Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 450  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2009.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Eftir að fram hafði farið 2. umræða um frumvarp til fjárlaga 2009, með miklu magni breytingartillagna frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar, voru þær samþykktar af stjórnarmeiri hlutanum á Alþingi. Minni hlutinn vísar í ítarlegt nefndarálit sitt sem lagt var fram við 2. umræðu um frumvarpið. Mikill þrýstingurinn hefur verið á umfjöllun um frumvarpið í nefndinni og tímapressan sem lögð er á alla aðila við vinnslu málsins er í senn óþolandi og skapar aðstæður fyrir óvönduð vinnubrögð og mistök. Eitt af því sem hefur einkennt störf fjárlaganefndar síðustu daga og vikur er bið eftir upplýsingum og tillögum frá fjármálaráðuneytinu og hefur það gert alla vinnu erfiðari en ella og takmarkað þann tíma sem nefndinni hefur verið gefinn í sínum störfum. Þetta verklag sýnir betur en margt annað hver staða Alþingis er gagnvart framkvæmdarvaldinu. Fjárlaganefnd fjallaði ekki um breytingartillögur um frumvarpið sem afgreiddar voru eftir 2. umræðu með fulltrúum ráðuneyta fyrr en eftir að tillögurnar voru samþykktar af stjórnarmeirihlutanum á Alþingi. Það að ekki skuli hafa verið svigrúm hjá nefndinni til að fjalla um breytingartillögurnar með fulltrúum ráðuneytanna áður en nefndin afgreiddi tillögurnar til 2. umræðu er einstakt og í reynd mjög gagnrýnisvert. Við umfjöllun fulltrúa ráðuneytanna um tillögurnar komu fram ýmsar upplýsingar um einstaka mál sem fjárlaganefnd hefði þurft að fá fram mun fyrr, áður en 2. umræða fór fram.
    Sem dæmi um það má nefna að í breytingartillögunum er gert ráð fyrir tilfærslum fjárheimilda milli einstakra heilbrigðisstofnana víða um landið með því fororði að um sameiningar og hagræðingu væri að ræða. Eftir að tillögurnar höfðu verið samþykktar af stjórnarmeirihlutanum á Alþingi og fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins komu til fundar við fjárlaganefnd komu fram þær upplýsingar að unnið væri að yfirgripsmiklum sameiningum heilbrigðisstofnana innan heilbrigðisumdæma á stórum landsvæðum. Samkvæmt upplýsingum minni hlutans hefur ekkert samráð verið haft um þessi áform við heimaaðila á viðkomandi svæðum, sveitarstjórnir og starfsfólk heilbrigðisstofnana. Því síður hafa borist upplýsingar um það hver áhrifin verða á rekstur og þjónustustig heilbrigðisþjónustunnar á þessum landsvæðum. Minni hlutinn lýsir áhyggjum vegna þessara áforma varðandi þjónustustig og öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Hér er um að ræða allt aðrar og mun umfangsmeiri sameiningar stofnana en þingmenn töldu vera við umfjöllun í fjárlaganefnd og það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Eftir þetta hefur komið í ljós að einstaka þingmenn hafa ekki verið með á nótunum hvað þetta varðar og þessar upplýsingar hafa komið þeim í opna skjöldu.
    Þetta er lýsandi fyrir það að þingið hefur enga möguleika á því að vita hvað verið er að samþykkja eða hvaða afleiðingar það hefur né geta þingmenn almennt á nokkurn hátt gert sér grein fyrir heildarmynd mála. Umfjöllun og afgreiðsla fjárlaganna er með þeim hraða og tætingslega hætti að þingmenn hafa hreinlega ekki þær forsendur sem nauðsynlegar eru til þess að setja sig inn í málið eins og vera þyrfti. Án þess að gera lítið úr þingmönnum efast minni hlutinn um að margir þingmenn stjórnarmeirihlutans geri sér fulla grein fyrir því sem frumvarpið og breytingartillögurnar fela í sér og hver heildaráhrifin verða fyrir samfélagið. Minni hlutinn bendir á að þegar fall bankanna varð og í margar vikur eftir það fór lítil vinna fram í fjárlaganefnd Alþingis sem miðaði að því að greina áfallið og fjalla um það. Það er nefnilega þannig að menn tala oft fjálglega um daginn og veginn þegar allt gengur sinn gang, en þegar eitthvað bjátar á sitja menn oft þögulir og róa fram í gráðið. Sá hefur verið háttur ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans sem hún styðst við á Alþingi.
    Minni hlutinn bendir á að þrátt fyrir mikinn mannauð sem felst í þekkingu og reynslu alþingismanna og starfsfólks Alþingis var sá mannauður lítið og alls ekki nægilega notaður við greiningu vandans, til að fjalla um málin og leita lausna á þeim miklu efnahagserfiðleikum sem sköpuðust við fall bankanna. Minni hlutinn harmar að enginn raunverulegur vilji var til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að taka í útrétta hönd stjórnarandstöðunnar í októbermánuði og virkja þá þekkingu og reynslu sem þar er fyrir hendi og boðin var fram. Sama má segja um þingmenn stjórnarmeirihlutans, þeir búa einnig yfir sömu kostum, en ekki var að sjá að þeir væru virkjaðir að neinu marki til að vinna að lausnum. Ríkisstjórnin hefur haldið öllum þessum málum í fangi sér og skammtar Alþingi sínar lausnir og ákvarðanir, nánast tilviljanakennt, seint og illa. Það er mikill ábyrgðarhluti að allt þetta fólk sitji nánast aðgerðarlaust meðan hamfara ástand hefur ríkt í efnahagsmálum þjóðarinnar. Björgunarsveitin var þannig látin bíða aðgerðalaus meðan þeir sem voru á slysstað voru nánast látnir sjá um sig sjálfir. Þessi framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi og almenningi í landinu er í senn ólýðræðisleg og óþingleg. Ekki síst á erfiðleika- og óvissutímum er mikilvægt að virða lýðræðislegar grunnstoðir þjóðfélagsins. Minni hlutinn ítrekar að strax við fall bankanna bauð stjórnarandstaðan fram krafta sína til sameiginlegs átaks, en ríkisstjórnin þáði ekki það boð.
    Eins og minni hlutinn hefur vakið athygli á hefur verklagið við umfjöllun og afgreiðslu frumvarpsins og breytingartillagna verið gagnrýnisvert, sérstaklega vegna tímahraks og flausturslegra vinnubragða. Það eru vinnubrögð sem ekki eiga að viðgangast á Alþingi Íslendinga og eru ekki til þess fallin að auka traust og virðingu almennings fyrir löggjafarvaldinu. Í þessu sambandi vísar minni hlutinn til álits Lögmannafélags Íslands sem hefur gagnrýnt hroðvirknisleg og óvönduð vinnubrögð Alþingis við umfjöllun og afgreiðslu mála í þinginu. Minni hlutinn tekur undir þessa gagnrýni lögmannafélagsins og krefst þess að Alþingi beiti sér af fullu afli til þess að vinnubrögðin verði eins og lög og reglur kveða á um, en láti ekki framkvæmdarvaldið algerlega stjórna ferðinni með þeim afleiðingum sem allir sjá. Stjórnarmeirihluti þingmanna ber meginábyrgð á því að Alþingi starfar með þessum hætti. Þeir eiga ekki að láta ráðherra sína komast upp með að hafa þau áhrif og völd sem eru staðreynd og ráða hvað mestu um vinnulag þingsins.
    Fulltrúar fjármálaráðuneytisins mættu á fund fjárlaganefndar að morgni föstudagsins 19. desember og kynntu tillögur frá ríkisstjórninni um breytingar á frumvarpinu fyrir 3. umræðu á Alþingi. Fjárlaganefnd hélt tvo fundi um málið þann dag. Eftir að fjárlaganefnd hafði haft breytingartillögur ríkisstjórnarinnar til skoðunar í örfáar klukkustundir ákvað meiri hluti nefndarinnar að afgreiða frumvarpið og breytingartillögurnar úr nefndinni til 3. umræðu og gerði tillögurnar að sínum. Minni hlutinn lagðist gegn því að nefndin hætti umfjöllun um frumvarpið og breytingartillögurnar á þeim tímapunkti, enda vantaði margar mikilvægar upplýsingar og forsendur er varða frumvarpið. Auk þess er það álit minni hlutans að þingmenn hafi ekki haft tækifæri til þess að gera sér fulla grein fyrir tillögunum, afleiðingum þeirra og eðli. Minni hlutinn telur að enn þá sé ekki forsvaranlegt að Alþingi afgreiði frumvarpið svo ófullkomið og vanreifað sem það er. Það er mat minni hlutans að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafi gefist upp við að vinna að gerð ábyrgra fjárlaga. Jafnframt er það mat minni hlutans að stór hluti þingheims geti ekki og hafi ekki forsendur til þess að gera sér grein fyrir því hvað frumvarpið og breytingartillögurnar fela í sér og hver áhrifin af þessu mikla niðurskurðarfrumvarpi verða á samfélagið í heild. Þótt nokkur tilraun sé gerð til þess að meta fjárskuldbindingar ríkissjóðs og þjóðarbúsins á árinu 2009 mun þar skeika hundruðum milljarða til eða frá. Ekkert mat liggur fyrir um greiðslugetu ríkissjóðs og þjóðarbúsins á næstu árum. Þessi vinnubrögð eru ekki boðleg og þjóna ekki hagsmunum almennings í landinu.
    Þá geta ómarkviss og götótt fjárlög aldrei orðið það hagstjórnartæki sem þeim er ætlað að vera. Ef fjármálastefna stjórnvalda verður ekki í samræmi við peningamálastefnuna er hætt við að illa gangi að halda ríkisfjármálum í því horfi sem gert er ráð fyrir í samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
    Samkvæmt breytingartillögum ríkisstjórnarinnar, sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert að sínum, er áætlaður halli fjárlaga 153 milljarðar kr. á rekstrargrunni. Fjármálaráðuneytið gerir fyrirvara um niðurstöður um vaxtakostnað vegna erlendra innlánsreikninga bankanna, upplýsingar þar um liggja ekki fyrir. Sú aðferð að samþykkja fjárlög með þessu stóra gati er ekki til þess fallið að skapa hagstjórninni trúverðugleika.

Tekjuáætlun.
    Í breytingartillögum meiri hlutans við tekjuáætlun felast auknar tekjur sem nema alls 6,7 milljörðum kr. á rekstrargrunni. Samkvæmt því eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 402,5 milljarðar kr. 2009. Gert er ráð fyrir að skatttekjur aukist um 6,6 milljarða kr. Um er að ræða 2,2 milljarða kr. vegna hærra hlutfalls tekjuskatts á einstaklinga og fjármagnstekjuskatts að fjárhæð 589 millj. kr. sem ríkissjóður greiðir sjálfur og þá er nýr skattur vegna Ríkisútvarpsins upp á 3,8 milljarða kr., en þær tekjur renna til Ríkisútvarpsins á gjaldahlið. Aðrar rekstrartekjur lækka um 2,9 milljarða kr. þar sem afnotagjöld til Ríkisútvarpsins eru lögð af. Þá er gert ráð fyrir að seldar verði fasteignir erlendis sem skili tekjum að fjárhæð 3 milljarðar kr., en þar er um að ræða sölu á sendiherrabústöðum í New York, Washington, London og Ósló. Þess ber að geta að gert er ráð fyrir að leigja þurfi húsnæði eða kaupa ódýrari eignir í staðinn, þannig að hér er a.m.k. að hluta til um að ræða sýnda veiði en ekki gefna varðandi fjárhagslegan ávinning ríkissjóðs.
    Í nefndaráliti minni hlutans fyrir 2. umræðu um frumvarpið voru gerðar alvarlegar athugasemdir við að allar forsendur tekjuáætlunar vantaði. Þrátt fyrir formlegar og ítrekaðar óskir þar um höfðu þær upplýsingar ekki borist. Eftir að Alþingi hafði samþykkt tekjuáætlun eins og hún lá fyrir við 2. umræðu barst fjárlaganefnd bréf frá fjármálaráðuneytinu, dags. 17. desember, þar sem gerð er ítarleg grein fyrir forsendum tekjuáætlunar eins og hún var afgreidd eftir 2. umræðu. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að þessar forsendur hafi ekki legið fyrir í fjárlaganefnd áður en nefndin afgreiddi tekjuáætlunina til 2. umræðu og áður en stjórnarmeirihlutinn samþykkti hana. Þar sem þessar upplýsingar höfðu ekki borist fyrr liggur fyrir að stjórnarmeirihlutinn hafði ekki eðlilegar forsendur til að leggja mat á tekjuáætlunina áður en hún var samþykkt á Alþingi. Þessi vinnubrögð stjórnarmeirihlutans eru lýsandi fyrir það sem á sér stað á Alþingi um þessar mundir og eru langt frá því að geta talist ábyrg og eðlileg. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega þessi vinnubrögð og vísar til ábyrgðar stórnarmeirihlutans á þeim.
    Fjárlaganefnd barst álit frá efnahags- og skattanefnd varðandi tekjuáætlun. Þingmennirnir Pétur H Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar og Ögmundur Jónasson fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni mættu á fund fjárlaganefndar og gerðu grein fyrir álitum um tekjuáætlunina. Þeir voru sammála um að mjög mikil óvissa væri ríkjandi og að tekjuáætlun sé alls ekki raunhæf. Að öðru leyti er vísað í framangreind álit sem eru birt sem fylgiskjöl með nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar.
    Minni hlutinn telur að mikil óvissa geri það að verkum að tekjuáætlun geti ekki talist raunhæf og hefur minni hlutinn áhyggjur af því að í áætluninni séu tekjur ríkissjóðs ofmetnar. Það á fyrst og fremst við um tekjuskatta einstaklinga og lögaðila, með tilvísun í mjög alvarlegt ástand sem er á vinnumarkaði og í atvinnustarfsemi almennt og að horfur í þeim efnum eru ekki góðar. Samkvæmt spám má gera ráð fyrir auknu atvinnuleysi og meiri samdrætti í atvinnustarfseminni þegar líður á árið 2009.

Gjaldahlið.
    Í breytingartillögum meiri hlutans koma fram nokkrar tillögur um aðgerðir til að lækka útgjöld og nema þær alls 2,9 milljörðum kr. Þessar tillögur fela fyrst og fremst í sér niðurskurð á stofnkostnaði og framkvæmdum. Sem dæmi um það nemur lækkun fjárheimilda vegna stofnkostnaðar öldrunarstofnana 200 millj. kr. Lækkun fjárheimilda vegna stofnkostnaðar á nokkrum fjárlagaliðum heilbrigðisráðuneytis alls 130 millj. kr. Loks er um að ræða lækkun fjárheimilda alls 1,5 milljörðum kr. hjá samgönguráðuneyti, þar er um að ræða niðurskurð á vegaframkvæmdum sem nemur 500 millj. kr. til viðbótar við 5,5 milljarða kr. niðurskurð samkvæmt breytingartillögum við 2. umræðu. Draga á úr hafnarframkvæmdum upp á 250 millj. kr., fresta á smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og skera niður 600 millj. kr., loks er tillaga um að draga úr framkvæmdum á lið flugvalla og flugleiðsöguþjónustu að fjárhæð 200 millj. kr.
    Á móti breytingartillögum til niðurskurðar útgjöldum eru tillögur um aukin útgjöld að fjárhæð alls 3,5 milljarðar kr. Loks eru fjölmargar sundurliðaðar tillögur til aukinna útgjalda að fjárhæð 13,1 milljarður kr. vegna uppreiknings á áhrifum launa, verðlags og gengis krónunnar. Í frumvarpi til fjárlaga var almennt miðað við 5,4% verðlagshækkanir, en endurskoðuð spá gerir ráð fyrir að verðbólga milli ára verði 14,3%. Í frumvarpinu var gengið út frá þeirri forsendu að gengisvísitala krónunnar verði óbreytt frá stöðu 3. september sl., en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir mun hærri gengisvísitölu, eða 200 stigum.
    Samkvæmt ákvæðum frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þskj. 357, mál 243, er gert ráð fyrir að hækkun bóta almannatrygginga verði óbreytt miðað við forsendur í frumvarpinu, það sama gildi um framlög samkvæmt búvörusamningum. Minni hlutinn bendir á að þetta leiðir til þess að viðkomandi greiðslur munu rýrna að raunvirði eða sem nemur mismuninum á raunverulegum verðlagsbreytingum og 5,4% áætlun fjárlaga og þar með skila lægri rauntekjum til þjóðfélagshópa og minnkandi kaupmætti.

Vaxtagjöld.
    Það liggur í augum uppi að vegna falls bankakerfisins og allra þeirra gríðarlegu skuldbindinga sem ríkissjóður þarf að gangast undir þess vegna verður vaxtakostnaður ríkissjóðs mjög mikill á næstu árum. Fjármálaráðuneytið lagði fyrir fjárlaganefnd vaxtaáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2009. Samkvæmt þeirri áætlun er gert ráð fyrir að vaxtakostnaður verði alls 86,9 milljarðar kr. Vaxtagjöld vegna lána ríkissjóðs eru áætluð 41 milljarður kr., en voru áætluð 34,7 milljarðar kr. í frumvarpi til fjárlaga 2009. Vaxtakostnaður sem tengist falli bankakerfisins er áætlaður yfir 45 milljarðar kr. Samkvæmt þessu er áætlaður vaxtakostnaður 21,6% af áætluðum tekjum ríkissjóðs 2009, en ekki er gert ráð fyrir vaxtakostnaði vegna væntanlegra skuldbindinga ríkissjóðs vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Hollandi og Bretlandi. Mikil óvissa er um hve mikill sá kostnaður verður. Hér er um að ræða gríðarlega háar fjárhæðir sem ríkissjóður þarf væntanlega að standa skil á. Þetta veldur því að mjög þrengir að varðandi fjárheimildir til alls konar starfsemi ríkisins, svo sem á sviði velferðar-, heilbrigðis- og menntamála. Það er því augljóst að áhrifin af falli bankanna setja þessa málaflokka í mikla hættu og leggur minni hlutinn áherslu á að þessa málaflokka verður að verja. Betur þarf að gera í því en fram kemur í frumvarpinu og þeim breytingartillögum sem fram hafa komið af hálfu ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans.

Fjármögnunarþörf ríkissjóðs vegna falls bankanna.
    Á fundi fjárlaganefndar 19. desember lögðu fulltrúar fjármálaráðuneytisins fram minnisblað, dags. 18. desember um sérstök framlög vegna falls bankanna. Þar er fjallað um fjármögnunarþörf ríkissjóðs og er þá miðað við lán ríkissjóðs 2008, endurfjármögnun og fjármögnunarþörf.     Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að ríkissjóður gefi út skuldabréf til Seðlabanka Íslands að fjárhæð 285 milljarðar kr. til að mæta veð- og daglánatöpum bankans. Í öðru lagi er um að ræða yfirtekin tryggingabréf til aðalmiðlara með ríkisverðbréf að fjárhæð 65 milljarðar kr. og færð til skuldar samsvarandi fjárhæð ríkisbréfa. Í þriðja lagi er lán til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð. Ríkissjóður hefur fengið erlend lánsloforð vegna efnahagsvandans að jafnvirði 750 milljarðar kr. Nú er gert ráð fyrir að 105 milljarðar kr. af þeim heimildum verði greiddir til Seðlabanka til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð bankans. Andvirði þess fjár verði nýtt til að kaupa innleyst tryggingabréf af Seðlabanka vegna veð- og daglána bankans sem verði nýtt til greiðslu á eiginfjárframlagi ríkissjóðs til nýju viðskiptabankanna þriggja. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir eiginfjárframlagi til nýju viðskiptabankanna þriggja að fjárhæð 385 milljarðar kr.
    Samtals er um að ræða 840 milljarða kr. fjármögnunarþörf sem er sundurgreind hér að framan. Tekið skal fram að hér er ekki gert ráð fyrir fjármögnunarþörf vegna hallareksturs ríkissjóðs.
    Minni hlutinn vekur sérstaka athygli á þessum fjárhæðum. Um er að ræða hluta af þeim miklu skuldbindingum sem almenningur í landinu þarf að standa undir vegna falls bankanna. Það er ljóst að áhrifin af því munu vara í mörg ár og bitna á komandi kynslóðum sem á engan hátt bera ábyrgð á því sem gerst hefur.
    Samkvæmt því sem fram hefur komið hjá yfirmanni sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi mun kostnaðurinn við að endurreisa bankakerfið og endurfjármagna Seðlabankann verða á bilinu 85–90% af landsframleiðslu sem er mjög hátt hlutfall í öllum samanburði. Hins vegar eru um 60% af þeim kostnaði innlend og þess vegna hvílir endurreisnin mest á því að taka til heima fyrir. Ef miðað er við að landsframleiðsla sé nálægt 1.300 milljörðum kr. gæti þessi kostnaður legið í kringum 1.000 milljarða kr.

Heimildargreinar.
    Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar eru allmargar tillögur er varða 6. gr. frumvarpsins, heimildargrein. Þar kennir ýmissa grasa. Minni hlutinn beinir því til fjármálaráðherra og fjárlaganefndar að sú regla verði tekin upp að ef fjárútlát samkvæmt þessari heimildargrein stefni í að fara umfram tiltekna fjárhæð beri að leggja fram mat á því hvaða kostnað viðkomandi heimildir munu fela í sér. Í því sambandi er vísað í reglur sem gilda um kostnaðarmat lagafrumvarpa sem lögð eru fram af ríkisstjórninni. Slík vinnubrögð mundu bera merki um meiri aga í ríkisfjármálum, auk þess sem það er eðlilegt að Alþingi fái slíkar upplýsingar og þannig sé ljóst um hvað er að ræða þegar þingið samþykkir slíkar heimildir.

Niðurlag.
    Minni hlutinn ítrekar að rekstur heilbrigðis- og öldrunarstofnana hefur verið með uppsöfnuðum halla, en að hluta til er tekið á því í fjáraukalögum 2008. Hins vegar munu þessar stofnanir hefja rekstrarárið 2009 með talsverðan uppsafnaðan halla, auk þess sem fjárheimildir þeirra eru skornar niður í þessu þessu frumvarpi. Minni hlutinn lýsir miklum áhyggjum af þessu ráðslagi ríkisstjórnarinnar og spáir því að þessar stofnanir verði fljótlega komnar í mikinn rekstrarvanda ef miðað er við óbreytt þjónustustig. Minni hlutinn óttast að ráðist verði í að draga úr þjónustu til að mæta þessum rekstrarvanda en það kæmi mjög illa niður á velferðarþjónustunni og öllum þeim sem þurfa á henni að halda.
    Minni hlutinn vekur sérstaka áherslu á þeirri „nýbreytni“ að sjúklingar sem þurfa á þjónustu sjúkrahúsa að halda greiði gjald fyrir. Það er ástæða til að vekja athygli á því að þessu nær Sjálfstæðisflokkurinn fram með dyggum stuðningi Samfylkingarinnar. Hér er um nýjan sjúklingaskatt að ræða sem að sjálfsögðu kemur illa niður á þeim sem þurfa á þjónustu sjúkrahúsa að halda.
    Vegna þess mikla niðurskurðar ríkisútgjalda sem birtist holt og bolt um allt kerfið telur minni hlutinn að afleiðingarnar verði þær að margir einstaklingar muni missa störf sín. Það muni leiða til þess að álag á atvinnuleysistryggingarnar muni aukast með auknum útgjöldum. Minni hlutinn vísar allri ábyrgð af því á ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann á Alþingi. Hætt er við því að þessar aðgerðir muni leiða af sér meiri ríkisútgjöld en niðurskurðinum nemur. Hér er því um kolranga forgangsröðun og aðferðafræði að ræða sem mun þegar fram líður auka á misrétti og valda samfélaginu miklu tjóni.
    Minni hlutinn lýsir yfir áhyggjum sínum af því að lagt sé af stað inn í framtíðina með jafnilla grundaðar áætlanir og óskýra framtíðarsýn og hér birtist. Með því er átt við að engin rekstraráætlun hefur verið lögð fram til fjögurra ára sem birtir framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar á það hver rekstrarniðurstaðan sé líkleg til að verða. Engar áætlanir hafa verið lagðar fram um hver sé áætluð skuldastaða þjóðarbúsins og ríkissjóðs ár frá ári næstu fjögur árin. Engin greiðsluáætlun liggur fyrir og ekkert mat á því undir hve háum greiðslum afborgana og vaxta ríkissjóður og þjóðarbúið geta staðið. Lánskjör þeirra lána sem fyrirhugað er að taka liggja ekki fyrir. Ekki liggur fyrir til hve langs tíma seðlabankar Bretlands og Hollands eru reiðubúnir að lána vegna Icesave-reikninganna. Þá liggur ekki fyrir lánsloforð Hollendinga heldur einungis viljayfirlýsing og er það undir ríkisstjórninni komið hvort hún fær það lán eða ekki. Minni hlutinn varar við þeirri hættu sem stafar af mögulegri hækkun vaxta á lánstímanum. Þegar skuldastaða þjóðarbúsins er orðin jafnviðkvæm og í stefnir má engu muna til að illa fari. Þá bendir minni hlutinn á að ekkert liggur fyrir um kjör vegna hugsanlegrar endurfjármögnunar.
    Minni hlutinn telur að ekki sé unnt að vinna að trúverðugu fjárlagafrumvarpi á þann hátt sem meiri hlutinn gerir. Ef fjárlög verða samþykkt út frá þessum hæpnu forsendum sem liggja til grundvallar og ítarlega hefur verið fjallað um hér að framan munu þau ekki gefa rétta mynd af því sem fram undan er. Né heldur geta þau verið raunhæft og sanngjarnt stjórntæki ríkisfjármála eins og þeim er ætlað að vera.
    Vakin er athygli á að eftirlitskerfi ríkisins hefur ekki staðið undir sínu hlutverki. Í því sambandi má benda á að fjárlög hafa ekki staðist árum saman, frávikagreining fjármálaráðuneytisins er ómarkviss og bendir minni hlutinn á að fjármálaráðuneytið vinnur skýrslur um framkvæmd fjárlaga fyrir hvern ársfjórðung, en til þessa hefur ekki verið unnin slík skýrsla fyrir síðasta ársfjórðung liðinna ára. Minni hlutinn bendir á að ríkisreikningur kemur allt of seint fram ár hvert í stað þess að vera til staðar skömmu eftir áramót eins og er hjá fyrirtækjum sem taka sig alvarlega.
    Minni hlutinn vekur athygli á að margt hefur komið fram sem bendir til þess að rekstrarhalli ríkissjóðs næstu fjögur árin geti numið tekjum eins fjárlagaárs. Enn hefur ekkert komið fram sem dregur úr ótta minni hlutans við að skuldastaða ríkissjóðs geti á einhverjum tímapunkti numið vel á annað þúsund milljarða króna og að á móti þeim skuldum standi óvissar eignir í þrotabúum gömlu bankanna sem ekki hafa enn verið verðmetnar opinberlega.
    Minni hlutinn vekur athygli á að líklegt er að fjármagna þurfi lánsfjárþörf landsmanna innan lands á næstu árum. Ástæðan er sú að ólíklegt er að erlendir aðilar treysti sér til að lána ríkissjóði, fyrirtækjum og sveitarfélögum á öðrum forsendum en pólitískum og að sú fyrirgreiðsla verði fullnýtt á næstunni.
    Þá leggur minni hlutinn þunga áherslu á hlutverk Alþingis og fjárlaganefndar við eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Við þær aðstæður sem nú hafa komið upp verður þetta eftirlit mikilvægara en áður og því ber að leggja sérstaka áherslu á það.
    Minni hlutinn leggur áherslu á það að Alþingi fjalli um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2009 á vorþingi 2009. Eins og minni hlutinn hefur ítrekað bent á vantar mikilvægar upplýsingar og forsendur fjárlaganna. Þegar líður fram á árið 2009 munu margir hlutir skýrast smám saman, t.d. um væntanlegar skuldbindingar ríkissjóðs varðandi uppgjör á innstæðureikningum Icesave í Bretlandi og Hollandi. Þar verður væntanlega um að ræða mjög stórar fjárhæðir sem fjalla þarf um í tengslum við fjáraukalög næsta árs. Þá hefur komið fram að endurskoðuð þjóðhagsáætlun fjármálaráðuneytisins verður birt í janúar. Samkvæmt samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mun sjóðurinn meta framvindu mála ársfjórðungslega. Miklir óvissuþættir eru varðandi fall bankanna og verðmæti eigna þeirra. Allt þetta hefur það sín áhrif á forsendur fjárlaga og er líklegt að þau mál skýrist með einhverjum hætti þegar líður á árið 2009.
    Í ljósi þess sem að framan greinir gerir minni hlutinn eftirfarandi

BREYTINGARTILLÖGU:



    Við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009 bætist ný grein sem orðist svo:
    Fjárlög fyrir árið 2009 skulu koma til endurskoðunar á Alþingi með sérstöku frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2009.

Alþingi, 20. des. 2008.



Magnús Stefánsson,


frsm.


Guðjón A. Kristjánsson.


Jón Bjarnason.