum umhverfis Ísland. Hlutverk Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Brunamálastofnunar er víkkað út þannig að þau taki einnig til starfsemi við rannsóknir, leit og vinnslu kolvetnis innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka Íslands. Lagt er til að Skipulagsstofnun ákvarði um matsskyldu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, annist gerð og framkvæmd skipulagsáætlana, veiti framkvæmdaleyfi og hafi eftirlit með leyfisskyldri starfsemi. Umhverfisstofnun veiti starfsleyfi og hafi eftirlit með starfsemi sem getur haft í för með sér mengun í hafi eða á hafsbotni. Brunamálastofnun annist eldvarnaeftirlit, staðfesti öryggismat vegna mannvirkja á svæðinu og endurskoði það mat reglulega.
    Nefndinni bárust nokkrar athugasemdir við frumvarpið þó að umsagnaraðilar væru flestir jákvæðir gagnvart starfseminni sjálfri. Töluverð umræða skapaðist í nefndinni um skipulagslögsögu sveitarfélaga á strandsvæðum og komu fram athugasemdir um að aðkoma þeirra væri ekki nægilega tryggð í þeim tilfellum sem kolvetnisstarfsemi kæmi nær ströndum. Það skipti sveitarfélög og íbúa þeirra miklu hvaða starfsemi væri leyfð við stönd eða á fjörðum í sveitarfélögum og því væri nauðsynlegt að tryggja þátttöku þeirra í ákvörðunum um það. Fellst nefndin á þau sjónarmið og leggur til breytingu á frumvarpinu til að tryggja umsagnarétt viðeigandi sveitarfélags komi til þess að sótt verði um leyfi á svæði sem er innan 1 sjómílu utan netlaga. Meiri hlutinn tekur jafnframt undir það sem kemur fram í umsögnum Fjórðungssambands Vestfjarða og Sambands íslenskra sveitarfélaga um mikilvægi þess að ljúka vinnu við að skilgreina lögsögu sveitarfélaga til hafsins, eins og lagt var upp með árið 2002 en ekki lokið við. Þá skapaðist mikil umræða um skipulagsþátt málsins sem nokkuð var gagnrýndur. Eftir yfirferð nefndarinnar leggur meiri hlutinn til þónokkrar viðbætur og breytingar á frumvarpinu.
    Í fyrsta leggur meiri hlutinn til að kveðið verði á um að Orkustofnun skuli leita umsagnar hjá viðeigandi sveitafélagi komi til þess að sótt verði um leyfi á svæði sem er innan 1 sjómílu utan netlaga. Með breytingartillögunni er verið að koma til móts við athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðkomu sveitarfélaga að ákvörðun um leyfi á svæðum sem liggja nærri landi. Sambærilega breytingartillögu er að finna varðandi afgreiðslu rannsóknar- og vinnsluleyfa.
    Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til breytingar sem fjalla um nánari útfærslu á skilyrðum varðandi skipulag leyfishafa og starfsemi hans hér á landi. Annars vegar er lagt til að kveðið verði á um að leyfishafi skuli hafa skipulag sem tryggir sjálfstæða stjórnun og umsjón framkvæmda frá Íslandi á öllum þáttum tengdum kolvetnisstarfsemi sinni hér á landi. Í þessu felst að öll umsýsla og þjónusta við leyfishafa, rekstur og áhafnaskipti fari fram á Íslandi. Í þessum tilgangi verði Orkustofnun heimilt að setja sérstök skilyrði er lúta að skipulagi og eiginfjárgrunni leyfishafa. Slík regla mundi skapa skilyrði til uppbyggingar á þekkingu og iðnaði og efla þannig atvinnulíf í byggðum á þeim svæðum þar sem þjónustan yrði veitt. Hins vegar er lagt til að kveðið verði á um að kolvetnisstarfsemi og tengd starfsemi skuli rekin frá stöð á Íslandi. Breytingartillagan byggist á norskri fyrirmynd og tilgangurinn er að tryggja starfsemi hér á landi með öryggissjónarmið í huga.
    Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til að lögfest verði að sá sem hlýtur rannsóknar- og vinnsluleyfi skuli á gildistíma leyfisins greiða árlegt framlag til sérstaks menntunar- og rannsóknarsjóðs. Þá er lagt til að í rannsóknar- og vinnsluleyfum skuli nánar kveðið á um stofnframlag og árlegt gjald í framangreindan sjóð. Ráðherra er heimilað að setja í reglugerð nánari ákvæði sem lúta að markmiði og hlutverki sjóðsins. Kveðið er á um að sjóðurinn skuli skipaður fulltrúum leyfishafa auk fulltrúa ríkisins sem iðnaðarráðherra skipar og skal hann hafa neitunarvald ef ákvarðanir stjórnar eru ekki í samræmi við hlutverk og markmið sjóðsins. Færeyingar hafa sett sambærilegan sjóð á fót í tengslum við kolvetnisstarfsemi þar í landi og hefur hann gefið mjög góða raun. Með honum er unnt að auka menntun og þekkingu á málum tengdum kolvetnisstarfsemi hér á landi.
    Í fjórða lagi leggur meiri hlutinn til að í rannsóknar- og vinnsluleyfi skuli kveðið á um stofnframlag, sem og árlegt gjald leyfishafa rannsóknar- og vinnsluleyfis í menntunar- og rannsóknarsjóð. Í fimmta lagi leggur meiri hlutinn til að Orkustofnun skuli starfrækja og leiða starf samráðshóps eftirlitsaðila vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis við Ísland. Starfshópi þessum hefur nú þegar verið komið á fót en í honum eiga sæti fulltrúar Brunamálastofnunar, Flugmálastjórnar Íslands, Geislavarna ríkisins, Hafrannsóknastofnunarinnar, Landhelgisgæslu Íslands, Orkustofnunar, Siglingastofnunar Íslands, Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Vinnueftirlits ríkisins. Þessu til viðbótar er lagt til að Náttúrufræðistofnun Íslands verði veitt aðild að starfshópnum. Er það í samræmi við umsögn meiri hluta umhverfisnefndar Alþingis sem bendir á hið lögbundna hlutverk Náttúrufræðistofnunar sem sé m.a. að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja. Þá starfar Náttúrufræðistofnun í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnunina að skráningu og gerð gagnagrunns um botndýr á Íslandsmiðum.
     Í sjötta lagi leggur meiri hlutinn til að í bráðabirgðaákvæði við lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis verði kveðið á um að iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti skuli fyrir 1. janúar 2010 hafa lokið skoðun á því hvort þörf sé breytinga á ákvæðum 14.–18. gr. þeirra laga og ákvæðum skipulags- og byggingarlaga varðandi efni, gerð og málsmeðferð skipulagsáætlana og leyfisveitinga vegna einstakra framkvæmda á grundvelli leyfa til rannsóknar og vinnslu kolvetnis útgefnum af Orkustofnun. Breytingin tengist athugasemdum Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um fyrirkomulag leyfisveitinga og því að lagt er til að felld verði brott ákvæði frumvarpsins er varða breytingar á skipulags- og byggingarlögum.
    Í sjöunda lagi leggur meiri hlutinn til að felldar verði brott þær greinar frumvarpsins sem fjalla um breytingar á skipulags- og byggingarlögum. Í umsögnum sem bárust nefndinni komu fram athugasemdir frá Skipulagsstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins við að víkka út gildissvið laganna með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Í ljósi þessara athugasemda og ákvæða kolvetnislaga um afgreiðslu Orkustofnunar á rannsóknar- og vinnsluleyfum og samþykkis stofnunarinnar fyrir einstökum framkvæmdum þótti rétt að þessi þáttur málsins yrði skoðaður nánar. Í þessu sambandi var sérstaklega haft í huga að samkvæmt gildandi lögum ber Orkustofnun að leita umsagna umhverfisráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis áður en veitt er rannsóknar- og vinnsluleyfi eða leyfi fyrir einstökum framkvæmdum. Þá var horft til þess að lögfestur hefur verið samráðshópur eftirlitsaðila þar sem allar stofnanir sem eftirliti eiga að sinna hafa sinn fulltrúa, þar á meðal Orkustofnun og Skipulagsstofnun. Samkvæmt tillögu að nýju bráðabirgðaákvæði ber iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti að skoða þennan þátt betur.
    Í áttunda lagi leggur meiri hlutinn til þess að orðið „leit“ verði fellt brott úr greinum frumvarpsins. Gera verður greinarmun á leit að kolvetni annars vegar og rannsóknum og vinnslu hins vegar. Leit er, eins og fram kemur í lögunum, bundin við rannsóknir sem ekki eru líklegar til að hafa í för með sér röskun, en framkvæmdir tengdar rannsóknum og vinnslu hafa í för með sér röskun. Því er eðlilegt að miða við rannsóknir og vinnslu en ekki leit þegar verið er að fjalla um breytingar á umhverfislöggjöf.
    Í níunda lagi leggur meiri hlutinn að 19. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að nýtt ákvæði verði 6. gr. a en ekki 6. gr. b svo sem lagt er til í frumvarpinu.
     Þá leggur meiri hlutinn til að 20. gr. frumvarpsins falli brott. Greinin fjallar um heimild Umhverfisstofnunar til gjaldtöku vegna leyfisveitinga og eftirlits. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur m.a. fram að með því að fela stofnuninni útgáfu starfsleyfa nái ákvæði 21. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir til þessa en ákvæðið fjallar um gjaldtöku vegna þjónustu stofnunarinnar. Óþarft sé að kveða á um sérstaka gjaldtökuheimild vegna leyfisveitinga og eftirlits með kolvetnisstarfsemi fyrst almenn ákvæði laganna um gjaldtöku nái til leyfisveitinga og eftirlits með kolvetnisstarfsemi.
     Þá leggur meiri hlutinn til að gerðar verði tvær breytingar á fylgiskjölum við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Annar vegar er lagt til að fylgiskjali I, sem hefur að geyma lista yfir atvinnurekstur sem Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir, verði breytt þannig að rannsóknir og vinnsla kolvetnis séu talin upp í fylgiskjalinu í samræmi við það sem lagt er til í 19. gr. frumvarpsins. Hins vegar er lagt til að fylgiskjali II, sem hefur að geyma lista yfir starfsemi sem færa skal grænt bókhald, verði breytt þannig að kolvetnisvinnsla komi fram í upptalningunni.
    Meiri hlutinn telur leggur til að 23. gr. frumvarpsins verði breytt, en greinin varðar breytingu á skilgreiningu laga um varnir gegn mengun hafs og stranda á hugtakinu losun þegar úrgangsefni eða önnur efni, sem beinlínis stafa frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni, berast í hafið. Að ábendingu Umhverfisstofnunar og umsögn umhverfisnefndar er talið réttara að við b-lið 7. tölul. 3. gr. laganna bætist orðin: ,,nema um sé að ræða mengandi efni frá kolvetnisvinnslu eða boranir tengdar henni“. Með þessu er ætlunin að skýra nánar hvað átt er við með losun en ljóst er að hluti þeirra jarðefna sem stafa frá rannsóknum eða nýtingu teljast ekki losun. Meiri hlutinn vísar til þess að í 25. gr. frumvarpsins er lagt til að gildissvið laga um brunavarnir verði víkkað út þannig að það nái til starfsemi og framkvæmda utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis. Í athugasemd Sambands íslenskra sveitarfélaga var gerð athugasemd við að gildissvið laganna væri víkkað út með þessum hætti þar sem ljóst væri að flest ákvæði laganna ættu ekki við um þessa starfsemi og slíkt gæti valdið misskilningi. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn til þess að í 25. gr. frumvarpsins verði kveðið á um að gildissvið laga um brunavarnir verði látið halda sér nema sérstaklega sé kveðið á um annað í lögunum.
    Í 26. og 27. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði sem eingöngu munu ná til rannsókna og vinnslu kolvetnis utan netlaga. Að lokum leggur meiri hlutinn til að í lögum um brunavarnir komi í stað orðsins efnahagslögsaga orðið mengunarlögsaga í samræmi við þá hugtakanotkun sem nú þegar er í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Grétar Mar Jónsson skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 18. des. 2008.
Katrín Júlíusdóttir,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Einar Már Sigurðarson.Eygló Harðardóttir.


Herdís Þórðardóttir.


Rósa Guðbjartsdóttir.Björk Guðjónsdóttir.


Grétar Mar Jónsson,


með fyrirvara.
Fylgiskjal I.


Umsögn frá meiri hluta umhverfisnefndar.    Umhverfisnefnd hefur borist erindi frá iðnaðarnefnd þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um þá þætti sem snúa að málefnasviði hennar í 152. máli, frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi. Nefndin hefur fjallað um þann hluta málsins sem varðar breytingu á löggjöf umhverfisráðuneytis, sbr. 2. þátt frumvarpsins.
    Nefndin fékk á sinn fund Loga Kjartansson frá umhverfisráðuneyti, Kristínu Lindu Árnadóttur og Kristján Geirsson frá Umhverfisstofnun, Stefán Thors og Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá Skipulagsstofnun, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Elísabetu Pálmadóttur frá Brunamálastofnun, Lárus Ólafsson frá Orkustofnun, Helga Jóhannesson og Gísla Viggósson frá Siglingamálastofnun og Björgólf Thorsteinsson og Berg Sigurðsson frá Landvernd.
    Þeim hluta frumvarpsins sem snýr að málefnasviði umhverfisnefndar er ætlað að setja lagaumgjörð um skipulagsmál, mengunarvarnamál og öryggismál í tengslum við rannsóknir, leit og vinnslu kolvetnis á hafsvæðunum umhverfis Ísland. Lagðar eru til breytingar sem miða að því að víkka út hlutverk Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Brunamálastofnunar þannig að það nái einnig til starfsemi við rannsóknir, leit og vinnslu kolvetnis innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka Íslands. Samkvæmt frumvarpinu eru lagðar til breytingar á alls fimm lögum sem heyra undir umhverfisráðuneytið og snýr því meiri hluti efnisatriða frumvarpsins að málefnasviði nefndarinnar. Lagabreytingarnar fela einna helst í sér útfærslu á gildissviði skipulagsvaldsins sem og reglum um leyfisveitingar, mengunar- og öryggismál.
    Meiri hluti nefndarinnar vekur athygli iðnaðarnefndar á því að skipulagsþátturinn er ekki leystur með fullnægjandi hætti í frumvarpinu og áréttar að þetta atriði þurfi að laga.
    Frumvarpið leggur þá skyldu á Skipulagsstofnun að leita umsagnar ýmissa stofnana við skipulagsgerð og veitingu framkvæmdarleyfis eða byggingarleyfis, þó er ekki gert ráð fyrir að leitað sé umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Líklegt verður að telja að vegna samstarfs stofnunarinnar við Hafrannsóknastofnunina við skráningu og gerð gagnagrunns um botndýr á Íslandsmiðum hafi verið talið nægilegt að sú síðarnefnda væri umsagnaraðili. Þar sem lögbundið hlutverk Náttúrufræðistofnunar er m.a. að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna verður þó ekki annað séð en að um yfirsjón sé að ræða. Meiri hlutinn leggur því til að Náttúrufræðistofnun verði bætt við sem umsagnaraðila í sambærilegum ákvæðum 13., 15. og 16. gr. eftir breytingu.
    Kveðið er á um það í b-lið 7. tölul. 3. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, að þegar efni sem beinlínis stafa frá rannsóknum eða nýtingu jarðefna í eða á hafsbotni berast í hafið sé ekki um að ræða losun eins og hugtakið er skilgreint í lögunum. 23. gr. frumvarpsins er ætlað að breyta hugtakinu þannig að það taki einnig til losunar mengandi efna vegna kolvetnisstarfsemi, án þess þó að b-liður greinarinnar sé felldur brott. Við það verður ósamræmi í lagatextanum. Ekki þykir þó fært að fella liðinn brott enda ákvæðið þá orðið opnara en ætlað var. Leggur meiri hlutinn því til að málsliðurinn verði færður undir b-lið greinarinnar þannig að ekki sé um að ræða losun nema þegar mengandi efni losna í hafið vegna starfsemi eða framkvæmda við rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Telur nefndin að með þessu sé sem minnst hróflað við skilgreiningunni en að tilgangur breytingarinnar nái þó fram að ganga.
    Katrín Júlíusdóttir skrifar undir umsögnina með fyrirvara vegna formennsku í iðnaðarnefnd.
     Illugi Gunnarsson, Árni Þór Sigurðsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir og Kristinn H. Gunnarsson áheyrnarfulltrúi voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 16. des. 2008.Helgi Hjörvar, form.,
Kjartan Ólafsson,
Ólöf Nordal,
Katrín Júlíusdóttir, með fyrirvara,
Eygló Harðardóttir.

    
    
Fylgiskjal II.


Umsögn frá minni hluta umhverfisnefndar.


    
    Umhverfisnefnd hefur borist erindi frá iðnaðarnefnd þar sem óskað er umsagnar nefndarinnar um þá þætti sem snúa að málefnasviði hennar í 152. máli, frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi. Nefndin hefur fjallað um þann hluta málsins sem varðar breytingu á löggjöf umhverfisráðuneytis, sbr. 2. þátt frumvarpsins.
    Það er meginsjónarmið minni hluta nefndarinnar að hér sé á ferðinni ófullburða frumvarp sem þarfnist frekari vinnu og umfjöllunar, jafnt í stofnunum umhverfisráðuneytisins sem á Alþingi, auk þess sem það er stefnumarkandi um afstöðu íslenskra stjórnvalda til orku- og umhverfismála almennt. Þá er það umhugsunarefni að mál þetta skuli vera á forræði iðnaðarnefndar þar sem fimm af þeim sex lögum sem frumvarpið breytir eru á málasviði umhverfisnefndar og þær stofnanir sem þurfa að taka á sig auknar skyldur vegna frumvarpsins heyra flestar undir umhverfisráðherra.
    Ef auðlindanýting á að lúta meginreglum umhverfisréttar og lögmálum sjálfbærrar þróunar er skynsamlegast að koma áætlunum um rannsóknir og nýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar fyrir í umhverfis- og auðlindaráðuneyti, þannig eru mestar líkur á að verndar- og nýtingarsjónarmið verði jafnrétthá við ákvarðanatöku. Slík skipan mála væri í samræmi við framsýna stefnumörkun, sem endurspeglaði gjörbreytta sýn á umhverfismál 21. aldarinnar.
    Ríksstjórnin gaf óljós fyrirheit um að Ísland ætti vera í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum í stefnuyfirlýsingu sinni fyrir einu og hálfu ári. Lagabandormur þessi um kolvetnisstarfsemi gengur hins vegar gegn þeim áformum. Það liggur ekki beint við að Ísland leggi út á þær brautir að bora eftir olíu í Norður-Íshafinu. Sé það ásetningur ríkisstjórnarinnar að hefja olíuvinnslu í efnahagslögsögu Íslands, á eigin vegum eða annarra, kallar það á vandaðri umfjöllun en þá sem frumvarp þetta hefur fengið í nefndum þingsins.
    Hugmyndirnar sem liggja að baki frumvarpi þessu eru illa ígrundaðar. Fjárhaglegi þátturinn er óljós og ekki gert ráð fyrir framlögum í fjárlagafrumvarpi 2009. Þótt skýrsla iðnaðarráðuneytisins frá mars 2007 hafi að geyma ýmsan fróðleik um möguleika þess að gas eða olíu sé að finna á Drekasvæðinu við Jan Mayen-hrygg hefur umræða um skýrsluna verið af skornum skammti. Einnig er rétt að geta þess að skoðanir hafa verið skiptar um þau lagafrumvörp er varða kolvetnisstarfsemi og rædd hafa verið á Alþingi, en þetta frumvarp er hið þriðja sem lagt er fram á þessu málasviði (kolvetnisstarfsemi) síðan árið 2000.
    Það er mat minni hlutans að best fari á því að afgreiðslu frumvarps þessa verði frestað fram á næsta ár svo að betra tóm gefist til að fara ofan í saumana á því og leiðrétta umtalsverða annmarka. Það er ekki nokkur von til þess að á þeim þremur dögum sem gert er ráð fyrir að eftir séu af þinghaldi fyrir jólahlé geti iðnaðarnefnd lagfært þá alvarlegu ágalla er lúta að skipulagsþætti frumvarpsins, og segja má að það sé alls ekki á verksviði iðnaðarnefndar að vinna tillögur þar um þar sem skipulagsmál eru á verksviði umhverfisnefndar. Það er líka ámælisvert að Skipulagsstofnun skuli ekki hafa komið að málinu með nokkrum hætti fyrr en 3. desember þegar hún í tölvupósti var beðin að gefa umsögn um frumvarpið og gert að skila henni örfáum dögum síðar. Vinnubrögð af þessu tagi eru Alþingi ekki til sóma.
    

16. des. 2008.Kolbrún Halldórsdóttir.