Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 305. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 534  —  305. mál.




Frumvarp til laga



um náms- og starfsráðgjafa.

Flm.: Einar Már Sigurðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


Þuríður Backman, Helga Sigrún Harðardóttir,


Grétar Mar Jónsson, Jón Magnússon.



1. gr.

    Rétt til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.

2. gr.

    Leyfi skv. 1. gr. skal veita umsækjanda sem lokið hefur námi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands.
    Veita má umsækjanda, sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr., leyfi til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa og stunda ráðgjöf hér á landi. Leita skal umsagnar Félags náms- og starfsráðgjafa og Háskóla Íslands áður en leyfi samkvæmt þessari málsgrein er veitt.

3. gr.

    Takmörkuð eða tímabundin réttindi má einnig veita þeim sem eru í starfi þegar lög þessi öðlast gildi en uppfylla ekki skilyrði 2. gr.
    Slíkt leyfi má því aðeins veita að fyrir liggi meðmæli þeirrar stofnunar sem umsækjandi vinnur hjá. Jafnframt skal leita umsagnar Félags náms- og starfsráðgjafa.

4. gr.

    Óheimilt er að ráða í stöðu til náms- og starfsráðgjafa aðra en þá sem starfsleyfi hafa skv. 2. gr., með þeim undantekningum sem leiðir af ákvæðum 3. gr.

5. gr.

    Náms- og starfsráðgjafa er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins. Þagnarskyldan helst þótt viðkomandi láti af starfi.

6. gr.

    Náms- og starfsráðgjafa ber að þekkja skyldur sínar samkvæmt lögum, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða fagið.
    Náms- og starfsráðgjafar bera ábyrgð á þeirri ráðgjöf sem þeir veita.

7. gr.

    Ráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

9. gr.

Breytingar á öðrum lögum.


    Frá þeim tíma er lög þessi öðlast gildi verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um grunnskóla, nr. 91/2008:
                  a.      2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
                     Um skilyrði þess að hljóta ráðningu sem skólastjóri, kennari eða náms- og starfsráðgjafi í grunnskóla fer samkvæmt gildandi lögum þar um.
                  b.      3. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
                     Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa.
     2.      Lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
                      1.      3. mgr. orðast svo:
                             Um skilyrði þess að vera ráðinn skólameistari, kennari eða náms- og starfsráðgjafi við framhaldsskóla fer eftir ákvæðum gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og laga um náms- og starfsráðgjafa.
                      2.      Orðin „náms- og starfsráðgjafa“ í 1. málsl. 5. mgr. falla brott.
                  b.      1. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
                     Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskóla af aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjafa.

Greinargerð.


    Markmið frumvarpsins er að lögvernda starfsheitið náms- og starfsráðgjafi. Með lögverndun þess er verið að tryggja ákveðin gæði þjónustu, sinna hagsmunum ráðþega og að mikilvæg sér- og fagþekking skili sér inn í menntakerfið, út á vinnumarkaðinn og til almennings. Sá sem leitar aðstoðar náms- og starfsráðgjafa getur í skjóli lögverndunar verið þess fullviss að sá sem þjónustuna veitir hafi tilskylda menntun og fagþekkingu. Hér er fyrst og fremst verið að huga að heill nemenda og þeirra er njóta þjónustu náms- og starfsráðgjafa jafnframt því að tryggja fagleg vinnubrögð stéttarinnar. Auk þess sem náms- og starfsráðgjafar og fagið sjálft getur stuðlað að öflugri tengingu milli skóla og atvinnulífs.
    Náms- og starfsráðgjafar starfa m.a. í skólum, í fyrirtækjum og á atvinnumiðlunum. Starf þeirra er breytilegt eftir því hvar þeir starfa en byggist þó að grunni til á því sameiginlega markmiði að stuðla að velferð einstaklinga með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Markmið náms- og starfsráðgjafar er að efla vitund einstaklinga um viðhorf sín, áhuga og hæfileika þannig að þeir fái notið sín í námi og starfi. Náms- og starfsráðgjöf hefur fest sig í sessi í menntakerfinu frá því að nám í námsráðgjöf hófst árið 1991 við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Fagleg þekking og vinnubrögð liggja að baki náms- og starfsráðgjöf og starfsheitið náms- og starfsráðgjafi vísar til þess að sá hinn sami veiti faglega ráðgjöf á grundvelli sértækrar menntunar sinnar. Meginverkefni náms- og starfsráðgjafa í grunn- og framhaldsskólum er að aðstoða nemendur við náms- og starfsval og veita ráðgjöf meðan á námi stendur. Náms- og starfsráðgjafi er trúnaðarmaður og talsmaður nemandans.
    Mikilvægt er að allir nemendur hafi aðgang að þjónustu ráðgjafa í sínum skóla. Það er brýnt að sérþekking náms- og starfsráðgjafa skili sér að fullu inn í grunn- og framhaldsskóla landsins og því nauðsynlegt að breyta lögum um grunn- og framhaldsskóla samhliða á þann veg að einungis sé heimilt að ráða til starfa í skólum landsins náms- og starfsráðgjafa sem uppfylla skilyrði laga þessara. Því er einnig lagt til í frumvarpinu að ákvæði um náms- og starfsráðgjafa verði tekin upp í löggjöf um grunnskóla og framhaldsskóla. Á þann hátt er tryggt að einungis þeir sem uppfylla lagaskilyrði eigi kost á að sinna náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum landsins. Löggjöf um grunnskóla og framhaldsskóla í núverandi mynd ber þess merki að starfsheitið náms- og starfsráðgjafi hefur ekki verið lögverndað og því ekki tryggt að fagleg náms- og starfsráðgjöf sé til staðar í skólum landsins. Með þessari breytingu er verið að tryggja ákveðin gæði þjónustu, sinna hagsmunum þeirra sem þjónustuna þiggja og tryggja að sér- og fagþekking skili sér inn í menntakerfið. Sá sem leitar aðstoðar náms- og starfsráðgjafa getur í skjóli lögverndunar verið þess fullviss að sá sem þjónustuna veitir hafi tilskilda menntun og fagþekkingu. Hér er fyrst og fremst verið að vinna að hag nemenda og þeirra er njóta þjónustu náms- og starfsráðgjafa jafnframt því að tryggja fagleg vinnubrögð stéttarinnar.