Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 259. máls.

Þskj. 419  —  259. mál.Frumvarp til laga

um greiðslur til líffæragjafa.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
I. KAFLI
Gildissvið, markmið og orðskýringar.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um réttindi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

2. gr.

Markmið.


    Markmið laga þessara er að tryggja líffæragjöfum tímabundna fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

3. gr.

Orðskýringar.


    Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða og orðasambanda sem hér segir:
     1.      Líffæragjafi: Einstaklingur sem er á lífi og gengst undir læknismeðferð í því skyni að gefa öðrum einstaklingi líffæri.
     2.      Líffæragjöf: Læknismeðferð sem einstaklingur gengst undir í því skyni að gefa öðrum einstaklingi líffæri.
     3.      Launamaður: Hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.
     4.      Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.
     5.      Nám: 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
     6.      Samfellt starf: Með samfelldu starfi er átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði yfir tiltekið tímabil. Enn fremur teljast til samfellds starfs þau tilvik sem talin eru upp í a–e-lið 2. mgr. 9. gr.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
4. gr.
Yfirstjórn.

    Félags- og tryggingamálaráðherra fer með yfirstjórn greiðslna til líffæragjafa samkvæmt lögum þessum.

5. gr.
Framkvæmdaraðili.

    Félags- og tryggingamálaráðherra ákveður með reglugerð hvaða aðila hann felur framkvæmd laga þessara.
    Kostnaður vegna framkvæmdar á lögum þessum greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.

6. gr.
Umsókn um greiðslur.

    Líffæragjafi skal sækja um greiðslur skv. III kafla laganna til framkvæmdaraðila skv. 5. gr. laganna. Umsókn líffæragjafa sem er launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. eða 4. tölul. 3. gr., skal meðal annars fylgja vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um óvinnufærni líffæragjafans, staðfesting frá vinnuveitanda um að líffæragjafinn hafi lagt niður störf og launagreiðslur fallið niður, sem og staðfesting á starfstímabili hans. Umsókn líffæragjafa í námi, sbr. 5. tölul. 3. gr., skal meðal annars fylgja vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um að viðkomandi verði að gera hlé á námi sínu vegna líffæragjafar og vottorð frá skóla um að líffæragjafi hafi gert hlé á námi og um fyrri námsvist. Framkvæmdaraðila er heimilt að óska eftir að aðrar upplýsingar fylgi með umsókn líffæragjafa um greiðslur samkvæmt lögum þessum telji framkvæmdaraðili slíkt nauðsynlegt. Umsókn skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og undirrituð af líffæragjafanum.
    Framkvæmdaraðila er heimilt að óska eftir umsögn frá þeim aðilum sem hann telur ástæðu til hverju sinni vegna einstakra umsókna um greiðslur samkvæmt lögum þessum.
    Skattyfirvöld, sjúkratryggingastofnun, Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun skulu láta framkvæmdaraðila í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.

7. gr.
Kæruheimild.

    Heimilt er að kæra ákvarðanir framkvæmdaraðila um réttindi líffæragjafa sem teknar eru á grundvelli laga þessara til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.
    Kæra skal berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kæra telst nægilega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.
    Úrskurðarnefndin skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að nefndinni berst mál til úrskurðar.
    Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

III. KAFLI
Réttindi líffæragjafa.
8. gr.
Skilyrði fyrir réttindum líffæragjafa á vinnumarkaði.

    Líffæragjafi, sbr. 3. eða 4. tölul. 3. gr., sem verður óvinnufær vegna líffæragjafar getur átt rétt á tekjutengdum greiðslum skv. 10. gr. í allt að þrjá mánuði samkvæmt mati framkvæmdaraðila.
    Líffæragjafi getur átt rétt á tekjutengdum greiðslum skv. 1. mgr. hafi hann verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði, sbr. 6. tölul. 3. gr., áður en hann verður óvinnufær vegna líffæragjafar. Til þess að finna vinnuframlag líffæragjafa sem er sjálfstætt starfandi einstaklingur skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Enn fremur er skilyrði að líffæragjafinn sé óvinnufær, sbr. þó 11. gr., og að fyrir liggi vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um hvenær líffæragjafinn varð óvinnufær vegna líffæragjafarinnar sem og í hversu langan tíma hann er óvinnufær. Þá er skilyrði að líffæragjafinn eigi lögheimili hér á landi þegar hann verður óvinnufær vegna líffæragjafar sem og þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi.
    Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um rétt líffæragjafa til greiðslna samkvæmt ákvæði þessu.

9. gr.
Þátttaka á vinnumarkaði.

    Þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi 8. gr. felur í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Fullt starf miðast við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf.
    Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur:
     a.      orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
     b.      sá tími sem líffæragjafi fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði hann skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,
     c.      sá tími sem líffæragjafi fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði hann sótt um þá til sjúkratryggingastofnunar samkvæmt gildandi lögum um sjúkratryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags, enda hafi hann látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
     d.      sá tími sem líffæragjafi nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss,
     e.      sá tími sem líffæragjafi fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði hann sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.
    Vinnumálastofnun, sbr. lög um atvinnuleysistryggingar, metur hvort líffæragjafi hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði hann skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. 2. tölul. 2. mgr. Um rétt til atvinnuleysisbóta fer samkvæmt ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar.
    Sjúkratryggingastofnun, sbr. lög um sjúkratryggingar, metur hvort líffæragjafi hefði átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum hefði hann sótt um þá fyrir þann tíma sem um er að ræða, sbr. 3. tölul. 2. mgr. Um rétt til sjúkradagpeninga fer samkvæmt ákvæðum laga um sjúkratryggingar.
    Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hvort líffæragjafi hefði átt rétt á tekjutengdum greiðslum skv. III. kafla laganna hefði hann sótt um slíkar greiðslur. Um rétt til greiðslnanna fer samkvæmt ákvæðum laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

10. gr.

Tilhögun greiðslna til líffæragjafa á vinnumarkaði.


    Tekjutengdar greiðslur skv. 8. gr. til líffæragjafa sem er launamaður, sbr. 3. tölul. 3. gr., skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tekjuárið á undan því ári sem viðkomandi leggur niður störf vegna líffæragjafar. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- eða slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 2. mgr. 9. gr. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna skal þó taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem líffæragjafi hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 9. gr. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
    Tekjutengdar greiðslur skv. 8. gr. til líffæragjafa sem er sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 4. tölul. 3. gr., skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tekjuárið á undan því ári sem viðkomandi leggur niður störf vegna líffæragjafar. Að öðru leyti gildir ákvæði 1. mgr.
    Þrátt fyrir 1..2. mgr. skal hámarksfjárhæð tekjutengdra greiðslna í hverjum mánuði aldrei nema hærri fjárhæð en 535.700 kr. Enn fremur skal lágmarksfjárhæð tekjutengdra greiðslna aldrei nema lægri fjárhæð en 134.300 kr.
    Útreikningar á tekjutengdum greiðslum skv. 1..2. mgr. skulu byggjast á upplýsingum sem framkvæmdaraðili aflar um tekjur viðkomandi líffæragjafa úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Framkvæmdaraðili skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda.
    Réttur til tekjutengdra greiðslna til líffæragjafa skv. 1. mgr. hefst frá og með þeim degi er fullar launagreiðslur í forföllum vegna líffæragjafar falla niður frá vinnuveitanda. Viðkomandi líffæragjafi skal leggja fram vottorð vinnuveitanda um að líffæragjafi hafi lagt niður störf og að launagreiðslur hafi fallið niður. Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hafa lagt niður störf þegar ekki er greitt reiknað endurgjald vegna starfa hans.
    Tekjutengdar greiðslur fyrir undanfarandi mánuð eða hluta úr mánuði skulu inntar af hendi eftir á, fimmtánda virka dag hvers mánaðar, enda hafi líffæragjafi skilað inn nauðsynlegum gögnum til framkvæmdaraðila fyrir fimmta virka dag mánaðarins.
    Greiðslur frá vinnuveitanda eða öðrum aðilum til líffæragjafa, fyrir sama tímabil og greitt er fyrir, sem eru hærri en nemur mismun greiðslna samkvæmt lögum þessum og meðaltals heildarlauna líffæragjafans á viðmiðunartímabili skv. 1. eða 2. mgr. koma til frádráttar greiðslum samkvæmt ákvæði þessu. Þó er heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum líffæragjafans. Hið sama gildir um greiðslur til líffæragjafa sem er sjálfstætt starfandi einstaklingur eftir því sem við getur átt.
    Fjárhæð hámarksgreiðslna og lágmarksgreiðslna skv. 3. mgr. kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þá er félags- og tryggingamálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar framangreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð greiðslna skal félags- og tryggingamálaráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.

11. gr.

Greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.


    Þrátt fyrir skilyrði 2. mgr. 8. gr. um óvinnufærni getur líffæragjafi, sbr. 3. eða 4. tölul. 3. gr., sem kemur aftur til starfa eftir líffæragjöf í lægra starfshlutfalli en hann var í fyrir líffæragjöfina átt rétt á hlutfallslegum greiðslum skv. 8. og 10. gr. í samræmi við minnkað starfshlutfall. Skilyrði er að ástæður þess að líffæragjafi er í lægra starfshlutfalli en áður megi rekja til líffæragjafarinnar og skal líffæragjafi leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina um að hann sé einungis fær um að sinna starfi sínu að ákveðnum hluta vegna líffæragjafar. Fullar greiðslur skulu miðast við starfshlutfall líffæragjafans á ávinnslutímabili skv. 2. mgr. 8. gr. Að öðru leyti gilda skilyrði 8. og 10. gr. um greiðslur til líffæragjafans samhliða minnkuðu starfshlutfalli.
    Óski líffæragjafi eftir greiðslum skv. 1. mgr. skal greiða 80% af meðaltali heildarlauna skv. 1..2. mgr. 10. gr., eftir því sem við á, í samræmi við það starfshlutfall sem hann minnkar við sig vinnu. Heimilt er sem því nemur að lengja greiðslutímabil sem líffæragjafi hefði ella átt rétt á greiðslum skv. 8. og 10. gr. hefði hann lagt niður störf að fullu.
    Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um rétt líffæragjafa til greiðslna samkvæmt ákvæði þessu.

12. gr.

Uppsöfnun lífeyrisréttinda og stéttarfélagsgjöld.


    Líffæragjafi, sbr. 3. eða 4. tölul. 3. gr., greiðir að lágmarki 4% af greiðslum skv. 8., 10. og 11. gr. í lífeyrissjóð og ríkissjóður greiðir 8% mótframlag. Líffæragjafa er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð.
    Líffæragjafa er heimilt að óska eftir því að halda áfram að greiða til stéttarfélags síns og sér þá framkvæmdaraðili um að koma greiðslunni til hlutaðeigandi stéttarfélags.

13. gr.

Skilyrði fyrir réttindum líffæragjafa í námi.


    Líffæragjafi sem gerir hlé á námi, sbr. 5. tölul. 3. gr., vegna líffæragjafar getur átt rétt á greiðslum skv. 1. mgr. 15. gr. í allt að þrjá mánuði samkvæmt mati framkvæmdaraðila.
    Skilyrði eru meðal annars að líffæragjafinn hafi verið í námi, sbr. 5. tölul. 3. gr., í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann gerði hlé á námi vegna líffæragjafar. Enn fremur er skilyrði að líffæragjafi hafi ekki getað stundað nám sitt vegna líffæragjafar samkvæmt vottorði þess sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina og að hann hafi þar af leiðandi þurft að gera hlé á námi sínu í a.m.k. eina önn. Þá er það skilyrði að líffæragjafinn eigi lögheimili hér á landi þegar hann gerir hlé á námi sínu vegna líffæragjafar sem og það tímabil sem greitt er fyrir.
    Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um rétt líffæragjafa til greiðslna samkvæmt ákvæði þessu.

14. gr.

Undanþágur frá skilyrðum fyrir réttindum líffæragjafa í námi.

    Heimilt er að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði 2. mgr. 13. gr. hafi líffæragjafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis eftir að hafa átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning lögheimilis.
    Þrátt fyrir skilyrði 2. mgr. 13. gr., um nám, sbr. 5. tölul. 3. gr., í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en líffæragjafi gerir hlé á námi sínu vegna líffæragjafar samkvæmt vottorði sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina, getur líffæragjafi sem uppfyllir ekki það skilyrði átt rétt á greiðslum skv. 13. og 15. gr. hafi hann verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Hið sama á við hafi líffæragjafi lokið a.m.k. einnar annar námi, sbr. 5. tölul. 3. gr., og verið síðan í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi varað samfellt í a.m.k. sex mánuði.

15. gr.
Tilhögun greiðslna til líffæragjafa í námi.

    Greiðsla til líffæragjafa skv. 13. gr. skal nema 134.300 kr. á mánuði.
    Greiðslur skv. 1. mgr. reiknast frá og með þeim degi er líffæragjafi verður að gera hlé á námi sínu vegna líffæragjafar samkvæmt vottorði þess sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina. Þær skulu inntar af hendi eftir á í einu lagi þegar önn viðkomandi skóla er lokið og staðfest er að líffæragjafi hafi gert hlé á námi vegna líffæragjafarinnar. Líffæragjafi skal leggja fram vottorð skóla um að hann hafi gert hlé á námi á önninni sem og um fyrri námsvist.
    Fjárhæð greiðslna skv. 1. mgr. kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þá er félags- og tryggingamálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðinni til hækkunar ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þegar framangreind skilyrði leiða til hækkunar á fjárhæð greiðslna skal félags- og tryggingamálaráðherra breyta fjárhæðinni í reglugerð.
    Greiðslur til líffæragjafa frá öðrum aðilum fyrir sama tímabil skulu koma til frádráttar greiðslum samkvæmt ákvæði þessu.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
16. gr.
Ósamrýmanleg réttindi.

    Líffæragjafi sem fær greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum fyrir sama tímabil. Sama á við um líffæragjafa sem fær lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.
    Líffæragjafi sem fær greiðslur í fæðingarorlofi eða fær greiddan fæðingarstyrk samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof öðlast ekki jafnframt rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum fyrir sama tímabil. Sama á við um líffæragjafa sem fær geiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

17. gr.

Skuldajöfnuður.


    
Hafi líffæragjafi fengið hærri greiðslur en honum bar samkvæmt lögum þessum er heimilt að skuldajafna ofgreiddum greiðslum á móti inneign líffæragjafans vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fjármálaráðherra skal setja í reglugerð nánari reglur um skuldajöfnun og forgangsröð.
    Um innheimtu ofgreidds fjár samkvæmt lögum þessum fer skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Félags- og tryggingamálaráðherra getur þó falið sérstökum innheimtuaðila að annast innheimtu.

18. gr.
Reglugerðarheimild.

    Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

19. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og eiga ákvæði þeirra við um líffæragjafa sem verða óvinnufærir vegna líffæragjafar eftir gildistöku laganna enda séu skilyrði laganna uppfyllt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra skipuðu sérstakan vinnuhóp í nóvember 2007 sem ætlað var að kanna stöðu lifandi líffæragjafa og þá einkum með tilliti til greiðslna vegna tímabundinnar óvinnufærni eftir líffæragjöf. Fulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins áttu sæti í vinnuhópnum auk fulltrúa stjórnvalda og skilaði hópurinn skýrslu til ráðherranna í apríl 2008. Frumvarp þetta er byggt á tillögum vinnuhópsins en þar var meðal annars lagt til að yfirstjórn greiðslna til líffæragjafa á vinnumarkaði ætti undir málefnasvið félags- og tryggingamálaráðherra enda um að ræða réttindi til greiðslna vegna tímabundinnar fjarveru fólks af vinnumarkaði sem fjármagnaðar væru úr ríkissjóði. Var efni laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, haft til hliðsjónar eins og vinnuhópurinn hafði lagt til. Þá hyggst heilbrigðisráðherra breyta ákvæðum tveggja reglugerða, annars vegar reglugerðar um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og hins vegar reglugerðar um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands, í því skyni að tryggja að líffæragjafar sem eru sjúkratryggðir hér á landi þurfi hvorki að greiða hlutdeild sjúkratryggðs í heilbrigðisþjónustu né óhjákvæmilegan ferðakostnað.
    Vinnuhópurinn kynnti sér líffæraígræðslur hér á landi en í skýrslu hans kemur meðal annars fram að alvarleg bilun lífsnauðsynlegra líffæra, svo sem hjarta, lifrar, lungna og nýrna, hefur verið vaxandi heilbrigðisvandamál á Vesturlöndum á síðustu árum. Ígræðsla líffæris er þá í mörgum tilvikum besta meðferðarúrræðið sem völ er á. Líffærin fást aðallega frá látnum líffæragjöfum en einnig geta heilbrigðir einstaklingar sem eru á lífi gefið nýra og hluta lifrar. Sem dæmi er nefnt að lifandi nýrnagjöfum hafi víða fjölgað mikið síðustu ár vegna skorts á nýrum frá látnum gjöfum en áhættan sem fylgir slíkri aðgerð sé mjög lítil. Nýru eru þau líffæri sem oftast eru grædd í sjúklinga hér á landi en árlega hefja um tuttugu einstaklingar meðferð við lokastigsnýrnabilun hér á landi. Tvenns konar meðferð er í boði, annars vegar blóðhreinsun, sem kallast skilun, og hins vegar ígræðsla nýra, sem er kjörmeðferð en hentar þó ekki öllum sjúklingum. Nýrnaígræðslur frá lifandi gjöfum hafa verið framkvæmdar hér á landi á Landspítala frá árinu 2003. Fram til ársins 2005 voru að meðaltali gerðar fimm nýrnaígræðslur árlega í sjúklinga sem sjúkratryggðir eru hér á landi en þeim hefur fjölgað nokkuð og frá árinu 2005 og fram til þess tíma er vinnuhópurinn skilaði skýrslu sinni hefur verið gerð 31 ígræðsla frá lifandi gjöfum og ellefu ígræðslur frá látnum gjöfum. Má gera ráð fyrir að sjúklingum sem þarfnast ígræðslu nýra komi til með að fjölga á næstu árum og til marks um það bendir vinnuhópurinn á að í ársbyrjun 2008 hafi um þrjátíu einstaklingar verið á ýmsum stigum undirbúnings fyrir ígræðslu.
    Líffæragjafi sem er á lífi verður í flestum tilvikum óvinnufær í tenglsum við líffæragjöf og þarf því að leggja tímabundið niður störf sé hann virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Réttur launafólks til launa í veikindaforföllum samkvæmt kjarasamningum hefur hins vegar ekki verið talinn ná til þessara tilvika, enda ekki um eiginleg sjúkdómstilfelli að ræða. Eðlilegra þykir að líffæragjöfum sé tryggð tímabundin fjárhagsaðstoð með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpi þessu. Sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaganna hafa í einhverjum tilvikum veitt félagsmönnum sínum fjárhagslegan stuðning eða greitt dagpeninga vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu í tengslum við líffæragjöf á grundvelli sérstakra heimilda, enda þótt ekki sé kveðið beint á um slík tilfelli í reglum þeirra.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að líffæragjafar sem eru launamenn eða sjálfstætt starfandi einstaklingar á innlendum vinnumarkaði og verða óvinnufærir vegna líffæragjafar geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum í allt að þrjá mánuði enda hafi þeir verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði samfellt í a.m.k. sex mánuði fyrir þann tíma. Í skýrslu vinnuhópsins kemur fram að í langflestum tilvikum séu líffæragjafar komnir til starfa á ný eftir sex vikur en ástæða þyki til að gera ráð fyrir að fjarvistir frá vinnu geti staðið yfir í allt að þrjá mánuði, enda geta tilvikin verið nokkuð misjöfn. Er lagt til að sá sérfræðilæknir sem hefur umsjón með undirbúningi líffæragjafar, aðgerðinni sem og eftirmeðferð, votti um hvenær líffæragjafi verði óvinnufær og hversu lengi hann er óvinnufær vegna líffæragjafarinnar. Skilyrði er jafnframt að líffæragjafi hafi lögheimili hér á landi þegar hann verður óvinnufær vegna líffæragjafar og þann tíma sem greiðslur standa yfir. Það komi síðan í hlut framkvæmdaraðila að meta aðstæður líffæragjafa heildstætt og þá í hversu langan tíma hann geti átt rétt á greiðslum. Gert er ráð fyrir að greiðslur reiknist frá og með þeim degi er vinnuveitandi hættir að greiða starfsmanni sínum full laun í forföllum hans í tengslum við líffæragjöfina.
    Vinnuhópurinn fjallaði einungis um rétt líffæragjafa sem eru starfandi á innlendum vinnumarkaði en lagði áherslu á að skoðuð yrði sérstaklega staða þeirra líffæragjafa sem eru námsmenn. Við nánari athugun þótti ástæða til að veita líffæragjöfum sem eru námsmenn ákveðin réttindi, enda getur líffæragjöf falið í sér fjárhagslegt óhagræði fyrir námsmenn í tilvikum þegar líffæragjöfin hefur veruleg áhrif á námsframvindu þeirra. Í slíkum tilvikum eiga námsmenn á hættu að eiga ekki rétt á námslánum eða öðrum fjárhagslegum stuðningi sem byggist yfirleitt á að námsmaður fullnægi þeim skilyrðum sem viðkomandi skóli setur um eðlilega námsframvindu. Enn fremur getur líffæragjöfin haft áhrif á getu líffæragjafans til að stunda vinnu samhliða náminu sem ætluð var honum til framfærslu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Gert er ráð fyrir að líffæragjöfum sem eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði verði veittur réttur til tímabundinna greiðslna þegar þeir þurfa að leggja tímabundið niður störf í tengslum við líffæragjöf. Er með þessu átt við að líffæragjafar verði óvinnufærir vegna líffæragjafar og geti þar af leiðandi ekki stundað vinnu sína tímabundið. Bæði er átt við líffæragjafa sem eru launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar en hugtökin eru nánar skilgreind í 3. gr. frumvarpsins. Enn fremur er lagt til að líffæragjöfum sem þurfa að gera hlé á námi vegna líffæragjafar verði veitt ákveðin réttindi til greiðslna við sömu aðstæður. Í frumvarpinu eru síðan skilgreind nánar þau skilyrði sem verða að vera uppfyllt til þess að líffæragjafi geti átt rétt á greiðslum.

Um 2. gr.


    Markmið frumvarps þessa er að tryggja líffæragjöfum sem eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði félagslega aðstoð í formi tímabundinnar fjárhagsaðstoðar þurfi þeir að leggja tímabundið niður störf vegna líffæragjafar. Þykir mikilvægt að stjórnvöld komi til móts við líffæragjafa með þessum hætti þar sem reynslan hefur meðal annars sýnt að fjárhagslegar ástæður liggja oft að baki því að einstaklingar treysta sér ekki til að gefa líffæri. Er með frumvarpinu þannig verið að leggja til að líffæragjöfum verði veittur fjárhagslegur stuðningur vegna líffæragjafar til að koma til móts við sannanlegt tekjutap geti þeir ekki stundað vinnu sína í kjölfar líffæragjafar. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að koma til móts við aðstæður líffæragjafa sem eru námsmenn og þurfa að gera hlé á námi vegna líffæragjafar.

Um 3. gr.


    Ákvæði þetta hefur að geyma ýmsar orðskýringar, t.d. á hugtökunum „líffæragjafi“ og „líffæragjöf“ í skilningi frumvarpsins. Með líffæragjöf er átt við þá læknismeðferð sem einstaklingur gengst undir í því skyni að gefa öðrum einstaklingi líffæri, þ.m.t. nauðsynlegar rannsóknir sem því geta fylgt. Hér er meðal annars átt við það þegar einstaklingur gefur öðrum einstaklingi nýra, hluta lifrar eða beinmerg. Enn fremur eru hugtökin „launamaður“, „sjálfstætt starfandi einstaklingur“ og „nám“ skýrð en þær orðskýringar eru efnislega samhljóða skilgreiningum í lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum.

Um 4. gr.


    Lagt er til að félags- og tryggingamálaráðherra fari með yfirstjórn greiðslna til líffæragjafa samkvæmt frumvarpi þessu. Sú skipan er í samræmi við stefnu stjórnvalda þess efnis að ráðherra vinnumála fari með yfirumsjón þeirra réttinda sem snúa að greiðslum vegna tímabundinnar fjarveru fólks af vinnumarkaði sem fjármagnaðar eru úr ríkissjóði, sbr. meðal annars lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og lög nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir að félags- og tryggingamálaráðherra ákveði með reglugerð hvaða aðila hann feli framkvæmd efnisákvæða frumvarpsins. Viðkomandi aðila væri þar með meðal annars falið að meta á grundvelli viðeigandi gagna hvort líffæragjafi uppfylli skilyrði laganna til greiðslna, þar á meðal í hversu langan tíma líffæragjafi á rétt á greiðslum skv. 8..11. gr. og 13..15. gr. frumvarpsins.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að kostnaði vegna framkvæmdar á ákvæðum frumvarpins verði mætt með sérstöku framlagi á fjárlögum ár hvert í samræmi við áætlun þar um.

Um 6. gr.


    Gert er ráð fyrir að líffæragjafi sæki um greiðslur skv. III. kafla frumvarpsins til framkvæmdaraðila skv. 5. gr. frumvarpsins. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og er mikilvægt að nauðsynleg gögn fylgi umsókn líffæragjafans en þau gögn sem þurfa að fylgja með svo unnt verði að afgreiða umsóknir eru ekki tæmandi talin í frumvarpinu. Ástæðan er sú að aðstæður líffæragjafa kunna að vera misjafnar og þarf framkvæmdaraðila að vera unnt að meta þær í hverju tilviki fyrir sig.
    Enn fremur er lagt til að framkvæmdaraðila verði heimilt að óska eftir umsögn frá þeim aðilum sem hann telur ástæðu til hverju sinni vegna umsókna sem honum berast um greiðslur samkvæmt ákvæðum frumvarps þessa.
    Þá er lagt til að tiltekin stjórnvöld veiti framkvæmdaraðila upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd frumvarpsins en sérstaklega þykir mikilvægt að unnt sé að byggja á upplýsingum frá skattyfirvöldum við útreikninga á tekjutengdum greiðslum til líffæragjafa sem eru virkir þátttakendur á vinnumarkaði.

Um 7. gr.


    Lagt er til að líffæragjöfum verði heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvarðanir framkvæmdaraðila um réttindi þeirra sem teknar eru á grundvelli frumvarps þessa. Ekki þykir ástæða til að setja á laggirnar nýja úrskurðarnefnd, enda má gera ráð fyrir að eðli mála sem upp kunna að koma geri sambærilegar kröfur um hæfni nefndarmanna og gerðar eru við skipan þeirrar nefndar, en nefndin fjallar bæði um stjórnsýslukærur á grundvelli laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, sem og laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum. Skv. 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof skal einn nefndarmanna uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara en annar skal vera læknir. Einn nefndarmaður er skipaður án tilnefningar og er ekki sérstaklega kveðið á um hæfni hans. Gert er ráð fyrir þriggja mánaða kærufresti frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun framkvæmdaraðila og er það í samræmi við 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.
    Í 3. mgr. er tilgreindur viðmiðunartími um afgreiðslu mála hjá nefndinni sem verður að teljast eðlilegur málshraði þegar litið er til þess að veita skal aðilum kost á að tjá sig um málið áður en það er tekið til úrskurðar. Séu mál sérstaklega umfangsmikil og tímafrekt reynist að undirbúa þau og rannsaka með viðunandi hætti er hugsanlegt að afgreiðslutími nefndarinnar lengist að sama skapi. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að 6. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og ákvæði stjórnsýslulaga gildi um málsmeðferð nefndarinnar.

Um 8. gr.


    Lagt er til að líffæragjafar sem eru starfandi á innlendum vinnumarkaði og verða óvinnufærir vegna líffæragjafar geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum í allt að þrjá mánuði samkvæmt mati framkvæmdaraðila. Á þetta bæði við um líffæragjafa sem eru launamenn og þá sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar. Þannig fellur það í hlut framkvæmdaraðila að meta hvort og í hversu langan tíma líffæragjafi á rétt á greiðslum samkvæmt frumvarpi þessu. Skilyrði fyrir réttinum til greiðslna eru meðal annars að líffæragjafi hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann verður óvinnufær vegna líffæragjafar. Er hér átt við almanaksmánuði. Þegar líffæragjafi er sjálfstætt starfandi einstaklingur skal miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Enn fremur er það skilyrði að líffæragjafi verði óvinnufær, sbr. þó 11. gr. frumvarps þessa, vegna líffæragjafarinnar en sérfræðilæknir sem annast læknismeðferð í tengslum við líffæragjöfina skal votta hvenær líffæragjafinn varð óvinnufær og hversu lengi viðkomandi líffæragjafi er óvinnufær vegna líffæragjafarinnar. Enn fremur er það skilyrði að líffæragjafinn eigi lögheimili hér á landi þegar hann verður óvinnufær sem og þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi.
    Þá er lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra verði heimilt að kveða í reglugerð nánar á um rétt líffæragjafa samkvæmt ákvæðinu. Með þessu er átt við að ráðherra verði heimilt að útfæra nánar hina matskenndu lagareglu sem ákvæðið felur í sér til leiðbeiningar fyrir framkvæmdaraðila. Þegar stjórnvaldi er falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir því liggur falla að settri lagareglu er því meðal annars rétt og skylt að líta til málefnalegra sjónarmiða en einnig til reglugerðarákvæða sem útfæra nánar hina matskenndu reglu. Slík reglugerð getur verið til þess fallin að gæta betur samræmis í stjórnsýsluframkvæmd og gera almenningi auðveldara að sjá fyrir niðurstöður stjórnvalds. Með stjórnsýslufyrirmælum er matið takmarkað að ákveðnu leyti enda þótt slíkar reglur geti ekki afnumið það skyldubundna mat sem stjórnvöldum er falið með lögum. Í þessu sambandi er meðal annars lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra verði heimilt að setja reglur um til hvaða atriða framkvæmdaraðili skuli líta þegar teknar eru ákvarðanir um réttindi líffæragjafa samkvæmt ákvæðinu.

Um 9. gr.


    Aðstæður fólks á vinnumarkaði geta verið misjafnar þar sem upp geta komið tímabundnar aðstæður, svo sem atvinnumissir, slys eða barnsfæðing, sem valda því að fólk getur tímabundið ekki tekið virkan þátt á vinnumarkaði. Fullnægir það því ekki skilyrði um sex mánaða samfellt starf á vinnumarkaði á þessu tímabili og ætti því strangt til tekið ekki rétt á slíkum vinnumarkaðstengdum greiðslum sem hér eru lagðar til kæmi til líffæragjafar á umræddu tímabili. Hins vegar hefur tíðkast við framkvæmd sambærilegra greiðslna að jafna tilteknum aðstæðum við þátttöku á vinnumarkaði og eru þær tæmandi taldar í a.e-lið 2. mgr. ákvæðis þessa. Ástæðan er einkum sú að ekki hefur þótt sanngjarnt að svo tímabundnar aðstæður komi í veg fyrir að fólk missi áður áunninn rétt sinn til vinnumarkaðstengdra greiðslna sem þessara komi upp þær aðstæður að greiðslurnar geti átt við. Það hvort tímabundin fjarvera fólks af vinnumarkaði falli undir þau tilvik sem talin eru upp í b-, c- og e-lið 2. mgr. er þeirra að meta sem fara með framkvæmd hlutaðeigandi laga, sbr. 3..5. mgr. ákvæðisins. Efnislega samhljóða ákvæði er jafnframt að finna í lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum.

Um 10. gr.


    Lagt er til að greiðslur til líffæragjafa sem verða óvinnufærir vegna líffæragjafar og leggja þar af leiðandi niður störf miðist við ákveðið hlutfall fyrri tekna þeirra fyrir störf þeirra á innlendum vinnumarkaði, að uppfylltum skilyrðum 8. gr. laganna. Þannig er miðað við að líffæragjafi sem er launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. eða 4. tölul. 3. gr. frumvarpsins geti átt rétt á greiðslum sem nema 80% af meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu, sem tekur til tekjuársins á undan því ári sem hann leggur niður störf vegna líffæragjafar. Með tekjuári er átt við almanaksár. Skal ekki draga frá þann tíma sem viðkomandi líffæragjafi hefur verið í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunaður sé að hluta eða öllu leyti eða önnur þau tilvik sem talin eru í a.e-lið 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins.
    Þrátt fyrir ákvæði 1..2. mgr. greinarinnar er annars vegar gert ráð fyrir hámarki og hins vegar lágmarki á mánaðarlegar greiðslur til líffæragjafa. Lagt er til að hámarkið miðist við meðalmánaðartekjur viðkomandi líffæragjafa að fjárhæð 669.625 kr. þannig að mánaðarlegar greiðslur til hans verði að hámarki 535.700 kr. Er miðað við sama hámark á greiðslur og gildir samkvæmt lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum. Enn fremur er gert ráð fyrir að lágmarksgreiðslur verði ekki lægri en lagt er til að námsmenn geti átt rétt á skv. 1. mgr. 15. gr. frumvarps þessa.
    Hafi líffæragjafi ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu skal miða við meðalheildarlaun hans fyrir það tímabil sem hann hefur verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig a.e-lið 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins. Skal þá alltaf miða við almanaksmánuði. Er þá að lágmarki unnt að miða við fjóra almanaksmánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna líffæragjafa enda ætíð gert að skilyrði að líffæragjafi uppfylli skilyrði 8. gr. frumvarpsins um sex mánaða samfellt tímabil á innlendum vinnumarkaði áður en hann leggur niður störf vegna líffæragjafar til að öðlast rétt á tekjutengdum greiðslum. Þá er miðað við heildarlaun en til launa skulu teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- eða slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a.e-lið 2. mgr. 9. gr. frumvarps þessa. Þegar um er að ræða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna skal þó miða við þær viðmiðunartekjur sem þær greiðslur miðuðust við. Hafi því tímabili sem líffæragjafi á rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum verið lokið skal engu síður miða við viðmiðunartekjur hans sem nýttar voru fyrir tekjutengda tímabilið. Þó er ekki átt við styrki sem líffæragjafi kann að hafa fengið úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga á tímabilinu heldur eingöngu þær greiðslur sem ætlað er að koma í stað launa. Jafnframt skiptir ekki máli þótt líffæragjafi hafi verið í vinnu hjá fleirum en einum vinnuveitanda á umræddu tímabili.
    Lagt er til að framkvæmdaraðili leiti staðfestingar hjá skattyfirvöldum á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda er álagningin liggur fyrir að því er varðar viðmiðunartímabil samkvæmt ákvæði þessu. Tekjur líffæragjafa eru færðar inn í staðgreiðsluskrá tveimur mánuðum eftir þann mánuð sem þær eru greiddar fyrir og ættu því að liggja fyrir þegar sótt er um tekjutengdar greiðslur samkvæmt ákvæði þessu. Í þeim tilgangi að auðvelda framkvæmdaraðila starf sitt er skattyfirvöldum gert skylt að láta honum í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd frumvarps þessa, sbr. 6. gr. frumvarpsins.
    Þá er lagt til að líffæragjafi öðlist rétt til greiðslna þegar fullar launagreiðslur frá vinnuveitanda hafa fallið niður í forföllum vegna líffæragjafar. Með fullum launagreiðslum er vísað til þess að vinnuveitandi geti áfram greitt starfsmanni sínum laun samkvæmt kjarasamningi, ráðningarsamningi eða einhliða ákvörðun sinni til hagsbóta fyrir starfsmanninn. Þykir því ekki ástæða til að líffæragjafi njóti greiðslna samkvæmt frumvarpi þessu á sama tíma. Engu síður er gert ráð fyrir að vinnuveitandi geti greitt starfsmanni mismun greiðslnanna og launa starfsmannsins án þess að það skerði greiðslur til viðkomandi starfsmanns samkvæmt frumvarpi þessu. Í tilvikum þegar líffæragjafar fá greidd laun frá vinnuveitanda og/eða öðrum aðilum, t.d. sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaga, sem reynast hærri en sem nemur mismun greiðslnanna og meðaltals heildarlauna líffæragjafa á viðmiðunartímabili skv. 1..3. mgr. er gert ráð fyrir að viðbótin komi til frádráttar greiðslunum. Er þannig ekki gert ráð fyrir að líffæragjafar hagnist fjárhagslega við þessar aðstæður.

Um 11. gr.


    Áhersla er lögð á sveigjanleika þannig að líffæragjafanum verði gert kleift að hefja sem fyrst aftur þátttöku á vinnumarkaði þrátt fyrir að hafa ekki fulla starfsgetu vegna líffæragjafarinnar án þess að eiga á hættu að missa að fullu þær greiðslur sem lagðar eru til samkvæmt frumvarpi þessu. Þess vegna er lagt til að þrátt fyrir skilyrði 8. gr. um óvinnufærni geti líffæragjafi sem á þess kost að sinna starfi sínu í lægra starfshlutfalli en hann var í fyrir líffæragjöfina, eða býðst að hefja önnur störf í lægra starfshlutfalli, átt rétt á hlutfallslegum greiðslum skv. 8. og 10. gr. frumvarps þessa í samræmi við hið minnkaða starfshlutfall. Skilyrði er að sérfræðilæknir sá sem annaðist læknismeðferðina í tengslum við líffæragjöfina votti að líffæragjafinn sé einungis fær um að sinna starfi sínu að ákveðnum hluta vegna líffæragjafarinnar enda skilyrði að rekja megi ástæður þess að hann sé í lægra starfshlutfalli en áður til líffæragjafarinnar. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt sé að lengja greiðslutímabilið sem hann ella hefði átt rétt á hefði hann lagt niður störf að fullu sem því nemur og skulu fullar greiðslur miðast við starfshlutfall líffæragjafans á ávinnuslutímabilinu skv. 2. mgr. 8. gr. frumvarps þessa. Sem dæmi má nefna líffæragjafa sem hefur verið í 80% starfi á vinnumarkaði með 200.000 kr. í mánaðartekjur og á rétt á greiðslum í allt að þrjá mánuði samkvæmt frumvarpi þessu að uppfylltum öllum skilyrðum. Leggi líffæragjafinn niður störf að fullu á hann rétt á sem nemur 160.000 kr. tekjutengdum greiðslum þann tíma. Geti líffæragjafinn hins vegar hafið störf eftir einn mánuð í 40% starfi ætti hann þá rétt á 80.000 kr. í allt að fjóra mánuði að því gefnu að hann haldi sama starfshlutfalli.

Um 12. gr.


    Ákvæðinu er ætlað að tryggja áframhaldandi uppsöfnun lífeyrissjóðsréttinda en lagt er til að líffæragjafi á vinnumarkaði greiði 4% af greiðslum í lífeyrissjóð og ríkissjóður greiði 8% mótframlag. Ekki er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði mótframlag ef líffæragjafi ákveður að greiða framlag í séreignarsjóð. Enn fremur er gert ráð fyrir að líffæragjafi geti óskað eftir því að framkvæmdaraðili dragi stéttarfélagsgjald af greiðslunum og greiði það til hlutaðeigandi stéttarfélags.

Um 13. gr.


    Gert er ráð fyrir að líffæragjafi sem þarf að gera hlé á námi vegna líffæragjafar samkvæmt vottorði sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina geti átt rétt á greiðslu í allt að þrjá mánuði samkvæmt mati framkvæmdaraðila. Miðað er við að líffæragjafi hafi verið námsmaður í fullu námi í skilningi frumvarpsins í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann verður að gera hlé á námi sínu vegna líffæragjafar. Að þessu skilyrði uppfylltu þykir ljóst að líffæragjafi hafi sannanlega verið námsmaður. Enn fremur er gert ráð fyrir að líffæragjafinn geti ekki stundað nám sitt vegna líffæragjafarinnar samkvæmt vottorði þess sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina. Er ekki gert ráð fyrir að greiðslur geti komið til fyrr en líffæragjöfin hefur haft veruleg áhrif á námsframvindu líffæragjafans og þar með leitt til þess að hann getur ekki aflað sér lífsviðurværis með þeim hætti sem áætlað var þegar ákvörðun um nám var tekið. Er því miðað við að hann hafi þurft að gera hlé á námi sínu í a.m.k. eina önn í viðkomandi skóla. Ástæðan er sú að umræddum greiðslum er ætlað að bæta framfærslumissi líffæragjafans sem námsmanns en ekki ætlað að vera styrkur vegna líffæragjafarinnar.

Um 14. gr.


    Lagt er til að heimilt verði að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði 2. mgr. 13. gr. frumvarps þessa í tilvikum þegar líffæragjafar hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis áður en þeir gera hlé á námi vegna líffæragjafar. Er þá gert að skilyrði að líffæragjafi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning lögheimilis. Einungis er átt við líffæragjafa sem hefur verið í námi, sbr. 5. tölul. 3. gr., og námið stendur enn yfir.
    Auk þessa er lagt til að undanþága verði veitt frá skilyrðinu um lengd skólavistar til að koma eins og frekast er unnt í veg fyrir að líffæragjafar hafi engan rétt samkvæmt frumvarpi þessu þegar þeir hefja störf eftir nám eða hefja nám eftir að hafa verið á vinnumarkaði. Skilyrði er þá að nám og starf hafi varað samfellt í a.m.k. sex mánuði. Efnislega samhljóða undanþágur eru í lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum.

Um 15. gr.


    Lagt er til að mánaðarleg greiðsla til líffæragjafa sem verður að gera hlé á námi sínu vegna líffæragjafar samkvæmt vottorði sérfræðilæknis sem annast líffæragjöfina verði 134.300 kr. á mánuði. Við ákvörðun á fjárhæð greiðslnanna var höfð hliðsjón af réttindum samkvæmt lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, sbr. 15. gr. laganna. Er jafnframt miðað við að greiðslurnar verði greiddar eftir á í einu lagi þegar önn viðkomandi skóla er lokið og staðfest er að líffæragjafi hafi sannanlega gert hlé á námi sínu vegna líffæragjafarinnar.
    Enn fremur er gert ráð fyrir að greiðslur frá öðrum aðilum til líffæragjafa fyrir sama tímabil komi til frádráttar greiðslunum sem inntar eru af hendi samkvæmt ákvæði þessu. Hér er einkum átt við lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna sem ætlað er námsmönnum til framfærslu og greiðslur frá vinnuveitanda hafi líffæragjafinn jafnframt unnið samhliða námi sínu og þær greiðslur haldið áfram.

Um 16. gr.


    Líffæragjafi sem fær greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum fyrir sama tímabil enda er atvinnuleysisbótum ætlað að tryggja framfærslu hlutaðeigandi þann tíma. Sama á við um líffæragjafa sem fær lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá er gert ráð fyrir að líffæragjafi sem fær greiðslur annaðhvort á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof eða III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt frumvarpi þessu fyrir sama tímabil af sömu ástæðum.

Um 17. gr.


    Lagt er til að heimilt verði að skuldajafna ofgreiddum greiðslum samkvæmt frumvarpinu á móti inneign líffæragjafa vegna ofgreiddra skatta, barnabóta og vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Á þetta einkum við þegar líffæragjafar hafa fengið greiðslur frá vinnuveitanda eða öðrum aðilum sem hafa verið hærri en sem nemur mismun greiðslna skv. 8. gr. frumvarpsins og meðaltals heildarlauna líffæragjafa fyrir viðmiðunartímabil 1..2. mgr. 10. gr. frumvarpsins, sbr. 7. mgr. sömu greinar. Einnig getur þetta átt við þegar líffæragjafi hefur fengið greiðslur skv. 13. gr. frumvarpsins en síðar kemur í ljós að hann hefur jafnframt fengið greiðslur frá öðrum aðilum fyrir sama tímabil, sbr. 4. mgr. 15. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.


    Í ákvæðinu er félags- og tryggingamálaráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd frumvarpsins. Markmið með slíkri heimild er að kveðið verði skýrt á um framkvæmd laganna ef nauðsyn ber til enda um nýmæli að ræða.

Um 19. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um greiðslur til líffæragjafa.


    Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja líffæragjöfum tímabundna fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.
    Í frumvarpinu er lagt til að líffæragjafi sem verður óvinnufær vegna líffæragjafar geti átt rétt á tekjutengdum greiðslum í allt að þrjá mánuði. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tekjutengdar greiðslur til launamanns nemi 80% af meðaltali heildarlauna yfir viðmiðunartímabil sem tekur til tólf mánaða. Greiðslur munu þó aldrei nema meira en 535.700 kr. á mánuði sem er sama hámark og á greiðslum sem gilda innan fæðingarorlofskerfisins. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að líffæragjafi sem er námsmaður og gerir hlé á námi sínu vegna líffæragjafar geti átt rétt á greiðslum í allt að þrjá mánuði að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Greiðsla til líffæragjafa í námi skal nema 130.000 kr. á mánuði en sú fjárhæð er höfð til hliðsjónar við réttindi foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna.
     Við mat á kostnaði er miðað við meðal heildarlaun á mánuði árið 2007 hjá fullvinnandi launafólki á verðlagi ársins 2008. Aðgerðir eru áætlaðar 25 talsins á ári en í ársbyrjun 2008 voru um 30 einstaklingar á ýmsum stigum undirbúnings fyrir ígræðslu. Í langflestum tilvikum eru líffæragjafar komnir til starfa á ný eftir sex vikur og miðast útreikningar við að 60% líffæragjafa hefji störf að sex vikum liðnum en 40% líffæragjafa verði frá vinnu í þrjá mánuði. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda námsmanna í hópi líffæragjafa.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að árleg útgjöld muni aukast samtals um rúmlega 21,5 m.kr. miðað við að flestir sem falla undir skilyrði frumvarpsins nýti rétt sinn til greiðslna.
    Í útgjaldaramma gildandi fjárlaga fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið eru ekki fyrir hendi fjárheimildir vegna þessara auknu útgjalda.