Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 246. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 425  —  246. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund nefndarinnar komu Halldór Árnason frá forsætisráðuneyti, Vigfús Ásgeirsson frá Talnakönnun og Þórey Þórðardóttir frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á eftirlaunakjörum alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara í því skyni að koma á meira samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings. Í fyrsta lagi er lagt til að aldurslágmark alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara til töku eftirlauna verði hækkað úr 55 árum í 60 ár. Í öðru lagi er lagt til að réttindaávinnsla þeirra verði 2,375% fyrir hvert ár í embætti í stað 3% ávinnslu hjá alþingismönnum og 6% hjá ráðherrum og hæstaréttardómurum. Í þriðja lagi er lagt til að þessir hópar geti ekki notið samtímis eftirlauna og launa frá ríkinu og launagreiðslur komi að fullu til frádráttar eftirlaunum. Skerðingarregla gildandi laga gildir áfram um launagreiðslur vegna starfa hjá öðrum aðilum. Í fjórða lagi er lagt til að sérákvæði um eftirlaunakjör forsætisráðherra verði felld á brott þannig að um fyrrverandi forsætisráðherra gildi eftirleiðis sömu reglur og um aðra ráðherra. Loks er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að áunnin réttindi alþingismanna og ráðherra skerðist ekki. Þá er ráðgert að þær breytingar sem lagðar eru til á 15. gr. laganna gildi einungis um þá hæstaréttardómara sem skipaðir verða eftir fyrirhugaða gildistöku frumvarpsins.
    Innan nefndarinnar komu fram sjónarmið um ýmsar frekari breytingar eða aðrar útfærslur á fyrirkomulagi eftirlauna þeirra sem undir þessi lög heyra og telur meiri hluti allsherjarnefndar að slík skoðun þurfi að eiga sér stað.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Ellert B. Schram skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 19. des. 2008.Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.Ellert B. Schram,


með fyrirvara.


Ólöf Nordal.


Karl V. Matthíasson.