Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 196. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 581  —  196. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Karl Alvarsson og Ástríði Scheving Thorsteinsson frá samgönguráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Icelandair, Iceland Express, Landhelgisgæslunni, Samtökum um þjónustu og verslun, Félagi atvinnuflugmanna, Flugstoðum ohf. og rannsóknarnefnd flugslysa.
    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að breyta nokkrum ákvæðum laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að Flugmálastjórn Íslands verði heimilt að fela viðurkenndum aðilum skrásetningu og eftirlit með starfrækslu og lofthæfi loftfara af tiltekinni tegund og flokki. Einnig er ætlunin að bæta og styrkja lagastoð fyrir setningu reglugerða og innleiðingu gerða vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Umfangsmestu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu snúa að flugvernd og gjaldtöku vegna flugverndar. Nánar er kveðið á um eftirlit Flugmálastjórnar, heimild til leitar, gerð bakgrunnsathugana og þagnarskyldu auk þess sem kveðið er á um skýrari lagastoð til setningar reglugerða á sviði flugverndar. Með frumvarpinu er einnig stefnt að því að tryggja þátttöku flugrekenda í ákvarðanatöku með tilkomu svokallaðrar notendanefndar, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Heildarendurskoðun loftferðalaga hefur staðið fyrir dyrum í samgönguráðuneytinu um nokkurt skeið. Sú vinna er skammt á veg komin en talið er brýnt að gera tilteknar breytingar á lögunum á þessu stigi málsins.
    Nefndin ræddi þær breytingar sem lagðar er til í frumvarpinu á fundum sínum. Meðal annars var rætt um framsal valds til skrásetningar loftfara, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Fram kom að ákvæðinu er aðeins ætlað að ná til skráningar hreyfilknúinna fisa, léttra flugvéla og svifflugvéla. Flugmálastjórn hefur heimilað viðurkenndu fisfélagi skráningu og eftirlit í ákveðnum tilfellum og hefur það gefist vel. Er þessi lagabreyting gerð til að koma til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis við framkvæmdina.
    Nefndin ræddi einnig þá tilhögun 10. gr. frumvarpsins að birta efni reglugerðar um flugvernd aðeins að hluta og hvort þessi regla samræmist lagaboðum um birtingu stjórnvaldsfyrirmæla. Fram kom á fundi nefndarinnar að ef þessar verklagsreglur eru birtar og aðgengilegar almenningi eru brostnar forsendurnar fyrir því að verklagið nái því markmiði að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn flugstarfsemi þar sem aðilar sem hyggja á slíkar aðgerðir geta þannig hæglega komist yfir þessar upplýsingar. Fram kom einnig að leitast er við að takmarka þessa heimild til birtingar reglugerðar að hluta eins og frekast er unnt. Aðeins kröfur er lúta að framkvæmd og starfrækslu flugverndar verða háðar leynd. Nefndin telur tilhögun þessa nauðsynlega í ljósi þeirra markmiða sem reglum um flugvernd er ætlað að ná.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin vekur athygli á að fallið er frá stjórnskipulegum fyrirvara með frumvarpinu en hefðbundin framkvæmd þegar fallið er frá slíkum fyrirvara er sú að það sé gert með þingsályktunartillögu og leggur nefndin áherslu á mikilvægi þess að þeirri málsmeðferð sé fylgt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Björgvin G. Sigurðsson, Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen og Ragnheiður Ólafsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. febr. 2009.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Árni Þór Sigurðsson.


Ólöf Nordal.



Lúðvík Bergvinsson.


Valgerður Sverrisdóttir.