Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 204. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 556  —  204. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar um umhverfismat.

    Ráðuneytið leitaði til Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar vegna vinnslu svara og upplýsinga varðandi efnisþætti þessarar fyrirspurnar. Ekki náðist að afla upplýsinga um öll þau lönd eða atriði er fyrirspurnin snertir.

     1.      Hverju munar á framkvæmd umhverfismats annars staðar á Norðurlöndunum og í Þýskalandi annars vegar og hins vegar hér á landi, hvað varðar:
                  a.      lengd á heildartímaramma matsins,
                  b.      reglur um tímamörk einstakra þátta matsins meðan á matsferlinu stendur og
                  c.      viðurlög, ef tímamörk standast ekki af hálfu annars hvors eða beggja aðila?

    1a. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hefur heildartími varðandi Danmörku almennt verið 9–12 mánuðir en í einstaka tilvikum 3–4 ár. Í Finnlandi hefur meðaltíminn verið 13,3 mánuðir fyrir árið 2007 en á árunum 1995–2007 hefur tíminn verið frá 7–18,2 mánuðir. Í 18 málum þar sem farið hefur verið með framkvæmd í mat á umhverfisáhrifum á Íslandi hefur meðaltal heildartíma verið 17,2 mánuðir, eða á bilinu 8,4 mánuðir til 32 mánuðir. Ekki bárust upplýsingar frá Noregi og Svíþjóð varðandi þetta og því ekki hægt að svara þessum lið hvað þau lönd áhrærir. Þá bárust mjög takmarkaðar upplýsingar frá Þýskalandi og ítrekað í því sambandi að samanburður hafi reynst örðugur vegna ólíkra reglna viðvíkjandi matsferlum.
    1b. Upplýsingar varðandi þennan fyrirspurnarlið birtast í meðfylgjandi töflu:

Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð – mat Engin formleg ákvæði í reglum
Unnið að formlegum athugasemdum við tillögu að matsáætlun af yfirvöldum Ekki tilgreint Innan tveggja mánaða frá því að kynningartíma lýkur Skipulagsstofnun tekur ákvörðun innan 4 vikna frá upphafi máls Innan 10 vikna Að minnsta kosti 1 mánuður
Umsagnir frá leyfisveitendum og athugasemdir frá almenningi við tillögu að matsáætlun 14 dagar, í einstaka tilvikum 4 –8 vikur Opinber athugun með aðild almennings og álit annarra yfirvalda, 30–60 dagar Umsagnaraðilar og almenningur, 10 virkir dagar Athugasemdir frá almenningi, a.m.k. 6 vikur Að lágmarki 3 vikur
Kynningartími fyrir almenning 8 vikur Opinber athugun með aðild almennings og álit annarra yfirvalda, 30–60 dagar 6 vikur Að lágmarki 8 vikur Að lágmarki 3 vikur
Tími sem ætlaður er fyrir yfirvöld til að vinna að niðurstöðu (álit/ákvörðun) 8 vikur, í einstaka tilvikum 16 vikur Tveir mánuðir 4 vikur Í síðasta lagi 6 vikum eftir að kynningartíma lýkur Yfirleitt um 8 vikur, en getur tekið mun lengri tíma
Tímafrestur til að kæra/áfrýja 4 vikur Ekki tilgreint 4 vikur Ekki tilgreint 3 vikur
    1c. Í Danmörku og Finnlandi virðast ekki vera sérstök viðurlög fyrir hendi þótt tímamörk standist ekki. Frá Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi bárust ekki svör um þetta. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er ekki að finna sérstök viðurlagaákvæði í þessu sambandi. Í Þýskalandi er ekki tekið mið af athugasemdum almennings ef þær berast eftir tímamörk, a.m.k. ekki fyrir dómstólum. Það sama gildir ef athugasemdir umsagnaraðila berast of seint.

     2.      Hvernig hafa tímamörk opinberra aðila við mat á umhverfisáhrifum staðist frá árinu 2003? Óskað er eftir sundurliðaðri töflu sem sýnir upphaf tímafrests í einstökum tilvikum, hversu langur hann var, eða er, ef ferlið er enni í gangi, og hvenær endanleg niðurstaða lá fyrir, eða mun liggja fyrir, ef matinu er ekki lokið þegar unnið er að svari við fyrirspurn þessari.
    Í skýringarmyndum 1–4 í greinargerð Skipulagsstofnunar eru svör í sambandi við þennan þátt fyrirspurnarinnar. Mynd 1 sýnir afgreiðslutíma tilkynningarskyldra mála á árunum 2000– 2007. Mynd 2 sýnir afgreiðslutíma tillagna að matsáætlunum á sama tímabili. Mynd 3 sýnir þann tíma sem það hefur tekið Skipulagsstofnun að vinna að áliti, sbr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Mynd 4 sýnir heildartímann frá því að tillaga að matsáætlun, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000, er send til Skipulagsstofnunar og þar til álit stofnunarinnar er gefið út, sbr. 11. gr. laganna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Afgreiðslutími tilkynningarskyldra mála á árunum 2000–2007. Tölur lóðrétta ássins vísa til viknafjölda. Skv. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er afgreiðslutími 4 vikur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2

Afgreiðslutími tillagna að matsáætlunum á árunum 2000–2007. Skv. 2. mgr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum skal Skipulagsstofnun taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila innan fjögurra vikna frá því að tillagan berst.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Mynd 3
Sýnir heildartíma Skipulagsstofnunar við vinnu álits vegna mats á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda á árunum 2006–2008. Frestur til að veita umsögn eru 4 vikur – táknað með dökkum lit, dagar umfram frest er táknað með ljósum lit.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 4
Heildartími frá því tillaga að matsáætlun, sbr. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, er send frá framkvæmdaraðila og þar til álit Skipulagsstofnunar er gefið út.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 5
Sýnir ýmsa tímaþætti varðandi mat á umhverfisáhrifum.

     3.      Hvaða reglur gilda um útgáfu starfsleyfa á Íslandi, annars staðar á Norðurlöndunum og í Þýskalandi til fyrirtækja sem tengjast mati á umhverfisáhrifum meðan á umhverfismatsferli stendur?
    Eitt meginmarkmiðið með mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar er að tryggja vandaða og upplýsta ákvörðunartöku varðandi leyfisveitingar vegna þeirra framkvæmda er undir lögin falla, sbr. 1. gr. laga nr. 106/2000. Reglur um útgáfu starfsleyfa í ofangreindum löndum byggjast í aðalatriðum á sömu meginreglum er eiga meðal annars rót að rekja í tilskipun Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tilskipun 97/11/EB. Í 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er tekið fram að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmdar sem háð er ákvörðun um matsskyldu eða mati á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnun skv. 11. gr. laganna liggur fyrir eða þá ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld, sbr. 6. gr. laganna. Þá er kveðið á um í 22. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur er haft getur í för með sér mengun, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, að sé starfsleyfisskyldur atvinnurekstur háður mati á umhverfisáhrifum eftir lögum og reglum þar að lútandi þá skuli niðurstaða matsins liggja fyrir áður en tillaga að starfsleyfi er auglýst. Þannig er óheimilt að gefa út starfsleyfi fyrir starfsemi er kann að vera matsskyld eða er háð mati á umhverfisáhrifum áður en ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur fyrir, eða álit stofnunarinnar skv. 11. gr. laga nr. 106/2000.
    Í 17. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og 22. gr. reglugerðar nr. 785/1999 er heimild til þess að unnið sé að undirbúningi starfsleyfis á sama tíma og unnið er að matsskýrslu en Skipulagsstofnun þarf að samþykkja slíkt fyrirkomulag. Þá er og heimilt að birta drög að starfsleyfi í matsskýrslu ef leyfisveitandi samþykkir.
    Í 2. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum segir að við útgáfu leyfis til framkvæmdar skv. 1. mgr. sömu greinar skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Í 23. gr. fyrrnefndrar reglugerðar, nr. 785/1999, segir að í starfsleyfistillögu og starfsleyfi skuli taka fullt tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum, þá skuli og mæla fyrir um nauðsynlegar rannsóknir vegna fyrirhugaðrar starfsemi og vakta þá umhverfisþætti sem starfsemin hefur áhrif á.
    Starfsleyfisskyldan er fólgin í 5. gr. a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, hvar tekið er fram að allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun skuli hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. laganna. Samkvæmt þessum ákvæðum er óheimilt að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út. Í nefndri 5. gr. a er einnig að finna undanþáguheimild ráðherra til að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi ef ríkar ástæður mæla með og að fenginni umsögn þar greindra fagstofnana. Beiting þessarar heimildar gæti mögulega komið til greina í sérstökum tilvikum þegar mati á umhverfisáhrifum tiltekinnar framkvæmdar hefur ekki verið lokið.
    Lög um mengunarvarnir í Noregi, lov om vern mot forurensninger og om avfall (foruverningsloven) nr. 03-13-6/1981, hafa og ákvæði um sams konar fyrirkomulag og að ofan hefur verið greint frá. Í dönsku löggjöfinni um þetta efni, miljöbeskyttelsesloven nr. 385/1991 er gert ráð fyrir því að starfsleyfi sé gefið út í kjölfar mats á umhverfisáhrifum og í samræmi við skipulagsáætlanir sem byggjast á mati á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Þó getur starfsleyfisútgefanda verið heimilt að veita framkvæmdaraðila leyfi til að hefja starfsemi áður en starfsleyfi er gefið út en þá þannig að framkvæmdum verði hagað í samræmi við samþykkt skipulag svæðisins. Slíkar framkvæmdir teljast á ábyrgð framkvæmdaraðilans.
    Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar byggjast samsvarandi lagaákvæði Þjóðverja á sömu meginatriðum og að framan hefur verið greint frá. Við leyfisveitingar þar er því horft til niðurstaðna mats á umhverfisáhrifum og umsagna og athugasemda er fram hafa komið í því ferli.