Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 243. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 405  —  243. mál.
Minni hluti og áheyrnarfulltrúi.

Nefndarálitum frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar.    Tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins er háð mikilli óvissu og er vakin athygli á því að það er ekki fyrr en í gær, eftir að 2. umræða um fjárlagafrumvarpið hefur farið fram, að fjármálaráðuneytið leggur fram sundurliðaða áætlun. Augljóst er hins vegar að sú áætlun er skot út í loftið. Tekjur ríkissjóðs er háðar því hvernig efnahagslífinu reiðir af, hverjar skuldir þjóðarbúsins verða, hver vaxtakjör erlendra skuldbindinga koma til með að verða og jafnframt hvernig heimilum og fyrirtækjum reiðir af, ekki síst þeim sem búa við mikla skuldabyrði. Í ljósi þeirrar óvissu sem nú er uppi er fráleitt að ganga frá fjárlögum fyrir komandi ár á jafnhæpnum forsendum og hér er um að ræða. Ráðlegra væri að komast að niðurstöðu til bráðabirgða en fullnusta verkið á fyrstu mánuðum komandi árs og hafa fjárlögin síðan til stöðugrar endurskoðunar.
    Í bréfi sem þingmönnum hefur borist frá prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, Þórólfi Matthíassyni, segir m.a.: „Þrátt fyrir að starfsfólk fjármálaráðuneytis hafi lagt fram mikið vinnuframlag við að breyta frumvarpinu verður ekki hjá því komist að fum og fálm séu fyrstu orðin sem koma í hugann þegar breytingartillögunum er flett.“
    Þetta eru í hnotskurn vinnubrögðin sem hér hafa verið viðhöfð.
    Í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem er fylgifiskur fjárlagafrumvarpsins, kemur berlega í ljós hve vanhugsaðar og félagslega ranglátar tillögur stjórnarmeirihlutans eru. Má þar nefna niðurskurð á almannatryggingum, en í fyrsta skipti sem reynir á varnir öryrkja og aldraðra sem festar voru í lög árið 1998, þar sem segir að sú vísitala skuli gilda sem hærri er, neysluvísitala eða launavísitala, eru þær numdar brott með lögum.
    Þegar þrengir að í þjóðfélaginu eru það einmitt þeir hópar sem hafa lífsviðurværi sitt að öllu leyti eða hluta frá almannatryggingum sem ber að verja. Það er ekki gert í þessu frumvarpi nema að hluta til, því að fjórðungur lífeyrisþega er varinn, og er það að sönnu tekjulægsti hópurinn. Þá er grafalvarlegt að í fyrsta skipti er ráðgert að rukka sjúklinga sem leggjast inn á sjúkrahús landsins um aðgangseyri. Er þar með brotið blað í sögu heilbrigðismála á Íslandi með afar neikvæðum hætti. Þetta brýtur í bága við loforð og heitstrengingar stjórnvalda um að heilbrigðisþjónustan eigi að vera fjármögnuð með skattfé og byggð á jafnræði. Dregið er úr framlagi til rannsókna á háskólastigi, ráðist á kjör bændastéttarinnar og er umhugsunarvert að búvörusamningurinn skuli tekinn til sérstaks niðurskurðar með það fyrir augum að rýra kjör bænda.
    Fyrsti minni hluti vekur athygli á því að vaxtabætur og barnabætur eru skertar verulega að raungildi með frumvarpinu þar sem þær eiga að hækka á grundvelli forsendna fjárlagafrumvarps næsta árs en ekki með tilliti til verðlagsþróunar. Þetta felur m.a. í sér skerðingu fyrir húsnæðiskaupendur og barnafólk.
    Athygli vekur að skattahækkanir eru flatar og enginn greinarmunur gerður á tekjuháum og tekjulitlum, í stað þess að setja á þrepaskiptan hátekjuskatt og breyta fjármagnstekjuskatti til tekjujöfnunar. Fráleitt er að nýta ekki skattkerfið til þess að jafna byrðunum á landsmenn, ekki síst við þær aðstæður sem nú eru uppi.
    Meðfylgjandi eru umsagnir minni hluta í nefndum þingsins sem efnahags- og skattanefnd fékk frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármál í hendur til umsagnar. Í einu tilviki er um að ræða sameiginlega umsögn nefndar en þar gerir fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs engu síður grein fyrir fyrirvara, sbr. umsögn samgöngunefndar.
    Grétar Mar Jónsson var áheyrnarfulltrúi á fundum nefndarinnar og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 18. des. 2008.Ögmundur Jónasson,


frsm.


Katrín Jakobsdóttir.
Fylgiskjal I.


Umsögn minni hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur að beiðni efnahags- og skattanefndar fjallað um I. kafla frumvarpsins. Á fund nefndarinnar komu Þorvaldur Karl Helgason, Sigríður Dögg Geirsdóttir og Guðmundur Þór Guðmundsson frá Biskupsstofu.
    Með frumvarpinu er framlag til kirkjunnar skert um 300 millj. kr. og framlagið tekið frá kirkjunni og látið renna til ríkissjóðs í staðinn. Gestir undirstrikuðu að afleiðingin verður sú að þjónusta sóknanna skerðist jafnframt því sem þjónustuþörfin eykst vegna hruns bankakerfisins og áfalla sem því tengjast. Töldu hagsmunaaðilar að vegna þessarar skerðingar þyrfti að segja upp starfsmönnum sókna, fresta viðhaldi og stöðva nýframkvæmdir. Fram kom að 2/3 hlutar kirkna í landinu, eða um 205 kirkjur, eru friðaðir, en vegna þess er viðhald þeirra kostnaðarsamara en ella. Afleiðing frumvarpsins er því þjónustuskerðing sókna ásamt því sem dregið er verulega úr mannaflafreku viðhaldi og nýframkvæmdum.
    Minni hlutinn styður ekki frumvarpið.

Alþingi, 17. des. 2008.

Siv Friðleifsdóttir,
Jón Magnússon,
Atli Gíslason.


Fylgiskjal II.


Umsögn 2. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Minni hlutinn telur mikilvægt að fjalla um frumvarpið út frá hagsmunum bænda. Þær tillögur sem hér eru kynntar eru til þess fallnar að skerða greiðslur til bænda um allt að 800 millj. kr. á ársgrundvelli. Íslenskur landbúnaður hefur lengi átt erfitt uppdráttar og árið 2008 hefur reynst sérstaklega erfitt. Allur tilkostnaður hefur hækkað verulega, svo sem fóður, áburður og olía. Margir bændur, einkum þeir sem endurnýjað hafa bú sín og tækjakost á síðastliðnum árum, skulda mikið, bæði í verðtryggðum og gengistryggðum lánum, sem hafa hækkað langt umfram afurðaverð. Bændur eru almennt tekjulág starfsstétt. Í kjölfar efnahagshrunsins hefur íslenskur landbúnaður aldrei verið þjóðinni mikilvægari vegna fæðuöryggis og innlends matvælaiðnaðar. Bændur og innlendur matvælaiðnaður skiptir nú sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu, verðmæta- og nýsköpun. Auk þess er mikilvægt að standa vörð um sjálfbærni innlends landbúnaðar á þeim umbrotatímum sem nú eru. Minni hlutinn telur því fráleitt að þjarma enn frekar að landbúnaði og matvælaiðnaði á Íslandi með þeirri miklu skerðingu sem frumvarpið mælir fyrir um.
    Vekur minni hlutinn athygli á þeim sjónarmiðum sem samtök bænda hafa haldið fram og hefur stjórn Bændasamtaka Íslands ályktað sem svo að aðgerðir ríkisins sem hér eru til umfjöllunar séu klárt samningsrof, enda verði samningum þessum ekki breytt nema með samþykki beggja aðila þar sem búvörusamningar eru skuldbindandi fyrir ríkissjóð, þar á meðal um fjárhæðir og vísitölubindingar, og til þess fallnir að stofna greiðsluskyldu af hendi ríkisins, enda eru þeir gerðir á grundvelli skýrra ákvæða í búvörulögum. Þessi sjónarmið og fleiri koma einnig fram í lögfræðiáliti sem Bændasamtök Íslands hafa lagt fram um heimildir til að breyta búvörusamningum (sjá fylgiskjal). Þar er einnig tiltekið að greiðsluskyldu ríkisins samkvæmt samningunum verður ekki breytt með lækkun framlaga til þeirra á fjárlögum, auk þess sem talið er að ráða megi af ákvæðum samninganna að samþykki Bændasamtakanna sé nauðsynlegt til að hægt sé að endurskoða þá.
    Í ljósi framangreinds leggst minni hlutinn alfarið gegn þeim breytingatillögum sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Alþingi, 17. des. 2008.

Atli Gíslason,
Valgerður Sverrisdóttir.


Fskj. 1.

Bréf frá Bændasamtökum Íslands.


(16. des. 2008.)Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fskj. 2.

Minnisblað Karls Axelssonar hrl. og Arnars Þórs Stefánssonar hdl.


til Bændasamtakanna.


(9. des. 2008.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Fylgiskjal III.Umsögn minni hluta heilbrigðisnefndar.    Að beiðni efnahags- og skattanefndar hefur heilbrigðisnefnd fjallað um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum eða þann hluta þess sem snertir málefnasvið nefndarinnar. Minni hluti nefndarinnar er andvígur þeim breytingum sem þar eru boðaðar á nýsettum lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, og fela í sér upptöku sérstaks gjalds við innlögn á sjúkrahús sem hingað til hefur verið kostuð af sjúkratryggingum.
    Það er álit minni hlutans að breyting þessi komi ekki til með að skila hagræði eða jafnræði í heilbrigðisþjónustunni. Eins og frumvarpið er úr garði gert felur það í raun í sér opna heimild fyrir heilbrigðisráðherra til þess að leggja bæði ný gjöld á sjúklinga og hækka þau sem fyrir eru. Í greinargerð með frumvarpi þessu er í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis tekið fram að tekjur ríkissjóðs vegna upptöku innlagnargjalda á sjúkrahús séu áætlaðar um 360 millj. kr. á næsta ári.
    Á fundi nefndarinnar kom hins vegar fram að nýtt innlagnargjald mun líklegast verða að svipaðri fjárhæð og komugjöld sem nú eru innheimt á slysa- og bráðadeildum, eða um 4.000 kr. Þannig mun upptaka gjaldsins ekki skila nema um 110 millj. kr. á ársgrundvelli miðað við 32.000 innlagnir á ári. Það er því óútskýrt hvaðan viðbótartekjurnar, þ.e. um 250 millj. kr., muni koma en reikna má með því að það verði með hækkun á öðrum sjúklingasköttum. Minni hlutinn bendir á að til viðbótar við hið nýja innlagnargjald og aðrar hækkanir sem vænta má á gjöldum fyrir sérfræðiþjónustu var við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins boðuð viðbótarhækkun á lyfjum til sjúklinga sem nemur á milli 700 og 800 millj. kr. Er þar um að ræða hækkun um alls 320 millj. kr. vegna breyttrar greiðsluþátttöku ríkisins í lyfjum og 410 millj. kr. lækkun á þátttöku sjúkratrygginga í lyfjaútgjöldum með því að hækka lágmarksgjald sjúkratryggðra fyrir lyf.
    Fram kom hjá fulltrúum BSRB, Öryrkjabandalagsins og Alþýðusambandsins að samtökin hafi ályktað gegn frekari gjaldtöku á hendur sjúklingum. Fulltrúar Öryrkjabandalagsins töldu gjaldtökuna verulega íþyngjandi fyrir skjólstæðinga sína til viðbótar við launalækkun, atvinnumissi og annan niðurskurð í velferðarþjónustunni.
    Það er því mat minni hluta nefndarinnar að með þessari nýju gjaldtöku sé stigið varasamt skref og að mögulegt sé að ná þeim tekjum sem innlagnargjaldinu er ætlað að skapa með hagræðingu og endurskipulagningu innan sjúkrastofnananna enda virðist ljóst að gjaldið muni aðeins skila um 110 millj. kr. til ríkissjóðs á ársgrundvelli. Fyrirsjáanlegar virðast því vera ýmsar óútskýrðar og frjálsar hækkanir til þess að ná fram þeim 360 millj. kr. tekjum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Telur minni hluti umræddar breytingar á lögum um sjúkratryggingar óásættanlegar með vísan til þess sem hér kemur fram.

Alþingi 17. des. 2008.

Álfheiður Ingadóttir,
Þuríður Backman,
Eygló Harðardóttir.

Fylgiskjal IV.


Umsögn samgöngunefndar.    Nefndin hefur að beiðni efnahags- og skattanefndar fjallað um III. kafla frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Í III. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum. Með þessum breytingum er sveitarfélögum heimilað að hækka útsvar um 0,25 prósentustig eða úr 13,03% í 13,28%. Staða sveitarfélaga er misjöfn en telja verður líklegt að meiri hluti þeirra nýti sér þessa nýju heimild. Sveitarfélög ákveða fyrir 31. desember 2008 hver verður álagningarprósenta útsvars árið 2009. Áætlað er að þessi hækkun geti skilað sveitarfélögum allt að 2 milljörðum kr. í útsvarstekjur miðað við það að öll sveitarfélög landsins fullnýti heimildina. Með 4. gr. frumvarpsins er sveitarfélögum sem nú þegar hafa tekið ákvörðun um útsvar á grundvelli gildandi laga gefið svigrúm til að endurmeta þá ákvörðun með hliðsjón af frumvarpi þessu.
    Nefndin telur að frumvarpið geti styrkt rekstur sveitarfélaganna á næstu árum, að óbreyttu hefðu mörg sveitarfélög orðið fyrir mikilli tekjulækkun vegna hinna miklu umskipta sem orðið hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er brýnt verkefni að tryggja afkomu sveitarfélaganna til framtíðar.
    Nefndin vekur athygli á að aðgerðir þessar eru liður í viðamiklum aðhaldsráðstöfunum sem ríkinu er nauðugt að ráðast í vegna þeirra miklu efnahagsáfalla sem yfir þjóðina hafa dunið.
    Árni Þór Sigurðsson gerir fyrirvara varðandi 8. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að aukaframlagi í Jöfnunasjóð sveitarfélaga og skuldbindingum ríkisins til greiðslu fasteignagjalda sé mætt með 0,25 prósentustiga hækkun á tekjuskatti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    

Alþingi, 17. des. 2008.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, form.,
Ólöf Nordal,
Herdís Þórðardóttir,
Karl V. Matthíasson,
Árni Þór Sigurðsson, með fyrirvara,
Helga Sigrún Harðardóttir, með fyrirvara,
Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara.
Fylgiskjal V.


Umsögn 1. minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.    Á fundum félags- og tryggingamálanefndar þar sem farið var yfir þau atriði frumvarps um sérstakar ráðstafanir í ríkisfjármálum sem að verksviði nefndarinnar snúa með gestum, kom fram hörð gagnrýni á niðurskurð til almannatrygginga, bæði niðurskurðinn sem slíkan, en þó ekki síður útfærslu hans. Sérstaklega var varað við þeim neikvæðu afleiðingum sem af þessu hlytust fyrir lífeyrissjóðakerfið með stórauknum jaðaráhrifum og skerðingu greiðslna krónu fyrir krónu.
    Fyrsti minni hluti telur þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi almannatryggingakerfið vanhugsaðar og illa útfærðar og leggst gegn afgreiðslu þeirra. Ekki er hins vegar lagst gegn breytingum á fyrirkomulagi fæðingarorlofsgreiðslna sé talið óumflýjanlegt að draga þar úr kostnaði þó að rétt hefði verið að huga þar að öðrum mögulegum útfærslum.

Alþingi 17. des. 2008.

Steingrímur J. Sigfússon.