Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 185. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 527  —  185. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Hermann Sæmundsson og Hjördísi Stefánsdóttur frá samgönguráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Reykjavíkurborg, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Mosfellsbæ, Ísafjarðarbæ og Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að breyta tvennum lögum er varða sveitarfélögin, annars vegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, þar sem lagt er til að lögveðsréttur fasteignaskatts vegna áranna 2009 og 2010 gildi í fjögur ár í stað tveggja, og hins vegar lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, þar sem lagt er til að frestur sveitarfélaga til þess að endurgreiða gatnagerðargjald verður lengdur úr 30 dögum í 90 daga.
    Nefndin ræddi á fundum sínum tillögur þær sem kynntar eru í frumvarpi þessu og á fundi kom fram að tillögurnar byggjast á samkomulagi milli ríkisvaldsins og sambands sveitarfélaga sem miðar að því að skapa betri rekstrarlegar forsendur fyrir sveitarfélög til að mæta þeim tímabundnu erfiðleikum sem ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar nú um stundir.
    Nefndin fjallaði um þær athugasemdir sem fram hafa komið og lúta að því til hvaða ára heimild um lengingu lögveðs vegna fasteignaskatts skuli ná og hafa þar komið upp þau sjónarmið að láta heimildina einnig ná til áranna 2007 og 2008. Sú heimild sem kveðið er á um í frumvarpinu er tímabundin lausn til að koma til móts við gjaldendur í ljósi efnahagsástandsins sem leiddi af bankahruninu síðastliðið haust. Vanskil fyrir efnahagshrun eru tilkomin vegna annarra þátta og ættu því ekki að falla undir þessa heimild.
    Loks fjallaði nefndin um þau sjónarmið sem upp hafa komið um hvort heimild sú sem getið er í 1. gr. frumvarpsins ætti að ná til allra fasteignagjalda en ekki einvörðungu fasteignaskatts. Þeir þættir sem mynda fasteignagjöldin aðrir en fasteignaskatturinn, svo sem holræsagjald, vatnsgjald, o.fl. eru ólíkir í grunninn og er lagastoð þeirra að finna í mörgum lögum, því þótti ekki ástæða til að fara í heildarendurskoðun á fasteigngjöldunum að svo stöddu. Taka heldur fasteignaskattinn einan þar sem hann er langstærsti hluti gjaldstofnsins og með hliðsjón af þeim markmiðum frumvarpsins að koma til móts við sveitarfélögin vegna efnahagsástandsins telur nefndin það hagsmunamál fyrir gjaldendur að breyting verði gerð vegna aukinna vanskila í kjölfar kreppunnar.
    Nefndin gerir ekki athugasemdir við frumvarpið sem slíkt en vekur athygli á að fyrirvari sem lagður er til í 3. gr. frumvarpsins er orðinn nokkuð langur, á fundi nefndarinnar kom fram að hann á rætur að rekja aftur til ársins 1996.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. febr. 2009.Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Björgvin G. Sigurðsson.Sigurður Pétursson.


Guðjón A. Kristjánsson.


Helga Sigrún Harðardóttir.Ólöf Nordal.


Sturla Böðvarsson.