Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 214. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 504  —  214. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um stöðu bankamála og Icesave- ábyrgðir.

     1.      Hafði ráðherra, fyrir yfirtöku íslenska ríkisins á Landsbanka Íslands, vitneskju um tilboð breska fjármálaeftirlitsins (FSA) um að gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu væri FSA tilbúið að færa reikninga Icesave yfir í breska lögsögu?
    Nei.

     2.      Var forstjóri Fjármálaeftirlitsins í símasambandi við FSA sunnudaginn 5. október sl.?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu var stofnunin í símasambandi við FSA sunnudaginn 5. október 2008.

     3.      Hafði Fjármálaeftirlitið, eða forstjóri þess, fyrir yfirtöku íslenska ríkisins á Landsbanka Íslands, vitneskju um framangreint tilboð FSA, sbr. 1. tölul.?
    Leitað hefur verið eftir afstöðu Fjármálaeftirlitsins vegna spurningarinnar. Í svari stofnunarinnar kemur fram að Fjármálaeftirlitið geti ekki tjáð sig opinberlega um efni samskipta við aðra eftirlitsaðila þar sem það er bundið trúnaði um slíkt, sbr. ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. ákvæði 44. og 45. gr. bankatilskipunarinnar, nr. 48/2006/EB.

     4.      Í hvað telur ráðherra að sé vísað hér í símtali fjármálaráðherra við Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta: Darling: „Ég tek því þá sem svo að loforðið sem Landsbankinn gaf okkur um að hann fengi 200 milljónir punda í reiðufé sé einnig fyrir bí?“ Ráðherra: „Já þeir fengu ekki það fé.“? Telur ráðherra að þessi tilvísun tengist Icesave-ábyrgðunum?
    Viðskiptaráðherra var ekki aðili að samtalinu og getur því ekki lagt mat á það hvað átt var við. Ekkert bendir til þess að vísað sé til orða sem féllu á fundi ráðherra með Alistair Darling 2. september sl.

     5.      Upplýsti ráðherra ríkisstjórnina um umræður og niðurstöður fundar síns með Alistair Darling sem haldinn var þann 2. september og fjallaði um stöðu bankamála og ábyrgðir vegna Icesave-reikninga?
    Já.

     6.      Hafði ráðherra samráð við fjármálaráðherra til undirbúnings símtali þess síðarnefnda við Alistair Darling hinn 7. október?
    Nei.

     7.      Ræddi ráðherra við fjármálaráðherra um að eðlilegra væri að hann en ekki fjármálaráðherra ætti símtal við Alistair Darling um stöðu bankamála þann 7. október, í ljósi þess að hann en ekki fjármálaráðherra átti fund með Darling 2. september vegna bankamálanna og Icesave-ábyrgðanna?
    Nei.

     8.      Telur ráðherra að eðlilegt samráð hafi verið milli sín, forsætisráðherra og fjármálaráðherra dagana í kringum ákvörðun Breta um að beita svokölluðum hryðjuverkalögum á Íslendinga?
    Já.