Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 322. máls.

Þskj. 554  —  322. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989, lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 .


(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. og 1. málsl. 8. gr. skal þargreindur aðfararfrestur frá gildistöku laga þessara til 1. janúar 2010 vera fjörutíu dagar í stað fimmtán daga.

II. KAFLI

Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.

2. gr.

    Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 21. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Skal sýslumaður meðal annars leiðbeina gerðarþola sérstaklega um þann kost að ráðstafa megi eign með nauðungarsölu á almennum markaði.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Frá gildistöku laga þessara ber sýslumanni að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 31. ágúst 2009 töku ákvörðunar um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað er nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við byrjun uppboðs eða framhald þess eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt í eign skal sýslumaður verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 31. ágúst 2009.
    Verði nauðungarsölu frestað samkvæmt því sem segir í 1. mgr. skulu kröfur, sem trygging er fyrir í viðkomandi eign og tilheyra ríkinu eða stofnun eða fjármálafyrirtæki í eigu þess, aðeins bera þá vexti fram til 1. september 2009 sem þær hefðu ella borið ef ekki hefði komið til vanskila á þeim.
    Tímabil sem nauðungarsölu er frestað skv. 1. mgr. skal undanskilið þeim fresti sem um ræðir í 2. mgr. 27. gr.

III. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.
4. gr.

    3. mgr. 70. gr. laganna orðast svo:
    Ef skuldarinn sækir þing skal héraðsdómari leiðbeina honum um þau úrræði sem kveðið er á um í 3. þætti. Ef skuldari og lánardrottinn sem krefst skipta á búi hans æskja þess má dómari verða við sameiginlegri beiðni þeirra um að fresta meðferð kröfunnar. Slíka fresti má ekki veita til lengri tíma en samtals eins mánaðar nema skuldari sé einstaklingur sem ekki stundar atvinnurekstur, en fresturinn má þá lengstur verða samtals þrír mánuðir.     

5. gr.

    Við 2. mgr. 165. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Sá fyrningarfrestur er tvö ár, en sé fyrningu slitið innan hans fer um fyrningarfrest upp frá því eftir almennum reglum.

6. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 87. gr. getur skiptastjóri með samþykki veðhafa heimilað skuldara að búa áfram í húsnæði í eigu búsins í allt að tólf mánuði. Fyrir þau afnot skal hann greiða leigu sem nemur a.m.k. þeim kostnaði sem er af eigninni, en það sem umfram er gengur til greiðslu krafna sem tryggðar eru með veði í eigninni. Heimild þessi fellur niður 1. mars 2010, en ákvörðun sem skiptastjóri hefur tekið fyrir þann dag stendur til loka þess tíma sem ákveðinn var.


7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Haft var samráð við fulltrúa réttarfarsnefndar við útfærslu ákvæða þess. Á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar koma fram þær áætlanir að lagt verði fram frumvarp til laga um breytingar á lögum sem bæta eiga stöðu skuldara við gjaldþrotaskipti og fresta nauðungarsölu um sex mánuði svo að skuldarar fái tækifæri til að endurskipuleggja fjármál sín. Á grundvelli verkefnaskrárinnar eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á lögum um aðför, nauðungarsölu og gjaldþrotaskipti o.fl. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á lögum um aðför, sbr. 1. gr. frumvarpsins, þar sem gert er ráð fyrir tímabundinni lengingu aðfararfrests úr 15 dögum í 40. Er með þessum hætti leitast við að auka svigrúm skuldara sem lenda í greiðsluerfiðleikum til að leita úrræða og endurskipuleggja fjármál sín og hugsanlega komast þannig hjá því að aðför og fjárnám sé gert í eignum þeirra, og hugsanlegri nauðungarsölu og gjaldþrotaskiptameðferð í kjölfarið. Lagt er til að lenging aðfararfrests verði tímabundin og endurspeglar það þær óvenjulegu aðstæður sem nú eru í efnahagslífi þjóðarinnar og þá auknu hættu á greiðsluerfiðleikum sem fjölskyldur, einstaklingar og fyrirtæki standa frammi fyrir.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á lögum um nauðungarsölu, sbr. 2. og 3. gr. frumvarpsins. Annars vegar verði áréttað að sýslumaður leiðbeini gerðarþola sérstaklega um að hann geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum óskað eftir því að eign sé seld nauðungarsölu á almennum markaði. Er þetta gert til að tryggja að ávallt verði leitað leiða til að fá sem hæst verð fyrir eignina. Hins vegar er lagt til að unnt verði að fresta fram yfir 31. ágúst 2009 nauðungarsölu á fasteign, eða ráðstöfun hennar á frjálsum markaði, ef gerðarþoli óskar eftir því. Enn er hér um að ræða tímabundna heimild vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir. Er skuldara með þessu veittur aukinn tími til að koma nýrri skipan á fjármál sín.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir breytingum á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. sem bæta eiga réttarstöðu skuldara, sbr. 4.–6. gr. frumvarpsins. Dómari skal leiðbeina skuldara um þau úrræði sem felast í greiðsluaðlögun og nauðasamningum, sbr. 4. gr. Er með því leitast við að tryggja að þeir skuldarar, sem hugsanlega geti nýtt sér þessi úrræði, fari ekki á mis við þau. Þá er lögð til stytting á fyrningarfresti krafna, hann verði tvö ár án tillits til þess um hvers konar kröfu er að ræða, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Sé fyrningu hins vegar slitið innan þessa nýja fyrningarfrests fær krafan á ný þann fyrningartíma sem upphaflega fylgdi henni. Loks er lagt til að skiptastjóri þrotabús geti, ef veðhafar búsins samþykkja, heimilað skuldara að búa áfram í íbúðarhúsnæði í eigu búsins í allt að 12 mánuði, sbr. 6. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að aðfararfrestir til fullnustu krafna sem getið er um í 5.–10. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna verði lengdir tímabundið fram til 1. janúar 2010, úr fimmtán dögum í fjörutíu daga. Er hér um að ræða kröfur samkvæmt eftirfarandi aðfararheimildum:
     1.      úrskurðum yfirvalda sem eru aðfararhæfir samkvæmt fyrirmælum laga,
     2.      ákvörðunum yfirvalda um fésektir, dagsektir og févíti sem eru aðfararhæfar samkvæmt fyrirmælum laga,
     3.      skuldabréfum fyrir ákveðinni peningaupphæð, hvort sem veðréttindi hafa verið veitt fyrir skuldinni eða ekki, þar sem undirskrift skuldara er vottuð af lögbókanda, hæstaréttar- eða héraðsdómslögmanni, löggiltum fasteignasala eða tveimur vitundarvottum, ef berum orðum er tekið fram í ákvæðum skuldabréfsins að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar,
     4.      víxlum og tékkum, að því leyti sem krafist er fullnægju greiðsluskyldu á grundvelli gildandi réttar samkvæmt slíkum skjölum,
     5.      kröfum um skatta og önnur samsvarandi gjöld sem innheimt eru samkvæmt lögum af innheimtumönnum ríkissjóðs, sveitarfélögum eða sameiginlegum gjaldheimtum ríkis og sveitarfélaga,
     6.      kröfum, áður ótöldum, sem njóta lögtaksréttar samkvæmt fyrirmælum laga.
    Er með ákvæðinu leitast við að veita skuldari rýmri tíma til að bregðast við innheimtuaðgerðum og leita leiða við að endurskipuleggja fjármál sín.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að sýslumaður skuli við fyrirtöku á beiðni um nauðungarsölu leiðbeina gerðarþola um að hann geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum óskað eftir því að eign sé seld nauðungarsölu á almennum markaði. Skv. 2. mgr. 21. gr. laganna skal sýslumaður veita gerðarþola nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu hans á sama hátt og dómara í einkamáli ber að leiðbeina ólöglærðum málsaðila, þar á meðal um nauðungarsölu á almennum markaði. Í ákvæði þessu er kveðið á um að sýslumaður leiðbeini gerðarþola sérstaklega um þann möguleika að nauðungarsala fari fram á almennum markaði. Er það gert til að tryggja að ávallt verði leitað leiða til að fá sem hæst verð fyrir eignina.

Um 3. gr.

    Í ákvæði þessu er lagt til að óski skuldari eftir að ákvörðun um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði verði frestað fram yfir 31. ágúst 2009 þá ber sýslumanni að verða við þeirri beiðni án þess að leita eftir afstöðu gerðarbeiðanda til beiðninnar. Skilyrði fyrir frestinum er að um sé að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda, gerðarþoli eigi þar lögheimili og haldi þar heimili. Í þeim tilvikum þegar ákveðið hefur verið hvenær byrjun uppboðs eða framhald þess eða sala á almennum markaði skuli fara fram en uppboð hefur ekki farið fram eða boð á almennum markaði samþykkt skal sýslumaður á sama hátt verða við ósk gerðarþola um frest. Á þessu tímabili skulu kröfur í eigu ríkisins, ríkisstofnunar eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins ekki bera dráttarvexti heldur þá vexti sem krafan hefði borið hefði ekki komið til vanskila á henni. Sú regla á ekki við um kröfur í eigu annarra.
    Ákvæði þetta er tímabundið vegna þess efnahagsástands sem nú ríkir. Er með því verið að veita skuldurum aukinn tíma til að koma nýrri skipan á fjármál sín.

Um 4. gr.

    Lagt er til að þegar skuldari mætir í þinghald þar sem tekin er fyrir beiðni um gjaldþrotaskipti á búi hans skuli dómari leiðbeina honum um þau úrræði sem getið er um í 3. þætti laganna þar sem fjallað eru um nauðasamninga og greiðsluaðlögun. Er með því leitast við að tryggja að skuldarar sem hugsanlega gætu nýtt sér þessi úrræði fari ekki á mis við þau. Þá er jafnframt lengdur sá frestur sem veita má við meðferð kröfu um gjaldþrotaskipti í þeim tilvikum þegar skuldari er einstaklingur sem ekki stundar atvinnurekstur. Getur fresturinn þá að hámarki verið þrír mánuðir samtals.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að nýr fyrningarfrestur kröfu sem lýst er í þrotabú verði tvö ár. Telst sá frestur annars vegar frá skiptalokum ef um viðurkennda kröfu er að ræða og hins vegar frá þeim tíma er kröfu var lýst í búið eins og fram kemur í 2. mgr. 165. gr. laganna. Á þessi fyrningarfrestur við um allar lýstar kröfur óháð því hver upphaflegur fyrningarfrestur kröfunnar var. Hér er því um styttingu á fyrningarfresti að ræða frá því sem verið hefur á kröfum sem lýst hefur verið í þrotabú en fyrningartími hefur verið mislangur eftir því um hvers konar kröfu er að ræða, 4, 10 eða 20 ár, sbr. lög um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007. Sé fyrningu hins vegar slitið innan þessa nýja fyrningarfrests fær krafan á ný þann fyrningartíma sem upphaflega fylgdi henni.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um að skiptastjóri þrotabús geti ef veðhafar í eign búsins samþykkja heimilað skuldara að búa áfram í íbúðarhúsnæði í eigu búsins í allt að tólf mánuði. Fyrir þau afnot skal hann greiða leigu sem nemur a.m.k. þeim kostnaði sem er af eigninni, en það sem umfram er gengur til greiðslu krafna sem tryggðar eru með veði í eigninni. Um tímabundna heimild er að ræða vegna þess ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Með ákvæðinu er reynt að koma til móts við ósk þrotamanns sem vill búa áfram í því húsnæði sem verið hefur heimili hans þar til hann hefur fundið lausn á húsnæðismálum sínum.

Um 7. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku laganna og þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um aðför,
nr. 90/1989, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991,
og lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á þrennum lögum sem ætlað er að bæta stöðu skuldara við gjaldþrotaskipti og frestun á nauðungarsölu svo skuldari fái tækifæri til að endurskipuleggja fjármál sín. Í fyrsta lagi er lagt til að lögum um aðför verði breytt tímabundið til 1. janúar 2010 þannig að í stað 15 daga aðfararfrests komi 40 dagar. Í öðru lagi er lagt til að lögum um nauðungarsölu verði breytt þannig að sýslumanni beri að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 31. ágúst 2009 töku ákvörðunar um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef um ræðir fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar skal sýslumaður verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 31. ágúst 2009. Í þriðja lagi er lagt til að lögum um gjaldþrotaskipti verði breytt þannig að gerðarþoli sem sætir beiðni um gjaldþrotaskipti á búi sínu skuli njóta leiðbeininga héraðsdómara um þau úrræði sem honum standi til boða, þ.e. um nauðasamninga og nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Þá er lagt til að frestur sem dómari má veita við meðferð kröfu um gjaldþrotaskipti verði lengdur og geti að hámarki orðið þrír mánuðir. Jafnframt er lagt til að þegar kröfu er lýst í þrotabú hefjist nýr fyrningarfrestur sem er tvö ár. Hér er um styttingu á fyrningarfresti að ræða frá því sem verið hefur, en hann hefur verið mislangur.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að ef nauðungarsölu er frestað skulu kröfur, sem trygging er fyrir í viðkomandi eign og tilheyra ríkinu eða stofnun eða fjármálafyrirtæki í eigu þess, ekki bera dráttarvexti til 1. september 2009. Ekki verður með neinni nákvæmni lagt mat á hvaða áhrif þetta ákvæði hefur á innheimtukostnað. Á það skal þó bent að skattakröfur bera ekki aðra vexti en dráttarvexti og með frumvarpinu er verið að gefa þá eftir að hluta til ákveðins hóps en ekki annarra. Vakin er athygli á því að þetta ákvæði frumvarpsins getur falið í sér flókna framkvæmd og það virðist mismuna skuldurum eftir því hversu langt mál þeirra eru komin í innheimtu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.