Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 335. máls.

Þskj. 575  —  335. mál.Frumvarp til laga

um visthönnun vöru sem notar orku.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.
Markmið.

    Tilgangur laga þessara er að stuðla að visthönnun vöru sem notar orku með það að markmiði að efla hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og notkun á vörum sem eru umhverfisvænar, með minni orkunotkun og umhverfisálag að leiðarljósi.

2. gr.
Gildissvið.

    Í lögum þessum er að finna grunnkröfur sem vörur sem nota orku skulu uppfylla svo að setja megi þær á markað og taka í notkun. Ef ekki er annað tekið fram er með hugtakinu vara í lögum þessum eingöngu átt við vöru sem notar orku, sbr. skilgreiningu í 3. gr.
    Lögin taka til nýrrar vöru og íhluta og undireininga hennar, sem nýta orku, og flutt er inn, tekin í notkun eða framleidd hér á landi eftir gildistöku laga þessara.
    Lögin taka ekki til farartækja eða vöru sem notar orku og hefur þegar verið tekin til notkunar.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
     a.      Vara sem notar orku: Vara sem er, þegar henni hefur verið komið á markað og/eða hún tekin í notkun, háð orkuílagi (rafmagni, jarðefnaeldsneyti og endurnýjanlegum orkugjafa) til að virka sem skyldi eða vara til framleiðslu, flutnings og mælingar á slíkri orku, þ.m.t. hlutir sem eru háðir orkuílagi og ætlunin er að setja í vöru sem notar orku og fellur undir lög þessi, sem eru settir á markað og/eða teknir í notkun sem stakir hlutir fyrir notendur og unnt er að meta sérstaklega að því er varðar vistvænleika.
     b.      Íhlutir og undireiningar: Hlutir sem ætlunin er að setja í vörur sem nota orku, en eru ekki settir á markað og/eða teknir í notkun sem stakir hlutir fyrir notendur eða ekki er unnt að meta sérstaklega að því er varðar vistvænleika.
     c.      Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir vörur sem falla undir þessi lög og ber ábyrgð á að þær séu í samræmi við þessi lög með tilliti til þess að setja þær á markað og/eða taka þær í notkun undir eigin nafni framleiðanda eða vörumerki eða til eigin notkunar framleiðanda. Ef framleiðandi eða innflytjandi er ekki til staðar skal hver einstaklingur eða lögaðili sem setur á markað og/eða tekur í notkun vörur sem falla undir lög þessi teljast framleiðandi.
     d.      Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á EES-svæðinu sem hefur skriflegt umboð frá framleiðanda til að uppfylla, að öllu leyti eða að hluta til, skuldbindingar og formsatriði fyrir hans hönd að því er varðar lög þessi.
     e.      Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á EES-svæðinu sem setur vöru frá þriðja landi á markað á EES-svæðinu sem lið í starfsemi sinni.
     f.      Vistferill: Samfelld og samtengd stig á ferli vöru frá notkun sem hráefni til endanlegrar förgunar.
     g.      Visthönnun: Að fella umhverfisþætti inn í vöruhönnun í því skyni að bæta vistvænleika vöru allan vistferil hennar.

4. gr.
Orkunýtnikröfur.

    Eingöngu er heimilt að setja á markað vöru sem uppfyllir reglur um orkunýtni og umhverfisálag samkvæmt lögum þessum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og:
     a.      farið hefur fram mat á því hvort varan eða hluti hennar sé í samræmi við kröfur laga þessara eða reglna sem settar hafa verið á grundvelli þeirra,
     b.      lögð hefur verið fram samræmisyfirlýsing þess efnis að varan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru, og
     c.      varan eða hluti hennar er merktur CE-samræmismerkingu.
    Óheimilt er að banna markaðssetningu vöru sem uppfyllir kröfur um orkunýtni og umhverfisálag samkvæmt lögum þessum og reglum sem settar hafa verið, enda uppfylli hún skilyrði annarra laga og reglna.
    Ef vara telst uppfylla orkunýtnikröfur annars EES-lands verður hún talin uppfylla orkunýtnikröfur hérlendis. Í reglum sem Neytendastofa setur skal birtur listi yfir samræmda evrópska staðla sem samþykktir hafa verið og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

5. gr.
Samræmisyfirlýsingar.

    Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans skal gefa út samræmisyfirlýsingu sem tryggir að vara samrýmist reglugerðum settum á grundvelli laga þessara.

6. gr.
Samræmismat.

    Framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans er skylt að tryggja að samræmismat vöru hafi farið fram áður en vara er flutt inn eða markaðssett.
    Framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans er skylt að geyma samræmismat sem hefur verið framkvæmt og útgefnar samræmisyfirlýsingar í að minnsta kosti 10 ár eftir að framleiðslu vöru lýkur. Berist framleiðanda eða fulltrúa hans beiðni um gögn þar að lútandi frá Neytendastofu skulu þau gerð aðgengileg innan 10 daga frá viðtöku beiðninnar.

7. gr.
Samræmismerkingar.

    Vara skal bera CE-samræmismerki, sem samansett er af upphafsstöfunum „CE“, áður en hún er sett á markað.
    Ef vara ber nú þegar CE-samræmismerki skal litið svo á að samræmismerkið sé staðfesting á því að hún fullnægi kröfum sem gerðar eru í lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra að þessu leyti.
    Að öðru leyti fer um samræmismerkingar og samræmismat samkvæmt lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og reglum settum á grundvelli þeirra.

8. gr.
Ábyrgð framleiðanda, fulltrúa hans eða innflytjanda.

    Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans, sem flytur inn vörur, ber ábyrgð á að vörur hans uppfylli orkunýtnikröfur samkvæmt lögum þessum og reglum sem settar hafa verið.
    Ef hvorki framleiðandi né viðurkenndur fulltrúi hans er staðsettur innan EES-svæðisins ber innflytjandi ábyrgð á því að markaðssettar vörur séu í samræmi við orkunýtnikröfur sem gerðar hafa verið. Innflytjandi ber einnig ábyrgð á því að samræmisyfirlýsing og tæknilegar upplýsingar séu aðgengilegar eins og gert er ráð fyrir í lögum þessum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra.

9. gr.
Upplýsingaskylda framleiðanda og seljanda.

    Framleiðandi skal tryggja að neytendur fái upplýsingar um umhverfiseiginleika og afköst vöru sem notar orku og ráðleggja þeim hvernig skuli nota vöruna á umhverfisvænan hátt.

10. gr.
Eftirlit.

    Iðnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Eftirlit og dagleg stjórnsýsla á því sviði sem lögin ná til skal þó vera í höndum Neytendastofu. Neytendastofa tekur við tilkynningum um vörur sem ekki eru í samræmi við kröfur laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim og annast samskipti vegna þeirra við önnur eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Við framkvæmd eftirlits skal að öðru leyti farið eftir lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við á.

11. gr.
Viðurlög.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum sem renna í ríkissjóð. Um meðferð slíkra mála fer að hætti opinberra mála.

12. gr.
Reglugerðarheimildir.

    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal reglur um hvaða vörur falli innan gildissviðs laganna, hvaða flokkar vöru sem notar orku þurfi að uppfylla kröfur um orkunýtni og hvaða kröfur vara þurfi að uppfylla. Einnig er ráðherra heimilt að kveða nánar á um upplýsingaskyldu framleiðanda og/eða innflytjanda í reglugerð.
    Þá er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um önnur atriði er varða framkvæmd laganna, svo sem varðandi samræmismat, -merkingar og -yfirlýsingar.

13. gr.
Innleiðing tilskipunar.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/32/EB frá 6. júlí 2005 um ramma til að setja fram kröfur um visthönnun vöru að því er varðar vörur sem nota orku og um breytingu á tilskipun ráðsins 92/42/EBE og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 96/57/EB og 2000/55/EB eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2007 sem birt var 28. september 2007 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44/2006, ásamt frekari tilskipunum sem innleiddar verða með reglugerðum samkvæmt heimild í lögum þessum.

14. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 51/2000, um orkunýtnikröfur. Reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga halda gildi sínu með þeim breytingum sem leiðir af lögum þessum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Tilgangur þessa frumvarps er, eins og fram kemur í 1. gr., að stuðla að þróun og notkun orkunýtinnar vöru með það að markmiði að tryggja visthönnun vöru með minni orkunotkun og draga úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið. Einnig er frumvarpinu ætlað að tryggja frjálst flæði slíkrar vöru um EES-svæðið. Frumvarpinu er ætlað að taka til hvers konar vöru sem notar orku, þó ekki farartækja eða tækja sem þegar hafa verið tekin í notkun, innflutt eða markaðssett við gildistöku þessara laga.
    Frumvarpið byggist að meginstefnu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 6. júlí 2005 (2005/32/EB) en við gerð þess voru höfð til hliðsjónar lög nr. 51/2000, um orkunýtnikröfur, lög nr. 72/1994 ,um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., auk danskra og sænskra laga um visthönnun vöru sem notar orku.
    Þá var haft samráð við Neytendastofu þar sem henni er ætlað að fara með eftirlitshlutverk samkvæmt frumvarpi þessu og byggist sú heimild á 1. mgr. 2. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda. Einnig var leitað umsagnar umhverfisráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og Samtaka iðnaðarins. Í kjölfar athugasemda sem bárust voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu en þær vörðuðu að mestu leyti uppsetningu og orðalag greina. Ásamt þessu var leitað eftir umsögn ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur en nefndin gerði engar athugasemdir við frumvarpið.

2. Meginefni frumvarps og áhrif þess.
    Frumvarpið felur ekki í sér efnisreglur um orkunýtnikröfur, heldur er með því lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að setja reglugerðir um orkunýtni einstakra vara. Lagafrumvarpið er lagt fram í tilefni af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/32/EB frá 6. júlí 2005 um ramma til að setja fram kröfur um visthönnun vöru að því er varðar vörur sem nota orku og um breytingu á tilskipun ráðsins 92/42/EBE og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 96/57/EB og 2000/55/EB. Tilskipunin setur fram helstu efnisþætti sem sérstökum gerðum framkvæmdastjórnarinnar er ætlað að útfæra nánar varðandi einstaka flokka vara. Vegna þessa er gert ráð fyrir í frumvarpi þessu að ráðherra verði veitt heimild til setningar reglugerða sem byggjast á þessum gerðum. Telja verður að þetta sé heppilegri leið en að innleiða þurfi hverja tilskipun sérstaklega með lögum. Vert er að taka fram að hér er um að ræða sama fyrirkomulag og viðhaft er í lögum nr. 51/2000, um orkunýtnikröfur, sem falla úr gildi við gildistöku frumvarpsins ef það verður að lögum.
    Í frumvarpinu er Neytendastofu falið eftirlit með því að vörur uppfylli kröfur laganna og reglna settra á grundvelli þeirra samkvæmt þeim heimildum sem henni eru veittar í lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

3. Mat á áhrifum.
    Tilskipun 2005/32/EB hefur mest áhrif á framleiðendur vöru sem notar orku innan EES- svæðisins og það sama á við um frumvarpið sem nú liggur fyrir. Á Íslandi eru nær engir framleiðendur slíkrar vöru og því mun það frumvarp sem nú liggur fyrir hafa lítil áhrif á því sviði hérlendis. Að þessu leyti hefur frumvarpið ekki mikla raunhæfa þýðingu fyrir Ísland. Frumvarpið getur þó haft nokkra þýðingu fyrir innflytjendur vöru sem notar orku þegar framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans er ekki staðsettur á EES-svæðinu og varan kemur í fyrsta skipti inn á EES-svæðið. Frumvarpið hefur mikla þýðingu fyrir neytendur en með frumvarpinu er stefnt að því að framleiðanda eða innflytjanda verði gert skylt að upplýsa neytandann um ákveðin atriði er lúta að orkunotkun og orkumerkingum svo að hann geti gert sér grein fyrir því hvaða áhrif varan hefur á umhverfið. Einnig er gert ráð fyrir því að þær vörur sem uppfylla skilyrði laganna og reglna settra á grundvelli laganna öðlist CE-merkingu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt á það áherslu að orkunýtnistaðlar ásamt mati á frammistöðu og orkumerkingum geti verið öflugt tæki til að upplýsa neytendur og fá markaðinn til að þróast í átt að bættri orkunýtni.
    Einnig er frumvarpinu ætlað að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings um þeirra náttúrulega umhverfi og hvernig sé best að varðveita það og viðhalda. Áhrif frumvarpsins á stjórnsýsluna felast að mestu leyti í því að frumvarpið felur Neytendastofu umsjón og eftirfylgni við reglur sem settar verða.

4. Tilskipun 2005/32/EB.
4.1 Forsaga.
    Evrópusambandið hefur staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að auka orkusparnað og orkunýtni frá því á áttunda áratugnum. Upphaf þessara aðgerða má rekja til olíukreppunnar árið 1973, þegar afhendingaröryggi orkunnar skipti öllu máli og orkusparnaður varð mikilvægt atriði við að draga úr innflutningi á olíu, sérstaklega í tengslum við hátt orkuverð. Þegar þessum þrýstingi létti var lögð minni áhersla á að tryggja orkunýtni.
    Í lok áttunda áratugarins og fram á þann níunda gripu einstök aðildarríki til ýmissa aðgerða til að bæta orkunýtni en í lok níunda áratugarins komst framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hins vegar að þeirri niðurstöðu að fyrri aðgerðir hefðu ekki uppfyllt vonir um árangur. Voru því gerðar auknar kröfur til aðildarríkjanna um aðgerðir í þessu sambandi.
    Í október 1990 setti Evrópusambandið sér það markmið að draga úr aukningu á losun koltvísýrings meðal aðildarríkjanna. Þetta, ásamt markmiðum Evrópusambandsins um aukið afhendingaröryggi og sjálfbæra orkustefnu, hleypti nýju blóði í aðgerðir til að bæta orkunýtni, þar sem raforkuframleiðsla nemur um 35% af allri frumorkunotkun innan Evrópusambandsins og um 30% af losun koltvísýrings. Í þessu augnamiði var SAVE-áætluninni svokölluðu hleypt af stokkunum í október 1991. Markmið SAVE-áætlunarinnar var að bæta orkunýtni í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hugðist sambandið ná markmiðum áætlunarinnar með því að leggja áherslu á tvo höfuðþætti. Annars vegar skyldi setja reglur um orkumerkingar og upplýsingaskyldu í því skyni að tryggja að neytendur hefðu greiðan aðgang að upplýsingum um orkunýtni þeirra tækja sem þeim eru boðin til kaups. Hins vegar átti að setja reglur um orkunýtnikröfur. Fyrra markmið SAVE-áætlunarinnar var grundvöllur þess að ráð Evrópusambandsins setti tilskipun 92/75/EBE um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á heimilistækjum er greina frá notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum, en á grundvelli tilskipunar 92/75/EBE hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sett tilskipanir er varða orkumerkingar kæliskápa, þvottavéla, þurrkara, uppþvottavéla o.fl. Síðara markmið SAVE-áætlunarinnar var grundvöllur þess að ráð Evrópusambandsins setti 21. maí 1992 tilskipun 92/42/EBE um kröfur varðandi orkunýtni nýrra heitavatnskatla sem brenna fljótandi eða loftkenndu eldsneyti. Þá hefur verið sett tilskipun 96/57/EB um orkunýtnikröfur kæliskápa, frystiskápa og sambyggðra kæli- og frystiskápa. Evrópusambandið hefur enn fremur gert samninga við framleiðendur um kröfur um lágmarksnýtni. Setning reglna á sviði orkunýtnikrafna hefur gengið hægar en varðandi orkumerkingar sökum lengdar ákvarðanatökuferils og skorts á samvinnu frá framleiðendum.
    SAVE-áætluninni lauk 31. desember 1995. Í orðsendingum til ráðsins og Evrópuþingsins frá 11. janúar 1995 (grænbók) og 13. desember 1995 (hvítbók) er að finna stefnumörkun framkvæmdastjórnarinnar í orkumálum og hlutverk orkusparnaðar- og orkunýtniaðgerða. Með ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins, dags. 16. desember 1996, var hleypt af stokkunum nýrri áætlun (SAVE II), sem stóð til loka ársins 2000. Í ályktun sinni frá 10. október 1999 um grænbók framkvæmdastjórnarinnar um stefnuna í orkumálum kallaði Evrópuþingið eftir setningu markmiða og sameiginlegri áætlun um orkunýtni og orkusparnað, sem væru sambærileg við markmiðin varðandi losun gróðurhúsalofttegunda sem samþykkt voru í Ríó de Janeiró (1992), Berlín (1995) og síðar í Kyoto (1997), að SAVE II-áætlunin hefði talsvert meiri fjárráð en SAVE I-áætlunin og mæltist til þess að framkvæmdastjórnin gerði grein fyrir því hlutverki sem hún hygðist gegna í orkusparnaði og orkunýtni með því að stofna til hagnýtra verkefna. Í febrúar 2000 var SAVE II-áætlunin felld inn í Rammaáætlun Evrópusambandsins á sviði orkumála (e. Energy Framework Programme) sem skyldi gera grein fyrir áætlun Evrópusambandsins á sviði orkumála yfir fimm ára tímabil frá árinu 1998–2002.
    Með ákvörðun ráðherraráðsins og Evrópuþingsins frá 26. júní 2003 (nr. 1230/2003/EB) var samþykkt áætlun til margra ára um aðgerðir á sviði orkumála: „Skynsamleg stýring orkunotkunar í Evrópu“ á tímabilinu 2003–2006. Sú ákvörðun endurspeglar markmið Evrópusambandsins á þessu sviði og þá sérstaklega varðandi sjálfbæra þróun, öryggi orkugjafa, samkeppnishæfni og umhverfisvernd. Þessi áætlun skyldi taka við af Rammaáætlun Evrópusambandsins á sviði orkumála og tryggja áframhaldandi aðgerðir Evrópusambandsins. Markmið áætlunarinnar var að veita framtaksverkefnum ríkis og/eða sveitarfélaga fjárhagslegan stuðning á sviði endurnýjanlegrar orku, orkunýtni, orkunotkunar innan flutningageirans og við eflingu alþjóðlegrar samvinnu á sviði orkumála.
    Í júní árið 2005 gaf framkvæmdastjórnin út grænbók um orkunýtni sem kveður meðal annars á um að tilskipun um visthönnun gæti verið mikilvæg ráðstöfun til að bæta orkunýtni. Í kjölfarið af grænbókinni lagði framkvæmdastjórnin í október 2006 fram aðgerðaáætlun til að bæta orkunýtni innan Evrópusambandsins. Aðgerðaáætlunin inniheldur um 75 ólíkar aðgerðir til að tryggja bætta orkunýtni á tímabilinu 2007–2012 og er tilskipunin um visthönnun vöru einn liður í þessum aðgerðum. Einnig var lögð fram tillaga af hálfu framkvæmdastjórnarinnar þann 16. júlí 2008 þar sem lagt er til að gildissvið tilskipunarinnar verði stækkað þannig að það nái einnig til orkutengdra vara. Þann 21. október 2008 lagði framkvæmdastjórnin fram vinnuáætlun fyrir 2009–2011 á grundvelli 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar. Í þeirri áætlun er settur fram leiðbeinandi listi varðandi vörur sem nota orku sem skulu hafa forgang við innleiðingu á nánari reglum um visthönnun vöru. Þessar vörur eru loftræsikerfi, rafmagns- og eldsneytisknúinn hitunarbúnaður, matreiðslubúnaður, iðnaðar- og rannsóknarofnar, vélbúnaður, net-, gagnavinnslu- og gagnageymslubúnaður, kæli- og frystibúnaður, hljóð- og myndbúnaður, straumbreytar og vatnsnotkunarbúnaður. Nú þegar hefur verið samþykkt ein reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (e. Commission Regulation implementing Directive 2005/32/EC with regard to ecodesign requirements for standby and off mode electric power consumption of electrical and electronic household and office equipment).

4.2 Tilgangur og markmið tilskipunarinnar.
    Hinn 1. ágúst 2003 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram tillögu fyrir Evrópuþingið og ráðið, um tilskipun um rammaáætlun vegna visthönnunar vöru sem notar orku. Þessi tilskipun var samþykkt 6. júlí 2005, eftir nokkrar breytingar. Tilskipunin á sér stoð í 95. gr. stofnsáttmála Evrópusambandsins. Samkvæmt tilskipuninni felur visthönnun vöru í sér samþættingu umhverfisþátta inn í hönnunarferli framleiðsluvöru og hefur verið talin besta leiðin til að bæta umhverfislega frammistöðu framleiðsluvara.
    Tilgangur tilskipunarinnar er í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að misræmi í landsbundnum reglum hindri viðskipti innan Evrópusambandsins og hamli samkeppni innan svæðisins. Notkun vara sem nota orku er helsta ástæða notkunar auðlinda og orku innan bandalagsins ásamt því að notkun þeirra hefur í för með sér fjölda umhverfislegra afleiðinga. Í öðru lagi er tilgangur hennar að bæta heildarvistvænleika vara sem nota orku og með því vernda umhverfið. Í þriðja lagi er henni ætlað að stuðla að öryggi orkugjafa og bæta samkeppnisstöðu evrópska atvinnulífsins og í fjórða lagi að varðveita hagsmuni iðnaðarins og neytenda.
    Markmið tilskipunarinnar er að draga úr álagi vara sem nota orku á umhverfið með því að hvetja framleiðendur til að haga hönnun sinni þannig að hún taki mið af umhverfislegum sjónarmiðum. Samkvæmt tilskipuninni verða framleiðendur að sýna fram á áhrif vörunnar á umhverfið, hafa hliðsjón af niðurstöðum greiningar á vistferli vöru og bjóða neytendum upplýsingar um áhrif vöru á umhverfi. Allt þetta gefur til kynna að framleiðandi skuli nálgast þróun vörunnar út frá umhverfislegum sjónarmiðum allt frá upphafi með það að leiðarljósi að bæta umhverfisleg áhrif framleiðslunnar og vörunnar sjálfrar.

4.3 Hvað er visthönnun vöru?
    Margar skilgreiningar eru á því hvað felist í visthönnun vöru en megininntak hennar er að hún sé athöfn sem skilgreinir umhverfislega þætti vöru og samþættir þá inn í fyrstu stig þróunar vörunnar. Aðrir þættir, svo sem virkni, kostnaður, afköst, gæði, lagalegir og tæknilegir þættir, verða einnig að vera teknir til greina við þróun vörunnar. Markmið visthönnunar vöru er því að draga úr notkun óendurnýjanlegra orkugjafa og lágmarka umhverfisáhrif ásamt því að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings um þeirra náttúrulega umhverfi og hvernig best sé að varðveita það. Oft er litið á visthönnun vöru sem tæki til að tryggja sjálfbærni. Visthönnun vöru hefur mest vægi hvað varðar þróun vöru á sviði þungaiðnaðar og leikur vistferlismatið þar stórt hlutverk til að greina umhverfisáhrif mismunandi hönnunarmöguleika.
    Almennt er litið á visthönnun vöru sem lausn við aðsteðjandi umhverfisvá á alþjóðavísu, þ.e. örum vexti atvinnulífsins, mikilli fjölgun íbúa heimsins, eyðingu náttúruauðlinda ásamt óbætanlegu tjóni á vistkerfum og líffræðilegri fjölbreytni. Með visthönnun vöru er mögulegt að afstýra þessari hættu með því að finna upp nýjar hönnunarlausnir og aðferðir í iðnaði sem leiða til minna álags á umhverfið. Í þessu sambandi er hægt að taka til greina að bæði bílar og vörur geta verið hönnuð með það að markmiði að hægt sé að gera við þau og einnig taka þau í sundur til endurvinnslu. Einnig er mikilvægt að tæki séu búin til úr endurvinnanlegum og endurnýjanlegum efnum. Ef rétt er farið að má gera ráð fyrir að slíkar vörur verði að fullu sambærilegar í verði og vörur sem ekki eru hannaðar á grundvelli visthönnunar vöru.

4.4 Helstu efnisatriði tilskipunarinnar.
    Með tilskipun 2005/32/EB er komið á rammatilskipun varðandi orkumerkingar og orkunýtni raftækja. Með rammatilskipuninni eru settir fram meginþættir hennar er síðar kalla á innleiðingu einstakra gerða tilskipuninni til fyllingar. Tilskipuninni er ætlað að hvetja neytendur til að velja tæki og búnað með góða orkunýtni og að bæta nýtni tækja og búnaðar. Einnig er með tilskipuninni stefnt að því að við framleiðslu raftækja sé þess gætt að tekið sé tillit til umhverfisþátta og ekki síst að neytendur séu upplýstir um að slíkra viðmiða hafi verið gætt. Þeir þættir sem tillit skal tekið til eru m.a. hvaða hráefni var nýtt við framleiðsluna, framleiðsluferlið sjálft, pökkun vörunnar, flutningur og dreifing, uppsetning og viðhald vörunnar, notkun og líftími vörunnar. Tilskipunin felur ekki sem slík í sér bindandi skilyrði varðandi orkumerkingar raftækja heldur eru sett almenn viðmið varðandi orkunotkun og orkunýtni raftækja. Ríki skulu gæta þess að raftæki sem sett eru á markað séu gæðavottuð með svokallaðri CE-merkingu. Til að tryggja eftirfylgni tilskipunarinnar ber ríkjum að tilnefna eftirlitsaðila sem á að gæta þess að framleiðendur rafmagnstækja fari eftir ákvæðum tilskipunarinnar. Í ljósi þessa er eðlilegast að í lögum sé tekið á helstu atriðum tilskipunarinnar en á sama tíma verði ráðherra veittar víðtækar heimildir til að setja reglugerðir um nánari útfærslu vegna einstakra flokka vöru. Þær reglugerðir munu þá að öllum líkindum fela í sér innleiðingu á þeim tilskipunum sem fjalla um einstaka flokka vöru. Vörum sem uppfylla skilyrði gerðanna er ætlað að bæta bæði kjör fyrirtækja og neytenda og auðvelda frjálst flæði vöru innan Evrópska efnahagssvæðisins og með því að auka gæði vöru og umhverfisvernd.
    Þessi tilskipun hefur verið talin marka ákveðin tímamót hvað varðar stefnu Evrópusambandsins gagnvart framleiðsluvörum. Með henni eru kynnt til sögunnar fjölmörg ný atriði ásamt raunhæfri beitingu meginreglna „nýju aðferðarinnar“ (e. new approach). Að baki tilskipuninni liggur sú hugsun að framleiðendur hafi í huga áhrif vöru sem notar orku á umhverfið frá fyrstu stigum hönnunar og allan vistferil hennar. Í þessu felst að framleiðendur horfi sérstaklega til orkunotkunar og annarra neikvæðra áhrifa á loftslagið, notkunar á aðbúnaði og auðlindum, úrgangsframleiðslu og losunar hættulegra efna.
    Tilskipuninni fylgja einnig átta viðaukar. I. viðauki mælir fyrir um aðferð til að setja almennar kröfur um visthönnun vöru, II. viðauki mælir fyrir um sérstakar kröfur um visthönnun vöru, III. viðauki inniheldur CE-merkinguna og IV. viðauki inniheldur reglur um samræmismat og samræmisyfirlýsingar, V. viðauki mælir fyrir um reglur um stjórnunarkerfi við mat á samræmi, VI. viðauki fjallar um samræmisyfirlýsinguna, VII. viðauki inniheldur reglur um hvaða kröfur framkvæmdarráðstafanir þurfi að uppfylla og í VIII. viðauka er mælt fyrir um reglur um frjálsa samninga milli ríkis og framleiðanda.

5. Norræn löggjöf.
    Í Danmörku hafa verið sett lög um visthönnun vöru, Lov nr. 308/2008 om miljøvenligt design af engergiforbrugende produkter, en lögin eru ætluð sem rammalöggjöf utan um þær tilskipanir sem seinna verða innleiddar vegna einstakra vöruflokka og eru ráðherra því veittar mjög víðtækar heimildir til setningar reglugerða. Gildissvið dönsku laganna er töluvert víðtækara en tilskipunin og þetta frumvarp gerir ráð fyrir þar sem samgöngutæki falla einnig undir gildissvið dönsku laganna. Einnig er gert ráð fyrir að danska Orkustofnunin fari með eftirlitsvald en í því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram er gert ráð fyrir að Neytendastofa fari með slíkt vald. Í dönsku lögunum er einnig gert ráð fyrir víðtækum heimildum stjórnvalds til setningar reglugerða.
    Í Svíþjóð hafa einnig verið sett lög á grundvelli tilskipunar 2005/32/EB, Lag om ekodesign no. 2008:112, en þau eru einnig ætluð sem rammalöggjöf til stuðnings setningu frekari reglugerða á grundvelli tilskipana Evrópusambandsins um einstaka flokka vöru. Gildissvið sænsku laganna er þrengra en dönsku laganna. Almennt ná lögin til allrar vöru sem notar orku, nema farartækja og notaðrar vöru. Einnig er gert ráð fyrir því að vara sem gert er ráð fyrir að verði áföst byggingarverki falli utan laganna á grundvelli laga nr. 847/1994, um tæknilegar gæðakröfur byggingarverka. Sænsku lögin gera sömuleiðis ráð fyrir víðtækum heimildum til setningar reglugerða.

6. Íslenskur réttur.
6.1 Núgildandi lög og reglugerðir á þessu sviði.
    Lög nr. 51/2000, um orkunýtnikröfur, voru fyrstu lögin sem sett voru hér á landi um þetta efni. Lögin voru sett í kjölfar innleiðingar tilskipana Evrópusambandsins 96/57/EB og 92/ 42/EBE og 92/75/EBE. Tilgangur þeirra laga er að stuðla að bættri nýtingu orku með því að ýta undir þróun og útbreiðslu búnaðar sem nýtir orku vel og var lögunum ætlað að taka til hvers konar véla, tækja og búnaðar sem nýtir orku, að undanskildum farartækjum eða notuðum tækjum. Einnig er gert ráð fyrir í lögunum að ráðherra setji nánari reglur um orkunýtni einstakra tækja, sem byggjast fyrst og fremst á tilskipunum Evrópusambandsins. Á grundvelli þessara laga hafa verið settar tvær reglugerðir, nr. 795/2000, um orkunýtni rafknúinna kælitækja, frystitækja og sambyggðra kæli- og frystitækja til heimilisnota, og nr. 219/2002, um orkunýtni straumfesta til flúrlýsingar. Reglugerð nr. 636/1994, um kröfur varðandi nýja heitavatnskatla sem brenna fljótandi eða loftkenndu eldsneyti, var einnig sett á grundvelli þessara tilskipana en með heimild í lögum nr. 102/1994, um breytingu á lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu. Gert er ráð fyrir að þessar reglugerðir falli undir frumvarp þetta, ef það verður samþykkt.

6.2 Skuldbindingar Íslands.
    Í samræmi við skuldbindingar Íslands á grundvelli EES-samningsins þarf að innleiða ákvæði framangreindrar tilskipunar í íslenskan rétt ásamt því að veita ráðherra heimild til setningar reglugerða á grundvelli einstakra gerða um tiltekna vöruflokka sem síðar verða innleiddar. Til að gera þetta kleift eru ráðherra í raun veittar tvenns konar heimildir. Annars vegar að hann hafi heimild til að setja reglugerðir til nánari útfærslu á lögunum og hins vegar að hann hafi heimild til að setja reglugerðir á grundvelli gerða um visthönnun tiltekinna vöruflokka sem framkvæmdastjórnin vinnur nú að og eru fyrstu gerðirnar væntanlegar fyrir lok árs 2008.
    Kröfur á grundvelli frumvarps þessa geta verið kröfur um orkunotkun, kröfur um ákveðna hönnun eða jafnvel kröfur er varða íhluti og undireiningar. Kröfurnar skulu miða að því að bæta nýtni búnaðar á orku og koma í veg fyrir að búnaður sem nýtir orku illa sé settur á markað.

7. Samantekt.
    Líkt og fram hefur komið mun frumvarpið ekki hafa mikil áhrif á framleiðendur á Íslandi og er þörfin að vissu leyti takmörkuð þar sem mestöll staðbundin orkunotkun byggist á orku frá endurnýjanlegum orkulindum. Hins vegar er lagasetningin nauðsynleg til að tryggja samræmda löggjöf á EES-svæðinu og til að koma í veg fyrir að hingað sé hægt að flytja vörur sem ekki uppfylla kröfur annars staðar á EES-svæðinu.
    Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um visthönnun vöru og tilskipun 2005/32/EB er þetta frumvarp lagt fram.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er að finna almenna lýsingu á tilgangi laganna, en hann er að stuðla að visthönnun vara sem nota orku með það að markmiði að efla hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og notkun á vörum sem eru umhverfisvænar, með minni orkunotkun og umhverfisálag að leiðarljósi. Litið er til líftíma vörunnar í þessu sambandi, þ.e. frá vöggu til grafar.

Um 2. gr.


    Í 1. og 2. mgr. er að finna almenna afmörkun á gildissviði frumvarpsins, sem er nokkuð vítt. Almennt má segja að frumvarpið taki til hvers konar vöru sem notar orku, en þó eru undanskilin farartæki, sbr. 3. mgr., enda gilda aðrar reglur um farartæki á þessu sviði og vörur sem nota orku en eru þegar í notkun.

Um 3. gr.


     Í greininni er að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem koma fram í frumvarpinu. Í gildandi lögum er engar skilgreiningar að finna. Við skilgreiningu á þeim hugtökum sem koma fram í frumvarpinu hefur verið stuðst við skýringar í tilskipun 2005/32/EB.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er gerð grein fyrir því hvaða kröfur vara sem notar orku verði að uppfylla til að heimilt sé að setja hana á markað. Gert er ráð fyrir því að varan uppfylli þær kröfur sem almennt eru gerðar í lögunum um orkunýtni og umhverfisálag ásamt því að hún uppfylli allar þær kröfur sem gerðar eru í liðum a–c.
    Í 2. mgr. kemur fram að ef vara uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru um orkunýtni og umhverfisálag er óheimilt að banna markaðssetningu hennar.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að ef vara telst uppfylla kröfur í öðru landi innan EES verður hún sjálfkrafa talin uppfylla kröfur hér á landi. Vörur sem nota orku og uppfylla samræmda evrópska staðla teljast uppfylla kröfur samkvæmt þessari grein. Hið sama á við um vörur sem nota orku og hafa fengið umhverfismerki, sbr. reglugerð ESB nr. 1980/2000. Í reglum sem Neytendastofa setur skal birtur listi yfir samræmda evrópska staðla sem samþykktir hafa verið og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Um 5. gr.


    Í greininni er lögð sú skylda á framleiðanda eða fulltrúa hans að gefa út samræmisyfirlýsingu sem tryggi að vara samræmist þeim kröfum sem gerðar eru í lögum og reglum. Nánar er gerð grein fyrir hvernig samræmisyfirlýsing skuli úr garði gerð í IV. viðauka tilskipunarinnar.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. er lögð sú skylda á framleiðanda eða fulltrúa hans að samræmismat hafi farið fram áður en vara, sem fellur innan gildissviðs frumvarpsins, er flutt inn eða markaðssett. Um samræmismat er nánar fjallað í IV. og V. viðauka við tilskipunina.
    Í 2. mgr. er einnig lögð sú skylda á framleiðanda eða fulltrúa hans að geyma samræmismat og útgefnar samræmisyfirlýsingar í að minnsta kosti 10 ár eftir að framleiðslu vöru lýkur. Viðeigandi gögn skulu einnig höfð aðgengileg af hálfu framleiðanda eða fulltrúa hans innan 10 daga frá viðtöku beiðni af þar til bæru stjórnvaldi innan EES-svæðisins.

Um 7. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram að vara sem notar orku skuli bera CE-samræmismerki, áður en varan er sett á markað. Í þessu felst að framleiðandi eða innflytjandi sjái til þess að samræmismerkið verði fest við vöruna áður en hún er sett á markað, að því gefnu að hún uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til vara samkvæmt þessum lögum og almennum reglum um CE-samræmismerkið. Almennar reglur um CE-samræmismerkið er að finna í reglugerð nr. 957/2006 um aðferðareiningar fyrir hin ýmsu þrep samræmismatsins og reglur um áfestingu og notkun CE-samræmismerkja sem ætlað er að nota í tilskipunum um tæknilega samhæfingu, sem sett er með stoð í 27. gr. laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum.
    Í 2. mgr. segir að ef vara sem notar orku ber nú þegar CE-samræmismerki skal litið svo á að samræmismerkið sé staðfesting á því að varan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í lögum þessum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Þó verður að hafa í huga að vara verður einnig að uppfylla þær almennu reglur sem eru í reglugerð nr. 957/2006.
    Í 3. mgr. kemur fram að um samræmismerkingar og samræmismat fari að öðru leyti eftir lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu og reglum settum á grundvelli þeirra. Með þessari tilvísun er átt við reglugerð nr. 957/2006 en hún inniheldur almennar reglur um CE- samræmismerkið.

Um 8. gr.


    Samkvæmt greininni ber framleiðandi, fulltrúi hans eða innflytjandi ábyrgð á að vörur uppfylli kröfur um orkunýtni samkvæmt frumvarpinu og þeim reglum sem settar verða á grundvelli þess. Á framleiðanda eru m.a. lagðar þær skyldur að hann framkvæmi mat á umhverfisþáttum og umhverfisálagi vöru við hönnun hennar og framleiðslu í samræmi við kröfur visthönnunar.

Um 9. gr.


    Í greininni er kveðið á um upplýsingaskyldu framleiðanda og seljanda. Í henni er sú skylda lögð á framleiðanda að hann upplýsi neytendur um umhverfiseiginleika vöru og afköst vöru sem notar orku.
    Skortur á upplýsingum er almennt talin helsta hindrun bættrar orkunýtni. Eins og staðan er í dag er bætt orkunýtni sjaldnast ákvörðunarástæða neytanda fyrir kaupum á vöru. Orkunýtni ætti þó að vera meginþátturinn í ákvörðun kaupandans.

Um 10. gr.


    Í greininni er kveðið á um fyrirkomulag eftirlits og valdsvið. Í 1. mgr. kemur fram að iðnaðarráðherra fari með framkvæmd laganna en eftirlit og dagleg stjórnsýsla verði í höndum Neytendastofu.
    Með lögum nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, var Neytendastofu falin almenn markaðsgæsla og markaðseftirlit. Einnig er mögulegt að fela Neytendastofu eftirlit á grundvelli annarra laga, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda. Neytendastofa fer einnig með eftirlit samkvæmt núgildandi lögum nr. 51/2000, um orkunýtnikröfur. Í samræmi við sjónarmið um Einfaldara Ísland verður talið eðlilegast og einfaldast að eftirlit með frumvarpi því er nú liggur fyrir fari fram hjá Neytendastofu. Nákvæmari reglur sem varða eftirlit hennar er því að finna í þeim lögum.

Um 11. gr.


    Í greininni er kveðið á um viðurlög við brotum á lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Um 12. gr.


    Í 1. mgr. er iðnaðarráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal reglur um hvaða vörur falli innan gildissviðs laganna, hvaða flokkar vöru sem notar orku þurfi að uppfylla kröfur um orkunýtni og hvaða kröfur vara skuli uppfylla. Einnig er ráðherra heimilt að kveða nánar á um upplýsingaskyldu framleiðanda og/eða innflytjanda í reglugerð. Með þessu er unnt að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins í íslenskan rétt með setningu reglugerða, í stað þess að lagabreytingar þurfi að koma til í hvert skipti sem ný tilskipun er innleidd á þessu sviði. Áætlað var að framkvæmdastjórnin mundi hefjast handa við að innleiða umræddar tilskipanir árið 2007 og er sú vinna nú í fullum gangi.
    Í 2. mgr. er ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um samræmismat, -merkingar og -yfirlýsingar í reglugerð sem byggist á tilskipuninni og viðaukum við hana.

Um 13. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. tilskipunarinnar skulu aðildarríki vísa í hana þegar innleiddar eru reglur á grundvelli tilskipunarinnar. Auk þess ber að innleiða ákvæði framangreindrar tilskipunar í samræmi við skuldbindingar Íslands á grundvelli EES-samningsins.

Um 14. gr.


    Gert er ráð fyrir að núgildandi lög nr. 51/2000, um orkunýtnikröfur, falli úr gildi. Einnig verður reglugerðum nr. 636/1994, nr. 795/2000 og nr. 219/2002 breytt á þann hátt að þær öðlist lagastoð í nýju lögunum. Þessar reglugerðir byggjast allar á eldri tilskipunum Evrópusambandsins en í tilskipun 2005/32/EB er gert ráð fyrir að þær falli undir hana og verði hluti af fyrrgreindu regluverki.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um visthönnun vöru sem notar orku.

    Tilgangur þessa frumvarps er að stuðla að þróun og notkun orkunýtinna vara með það að markmiði að tryggja visthönnun vöru með minni orkunotkun og draga úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið. Auk þess er frumvarpinu ætlað að tryggja frjálsa för slíkra vara um EES-svæðið. Frumvarpið byggir á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/32/ESB um vistvæna vöruþróun.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.