Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 345. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 588  —  345. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 (þagnarskylda), og lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003 (upplýsingagjöf).

Flm.: Björn Bjarnason, Ólöf Nordal, Sturla Böðvarsson, Árni M. Mathiesen,


Guðfinna S. Bjarnadóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Herdís Þórðardóttir,
Ásta Möller, Ragnheiður E. Árnadóttir, Björk Guðjónsdóttir,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Pétur H. Blöndal, Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
Sigurður Kári Kristjánsson, Einar K. Guðfinnsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 58. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ákvæði þetta girðir þó ekki fyrir rétt hlutdeildarskírteinishafa til að fá yfirlit yfir allar fjárfestingar og sölur verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða að liðnum þremur mánuðum frá kaup- eða söludegi. Hafi ákvörðun verið tekin um slit verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs, eða hafi viðskipti með hlutdeildarskírteini verið stöðvuð í tvær vikur, skal hlutdeildarskírteinishafi eiga rétt á að fá tiltækar upplýsingar um allar fjárfestingar og sölur síðustu 24 mánuði fyrir slit.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Ákvæði 3. mgr. 58. gr. laganna skal gilda um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði sem slitið hefur verið eftir 1. janúar 2008.

II. KAFLI
Breyting á lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003,
með síðari breytingum.

3. gr.

    Á eftir 51. gr. laganna kemur ný grein, 51. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Upplýsingagjöf til hlutdeildarskírteinishafa verðbréfasjóðs eða fjárfestingarsjóðs.


    Nú óskar hlutdeildarskírteinishafi eftir því við verðbréfasjóð eða fjárfestingarsjóð að fá yfirlit yfir fjármálagerninga sjóðsins og skal sjóðurinn þá verða við beiðni hlutdeildarskírteinishafans innan tveggja vikna vegna þess tímabils sem viðkomandi hefur verið eigandi hlutdeildarskírteinis.
    Hafi verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði verið slitið skal rekstrarfélagi skylt að verða við beiðni hlutdeildarskírteinishafa um tiltækar upplýsingar er tengjast einstökum fjármálagerningum.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Ákvæði 51. gr. a skulu gilda um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði sem slitið hefur verið frá 1. janúar 2008.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Við bankahrunið urðu margir fyrir tjóni. Eðlilegt er að þeim sé auðveldað að leita réttar síns, sbr. ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Synji fjármálafyrirtæki að veita eigendum hlutdeildarskírteina í fjárfestingarsjóðum upplýsingar getur það leitt til þess að þeim sé gert ókleift að leiða fram nauðsynlegar sannanir til að gæta réttar síns gagnvart fjármálafyrirtækinu. Frumvarpi þessu er ætlað að koma í veg fyrir að með vísan til þagnarskyldu eða bankaleyndar sé gengið gegn eðlilegum rétti einstaklings til að gæta réttar síns þegar þau skilyrði eru fyrir hendi sem lýst er í frumvarpinu.
    Ekki hefur reynt á það fyrir íslenskum dómstólum hvort réttur viðskiptamanns til upplýsinga um meðferð á fjármunum hans sé ríkari en þagnarskylda og bankaleynd. Fyrir því hafa verið færð rök að ákvæðum um þagnarskyldu sé fyrst og fremst ætlað að tryggja hagsmuni viðskiptavina fjármálastofnana, sbr. t.d. sératkvæði í dómi Hæstaréttar í máli nr. 59/ 2006.
    Þótt niðurstaða íslenskra dómstóla yrði sú að réttur einstaklings til upplýsinga verði viðurkenndur, yrði látið á það reyna, þykir eðlilegt að löggjafinn taki af öll tvímæli í þessu efni. Með því vinnst tvennt: réttaróvissu er eytt og þar með einnig nauðsyn þess að stofna sérstaklega til málaferla til að fá úr henni skorið. Loks er enginn vafi á því að samþykkt þessa frumvarps yki aðhald og eftirlit með fjármálastofnunum.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að tekin séu af tvímæli um rétt viðskiptavina fjármálastofnana til að fá upplýsingar um ráðstöfun þeirra eigin fjármuna. Gerður er greinarmunur á því hvort sjóðir séu opnir eða hvort þeim hafi verið slitið. Í síðarnefnda tilvikinu er réttur hlutdeildarskírteinishafa til upplýsinga ríkari. Lagt er til grundvallar að lagabreytingin gildi um hvern þann sjóð sem slitið hefur verið frá 1. janúar 2008.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með ákvæði þessu eru tekin af tvímæli um að réttur hlutdeildarskírteinishafa gengur framar þagnarskyldu skv. 58. gr. laganna og hugsanlegri trúnaðarskyldu gagnvart viðsemjanda verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða eða útgefendum þeirra verðbréfa sem viðskiptin lúta að. Lagt er til að hlutdeildarskírteinishafar eigi rétt á yfirliti yfir fjármálagerninga. Hafi verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði verið slitið er þó gert ráð fyrir því að hægt sé að krefjast mun ítarlegri upplýsinga, svo sem sundurliðaðra upplýsinga um verð, skilmála og annað sem hlutdeildarskírteinishafar geta sýnt fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni af að fá að vita. Gert er ráð fyrir því að lögvarðir hagsmunir verði hér túlkaðir rúmt, enda verið að sýsla með fjármuni í eigu hlutdeildarskírteinishafa.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að tekin verði af tvímæli um að lagabreytingin nái yfir þau atvik sem leiða má af bankahruninu á síðari hluta árs 2008.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að nýtt ákvæði komi inn í lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði sem tekur af tvímæli um rétt hlutdeildarskírteinishafa til upplýsinga og að réttur til aðgangs að gögnum sé ríkari hafi sjóði verið slitið.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að tekin verði af tvímæli um að lagabreytingin nái yfir þau atvik sem leiða má af bankahruninu á síðari hluta árs 2008.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.