Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 243. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 404  —  243. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Halldór Árnason frá forsætisráðuneyti, Maríönnu Jónasdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneyti og Markús Möller frá Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem ætlað er að draga úr hallarekstri ríkissjóðs vegna efnahagsástandsins. Taka þær breytingar mið af fjárlagavinnu fyrir næsta ár og efnahagsáætlun þeirri sem liggur henni til grundvallar og unnin var í samstarfi ríkisstjórnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
    Frumvarpið greinist í ellefu kafla, að meðtöldum kafla um gildistöku, og hefur nefndin á þeim stutta tíma sem hún hefur haft málið til umfjöllunar vísað einstökum köflum til umsagnar annarra fastanefnda þingsins í samræmi við málefnasvið þeirra. Þannig ákvað nefndin að vísa I. kafla frumvarpsins til allsherjarnefndar, II. og IV. kafla til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, III. kafla til samgöngunefndar, V., VI., og IX. kafla til félags- og tryggingamálanefndar og X. kafla til heilbrigðisnefndar. Allar nefndirnar hafa fjallað um málið og eru umsagnir þeirra birtar sem fylgiskjal með áliti þessu. Er þar að finna greinargóðar lýsingar á frumvarpsgreinum þeim sem þar eiga undir.
    Efnahags- og skattanefnd tók sjálf til umfjöllunar VII. og VIII. kafla. Í VII. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt og má þar af nefna þær sem varða hækkun tekjuskattsprósentu, hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta, vaxtabóta og loks skuldajafnaðarrétt hins opinbera vegna vaxtabóta og barnabóta.
    Efnahags- og skattanefnd hefur rætt um frumvarpið í heild sinni og kynnt sér helstu efnisþætti þess. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir frekari aukningu tekna ríkissjóðs með nokkrum hætti. Má þar helst nefna almenna hækkun á tekjuskatti um 1,25 prósentustig, eða úr 22,75%, í 24%. Markmið hækkunarinnar er tvíþætt, annars vegar að mæta versnandi afkomu ríkissjóðs og hins vegar að fjármagna sérstakt eins milljarðs króna framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir aukningu tekna sveitarfélaganna með því að heimila hækkun hámarksútsvars um 0,25 prósentustig, eða úr 13,03% í 13,28%. Einnig er gert ráð fyrir breytingum sem fela í sér þak á útgjöld ríkisins árið 2009 vegna búvörusamninga og eins lækkun hámarksgreiðslu úr fæðingarorlofssjóði úr 480.000 kr. í 400.000 kr. Enn fremur felst í frumvarpinu breyting á lögum til fækkunar héraðsdýralækna í Þingeyjarumdæmi úr tveimur í einn. Þá er stofnun sérstakrar einingar um skattumsýslu stórfyrirtækja, samkvæmt lögum um tekjuskatt, frestað, auk þess sem felld eru úr gildi lög nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Að endingu felst í frumvarpinu breyting á lögum um sjúkratryggingar með upptöku sérstaks gjalds við innlögn á sjúkrahús með undantekningu vegna innlagnar við fæðingu.
    Sá hluti frumvarpsins sem felur í sér lagabreytingar til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í þágu heimilanna felst í því að fjárhæð sóknargjalda hækkar ekki milli ára eins og núgildandi lög um sóknargjöld gera ráð fyrir. Þá er lögð til hækkun á viðmiðunarfjárhæðum sjómannafsláttar, barnabóta og vaxtabóta frá 1. janúar 2009 og auk þess fallið frá skuldajöfnun vaxtabóta á móti gjaldföllnum afborgunum og vöxtum af lánum Íbúðalánasjóðs. Eins er fallið frá skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaganna. Einnig felast í frumvarpinu lagabreytingar sem snúa að auknum áhrifum fjármagnstekna á lífeyristryggingar, breytingar á frítekjumarki 70 ára og eldri til samræmis við aðra hópa og loks er afnumin heimild til nýtingar á reiknireglu um tekjutengingu maka við útreikning lífeyristrygginga.
    Nefndin ræddi áhrif frumvarpsins á tekjur lífeyrisþega og greiðslur almannatrygginga og að teknu tilliti til verðlagsþróunar.
    Nefndin ræddi almennt um vísitölubindingu þjónustusamninga sem ríkið hefur gert, t.d. við stéttir á heilbrigðissviði og með hliðsjón af ákvæðum frumvarpsins um búvörusamninga.
    Nefndin ræddi ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. og hvernig það sem óráðstafað væri hefði verið varðveitt.
    Efnahags- og skattanefnd ræddi umsagnir annarra fagnefnda. Vill meiri hluti nefndarinnar af því tilefni taka fram að í umsögn meiri hluti heilbrigðisnefndar kemur fram að tekjur heilbrigðisstofnana af innlagnargjaldi muni nema um 100 millj. kr. á ári, en ekki 360 millj. kr. eins og fjármálaráðuneyti gerði ráð fyrir. Þetta stafar af því að meginhluti teknanna kemur til vegna hækkana á núgildandi gjöldum en ekki hins nýja komugjalds. Þá er kostnaðarauki sjúklinga af þeim breytingum sem felast í frumvarpinu afar lítill í samhengi við heildarkostnað sjúklinga af heilbrigðisþjónustu. Þó telur meiri hluti heilbrigðisnefndar mikilvægt að í reglugerð verði tekið ríkt tillit til sjúklinga sem leggjast inn á sjúkrahús oft á ári hverju. Meiri hluti heilbrigðisnefndar bendir einnig á að með ákvæðum frumvarpsins fæst meira samræmi milli þess hvaða gjöld eru tekin fyrir innlögn annars vegar og fyrir göngu- og bráðadeildarþjónustu án innlagnar hins vegar.
    Í áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar er lögð áhersla á að gæta hagsmuna elli- og örorkulífeyrisþega og telur meiri hlutinn tillögur frumvarpsins miða að því að vernda hag þeirra sem hafa lægstar tekjur. Meiri hluti nefndarinnar tók einnig fæðingar- og foreldraorlofslöggjöfina til sérstakrar umræðu og lagði til að efnahags- og skattanefnd legði mat sitt á það sem fram kom hjá fulltrúa Vinnumálastofnunar og fæðingarorlofssjóðs um að tillögur um lækkun á hámarksgreiðslum mundu ekki skila nema um helmingi áætlaðrar kostnaðarlækkunar upp á 400 millj. kr. ef lögin tækju gildi 1. janúar 2009. Efnahags- og skattanefnd hafa síðan borist þær upplýsingar úr félags- og tryggingamálaráðuneyti að 300 millj. kr. muni sparast á árinu vegna lækkunarinnar og allt að 100 millj. kr. sparist að auki vegna almennrar lækkunar launa og af öðrum ástæðum.
    Meiri hlutinn tekur fram að í frumvarpinu er miðað við að ekki komi til skerðingar á hámarki greiðslna til foreldra í fæðingarorlofi hjá þeim foreldrum sem eignast hafa barn fyrir 1. janúar 2009 og eiga enn ónýttan orlofsrétt og telur meiri hlutinn að það samrýmist sjónarmiðum um bann við afturvirkni laga.
    Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Önnur varðar breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997. Er henni ætlað að veita Skipulagssjóði heimild til að standa að gerð gróður-, jarðfræði- og vistgerðarkorta sem eru nauðsynleg grunngögn í skipulagsvinnu í tengslum við verndun og nýtingu náttúru Íslands. Mikilvægt er að þau frumgögn séu til staðar svo og breytingar í tengslum við framkvæmdir verði ekki fyrir óþarfa töfum.
    Þá er lögð til breyting á 8. gr. frumvarpsins þess efnis að tekjuskattsprósenta hækki um 0,1 prósentustig og verði 24,1%.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      Við 8. gr. Í stað hlutfallstölunnar „24“ komi: 24,1.
     2.      Við bætist nýr kafli, er verði XI. kafli, með fyrirsögninni: Breyting á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með tveimur greinum, svohljóðandi:
                  a.      (18. gr.)
                  Við 28. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Skipulagssjóði er heimilt að standa fyrir gerð korta, svo sem gróður-, jarðfræði- og vistgerðarkorta. Sjóðurinn skal bera kostnað af slíkri kortagerð, sbr. 6. tölul. 34. gr.
         b.    (19. gr.)
                     Við 6. tölul. 34. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nýti Skipulagssjóður heimild til gerðar korta, sbr. 2. mgr. 28. gr., ber sjóðurinn þó þann kostnað að fullu.

Alþingi, 18. des. 2008.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Bjarni Benediktsson.Rósa Guðbjartsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.


Illugi Gunnarsson.Fylgiskjal I.


Umsögn meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur að beiðni efnahags- og skattanefndar fjallað um I. kafla frumvarpsins. Á fund nefndarinnar komu Þorvaldur Karl Helgason, Sigríður Dögg Geirsdóttir og Guðmundur Þór Guðmundsson frá Biskupsstofu.
    Markmið frumvarpsins er að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í tekjum ríkisins á næsta ári. Í I. kafla er gert ráð fyrir breytingu á lögum um sóknargjöld þannig að sú fjárhæð sem rennur af óskiptum tekjuskatti til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands verði 855 kr. á mánuði á hvern einstakling, 16 ára og eldri, í stað 872 kr. á yfirstandandi ári.
    Meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við frumvarpið þennan kafla frumvarpsins.

Alþingi, 17. des. 2008.

Birgir Ármannsson, form.,
Ágúst Ólafur Ágústsson,
Guðfinna S. Bjarnadóttir,
Ólöf Nordal,
Karl V. Matthíasson.

Fylgiskjal II.


Umsögn minni hluta allsherjarnefndar.


    Nefndin hefur að beiðni efnahags- og skattanefndar fjallað um I. kafla frumvarpsins. Á fund nefndarinnar komu Þorvaldur Karl Helgason, Sigríður Dögg Geirsdóttir og Guðmundur Þór Guðmundsson frá Biskupsstofu.
    Með frumvarpinu er framlag til kirkjunnar skert um 300 millj. kr. og framlagið tekið frá kirkjunni og látið renna til ríkissjóðs í staðinn. Gestir undirstrikuðu að afleiðingin verður sú að þjónusta sóknanna skerðist jafnframt því sem þjónustuþörfin eykst vegna hruns bankakerfisins og áfalla sem því tengjast. Töldu hagsmunaaðilar að vegna þessarar skerðingar þyrfti að segja upp starfsmönnum sókna, fresta viðhaldi og stöðva nýframkvæmdir. Fram kom að 2/3 hlutar kirkna í landinu, eða um 205 kirkjur, eru friðaðir, en vegna þess er viðhald þeirra kostnaðarsamara en ella. Afleiðing frumvarpsins er því þjónustuskerðing sókna ásamt því sem dregið er verulega úr mannaflafreku viðhaldi og nýframkvæmdum.
    Minni hlutinn styður ekki frumvarpið.

Alþingi, 17. des. 2008.

Siv Friðleifsdóttir,
Jón Magnússon,
Atli Gíslason.Fylgiskjal III.


    

Umsögn 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Nefndin hefur að beiðni efnahags- og skattanefndar fjallað um II. kafla og IV. kafla frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og fengið á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson og Arndísi Steinþórsdóttur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Eirík Blöndal og Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands.
    Í II. kafla frumvarpsins er lögð til breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum á þann veg að sett verði þak á útgjöld ríkisins árið 2009 vegna búvörusamninga. Framlög samkvæmt samningunum taka mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Með frumvarpinu er lagt til að vísitölutengingin verði skert með þeim hætti að framlög ríkisins árið 2009 hækki ekki meir en áætlað var að þau mundu hækka þegar fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi til fjárlaga 2009 í byrjun október.
    Í IV. kafla frumvarpsins er lögð til sú breyting á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, með síðari breytingum, að héraðsdýralæknum í Þingeyjarumdæmi verði fækkað úr tveimur í einn.
    Meiri hlutinn ræddi þau áhrif sem lagabreyting þessi kann að hafa í för með sér fyrir bændur og telur hún að þrátt fyrir að aðgerðin hafi víðtæk áhrif sé hún liður í niðurskurði á útgjöldum ríkisins og nauðsynleg ráðstöfun í þeim niðurskurði í ríkisfjármálum sem orsakast af erfiðu ástandi í efnahagsmálum.
    Sú fjárhæð sem sett er fram í fjárlögum fyrir árið 2009 gerir ráð fyrir að hækkun frá áætluðu meðalverðlagi 2008 til áætlaðs meðalverðlags 2009 verði 5,7%. Í ljósi þess að nú er gert ráð fyrir að hækkun meðalverðlags milli ára verði allt að 15% er reiknað með að frumvarpið feli í sér allt að 800 millj. kr. sparnað á árs grundvelli. Þær tölur sem miðað er við í þessu frumvarpi eru þær sömu og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi 2009 þar sem gert er ráð fyrir 5.6% hækkun á meðalverði, en vísitölubundnum hækkunum samninganna vegna 2009 verði sleppt að öðru leyti.
    Fram komu sjónarmið um að breytingin gengi nærri mörgum bændum sem ættu margir hverjir í efiðleikum nú þegar. Nefndin leggur áherslu á að aðgerð þessi er liður í viðamiklum aðhaldsráðstöfunum sem ríkinu er nauðugt að ráðast í vegna þeirra miklu efnahagsáfalla sem yfir þjóðina hafa dunið. Í áliti Bændasamtakanna kemur fram að þeir mótmæli harðlega þessum skerðingum og vísa í framlagt lögfræðiálit þar að lútandi. En í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að breytingin er ekki talin stríða gegn eignaréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar jafnvel þótt gripið yrði tímabundið inn í gildandi samninga ríkis og bænda.
    Fram kom í máli fulltrúa ráðuneytisins að sparnaður skv. 5. gr. væri 8.10 millj. kr. Einnig kom fram að þessi breyting mundi ekki draga verulega úr þjónustu við bændur og eftirliti með dýraheilbrigði, en breytingin hefur þegar verið framkvæmd að nokkru leyti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 17. desember 2008.

Arnbjörg Sveinsdóttir, form.,
Helgi Hjörvar,
Karl V. Matthíasson.


Fylgiskjal IV.


    

Umsögn 2. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Minni hlutinn telur mikilvægt að fjalla um frumvarpið út frá hagsmunum bænda. Þær tillögur sem hér eru kynntar eru til þess fallnar að skerða greiðslur til bænda um allt að 800 millj. kr. á ársgrundvelli. Íslenskur landbúnaður hefur lengi átt erfitt uppdráttar og árið 2008 hefur reynst sérstaklega erfitt. Allur tilkostnaður hefur hækkað verulega, svo sem fóður, áburður og olía. Margir bændur, einkum þeir sem endurnýjað hafa bú sín og tækjakost á síðastliðnum árum, skulda mikið, bæði í verðtryggðum og gengistryggðum lánum, sem hafa hækkað langt umfram afurðaverð. Bændur eru almennt tekjulág starfsstétt. Í kjölfar efnahagshrunsins hefur íslenskur landbúnaður aldrei verið þjóðinni mikilvægari vegna fæðuöryggis og innlends matvælaiðnaðar. Bændur og innlendur matvælaiðnaður skiptir nú sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu, verðmæta- og nýsköpun. Auk þess er mikilvægt að standa vörð um sjálfbærni innlends landbúnaðar á þeim umbrotatímum sem nú eru. Minni hlutinn telur því fráleitt að þjarma enn frekar að landbúnaði og matvælaiðnaði á Íslandi með þeirri miklu skerðingu sem frumvarpið mælir fyrir um.
    Vekur minni hlutinn athygli á þeim sjónarmiðum sem samtök bænda hafa haldið fram og hefur stjórn Bændasamtaka Íslands ályktað sem svo að aðgerðir ríkisins sem hér eru til umfjöllunar séu klárt samningsrof, enda verði samningum þessum ekki breytt nema með samþykki beggja aðila þar sem búvörusamningar eru skuldbindandi fyrir ríkissjóð, þar á meðal um fjárhæðir og vísitölubindingar, og til þess fallnir að stofna greiðsluskyldu af hendi ríkisins, enda eru þeir gerðir á grundvelli skýrra ákvæða í búvörulögum. Þessi sjónarmið og fleiri koma einnig fram í lögfræðiáliti sem Bændasamtök Íslands hafa lagt fram um heimildir til að breyta búvörusamningum (sjá fylgiskjal). Þar er einnig tiltekið að greiðsluskyldu ríkisins samkvæmt samningunum verður ekki breytt með lækkun framlaga til þeirra á fjárlögum, auk þess sem talið er að ráða megi af ákvæðum samninganna að samþykki Bændasamtakanna sé nauðsynlegt til að hægt sé að endurskoða þá.
    Í ljósi framangreinds leggst minni hlutinn alfarið gegn þeim breytingatillögum sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Alþingi, 17. des. 2008.

Atli Gíslason,
Valgerður Sverrisdóttir.


Fskj. 1.

Bréf frá Bændasamtökum Íslands.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(16. des. 2008.)


Fskj. 2.

Minnisblað til Bændasamtakanna um htimild ríkisstjórnarainnar


til að breyta búvörusamningum.


(9. des. 2008.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Fylgiskjal V.


    

Umsögn meiri hluta heilbrigðisnefndar.    Nefndinni barst hinn 16. desember erindi frá efnahags- og skattanefnd þar sem óskað er álits nefndarinnar á þeim þáttum sem snúa að málefnasviði heilbrigðisnefndar í 234. máli, frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Nefndin fékk á sinn fund Unu Björk Ómarsdóttur og Vilborgu Þ. Hauksdóttur frá heilbrigðisráðuneytinu, Björn Zoëga og Önnu Lilju Gunnarsdóttur frá Landspítala. Auk þess komu á fund nefndarinnar Helga Jónsdóttir frá BSRB, Stefán Aðalsteinsson frá BHM, Gylfi Arnbjörnsson frá ASÍ og Guðmundur Magnússon og Guðríður Ólafsdóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Nefndin tók til umfjöllunar þá liði frumvarpsins sem snúa að málefnum heilbrigðisnefndar en í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, á þann hátt að heimilað verði að taka komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús. Er í frumvarpinu gert ráð fyrir upptöku gjalds fyrir innlögn á sjúkrahús sem skuli ná til kostnaðar við innritun og aðstöðu. Sérstaklega er til tekið að gjaldið skuli vera lægra fyrir aldraða, öryrkja og börn og einnig að ekkert gjald skuli tekið fyrir innlögn vegna fæðingar en það er í samræmi við ákvæði núgildandi laga um að ekki sé heimilt að taka gjald fyrir mæðra- og ungbarnavernd. Gjald þetta skuli innheimt einu sinni vegna hverrar innlagnar og að ekki verði um að ræða aðra gjaldtöku af inniliggjandi sjúklingi. Markmið breytinganna er meðal annars að auka samræmi í gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, en þegar er innheimt gjald vegna komu eða innritunar á m.a. göngudeildir, dagdeildir, rannsóknardeildir og bráðamóttökur sjúkrahúsa. Með þessari breytingu skapist meira jafnræði í gjaldtöku sem og betri nýting fjármuna innan heilbrigðiskerfisins.
    Ýmsum sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni í tengslum við tillögur þær sem fram eru settar í frumvarpi þessu. Þar kom m.a. fram að í núgildandi kerfi felist hvati til að notast við dýrari úrræði innan sjúkrahúsa í stað þess að fá þjónustu á göngu- eða bráðadeildum sjúkrahúsa, en hið fyrrnefnda er fjárhagslega hagstæðara fyrir sjúkling samkvæmt núgildandi reglum. Með breytingunni sem felst í frumvarpinu er komið á samræmi í gjaldtöku af innlögn annars vegar og þjónustu á göngu- eða bráðadeildum án innlagnar hins vegar og um leið sneitt hjá því að greiðsluþátttaka sjúklings hafi áhrif á ákvörðun um hvort sjúklingur verði lagður inn á sjúkrahús eður ei. Nefndin telur því rökrétt að meira jafnræði sé á milli gjalda hvort sem einstaklingur er lagður inn eða nýtir sér göngudeildir eða bráðadeildir sjúkrahúsa. Nefndin vonast því til að með þessu frumvarpi verði hægt að fækka enn frekar legudögum en það má þó aldrei gerast á kostnað gæða þjónustunnar.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að tekjur heilbrigðisstofnana af innlagnargjaldi þessu muni nema um 100 millj. kr. á ári. Komugjaldið vegna innlagnar á sjúkrahús mun því ekki skila 360 millj. kr. eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem meginhluti þeirra tekna sem þau ákvæði frumvarpsins er varða breytingar á lögum um sjúkratryggingar gera ráð fyrir mun koma til vegna hækkana á núgildandi gjöldum.
    Meiri hluti nefndarinnar minnir á að sjúklingar verða fyrir ýmsum kostnaði vegna þjónustu á sjúkrahúsum og er því langt í frá verið að brjóta blað í frumvarpinu þegar kemur að gjaldtöku af sjúklingum sem njóta sjúkrahúsþjónustu. Sé sá kostnaðarauki sem sjúklingar verða fyrir vegna frumvarpsins settur í samhengi við heildarkostnað sjúklinga af heilbrigðisþjónustu er ljóst að hann er afar lítill.
    Meiri hlutinn vill leggja áherslu á að í reglugerð ráðherra verði tekið ríkt tillit til þeirra sjúklinga sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús oft á ári.
    Þá hvetur meiri hluti nefndarinnar til þess að vinnu nefndar um gjaldtöku í heilbrigðisþjónustu verði hraðað eins og kostur er enda er nauðsynlegt að tekið verði tillit til heildarkostnaðar einstaklinga af heilbrigðisþjónustu.

Alþingi 17. des. 2008.

Ásta Möller, form.,
Ágúst Ólafur Ágústsson,
Árni Páll Árnason,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Birgir Ármannsson.Fylgiskjal VI.


Umsögn minni hluta heilbrigðisnefndar.    Að beiðni efnahags- og skattanefndar hefur heilbrigðisnefnd fjallað um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum eða þann hluta þess sem snertir málefnasvið nefndarinnar. Minni hluti nefndarinnar er andvígur þeim breytingum sem þar eru boðaðar á nýsettum lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og fela í sér upptöku sérstaks gjalds við innlögn á sjúkrahús sem hingað til hefur verið kostuð af sjúkratryggingum.
    Það er álit minni hlutans að breyting þessi komi ekki til með að skila hagræði eða jafnræði í heilbrigðisþjónustunni. Eins og frumvarpið er úr garði gert felur það í raun í sér opna heimild fyrir heilbrigðisráðherra til þess að leggja bæði ný gjöld á sjúklinga og hækka þau sem fyrir eru. Í greinargerð með frumvarpi þessu er í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis tekið fram að tekjur ríkissjóðs vegna upptöku innlagnargjalda á sjúkrahús séu áætlaðar um 360 millj. kr. á næsta ári.
    Á fundi nefndarinnar kom hins vegar fram að nýtt innlagnargjald mun líklegast verða að svipaðri fjárhæð og komugjöld sem nú eru innheimt á slysa- og bráðadeildum, eða um 4.000 kr. Þannig mun upptaka gjaldsins ekki skila nema um 110 millj. kr. á ársgrundvelli miðað við 32.000 innlagnir á ári. Það er því óútskýrt hvaðan viðbótartekjurnar, þ.e. um 250 millj. kr., muni koma en reikna má með því að það verði með hækkun á öðrum sjúklingasköttum. Minni hlutinn bendir á að til viðbótar við hið nýja innlagnargjald og aðrar hækkanir sem vænta má á gjöldum fyrir sérfræðiþjónustu var við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins boðuð viðbótarhækkun á lyfjum til sjúklinga sem nemur á milli 700 og 800 millj. kr. Er þar um að ræða hækkun um alls 320 millj. kr. vegna breyttrar greiðsluþátttöku ríkisins í lyfjum og 410 millj. kr. lækkun á þátttöku sjúkratrygginga í lyfjaútgjöldum með því að hækka lágmarksgjald sjúkratryggðra fyrir lyf.
    Fram kom hjá fulltrúum BSRB, Öryrkjabandalagsins og Alþýðusambandsins að samtökin hafi ályktað gegn frekari gjaldtöku á hendur sjúklingum. Fulltrúar Öryrkjabandalagsins töldu gjaldtökuna verulega íþyngjandi fyrir skjólstæðinga sína til viðbótar við launalækkun, atvinnumissi og annan niðurskurð í velferðarþjónustunni.
    Það er því mat minni hluta nefndarinnar að með þessari nýju gjaldtöku sé stigið varasamt skref og að mögulegt sé að ná þeim tekjum sem innlagnargjaldinu er ætlað að skapa með hagræðingu og endurskipulagningu innan sjúkrastofnananna enda virðist ljóst að gjaldið muni aðeins skila um 110 millj. kr. til ríkissjóðs á ársgrundvelli. Fyrirsjáanlegar virðast því vera ýmsar óútskýrðar og frjálsar hækkanir til þess að ná fram þeim 360 millj. kr. tekjum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Telur minni hluti umræddar breytingar á lögum um sjúkratryggingar óásættanlegar með vísan til þess sem hér kemur fram.

Alþingi 17. des. 2008.

Álfheiður Ingadóttir,
Þuríður Backman,
Eygló Harðadóttir.
Fylgiskjal VII.


Umsögn samgöngunefndar.    Nefndin hefur að beiðni efnahags- og skattanefndar fjallað um III. kafla frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Í III. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Með þessum breytingum er sveitarfélögum heimilað að hækka útsvar um 0,25 prósentustig eða úr 13,03% í 13,28%. Staða sveitarfélaga er misjöfn en telja verður líklegt að meiri hluti þeirra nýti sér þessa nýju heimild. Sveitarfélög ákveða fyrir 31. desember 2008 hver verður álagningarprósenta útsvars árið 2009. Áætlað er að þessi hækkun geti skilað sveitarfélögum allt að 2 milljörðum kr. í útsvarstekjur miðað við það að öll sveitarfélög landsins fullnýti heimildina. Með 4. gr. frumvarpsins er sveitarfélögum sem nú þegar hafa tekið ákvörðun um útsvar á grundvelli gildandi laga gefið svigrúm til að endurmeta þá ákvörðun með hliðsjón af frumvarpi þessu.
    Nefndin telur að frumvarpið geti styrkt rekstur sveitarfélaganna á næstu árum, að óbreyttu hefðu mörg sveitarfélög orðið fyrir mikilli tekjulækkun vegna hinna miklu umskipta sem orðið hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er brýnt verkefni að tryggja afkomu sveitarfélaganna til framtíðar.
    Nefndin vekur athygli á að aðgerðir þessar eru liður í viðamiklum aðhaldsráðstöfunum sem ríkinu er nauðugt að ráðast í vegna þeirra miklu efnahagsáfalla sem yfir þjóðina hafa dunið.
    Árni Þór Sigurðsson gerir fyrirvara varðandi 8. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að aukaframlagi í Jöfnunasjóð sveitarfélaga og skuldbindingum ríkisins til greiðslu fasteignagjalda sé mætt með 0,25 prósentustiga hækkun á tekjuskatti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    

Alþingi, 17. des. 2008.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, form.,
Ólöf Nordal,
Herdís Þórðardóttir,
Karl V. Matthíasson,
Árni Þór Sigurðsson, með fyrirvara,
Helga Sigrún Harðardóttir, með fyrirvara,
Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara.


Fylgiskjal VIII.


Umsögn meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.    Félags- og tryggingamálanefnd hefur borist erindi frá efnahags- og skattanefnd þar sem óskað er álits nefndarinnar á þeim þáttum sem snúa að málefnasviði hennar í 243. máli, frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Nefndin hefur tekið til umfjöllunar V., VI. og IX. kafla sem leggja til breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, og lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.
    Nefndin fékk á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Ágúst Þór Sigurðsson frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Sigurð P. Sigmundsson frá Vinnumálastofnun og fæðingarorlofssjóði, Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Ingólf Gíslason frá Jafnréttisstofu, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins, Helga Hjálmarsson og Borgþór S. Kjærnested frá Landsambandi eldri borgara, Margréti Margeirsdóttur og Sigurð Einarsson frá félagi eldri borgara, Guðmund Magnússon og Guðríði Ólafsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands og Rögnu Halldórsdóttur, Sigurð M. Grétarsson og Gunnar Þ. Andersen frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Frumvarpið fjallar um breytingar á ýmsum lögum til að draga verulega úr áætluðum halla á rekstri ríkissjóðs í kjölfar hruns íslensku bankanna.
    Í VI. kafla frumvarpsins er lagt til að hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði lækki úr 480 þús. kr. í 400 þús. kr.
    Í V. og IX. kafla er að finna tillögur til breytinga á lögum um almannatryggingar annars vegar og málefni aldraðra hins vegar sem gera munu að verkum að fjármagnstekjur umfram frítekjumark komi að fullu til skerðingar við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk og tekjutrygginga sem og við ákvörðun á dvalarkostnaði vistmanns. Með sama hætti er frítekjumarki atvinnutekna ellilífeyrisþega 70 ára og eldri og vistmanna breytt til samræmis við frítekjumark annarra hópa ellilífeyrisþega.
    Í IX. kafla er lagt til að 10. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar verði fellt brott. Með því að fella ákvæðið úr lögunum munu tekjur maka endanlega hætta að hafa áhrif á útreikning bóta lífeyristrygginga, sem er til mikillar einföldunar á lífeyristryggingakerfinu. Breytingin felur í sér afnám heimildar til að nýta reiknireglu sem tengdi við tekjur maka, þrátt fyrir að tekjutengingin sem slík hafi verið afnumin 1. apríl sl. Þá er lagt til að bætur almannatrygginga, sem og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr. almannatryggingalaga, hækki um 9,6% 1. janúar 2009. Þessar bætur áttu samkvæmt lögunum að hækka um áramótin samkvæmt neysluvísitölu sem er áætluð umtalsvert hærri. Þá mun lágmarksframfærslutrygging sem mælt er fyrir um í reglugerð, sem sett er á grundvelli laga um félagslega aðstoð, hækka um 20%, úr 150 þús. kr. í 180 þús. kr. á mánuði sem tryggir sérstaklega hag tekjulægstu bótaþeganna.
    Á fundi nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið og m.a. lýstu gestir almennri óánægju og áhyggjum yfir skerðingu lífeyrisgreiðslna og bóta og harmað var að vísitöluhækkun lífeyrisgreiðslna sem koma átti til framkvæmda um áramót verður lækkuð og miðað við 9,6%. Gestir áréttuðu mikilvægi þess að verja hag aldraðra og öryrkja í því ástandi sem skapast hefur.
    Fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins o.fl. töldu að ef ekki yrði sett frítekjumark á greiðslur úr lífeyrissjóði samhliða hækkun á lágmarksframfærslutryggingu mundu greiðslur úr lífeyrissjóðum skerða bætur krónu á móti krónu allt að 61.000 kr. og þannig draga úr vilja til á að greiða iðgjöld í lífeyrissjóði. Þeir töldu þetta stofna framtíð lífeyrissjóðakerfisins í hættu.
    Meiri hluti nefndarinnar tekur undir mikilvægi þess að gæta hagsmuna elli- og örorkulífeyrisþega og telur að í framangreindum tillögum sé gætt sérstaklega að hag þeirra sem lægstar tekjur hafa. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að verja lífeyrissjóðakerfið og áréttar að endurskoðun á almannatryggingakerfinu í heild verði hraðað og skoðaðar hugmyndir um frítekjumark á greiðslur úr lífeyrissjóði og reynt að koma í veg fyrir jaðarskerðingar í lífeyriskerfinu.
    Í umræðum í nefndinni kom fram að lög um fæðingar- og foreldraorlof hefðu sannað gildi sitt og mikilvægt að halda þeim grunnhugmyndum sem lögin byggjast á. Það var samdóma álit gesta að ef lækka verður útgjöld fæðingarorlofssjóðs væri það best gert með lækkun á hámarksgreiðslum eins og tillagan gerði ráð fyrir. Þær upplýsingar fengust frá fulltrúa Vinnumálastofnunar og fæðingarorlofssjóðs að ákvæði frumvarpsins um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof mundi ekki skila nema um helming áætlaðrar kostnaðarlækkunar upp á 400 m.kr. ef gildistími laganna verður frá 1. janúar 2009. Áætlun fjármálaráðuneytis og fulltrúa Vinnumálastofnunar ber því ekki saman. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ekki komi til skerðingar á hámarki greiðslna til forelda í fæðingarorlofi hjá þeim foreldrum sem eignast hafa barn fyrir 1. jan. 2009 og eiga enn ónýttan orlofsrétt. Meiri hlutinn bendir efnahags- og skattanefnd á þetta. Frá félags- og tryggingamálaráðuneyti fengust þær upplýsingar að reynt hafi verið að forðast afturvirkni laganna, en bent var á að lagalega væri mögulegt að breyta útfærslunni þannig að hámarkið mundi eiga við alla foreldra sem tækju fæðingarorlof eftir 1. janúar 2009 óháð því hvenær fæðingardagur barns væri. Meiri hlutinn áréttar þann skilning sinn að lækkun á hámarksgreiðslum úr sjóðnum sé tímabundin ráðstöfun sem gangi til baka um leið og aðstæður leyfa. Þá sé nauðsynlegt að tryggja að ekki sé vikið frá grundvallartilgangi löggjafarinnar.
    Meiri hlutinn fellst á að óhjákvæmilegt sé að grípa til aðgerða í þeirri stöðu sem upp er komin í fjármálum ríkisins og draga úr fyrirsjáanlegum halla á ríkissjóði. Meiri hlutinn telur að þess hafi verið gætt í tillögununum að ganga ekki of nærri velferðarkerfinu, sem nauðsynlegt er að standa vörð um. Með tillögunum tekst að standa vörð um megnið af þeim hækkunum og réttarbótum sem ákveðnar hafa verið á liðnum missirum. Meiri hlutinn leggst því ekki gegn tillögunum en áréttar mikilvægi þess að verja hagsmuni þeirra sem hafa lægstar tekjur og fagnar því að frumvarpið tryggi þetta, m.a. með því að hækka lágmarksframfærslutrygginguna.

Alþingi, 17. des. 2008.
Guðbjartur Hannesson, form.,
Jón Gunnarsson,
Kjartan Ólafsson,
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Arnbjörg Sveinsdóttir,
Árni Johnsen.Fylgiskjal IX.


Umsögn 1. minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.    Á fundum félags- og tryggingamálanefndar þar sem farið var yfir þau atriði frumvarps um sérstakar ráðstafanir í ríkisfjármálum sem að verksviði nefndarinnar snúa með gestum, kom fram hörð gagnrýni á niðurskurð til almannatrygginga, bæði niðurskurðinn sem slíkan, en þó ekki síður útfærslu hans. Sérstaklega var varað við þeim neikvæðu afleiðingum sem af þessu hlytust fyrir lífeyrissjóðakerfið með stórauknum jaðaráhrifum og skerðingu greiðslna krónu fyrir krónu.
    Fyrsti minni hluti telur þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi almannatryggingakerfið vanhugsaðar og illa útfærðar og leggst gegn afgreiðslu þeirra. Ekki er hins vegar lagst gegn breytingum á fyrirkomulagi fæðingarorlofsgreiðslna sé talið óumflýjanlegt að draga þar úr kostnaði þó að rétt hefði verið að huga þar að öðrum mögulegum útfærslum.

Alþingi 17. des. 2008.

Steingrímur J. Sigfússon.


Fylgiskjal X.


Umsögn 2. minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.    Þau ákvæði laganna sem falla undir félags- og tryggingamálanefnd varða verulega skerðingu sem lögð er á herðar eldri borgara og öryrkja og nýbakaðra foreldra. 2. minni hluti telur ófært að leggja mat á þær tillögur þar sem engar forsendur hafa komið fram varðandi þá útreikninga sem liggja að baki þessum sparnaðartillögum auk þess sem ekki hefur verið gerð grein fyrir eða sýnt fram á með heildstæðum hætti hvaða áhrif allar þær niðurskurðaraðgerðir sem nú eru að koma fram á síðustu dögum fyrir jólaleyfi Alþingis hafa í för með sér fyrir fjölskyldurnar í landinu, hvað þá að fyrir liggi mat á þeim varðandi einstaka hópa samfélagsins. Ríkisstjórnin og/eða einstakir ráðherrar hennar hafa heldur ekki lagt fram upplýsingar og útreikninga svo þingmenn geti lagt sjálfstætt mat á þær. Þá er tíminn sem gefinn er til afgreiðslu allra þeirra niðurskurðartillagna sem varða beint rekstur fjölskyldna í landinu fullkomlega óásættanlegur þar sem hver neyðarlögin reka önnur. Niðurskurðarhnífnum virðist því í besta falli ómarkvisst beitt án tillits til aðstæðna mismunandi hópa samfélagsins.
    Gert er ráð fyrir stóraukinni þátttöku sjúklinga vegna þjónustu heilbrigðiskerfisins og gert er ráð fyrir að sækja 4,9 milljarða kr. ofan í vasa eldri borgara og öryrkja. Nýbakaðir og verðandi foreldrar verða af 300.400 millj. kr. vegna lækkunar heildargreiðslna í fæðingarorlofi. Alvarlegar athugasemdir voru á fundi nefndarinnar gerðar við niðurskurð og afturköllun nýrra reglna um frítekjumark og vísitölubindingu lífeyrisgreiðslna til eldri borgara og öryrkja. Þær nýju reglur sem hér væru lagðar til væru alvarlegasta atlaga sem gerð hefði verið að lífeyrissjóðakerfinu og gætu gengið af því dauðu enda eru þær hvatning um að menn hætti þátttöku í lífeyrissjóðakerfinu. Þá hafa boð til ríkisstjórnar um aðstoð við að finna betri lausnir sem skila sama árangri ekki verið þegnar.
    Annar minni hluti félags- og tryggingamálanefndar getur ekki lagt mat á þau ákvæði sem til skoðunar komu í nefndinni vegna skorts á framangreindum upplýsingum en minnir á að lífeyrissjóðskerfið og fæðingarorlofsreglur hérlendis hafa verið fyrirmynd annarra þjóða sem horft hafa með aðdáun á þá uppbyggingu og þann árangur sem hér hefur náðst á þessum sviðum. Þessi rós sem Íslendingar hafa haft í sínu hnappagati er nú að visna upp og deyja í meðförum þess meiri hluta sem nú situr á Alþingi.

Alþingi 17. des. 2008.Helga Sigrún Harðardóttir.