Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 408  —  239. mál.
Nefndarálitum frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2008.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.Inngangur.
    Meiri hluti fjárlaganefndar afgreiddi frumvarp til fjáraukalaga 2008 til 2. umræðu á Alþingi þremur sólarhringum eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi 15. desember sl. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi eftir að meiri hlutinn lagði fram breytingartillögur við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009 til 2. umræðu. Þingmenn sáu því ekki frumvarp til fjáraukalaga fyrr en í þann mund sem 2. umræða um fjárlög fyrir árið 2009 hófst. Minni hlutinn átelur þau vinnubrögð að fram fari meginumræða um fjárlög áður en fjallað er um frumvarp til fjáraukalaga á Alþingi. Minni hlutinn telur að þetta vinnulag sé tilkomið vegna þess að ríkisstjórnin hafi ekki tök á stöðu þjóðmála og efnahagsmálum í kjölfar þeirra efnahagslegu áfalla sem þjóðin hefur orðið fyrir.
    Minni hlutinn bendir á að frumvarpið ber lítt merki um fall bankakerfisins í byrjun október sl. Því telur minni hlutinn að engin ástæða hafi verið til að draga framlagningu frumvarpsins fram í miðjan desember. Minni hlutinn gagnrýnir þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar en þau eru til marks um það uppnám og skipulagsleysi sem einkennir fjárlagagerðina.
    Minni hlutinn vekur athygli á því að fjárlaganefnd skortir ýmsar upplýsingar og forsendur er varða fjárhagsárið 2008, m.a. þær sem tengjast innkomu ríkisins í bankakerfið og falli þess.
    Minni hlutinn óskar eftir að unnin verði ítarleg greinargerð um allt er varðar fall viðskiptabankanna þriggja, yfirtökur ríkisins á þeim, stofnun nýrra ríkisbanka, lánveitingar Seðlabanka Íslands því tengdu, heildarfjármögnun eins og hún liggur nú fyrir og skuldbindinga sem ríkissjóður þarf að taka á sig vegna málsins. Einnig óskar minni hlutinn eftir skýrslu um aðkomu og útgjöld Fjármálaeftirlitsins svo og Seðlabanka Íslands vegna þessara mála.

Tekjuáætlun.
    Endurskoðuð tekjuáætlun 2008 var lögð fram í byrjun október sl. haust og birtist í ritinu Stefna og horfur, sem var fylgirit með frumvarpi til fjárlaga 2009. Tekjuáætlun í frumvarpi til fjáraukalaga er nokkuð breytt frá endurskoðaðri áætlun. Helstu frávik tekjuáætlunar í frumvarpi til fjáraukalaga miðað við fjárlög 2008, eru að tekjuskattar einstaklinga lækka um 5%, tekjuskattar lögaðila um 11,5%, skatttekjur samtals eru lækkaðar um alls 23,8% frá fjárlögum 2008. Aðrar tekjur hækka um 14,7%. Samtals lækka tekjur ríkissjóðs um 12,3% frá fjárlögum ársins. Hækkun á öðrum tekjum birtist helst í auknum vaxtatekjum og er meginástæðan sú að vaxtatekjur af bankareikningum ríkissjóðs hækka um 10,5 milljarða kr. frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum 2008. Hækkunin skýrist að langmestu leyti af sértækum aðgerðum ríkisstjórnarinnar síðastliðið vor til að styrkja innlenda fjármálamarkaði og gjaldeyrisvaraforðann. En aðgerðirnar fólu í sér að tekin voru lán sem ávöxtuð voru í sjóðum og veittum lánum til Seðlabanka Íslands. Minni hlutinn vekur athygli á því að þessar auknu vaxtatekjur eru í beinum tengslum við beinar lántökur og stóraukinn vaxtakostnað.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs aukist um 11 milljarða kr. en í fjárlögum ársins voru vaxtagjöld áætluð um 21,7 milljarðar kr. Samtals er því gert ráð fyrir að vaxtagjöld ársins verði um 33 milljarðar kr. Þessi auknu vaxtagjöld eiga rætur að rekja til aðgerða í efnahagsmálum sem fela í sér aukna útgáfu ríkisbréfa og erlenda lántöku.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárheimild til launa og verðlagsmála verði hækkuð um 4,8 milljarða kr. til að mæta útgjöldum sem greidd eru í erlendum gjaldmiðlum. Kemur þetta til vegna þess að gengi íslensku krónunnar hefur lækkað mikið frá því sem gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaga.
    Vegna atburða sem urðu við fall bankanna er athyglisvert að bera tekjuáætlun í frumvarpi til fjáraukalaga saman við endurskoðaða tekjuáætlun frá því í byrjun október sl., fyrir fall bankanna. Helstu frávik eru þau að tekjuskattar einstaklinga hækka um 0,3% en engin breyting er á tekjusköttum lögaðila. Skatttekjur alls lækka hins vegar um 5,3%. Aðrar tekjur aukast um 3% en tekjur ríkissjóðs alls eru lækkaðar um 2,3% í tekjuáætlun frumvarps til fjáraukalaga miðað við endurskoðaða tekjuáætlun frá því í byrjun október.
    Minni hlutinn telur að tekjur í frumvarpi til fjáraukalaga 2008 séu ofáætlaðar þar sem áhrifin af falli bankanna og almenns samdráttar í kjölfarið ættu að koma fram í minni tekjum en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Minni hlutinn gerir ráð fyrir því að fjármálaráðuneytið muni endurskoða tekjuáætlunina fyrir 3. umræðu.

Gjaldahlið.
    Minnihlutinn lýsir áhyggjum af því að lagt sé af stað inn í erfiðleika næsta árs með uppsafnaðan mikinn halla hjá mörgum af helstu stofnunum ríkisins.
    Minni hlutinn bendir sérstaklega á rekstrarstöðu einstakra stofnana á sviði heilbrigðismála. Fjölmargar heilbrigðisstofnanir glíma við uppsafnaðan rekstrarhalla og var hann áætlaður 4,4 milljarðar kr. samkvæmt upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins. Í frumvarpi til fjáraukalaga er að hluta til tekið á uppsöfnuðum halla með sérstökum fjárheimildum en þriðjungur hallans almennt skilinn eftir óbættur. Samkvæmt breytingartillögum við frumvarp til fjárlaga fyri árið 2009, sem samþykktar hafa verið, eru fjárheimildir þessara stofnana auk þess almennt skornar niður um 3% frá upphaflegu frumvarpi. Minni hlutinn telur ótækt að þessar stofnanir hefji nýtt rekstrarár með algerlega óviðunandi rekstrarstöðu, sérstaklega í ljósi þeirrar þröngu stöðu sem fram undan er á næstu árum. Hún er í andstöðu við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar um standa vörð um heilbrigðis- og velferðarþjónustuna. Minni hlutinn lýsir ekki síður yfir áhyggjum af rekstrarstöðu öldrunarstofnana. Samkvæmt upplýsingum minni hlutans er áætlaður uppsafnaður halli þeirra um 1 milljarður kr. Í frumvarpinu eru engin merki um að taka eigi á þessum vanda. Þessar stofnanir mæta sömuleiðis 3% niðurskurði á árinu 2009. Minni hlutinn fær ekki séð að öldrunarstofnunum sé tryggður eðlilegur rekstrargrundvöllur á næstu árum.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 70 m.kr. fjárheimild til heimssýningarinnar EXPO 2010 í Kína. Minni hlutinn bendir á að engin fjárheimild var vegna þessa verkefnis í fjárlögum 2008. Fram kom í fjárlaganefnd í janúar sl., rúmum mánuði eftir að fjárlögin voru samþykkt, hafi ríkisstjórnin samþykkt að fara út í þetta verkefni. Minni hlutinn mótmælir þessum vinnubrögðum og lausatökum í fjármálum og bendir á að þetta gengur gegn ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins. Minni hlutinn vekur athygli á hringlandahætti umhverfisráðuneytisins varðandi gestastofu á Látrabjargi og við Hornstrandir. Í fjárlögum 2008 og frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir fjárheimildum til að koma þessum gestastofum upp. Í breytingartillögum við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009, sem samþykktar voru við 2. umræðu, voru þessar fjárheimildir skornar niður með það fyrir augum að loka þessum gestastofum. Ekki verður annað sagt en lítið samræmi sé í þessum verkum milli fjárlaga og fjáraukalaga og skýr stefnumótun ekki fyrir hendi.
    Ekki er gert ráð fyrir að tekið verði á rekstrarvanda Landbúnaðarháskóla Íslands. Fyrir liggur að stofnunin glímir við uppsafnaðan rekstrarhalla. Minni hlutinn leggur áherslu á að tillögur til lausnar á málinu komi fram fyrir 3. umræðu.
    Minni hlutinn undrast þá stöðu sem upp er komin með nýja sjúkratryggingastofnun. Það blasir við að heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti ásamt forstjórum Tryggingastofnunar og sjúkratryggingastofnunar eiga í deilum um skiptingu fjárheimilda milli stofnananna vegna verkaskiptingar. Minni hlutinn bendir á þetta mál sem dæmi um stefnuleysi stjórnvalda í ríkisrekstrinum. Minni hlutinn telur að margt bendi til að þetta mál muni valda mun meiri útgjöldum fyrir ríkissjóð en þörf er á.
    Minni hlutinn vekur athygli á að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008 vakti hann athygli á því hvert stefndi og er niðurstaðan í samræmi við þau varnaðarorð.
    Minni hlutinn vekur athygli á því að verulega skortir á upplýsingar um áætlaða rekstrarniðurstöðu stofnana almennt og leggur áherslu á að þær upplýsingar liggi fyrir fyrir 3. umræðu fjárlaga.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 125 m.kr. fjárheimild til bóta vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að sérstök nefnd muni taka afstöðu til bótakrafna. Minni hlutinn gagnrýnir að forsendur fyrir bótagreiðslum hafi ekki komið fram og leggur áherslu á að staða málsins verði skýrð betur fyrir þriðju umræðu.

Niðurlag.
    Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja skortir verulega upplýsingar og forsendur til að leggja mat á hvað fram undan er. Miklar byrðar verða lagðar á almenning, mikil óvissa ríkir um stöðu mála og ráðaleysi innan ríkisstjórnarinnar birtist í því að hún gat ekki lagt fram neinar viðbótarupplýsingar eða tillögur fyrir 2. umræðu fjáraukalaga sem eykur enn á óvissuna. Í frumvarpinu er ekki leyst úr mikilvægum málum sem tengjast erfiðri rekstrarstöðu margra stofnana og mikið skortir á heildarsýn yfir rekstur ríkissjóðs í frumvarpinu, hvað þá til framtíðar. Minni hlutinn ítrekar að enn þá vantar ýmsa liði í frumvarpið sem tengjast falli bankanna. Minni hlutinn reiknar með að ýmsar tillögur komi fram fyrir 3. umræðu. Minni hlutinn áréttar kröfu um sérstaka skýrslu um fall fjármálakerfisins og stöðu íslenska ríkisins áður en fjárlög fyrir árið 2009 verða afgreidd. Minni hlutinn hefur mjög miklar áhyggjur af stöðu heimilanna, atvinnulífsins og íslenska ríkisins og áréttar að enn hefur ekki verið lögð fram stefnumörkun fyrir næstu ár sem vísar veginn út úr þeim ógöngum sem íslenskt samfélag er lent í.
    Minni hlutinn styður þær tíu breytingartillögur sem fram koma í áliti meiri hluta fjárlaganefndar.

Alþingi, 18. des. 2008.Guðjón A. Kristjánsson,


frsm.


Jón Bjarnason.


Magnús Stefánsson.