Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 168. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 485  —  168. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um skuldir sjávarútvegsfyrirtækja.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve miklar eru skuldir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við viðskiptabankana þrjá, Nýja Glitni hf., NBI hf. og Nýja Kaupþing banka hf., sem ríkið hefur stofnað til þess að yfirtaka hluta af eignum og skuldum eldri banka, sundurliðað eftir bönkum?
     2.      Hve mikið af skuldunum er tilkomið vegna kaupa á fiskveiðiheimildum og hvað eru þær skuldir til langs tíma?
     3.      Hver eru helstu veð til tryggingar skuldunum og hvernig er veðstaðan í ljósi verulegrar lækkunar á verði þorskveiðiheimilda undanfarna mánuði?


    Í álitsgerð um aðgang Alþingis að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins sem unnin var af Stefáni Má Stefánssyni lagaprófessor að beiðni þáverandi forsætisráðherra og lögð fram á Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–1998 var komist að þeirri niðurstöðu að réttur einstakra alþingismanna til að krefja ráðherra upplýsinga skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar og 49. gr. þingskapalaga nái aðeins til þeirra málefna sem talist geta opinber. Ríkishlutafélög teljist aðilar að einkarétti. Um þau gildi sömu eða svipaðar reglur og um hlutafélög almennt. Réttur alþingismanna fyrir tilstilli Alþingis til að krefja ráðherra upplýsinga um eða veita svör við fyrirspurnum um þau sé undir því kominn hvort upplýsingarnar eigi að vera opinberar lögum samkvæmt. Það komi helst til greina samkvæmt ákvæðum ársreikningalaga.
    Viðskiptabankar þeir sem fyrirspurn þessi snýr að eru hlutafélög í eigu ríkisins auk þess sem um þá gilda ákvæði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Fjármálaráðuneytið leitaði til umræddra viðskiptabanka varðandi svör við fyrirspurninni. Fara svör þeirra hér á eftir.

NBI hf.
    Afstaða Landsbankans (NBI hf.) til fyrirspurna af þessu tagi er sú að upplýsingagjöf til hluthafa fer að hlutafélagalögum og er yfirleitt bundin við aðalfund félagsins. Má segja að upplýsingar sem hluthafar eiga rétt á komi almennt fram í ársskýrslu félagsins hverju sinni.
    Í öðru lagi eru starfsmenn Landsbankans bundnir þagnarskyldu skv. 58. gr. laga nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki, um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess. Landsbankinn getur því ekki fallist á að veita neinar upplýsingar sem svo háttar um.
    Í þriðja lagi er bent á að Landsbankinn starfar í samkeppni við önnur fyrirtæki á fjármálamarkaði og nákvæmar upplýsingar um rekstur bankans geta gefið samkeppnisaðilum forskot á Landsbankann. Landsbankinn getur því ekki fallist á að veita upplýsingar sem skaðað gætu hagsmuni félagsins ef opinberar yrðu.
    Loks skal tekið fram að mjög stuttur tími var gefinn til að safna saman svörum og var að miklu leyti ekki unnt að verða við ósk um upplýsingar af þeim sökum.
    Svör við einstökum liðum fyrirspurnarinnar sem Landsbankinn hefur tök á að veita með vísan til þess sem áður segir eru eftirfarandi:
     1.      Heildarskuldir sjávarútvegsfyrirtækja (útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki en ekki fiskviðskipti) nema um 1.300 milljónum evra.
     2.      Lánveitingar eru ekki sundurliðaðar eftir fjárfestingum og því liggja ekki fyrir upplýsingar til að svara þessum lið.
     3.      Metið er í hverju tilviki fyrir sig hvaða krafa er gerð um veðsetningu til tryggingar skuldum. Að mati Landsbankans er ekki rétt að fjalla um stöðu veða bankans með opinberum hætti.

Nýi Glitnir hf.
    Almennt standa lagaákvæði um þagnarskyldu í 43. gr. laga nr. 113/1996 því ekki í vegi að veittar séu almennar upplýsingar um útlán og rekstur bankans. Þó kunna almennir samkeppnishagsmunir að réttlæta takmarkaða upplýsingagjöf. Í ljósi framangreinds eru svör við einstökum liðum fyrirspurnarinnar þessi:
     1.      Útlán Nýja Glitnis til fiskveiða og vinnslu sjávarafurða nema um 125 milljörðum kr.
     2.      (a)    Lán sem veitt hafa verið eingöngu til að fjármagna kaup á aflaheimildum eru ekki sérgreind í kerfum bankans.
         (b)     Langtímalán til sjávarútvegsfyrirtækja eru almennt til 10–15 ára.
     3.      Helstu veð bankans til tryggingar lánum sjávarútvegsfyrirtækja eru í skipum (með aflaheimildir), vinnsluhúsum, framleiðslutækjum, vörubirgðum og viðskiptakröfum. Lækkun á verði þorskkvóta hefur haft neikvæð áhrif á veðstöðu bankans.

Nýi Kaupþing banki hf.
     1.      Skuldbindingar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við bankann námu um 85,5 milljörðum kr. í lok nóvember sl.
     2.      Bankinn hefur ekki nákvæmar upplýsingar um það í hvað lán til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru notuð. Getur bankinn því ekki svarað hve mikið af skuldum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja séu til komnar vegna kaupa á fiskveiðiheimildum og hvað þær skuldir séu til langs tíma.
     3.      Helstu verðmæti sem lögð eru fram til tryggingar skuldum sjávarútvegsfyrirtækjanna eru eignir félaganna sem hafa fjárhagslegt gildi, svo sem fasteignir félagsins, rekstrartæki, vörubirgðir, kröfuréttindi og afurðir.