Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 299. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 528  —  299. mál.
Tillaga til þingsályktunarum veiðar á hrefnu og langreyði.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Jón Gunnarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir,
Ármann Kr. Ólafsson, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Ásta Möller,
Birgir Ármannsson, Birkir J. Jónsson, Bjarni Benediktsson, Björk Guðjónsdóttir,
Björn Bjarnason, Eygló Harðardóttir, Geir H. Haarde, Grétar Mar Jónsson,
Guðfinna S. Bjarnadóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Helga Sigrún Harðardóttir,
Herdís Þórðardóttir, Höskuldur Þórhallsson, Illugi Gunnarsson, Jón Magnússon,
Kjartan Ólafsson, Kristinn H. Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Magnús Stefánsson,
Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ólafsdóttir,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir,
Sturla Böðvarsson, Valgerður Sverrisdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að veiðum á hrefnu og langreyði hér við land skuli haldið áfram, veiðileyfi gefin út til næstu fimm ára og að árlegur leyfilegur heildarafli verði eins og kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.

Greinargerð.


    Hvalveiðar í vísindaskyni hafa verið stundaðar frá árinu 2003 og jafnframt í atvinnuskyni frá haustinu 2006. Vegna markaðsaðstæðna varð hlé á veiðum á langreyði árin 2007 og 2008 en hrefnuveiðum hefur verið haldið áfram. Alls hafa verið veidd 253 dýr á þessum tíma, þar af 246 hrefnur.
    Það má heita óumdeilt að allar vísindalegar forsendur eru til áframhaldandi hvalveiða. Hafrannsóknastofnunin gefur árlega út veiðiráðgjöf vegna veiða á langreyði og hrefnu. Vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins hefur samþykkt stofnstærðarmatið.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir mikilli varúðarnálgun þegar kemur að nýtingu hvalastofnanna og ljóst að veiðar á þeim, í þeim mæli sem tillagan gerir ráð fyrir, eru fyllilega í samræmi við hugmyndir um sjálfbæra nýtingarstefnu. Þá er ástæða til að árétta að engar alþjóðlegar skuldbindingar okkar né reglur eða lög innanlands koma í veg fyrir að hvalveiðum hér verði haldið áfram.
    Nú hafa þau þáttaskil orðið að rutt hefur verið úr vegi þeim hindrunum sem voru á sölu á hvalafurðum til Japans. Með því að þessir markaðir opnast skapast forsendur til frekari atvinnuveiða. Hingað til hafa afurðir af hrefnu verið seldar á innanlandsmarkaði við vaxandi vinsældir. Stóru tækifærin felast hins vegar í útflutningi enda er innanlandsmarkaður afar takmarkaður.
    Þá má segja að efnahagsaðstæður séu með þeim hætti að brýnna verður að hefja hvalveiðar og úrvinnslu afurða. Fram hefur komið að veruleg efnahagsleg umsvif muni fylgja starfseminni. Hún mun kalla á allumfangsmiklar fjárfestingar og mannaflsfreka uppbyggingu. Þá skapar starfsemin sjálf vel launuð störf fyrir fjölda fólks, á tímum þegar atvinnuleysi er skollið á. Útflutningsverðmæti hvalveiða og vinnslu nemur umtalsverðum fjárhæðum sem styrkja mun grundvöll efnahagslífs okkar. Loks má nefna að samkvæmt fjölstofnalíkani Hafrannsóknastofnunarinnar gæti afrakstur þorskstofnsins orðið um 20% minni en ella njóti hvalastofnar algerrar friðunar. Stofnar langreyðar og hrefnu við Íslandsstrendur eru nú taldir nálægt stofnstærð þegar mælingar hófust. Sérfræðingar stofnunarinnar leggja til að hvalveiðar séu stundaðar með sjálfbærum hætti og hvalastofnum haldið í 70% af hámarksstærð.
    Enginn vafi er á því að hvalveiðar njóta mikils stuðnings í þjóðfélaginu. Í nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup vann fyrir félagið Sjávarnytjar kom fram að ríflega þrír fjórðu landsmanna, 77% styðja hvalveiðar og innan við fjórðungur er andvígur eða 23%.
    Árið 1999 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga þar sem til þess var hvatt að hvalveiðar yrðu leyfðar hið fyrsta. Mikill stuðningur kom fram við málið í þinginu, 37 greiddu tillögunni atkvæði sitt, en 7 voru á móti. Það er á grundvelli þessarar tillögu sem vísindaveiðarnar hófust árið 2003 og veiðar í atvinnuskyni árið 2006. Segja má að í raun hafi verið fylgt eftir vilja Alþingis með þeim hætti.
    Nú er komið að þáttaskilum. Fyrir liggur reglugerð nr. 58 frá 27. janúar 2009 um hvalveiðar, þar sem gert er ráð fyrir að veiðar á langreyði og hrefnu haldi áfram og að gefin verði út veiðileyfi til fimm ára, í samræmi við það sem tíðkast innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Reglugerðin felur í sér að settar eru almennar reglur um veiðar á hval og sem þeir geta stundað sem uppfylla tiltekin skilyrði.
    Með þessari þingsályktunartillögu er í raun verið að árétta þau sjónarmið að hvalveiðar eigi að stunda á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar. Við þær aðstæður sem nú ríkja varðandi þá spurningu er tilefni til að leiða fram vilja Alþingis gagnvart þessu viðfangsefni og er tillaga þessi flutt í því skyni.Fylgiskjal.Reglugerð nr. 58 27. janúar 2009, um breyting á reglugerð nr. 163, 30. maí 1973,
um hvalveiðar, með síðari breytingum.


1. gr.

    2. ml. 1. gr. orðist svo:
    Leyfi til veiða á hrefnu árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013 skal veita þeim íslensku skipum, sem eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila, sem hafa stundað hrefnuveiðar í atvinnuskyni á árunum 2006-2008 eða félaga sem þeir hafa stofnað um slíka útgerð. Einnig er heimilt að veita leyfi þeim einstaklingum eða lögaðilum sem að mati ráðherra hafa sambærilega reynslu af útgerð á hrefnuveiðum í atvinnuskyni. Eingöngu þeim skipum sem sérútbúin eru til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013.

2. gr.

    Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. gr. laga nr. 26 3. maí 1949, um hvalveiðar, til að öðlast þegar gildi. Sjá jafnframt viðauka sem birtur er sem fylgiskjal við reglugerð þessa.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 27. janúar 2009.Einar K. Guðfinnsson.


Ásta Einarsdóttir.Fylgiskjal.

Viðauki við reglugerð nr. 163, 30. maí 1973 um hvalveiðar, með síðari breytingum.1. gr.

    Leyfilegur heildarafli á langreyði og hrefnu á árunum 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013 skal nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.
    Heimilt er að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár á eftir.

2. gr.

    Viðauki þessi er settur samkvæmt 4. gr. laga nr. 26 3. maí 1949, um hvalveiðar, til að öðlast þegar gildi.