Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 252. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 491  —  252. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um vöktun á samfélagsáhrifum virkjunar- og stóriðjuframkvæmda á Austurlandi.

     1.      Mun ráðherra leggja niðurstöður vöktunar og rannsókna á samfélagsáhrifum vikjunar- og stóriðjuframkvæmda á Austurlandi til grundvallar mati á leyfisveitingum til stóriðjuframkvæmda í öðrum fámennum byggðalögum?
    Ein meginhugsunin með rannsókn á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi var að nýta þetta einstaka tækifæri til að safna gögnum sem geta orðið grundvöllur að mati á sambærilegum stórverkefnum annars staðar síðar. Því verður án efa horft til þeirrar reynslu við val á staðsetningu orkufreks iðnaðar í framtíðinni.
    Athuga ber að stóriðja þarf ekki sérstakt leyfi til starfrækslu af hálfu iðnaðarráðherra. Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi að undangengnu mati á umhverfisáhrifum ef um matsskylda starfsemi er að ræða. Skipulagsstofnun þarf að samþykkja skipulagsuppdrætti sem sveitarstjórn lætur útbúa en hún veitir síðan framkvæmda- og byggingarleyfi. Orkustofnun veitir rannsóknar- og virkjunarleyfi þar sem það á við.
    Ferill málsins hefur í stórum dráttum verið þessi: Alþingi samþykkti í mars 2003 að fela Byggðarannsóknastofnun Íslands, í samvinnu við Þróunarstofu Austurlands, Byggðastofnun og iðnaðarráðuneytið, að fylgjast með samfélagsbreytingum og þróun byggðar og atvinnulífs á því landsvæði þar sem áhrifa álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi gætir mest. Verkefninu var ætlað fé í fjárlögum í sex ár frá og með árinu 2004, samtals 63 millj. kr. Rannsóknarverkefnið hefur nú staðið í fimm ár, eða frá árinu 2004, og er áætlað að því ljúki á þessu ári. Á tímabilinu hefur Byggðarannsóknastofnun skilaði tveimur áfangaskýrslum til iðnaðarráðherra og er lokaskýrsla væntanleg í árslok 2009.
    Markmið verkefnisins er þríþætt: Í fyrsta lagi að safna gögnum sem geta orðið grundvöllur að mati sambærilegra eða áþekkra verkefna í framtíðinni. Í öðru lagi að renna stoðum undir íslenskt rannsóknarsamfélag um byggðatengd málefni með rannsókn sem hefur mikilvægt vísindalegt gildi í alþjóðlegu samhengi. Í þriðja lagi að gefa íslensku samfélagi bættar forsendur til að lágmarka neikvæðar afleiðingar verkefnisins en hámarka hinar jákvæðu.
    Rannsóknin tekur í öllum meginatriðum mið af þeim skýrslum sem ritaðar hafa verið í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna hvað varðar efnistök. Þannig hefur sjónum verið beint að þróun mannfjölda, efnahag, vinnumarkaði, sveitarfélögum, húsnæðismálum, margvíslegri þjónustu, opinberri grunngerð, nýtingu lands og auðlinda og anda samfélagsins almennt. Notast er við margvíslegar rannsóknaraðferðir og við það miðað að afla fjölþættra gagna. Gögnum er safnað frá opinberum aðilum og framkvæmdaraðilum, gerðar eru úrtaksrannsóknir og tekin viðtöl við einstaklinga jafnt sem forsvarsmenn fyrirtækja.
    Áfangaskýrslur komu út í lok árs 2006 og í byrjun árs 2008. Auk þess hafa komið út skýrslur um einstakar rannsóknir. Þær má finna á vef Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri www.rha.is.
    Eins og sagði í upphafi má gera ráð fyrir að niðurstaða vöktunarverkefnisins verði lögð til grundvallar þegar ákvarðanir verða teknar um staðsetningu orkufreks iðnaðar í framtíðinni.

     2.      Telur ráðherra að vöktun á framkvæmdatíma Kárahnjúkavirkjunar og Hraunaveitu ásamt ganga- og stíflugerð sem tengist þeim, byggingu Fjarðaráls og háspennulínum til álversins, gefi skýra mynd af langtímaáhrifum þessara framkvæmda á samfélagsþróun á Austurlandi?
    Langtímaáhrif af framkvæmdum tengdum Kárahnjúkavirkjun og álveri Fjarðaáls koma ekki fram fyrr en framkvæmdum er lokið, framleiðsla er hafin og atvinnulífið er komið í fastar skorður á ný. Vöktun á framkvæmdatíma eingöngu dugar því ekki til að gefa skýra mynd af langtímaáhrifum framkvæmdanna á samfélagsþróun á Austurlandi.
    Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar var sett á laggirnar árið 2004 í upphafi framkvæmda við byggingu Fjarðaáls og Kárahnjúkavirkjunar. Hvorugt fyrirtækið hafði forskrift að því hvernig staðið skyldi að þessu verkefni. Fljótlega kom í ljós að verkefnið var í raun frumkvöðlastarf, ekki bara hér á landi, heldur einnig á heimsvísu. Ekki er vitað til að slíkt verkefni hafi farið af stað þar sem framkvæmdir eru að hefjast. Fyrirtækin fengu til liðs við sig fulltrúa ýmissa hópa, bæði með og á móti framkvæmdunum, og myndaður var samráðshópur sem vann að verkefninu ásamt íslenskum og erlendum ráðgjöfum. Markmið verkefnisins er að styðja hugmyndafræði um sjálfbæra þróun og taka tillit til umhverfis, efnahags og félagslegra þátta.
    Í samvinnu við samráðshópinn hafa verið þróaðir 45 vísar og eru 78 mælikvarðar notaðir til þess að fylgjast með vísunum. Til að setja vísana í víðara samhengi eru þeir flokkaðir eftir því hvernig þeir tengjast hinum þremur meginstoðum sjálfbærrar þróunar, þ.e. fólki, umhverfi og efnahag. Alcoa Fjarðaál og Landsvirkjun hafa skuldbundið sig til að fylgjast með þessum vísum, upplýsa um þróun þeirra og bregðast við ef þróunin kallar á aðgerðir. Fyrirtækin munu reglulega endurskoða vísana og breyta þeim ef þörf er á til að tryggja notagildi þeirra við að mæla áhrif starfsemi þeirra á sjálfbæra þróun á Austurlandi. Hægt er að fylgjast með verkefninu og niðurstöðum rannsókna á vefnum www.sjalfbaerni.is.
    Margir þættir í því vöktunarverkefni sem fyrirspurnin snýst um skarast við sjálfbærniverkefnið. Það hefur sýnt sig að þau styðja vel hvort við annað og munu saman nýtast afar vel til að gefa skýra mynd af langtímaáhrifum framkvæmdanna á samfélagsþróun á Austurlandi ef þeim verður haldið áfram.

     3.      Mun ráðherra beita sér fyrir áframhaldandi vöktun og rannsóknum á samfélagsáhrifum vikjunar- og stóriðjuframkvæmda á Austurlandi, svo meta megi langtímaáhrif framkvæmdanna og reksturs álversins á Reyðarfirði?
    Vöktun og rannsóknir á samfélagsáhrifum þurfa að halda áfram í nokkur ár eftir að framleiðsla er hafin til þess að unnt sé að meta langtímaáhrifin af framkvæmdunum og rekstri álversins. Rannsóknarverkefni því sem ráðist var í á grundvelli þingsályktunar Alþingis árið 2003 á að ljúka á þessu ári. Mikilvægt er að vöktun og rannsóknum á samfélagsáhrifum virkjunar- og stóriðjuframkvæmda á Austurlandi verði framhaldið og mun iðnaðarráðherra beita sér fyrir því að svo verði.