Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 263. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 502  —  263. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um tjón af Suðurlandsskjálfta í maí sl.

     1.      Hvert varð heildartjón í Suðurlandsskjálfta í maímánuði sl. á lausafé, á mannvirkjum og samtals?
    Aflað var upplýsinga frá Viðlagatryggingu Íslands og byggjast eftirfarandi svör á þeim upplýsingum miðað við 22. janúar 2009.
    Viðlagatrygging Íslands hefur alls greitt 4.765.081.911 kr. vegna Suðurlandsskjálfta í maí 2008. Þar af var tjón á lausafé 975.506.895 kr. og tjón á mannvirkjum 3.789.575.016 kr. Auk þessa hafa tjónþolar borið sjálfsábyrgð vegna tjóna, sbr. svar við 5. tölul. fyrirspurnarinnar.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um annað tjón.

     2.      Hve mörg tjón hafa verið tilkynnt samtals og sundurliðað í lausafé og mannvirki?
    Alls hafa borist tilkynningar um 5.723 tjónstilvik. Þar af hefur verið tilkynnt um tjón á lausafé í 2.451 tilvikum og 3.272 tikynningar um tjón á mannvirkjum.

     3.      Hver var meðalfjárhæð tjóna á lausafé, á mannvirkjum og samtals?
    Meðalfjárhæð tjóna á lausafé var 398.004 kr. Meðalfjárhæð tjóna á mannvirkjum var 2.093.688 kr.

     4.      Hve hárri fjárhæð nemur heildargreiðsla Viðlagatryggingar Íslands vegna tjóna á lausafé, á mannvirkjum og samtals?
    Viðlagatrygging Íslands hefur samtals greitt 4.765.081.911 kr. vegna Suðurlandsskjálftans í maí 2008. Þar af voru 975.506.895 kr. vegna lausafjár og 3.789.575.016 kr. vegna mannvirkja.

     5.      Hve há fjárhæð fellur á tjónþola vegna tjóna á lausafé, á mannvirkjum og samtals og hver er meðalfjárhæðin í hverju tilviki?
    Heildarfjárhæð sem fellur á tjónþola vegna tjóns á lausafé er 56.000.000 kr. Meðal eigin áhætta vegna tjóns á lausafé er 22.848 kr.
    Heildarfjárhæð sem fellur á tjónþola vegna tjóns á mannvirkjum er um 228.000.000 kr. Meðal eigin áhætta vegna tjóns á mannvirkjum er 125.967 kr.

     6.      Hve há er fjárhæðin sem Viðlagatrygging Íslands greiðir í auknar tjónabætur vegna lækkunar á sjálfsábyrgð lausafjár úr 85.000 kr. í 20.000 kr. sem ákveðin var með bráðabirgðalögunum 7. júní 2008, hve mörg eru tjónin og hver er meðalfjárhæðin í hverju tjóni sem bráðabirgðalögin ná til?
    Auknar tjónabætur Viðlagatryggingar Íslands vegna lækkunar á sjálfsábyrgð á grundvelli breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands sem gerð var með bráðabirgðarlögum nr. 62/2008, sem staðfest voru með lögum nr. 119/2008, nema um 28.000.000 kr. Fjöldi tjóna var 629 og meðal eigin áhætta 45.000 kr.

     7.      Hve mörg tjón eru óuppgerð og hvað er áætlað að þau nemi hárri fjárhæð samtals og sundurliðað eftir lausafé og mannvirkjum?
    Fáein lausafjártjón eru enn óuppgerð og er áætluð bótafjárhæð vegna þeirra 1–3 millj. kr.
    Fjöldi óuppgerðra tjóna á mannvirkjum er 1.462 og áætlaðar tjónabætur vegna þeirra 1.500.000.000 kr.