Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 470  —  239. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2008.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Ríkisstjórnin hefur lagt fram breytingartillögur við 3. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga 2008. Samkvæmt þeim hækka útgjöld um 1.367,2 millj. kr. og skiptast á sex ráðuneyti. Þau eru forsætisráðuneyti, sem ráðgert er að fái 68 millj. kr., menntamálaráðuneyti 100 millj. kr., dóms- og kirkjumálaráðuneyti 230 millj. kr., heilbrigðisráðuneyti 43,5 millj. kr., samgönguráðuneyti 369 millj. kr. og viðskiptaráðuneyti 556,7 millj. kr. Minni hlutinn vekur athygli á því að engar frekari breytingartillögur komu fram um tekjuáætlun frumvarpsins. Minni hlutinn vísar í ítarlegt nefndarálit sitt við 2. umræðu um frumvarpið og telur að ennþá sé tekjuáætlunin ofmetin.
    Stór hluti hækkunarinnar samkvæmt tillögum meiri hlutans mun fara til Fjármálaeftirlitsins til greiðslu viðbótarkostnaðar sem það hefur haft af setningu neyðarlaga, nr. 125/2008. Á fundi með fjárlaganefnd hafði viðskiptaráðuneytið tilkynnt að ekki þyrfti að koma til frekari fjárbeiðna Fjármálaeftirlitsins þar sem unnt væri að mæta þessum óvæntu útgjöldum með því að ganga á ónotaðar fjárheimildir. Þá þegar benti minni hlutinn á að ekki væri rétt að draga úr fjárheimildum um 17,1 millj kr. eins og gert var með breytingartillögu sem samþykkt var eftir 2. umræðu þar sem stofnuninni veitti ekki af því sem til væri. Minni hlutinn mætti ekki skilningi hjá meiri hlutanum um þetta sjónarmið og því hlýtur fjárbeiðnin að koma meiri hlutanum mjög á óvart.
    Minni hlutinn telur óhjákvæmilegt að nánari grein sé gerð fyrir fjárbeiðni af þessari stærðargráðu þrátt fyrir að í lögum nr. 125/2008 sé heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Minni hlutinn bendir á nauðsyn þess að fjárlaganefnd leggist nánar yfir forsendur fjárbeiðninnar og veittar verði mun ítarlegri upplýsingar um með hvaða hætti þessi kostnaður skiptist og hvaða liðir standa að baki honum. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að lögð verði fram kostnaðaráætlun frá Fjármálaeftirlitinu um hvaða fjárhæðir komi til með að lenda á ríkissjóði vegna starfa skilanefndanna á næsta ári. Ekki nægir yfirlýsing frá Fjármálaeftirlitinu frá 4. desember sl. um að á þessum tímapunkti sé „alls óljóst hve lengi skilanefndirnar munu verða starfandi .“ Þá er bent á að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 er ekki lagt mat á þennan fyrirsjáanlega kostnað. Hann er vegna skilanefnda gömlu viðskiptabankanna þriggja, endurskoðunarkostnaðar vegna bráðabirgðastofnefnahagsreikninga bankanna, sem ekki hafa enn litið dagsins ljós, verðmatskostnaðar vegna aðkeyptra sérfræðinga auk annarrar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu.
    Minni hlutinn bendir á að a.m.k. hluti þeirra endurskoðunarskrifstofa sem unnið hafa á vegum skilanefndanna skrifuðu undir ársreikninga gömlu viðskiptabankanna. Ein endurskoðunarskrifstofa hefur sagt sig frá verkinu vegna ábendinga um að hugsanlega megi draga óhæði hennar í efa, en minni hlutinn telur eðlilegt að farið verði yfir óhæði allra sem að þessari vinnu koma til að eyða þeirri tortryggni sem virðist ríkja í garð starfsmanna og sérfræðinga skilanefndanna. Í þessu sambandi bendir minni hlutinn á 6. tölul. 9. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur, en þar segir:
    „Endurskoðanda er óheimilt að endurskoða hjá stofnunum og fyrirtækjum […] ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.“
    Minni hlutinn telur nauðsynlegt að endurskoðunarskýrslur þeirra vegna endurskoðunar bankanna þriggja síðustu þrjú árin verði lagðar fyrir fjárlaganefnd og hefur minni hlutinn þegar óskað eftir því. Ríkissjóður hefur nú tekið við ábyrgðinni af stjórn bankanna og tjónið af falli þeirra lendir með beinum hætti á þegnum landsins. Má í því sambandi benda á minnisblað frá fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, dags. 19. des. 2008, þar sem lántökur ríkissjóðs að fjárhæð 840 milljarðar kr. vegna bankanna eru staðfestar og áætluð vaxtagjöld að fjárhæð 45,9 milljarðar kr. Eru þá ótaldar lántökur vegna uppgjörs á Icesave-reikningum og tengdum innlánsreikningum í útibúum gömlu bankanna erlendis sem líklegt er, miðað við framkomnar upplýsingar, að hlaupa muni á hundruðum milljarða króna með tuga milljarða króna árlegum vaxtakostnaði. Með þessu er ekki átt við að veittar verði upplýsingar um fjárhagslegar upplýsingar einstaklinga eða upplýsingar sem eðlilegt verður að telja að leynd ríki um. Hér er átt við almennar upplýsingar sem kunnáttumenn á sviði reikningsskila og uppgjörsfræða veita eigendum fyrirtækja um rekstur, umhverfi hans, áhættugreiningu og framtíðarhorfur. Þær almennu upplýsingar sem veittar eru í endurskoðunarbréfunum eru því ekki einkamál tiltekinna stjórnenda og fámenns hóps fyrrum eigenda bankanna heldur upplýsingar sem almenningur á rétt á að veittar verði þeim sem nú bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri þrotabúanna. Á endanum reyndist það vera almenningur sjálfur.
    Minni hlutinn telur eðlilegt að gerð verði grein fyrir því á Alþingi hvort þessir utanaðkomandi eftirlitsaðilar sem störfuðu jafnt fyrir hluthafa, bankastjórninar og hið opinbera hafi varað með viðunandi hætti við þeirri hættu sem nú virðist hafa komið fram að var innbyggð í rekstur bankanna og almenningur bar vissa ábyrgð á þó svo að þegnarnir hafi almennt mátt telja að ábyrgðin takmarkaðist við hlutafé bankanna, Tryggingasjóð innstæðueigenda og Ábyrgðasjóð launa. Þeirri spurningu hefur ekki enn verið svarað hvers vegna ábyrgð þegnanna hafði ekki verið kynnt og við henni varað. Þá varpar minni hlutinn þeirri spurningu fram hvort ekki sé eðlilegt að þrotabú bankanna beri þennan kostnað þrátt fyrir ákvæði neyðarlaganna, þar sem þrotabúin hefðu hvort sem er borið ákveðinn hluta hans, og að skilanefndirnar flokki kostnaðinn milli ríkissjóðs og þrotabúanna með það í huga. Öðru kann að gegna með kostnað ríkissjóðs af sérstakri rannsókn sem nú hefur verið sótt um fjárheimildir fyrir.
    Minni hlutinn vekur sérstaka athygli á tillögu um aukafjárveitingu til Flugstoða að fjárhæð 130 millj. kr. sem var lögð fram í þann mund sem frumvarpið var afgreitt frá fjárlaganefnd án fullnægjandi skýringa og án þess að tími hafi unnist til að ræða hana innan nefndarinnar. Minni hlutinn gagnrýnir þessi vinnubrögð, en þau eru í samræmi við það skipulags- og stefnuleysi sem einkennir fjárlagagerðina.
    Minni hlutinn vísar til þess sem áður hefur komið fram af hans hálfu um að stofnanir í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu munu samkvæmt frumvarpinu hefja rekstur á næsta ári með halla, auk þess sem fjárheimildir þeirra eru almennt skornar niður í fjárlögum fyrir árið 2009. Minni hlutinn ítrekar gagnrýni sína á þetta ráðslag og óttast að óhjákvæmilegur sé mikill hallarekstur á næsta ári sem muni valda miklum erfiðleikum í rekstri þessara stofnana. Minni hlutinn vekur jafnframt athygli á því að ekki er gerð tillaga um eina einustu krónu til að koma til móts við rekstrarhalla Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar má öllum vera ljóst að það mun valda miklum vandræðum í starfsemi skólans á komandi árum. Minni hlutinn vísar allri ábyrgð á því máli á menntamálaráðuneytið og stjórnarmeirihlutann á Alþingi.
    Að öðru leyti vísar minni hlutinn til nefndarálits síns sem lagt var fram við 2. umræðu um frumvarpið. Í því nefndaráliti er ítarlega fjallað um frumvarpið og framkomnar breytingartillögur.
    Minni hlutinn getur ekki staðið að því að samþykkja fjáraukalög fyrir árið 2008 miðað við þær forsendur sem liggja til grundvallar enda vantar mikilvægar forsendur og upplýsingar ennþá. Fjáraukalögin eru að fullu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi.

Alþingi, 22. des. 2008.



Jón Bjarnason,


frsm.


Magnús Stefánsson.


Guðjón A. Kristjánsson.