Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 213. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 447  —  213. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Guðmund Jóhann Árnason frá fjármálaráðuneyti.
    Frumvarpinu er ætlað að treysta lagagrundvöll álagningar stimpilgjalds vegna tilgreindra skjala. Er það lagt fram í kjölfar álits umboðsmanns í máli nr. 4712/2006.
    Nefndin ræddi á hverjum skylda til að greiða gjaldið hvíli, hverjar tekjur væru af gjaldinu og tengsl stimpilskyldu og þinglýsingar í ljósi tilvísunar frumvarpsins til þinglýsingar. Nefndin ræddi einnig áform í stjórnarsáttmálanum um afnám stimpilgjalds.
    Fram kom að lög um stimpilgjald mæltu ekki afdráttarlaust fyrir um á hverjum stimpilskylda hvíli heldur væri það jafnan komið undir samkomulagi hlutaðeigandi aðila. Þegar um gjaldtöku samkvæmt frumvarpinu væri að ræða mætti gera ráð fyrir því að gerðarbeiðandi legði út fyrir gjaldinu en að gerðarþoli beri kostnaðinn endanlega þegar um er að ræða lið í innheimtuaðgerðum.
    Fram kom að stimpilskylda væri miðuð við útgáfu skjals en í framkvæmd hefði greiðsla verið innt af hendi við þinglýsingu. Ekki stæði til að breyta þeirri framkvæmd. Þá kom fram að tekjur af gjaldi því sem frumvarpið mælir fyrir um nemi um það bil 5% af heildartekjum af stimpilgjaldi á ári eða sem svarar 320 millj. kr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Lúðvík Bergvinsson og Birkir J. Jónsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Bjarni Benediktsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. des. 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson.



Birkir J. Jónsson,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.


Katrín Jakobsdóttir.



Rósa Guðbjartsdóttir.