Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 276. máls.

Þskj. 495  —  276. mál.



Skýrsla

iðnaðarráðherra um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri
í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.


(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)



    Í mars 2004 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Af því tilefni fól iðnaðarráðherra Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands að vinna greinargerð um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Í ályktuninni var kveðið á um að Alþingi yrði gerð grein fyrir framvindu mála á tveggja ára fresti.

I.

    Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands er framvörður í stuðningi við nýsköpun á landinu öllu, þar sem megináhersla er lögð á að styrkja atvinnulíf með því að auka þekkingu og hæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Impra sinnir frumkvöðlum og fyrirtækjum um land allt, gjaldfrjálst, og er með starfstöðvar í Reykjavík, á Akureyri, á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Höfn í Hornafirði. Áform eru um að efla starfsemi Impru enn frekar með starfsstöðvum Nýsköpunarmiðstöðvar á Sauðárkróki, Húsavík og Egilsstöðum á árinu 2009. Þá rekur Impra frumkvöðlasetur sem fóstrar fyrirtæki sem vinna að þróun nýsköpunarhugmynda og hjálpar þeim að vaxa fyrstu rekstrarárin. Frumkvöðlasetrin eru í Reykjavík, Reykjanesi og á Höfn í Hornafirði, bæði á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og í samstarfi við aðra aðila. Efnisatriði þingsályktunartillögunnar um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum eru nær öll hluti af daglegum rekstri Impru og verða þeirri starfsemi því gerð hér nokkur skil.
    Frá stofnun árið 2000 hefur leiðarljós Impru verið að þróa víðtæka þjónustu við frumkvöðla og fyrirtæki í því skyni að auðvelda stofnun nýrra fyrirtækja, styðja við nýsköpunarog þróunarstarf og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á breiðu sviði.
    Impra rækir þetta hlutverk með fjölbreyttum hætti:
     *      Eitt meginverkefni Impru er að þróa og reka fjölbreytt stuðningsverkefni sem taka á sértækum aðstæðum ákveðinna hópa fyrirtækja og frumkvöðla. Stuðningsverkefni Impru hafa náð til fyrirtækja í öllum atvinnugreinum á landsbyggðinni. Frá árinu 2003 hafa rúmlega 600 fyrirtæki tekið þátt, eða taka nú þátt, í þessum stuðningsverkefnum. Hér er um að ræða verkefni, með einstökum fyrirtækjum, en einnig klasaverkefni þar sem nokkur fyrirtæki taka þátt í sameiginlegu verkefni.
    Dæmi um stuðningsverkefni Impru eru:
                  –      Verkefnið „Frumkvöðlastuðningur“ styður við nýsköpunarhugmyndir einstaklinga og smærri fyrirtækja á landsbyggðinni með því að veita styrki til verkefna sem stuðla að framþróun viðskiptahugmynda ásamt faglegum stuðningi. Frá árinu 2003 hafa 143 einstaklingar og örfyrirtæki á landsbyggðinni fengið styrk frá Impru til að, t.d. þróa viðskiptahugmyndir, smíða frumgerðir eða gera hagkvæmnisathuganir í tengslum við verkefni sín.
                  –      Verkefnið „Framtak“ veitir starfandi fyrirtækjum á landsbyggðinni aðstoð við að þróa þjónustu á innanlandsmarkað eða til útflutnings. Þátttakendur hljóta faglegan og fjárhagslegan stuðning við þróunina og er markmiðið að koma samkeppnishæfri þjónustu eða vöru á markað innan 18 mánaða frá upphafi verkefnisins.
                  –      „Skrefi framar“ er verkefni sem hefur það að markmiði að auðvelda stjórnendum lítilla og meðalstórra fyrirtækja aðgengi og kaup á ráðgjöf. Ráðgjafinn vinnur með stjórnendum fyrirtækisins í allt að 8 mánuði og í samstarfi hans og framkvæmdastjóra er ýmsum hugmyndum um nýsköpun og umbætur hrundið í framkvæmd.
                  –      Impra hefur lagt mikla áherslu á að efla samstarf fyrirtækja, t.d. í formi klasasamstarfs, með ráðgjöf, útgáfu fræðsluefnis og fjárhagslegum stuðningi við undirbúning og stofnun klasa. Einnig hafa verið veittir styrkir til einstakara verkefna, þróunar og markaðsstarfs, innan starfandi klasa.
                  –      Impra rekur fjölda annarra sértækra stuðningsverkefna og eru upplýsingar um þau á heimasíðunni www.impra.is.
     *      Impra rekur öfluga upplýsinga- og fræðslustarfsemi með námskeiðahaldi, útgáfu fræðsluefnis og vefnámskeiðum á Internetinu.
                  –      „Brautargengi“ er námskeið fyrir konur sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og fyrir konur sem eru í atvinnurekstri en vilja auka rekstrarþekkingu sína. Alls hafa um 700 konur lokið Brautargengisnámi frá upphafi, þar af rúmlega 200 á landsbyggðinni. Brautargengisnámskeiðin hafa verið haldin á 14 stöðum vítt og breitt um landið. Kannanir sem gerðar hafa verið um árangur námskeiðanna sýna að um helmingur kvenna sem tekið hafa þátt í námskeiðinu eru nú með fyrirtæki í rekstri. Yfir þrjú hundruð Brautargengisfyrirtæki eru starfandi á landinu. Samtals velta þau milljörðum króna árlega og veita fjölda fólks atvinnu.
                  –      „Vaxtarsprotar“ er samstarfsverkefni Impru og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sem hefur það að markmiði að hvetja til fjölbreyttar atvinnusköpunar í sveitum. Verkefnið hefur verið rekið á 11 stöðum á landinu og alls hafa 90 bændur (konur og karlar) tekið þátt í því og lokið þróun 68 viðskiptahugmynda um atvinnusköpun í sveitum landsins. Í byrjun desember 2008 munu 25 einstaklingar, með 20 verkefni, bætast við þennan hóp.
                  –      „Sóknarbraut“ er hagnýtt 40 klst. námskeið um rekstur fyrirtækja sem er ætlað bæði körlum og konum. Námskeiðið hentar bæði fólki sem hyggst stofna fyrirtæki og eins stjórnendum lítilla fyrirtækja sem vilja auka hæfni sína á þessu sviði. Námskeiðið hefur verið haldið á 8 stöðum á landsbyggðinni og hafa um 110 karlar og konur tekið þátt með um 100 verkefni.
                  –      Dæmi um vefnámskeið Impru eru t.d námskeið í þjónustugæðum í ferðaþjónustu, þjónustugæðum fyrirtækja og rekstrarform fyrirtækja sem nýlega hafa verið þróuð og gefin út á netinu.
                  –      Upplýsingar um fjölda annarra námskeiða, útgáfu og stuðningsefnis má finna á heimasíðunni www.impra.is.
     *      Árlega veitir Impra um 5.000 handleiðsluviðtöl þar sem frumkvöðlum, stofnendum og stjórnendum lítilla fyrirtækja er veitt leiðsögn við þróun viðskiptahugmynda og stofnun og rekstur fyrirtækja. Einnig svara starfsmenn Impru um 7.000 fyrirspurnum á hverju ári frá fyrirtækjum og einstaklingum.
     *      Impra starfrækir frumkvöðlasetur á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og í samstarfi við aðila á viðkomandi svæði. Markmið starfsemi frumkvöðlasetranna er að skapa frumkvöðlum þekkingarumhverfi, aðstöðu og umgjörð til að vinna að nýsköpun og veita þeim faglega þjónustu og stuðning við framgang hugmynda sinna. Á frumkvöðlasetri á Nýsköpunarmiðstöð á Keldnaholti hafa nú 12 fyrirtæki aðsetur, á frumkvöðlasetrinu Eldey á Keilissvæðinu eru 8 frumkvöðlafyrirtæki að hefja rekstur, en á frumkvöðlasetrinu á Höfn eru nú 2 fyrirtæki. Lengst reynsla er komin á rekstur Frumkvöðlasetursins á Nýsköpunarmiðstöð á Keldnaholti og er árangur þeirra sprotafyrirtækja sem þar hafa starfað afar góður þrátt fyrir að mikil áhætta einkenni rekstur sprotafyrirtækja af því tagi sem þar hafa átt aðsetur.
     *      Impra rekur „Enterprise Europe Network“ á Íslandi í samstarfi við Rannís og Útflutningsráð. Markmið verkefnisins er að auka nýsköpun í Evrópu, koma á viðskiptum og samstarfi fyrirtækja og hvetja til tæknisamstarfs og tækniyfirfærslu. Verkefnið heyrir undir eina af þremur megin stoðun Samkeppnis- og nýsköpunaráætlunar ESB (CIP) og hlýtur styrk úr áætluninni að upphæð 750.000 Evrur á ári í 3 ár og fyrirheit um 3 ára framlengingu.
    Til að leggja mat á árangur stuðningsverkefna Impru hefur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands verið falið að framkvæma könnun meðal þátttakenda. Í könnun sem gerð var á verkefnum áranna 2003–2006, meðal 303 þátttakenda kom fram að stuðningsverkefni Impru hafa skilað mikilvægum árangri á ýmsum sviðum þróunar og rekstrar. Skýrslu Félagsvísindastofnunar má finna í heild á vefslóðinni www.nmi.is/impra/styrkir-og-studningsverkefni.
    Niðurstöður könnunarinnar sýna glöggt að stuðningsverkefni Impru hafa þegar skilað mikilvægum árangri á ýmsum sviðum þróunar og rekstrar. Meðal þess sem könnunin sýnir er að:
     *      velta þátttökufyrirtækjanna jókst um rúman milljarð,
     *      72% þátttakenda töldu verkefnið hafa stuðlað að betri árangri í rekstri,
     *      57% þátttakenda töldu verkefnið þegar hafa leitt til aukinnar markaðssóknar,
     *      50% þátttakenda töldu að verkefnið hefði átt þátt í að auka veltu fyrirtækisins,
     *      53% töldu verkefnið hafa leitt til þess að ný vara eða þjónusta var sett á markað,
     *      89% töldu verkefnið hafa leitt til aukinnar þekkingar á stofnun eða rekstri fyrirtækja,
     *      77% verkefna skiluðu sér í gerð viðskiptaáætlunar,
     *      84% þátttakenda voru mjög eða frekar ánægðir með verkefni Impru,
     *      90% þátttakenda voru mjög eða frekar ánægðir með þjónustu starfsmanna Impru.

II.

    Hér fer á eftir mat á stöðu þeirra efnisatriða sem nefnd eru í þingsályktuninni frá því í mars 2004:

1. Kostnaður við stofnun fyrirtækja og aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf í því sambandi.
    
Sýnt hefur verið fram á samhengi þess hve auðvelt er að stofna fyrirtæki og hve mikil nýsköpun, efnahagsleg velsæld og atvinnuþátttaka er meðal þjóða. Undanfarin áratug hafa aðstæður til viðskipta og stofnunar fyrirtækja verið mjög hagstæðar á Íslandi. Við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagslífi þjóðarinnar mun reyna mjög á þessi skilyrði og mikilvægt er að stjórnvöld geri sitt ýtrasta til þess að viðskiptaumhverfi sé einstaklingum og smáum fyrirtækjum eins hagstætt og kostur er.
    Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur lagt áherslu á að tryggja öllum atvinnugreinum aðgengi að upplýsingum og fjármagni, og faglegum stuðningi. Allar upplýsingar um stofnun fyrirtækja, þjónustuaðila, nauðsynleg leyfi, skráningar og kostnað við stofnun fyrirtækja er að finna á heimasíðu Impru www.impra.is. Undanfarin tvö ár hefur verið unnið átak í því að bæta þjónustu við frumkvöðla og fyrirtæki með stóraukinni þjónustu og ráðgjöf í gegnum gagnvirka þjónustusíðu Impru á netinu. Auk þess sem að framan greinir veita starfsmenn Impru, öllum sem eftir leita, aðstoð við skjalagerð sem tengist stofnun fyrirtækja.

2. Aðgangur smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu.
    Sprotafyrirtæki sem starfa í framlínu nýsköpunar eru öðrum fyrirtækjum hvatning til aukinnar samkeppni og gegna þannig mikilvægu hlutverki við að knýja fram vöxt og nýsköpun í efnahagslífinu. Vægi sprotafyrirtækja er sérstaklega mikið þegar litið er til getu til nýsköpunar og samkeppnishæfni atvinnulífsins til framtíðar. Stjórnvöld hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að ryðja úr vegi hindrunum sem standa vexti nýsköpunarfyrirtækja fyrir þrifum.
    Veigamesti stuðningur sem frumkvöðlar geta fengið í upphafi þróunarstarfs er sennilega „Átak til atvinnusköpunar“ en markmið þess er að styrkja atvinnuskapandi verkefni og nýsköpun fyrirtækja og einstaklinga. „Átakið“ styður hagkvæmnisathuganir, gerð viðskiptaáætlana, fyrstu gerð kynningarefnis og markaðssetningu en þó aðallega frumþróun afurða.
    Ofar í virðiskeðjunni eru síðan Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður, AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi, Framleiðnisjóður landbúnaðarins o.fl. Framlag ríkisins til þessara sjóða hefur verið aukið verulega á undanförnum árum.
    Impra á Nýsköpunarmiðstöð mun áfram vinna að því að auka þekkingu sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á tækifærum til áhættufjármögnunar.
    Á vegum Impru er unnið að undirbúningi innlends fjárfestingavettvangs sem hefur það markmið að tengja saman frumkvöðla og íslenska fjárfesta.

3. Kostnaður og aðgengi smáfyrirtækja að ráðgjöf og öflun upplýsinga.
    Hvatning og greitt aðgengi að upplýsingum og stuðningi þarf að vera fyrir hendi strax í upphafi þegar hugað er að viðskiptamöguleikum hugmyndar, en einnig á síðari stigum.
    Smáfyrirtæki hafa aðgang að ýmiss konar ráðgjöf. Þar má nefna Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, atvinnuþróunarfélög víðs vegar um landið, þekkingarsetur á landsbyggðinni og ýmsa sjálfstætt starfandi ráðgjafa og ráðgjafarfyrirtæki.
    Impra á Nýsköpunarmiðstöð veitir upplýsingar og handleiðslu, án endurgjalds, til stofnenda fyrirtækja og stjórnenda lítilla fyrirtækja um allt land. Þjónusta Impru hefur verið aukin og efld með opnun starfsstöðva á Ísafirði, Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum, auk fyrri starfsstöðva á Akureyri og í Reykjavík. Iðnaðarráðuneyti hefur veitt auknu fé til stuðningsverkefna, m.a. í vöruþróun og á sviði klasasamtarfs í ferðaþjónustu. Impra hefur langa reynslu af rekstri ráðgjafaverkefna þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er gert kleift að fá utanaðkomandi ráðgjöf til að taka á ýmsum umbótum í rekstri. Auk þessa hefur á vegum Impru verið lögð mikil áhersla á á að heimsækja frumkvöðla og forsvarsmenn smáfyrirtækja og veita þeim aðstoð í heimabyggð.
    Gert hefur verið átak í því að bæta þjónustu við viðskiptavini Impru um allt land með átaksverkefninu „Gagnvirk þjónustumiðstöð Impru fyrir fólk og fyrirtæki“. Markmið verkefnisins er að bjóða upp á gagnvirka handleiðslu á Internetinu í því skyni að færa þjónustu Impru nær viðskiptavinum um allt land og mæta betur þörfum ákveðinna hópa, sem eru:
     *      Einstaklingar sem vinna að þróun viðskiptahugmyndar.
     *      Einstaklingar sem vinna að stofnun fyrirtækis.
     *      Stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja.
     *      Stjórnendur og starfsmenn sprotafyrirtækja.
     *      Hugvitsmenn og frumkvöðlar.
     *      Íbúar landsbyggðarinnar sem ekki hafa beint aðgengi að þjónustu Impru og annarra ríkisstofnana.
     *      Einstaklingar sem vinna að þróun viðskiptahugmynda innan vísindasamfélagsins.
     *      Fyrirtæki og einstaklingar í leit að framtaksfjármagni.
    Dæmi um þjónustu „Gagnvirkrar þjónustumiðstöðvar“:
     *      Gagnvirk handleiðsla.
     *      Miðlun upplýsinga- og fræðsluefnis.
     *      Gagnvirk námskeið og fjarkennsla. Þróun afurða mun m.a. nýta fjarkennsluhugbúnað og „video streaming” tækni.
     *      Vegvísir um stjórnsýslu og þjónustu í tengslum við stofnun og rekstur fyrirtækja.
     *      Upplýsingabanki um rafræna þjónustu opinberra stofnana og fyrirtækja.
     *      Gagnabanki um hugverkaréttindi og leiðbeiningar rafræna þjónustu tengda hugverkaréttindum.
     *      Vegvísir fyrir hugvitsmenn um framkvæmd þróunarverkefna og framsal hugverka.
     *      Ýmis hagnýt tæki, svo sem:
        –        reiknilíkön
         –        gátlistar
         –        eyðublöð
         –        fyrirmyndir að ýmsum viðskiptagögnum, svo sem leyndarsamningum, samstarfssamningum, framsalssamningum o.þ.h.
     *      Rafrænt samskiptatorg einstaklinga og sérfræðinga um málefni sem lúta að stofnun og rekstri fyrirtækja.
     *      Umræðutorg og frumkvöðlasamfélag á netinu.
     *      Þjónusta við innflytjendur sem huga að stofnun og rekstri fyrirtækja.
     *      Vettvangur sprotafyrirtækja á netinu til að örva uppbyggingu og tækifæri sprotafyrirtækja m.a. til framtaksfjármögnunar.
    Á undanförnum misserum hefur Impra lagt mikla áherslu á að bjóða upp á fræðslu, þjálfun og handleiðslu varðandi undirbúning og stofnun fyrirtækja eða til að bæta rekstur smáfyrirtækja. Þessi verkefni (Brautargengi, Sóknarbraut og Vaxtarsprotar) hafa verið boðin víða um land, bæði til sjávar og sveita. Mikið er lagt upp úr því að auðvelda aðgengi þátttakenda. Námskeiðin eru haldin í heimabyggð og starfsmenn Impru heimsækja alla þátttakendur Vaxtarsprota heim á bæ til að veita þeim leiðsögn.
    Eins og áður sagði fóstrar Frumkvöðlasetur Impru á Nýsköpunarmiðstöð fyrirtæki sem vinna að þróun nýsköpunarhugmynda og hjálpar þeim að vaxa fyrstu rekstrarárin. Atvinnuþróunarfélög víðs vegar um landið veita ráðgjöf og leiðbeiningar til stofnenda og stjórnenda fyrirtækja. Bankar og lánastofnanir veita, án endurgjalds, almenna ráðgjöf um fjármögnun. Ráðgjafafyrirtæki víðs vegar um landið bjóða ráðgjöf varðandi stofnun, fjármögnun og rekstur fyrirtækja gegn gjaldi. Flest smáfyrirtæki hafa ekki burði til að kaupa slíka ráðgjöf á fyrstu stigum starfseminnar.
    Ýmsir aðrir aðilar veita fjölbreytta þjónustu og reka starfsemi sem lýtur að stuðningi og ráðgjöf við frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Meðal þeirra má nefna:
     *      Tæknigarður sem starfað hefur í 20 ár, og þar hefur fjöldi fyrirtækja sem stunda nýsköpunarstarf á sviði hugvits og tækniiðnaðar átt aðsetur.
     *      Innovit, sem er sjálfstætt starfandi nýsköpunar- og frumkvöðlasetur þar sem megináhersla er lögð á að styðja við háskólamenntaða frumkvöðla og sprotafyrirtæki sem verða til innan íslenskra háskóla.
     *      Klak, nýsköpunarstöð atvinnulífsins sem rekin er í samstarfi Nýherja og Háskólann í Reykjavík.
     *      Landssamband Hugvitsmanna er félag áhugamanna um að koma hugmyndum sínum á framfæri.

4. Aðstaða smáatvinnurekstrar til að kynna og markaðssetja framleiðsluvörur eða þjónustu.
    Við undirbúning og áætlanagerð hjá frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum er markaðssetning sá þáttur sem erfiðast er að áætla, en um leið sá þáttur sem ræður úrslitum um hvernig til tekst.
    Útflutningsráð veitir víðtæka ráðgjöf og aðstoð við útflutning. Þjónusta Útflutningsráðs skiptist í fimm fagsvið; upplýsingar, ráðgjöf, fræðslu, sýningar og nýja markaði. Útflutningsráð hefur um árabil rekið ráðgjafa- og stuðningsverkefni vegna útrásar fyrirtækja á erlenda markaði og hefur enn eflt þá starfsemi.
    Impra á Nýsköpunarmiðstöð og Útflutningsráð eiga nú í formlegu samstarfi um þjónustumiðstöð Enterprise Europe Network á Íslandi sem vinnur að því að auka samstarf íslenskra og evrópskra fyrirtækja, m.a. á sviði markaðsmála, útrásar, fjármögnunar og tæknisamstarfs. Þá hafa Impra og Útflutningsráð átt samstarf í verkefninu „Hagvöxtur á heimaslóð“ og staðið sameiginlega að verkefninu „Útrás kvennafyrirtækja“ og eru þessi verkefni vísir að frekara samstarfi á sviði markaðsmála.
    Impra veitir litlum og meðalstórum fyrirtækjum á landsbyggðinni styrki til kaupa á ráðgjöf og getur styrkurinn numið allt að 50% af kostnaði við kaup á ráðgjöf í markaðsmálum.
    Mörg lítil eða meðalstór fyrirtæki hafa að undanförnu tekið þátt í klasaverkefnum á vegum Impru og einnig á vegum Vaxtarsamninga á tilteknum svæðum. Þessi samstarfsverkefni hafa í mörgum tilvikum snúið að markaðsstarfi og auðveldað litlum fyrirtækjum aðgang að markaði.
    Atvinnuþróunarfélög víðs vegar um landið aðstoða við markaðsmál.
    Sjálfstætt starfandi ráðgjafar og ráðgjafafyrirtæki veita fyrirtækjum ráðgjöf á sviði markaðsmála gegn gjaldi. Starfsmenn Impru veita aðstoð við að koma á samstarfi ráðgjafa og forsvarsmanna fyrirtækja.

5. Kostnaður og eftir atvikum aðrar hindranir sem torvelda kynslóðaskipti í atvinnurekstri.
    Ráðgjafar í fyrirtækjaráðgjöf hafa mis mikla reynslu af kynslóðaskiptum í atvinnurekstri sem sérstöku viðfangsefni. Stjórnendaskipti hjá fjölskyldufyrirtækjum gerast með margvíslegum hætti og þar sem nú er orðið auðveldara að kaupa og selja fyrirtæki en áður er ekki sjálfgefið að börn taki við af foreldrum sínum.
    Umfjöllun um kynslóðaskipti er hluti af stjórnunar- og viðskiptanámi í háskólum landsins, en lausleg könnun meðal háskólakennara við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík bendir til að vægi þess sé takmarkað, bæði í rannsóknum og kennslu. Könnun á lokaritgerðum BS. cand.oecon. og MS nema í viðskiptafræði við Háskóla Íslands leiddi í ljós að ekkert lokaverkefni hefur fjallað um kynslóðaskipti í atvinnurekstri frá árinu 1997 til 2004.
    Spurningar tengdar stjórnun fjölskyldufyrirtækja og kynslóðaskiptum í atvinnurekstri eru engu að síður áhugaverðar og í fullu gildi í íslensku samhengi, enda fjöldi fjölskyldufyrirtækja starfandi, bæði stór og smá. Íslenskar skattareglur og erfðalög geta ekki talist verulegar hindranir við kynslóðaskipti í atvinnurekstri.

6. Kostnaður uppfinningamanna, frumkvöðla og smáfyrirtækja við að sækja um einkaleyfi á uppfinningum og gæta hagsmuna sinna varðandi framleiðsluleyndarmál, sérþekkingu og verðmætar upplýsingar.
    Einkaleyfastofa hefur samið við Rannsóknaþjónustu HÍ og Impru á Nýsköpunarmiðstöð um rekstur Upplýsingaseturs um einkaleyfi. Tilgangurinn er að auka vitund og þekkingu almennings á hugverkaréttindum með aukinni fræðslu, upplýsingagjöf og bættri aðstöðu fyrir almenning til að kynna sér mál tengd hugverkaréttindum.
    Liður í að bæta þjónustu Impru á sviði hönnunarverndar, trúnaðar- og leyndarsamninga og verndunar verðmætra upplýsinga er sérstakur upplýsingavefur um málaflokkin sem birtur hefur verið á heimasíðu Impru. Markmiðið er að aðstoða frumkvöðla við að vinna að þróun viðskiptahugmyndar með það að leiðarljósi að einkaleyfishæfi hugmyndar, framsal og/eða hönnunarvernd sé tekið með í áætlanagerð frá upphafi.

7. Skattalög og aðrir þættir sem marka starfsskilyrði atvinnurekstrar með sérstöku tilliti til smáfyrirtækja.
    Skattalagaumgjörð. Hlutfall tekjuskatts fyrirtækja lækkaði úr 18% í 15% á árinu 2008. Ekki hafa orðið breytingar á skattaumgjörð fyrirtækja hvað varðar endurgreiðslu þróunarkostnaðar og skatthlutfall einkareksturs frumvöðla á eigin kennitölu er 35,72%. Impra hefur veitt fjölmörgum frumkvöðlum og einyrkjum leiðbeiningar við að flytja rekstur sinn af eigin kennitölu yfir í einkahlutafélag. Með þeirri breytingu lækkar skattabyrði rekstrarins og meira fjármagn verður eftir til að byggja upp reksturinn.

8. Staða smáatvinnurekstrar samkvæmt lögum og reglum, gagnvart eftirliti og leyfisveitingum og kostnaði við samskipti við stjórnsýslu og stofnanir.
    Samkvæmt alþjóðlegum könnunum hefur skilvirkni og gagnsæi íslenskrar stjórnsýslu mælst mikil og viðskiptahindranir fáar. Stofnun og skráning nýs fyrirtækis er einnig fljótleg, einföld og ódýr á Íslandi miðað við önnur lönd. Auðvelda má smáfyrirtækjum að halda utan um ýmiss konar eftirlitsskyldar upplýsingar. Framkvæmd rafrænna skattskila eru góð fyrirmynd að notkun upplýsingatækni til að einfalda starfsumhverfi fyrirtækja.
    Á heimasíðu Impru á Nýsköpunarmiðstöð er að finna allar upplýsingar um stofnun og rekstur fyrirtækja, svo sem upplýsingar um öll nauðsynleg leyfi, reglugerðir o.s.frv. í hverri atvinnugrein. Þar er einnig að finna gagnagrunn með upplýsingum um alla þjónustuaðila sem leita þarf til við stofnun fyrirtækis, auk upplýsinga um úrræði og stuðning sem stendur litlum og meðalstórum fyrirtækjum til boða. Stöðugt er unnið að því að bæta þessa þjónustu.
    Forsætisráðherra hefur skipað samráðshóp ráðuneyta, skrifstofu Alþingis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins um einföldun stjórnsýslunnar. Verkefnið stendur til ársins 2009 og felst í að einfalda regluverk, minnka skriffinnsku og auka skilvirkni enn frekar.

9.–11. Staða sjálfstætt starfandi einstaklinga og einyrkja, frumkvöðla og uppfinningamanna í atvinnurekstri.
    Staða sjálfstætt starfandi einstaklinga, einyrkja, frumkvöðla og uppfinningamanna er um margt lík og verður fjallað um þá sameiginlega.
    Staða þessara aðila er oftar en ekki veik og kemur þar til samspil margra þátta. Fjárhagsstaða þeirra er yfirleitt mjög þröng og skortur á fjármagni algengt vandamál. Langur þróunartími getur svo leitt til þess að hugmynd er orðin úrelt þegar hún loks kemst á markað. Uppfinningamenn og hluti frumkvöðla starfa oft á tíðum einir og geta átt það á hættu að einangrast með verkefnum sínum.
    Sjálfstætt starfandi einstaklingum, einyrkjum, frumkvöðlum og uppfinningamönnum stendur til boða ýmis þjónusta, bæði á vegum Impru nýsköpunarmiðstöðvar og annarra stuðningsaðila atvinnulífsins. Þeir leita eftir upplýsingum og aðstoð frá Impru í sívaxandi mæli, síst þó sá hópur sem skilgreinir sig sem uppfinningamenn. Handleiðsla Impru er þjónusta sem hentar mjög vel þessum hópi, en smáverkefnastyrkir úr Átaki til atvinnusköpunar geta einnig nýst þessum hópi vel. Á landsbyggðinni er boðið upp á Frumkvöðlastyrki sem nýtast til þróunar, frumgerðasmíði, hagkvæmniathuganna o.þ.h. Verið er að skoða möguleika á að reka slík verkefni á höfuðborgarsvæðinu.
    Á heimasíðu Impru nýsköpunarmiðstöðvar hefur verið opnuð sérstök heimasíða með stuðningsefni sem sérstaklega er ætlað frumkvöðlum og uppfinningamönnum undir vinnuheitinu „Framkvæmdaáætlun fyrir frumkvöðla“, í því skyni að bæta þjónustu við þennan hóp.