Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 262. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 424  —  262. mál.
Greinargerð.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf.

Frá menntamálanefnd.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Tekjustofnar“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Tekjur.
     b.      Á eftir 1. málsl. 1. tölul. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Gjaldið rennur í ríkissjóð.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „14.580 kr.“ í 3. málsl. 1. tölul. 1. mgr. kemur: 17.200 kr.
     d.      Við 2. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í stað tíu gjalddaga skal gjalddagi einstaklinga vera einn, 1. ágúst ár hvert. Dragist framlagning álagningarskrár fram yfir 1. ágúst færist gjalddagi til fyrsta dags næsta mánaðar eftir framlagningu.
     e.      3. mgr. fellur brott.
     f.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Tekjur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Greinargerð.


    Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi með lögum nr. 6/2007. Í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna er gert ráð fyrir að í stað afnotagjalds verði tekið upp sérstakt útvarpsgjald sem lagt verði á einstaklinga og lögaðila 1. janúar 2009. Frá sama tíma fellur brott innheimta afnotagjalds samkvæmt ákvæði til bráðabirgða V í lögum um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007. Var við það miðað að við þetta tímamark yrði fjárhæð gjaldsins endurskoðuð. Ljóst er hins vegar að ákveðin vandkvæði eru á innheimtu gjaldsins og ráðstöfun þess til félagsins. Þykir því rétt að leggja til að gjaldið renni í ríkissjóð. Í samræmi við þessa framsetningu er lagt til að heiti greinarinnar verði breytt til samræmis við 2. og 3. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna, þar sem talað er um tekjur félagsins.
    Í c-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að fjárhæð gjalds skv. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna hækki úr 14.580 kr. í 17.200 kr. Í athugasemdum við 1. mgr. 11. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 6/2007 kemur fram að við útreikninga á gjaldinu hafi verið gert ráð fyrir óbreyttum tekjum Ríkisútvarpsins ohf. og höfð hliðsjón af tekjustreymi félagsins á árunum 2005 og 2006 og lagt til grundvallar að allir gjaldendur sem féllu undir lögin stæðu skil á gjaldinu. Í frumvarpinu var jafnframt tekið fram að eðlilegt væri að fjárhæð gjaldsins yrði endurskoðuð þegar nær drægi breytingu á tekjustofnum Ríkisútvarpsins ohf. úr afnotagjaldi í sérstakt útvarpsgjald skv. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna. Þá var því sjónarmiði lýst að haga bæri álagningu gjaldsins þannig að hvert heimili með tvo einstaklinga sem greiða mundu gjaldið yrði nokkurn veginn jafnsett eftir upptöku gjaldsins. Við það er miðað að þeir einstaklingar sem greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra greiði útvarpsgjaldið, svo og þeir lögaðilar sem eru skattskyldir og bera sjálfstæða skattaðild. Undanskilin álagningu gjaldsins eru dánarbú, þrotabú og ýmsir lögaðilar, svo sem stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Til viðmiðunar var gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra lagt á 185.532 einstaklinga álagningarárið 2008 vegna tekna árið 2007 og hafði þeim fjölgað um 2,35% frá árinu á undan. Undanþegnir gjaldinu voru einstaklingar með tekjuskattsstofn undir 1.080.067 kr., þ.m.t. námsmenn 16 ára og eldri undir þeim tekjumörkum. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra voru lögaðilar á skrá í október sl. 41.198. Af þeim voru lögð opinber gjöld á 32.868 vegna tekna þeirra á árinu 2007. Fjöldi lögaðila sem greiddi opinber gjöld í október sl. var 24.409. Með hliðsjón af framansögðu, og að teknu tilliti til þess að atvinnu- og tekjuhorfur þykja óvissar nú um stundir, þykir varlegt að áætla að greiðendur gjaldsins geti verið um 205.000 á árinu 2009, en vitanlega ríkir nokkur óvissa um þann fjölda. Með því að láta gjaldið renna í ríkissjóð er aukin vissa í rekstri Ríkisútvarpsins ohf., en ríkissjóður mun bera áhættuna af óvissu um fjölda greiðenda sem félagið hefði ella borið.
    Árleg greiðsluskylda afnotagjalds skv. 12. gr. laga nr. 122/2000, um útvarpsgjald og innheimtu þess, nemur nú 35.940 kr. á hvert heimili. Hér er lagt til að hækkun gjaldsins frá því sem ákveðið er í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. taki mið af því sjónarmiði sem áður er lýst, að haga bæri álagningu gjaldsins þannig að heimili með tvo einstaklinga sem greiða mundu gjaldið verði því næst sem jafnsett eftir upptöku gjaldsins. Samkvæmt þessu yrði gjaldið 17.200 kr., sem felur í sér rétt um 18% hækkun heildartekna Ríkisútvarpsins ohf. frá gildandi lögum. Tekjuaukning félagsins stafar að mestu af því að lögaðilar með sjálfstæða skattaðild greiða gjaldið nú, en greiddu það ekki áður. Rétt er að benda á að upptaka gjaldsins snertir gjaldendur með ólíkum hætti eftir því annars vegar hve margir deildu greiðslum afnotagjalds og hins vegar hvernig álagningin varðar einstaklinga og lögaðila. Þannig munu sumir verða undanþegnir gjaldinu og greiðslur þeirra sem eru einir í heimili munu í flestum tilvikum lækka.
    Í d-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að tveir nýir málsliðir bætist við 2. mgr. 11. gr. laganna þar sem við það verði miðað að gjalddagi skv. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna verði einn í stað 10 eins og kveðið er á um í tilvitnuðum ákvæðum laga um tekjuskatt. Er hér fylgt sömu málsmeðferð og gildir um greiðslu gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra. Nauðsynlegt þykir að kveða skýrt á um gjalddaga gjaldsins.
    Loks er í e-lið 1. gr. frumvarpsins lagt til að 3. mgr. 11. gr. laganna falli brott. Í lögum um Ríkisútvarpið ohf. og athugasemdum með frumvarpi því er varð að þeim lögum er skýrt að tekjur Ríkisútvarpsins ohf. af hinu sérstaka útvarpsgjaldi skv. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna taka mið af því gjaldi sem raunverulega innheimtist. Þannig skal áætla fyrir gjaldinu fyrir fram í fjárlögum og greiða til félagsins mánaðarlega 1/ 12 af áætluðum tekjum vegna gjaldsins árið á eftir. Þegar raunálagning liggur fyrir á haustmánuðum skal gera upp við félagið miðað við rauntekjur. Í þessu felst að ef innheimt fjárhæð gjaldsins verður hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir rennur mismunurinn til félagsins. Ef fjárhæðin reyndist á hinn bóginn lægri, getur það leitt til þess að félagið fái skert eða jafnvel ekkert rekstrarfé síðustu mánuði ársins. Miðað við efnahagshorfur má reikna með því að áætlun sem taki mið af greiðendafjölda 2008, þar sem byggt er á álagningu ársins 2007, feli í sér ofáætlun um fjölda greiðenda á árinu 2009. Þannig er skynsamlegt að reikna með því að greiðendur geti mögulega orðið færri en gengið er út frá í áætluninni. Í stað þess að búa við slíka óvissu þar sem Ríkisútvarpið yrði í áætlunum sínum að taka mið af slíkum aðstæðum er, eins og rakið hefur verið, lagt til að gjaldið greiðist í ríkissjóð. Af ákvæðum II. kafla laga um Ríkisútvarpið ohf. leiðir enn fremur að meginhlutverk félagsins er hvers konar útvarpsrekstur í almannaþágu. Þá er í 3. mgr. 3. gr. laganna tekið fram að menntamálaráðherra og Ríkisútvarpinu ohf. beri að gera sérstakan þjónustusamning um markmið, umfang og nánari kröfur um útvarpsþjónustu í almannaþágu, auk annarra atriða sem þar eru nánar greind. Af 6. mgr. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, leiðir að fylgja ber ákvæðum greinarinnar við gerð þjónustusamningsins. Í þessu ljósi þykir enn fremur rétt að láta innheimt gjald renna í ríkissjóð. Þannig fær félagið ekki gjaldið til sín og gera verður ráð fyrir að tekjur af gjaldinu muni ásamt öðru hafa áhrif á ákvörðun um greiðslur samkvæmt þjónustusamningi.
    Nefndin telur að við þessar aðstæður sé eingöngu rétt að afgreiða þann þátt sem varðar tekjustofn Ríkisútvarpsins ohf., en þar er gert ráð fyrir að tekið verði upp sérstakt gjald sem leggst á einstaklinga og lögaðila. Það skal þó tekið fram að meðal þeirra flokka sem skipa menntamálanefnd eru skiptar skoðanir um fyrirkomulag gjaldheimtu og rekstrarform Ríkisútvarpsins ohf. Enn fremur ítrekar nefndin að um er að ræða tímabundna ráðstöfun varðandi fjárhæð gjaldsins og önnur atriði frumvarps til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið ohf. sem lagt var fram á þessu þingi (þskj. 295, 218. mál).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin áréttar að þótt reglur sem varða takmörkun Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði séu ekki afgreiddar að svo stöddu, sbr. áðurnefnt frumvarp, þá verða þær áfram til meðferðar hjá menntamálanefnd. Nefndin telur eðlilegt að sá starfshópur sem starfað hefur á vegum menntamálaráðherra og fjallað hefur um stöðuna á íslenskum fjölmiðlamarkaði útfæri tillögur um takmörkun Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Samhliða leggi starfshópurinn fram tillögur að reglum um eignarhald á fjölmiðlum. Þetta skuli gert eigi síðar en 15. febrúar 2009.
    Við umfjöllun um málið kom til tals sá möguleiki að lögfesta ákvæði sem kveði á um bann við því að Ríkisútvarpið afli sér auglýsingatekna að eigin frumkvæði. Nefndin telur hins vegar ekki ástæðu til að gera tillögur um slíkt bann að sinni en beinir þeim tilmælum til Ríkisútvarpsins að ganga hóflega fram þar til málið hefur verið afgreitt á Alþingi.