Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 271. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 548  —  271. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um gjaldþrot einstaklinga að kröfu hins opinbera.

     1.      Hversu margir einstaklingar hafa verið lýstir gjaldþrota árlega síðustu 10 árin vegna skulda við opinbera aðila?
    Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar frá tollstjóra. Eru þær byggðar á kröfum embættisins sem innheimtir opinber gjöld í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur sem eru á milli 65–70% af opinberum gjöldum á landsvísu. Ekki reyndist unnt að fá umbeðnar upplýsingar úr tekjubókhaldskerfi ríkisins sem heldur utan um þessar kröfur, en embættið hefur haldið hluta þessara upplýsinga til haga. Leitað var til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna fyrirspurnarinnar en í ljós kom að málaskrá dómstólsins býður ekki upp á að slíkar upplýsingar séu unnar upp úr henni. Þær upplýsingar sem á eftir fara eru vegna tímabilsins 2002–2008. Ekki eru til handhægar upplýsingar frá fyrri árum.
    Framsetning upplýsinga er með þeim hætti að gerður er greinarmunur á einstaklingum og einstaklingum með rekstur. Meginreglan er sú að ekki er krafist gjaldþrotaskipta hjá einstaklingum nema um skattsektir sé að ræða eða vegna gruns um undanskot eigna. Þær skattsektir sem um ræðir eru annars vegar sektarboð skattrannsóknarstjóra ríkisins og hins vegar úrskurðir yfirskattanefndar. Á árinu 2006 var skattrannsóknarstjóra ríkisins heimilað að ljúka ákveðnum tegundum skattalagabrota með sektarboði til einstaklinga. Tollstjóra var falið að annast innheimtu þeirra á landsvísu. Til þessarar breytingar rekja má aukningu áranna 2007 og 2008 á fjölda gjaldþrotaskiptabeiðna á einstaklinga. Einstaklingar með rekstur eru þeir aðilar sem reka fyrirtæki á sinni kennitölu eða eru aðilar að sameignarfélagi. Þessir aðilar bera ótakmarkaða ábyrgð á skattgreiðslum skv. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 2. gr. sömu laga.
    Í töflunni eru upplýsingar um heildarfjölda gjaldþrotaskiptabeiðna og fjölda gjaldþrotaskiptaúrskurða innan sama árs. Slíkar upplýsingar gefa til kynna hversu margir aðilar komast hjá gjaldþrotaúrskurði með því að gera greiðsluáætlun hjá innheimtumanni ríkissjóðs, fá leiðréttingu í gegnum framtalsskil eða greiða upp kröfuna.

Fjöldi gjaldþrotaskiptabeiðna Fjöldi úrskurða
Ár Einstaklingar með rekstur Einstaklingar Einstaklingar með rekstur Einstaklingar
2002 97 16 38 5
2003 45 10 11 3
2004 58 11 8 1
2005 37 6 8 2
2006 19 3 1 0
2007 23 18 15 6
2008 28 46 13 26


     2.      Hvernig skiptast mál þessara einstaklinga eftir fjárhæð krafna (innan við 100 þús. kr., á bilinu 100–200 þús. kr., 200–300 þús. kr., 300–400 þús. kr., 400–500 þús. kr., 500– 600 þús. kr., 600–700 þús. kr., 700–800 þús. kr., 800–900 þús. kr., 900–1.000 þús. kr., hærri en 1 millj. kr.) og hver er skiptingin eftir kjördæmum?
    Fjárhæðir gjaldþrotaskiptabeiðna eru nær undantekningarlaust yfir 1.000.000 kr. Skattsektir geta í einstaka tilfellum verið undir fyrrgreindri fjárhæð en að öðru leyti samkvæmt verklagsreglum þeim sem giltu út árið 2008 varð fjárhæð beiðna að ná a.m.k. 1.000.000 kr. Nú hefur þetta viðmið verið hækkað í 2.000.000 kr. Ekki liggja fyrir upplýsingar um skiptingu eftir fjárhæð krafna eða skiptingu eftir kjördæmum.

     3.      Hver hefur verið árlegur innheimtukostnaður vegna þessara einstaklinga?
    Innheimtukostnaður er einungis í formi útlagðs kostnaðar. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, skal greiða 3.900 kr. fyrir hverja gjaldþrotaskiptabeiðni. Jafnframt þarf að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði. Fram til ársins 2003 var sú fjárhæð 150.000 kr. en frá þeim tíma til dagsins í dag 250.000 kr. Sú trygging fæst endurgreidd í héraðsdómi ef máli lýkur áður en til úrskurðar kemur. Þess má geta að skiptakostnaður er forgangskrafa samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, sem felur í sér að ef einhverjar eignir finnast greiðist skiptakostnaður af andvirði þeirra þannig að útlagður skiptakostnaður fæst endurgreiddur.

     4.      Hversu mörg dæmi eru um að einstaklingar hafi verið lýstir gjaldþrota oftar en einu sinni vegna sömu kröfunnar?
    Engar upplýsingar liggja fyrir um það hversu mörg dæmi eru um að einstaklingar hafi verið lýstir gjaldþrota oftar en einu sinni vegna sömu kröfunnar. Samkvæmt því sem að framan er rakið er meginreglan sú að ekki er farið með einstaklinga í gjaldþrot. Af því leiðir að mjög ólíklegt er að einstaklingur fari í gjaldþrot oftar en einu sinni á grundvelli sömu krafna.