Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 465  —  239. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2008.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.    Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umræðu og leitað m.a. skýringa hjá ráðuneytum. Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við sundurliðun 2 sem nema alls 1.367,2 m.kr. til hækkunar gjalda. Engar breytingar eru gerðar á tekjugrein frumvarpsins frá 1. umræðu. Breytingar eru á sjóðstreymi ríkissjóðs í 2. gr. í ljósi frekari gjalda, sbr. sundurliðun 2.
    Fulltrúar frá fjármálaráðuneyti komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekju- og gjaldahlið frumvarpsins, en nokkrar breytingar komu frá ríkisstjórn fyrir 3. umræðu. Þá hefur nefndin kallað eftir sérstökum skýringum frá Fjármálaeftirlitinu og viðskiptaráðuneytinu á ósk um viðbótarfjárveitingu að upphæð 549 m.kr. vegna aukakostnaðar sem féll á Fjármálaeftirlitið í kjölfar neyðarlaga, nr. 125/2008. Ítarlegt minnisblað var lagt fram á fundi nefndarinnar vegna þess.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til efnahags- og skattanefndar þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um lánsfjárheimildir og tekjuhlið frumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar telur að í framtíðinni geti það verið kostur að vísa breyttum tekju- og lánsfjárheimildum á fjáraukalögum hverju sinni til efnahags- og skattanefndar til umsagnar. Hafa háttvirtur formaður fjárlaganefndar og háttvirtur formaður efnahags- og skattanefndar rætt slíkt fyrirkomulag. Það mundi án efa styrkja efnis- og málsmeðferð þingsins.
    Mikilvægur þáttur í störfum fjárlaganefndar er eftirlitshlutverk nefndarinnar með framkvæmd fjárlaga. Þar hefur verið unnið náið með Ríkisendurskoðun og fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Til þess að eftirlitsþátturinn geti orðið enn virkari þarf að bæta aðgang þingsins að upplýsingakerfum.
    Meiri hlutinn vísar til beiðni forstöðumanns nefndasviðs Alþingis til fjársýslustjóra þar sem óskað var eftir skoðunaraðgangi að helstu upplýsingakerfum ríkisins fyrir fjárlaganefnd Alþingis. Í beiðninni felst ósk um aðgang að sömu vefskýrslum og eru til notkunar hjá Ríkisendurskoðun. Jafnframt þarf fyrirspurnar- og skoðunaraðgang að nokkrum öðrum kerfum. Í svörum Fjársýslu ríkisins kemur fram að Fjársýslan hafi yfirumsjón með þessum kerfum fyrir hönd fjármálaráðuneytisins og muni því vísa þessu erindi til ráðuneytisins. Beiðni nefndarinnar hefur síðan verið ítrekuð á fundi fjárlaganefndar með fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Meiri hluti fjárlaganefndar vill nú enn á ný ítreka mikilvægi þess að aðgangur að kerfunum sé veittur.
    Á reglulegum fundum með fjárlaganefnd fer fjárreiðu- og eignaskrifstofa fjármálaráðuneytisins yfir árshlutaskýrslur fjármálaráðuneytisins um framkvæmd fjárlaga. Eru þær gerðar vegna fyrirmæla í 9. gr. reglugerðar nr. 1061/2004 um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta. Þá er jafnframt tilkynnt að fjármálaráðuneytið sendi ráðuneytum bréf þar sem mælst er til þess að þau afli skýringa forstöðumanna eftir því sem við á með tilliti til þess að um umframgjöld sé að ræða og upplýsi fjármálaráðuneytið um fyrirhugaðar aðgerðir í kjölfarið.
    Í ljósi laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og fyrrgreinda reglugerð um sama mál vill fjárlaganefnd Alþingis ítreka mikilvægi þess að ráðuneyti bregðist skjótt við og svari beiðni um áðurnefndar upplýsingar.
    Meiri hlutinn minnir á frumkvæðisskyldu ráðuneyta við eftirlit, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 1061/2004 og skyldur forstöðumanna vegna umframútgjalda, sbr. 15. gr. sömu reglugerðar. Ríkisendurskoðun hefur komið sömu sjónarmiðum á framfæri í skýrslum um framkvæmd fjárlaga og tekur fjárlaganefnd Alþingis undir þau sjónarmið.
    Meiri hlutinn telur afar mikilvægt að ráðuneyti leggi sjálfstætt mat á framkomnar skýringar, sbr. 17. gr. reglugerðarinnar, og minnir á ábyrgð ráðuneytisins skv.18. gr. hennar en þar segir: „Ráðuneyti ber ábyrgð á því að forstöðumaður grípi til nauðsynlegra úrræða til þess að ráða bót á rekstrarvandanum. Það getur sett forstöðumanni og eftir atvikum stjórn stofnunar tímafrest til þess að bregðast við fyrirmælum sínum um úrbætur.“ Þá skal bent á að í þeim tilfellum sem frávik frá fjárheimildum er hærra en 4% skulu gefnar ítarlegar upplýsingar um hvaða fyrirmæli voru gefin til að ná markmiðum fjárheimilda.
    Meiri hluti fjárlaganefndar hefur talið mikilvægt að styrkja yfirferð þingsins á lokafjárlögum. Má í þeim efnum minna á að í þingskjali 1084 við umræðu lokafjárlaga 2006 benti meiri hlutinn á að rúmlega tíu ár eru liðin síðan lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, tóku gildi. Með þeim var mörkuð skýr stefna um efni fjárlaga, fjáraukalaga og lokafjárlaga. Lögð var rík áhersla á að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir kæmu fram í fjárlögum. Í fjáraukalögum innan hvers fjárhagsárs væri síðan fjallað um þær fjárráðstafanir sem ekki er hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga.
    Fjáraukalög skyldu samkvæmt þessu fyrst og fremst snúast um ófrávíkjanleg málefni og ófyrirséð útgjöld en síður um rekstrarvanda einstakra ríkisstofnana. Aðrar fjárhagsráðstafanir ættu eftir atvikum að koma til umfjöllunar við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta fjárhagsár eða við afgreiðslu lokafjárlaga fyrir síðasta fjárhagsár.
    Í 7. gr. fjárreiðulaga er fjallað um framlagningu ríkisreiknings. Þar segir að fjármálaráðherra skuli leggja endurskoðaðan ríkisreikning næstliðins reikningsárs fyrir Alþingi eigi síðar en tveimur vikum eftir að þing kemur saman að hausti. Í almennum athugasemdum við frumvarp til fjárreiðulaga, undir yfirskriftinni „Ríkisreikningur“, segir svo orðrétt: „Auk þeirra breytinga á efni og gerð ríkisreiknings sem að framan er lýst er lagt til að framlagning ríkisreiknings á Alþingi og umræða um hann verði með öðru sniði en verið hefur. Sú skylda er lögð á fjármálaráðherra að leggja fram endurskoðaðan ríkisreikning eigi síðar en 10 dögum eftir að þing kemur saman að hausti. Með þeim ríkisreikningi skal, honum til staðfestingar, leggja fram frumvarp til lokafjárlaga vegna sama fjárhagsárs. Í samþykkt Alþingis á lokafjárlögum felst samþykkt á ríkisreikningi og er fjárhagsárinu þannig formlega lokað. Í þessu er einnig fólgin sú breyting að ríkisreikningur er ekki framvegis samþykktur með sérstökum lögum.“
    Samkvæmt 45. gr. fjárreiðulaga, nr. 88/1997, skal ríkisreikningi fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingu næsta árs. Einnig skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.
    Allt frá gildistöku fjárreiðulaga hefur verið nokkrum erfiðleikum bundið að leggja fram ríkisreikning og lokafjárlög samhliða eins og lögin gera greinilega ráð fyrir. Meiri hlutinn leggur því einnig áherslu á að markvisst verði unnið að því að vinnu við gerð frumvarps til lokafjárlaga verði hraðað innan hvers árs þannig að leggja megi það fram samhliða ríkisreikningi. Tæknilega sýnist fátt því til fyrirstöðu.
    Meiri hlutinn fagnar þeirri formlegu breytingu sem forseti Alþingis stóð að á sl. vori að taka til umfjöllunar allar stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar. Sú breyting mun styrkja eftirlitshlutverk þingsins sem tengist framkvæmd fjárlaga. Nokkru hefur orðið ágengt í þessum efnum að mati meiri hluta fjárlaganefndar sl. mánuði.
    Hins vegar ber að leggja áherslu á að sameiginlegur skilningur um grundvallaratriði er varðar framkvæmd fjárlaga þarf að vera hverju sinni til staðar hjá þeim aðilum sem vinna að framkvæmdinni og/eða eftirlitinu. Á það virðist skorta að nokkru.
    Fyrir liggur að Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum gert athugasemdir, í skýrslum sínum um framkvæmd fjárlaga, við að stofnanir hafi farið fram úr fjárheimildum án þess að gripið sé til aðgerða eins og reglur segja til um. Ítreka ber því mikilvægi þess að endurrýna og gera úrbætur á verklagi sem miða að því að bæta framkvæmd fjárlaga. Niðurstaða fjölmargra skýrslna, greinargerða og yfirlita frá fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins til fjárlaganefndar sýnir að þess er þörf.
    Fjárlaganefndin hefur tekið þátt í þessu átaki með fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun og er það von meiri hluta fjárlaganefndar að sú niðurstaða leiði að markvissari ríkisrekstri og meiri aga og festu í kerfinu, en það eru þeir hlutir sem meiri hluti fjárlaganefndar Alþingis hefur leitað eftir.
    Forseti Alþingis skipaði nýlega nefnd sem skilar á næsta ári skýrslu um þingeftirlit. Vonandi mun sú skýrsla leiða til þess að hlutverkin verði skýrari og framkvæmdinni fundinn farvegur. Í ljósi breytinga á römmum stofnana verður sífellt erfiðara fyrir forstöðumenn að stýra fjármálum stofnana sinna. Stjórnunarleg og fjárhagsleg ábyrgð þarf að fara saman og er því vísað til áðurnefndrar reglugerðar nr. 1061/2004 um framkvæmd fjárlaga.
    Einnig vill meiri hlutinn minna á að þar sem skipuð er stjórn til þess að annast rekstur og stjórn stofnunar hefur hún þær skyldur sem forstöðumenn hefðu ella. Þetta á t.d. við E-hluta stofnanir ríkisins. Fjárlaganefnd vinnur nú sameiginlega að gerð frumvarps um breytingar á lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, þar sem gert er ráð fyrir að við 1. mgr. 10. gr. bætist nýr málsliður, sem heimili Ríkisendurskoðun að veita fjárlaganefnd Alþingis aðgang að þeim gögnum sem hún aflar sömu málsgrein. Nefndarmenn verða þá bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef Ríkisendurskoðandi kveður svo á um. Þetta mun styrkja mjög aðkomu og eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart E-hluta stofnunum.
    Einstakar tillögur eru skýrðar í álitinu auk þess sem nánar verður um þær fjallað í framsögu.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 68 m.kr.
201     Fasteignir forsætisráðuneytis.
        5.29
Fasteignir forsætisráðuneytis. Gerð er tillaga um 17 m.kr. framlag vegna kostnaðar við öryggismál á Bessastöðum. Um er að ræða útgjöld við uppsetningu á öryggishliði og öryggismyndavélum, auk búnaðar og nauðsynlegra lagna sem tengjast verkinu.
203     Fasteignir Stjórnarráðsins.
        6.25
Endurbætur bygginga Stjórnarráðsins. Gerð er tillaga um 30 m.kr. framlag til að mæta kostnaði við breytingar og endurbætur á húsnæði ráðuneyta. Um er að ræða viðhald og endurbætur, m.a. vegna breyttrar nýtingar á húsnæði í tengslum við sameiningu ráðuneyta og tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón og eftirlit með framkvæmdunum.
241     Umboðsmaður barna.
        1.01
Umboðsmaður barna. Gerð er tillaga um 5 m.kr. framlag vegna námsvefs um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ísland er aðili að barnasáttmálanum og brýnt er að komið verði á kerfisbundinni og varanlegri fræðslu um sáttmálann. Verkefnið felst í gerð námsvefjar og er kostnaður við hönnun, uppsetningu, skrif, lén og hýsingu áætlaður 5 m.kr. Verkefnið er samvinnuverkefni umboðsmanns barna, Barnaheilla og UNICEF á Íslandi.
401     Hagstofa Íslands.
        1.01
Hagstofa Íslands. Gerð er tillaga um 16 m.kr. framlag til að jafna uppsafnaðan halla frá fyrri árum. Flutningur Hagstofunnar í Borgartún 21a árið 2002 varð mun kostnaðarsamari en áætlað var og erfitt hefur reynst að rétta þá stöðu við því mjög dró úr möguleikum stofnunarinnar til eigin tekjuöflunar eftir að Hlutafélagaskrá og Þjóðskrá voru fluttar frá henni. Mikilvægt er að höfuðstóll Hagstofu Íslands sé ekki neikvæður í upphafi hlutverks hennar sem stofnunar.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 100 m.kr.
451     Símenntun og fjarkennsla.
        1.12
Námskeið og ráðgjöf. Gerð er tillaga um 100 m.kr. hækkun á framlagi til símenntunar og fullorðinsfræðslu. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar frá 17. febrúar 2008 var ákveðið að grípa til aðgerða til að greiða fyrir gerð kjarasamninga til þriggja ára og er einn þáttur í því að framlög til símenntunar og fullorðinsfræðslu sem nýtist fólki á vinnumarkaði verði aukin með jöfnum framlögum um 300 m.kr. á næstu tveimur árum. Gert er ráð fyrir að veitt verði 100 m.kr. framlag í fjáraukalögum 2008, 200 m.kr. í fjárlögum 2009 og 300 m.kr. í fjárlögum 2010.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 230 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.27
Slysavarnafélagið Landsbjörg. Gerð er tillaga um 30 m.kr. framlag til Slysavarnafélagsins Landsbjargar í samræmi við samning félagsins við ráðuneytið.
312     Lögreglustjórinn á Suðurnesjum og sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli.
        1.20
Löggæsla. Lagt er til að uppsafnaður rekstrarhalli embættisins verði felldur niður í ljósi veigamikilla skipulagsbreytinga á starfseminni þar sem eitt meginmarkmiðið er að vinna á fjárhagsvanda til frambúðar.

08 Heilbrigðisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðisráðuneytis verði aukin um 43,5 m.kr.
401     Öldrunarstofnanir, almennt.
        1.01
Hjúkrunarheimili, almennt. Gerð er tillaga um að verja 800 m.kr. af ónotuðum fjárheimildum ársins 2008 til að mæta rekstrarhalla öldrunarheimila fyrir árið 2008.
        1.13
Óskipt framlag til minni öldrunarstofnana. Af framangreindri 800 m.kr. fjárheimild er lagt til að 17,4 m.kr. renni til eftirfrandi stofnana:
                Grenilundur, Grenivík          0,3 m.kr.
                Hvammur, Húsavík          1,4 m.kr.
                Helgafell, Djúpavogi          0,1 m.kr.
                Blesastaðir, Skeiðum          0,5 m.kr.
                Sólvellir, Eyrabakka          0,4 m.kr.
                Roðasalir, Kópavogi          1,6 m.kr.
                Silfurtún, Búðardal          6,3 m.kr.
                Sæborg, Skagaströnd          0,7 m.kr.
                Hlévangur, Reykjanesbæ          3,8 m.kr.
                Kirkjuhvoll, Hvolsvelli          2,3 m.kr.

    Þá er lagt er til að þeim 782,6 m.kr. sem eftir standa verði skipt á milli stofnana sem hér
segir:
405
     Hrafnista, Reykjavík.
        1.01
Hjúkrunarrými.          104,2 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          28,3 m.kr.
406     Hrafnista, Hafnarfirði.
        1.01
Hjúkrunarrými.          24,6 m.kr.
         1.11 Dvalarrými.          9,4 m.kr.
         1.15 Dagvist.          2,1 m.kr.
407     Grund, Reykjavík.
        1.01
Hjúkrunarrými.          48,0 m.kr.
408     Sunnuhlíð, Kópavogi.
        1.01
Hjúkrunarrými.          48,3 m.kr.
409     Hjúkrunarheimilið Skjól.
        1.01
Hjúkrunarrými.          50,0 m.kr.
410     Hjúkrunarheimilið Eir.
        1.01
Hjúkrunarrými.          72,4 m.kr.
        1.15
Dagvist.          4,8 m.kr.
411     Garðvangur, Garði.
        1.01
Hjúkrunarrými.          20,1 m.kr.
412     Hjúkrunarheimilið Skógarbær.
        1.01
Hjúkrunarrými.          22,8 m.kr.
413     Hjúkrunarheimilið Droplaugarstöðum.
        1.01
Hjúkrunarrými.          43,0 m.kr.
414     Hjúkrunarheimilið Lundur, Hellu.
        1.01
Hjúkrunarrými.          4,6 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          1,9 m.kr.
415     Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð, Eskifirði.
        1.01
Hjúkrunarrými.          8,0 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          1,0 m.kr.
416     Hjúkrunarheimilið Hornbrekka, Ólafsfirði.
        1.01
Hjúkrunarrými.          3,2 m.kr.
417     Hjúkrunarheimilið Naust, Þórshöfn.
        1.01
Hjúkrunarrými.          1,8 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          4,1 m.kr.
418     Seljahlíð, Reykjavík.
        1.01
Hjúkrunarrými.          24,4 m.kr.
421     Víðines.
        1.01
Hjúkrunarrými.          5,6 m.kr.
423     Höfði, Akranesi.
        1.01
Hjúkrunarrými.          14,3 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          1,6 m.kr.
        1.15
Dagvist.          12,7 m.kr.
424     Dvalarheimili aldraðra Borgarnesi.
        1.01
Hjúkrunarrými.          4,2 m.kr.
        1.11 Dvalarrými.          5,9 m.kr.
425     Dvalarheimili aldraðra Stykkishólmi.
        1.01
Hjúkrunarrými.          1,5 m.kr.
426     Fellaskjól, Grundarfirði.
        1.01
Hjúkrunarrými.          1,4 m.kr.
427     Jaðar, Ólafsvík.
        1.01
Hjúkrunarrými.          1,4 m.kr.
428     Fellsendi, Búðardal.
        1.01
Hjúkrunarrými.          24,4 m.kr.
429     Barmahlíð, Reykhólum.
        1.01
Hjúkrunarrými.          2,0 m.kr.
433     Dalbær, Dalvík.
        1.01
Hjúkrunarrými.          4,7 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          10,3 m.kr.
        1.15
Dagvist.          2,5 m.kr.
434     Samningur við Akureyrarbæ um öldrunarþjónustu.
        1.01
Hjúkrunarrými.          25,7 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          5,0 m.kr.
436     Uppsalir, Fáskrúðsfirði.
        1.01
Hjúkrunarrými.          2,0 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          3,4 m.kr.
437     Samningur við Sveitarfélagið Hornafjörð um öldrunarþjónustu.
        1.01
Hjúkrunarrými.          4,1 m.kr.
438     Klausturhólar, Kirkjubæjarklaustri.
        1.01
Hjúkrunarrými.          2,6 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          3,6 m.kr.
439     Hjallatún, Vík.
        1.01
Hjúkrunarrými.          1,6 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          10,4 m.kr.
440     Kumbaravogur, Stokkseyri.
        1.01
Hjúkrunarrými.          22,1 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          1,8 m.kr.
441     Ás/Ásbyrgi, Hveragerði.
    1.01 Hjúkrunarrými.          4,1 m.kr.
        1.11 Dvalarrými.          3,8 m.kr.
442     Hraunbúðir, Vestmannaeyjum.
        1.01
Hjúkrunarrými.          4,7 m.kr.
        1.11
Dvalarrými.          7,7 m.kr.
443     Holtsbúð, Garðabæ.
        1.01
Hjúkrunarrými.          6,3 m.kr.
444     Vífilsstaðir, Garðabæ.
        1.01
Hjúkrunarrými.          21,1 m.kr.
460     Dvalarrými aldraðra, önnur.
        1.11
Dvalarrými aldraðra, önnur.
            Hvammur, Húsavík          28,9 m.kr.
            Sólvellir, Eyrabakka          1,8 m.kr.
477     Dagvistun aldraðra, aðrar.
        1.10
Dagvistun aldraðra, aðrar.
            Mörk, Kópaskeri          1,7 m.kr.
            Vík á Raufarhöfn          0,7 m.kr.
491     Reykjalundur, Mosfellsbæ.
        1.10
Reykjalundur, Mosfellsbæ. Gerð er tillaga um að veita Reykjalundi 43,5 m.kr. fjárveitingu til að greiða niður uppsafnaðan halla.

10 Samgönguráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 369 m.kr.
475    Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta.
        Gerð er tillaga um 130 m.kr. hækkun á framlagi í tengslum við þjónustusamning við Flugstoðir ohf. en framlaginu er ætlað til að styrkja rekstrarstöðu fyrirtækisins þar sem því hefur ekki tekist að ná nægilega góðri afkomu í reglubundinni starfsemi á yfirstandandi og síðasta ári.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.10
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, lögbundin framlög. Lögð er til 239 m.kr. hækkun á framlagi en í frumvarpinu var gert ráð fyrir að fjárheimild liðarins lækkaði um 385 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðin framlög af skatttekjum og útsvarsstofni árið 2008. Framlagið átti hins vegar að hækka um 146 m.kr.
                  Jafnframt er lagt til að 100 m.kr. framlag sem veitt var í frumvarpinu verði millifært á viðfangsefni 1.11 Sérstök viðbótarframlög.
        1.11
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sérstök viðbótarframlög. Lagt er til að 100 m.kr. framlag sem veitt var í frumvarpinu verði millifært á viðfangsefni 1.11 Sérstök viðbótarframlög.

12 Viðskiptaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild viðskiptaráðuneytis verði aukin um 556,7 m.kr.
101     Viðskiptaráðuneyti, aðalskrifstofa.
        1.01
Viðskiptaráðuneyti, aðalskrifstofa. Lagt er til að veitt verði 7,7 m.kr. framlag til að standa undir kostnaði sem nemur einu stöðugildi vegna þjónstutilskipunarinnar á árinu 2008. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að viðskiptaráðuneytinu verði falið að vinna tillögur að rammalöggjöf um þjónustuviðskipti auk bandorms með nauðsynlegum breytingum á gildandi lögum. Ljóst er að tilskipunin er mjög viðamikil og mun innleiðingin hafa þó nokkurn kostnað í för með sér, m.a. vegna þýðingar á eyðublöðum, uppsetningu upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar og krafna tilskipunarinnar um rafræna afgreiðslu umsókna. Gera má ráð fyrir að tímabundið þurfi lykilstarfsmenn að hafa nokkurt svigrúm til að einbeita sér að þessu verkefni.
402     Fjármálaeftirlitið.
        1.01
Fjármálaeftirlitið. Lögð er til 549 m.kr. hækkun á framlagi til Fjármálaeftirlitsins vegna aukins kostnaðar stofnunarinnar í tengslum við lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem samþykkt voru á Alþingi í október 2008. Kostnaður þessi er vegna skilanefnda bankanna þriggja, endurskoðunarkostnaðar vegna bráðabirgðastofnefnahagsreikninga bankanna, verðmatskostnaðar vegna aðkeyptra sérfræðinga auk annarrar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Í lögunum kemur fram að ríkissjóður muni bera ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins, sbr. 5. gr. laganna.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar
hafa verið hér að framan og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.


Alþingi, 22. des. 2008.

Gunnar Svavarsson,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


    Guðbjartur Hannesson.Illugi Gunnarsson.


Ásta Möller.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir

.Ármann Kr. Ólafsson.


Björk Guðjónsdóttir.