Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.

Þskj. 507  —  281. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.,
nr. 21 26. mars 1991 (greiðsluaðlögun).

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Við 3. þátt laganna bætist nýr kafli, X. kafli a, Greiðsluaðlögun, með níu nýjum greinum, 63. gr. a – 63. gr. i, sem orðast svo:

    a. (63. gr. a.)
    Samkvæmt fyrirmælum þessa kafla getur maður leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar ef hann sýnir fram á að hann sé og verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar.
    Lögin ná ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.
    Eftir því sem átt getur við gilda almennar reglur laga þessara um slíka nauðasamninga, þar á meðal heimild til að leita þeirra og samningsumleitanir, að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessa kafla.

    b. (63. gr. b.)
    Með greiðsluaðlögun má kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð skv. 3. mgr. 63. gr. c í einu lagi eða með ákveðnu millibili á nánar tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu þeirra eða fernt það síðastnefnda í senn.

    c. (63. gr. c.)
    Skuldari sem æskir heimildar til að leita greiðsluaðlögunar skal gera beiðni um hana samkvæmt því sem segir í 7. gr. og 1., 3. og 4. tölul. 34. gr. Henni skulu fylgja gögn sem hún er studd við ásamt greiðsluáætlun skv. 2. mgr. og gögnum til staðfestingar upplýsinga í henni, vottorði um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjórum skattframtölum skuldara.
    Í greiðsluáætlun skuldara skal koma fram:
     1.      hverjar tekjur hans eru og annarra sem teljast til heimilis með honum, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða atvikum tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum þeirra eða atvinnuhögum,
     2.      hvort hann muni hafa fé af öðru en tekjum sínum til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra,
     3.      sundurliðuð fjárhæð skulda sem þegar eru gjaldfallnar, svo og fjárhæð ógjaldfallinna skulda og eftir atvikum upplýsingar um afborgunarkjör, gjalddaga, vexti og verðtryggingu þeirra, en frá þessu öllu skal greint án tillits til þess hvort greiðsluaðlögun sé ætlað að ná til þessara skuldbindinga,
     4.      framtíðaráætlun um meðaltal mánaðarlegra útgjalda skuldara og þeirra sem teljast til heimilis með honum, þar á meðal vegna framfærslu, opinberra gjalda, húsaleigu og afborgana af skuldum, sem tryggðar eru með veði eða á annan hátt í íbúðarhúsnæði eða öðrum eignum skuldara sem hann hyggst leitast við að eiga áfram,
     5.      hvað ætla megi af framansögðu og öðru sem máli getur skipt að afborgunarfjárhæð geti orðið af samningskröfum, hvenær hún verði greidd í einu lagi eða með reglubundnum greiðslum á tilteknu tímabili og hvort og þá hvaða trygging verði sett fyrir þeim.
    Afborgunarfjárhæð, sem fundin er skv. 5. tölul. 2. mgr., skal bundin við launavísitölu eða á annan hátt við tilteknar mælingar á verðlagsbreytingum sem svara til þess hvernig skuldari hyggst afla tekna til að standa undir greiðslu hennar. Tekið skal fram í greiðsluáætlun hvernig verðtryggingu samkvæmt þessu verði háttað.
    Í greiðsluáætlun má setja ákvæði um að kröfur innan tiltekinnar fjárhæðar, sem hefðu ella talist samningskröfur, verði greiddar að fullu ef sú fjárhæð verður talin óveruleg í ljósi fjárhags skuldara, en ákvæði sem þetta má ekki standa nema allar samningskröfur fáist að minnsta kosti greiddar með þeirri fjárhæð. Leiti skuldari eftir því að tilteknir lánardrottnar hans afsali sér í einhverju tilkalli til hlutdeildar í afborgunarfjárhæð skal þess sérstaklega getið í greiðsluáætlun.
    Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að skuldara bjóðist endurgjaldslaus aðstoð við gerð beiðni og fylgigagna með henni hjá opinberri stofnun eða öðrum. Eigi skuldari kost á slíkri aðstoð getur hann ekki notið greiðslu sem þessu svarar eftir lögum um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga.

    d. (63. gr. d.)
    Auk þeirra ástæðna sem skv. 1. mgr. 38. gr. skulu leiða til þess að héraðsdómari synji um heimild til að leita nauðasamnings getur héraðsdómari hafnað beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef eitthvert eftirtalinna atriða á við:
     1.      að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á því tímabili sem greiða á af skuldum hans samkvæmt greiðsluáætlun,
     2.      að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað,
     3.      að til skulda hafi verið stofnað á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar,
     4.      að skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu,
     5.      að skuldari hafi svo að máli skipti látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna sína þótt honum hefði verið það kleift að einhverju leyti eða öllu,
     6.      að ætla megi að skuldari hafi hagað gerðum sínum svo sem raun varð á með ráðnum hug um að leita greiðsluaðlögunar.
    Skuldari má skjóta til æðra dóms úrskurði héraðsdómara þar sem synjað er um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ef heimildin er veitt fyrir æðra dómi miðast tímamörk í ákvæðum VI. kafla við þann dag sem úrlausn hans er kveðin upp. Úrskurði héraðsdómara þar sem veitt er heimild til að leita greiðsluaðlögunar verður ekki skotið til æðra dóms.
    Um skipun og stöðu umsjónarmanns með greiðsluaðlögun fer skv. 2. mgr. 39. gr. en kostnaður af henni, þar á meðal þóknun hans, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun héraðsdómara.

    e. (63. gr. e.)
    Í innköllun umsjónarmanns til lánardrottna skuldara skal auk þess sem segir í 1. mgr. 44. gr. koma fram að leitað sé greiðsluaðlögunar, svo og hvenær fundur verði haldinn með þeim sem telja sig eiga samningskröfur á hendur skuldara til að fjalla um greiðsluáætlun hans. Áætlunin skal fylgja tilkynningu til lánardrottna skv. 2. mgr. 44. gr.
    Þeir lánardrottnar sem fara með samningskröfur á hendur skuldara og hafa lýst kröfum sínum fyrir umsjónarmanni innan kröfulýsingarfrests eiga einir upp frá því rétt á að láta málið til sín taka.
    Þegar kröfulýsingarfrestur er á enda skal umsjónarmaður gera skrá um samningskröfur sem borist hafa innan frestsins og skal greint í henni frá þeim atriðum sem getið er í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 46. gr. Nú hefur samningskröfu ekki verið lýst sem skuldari hefur gert grein fyrir í greiðsluáætlun og skal þá umsjónarmaður krefja þann lánardrottin svara um hvort krafan sé til, en reynist svo vera skal hún tekin upp í skrána með þeirri fjárhæð sem upplýst hefur verið um. Þegar skuldara hefur gefist kostur á að kynna sér skrána skal umsjónarmaður veita honum aðstoð til að gera breytingar á greiðsluáætlun ef efni standa til þeirra.

    f. (63. gr. f.)
    Fundur skal haldinn til að fjalla um greiðsluáætlun skuldara innan tveggja vikna frá lokum kröfulýsingarfrests og gilda um hann ákvæði 1. og 2. mgr. 48. gr. eftir því sem á við. Sé kröfu á skrá skv. 3. mgr. 63. gr. e mótmælt af öðrum lánardrottni eða skuldaranum skal umsjónarmaður staðreyna hvort deila standi um kröfuna í heild eða afmarkaðan hluta hennar og leitast annars við að jafna ágreining um hana. Slíkur ágreiningur stendur að öðru leyti ekki því í vegi að umleitunum til greiðsluaðlögunar verði fram haldið.
    Á fundinum ber skuldara að gefa þær skýringar sem lánardrottnar leita eftir, en umsjónarmaður skal síðan gefa þeim hverjum fyrir sig kost á að lýsa afstöðu sinni til greiðsluáætlunar skuldara, sem greint skal frá í fundargerð. Skuldara skal að því gerðu gefinn kostur á að endurskoða greiðsluáætlun vegna fram kominna athugasemda og taka eftir atvikum afstöðu til þess hvernig hann hafi í hyggju að fara með umdeilda kröfu, en að þessu öllu gerðu skal hann lýsa yfir að greiðsluáætlun sé endanleg.

    g. (63. gr. g.)
    Þegar greiðsluáætlun skuldara er orðin endanleg skal umsjónarmaður innan viku taka rökstudda afstöðu í skriflegri greinargerð til þess hvort hann mæli með því að greiðsluaðlögun komist á fyrir skuldarann. Við mat á því skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögun, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 2. mgr. 63. gr. f og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni aðlögun þeirra að greiðslugetu sinni og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem hafa látið samningsumleitanirnar til sín taka.
    Mæli umsjónarmaður gegn því að greiðsluaðlögun komist á skal hann tafarlaust senda greinargerð sína ásamt skriflegri tilkynningu til skuldara og héraðsdómara. Þegar sú tilkynning berst héraðsdómara fellur sjálfkrafa niður heimild skuldara til að leita greiðsluaðlögunar. Falli heimildin niður samkvæmt þessu eða af öðrum þeim ástæðum sem greinir í 41. eða 42. gr. skal umsjónarmaður fá birta svo fljótt sem verða má auglýsingu um þau málalok í Lögbirtingablaði.
    Nú mælir umsjónarmaður með því að greiðsluaðlögun komist á og svarar það þá til þess að samþykkt hafi verið við atkvæðagreiðslu frumvarp að nauðasamningi eftir ákvæðum VIII. kafla. Skal umsjónarmaður þá boða skuldara tafarlaust á sinn fund og láta honum í té greinargerð sína ásamt samþykktu frumvarpi að greiðsluaðlögun, þar sem eftirfarandi skal koma fram:
     1.      hvað skuldari bjóðist til að inna af hendi til greiðslu á samanlögðum samningskröfum, þar á meðal með greiðslu af afborgunarfjárhæð, hvort heldur með eingreiðslu tiltekinn dag eða á nánar tilgreindum gjalddögum hverju sinni, svo og hvernig sú fjárhæð verði verðtryggð,
     2.      hvaða lánardrottnar eigi þessar samningskröfur, hversu mikið hver og hvaða hlutfallslega greiðslu þeir fái af kröfum sínum eða hvert hlutfall hvers þeirra verði í afborgunarfjárhæð,
     3.      hvort skuldari geri ráð fyrir að umdeild krafa, ein eða fleiri með nánari tilgreiningu, sé meðal þeirra sem greitt verði af skv. 2. tölul. eða hvort hann beri sjálfur áhættu af niðurstöðu um hana,
     4.      hvort tilteknar skuldir verði greiddar að fullu eða meira gefið eftir af þeim en af öðrum samningskröfum, sbr. 4. mgr. 63. gr. c,
     5.      hvort trygging verði sett fyrir greiðslum og þá hver hún sé,
     6.      hvaða skilmálabreytingar hann leggur til að gerðar verði á skuldum sem tryggðar eru með veði samkvæmt ákvæði til bráðabirgða.
    Umsjónarmaður skal senda lánardrottnum, sem lýst hafa kröfu við umleitanir til greiðsluaðlögunar, greinargerð sína og eftir atvikum samþykkt frumvarp að greiðsluaðlögun ásamt tilkynningu um lyktir málsins í hans höndum.

    h. (63. gr. h.)
    Hafi umleitunum til greiðsluaðlögunar lokið á þann hátt að umsjónarmaður mæli með því að hún komist á skal skuldari leggja skriflega kröfu um staðfestingu nauðasamningsins fyrir héraðsdómara innan viku frá þeim fundi sem umsjónarmaður boðaði skuldara til skv. 3. mgr. 63. gr. g. Með þeirri kröfu skal fylgja greinargerð umsjónarmannsins, skrá um samningskröfur og samþykkt frumvarp að greiðsluaðlögun, auk fundargerða af fundum skv. 63. gr. f og 63. gr. g.
    Greiðsluaðlögun hefur sömu áhrif og réttarsátt milli skuldara og lánardrottna hans um þær samningskröfur sem þeir hafa lýst og koma fram í skrá skv. 3. mgr. 63. gr. e, að því leyti sem skuldari mótmælti þeim ekki.

    i. (63. gr. i.)
    Ljúka má gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum XXI. kafla. Í stað þess að þrotamaður leggi frumvarp að nauðasamningi fyrir skiptastjóra og hann láti greiða atkvæði um það skal þrotamaðurinn þá leggja fyrir skiptastjóra greiðsluáætlun og hann síðan leita greiðsluaðlögunar á sama hátt og umsjónarmaður hefði ella gert, en um þetta skal beitt fyrirmælum XXI. kafla með þeim frávikum sem leiðir af ákvæðum þessa kafla.

2. gr.

    Í stað orðanna „41. eða 42. gr.“ í 3. tölul. 2. mgr. 65. gr. laganna kemur: 41., 42. eða 2. mgr. 63. gr. g.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þegar um er að ræða kröfur í eigu Íbúðarlánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins, sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað er til eigin nota skuldara, má í nauðasamningi til greiðsluaðlögunar kveða á um að kröfurnar verði greiddar með breyttum skilmálum að því leyti sem andvirði eignarinnar dugir til að fullnægja þeim og tryggingarrétturinn fellur ekki niður vegna nauðasamningsins. Er þá m.a. heimilt að kveða á um fleiri gjalddaga, greiðslufrest um tiltekinn tíma, nýjan lánstíma og skuldbreytingu vanskila. Sá hluti skuldarinnar sem fellur utan andvirðis eignarinnar telst til samningskrafna. Skilmálabreytingum samkvæmt ákvæði þessu skal þinglýst og þarfnast þær ekki samþykkis síðari veðhafa. Ákvæði þetta skal endurskoða fyrir 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, og byggir það á drögum sem samin voru af réttarfarsnefnd að tilhlutan dómsmálaráðherra. Tvær meginbreytingar hafa verið gerðar af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá hinum upphaflegu drögum. Gert er annars vegar ráð fyrir að úrræðið um greiðsluaðlögun geti bæði átt við um einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur, svo og einstaklinga sem stundað hafa atvinnustarfsemi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hins vegar verði gert ráð fyrir að greiðsluaðlögun geti í afmörkuðum tilvikum náð til veðskulda. Vegna þess sérstaka ástands sem nú ríkir og snertir fjárhag fjölmargra heimila er lagt til, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða sem endurskoða á fyrir 1. janúar 2011, að unnt verði að gera breytingar á skilmálum þeirra krafna sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins og tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað er til eigin nota skuldara. Þannig verði skilmálum þess hluta skuldarinnar sem fellur innan verðmats fasteignarinnar breytt en sá hluti sem út af stendur greiðist á sama hátt og samningskröfur. Auk þessara tveggja meginbreytinga er gert ráð fyrir að úrræðið beri heitið greiðsluaðlögun í stað skuldaaðlögunar áður.
    Í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er að finna reglur um greiðslustöðvun og nauðasamninga, en þessi réttarúrræði hafa það sameiginlega markmið að gera skuldara kleift að ráða bót á fjárhagsörðugleikum sínum til að forða því að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Ákvæði um greiðslustöðvun er að finna í 2. þætti laganna, en þetta úrræði var fyrst leitt í lög með gjaldþrotalögum, nr. 6/1978. Um nauðasamninga er hins vegar fjallað í 3. þætti laganna, en það réttarúrræði var upphaflega tekið upp með lögum nr. 19/1924, um nauðasamninga. Þegar gildandi lög, nr. 21/1991, voru sett þótti heppilegast með hliðsjón af efnislegri samstöðu að skipa í eina löggjöf reglum um greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrotaskipti. Er þessu eins hagað í danskri löggjöf.
    Jafnt einstaklingar sem lögpersónur geta óskað heimildar til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings. Reynslan hefur þó leitt í ljós að þessi úrræði hafa frekar gagnast þeim sem leggja stund á atvinnurekstur af einhverju tagi. Slíkt úrræði, sem aðallega er ætlað almennum launþegum, hefur hins vegar verið tekið upp annars staðar á Norðurlöndum. Fyrst voru reglur af þessu tagi lögfestar í Danmörku árið 1984 og var þeim skipað í 4. þátt gjaldþrotaskiptalaganna. Þar hefur þetta réttarúrræði verið nefnt „gældssanering“. Næst var þetta úrræði leitt í lög í Noregi á árinu 1992, en þar hefur það verið nefnt „gjeldsordning“. Lög um þetta efni voru síðan sett í Finnlandi 1993 og Svíþjóð 1994, en í þeim ríkjum er úrræðið nefnt „skuldsanering“.
    Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, voru sett við heildarendurskoðun réttarfarslöggjafarinnar í tengslum við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem tók gildi 1. júlí 1992. Við þá endurskoðun var sérstaklega hugað að því hvort efni væru til að leiða í lög sambærilegar reglur og koma fram í 4. þætti dönsku laganna um gjaldþrotaskipti. Í almennum athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 21/1991, var tekið fram að því úrræði svipi mjög til nauðasamnings og sé fyrst og fremst ætlað mönnum sem hafi ekki með höndum atvinnurekstur. Á hinn bóginn séu reglur danskrar löggjafar um nauðasamninga fremur ætluð félögum og mönnun í atvinnurekstri. Í athugasemdum með frumvarpinu sagði að niðurstaðan hafi orðið sú að sérreglur eftir þessari dönsku fyrirmynd yrðu óþarfar, einkum með því að ákvæði frumvarpsins um nauðasamninga hafi verið gerð þannig úr garði að þau gætu jöfnum höndum tekið til þeirra sem leggi stund á atvinnurekstur og þeirra sem geri það ekki.
    Á árunum 1993–1995 störfuðu nefndir á vegum félagsmálaráðherra sem falið var að kanna hvort efni væru til að leiða í lög hliðstætt úrræði og þekktist annars staðar á Norðurlöndum fyrir einstaklinga í greiðsluvanda. Tillögur sem þessar nefndir skiluðu leiddu ekki til þess að flutt væri stjórnarfrumvarp á grundvelli þeirra. Í stað þess að lögfesta úrræði af þessu tagi var hins vegar gripið til þess að auðvelda einstaklingum að leita nauðasamnings með því að leitast við að ryðja úr vegi hindrun vegna fyrirhafnar og kostnaðar. Í því skyni voru sett lög um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga, nr. 65/1996.
    Frá árinu 1995 hafa reglulega verið flutt af þingmönnum frumvörp sem stefnt hafa að því að leitt yrði í lög úrræði, sem nefnt yrði greiðsluaðlögun, til að ráða bóta á fjárhagsörðugleikum einstaklinga. Í fyrstu gerðum þessara lagafrumvarpa var miðað við að um þetta efni yrði sett sérstök löggjöf, en í síðari frumvörpum var lagt til að reglum um þetta úrræði yrði bætt inn í lög nr. 21/1991, þannig að því yrði skipað á bekk með hliðstæðum úrræðum, þ.e. greiðslustöðvun og nauðasamningi, sem hafa einnig það markmið að ráða bót á fjárhagsvanda skuldara og forða búi hans frá gjaldþrotaskiptum.
    Þá skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra í mars 2007 nefnd til að vinna drög að frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun og skilaði nefndin drögum að frumvarpi í byrjun árs 2008.

II.


    Þótt einstaklingum hafi með réttaraðstoð verið gert auðveldara að leita nauðasamnings með setningu laga nr. 65/1996 hefur árangurinn af þessu varla verið í samræmi við væntingar. Á árunum 1996–2008 leituðu 254 einstaklingar eftir réttaraðstoð og af þeim fengu hana 146 eða rétt rúmlega 11 að meðaltali á ári. Ekki liggur fyrir hve margir af þessum einstaklingum fengu síðan nauðasamning staðfestan en því má slá föstu að það hafi ekki verið nema hluti af þeim sem var veitt réttaraðstoðin. Þannig má reikna með að innan við tugur einstaklinga hafi að meðaltali árlega náð að koma á nauðasamningi við lánardrottna sína eftir þessari leið.
    Í kjölfar bankahrunsins á liðnu hausti og þeirrar miklu efnahagslægðar sem því hefur fylgt með tilheyrandi greiðsluvanda fyrir stóran hóp fólks þykir nauðsynlegt að tryggja einstaklingum virkara úrræði til að gera þeim eftir fremsta megni kleift að endurskipuleggja fjármál sín.
    Í frumvarpinu hefur þetta viðfangsefni verið nálgast með því móti að bæta nýjum kafla, X. kafla a, við 3. þátt laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og er lagt til að sá kafli beri fyrirsögnina „Greiðsluaðlögun“. Lýsir úrræðið sér í því að skuldari getur að ákveðnum skilyrðum fullnægðum leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Um slíka greiðsluaðlögun gilda almennar reglur laganna um nauðasamninga að því marki sem ekki er vikið frá þeim með reglum frumvarpsins. Þessi frávik sem frumvarpið hefur að geyma hafa það meginmarkmið að greiða sem best fyrir að raunhæft úrræði standi til boða fyrir þann hóp einstaklinga sem frumvarpið á að þjóna. Til stuðnings þessu má tiltaka nokkur atriði. Í fyrsta lagi er lagt til að vikið verði frá þeim reglum sem gilda um undirbúning af hálfu skuldara áður en hann getur sett fram beiðni um að leita nauðasamnings. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að skuldari þurfi að afla skriflegrar yfirlýsingar um meðmæli lánardrottna skv. 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. laganna, enda er ekki gert ráð fyrir að málefnið verði borið undir atkvæði þeirra samkvæmt þeim reglum sem gilda um nauðasamninga, eins og nánar verður vikið að hér á eftir. Með þessu er málsmeðferðin gerð mun auðveldari fyrir skuldara. Þá er lagt til að skuldari leggi fram greiðsluáætlun í stað frumvarps að nauðasamningi, en með því móti er frekar unnt að taka mið af einstaklingsbundnum sjónarmiðum. Í öðru lagi er ekki gert ráð fyrir að það velti á afstöðu lánardrottna hvort greiðsluaðlögun komist á. Þess í stað er lagt til að umsjónarmaður taki rökstudda afstöðu til þess hvort hann mæli með að greiðsluaðlögun komist á fyrir skuldara. Eru meðmæli hans þá látin jafngilda því að frumvarp að nauðasamningi hafi verið samþykkt af lánardrottnum. Með þessu móti er verulega greitt fyrir að greiðsluaðlögun komist á, enda getur í mörgum tilvikum verið erfiðleikum bundið að afla samþykkis lánardrottna. Í þriðja lagi er lagt til að kostnaður við að koma á greiðsluaðlögun falli að verulegu leyti á ríkissjóð. Í þeim efnum er mestur kostnaður bundinn við þóknun umsjónarmanns sem gert er ráð fyrir að greiðist úr ríkissjóði. Jafnframt hefur frumvarpið að geyma heimild fyrir dómsmálaráðherra til að ákveða með reglugerð að boðið verði upp á endurgjaldslausa aðstoð við að undirbúa beiðni um greiðsluaðlögun. Sú aðstoð gæti hvort heldur sem er farið fram á vegum opinberrar stofnunar eða hjá einkaaðilum sem veita fjármálaráðgjöf.
    Að því gættu að reglur frumvarpsins standa í nánum tengslum við ákvæði 3. þáttar laga nr. 21/1991 er einboðið að úrræðinu sem lagt er til með frumvarpinu verið skipað innan þeirrar löggjafar. Er einnig hentugt að áfram verði búið við eina löggjöf með öll þau úrræði sem hafa það markmið að koma nýrri skipan á fjármál skuldara. Með því móti verður löggjöfin gleggri auk þess sem komist verður hjá endurtekningum sem hættara er við ef sett yrðu sérstök lög um greiðsluaðlögun. Þetta á sér einnig hliðstæðu í danskri löggjöf um gjaldþrotaskipti, en þangað hefur öðru fremur verið leitað fyrirmynda við gerð þessa frumvarps.

III.


    Eins og hér hefur verið rakið er lagt til með frumvarpinu að lögfest verði sérstakt úrræði fyrir einstaklinga sem glíma við verulegan fjárhagsvanda. Úrræðið felur í sér að leitað er nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og er þá lagt til grundvallar að beitt sé gildandi reglum um nauðasamninga í 3. þætti laga nr. 21/1991 með þeim frávikum sem reglur frumvarpsins hafa að geyma. Með hliðsjón af þessu samspili reglna um nauðasamninga annars vegar og reglna frumvarpsins hins vegar er rétt að lýsa hér í samfelldu máli helstu meginreglum sem gert er ráð fyrir að gildi um greiðsluaðlögun, en þær eru þessar:
     1.      Þar sem greiðsluaðlögun er almennt ætlað að vera úrræði fyrir almenna launþega er gerð sú takmörkun í ákvæði sem ráðgert er að verði 63. gr. a laganna að viðkomandi skuldari hafi ekki undangengin þrjú ár borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi nema atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.
     2.      Greiðsluaðlögun nær til svonefndra samningskrafna, en skv. 1. mgr. 29. gr. laganna er með þessu átt við allar kröfur á hendur skuldara aðrar en þær sem eru undanþegnar áhrifum af nauðasamningi eða falla niður við staðfestingu hans, sbr. 1. og 3. mgr. 28. gr. þeirra. Við greiðsluaðlögun er unnt að kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð í einu lagi eða með ákveðnu millibili á nánar tilteknu tímabili eða breytt form á greiðslu þeirra, en síðastnefndu fjögur atriðin geta farið saman svo sem fram kemur í ákvæði sem lagt er til að verði 63. gr. b laganna. Ákvæðið tekur mið af eðli greiðsluaðlögunar en að öðru leyti er það hliðstætt 2. mgr. 29. gr. laganna þar sem lýst er efni nauðasamnings. Þá er í ákvæði til bráðabirgða sérstaklega tekið fram að unnt verði að breyta skilmálum krafna sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað sé til eigin nota skuldara.
     3.      Til að skuldari geti leitað nauðasamnings um greiðsluaðlögun þarf hann að sýna fram á ógjaldfærni sína sem felst í því að hann sé og verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar, eins og segir í ákvæði því sem lagt er til að verði 63. gr. a laganna. Til að leiða þetta í ljós verður skuldari í samræmi við ákvæði, sem ráðgert er að verði 63. gr. c, að gera beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar úr garði eins og mælt er fyrir um í 7. gr. og 1., 3. og 4. tölul. 34. gr. laganna. Með beiðninni skulu fylgja þau gögn sem hún er studd við ásamt greiðsluáætlun og gögnum henni til staðfestingar, vottorði um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjórum skattframtölum skuldarans, sbr. 63. gr. c. Greiðsluáætlun skuldara kemur í stað frumvarps til nauðasamnings og er mikilvægt að til hennar sé vandað þar sem hún er grundvöllur greiðsluaðlögunarinnar. Í grófum dráttum má lýsa þessu þannig að fram eigi að koma í greiðsluáætluninni sundurliðaðar upplýsingar um öll þau atriði sem hafa fjárhagslega þýðingu fyrir skuldarann og niðurstaða sem leidd er af þeim um hvaða fjárhæð hann hafi úr að spila til að greiða samningskröfur. Sú fjárhæð er nefnd afborgunarfjárhæð og getur eftir atvikum verið greidd í einu lagi eða með reglulegum greiðslum á tilteknu tímabili með eða án trygginga. Nánari fyrirmæli um þetta eru í 1.–5. tölul. 2. mgr. 63. gr. c.
     4.      Í 38. gr. laganna eru talin upp atriði sem girt geta fyrir að skuldari fái heimild til að leita nauðasamnings. Hér er um að ræða að skuldari hafi áður haft heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings og heimildin hafi verið felld niður vegna framferðis hans, komist hafi á nauðasamningur eða kröfu hans um staðfestingu nauðasamnings hafi verið hafnað af öðrum sökum en þeim að gallar hafi verið á framkvæmd nauðasamningsumleitana. Í öllum þessum tilvikum er miðað við að þetta hafi átt sér stað á síðustu þremur árum fyrir frestdag. Þá ber að synja um heimild til að leita nauðasamnings ef rökstuddur grunur er um að upplýsingar af hendi skuldara séu vísvitandi rangar eða villandi, beiðni hans sé áfátt, fylgigögn vanti eða annmarkar séu á þeim eða að ástæða sé til að draga verulega í efa að frumvarp skuldara fáist samþykkt, nauðasamningur verði staðfestur eða skuldarinn muni efna hann. Samkvæmt ákvæði, sem lagt er til að verði 63. gr. d laganna, er gert ráð fyrir að héraðsdómari hafni beiðni um heimild til greiðsluaðlögunar ef eitthvað af þessu á við. Því til viðbótar er lagt til að neitað verði um þá heimild ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldarans eða væntanlegri þróun fjármála hans meðan greiðsluaðlögunin varir, skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, skuldbindingar svo einhverju nemi verða raktar til háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu, skuldari hefur svo að máli skipti ekki staðið í skilum við lánardrottna sína þótt honum hafi verið það kleift að einhverju leyti eða öllu eða ætla má að skuldari hafi hagað gerðum sínum svo sem raun varð á með ráðnum hug um að leita greiðsluaðlögunar. Á það skal lögð áhersla að ekki er gert ráð fyrir að þessi atriði sem hér hafa verið talin verði skýrð rýmra en efni eru til. Er miðað við að nokkuð þurfi til svo að skuldara verði synjað um heimild til greiðsluaðlögunar vegna matskenndra atriða, enda má venjulega búast við að eitthvað hafi farið úrskeiðis þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda.
     5.      Ef héraðsdómur fellst á beiðni skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er kveðinn upp úrskurður þess efnis og þar með hefjast umleitanir til að koma henni á. Réttaráhrif þess að slíkur úrskurður gangi eru þau sömu og þegar skuldara er veitt er heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eftir almennum reglum, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Rakleitt í kjölfar úrskurðarins skipar héraðsdómari umsjónarmann með greiðsluaðlögun í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna, en hlutverk hans er að hafa umsjón með umleitun til greiðsluaðlögunar. Störf umsjónarmannsins eru í flestu tilliti sambærileg við störf umsjónarmanns með framkvæmd nauðasamningsumleitana, en lagt er til að þóknun umsjónarmanns með greiðsluaðlögun greiðist úr ríkissjóði, svo sem áður var vikið að, sbr. 3. mgr. 63. gr. d. Samkvæmt ákvæði, sem lagt er til að verði 63. gr. e laganna, hefst umsjónarmaðurinn handa við störf sín með því að fá birta innköllun til lánardrottna, en henni skal haga í samræmi við 1. mgr. 44. gr. laganna. Einnig er gert ráð fyrir að umsjónarmaður sendi þekktum lánardrottnum tilkynningu með sömu upplýsingum og koma eiga fram í innköllun, en með þeirri tilkynningu skal fylgja greiðsluáætlun skuldara, sbr. 1. mgr. 63. gr. e og 2. mgr. 44. gr. Umsjónarmaður tekur síðan við kröfulýsingum, en aðeins þeir samningskröfuhafar sem lýst hafa kröfum sínum innan kröfulýsingarfrests eiga rétt á að láta umleitanirnar til sín taka. Að liðnum kröfulýsingarfresti tekur umsjónarmaður saman skrá yfir lýstar samningskröfur og kynnir hana skuldara. Eftir að skuldari hefur kynnt sér skrána skal umsjónarmaðurinn veita honum aðstoð til að gera breytingar á greiðsluáætlun sinni ef efni þykja standa til þeirra, sbr. niðurlag 3. mgr. 63. gr. e.
     6.      Innan tveggja vikna frá lokum kröfulýsingarfrests skal umsjónarmaður með greiðsluaðlögun boða til fundar til að fjalla um greiðsluáætlun skuldarans, sbr. ákvæði sem lagt er til að verði 63. gr. f laganna. Á þessum fundi er gert ráð fyrir að lánardrottnar fái upplýsingar frá skuldara um fjármál hans og bolmagn til að efna samningskröfur. Viðfangsefni þessa fundar er meðal annars að varpa ljósi á greiðslugeta skuldara þannig að kröfuhafar geti lagt mat á hvort áætlun hans um greiðslu afborgunarfjárhæðar sé raunhæf eða hvort hann geti hugsanlega greitt meira en greiðsluáætlun miðar við. Hér ættu rökstuddar ábendingar kröfuhafa að hafa áhrif en með því að koma til móts við þær væri skuldari að skapa samstöðu sem væri fallin til að greiða fyrir að greiðsluaðlögun komist á.
     7.      Áður en vika er liðin frá fundi til að fjalla um greiðsluáætlun skuldarans skal umsjónarmaður semja skriflega greinargerð þar sem rökstudd afstaða er tekin til þess hvort mælt er með því að greiðsluaðlögun komist á fyrir skuldarann, sbr. ákvæði sem lagt er til að verði 63. gr. g laganna. Við mat á því ber að líta til ýmissa atriða, en þar vegur þyngst hvort skuldari sé að bjóða efndir í samræmi við það sem honum er fjárhagslega kleift eftir fremstu getu og hvort raunhæft sé að hann muni standa við þær skuldbindingar sínar. Þannig má til að mynda gera ráð fyrir að umsjónarmaður leggist gegn greiðsluaðlögun ef ætla má að skuldari geti boðið frekari greiðslu en hann leggur upp með. Ef umsjónarmaður mælir gegn því að greiðsluaðlögun komist á sendir hann greinargerðina ásamt skriflegri tilkynningu til héraðsdóms og skuldara. Með því falla sjálfkrafa niður umleitanir til greiðsluaðlögunar. Þegar heimildin fellur niður vegna þessa eða af öðrum þeim ástæðum sem greinir í 41. gr. laganna skal umsjónarmaðurinn fá birta auglýsingu um þau málalok í Lögbirtingablaði. Jafnframt ber umsjónarmanni að senda lánardrottnum sem lýst hafa kröfum við umleitanir til greiðsluaðlögunar greinargerðina og tilkynningu um lyktir máls. Ef umsjónarmaður á hinn bóginn mælir með því að greiðsluaðlögun komist á hafa meðmæli hans sömu áhrif og þegar lánardrottnar samþykkja frumvarp skuldara að nauðasamningi. Skal umsjónarmaður þá boða skuldara á sinn fund og láta honum í té greinargerð sína ásamt samþykktu frumvarpi að greiðsluaðlögun, sem umsjónarmanninum er ætlað að semja, sbr. 3. mgr. 63. gr. g, en þar á meðal annars að koma fram hvað skuldari ætli að greiða upp í samningskröfur, hvaða lánardrottnar eigi þessar kröfur og önnur samningskjör. Jafnframt ber umsjónarmanni að senda samningskröfuhöfum sem lýst hafa kröfum við umleitanir til greiðsluaðlögunar greinargerðina, samþykkt frumvarp að greiðsluaðlögun og tilkynningu um lyktir máls í höndum umsjónarmanns, sbr. 4. mgr. 63. gr. g.
     8.      Ef umsjónarmaður mælir með því að greiðsluaðlögun komist á ber skuldara innan viku frá fundi, þar sem honum var látin í té greinargerð umsjónarmanns ásamt samþykktu frumvarpi að greiðsluaðlögun, að leggja skriflega kröfu fyrir héraðsdóm um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, svo sem fram kemur í ákvæði sem lagt er til að verði 63. gr. h. Um þá staðfestingu fer eftir því sem segir í IX. kafla laganna, þar á meðal varðandi heimildir lánardrottna til að hafa uppi andmæli gegn henni. Verði greiðsluaðlögunin staðfest hefur það sömu réttaráhrif og réttarsátt milli skuldarans og lánardrottna hans um þær samningskröfur þeirra sem koma fram á skrá yfir lýstar kröfur að því leyti sem skuldari mótmælti þeim ekki, sbr. 2. mgr. 63. gr. h. Þessi réttaráhrif greiðsluaðlögunar eru þau sömu og eiga við um nauðasamning, sbr. 3. mgr. 60. gr. laganna. Um önnur réttaráhrif greiðsluaðlögunar fer eftir almennum reglum. Þannig er greiðsluaðlögun, sem staðfest hefur verið, bindandi fyrir lánardrottna og þá sem í stað þeirra koma um samningskröfur þeirra. Jafnframt hafa efndir samningskröfu í samræmi við greiðsluaðlögun sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu, sbr. 2. mgr. 60. gr. laganna. Að því er varðar þriðja mann haggar greiðsluaðlögun ekki rétti lánardrottins skuldarans til að ganga að veði sem hann hefur sett fyrir efndum skuldbindingar til fullnustu á henni allri eða til að krefja ábyrgðarmann um fulla greiðslu, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Þá hefur greiðsluaðlögunin það í för með sér að allar samningskröfur falla sjálfkrafa í gjalddaga gagnvart skuldaranum, þegar greiðsluaðlögunin kemst á, nema þar sé kveðið á um annað, sbr. 1. mgr. 30. gr. laganna. Að öðru leyti gilda ákvæði 2.–4. mgr. sömu greinar um áhrif greiðsluaðlögunar á samningskröfur. Þá hefur greiðsluaðlögun það í för með sér að fullnustugerðir hjá skuldara falla niður í samræmi við 138. gr., sbr. 1. mgr. 32. gr. laganna.
     9.      Þær reglur sem hér hefur verið lýst eiga við þegar leitað er nauðasamnings til greiðsluaðlögunar án undangenginna gjaldþrotaskipta á búi skuldarans, en þá er beitt reglum 3. þáttar laga nr. 21/1991 með þeim frávikum sem lagt er til með frumvarpinu að kveðið verði á um í X. kafla a. Ef bú skuldarans er á hinn bóginn undir gjaldþrotaskiptum er jafnframt unnt að ljúka skiptum með nauðasamningi í samræmi við reglur XXI. kafla laganna. Í ákvæði sem lagt er til að verði 63. gr. i laganna er ráðgert að einnig verði unnt að ljúka gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að sérreglum um það úrræði sem frumvarpið stefnir að verði skipað í nýjum X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Gert er ráð fyrir að fyrirsögn þessa kafla verði „Greiðsluaðlögun“.
    Um þá leið sem hér er farin við efnisskipan er rétt að benda á að 3. þáttur laganna, sem nú er myndaður af VI.–X. kafla eða 27.–63. gr. þeirra, hefur að geyma reglur um nauðasamninga án undanfarandi gjaldþrotaskipta. Í meginatriðum er ráðgert að greiðsluaðlögun eftir reglum frumvarpsins komi til án undangenginna gjaldþrotaskipta, sbr. þó i-lið 1. gr. frumvarpsins, og eiga þær því samleið með öðrum ákvæðum 3. þáttar. Við gerð frumvarpsins þótti erfiðleikum háð að fella sérreglur um greiðsluaðlögun inn á viðeigandi stöðum í einstakar greinar, sem fyrir eru í 3. þætti, þótt út af fyrir sig hefði það verið fært, en með þeirri leið hefði meðal annars tapast sú sýn yfir reglur um þetta efni, sem fæst með því að skoða í samfellu a–h-lið 1. gr. frumvarpsins. Til þess verður þó að líta að þessar átta greinar segja engan veginn alla söguna, því þær eru settar fram með tilliti til þess að greiðsluaðlögun sé sérstök tegund nauðasamnings og gilda því meðal annars almennar reglur um slíka samninga í 27.–63. gr. laganna jafnframt um greiðsluaðlögun að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í a–h-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Um a-lið (63. gr. a).
    Hér er að finna þrjú meginskilyrði sem fullnægt þarf að vera til að skuldari geti fengið heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Í fyrsta lagi kemur fram að „maður“ geti leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, en með því orði eru tekin af tvímæli um að það séu aðeins einstaklingar, sem njóti þessarar heimildar, en hvorki félög né lögaðilar af öðrum toga. Í öðru lagi kemur fram í ákvæðinu áskilnaður um að skuldari sé ógjaldfær á þann veg að hann sé og verði um fyrirséða framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Þetta skilyrði lýtur þannig að því að skuldari sé ógreiðslufær. Aftur á móti skiptir ekki máli hvort skuldari sé þannig settur að andvirði eigna hans sé minna en nemur skuldum. Sú aðstaða ein án þess að hún bitni á greiðslugetu skuldara getur því ekki réttlætt greiðsluaðlögun. Í þriðja
lagi er þess að geta, sem áður var vikið að, að greiðsluaðlögun á fyrst og fremst að vera úrræði fyrir almenna launþega. Því er það skilyrði sett að skuldari hafi ekki undangengin þrjú ár borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem hann hefur lagt stund á hana einn síns liðs eða í félagi við aðra, nema atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans. Er hér fyrst og fremst litið til t.d. iðnaðarmanna og sölumanna sem einir eða í félagi við aðra taka að sér verk, annaðhvort samhliða fastri atvinnu eða tímabundið. Jafnframt falli hér undir aðrir einstaklingar sem um lengri eða skemmri tíma vinna sem verktakar án þess um eiginlegan eða viðamikinn rekstur hafi verið að ræða.
    Fram kemur í niðurlagi 63. gr. a að almennar reglur laganna gildi um nauðasamning til greiðsluaðlögunar eftir því sem átt getur við nema annað leiði af ákvæðum X. kafla a. Þessi tilvísun tekur einkum til annarra ákvæða 3. þáttar laganna eins og þeim verður beitt í ljósi þeirra sérreglna sem ætlað er að gilda um greiðsluaðlögun. Með því að rætt er í 63. gr. a um að leita megi „nauðasamnings til greiðsluaðlögunar“ er þó áréttað að greiðsluaðlögun er í raun sérstök tegund nauðasamnings, sem ekki aðeins önnur ákvæði 3. þáttar laganna taka til, heldur einnig sérhver fyrirmæli um nauðasamninga annars staðar í þeim lögum eða utan þeirra. Af þessum sökum leiðir til dæmis af 3. mgr. 2. gr. laganna að frestdagur getur ráðist af því hvenær beiðni skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar berst héraðsdómi, 1. mgr. 4. gr. ræður hvort íslenskir dómstólar hafi lögsögu til að taka afstöðu til slíkrar beiðni og eftir 1. mgr. 8. gr. færi um varnarþing í slíku máli, en í öllum þessum ákvæðum er rætt um beiðni um heimild til að leita nauðasamnings sem á samkvæmt áðursögðu jafnframt við um beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þá leiðir einnig af þessu að þegar rætt er um nauðasamning í öðrum lögum eiga slík ákvæði við um greiðsluaðlögun, sem staðfest hefur verið fyrir dómi skv. h-lið 1. gr. frumvarpsins og IX. kafla laganna. Samkvæmt því er hér til dæmis um að ræða aðfararheimild skv. 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför.
     Um b-lið (63. gr. b).
    Lagt er hér til að í 63. gr. b verði ákvæði sem hafi að geyma afmörkun á efni nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í ákvæðinu segir að með greiðsluaðlögun megi kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra, gjaldfrest á þeim, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð skv. 3. mgr. 63. gr. c í einu lagi eða með ákveðnu millibili á nánar tilteknu tímabili, breytt form á greiðslu þeirra eða fernt það síðastnefnda í senn. Í 2. mgr. 29. gr. laganna er að finna hliðstætt ákvæði um efni nauðasamnings, sem almennar reglur þeirra taka að öllu leyti til, að því frátöldu að þar er ekki rætt um greiðslu með hlutdeild í afborgunarfjárhæð, sem aðeins getur komið til með greiðsluaðlögun. Nánar verður vikið að þessari sérstöðu greiðsluaðlögunar í skýringum við c-lið 1. gr. frumvarpsins þegar rætt verður um hvernig skuldari á að gera greiðsluáætlun sína úr garði, en í henni á að koma fram afborgunarfjárhæð sem skuldari kann að gera ráð fyrir að greiða af samningskröfum. Um ákvæði b-liðar er þess þó að geta að við greiðsluaðlögun er það ekki skilyrði samkvæmt frumvarpinu að skuldari bjóði fram greiðslu á reglubundinni afborgunarfjárhæð, heldur getur hann til dæmis leitað eingöngu algerrar eftirgjafar á samningskröfum eða í einu lagi tiltekinnar hlutfallslegrar lækkunar á þeim og gjaldfrests til eingreiðslu á því, sem eftir stendur. Að þessu leyti væri með greiðsluaðlögun leitað eftir sams konar ívilnun og einkennir nauðasamning samkvæmt almennum reglum 3. þáttar laganna, en sá munur er hér á að skuldarinn nýtur í þessari málaleitan hagræðis af einfaldari málsmeðferð skv. X. kafla a, auk þess sem niðurstaðan er ekki háð atkvæðum lánardrottna. Undir þeim kringumstæðum verður skuldari allt að einu að gera greiðsluáætlun eftir reglum 2. mgr. 63. gr. c, en með henni væri þá sýnt fram á að hann hefði annaðhvort enga burði til að greiða neitt af samningskröfum eða að hann væri fær um að greiða í eitt skipti fyrir öll tiltekið hlutfall af þeim kröfum án þess að vænta megi að hann verði aflögufær til frekari greiðslna í framtíðinni, svo sem ef um er að ræða mann, sem hefur látið af störfum vegna heilsubrests eða fyrir aldurs sakir. Ef skuldari hyggst á hinn bóginn verja þeim hluta tekna sinna, sem á tilteknu tímabili yrði umfram nauðsynlegan kostnað af framfærslu, til að greiða samningskröfur að nokkru leyti eða öllu er gengið út frá því í frumvarpinu að þeirri tilhögun verði komið á með því að ákveða reglubundna afborgunarfjárhæð eins og um ræðir í 5. tölul. 2. mgr. og 3. mgr. 63. gr. c. Hafi skuldari ekkert annað til að leggja af mörkum til greiðslu á samningskröfum verður ekki mælt fyrir um annað en þetta í greiðsluaðlöguninni.
    Eins og sést af texta 63. gr. b snýr greiðsluaðlögun ekki að öðrum skuldbindingum en samningskröfum. Svo sem getið var í almennum athugasemdum hér að framan eru samningskröfur skilgreindar í 28. gr. og 1. mgr. 29. gr. laganna. Nánar tiltekið kemur fram í 1. mgr. 28. gr. að nauðasamningur hafi ekki áhrif á tilteknar kröfur á hendur skuldaranum. Þetta eru í fyrsta lagi kröfur sem hafa orðið til eftir að honum var veitt heimild til að leita nauðasamnings, í öðru lagi kröfur um annað en peningagreiðslu sem verður fullnægt eftir aðalefni sínu, í þriðja lagi kröfur um afhendingu eignar annars manns sem skuldarinn hefur í vörslum sínum og kröfur sem teldust svokallaðar búskröfur eða forgangskröfur við gjaldþrotaskipti, í fjórða lagi kröfur sem veð eða önnur trygging er fyrir í eign skuldarans að því leyti sem andvirði hennar hrekkur fyrir skuldinni, í fimmta lagi kröfur sem fullnægja mætti með skuldajöfnuði skv. 100. gr. laganna ef bú skuldarans væri komið til gjaldþrotaskipta og loks í sjötta lagi kröfur sem eru undanþegnar nauðasamningi með því að þær greiðast að fullu. Þessar kröfur teljast ekki til samningskrafna samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 29. gr. laganna og mundi greiðsluaðlögun þannig ekki getað náð til þeirra nema viðkomandi kröfuhafi félli frá rétti sínum til að vera óháður henni, sbr. 2. mgr. 28. gr. Samkvæmt þessu er ljóst að frumvarpið felur ekki í sér ráðagerð um að nýrri skipan verði komið á skuldir sem tryggðar eru til dæmis með veði í fasteign skuldarans, en til þess er þó að líta í því sambandi að greiðsluaðlögun hefur eins og nauðasamningur endranær þau áhrif að fjárnám, kyrrsetning eða löggeymsla, sem hefur verið gert á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag í eign skuldarans, fellur sjálfkrafa niður, sbr. 1. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 138. gr. laganna. Við afmörkun á samningskröfum skiptir ákvæði 3. mgr. 28. gr. laganna ekki síður máli, en samkvæmt því veldur nauðasamningur brottfalli á kröfum, sem skipað yrði í réttindaröð eftir 1., 2., 3. og 5. tölul. 114. gr. ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt þessu eiga hér meðal annars undir kröfur um vexti og verðbætur af samningskröfu sem falla til eftir að úrskurður gengur um heimild til að leita nauðasamnings. Af þeim sökum hefur staðfestur nauðasamningur til greiðsluaðlögunar þau áhrif að vextir og verðbætur hætta að falla á samningskröfu og rennur greiðsla samkvæmt henni þannig upp í höfuðstól skuldarinnar, eins og hann stóð þann dag sem úrskurður gekk um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, að viðbættum áföllnum vöxtum og verðbótum til þess tíma. Samningskrafan mundi þannig til dæmis ekki bera dráttarvexti meðan skuldarinn greiddi af henni í samræmi við greiðsluaðlögunina. Rétt er að ítreka sérstaklega að þessi áhrif tengjast eingöngu samningskröfum og mundi greiðsluaðlögun því engin áhrif hafa á vexti eða verðbætur af skuld sem veð eða annars konar trygging er fyrir í eign skuldarans.
     Um c-lið (63. gr. c).
    Hér er meðal annars mælt fyrir um efni beiðni skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og þau gögn sem verða að fylgja þeirri beiðni til héraðsdóms. Í 1. mgr. er kveðið á um efni beiðninnar, en þar er gengið út frá því að hún verði í öllum meginatriðum sams konar og beiðni um heimild til að leita nauðasamnings eftir almennum reglum, sbr. 7. og 34. gr. laganna, að því frátöldu að 2. tölul. síðarnefndu greinarinnar, þar sem segir að í beiðni eigi meðal annars að koma fram skýringar á frumvarpi að nauðasamningi, mundi ekki eiga hér við, enda er ekki ráðgert að skuldari geri slíkt frumvarp þegar leitað er greiðsluaðlögunar. Að öðru leyti verður að láta við það sitja að vísa hér til 7. og 34. gr. laganna án frekari umfjöllunar.
    Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. c eiga nánar tiltekin gögn að fylgja beiðni skuldarans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, en með ákvæðinu er vikið talsvert til einföldunar frá reglum 35. gr. laganna, þar sem talið er upp hvað fylgja eigi beiðni um heimild til að leita nauðasamnings eftir almennum reglum. Þar skiptir mestu, sem áður var getið, að skuldaranum er ekki ætlað að gera frumvarp að nauðasamningi, en að nokkru kemur í þess stað greiðsluáætlun sem lýst er í 2. mgr. 63. gr. c og vikið verður sérstaklega að hér á eftir. Þá er heldur ekki ráðgert að skuldari leggi fram meðmæli frá tilteknum fjölda lánardrottna, svo sem almennt gildir skv. 2. tölul. 1. mgr. 35. gr. Í 1. mgr. 63. gr. c kemur fram að skuldari eigi að láta í té með beiðni sinni fjögur síðustu skattframtöl sín og tengist þetta því, sem áður var lýst í sambandi við 63. gr. a, að skuldari geti almennt ekki fengið heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef hann hefur borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi undangengin þrjú ár nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Er þannig ætlast til að skattframtölin verði höfð til marks um að þessu skilyrði fyrir greiðsluaðlögun sé fullnægt, en skilyrði þetta veldur því jafnframt að með beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar þurfa ekki að fylgja reikningsskil fyrir skuldara eins og áskilið er í 2. mgr. 35. gr. laganna. Í 1. mgr. 63. gr. c kemur að auki fram að beiðninni eigi að fylgja gögn sem hún er studd við, svo og vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu. Áskilnaður er gerður um síðastnefnd vottorð með tilliti til þess að máli skiptir fyrir greiðsluáætlun skuldarans hvort hann haldi heimili með öðrum og beri eftir atvikum framfærsluskyldu við aðra heimilismenn, svo og hvort ætlast verði til að þeir leggi eitthvað af mörkum vegna útgjalda í tengslum við heimilishald.
    Mikilvægasta gagnið sem þarf að fylgja beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er greiðsluáætlun og er tiltekið í 2. mgr. 63. gr. c hvað þar eigi að koma fram. Samkvæmt ákvæðinu á greiðsluáætlunin að þjóna þeim tilgangi að veita einkum upplýsingar í fyrsta lagi um tekjur skuldarans og annað fé, sem hann kann að ráða yfir eða geta aflað til að standa straum af greiðslu skulda, í öðru lagi um fjárhæð skulda, þar á meðal um reglubundnar afborganir af þeim ef því er að skipta, í þriðja lagi um væntanleg útgjöld á greiðsluaðlögunartímabili vegna framfærslu og annarra nauðsynlegra þarfa og loks í fjórða lagi um hvað álykta megi af þessu að skuldari sé fær um að leggja af mörkum til reglubundinna greiðslna af skuldum sínum með svokallaðri afborgunarfjárhæð ef hann hyggst bjóða slíkt fram. Með þessu er í raun lýst grundvellinum að því, sem helst einkennir greiðsluaðlögun í samanburði við nauðasamning eftir almennum reglum, en það er að koma á þeirri skipan að skuldari verji fjármunum, sem ekki er brýn þörf á vegna heimilishalds og framfærslu, til að greiða jafnt upp í allar skuldir á tilteknu tímabili, en að því tímabili loknu falli niður sá hluti skuldanna sem þá kann að standa eftir. Greiðsluáætlun eftir reglum 2. mgr. 63. gr. c á þannig að sýna með viðeigandi skýringum útreikning á því hvað raunhæft sé að ætla að skuldarinn geti að óbreyttum forsendum greitt af skuldum sínum á tilteknu tímabili. Í frumvarpinu er ekki gerður áskilnaður um eitthvert lágmark eða hámark greiðslu og er því hugsanlegt að greiðsluáætlun leiði í ljós að skuldari sé alls ófær um að greiða neitt eða á hinn bóginn að hann geti staðið undir nokkrum hluta skulda eða þeim öllum með því að dreifa greiðslum yfir nánar tiltekinn fjölda mánaða eða ára. Greiðsluaðlögunin yrði þá reist á þeirri reikningslegri forsendu sem fengin yrði fram á þennan hátt. Í frumvarpinu er heldur ekki afmarkað hversu langt greiðsluaðlögunartímabil eigi að vera, en þess í stað er gengið út frá því að tímalengdin ráðist hverju sinni af aðstæðum skuldarans, svo sem aldri, starfi, tekjuhorfum og fjölskyldustærð, og að haft verði í huga að markmið greiðsluaðlögunar er að létta af skuldara að axla byrði af óviðráðanlegum skuldbindingum til langframa. Í norrænum rétti eru reglur með líkum hætti, en í framkvæmd hefur þar mótast sú venja að greiðsluaðlögunartímabil sé að öðru jöfnu þrjú til fimm ár. Má ætla að nærtækt sé að hafa hliðsjón af því í framkvæmd hér á landi.
    Til nánari skýringa á einstökum atriðum sem koma eiga fram í greiðsluáætlun má huga að því að skv. 1. tölul. 2. mgr. 63. gr. c á að tiltaka hverjar tekjur skuldarans eru ásamt tekjum þeirra sem teljast til heimilis með honum. Með þessu er ekki gefið til kynna að ætlast sé til að allir heimilismenn skuldarans taki þátt í greiðslu skulda hans, enda ber hvorki maki hans né aðrir sem halda með honum heimili ábyrgð á skuldbindingum hans nema það leiði annaðhvort af lögum, svo sem vegna samábyrgðar hjóna á greiðslu vissra skatta, eða þess að viðkomandi hafi gengist í ábyrgð fyrir skuld. Á hinn bóginn skipta tekjur maka eða annarra heimilismanna máli á þann hátt að eftir því sem þær kunni að vera meiri dregur úr þörf á því að tekjum skuldarans sé í sama mæli og ella varið til greiðslu kostnaðar af framfærslu þeirra, til dæmis ef maki skuldarans, sem jafnframt honum er framfærsluskyldur við börn þeirra, hefur teljandi tekjur en ber ekki teljandi skuldir. Þessi áskilnaður í 1. tölul. snýr þannig öðrum þræði að því að leggja grunn að útreikningi á útgjöldum skuldarans til framfærslu og heimilishalds, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 63. gr. c. Í tengslum við þetta verður að taka fram að þegar rætt er um tekjur þeirra sem teljast til heimilis með skuldaranum er ekki horft til þess að tekjur ólögráða barna þar skipti almennt máli þegar leitast er við að reikna út grundvöll fyrir greiðsluaðlögun, enda er ekki með þessari reglu knúið á um að þau greiði eitthvert framlag til heimilishalds, þótt sjálfstæð tekjuöflun þeirra geti á hinn bóginn dregið úr þörf á stuðningi skuldarans við þau. Í 1. tölul. kemur einnig fram að upplýsa eigi í greiðsluáætlun um tekjur án tillits til þess hvort þær stafi af vinnu eða öðrum sökum, svo sem fjármagnstekjur eða greiðslur úr almannatryggingum eða lífeyrissjóði. Loks er þess að geta um þetta ákvæði að mælt er fyrir um að veita eigi upplýsingar í greiðsluáætlun um hvað ráði tekjum skuldarans og annarra, sem halda með honum heimili, og hvort horfur séu á að þær taki breytingum. Í þessu felst að upplýsa verður til dæmis hvort tekjurnar fari eftir ráðningarsamningi eða nánar tilteknum kjarasamningi ef um vinnulaun er að ræða, hvað ráði umfangi lífeyris eða annars konar greiðslna úr lífeyrissjóði eða almannatryggingum og af hverju fjármagnstekjur kunni að stafa. Tilgangur þessa ásamt upplýsingum um hvort horfur séu á að tekjurnar taki breytingum er sá að fram verður að koma í greiðsluáætlun raunhæfur spádómur um tekjur skuldarans og annarra heimilismanna hans á greiðsluaðlögunartímabili.
    Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 63. gr. c á að koma fram í greiðsluáætlun hvort skuldarinn muni hafa fé af öðru en tekjum sínum til að greiða af skuldum. Eins og nefnt er í dæmaskyni í ákvæðinu kann þetta að stafa af fjárframlögum annarra, svo sem ef maki skuldarans er reiðubúinn til að láta af hendi hluta af tekjum sínum til að greiða skuldir hans, ættingi skuldarans vill leggja til fé í þessu skyni eða hann á í vændum að fá útborgaðan arf. Annað er þó nefnt í ákvæðinu, sem meiru máli skiptir, en það er fé sem skuldarinn kann að geta losað um með sölu eigna. Í tengslum við þetta verður að benda á að í frumvarpinu eru engin skilyrði sett um að skuldari þurfi í meginatriðum að vera eignalaus til að geta fengið heimild til að leita greiðsluaðlögunar eða að hann verði knúinn til að selja eignir til að geta fengið heimildina. Á hinn bóginn er ekki ætlast til að lánardrottnar verði að þola eftirgjöf af kröfum sínum án þess að skuldarinn leggi sitt af mörkum til að greiða þeim eins og honum er framast unnt, þar á meðal með því að selja eignir, sem ekki eru að fullu veðsettar, og hafa þannig tiltækt fé til að greiða upp í skuldir. Til frekari skýringar á þessu má taka sem dæmi að skuldari eigi íbúð, sem veðskuldir hvíla á svo að svari til 80% af markaðsverði hennar. Við þær aðstæður verður almennt að ætlast til þess að við greiðsluaðlögun selji skuldarinn slíka eign til að geta varið 20% af söluverðinu til greiðslu skulda, en taki síðan íbúðarhúsnæði á leigu eða kaupi annað ódýrara gegn því að veðsetja það seljandanum eða lánastofnun fyrir fullu markaðsverði. Skuldarinn getur hins vegar verið í þeirri aðstöðu að íbúðarhúsnæði hans sé veðsett fyrir fullu verði eða jafnvel hærri fjárhæð. Undir þeim kringumstæðum hafa lánardrottnar hans engan hag af því að húsnæðið sé selt, svo framarlega sem afborganir af veðskuldum eru ekki að mun hærri en svo að þær svari til þess sem skuldarinn yrði ella að greiða fyrir leigu á öðru hæfilegu íbúðarhúsnæði. Er ætlast til að aðstæður skuldara, sem þetta getur átt við um, verði metnar í hverju tilviki og þá meðal annars með tilliti til áætlunar um útgjöld skuldarans af íbúðarhúsnæði skv. 4. tölul. 2. mgr. 63. gr. c. Varðandi aðrar eignir en íbúðarhúsnæði verður að ganga út frá því að skuldarinn eigi rétt á að halda lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eignir verða undanþegnar við fjárnám skv. 43. gr. laga nr. 90/1989, um aðför. Að þessu frágengnu verður á hinn bóginn að gefa sér þá almennu reglu að skuldarinn verði í tengslum við greiðsluaðlögun að koma öðrum eignum í verð til að greiða lánardrottnum, þótt væntanlega megi sýna nokkru meiri hliðrunarsemi við þessar aðstæður heldur en við fjárnám, svo sem með því að skuldari fái að halda verðlítilli bifreið. Í því sambandi yrði að beita sanngirnismati með því að vega saman hagsmuni skuldarans og lánardrottna hans, en þar getur einnig skipt máli hvort eftirgjöf af skuldum er mikil eða lítil.
    Í 3. tölul. 2. mgr. 63. gr. c er kveðið á um að sundurliða eigi í greiðsluáætlun allar skuldir skuldarans, bæði þær sem þegar eru gjaldfallnar og þær sem ekki eru komnar í gjalddaga. Um þær síðarnefndu verður að gefa upplýsingar um afborgunarkjör og gjalddaga, svo og vexti og verðtryggingu af þeim. Tekið er fram í ákvæðinu að þetta verði jafnframt að gera þótt tilteknar skuldir teljist ekki til samningskrafna og greiðsluaðlögun taki þannig ekki til þeirra. Allt er þetta áskilið til að fá megi glögga mynd ekki aðeins af því, sem skuldarinn kann þegar að vera kominn í vanefndir með, heldur líka af skuldbindingum sem fram undan eru. Í því sambandi skiptir einnig máli hvaða skuldir, sem greiðsluaðlögunin hefur ekki áhrif á, eiga eftir að falla á skuldarann á tímabilinu sem hún stæði yfir, til dæmis veðskuldir sem hvíla á íbúðarhúsnæði sem hann kann að geta haldið. Er þá haft í huga að greiðslur af þessum síðastnefnda toga hefðu óhjákvæmilega áhrif á getu skuldarans til að greiða öðrum lánardrottnum.
    Samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. 63. gr. c verður í greiðsluáætlun að setja fram áætlun um meðaltal mánaðarlegra útgjalda skuldarans og þeirra, sem teljast til heimilis með honum, á tímabilinu sem greiðsluaðlögun er ætlað að vara vegna óhjákvæmilegs kostnaðar af heimilishaldi og daglegu lífi að öðru leyti. Í ákvæðinu er nefnt í dæmaskyni að slíkur kostnaður geti stafað meðal annars af framfærslu, opinberum gjöldum, húsaleigu og afborgunum af skuldum sem tryggðar eru með veði eða á annan hátt í íbúðarhúsnæði skuldarans eða öðrum eignum sem hann vill fá að halda eftir án tillits til greiðsluaðlögunar. Í tengslum við þetta þarf að hafa hugfast að greiðsluaðlögunin á ekki að fella á lánardrottna þyngri byrðar en nauðsyn ber til og verður því skuldarinn að haga lífi sínu með tilliti til þess. Við útreikning á áætluðum útgjöldum hans í framangreindu skyni verður þannig að taka mið af því sem telja má mannsæmandi en látlausa lifnaðarhætti, þar sem leitast er við að draga eftir megni úr óþarfa. Ganga verður út frá því að útreikningur sem þessi verði að meginreglu að vera staðlaður meðal annars með tilliti til aldurs skuldarans og fjölskyldustærðar, heilsufars hans og heimilisfólks hans, dvalarstaðar og þess háttar atriða. Í því sambandi er til dæmis ekki fært að taka mið af raunverulegum kostnaði, sem skuldarinn hefur haft af íbúðarhúsnæði sínu, hvort sem er með greiðslu húsaleigu eða afborgana af skuldum vegna kaupa á því, heldur verður að leggja til grundvallar hvað telja megi eðlilegt leiguverð íbúðarhúsnæðis miðað við dvalarstað skuldarans og fjölskyldustærð. Séu afborganir af íbúðarláni, sem hvílir með veði á eigin húsnæði skuldarans, lægri en nemur slíkri áætlaðri leigufjárhæð er ekki ástæða vegna þessa til að finna að því að hann kjósi fremur að búa í sínu eigin íbúðarhúsnæði en að verja sömu eða hærri fjárhæð til greiðslu húsaleigu á öðrum stað. Með líkum hætti verður að nálgast áætlun útgjalda vegna annarra þarfa, svo sem til daglegrar framfærslu, kostnaðar af dagvistun barna eða rekstrar ódýrrar bifreiðar.
    Þegar stillt hefur verið upp þeim atriðum í greiðsluáætlun sem að framan er getið stendur eftir skv. 5. tölul. 2. mgr. 63. gr. c að leiða af þeim niðurstöðu um hver afborgunarfjárhæð geti orðið af samningskröfum ef bjóða á hana fram. Þannig er ráðgert að finna verði skv. 1. tölul. hverjar meðaltalstekjur skuldarans geti mánaðarlega orðið á greiðsluaðlögunartímabili, hvað kunni að leggjast við þessar tekjur skv. 2. tölul. vegna sölu eigna hans eða fjárframlaga frá öðrum, hvað draga verði af samanlagðri fjárhæð úr þessum tveimur liðum vegna áætlunar á meðaltali mánaðarlegra útgjalda skuldarans skv. 4. tölul., en mismunurinn getur þá orðið mánaðarleg afborgunarfjárhæð í skilningi 5. tölul., sem varið verður til að greiða hlutfallslega jafn mikið af hverri einstakri samningskröfu eins og hún er útreiknuð á grundvelli 3. tölul. Samkvæmt því sem fram kemur í 5. tölul. verður að tiltaka í greiðsluáætluninni hvernig skuldarinn býðst til að greiða afborgunarfjárhæðina, sem getur hvort sem er verið gert í einu lagi að tilteknum tíma liðnum eða með reglubundnum greiðslum á ákveðnu tímabili, til dæmis með jafnri mánaðarlegri fjárhæð af tekjuafgangi skuldarans og eftir atvikum með viðbót eftir ákveðinn tíma vegna andvirðis seldrar eignar. Í tengslum við þetta verður að koma fram í greiðsluáætlun hversu lengi skuldarinn muni greiða slíkar reglubundnar greiðslur til lánardrottna, til dæmis 15. dag hvers mánaðar næstu þrjú eða fimm árin, en það, sem þá kynni að standa eftir af samningskröfum, mundi þá falla niður vegna þessa nauðasamnings. Gengið er út frá því að í greiðsluáætlun komi aðeins fram hver afborgunarfjárhæðin verður í heild á hverjum gjalddaga, en skuldaranum er ekki ætlað að skipta henni á þessu stigi niður á tiltekna lánardrottna, enda verður það fyrst gert þegar leitt hefur verið í ljós með innköllun skv. 1. mgr. 63. gr. e hverjir lánardrottnarnir eru nánar. Skv. 5. tölul. getur skuldarinn boðið lánardrottnum tryggingu fyrir greiðslu afborgunarfjárhæðar, til dæmis ábyrgð þriðja manns, en slíkt er ekki áskilið sem skilyrði fyrir greiðsluaðlögun þótt ætla megi að lánardrottnar geti reynst viljugri til að mæta tillögum skuldarans með velvild ef slíkt er boðið fram. Þess verður að geta að þótt skuldari eigi kost á að koma fram greiðsluaðlögun með öðrum kjörum en greiðslu afborgunarfjárhæðar á tilteknu tímabili, svo sem fram kemur í 63. gr. b, verður hann allt að einu að gera greiðsluáætlun til að leggja fram með beiðni um heimild til þeirrar aðgerðar. Þetta stafar af því að greiðsluáætlun þjónar þeim tilgangi að sýna lánardrottnum jafnt sem umsjónarmanni með greiðsluaðlögun fram á hver sé fyrirsjáanleg geta skuldarans til að greiða af skuldum sínum á komandi árum. Sé sú geta engin getur skuldarinn leitað greiðsluaðlögunar til að fá algera eftirgjöf samningskrafna, sbr. 63. gr. b, en greiðsluáætlunin mundi þá vera nauðsynlegur grundvöllur til að sýna fram á að þau málalok séu óhjákvæmileg.
    Í 3. mgr. 63. gr. c er kveðið á um verðtryggingu afborgunarfjárhæðar og er í þeim efnum ráðgert að slíkt sé skilyrði fyrir greiðsluaðlögun þar sem sú tilhögun á greiðslum verður fyrir valinu. Þetta er áskilið með tilliti til þess að greiðsluaðlögun með greiðslu afborgunarfjárhæðar getur varað um nokkurra ára skeið og er því ekki ástæða til annars en að aukinn almennur kaupmáttur launa komi lánardrottnum skuldarans til góða á þennan hátt. Í 3. mgr. er gengið út frá því að þessi verðtrygging taki að meginreglu mið af launavísitölu, en frá því megi þó víkja ef tekjur, sem skuldarinn hyggst verja til greiðslu afborgunarfjárhæðar, munu fyrirsjáanlega ekki fylgja þeim verðlagsmæli.
    Samkvæmt 4. mgr. 63. gr. c getur skuldarinn gert ráð fyrir því í greiðsluáætlun að skuldir innan tiltekinnar fjárhæðar verði greiddar að fullu þótt lánardrottnar, sem eiga hærri samningskröfur, verði að þola skerðingu á sínum réttindum. Tekið er fram í ákvæðinu að heimild til þessa sé háð því að fjárhæð skuldanna, sem greiðast til fulls, sé óveruleg í ljósi fjárhags skuldarans og að tryggt sé að allir aðrir lánardrottnar fái að minnsta kosti jafn háa greiðslu upp í sínar kröfur. Regla um heimild af þessum toga gildir um nauðasamning, sem gerður er eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 29. gr. og 2. mgr. 36. gr. laganna, en hún hefur þótt eðlileg meðal annars til hagræðis við greiðslur á grundvelli nauðasamnings. Þess skal og getið að í niðurlagi 4. mgr. 63. gr. c er ráðagerð um að lánardrottinn geti gefið meira eftir af samningskröfu sinni en aðrir með því að afsala sér hlutdeild í afborgunarfjárhæð að einhverju leyti eða öllu. Þótt þess sé ekki að vænta að staða sem þessi komi upp í ríkum mæli getur verið hugsanlegt að skuldari nái við undirbúning beiðni sinnar samkomulagi við tiltekinn lánardrottinn, einn eða fleiri, um að gefa meira eftir en aðrir og greiða þannig fyrir greiðsluaðlögun, en almennt gildir regla um heimild sem þessa við nauðasamningsumleitanir, sbr. 3. mgr. 29. gr. laganna.
    Samkvæmt áðurnefndum lögum nr. 65/1996 getur einstaklingur sem hyggst leita nauðasamnings sótt um að fá úr ríkissjóði réttaraðstoð í því skyni, en með henni verður viðkomandi í reynd eins settur og sá sem fengið hefur gjafsókn vegna rekstrar einkamáls fyrir dómi. Slík réttaraðstoð nær þá meðal annars til kostnaðar af þjónustu sem skuldarinn kann að þurfa að afla sér við gerð beiðni um heimild til nauðasamningsumleitana og gagna sem henni verða að fylgja. Eins og reglur frumvarpsins eru gerðar úr garði er gengið út frá því að öllu einfaldara verði að undirbúa beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og geti meðal annars komið að notum eyðublöð eða annar viðlíka háttur til að setja fram upplýsingar í stöðluðu horfi. Vegna þessa er nærtækt að ætla að hagkvæmari leiðir séu tækar til að veita skuldara fjárhagslegan stuðning af almannafé til að leita greiðsluaðlögunar en með réttaraðstoð samkvæmt lögum nr. 65/1996. Því til samræmis er lagt til í 5. mgr. 63. gr. c að dómsmálaráðherra geti með reglugerð komið á fót leið handa skuldara til að fá endurgjaldslausa aðstoð, hvort heldur hjá opinberri stofnun eða á öðrum vettvangi, við undirbúning beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og gerð fylgigagna með beiðninni. Verði þessi reglugerðarheimild nýtt mun skuldarinn ekki geta fengið réttaraðstoð eftir fyrrnefndum lögum að þessu leyti, svo sem tekið er fram í niðurlagi 5. mgr.
     Um d-lið (63. gr. d).
    Hér eru talin skilyrði sem skuldari þarf að fullnægja til að geta fengið heimild til að leita
greiðsluaðlögunar til viðbótar þeim sem felast í 63. gr. a og áður er gerð grein fyrir í athugasemdum við a-lið 1. gr. Samkvæmt því sem fram kemur í upphafi 1. mgr. 63. gr. d gilda almennar reglur 1. mgr. 38. gr. laganna um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, þar sem talin eru atriði sem valda því að héraðsdómara beri að synja um heimild til að leita nauðasamnings. Um þessar almennu reglur hefur þegar verið fjallað hér að framan í 4. lið í III. kafla almennra athugasemda við frumvarpið. Auk þessa er gengið út frá því að skuldari þurfi að fullnægja frekari skilyrðum sem talin eru í 1.–5. tölul. 1. mgr. 63. gr. d, en þess skal getið að þau ákvæði eiga sér fyrirmynd í 2. mgr. 197. gr. dönsku gjaldþrotaskiptalaganna.
    Atriðin sem talin eru upp í einstökum töluliðum 1. mgr. 63. gr. d eiga það sammerkt að þau valda því að héraðsdómari geti hafnað beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Skv. 1. tölul. verður beiðni hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldarans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á því tímabili sem greiða á af skuldum hans samkvæmt greiðsluáætlun. Hér ber að leggja áherslu á að skuldari verður að
veita fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Þannig
ber honum að varpa ljósi á bæði eigna- og skuldastöðu auk þess að greina frá tekjum og möguleikum til að afla þeirra, svo og áætluðum útgjöldum, eins og nánar var lýst í athugasemdum við c-lið 1. gr. frumvarpsins. Skv. 2. tölul. verður beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafnað ef skuldarinn hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað eða eftir að honum mátti vera orðið ljóst að hann væri ófær um að standa í fullum skilum við lánardrottna sína. Skv. 3. tölul. verður beiðni hafnað ef til skulda hefur verið stofnað á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Jafnframt verður beiðni hafnað skv. 4. tölul. ef skuldari hefur bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þá verður beiðni skuldara hafnað eftir 5. tölul. ef hann hefur svo að máli skipti látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna sína þótt honum hefði verið það kleift að einhverju leyti eða öllu. Loks verður beiðni hafnað skv. 6. tölul. ef ætla má að skuldarinn hafi hagað gerðum sínum svo sem raun varð á með ráðnum hug um að leita greiðsluaðlögunar. Þessum atriðum sem greinir í 2.–6. tölul. er það sammerkt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika af þessu tagi þar sem hann sjálfur með framgöngu sinni ber ábyrgð á því hvernig hans málum er komið. Það skal áréttað að ekki er gert ráð fyrir að þessi matskenndu atriði verði túlkuð rýmra en efni eru til. Þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda er vissulega eitt og annað sem hlýtur að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að framangreind atriði verði talin eiga við þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun.
    Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. d er lagt til að heimilt verði að skjóta til Hæstaréttar úrskurði héraðsdóms þar sem synjað er um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir málskoti ef heimildin er veitt. Þetta er samhljóða ákvæðum um málskot úrskurðar um heimild til að leita nauðasamnings, sbr. 2. mgr. 38. gr. og 1. mgr. 39. gr. laganna. Þykir rétt að sömu reglur gildi að þessu leyti um greiðsluaðlögun.
    Í 3. mgr. ákvæðisins segir að um skipun og stöðu umsjónarmanns með greiðsluaðlögun fari skv. 2. mgr. 39. gr. laganna. Hér gildir þó sú regla að kostnaður af málsmeðferð við greiðsluaðlögun, þ.m.t. þóknun umsjónarmanns, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun
héraðsdómara. Þetta er frábrugðið því sem gildir við nauðasamningsumleitanir eftir almennum reglum, en þá verður skuldari að standa straum af kostnaðinum. Eins og áður segir er markmiðið með þessari aðstoð við skuldara að greiða fyrir að greiðsluaðlögun nái þeim tilgangi að vera raunhæft úrræði fyrir hann til að ráða bót á þeim fjárhagsvanda sem hann glímir við.
     Um e-lið (63. gr. e).
    Hér er að finna fyrstu sérákvæði X. kafla a um aðgerðir eftir að fenginn hefur verið dómsúrskurður um heimild skuldara til að leita greiðsluaðlögunar. Er hér nánar tiltekið mælt fyrir um innköllun til lánardrottna, kröfulýsingar þeirra og meðferð krafna að loknum kröfulýsingarfresti, en þegar hér er komið sögu er staða skuldarans orðin sú sem kveðið er á um í 40., sbr. 43. gr. laganna, og er hann því í flestum atriðum eins settur og ef honum hefði verið veitt heimild til greiðslustöðvunar, bæði að því er varðar rétt hans til ráðstafana og vernd fyrir fullnustugerðum lánardrottna.
    Í 1. mgr. 63. gr. e eru sérstök fyrirmæli um innköllun til lánardrottna þegar leitað er greiðsluaðlögunar, en svo sem fram kemur í ákvæðinu gefur umsjónarmaður, sem á þessu stigi er nýskipaður til starfa skv. 3. mgr. 63. gr. d, innköllunina út. Skv. 1. mgr. 63. gr. e verður að koma fram að innköllunin sé gefin út sökum þess að skuldarinn leiti greiðsluaðlögunar og skal að auki boðað í henni til fundar umsjónarmannsins með samningskröfuhöfum til að fjalla um greiðsluáætlun, en um efni hennar, birtingu og réttaráhrif gilda að öðru leyti almennar reglur 1. mgr. 44. gr. og 3. mgr. 45. gr. laganna. Því til samræmis á að birta innköllunina tvívegis í Lögbirtingablaði og er kröfulýsingarfrestur fjórar vikur frá fyrri birtingunni. Innköllunin hefur ekki þau réttaráhrif að vanlýst krafa falli niður, heldur fer kröfuhafi, sem hirðir ekki um að lýsa kröfu sinni, á mis við heimild til að hafa afskipti af meðferð málsins fyrir umsjónarmanni og dómstólum ef til þess kemur að leitað sé þar staðfestingar á greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 63. gr. e.
    Samkvæmt 3. mgr. þessarar greinar á umsjónarmaður að gera svokallaða kröfuskrá að loknum kröfulýsingarfresti. Fram kemur í ákvæðinu að greina eigi í skránni frá þeim samningskröfum sem lýst hefur verið fyrir umsjónarmanninum á kröfulýsingarfresti og er því ekki ætlast til að þar verði teknar upp kröfur sem ekki teljast til samningskrafna, þótt þeim hafi verið lýst í framhaldi af innköllun. Um efni kröfuskrárinnar er í 3. mgr. að öðru leyti vísað til 1. og 2. tölul. 1. mgr. 46. gr. laganna. Í 2. málsl. þessarar málsgreinar er sérstakt ákvæði um þá aðstöðu að skuldari hafi í greiðsluáætlun greint frá samningskröfu sem ekki hefur verið lýst innan kröfulýsingarfrests. Ekki er ráðgert að umsjónarmaður taki slíka kröfu upp í kröfuskrá á þeim grunni einum að skuldarinn hafi gert grein fyrir henni, enda byði slíkt upp á hættu á misferli. Þess í stað er ætlast til að umsjónarmaður bregðist þannig við að hann leiti upplýsinga hjá viðkomandi lánardrottni um hvort krafan sé í raun til og hver fjárhæð hennar þá sé, en í samræmi við slíkar upplýsingar yrði krafan tekin upp í kröfuskrá eftir því sem atvik standa til. Þótt þetta yrði gert teldist kröfunni ekki hafa verið lýst og nyti viðkomandi lánardrottinn því ekki þeirrar stöðu sem mælt er fyrir um í 2. mgr. þessarar greinar. Svo sem fram kemur í niðurlagi 3. mgr. ber umsjónarmanninum að kynna skuldaranum kröfuskrána strax á þessu stigi og veita honum ef þörf krefur aðstoð við að gera breytingar á greiðsluáætlun. Með þeirri reglu er ekki gefið til kynna að ástæða geti almennt verið til að endurskoða greiðsluáætlun á þessu stigi, heldur er verið að tryggja að skuldari eigi aðgang að umsjónarmanninum til að veita ráðgjöf og aðstoð í þessum efnum hafi eitthvað óvænt komið fram með kröfulýsingum, svo sem að skuldir hafi verið stórum fleiri en skuldarinn hafði að óreyndu gert sér grein fyrir eða heildarfjárhæð þeirra til dæmis lægri. Slíkt gæti gefið tilefni til að huga á ný að greiðsluáætlun, einkum ef gert er þar ráð fyrir annarri tilhögun við greiðsluaðlögun en greiðslu upp í kröfur með afborgunarfjárhæð.
     Um f-lið (63. gr. f).
    Í ákvæðinu eru lagðar til reglur um fund sem umsjónarmanni er ætlað að halda með þeim kröfuhöfum, sem lýst hafa samningskröfum á kröfulýsingarfresti, til að fjalla um greiðsluáætlun skuldarans. Fundur þessi, sem halda ber innan tveggja vikna frá lokum kröfulýsingarfrests, er að ýmsu leyti hliðstæða fundar sem haldinn er skv. 48. gr. laganna við nauðasamningsumleitanir eftir almennum reglum, en á honum eru greidd atkvæði um frumvarp skuldara að nauðasamningi. Við greiðsluaðlögun liggur ekkert frumvarp fyrir og þar fer engin slík atkvæðagreiðsla fram, en þess í stað er í 63. gr. f ráðgert að fundurinn þjóni þeim megintilgangi að umsjónarmaður fái að hlýða á viðhorf lánardrottna og skýringar skuldara, en í lok fundarins liggi fyrir að greiðsluáætlun sé af hendi skuldarans orðin endanleg þannig að umsjónarmaðurinn geti tekið afstöðu til þess hvort hann mæli með því að greiðsluaðlögun komist á.
    Í 1. mgr. 63. gr. f eru í 1. málsl. sett áðurnefnd tímamörk fyrir því að fundur þessi verði haldinn jafnframt því sem vitnað er til 1. og 2. mgr. 48. gr. laganna um almenn atriði varðandi fundarhald. Að öðru leyti lýtur þessi málsgrein frumvarpsins að því hvernig bregðast skuli við ef fram kemur á fundinum ágreiningur um kröfu sem lýst hefur verið fyrir umsjónarmanni, hvort heldur vegna þess að skuldari mótmælir henni eða annar lánardrottinn. Samkvæmt ákvæði þessu er ætlast til að umsjónarmaðurinn leitist við að jafna ágreining og er þá haft í huga að miklu skiptir fyrir alla hlutaðeigandi að niðurstaða fáist um atriði sem þetta vegna þess að greiðslur skuldara eiga að dreifast hlutfallslega jafnt til allra samningskröfuhafa að fenginni greiðsluaðlögun. Eins og ráðið verður af lokamálslið þessarar málsgreinar er á hinn bóginn ekki ætlast til að umleitanir til að koma á greiðsluaðlögun brjóti á hugsanlegum ágreiningi um fram komna kröfu, en vissulega gæti óútkljáð deila um atriði sem þetta sett strik í reikninginn þegar kemur að því að umsjónarmaður taki ákvörðun um hvort hann mæli með greiðsluaðlögun, sbr. 63. gr. g.
    Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. f er ráðgert að á fundi þessum fari að öðru leyti fram viðræður skuldara og lánardrottna, þar sem sá fyrrnefndi verði meðal annars krafinn skýringa á atriðum sem þeir síðarnefndu telji þörf á, en að því búnu leiti umsjónarmaðurinn afstöðu hvers og eins lánardrottins sem sækir eða lætur sækja fundinn til greiðsluáætlunar skuldarans. Er ætlast til að umsjónarmaðurinn færi í fundargerð hver afstaða hvers lánardrottins sé. Þegar þær athugasemdir eru komnar fram fær skuldarinn að síðustu tækifæri til að endurskoða greiðsluáætlun sína í tilefni af skoðanaskiptum á fundinum. Athugasemdir lánardrottna á fundinum geta lotið að því að skuldarinn bjóði ekki svo háa greiðslu sem honum væri fært, til dæmis vegna þess að hann vanmeti framtíðartekjur, geri ráð fyrir óhæfilegum framfærslukostnaði eða hyggist ekki selja tiltekna eign til að afla fjár til greiðslu skulda. Athugasemdirnar geta jafnframt allt eins snúið að því gagnstæða með því að lánardrottnar telji skuldarann hafa óraunhæfar væntingar um greiðslugetu sína á greiðsluaðlögunartímabili. Með því að skuldarinn fái þetta lokatækifæri til að breyta greiðsluáætlun getur hann komið til móts við réttmætar athugasemdir af þessum toga, enda skiptir afstaða lánardrottna til greiðsluáætlunar máli fyrir niðurstöðu umsjónarmanns um hvort hann mæli með greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 63. gr. g.
    Varðandi fund skv. 63. gr. f er að öðru leyti ástæða til að vekja athygli á að í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um skyldu neins til að sækja hann eða afleiðingar af því að menn láti það hjá líða. Lánardrottnar mundu í sjálfu sér ekki glata neinum rétti með því að sækja ekki fundinn, en á hinn bóginn er nærtækt að ætla að umsjónarmaður líti almennt svo á að lánardrottinn sem sinnir ekki málinu með fundarsókn hafi ekkert við það að athuga að skuldarinn fái greiðsluaðlögun á grundvelli fyrirliggjandi greiðsluáætlunar. Að því er skuldarann varðar getur fjarvera á fundi á hinn bóginn haft afdrifaríkari afleiðingar. Í því sambandi verður að gæta að því að einn helsti tilgangur fundarins er að gefa lánardrottnum færi á að leita skýringa hjá skuldaranum, svo og að veita honum tækifæri til að breyta greiðsluáætlun vegna fram kominna athugasemda þeirra. Af þessum sökum er tekið fram í 1. mgr. 63. gr. g að meðal þeirra atriða sem skipta máli þegar umsjónarmaður metur hvort hann mæli með því að greiðsluaðlögun komist á sé hvort skuldarinn hafi sinnt skyldum sínum skv. 2. mgr. 63. gr. f. Í því ljósi liggur beint við að mæti skuldarinn ekki til fundarins eða sýni hann þar ekki viðeigandi samstarfsvilja hljóti það að leiða til hættu á að umleitanir til greiðsluaðlögunar fari út um þúfur með því að umsjónarmaðurinn mæli gegn því að hún komist á.
     Um g-lið (63. gr. g).
    Samkvæmt þessu ákvæði á umsjónarmaður innan viku frá fundi skv. 63. gr. f að taka rökstudda afstöðu til þess hvort hann mæli með því að greiðsluaðlögun komist á. Ákvörðun umsjónarmannsins um þetta skiptir sköpum um málalok, því leggist hann gegn greiðsluaðlögun fyrir skuldarann er málinu endanlega lokið, svo sem nánar kemur fram í 2. mgr. Mæli hann á hinn bóginn með því að greiðsluaðlögun komist á er skuldarinn eins settur og ef hann hefði hlotið brautargengi í atkvæðagreiðslu lánardrottna við nauðasamningsumleitanir eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr., og stendur þá eftir að hann leiti staðfestingar greiðsluaðlögunarinnar fyrir héraðsdómi skv. 63. gr. h. Á þennan hátt kemur afstaða umsjónarmannsins í stað atkvæðagreiðslu lánardrottna og má telja þetta eitt helsta einkenni greiðsluaðlögunar í samanburði við nauðasamningsumleitanir eftir almennum reglum.
    Í 1. mgr. 63. gr. g er kveðið á um fyrrnefndan frest umsjónarmannsins til að taka afstöðu sína, sem skal vera rökstudd og sett fram í skriflegri greinargerð. Í ákvæðinu er mælt fyrir um helstu atriðin sem umsjónarmaðurinn verður að taka mið af þegar hann kemst að niðurstöðu í þessum efnum. Þar er þess í fyrsta lagi getið að hann þurfi að gæta að því hvort nokkuð hafi komið fram við meðferð hans á málinu sem hefði í upphafi átt að standa því í vegi að skuldaranum yrði heimilað að leita greiðsluaðlögunar, en með þessu er skírskotað til fyrirmæla í 1. mgr. 38. gr. laganna, 63. gr. a og 63. gr. d. Í öðru lagi er ætlast til að umsjónarmaðurinn líti til þess hvort fram komnar upplýsingar gefi til kynna að skuldarinn leiti óeðlilega mikillar eftirgjafar af hendi lánardrottna með greiðsluaðlöguninni með tilliti til fjárhags hans og þess sem vænta megi að gerst geti varðandi fjármál hans í náinni framtíð. Í þriðja lagi verður að gæta að því hvort skuldarinn hafi við umleitanir til greiðsluaðlögunar sinnt skyldum sínum skv. 2. mgr. 63. gr. f, sem fjallað var um í athugasemdum við f-lið 1. gr. frumvarpsins, og hvort telja megi hann að öðru leyti hafa staðið heiðarlega að verki í þessum efnum. Í fjórða lagi verður umsjónarmaðurinn að leggja mat á það hvort raunhæft sé að ætla að skuldarinn geti staðið við þá skilmála sem hann gengist undir með greiðsluaðlöguninni, en í þessu sambandi verður að líta svo á að tilgangslaust sé að láta hana ná fram að ganga ef ekki eru sæmilegar horfur á að skuldarinn muni standa í skilum samkvæmt henni. Loks er þess í fimmta lagi getið að umsjónarmanninum beri að taka tillit til viðhorfa þeirra lánardrottna sem hafa lýst samningskröfum og látið í ljós afstöðu til greiðsluáætlunar skuldarans á fundi skv. 63. gr. f. Ekki er ætlast til að lánardrottnar hafi í þessum efnum úrslitaáhrif, enda er með reglum frumvarpsins meðal annars vikið frá almennum reglum um nauðasamningsumleitanir með því að þeir ráði ekki niðurstöðu um greiðsluaðlögun með atkvæðagreiðslu. Á hinn bóginn hljóta málefnalegar og rökstuddar ástæður fyrir andstöðu lánardrottna við greiðsluaðlögun að hafa talsvert vægi við mat umsjónarmannsins. Varðandi þessa talningu á viðmiðunaratriðum skv. 1. mgr. 63. gr. g verður að benda sérstaklega á að hún er eftir orðalagi ákvæðisins ekki tæmandi og geta því önnur atriði jafnframt komið til skoðunar. Umfram allt verður þó að leggja áherslu á að ætlast er til að umsjónarmaðurinn beiti í þessum efnum heildstæðu mati og gæti að því hvort eftir aðstæðum öllum sé sanngjarnt gagnvart bæði skuldaranum og lánardrottnum hans að hann fái lokið skuldum sínum á þann hátt sem ráðgert er í greiðsluáætlun hans.
    Í 2. mgr. eru fyrirmæli um lok umleitana til greiðsluaðlögunar ef umsjónarmaður kemst að þeirri niðurstöðu að mæla gegn því að hún komist á. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir því að umsjónarmaðurinn sendi þá tafarlaust greinargerð sína skv. 1. mgr. ásamt skriflegri tilkynningu til skuldarans og héraðsdómstólsins þar sem skuldaranum var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar, en þegar sú tilkynning berst dómstólnum lýkur þessu ferli og um leið falla niður þau réttaráhrif sem umleitanirnar höfðu í för með sér skv. 40. gr. laganna. Skuldaranum er hér ekki veitt leið til að leita endurskoðunar á þessari niðurstöðu umsjónarmannsins, en að því leyti er skuldarinn eins settur og ef hann hefði leitað nauðasamnings eftir almennum reglum og samningsfrumvarp hans hefði ekki hlotið nægilegt fylgi við atkvæðagreiðslu lánardrottna. Ljúki umleitunum til greiðsluaðlögunar á þennan hátt er mælt svo fyrir í niðurlagi þessa ákvæðis að umsjónarmaðurinn skuli svo fljótt sem verða má fá birta auglýsingu um málalokin í Lögbirtingablaði. Í tengslum við þetta er jafnframt vakin athygli á því með síðasta málslið 2. mgr. að almennar reglur um lok nauðasamningsleitana í 41. og 42. gr. laganna gilda einnig þegar leitað er greiðsluaðlögunar, en um lyktir máls samkvæmt þeim ákvæðum verður umsjónarmaður að fá birta auglýsingu á sama hátt og áður var getið.
    Mæli umsjónarmaðurinn með því að greiðsluaðlögun nái fram að ganga felur sú afstaða hans það í sér skv. 3. mgr. að skuldarinn verður eins settur og ef frumvarp til nauðasamnings fyrir hann hefði verið samþykkt við atkvæðagreiðslu eftir almennum reglum 3. þáttar laganna. Umsjónarmaðurinn gerir þá ekki aðeins greinargerð, svo sem lýst er í 1. mgr. þessarar greinar, heldur einnig það sem nefnt er í 3. mgr. samþykkt frumvarp að greiðsluaðlögun. Í einstökum töluliðum 3. mgr. er tíundað nánar hvað koma eigi fram í slíku frumvarpi, en í flestum atriðum er um það að ræða að dregnar verði saman upplýsingar um viss efni úr greiðsluáætlun skuldarans, eftir atvikum að teknu tilliti til breytinga sem hann kann að hafa gert á henni við umleitanir til greiðsluaðlögunar, sbr. 3. mgr. 63. gr. e og 2. mgr. 63. gr. f. Að tvennu leyti er þó ráðgert að samþykkta frumvarpið geymi upplýsingar sem ekki eru í greiðsluáætlun. Annars vegar er í 2. tölul. 3. mgr. 63. gr. g mælt fyrir um að í frumvarpinu skuli koma fram hvaða lánardrottnar eigi samningskröfur og hver fjárhæð kröfu hvers þeirra sé, svo og hvaða hlutfall þeir eigi að fá greitt af kröfum sínum eigi greiðsluaðlögunin að leiða eingöngu til hlutfallslegrar lækkunar krafnanna eða hvaða hlutfall hver þeirra eigi að fá af afborgunarfjárhæð ef kveðið verður á um þá greiðslutilhögun í greiðsluaðlöguninni. Upplýsingar um þetta eru eðli máls samkvæmt ekki í greiðsluáætlun, enda er ekki fært að slá þessu föstu fyrr en fram er komið hverjir kröfuhafarnir eru með því annaðhvort að þeir hafi lýst kröfum sínum eða á þann hátt sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 63. gr. e. Benda verður á að tilgreining á þessu í samþykktu frumvarpi er háð þeim almenna fyrirvara að kröfur falla ekki niður þótt þeim sé ekki lýst fyrir umsjónarmanni í kjölfar innköllunar hans. Þótt ætla verði að slíkt mundi heyra til undantekninga verður að hafa í huga að kröfuhafi gæti gefið sig á síðari stigum fram við skuldara og krafið hann um greiðslu samningskröfu, sem ekki var lýst og þar með ekki gert ráð fyrir í samþykktu frumvarpi. Viðkomandi lánardrottinn væri þó eftir sem áður bundinn af þeim kjörum sem greiðsluaðlögunin fæli í sér, sbr. 2. mgr. 60. gr. laganna. Hafi greiðsluaðlögun komist á með þeim skilmálum að skuldarinn greiði mánaðarlega tiltekna afborgunarfjárhæð, sem er þá heildarupphæð til ráðstöfunar upp í samanlagðar samningskröfur, yrði að bregðast við tilkomu nýs samningskröfuhafa með því að breyta upp frá því hlutfallslegri skiptingu afborgunarfjárhæðarinnar milli þeirra allra. Slíka breytingu yrði skuldarinn sjálfur að gera og veita þá öðrum samningskröfuhöfum upplýsingar um ástæðuna fyrir henni, en ekki er ráðgert í frumvarpinu að atvik sem þessi valdi því að umleitanir til greiðsluaðlögunar verði enduruppteknar eða ný krafa um staðfestingu hennar komi til kasta dómstóla. Hins vegar er mælt svo fyrir í 3. tölul. 3. mgr. 63. gr. g að fram skuli koma í staðfestu frumvarpi hvort skuldari geri ráð fyrir því að umdeild krafa sé meðal þeirra sem greitt verði af samkvæmt fyrrnefndum 2. tölul. ákvæðisins. Eins og vikið var að í athugasemdum við f-lið 1. gr. frumvarpsins eru reglur í 1. mgr. 63. gr. f um meðferð umdeildra krafna við umleitanir til greiðsluaðlögunar, en ekki er miðað við að niðurstaða fáist þar alltaf um réttmæti slíkra krafna. Því getur komið til þess að umleitunum ljúki án þess að útkljáður sé ágreiningur um kröfu, eina eða fleiri, en svo sem fram kemur í síðari málslið 2. mgr. 63. gr. f er ætlast til að skuldarinn segi þar á síðustu stigum til um hvað hann hafi í hyggju með slíka kröfu, það er að segja hvort gert skuli ráð fyrir henni í samþykktu frumvarpi eða ekki. Ákvæði 3. tölul. 3. mgr. 63. gr. g taka mið af þessu. Með því að greina sérstaklega frá því í samþykktu frumvarpi að tiltekin krafa, sem ætlað er að greidd verði, sé umdeild er vakin athygli annarra lánardrottna sem eiga greiðslu í vændum af afborgunarfjárhæð á því að hlutdeild þeirra í henni kunni að breytast til hækkunar ef ágreiningur um umdeildu kröfuna er leiddur til lykta á þann hátt að hún lækki eða falli með öllu brott. Varðandi 3. mgr. 63. gr. g er að öðru leyti ástæða til að vekja athygli á að með upphafsorðum ákvæðisins er umsjónarmanninum gert að boða skuldarann á sinn fund til að afhenda honum greinargerð sína um lok málsins og eintak af samþykkta frumvarpinu. Hér er gengið út frá því að þörf sé á að gera þetta með formlegri athöfn, enda hefst einnar viku frestur skuldarans til að leggja skriflega kröfu fyrir héraðsdóm um staðfestingu greiðsluaðlögunarinnar skv. 1. mgr. 63. gr. h á tímamarki þessa fundar.
    Í 4. mgr. 63. gr. g er mælt fyrir um skyldu umsjónarmannsins til að senda lánardrottnum, sem lýstu kröfum við umleitanir til greiðsluaðlögunar, eintak af greinargerð sinni skv. 1. mgr. greinarinnar ásamt tilkynningu um lyktir málsins í höndum hans. Tilkynningu sem þessa verður að senda lánardrottnum sem lýstu kröfum án tillits til þess hvort þeir hafi reynst vera samningskröfuhafar og gildir þetta ákvæði jafnt hvort sem umsjónarmaðurinn hefur mælt með eða gegn því að greiðsluaðlögun nái fram að ganga. Hafi hann mælt með því verður eintak af samþykktu frumvarpi einnig að fylgja þessum tilkynningum.
     Um h-lið (63. gr. h).
    Í þessu ákvæði eru sérreglur um staðfestingu nauðasamnings um greiðsluaðlögun og réttaráhrif hans, en þær fela í sér minni háttar frávik frá almennum reglum í IX. og X. kafla laganna. Eins og fram kemur í upphafi 1. mgr. verður skuldarinn að leita staðfestingar greiðsluaðlögunar fyrir héraðsdómstólnum þar sem honum var í byrjun veitt heimild til að leita hennar, og skal það gert innan viku frá þeim fundi sem umsjónarmaður boðaði hann til skv. 3. mgr. 63. gr. g. Í því sambandi verður að taka fram að í 1. mgr. 63. gr. h er ekki miðað við að þessi frestur byrji því aðeins að líða að skuldarinn mæti til fundarins og er það því á hans áhættu að láta hjá líða að sinna fundarboði umsjónarmannsins. Skuldarinn verður að leggja skriflega kröfu um staðfestingu nauðasamningsins fyrir héraðsdóm innan þessa frests og leggja með henni þau gögn sem talin eru upp í síðari málslið 1. mgr. 63. gr. h. Um ferlið við staðfestingu greiðsluaðlögunar gilda að öðru leyti almennar reglur IX. kafla laganna að því leyti sem þær geta átt við, þar á meðal um heimild lánardrottins til að andmæla kröfu um staðfestingu, sbr. 58. gr. þeirra.
    Í 2. mgr. 63. gr. h er kveðið á um að nauðasamningur um greiðsluaðlögun hafi sömu réttaráhrif og dómsátt milli skuldarans og lánardrottna hans um samningskröfur, sem þeir hafa lýst og komið hafa fram í kröfuskrá umsjónarmanns, ef skuldarinn hefur ekki andmælt þeim á fundi skv. 1. mgr. 63. gr. f. Um þetta ákvæði, sem svarar efnislega til fyrirmæla 3. mgr. 60. gr. laganna um slík áhrif nauðasamnings sem er gerður eftir almennum reglum, er rétt að vekja athygli á að áskilið er að viðkomandi lánardrottinn hafi lýst kröfu sinni jafnframt því sem hún hafi verið tekin upp í kröfuskrá, en af þessu leiðir að krafa sem tilgreind væri í skránni skv. 3. mgr. 63. gr. e án þess að henni hafi verið lýst mundi ekki njóta þessarar stöðu.
    Varðandi réttaráhrif greiðsluaðlögunar er ætlast til að almennar reglur X. kafla laganna gildi að öðru leyti. Þetta felur meðal annars í sér að greiðsluaðlögun tekur gildi þegar endanleg dómsúrlausn hefur verið fengin um staðfestingu hennar, sbr. 1. mgr. 60. gr. laganna, greiðsluaðlögun tekur til allra samningskrafna án tillits til þess hvort þeim var lýst í kjölfar innköllunar umsjónarmanns, sbr. fyrri málslið 2. mgr. 60. gr., efndir samningskröfu samkvæmt skilmálum greiðsluaðlögunar hefur sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd að fullu eftir upphaflegu efni hennar, sbr. síðari málslið sömu málsgreinar, og greiðsluaðlögun breytir í engu heimild lánardrottins til að ganga fyrir fullri samningskröfu sinni að þeim sem hefur tekið á sig ábyrgð á henni eða veitt veð eða aðra tryggingu fyrir henni í eign sinni, sbr. 4. mgr. 60. gr. Í framhaldi af staðfestingu nauðasamnings um greiðsluaðlögun gæti komið til þess að beitt yrði reglum XX. kafla laganna um riftun ráðstafana skuldarans, sbr. 32. og 61. gr. Loks gilda ákvæði 62. og 63. gr. laganna meðal annars um heimild lánardrottins til að fá greiðsluaðlögun ógilta með dómi vegna vanefnda skuldarans á skuldbindingum sínum samkvæmt henni eða af öðrum þeim ástæðum sem þar greinir.
     Um i-lið (63. gr. i).
    Hér er lagt til að ljúka megi gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum XXI. kafla laganna. Er þá miðað við að þrotamaður leggi fyrir skiptastjóra greiðsluáætlun í stað frumvarps að nauðasamningi. Skiptastjóri leitar síðan greiðsluaðlögunar eins og umsjónarmaður hefði annars gert. Um þetta gilda reglur XXI. kafla laganna með þeim frávikum sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins. Þarfnast þetta ekki frekari skýringa.

Um 2. gr.


    Samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 65. gr. laganna geta árangurslausar tilraunir til að koma á nauðasamningi orðið grundvöllur fyrir kröfu lánardrottins um gjaldþrotaskipti á búi skuldara. Það leiðir af sjálfu sér að árangurslaus tilraun til að koma á nauðasamningi til greiðsluaðlögunar hafi sömu réttaráhrif. Því er lögð til viðeigandi breyting á lagatilvísun í umræddu ákvæði laganna.

Um 3. gr.


    Ákvæði þetta, sem snýr að gildistöku laganna ef frumvarpið nær fram að ganga, þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Vegna þess sérstaka ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum og snertir fjárhag fjölmargra heimila er lagt til að þrátt fyrir ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 28. gr. laganna verði unnt að gera breytingar á skilmálum þeirra krafna sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins ef kröfurnar eru tryggðar með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað er til eigin nota skuldara. Þannig verði skilmálum þess hluta skuldarinnar sem fellur innan verðmats fasteignarinnar breytt en sá hluti sem út af stendur greiðist á sama hátt og samningskröfur. Þar sem um frávik frá meginreglunni í fyrrgreindri 28. gr. laganna er að ræða og eingöngu er átt við kröfur í eigu Íbúðalánasjóðs og fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins þykir rétt að ákvæðið verði endurskoðað fyrir 1. janúar 2011.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.,
nr. 21/1991 (greiðsluaðlögun).

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að inn í lög um gjaldþrotaskipti verði bætt úrræði sem beri heitið greiðsluaðlögun. Reglur um greiðslustöðvun og nauðasamninga er að finna í lögum um gjaldþrotaskipti en þessi réttarúrræði hafa það að markmiði að gera skuldara kleift að ráða bót á fjárhagsörðugleikum sínum til að forða því að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Reynslan af þessu fyrirkomulagi er að þessi úrræði gagnist helst þeim sem leggja stund á atvinnurekstur af einhverju tagi. Tilgangurinn með frumvarpinu er að gera einstaklingum sem ekki stunda atvinnurekstur eða hafa hætt slíkum rekstri og glíma við verulegan fjárhagsvanda kleift að endurskipuleggja fjármál sín með sama hætti. Hluti skulda sem stafa frá atvinnustarfsemi þarf þó að vera tiltölulega lítill hluti heildarskulda einstaklinga. Í kjölfar bankahrunsins á liðnu hausti og þeirrar miklu efnahagslægðar sem því hefur fylgt með tilheyrandi greiðsluvanda fyrir stóran hóp fólks þykir nauðsynlegt að tryggja einstaklingum virkara úrræði til að endurskipuleggja fjármál sín en hingað til hefur verið mögulegt. Gert er ráð fyrir að skuldari geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Með því er átt við algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun, gjaldfrest á þeim, greiðslu þeirra með hlutdeild í afborgunarfjárhæð í einu lagi eða með ákveðnu millibili eða breytt form á greiðslu.
    Í bráðabirgðaákvæði er lagt til að kröfur í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi geti líka fallið undir nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Með slíkum úrræðum verður hægt að fjölga gjalddögum, veita greiðslufrest um ákveðinn tíma og ákveða nýjan lánstíma og skuldbreytingu vanskila. Sá hluti skuldarinnar sem veðið nær ekki til ákvarðast með sama hætti og aðrar samningskröfur. Almennar reglur nauðasamninga munu gilda um slíka greiðsluaðlögun með nokkrum frávikum sem hafa það að markmiði að greiða sem best fyrir að raunhæft úrræði standi til boða fyrir þann hóp einstaklinga sem frumvarpinu er ætlað að þjóna. Þessi frávik eru í fyrsta lagi að skuldari þarf ekki að afla skriflegrar yfirlýsingar um meðmæli lánardrottna enda ekki gert ráð fyrir að málið verði borið undir atkvæði þeirra eins og gildir um nauðasamninga. Þannig er meðferðin gerð auðveldari og einföld greiðsluáætlun kemur í stað frumvarps að nauðasamningi. Í öðru lagi er ekki gert ráð fyrir að afstaða lánardrottna ráði því hvort greiðsluaðlögun kemst á eða ekki. Þess í stað er lagt til að dómskipaður umsjónarmaður taki rökstudda afstöðu til þess hvort hann mæli með því að greiðsluaðlögun komist á fyrir skuldara. Meðmæli hans eru þá látin jafngilda því að frumvarp að nauðasamningi hafi verið samþykkt af lánardrottnum. Í þriðja lagi er lagt til að kostnaður við að koma á greiðsluaðlögun falli að verulegu leyti á ríkissjóð. Þannig er gert ráð fyrir að þóknun umsjónarmanns verði greidd af ríkissjóði. Auk þess er veitt heimild fyrir dómsmálaráðherra til að ákveða með reglugerð að boðið verði upp á endurgjaldslausa aðstoð við að undirbúa beiðni um greiðsluaðlögun.
    Samkvæmt ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga skal dómari skipa umsjónarmann með nauðasamningum og leggja fram tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar. Sú trygging er 250 þús. kr. og má gera ráð fyrir að vinna umsjónarmanns við greiðsluaðlögun verði svipuð fjárhæð í hverju máli. Leitað hefur verið til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna um að taka að sér aðstoð við gerð beiðna um greiðsluaðlögun og fylgigagna og er gert ráð fyrir að sú aðstoð verði skuldaranum að kostnaðarlausu. Réttaraðstoð vegna nauðasamninga nemur í dag 439 þús. kr. á hvert mál og ætti sá sem leitar eftir nauðasamningi til greiðsluaðlögunar sama rétt ef ekki væri boðið upp á endurgjaldslausa aðstoð hjá aðila eins og Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna. Gert er ráð fyrir því að einfaldara verði að undirbúa beiðni um heimild til greiðsluaðlögunar en almennt á við um nauðasamninga, m.a. með notkun eyðublaða og upplýsinga í stöðluðu formi.
    Ekki liggur fyrir hvaða áhrif frumvarp þetta, verði það að lögum, hefur á Íbúðalánasjóð eða fjármálastofnanir í eigu ríkisins umfram þær afskriftir lána sem eru fyrirsjáanlegar eftir að þrengdi að í efnahagskerfinu. Verið er að skoða hvaða áhrif skuldbreytingar og frystingar lána hafa haft á sjóðstreymi Íbúðalánasjóðs en niðurstöður liggja ekki fyrir. Hvort þetta frumvarp íþyngi sjóðnum verulega er óvíst, en þó er það talið ólíklegt þar sem hámark er á lánum og hefur það hámark miðast við heildarveðsetningu lána.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er nokkur óvissa um kostnað sem fellur á ríkissjóð og ræðst það aðallega af fjölda þeirra mála sem til greiðsluaðlögunar koma. Miðað við þær aðstæður sem nú eru í efnahagsmálum má búast við að talsvert mikil eftirspurn verði eftir slíku úrræði. Á árinu 2006 komu bú 130 einstaklinga til gjaldþrotaskipta, 150 bú á árinu 2007 og voru þau orðin 132 í lok september 2008. Ljóst er að nokkur aukning hefur orðið á milli ára í gjaldþrotum einstaklinga og má búast við talsverðri aukningu áfram. Verði reyndin sú að stór hluti þeirra sem eru á leið í gjaldþrot leiti eftir nauðasamningi til greiðsluaðlögunar má ætla að kostnaður ríkissjóðs verði á bilinu 25 til 50 m.kr. á ári verði málafjöldinn á bilinu 100 til 200. Viðbótarkostnaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna ræðst sömuleiðis af fjölda þeirra mála sem til stofunnar berast. Gert hefur verið ráð fyrir að ráða þurfi a.m.k. einn viðbótarstarfsmann og jafnvel allt að þrjá ef spurn eftir þjónustunni verður mjög mikil. Kostnaðurinn gæti því orðið á bilinu 6 til 20 m.kr., en eftir því sem starfsmönnum fjölgar skapast m.a. þörf á stærra húsnæði. Heildarkostnaður ríkissjóðs af samþykkt frumvarpsins er eins og áður segir nokkuð óljós en gæti verið á bilinu 30 til 70 m.kr. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi en ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009.