Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.

Þskj. 635  —  376. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    B- og c-liður 3. gr. laganna orðast svo:
     b.      Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.
     c.      Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

2. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 4. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

3. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 2. og 3. mgr. 5. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 1. mgr. kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.
     b.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ þrívegis í 2. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.
     c.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ tvívegis í 3. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.
     d.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 5. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.

5. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.


6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 1. mgr. kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.
     b.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ þrívegis í 2. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.
     c.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ tvívegis í 3. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.
     d.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 5. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
                  Sá er fær greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknar skv. 1. mgr. skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.
     b.      3. mgr., sem verður 4. mgr., orðast svo:
                  Skattyfirvöld, Tryggingastofnun ríkisins, sjúkratryggingastofnunin, Innheimtustofnun sveitarfélaga, hlutaðeigandi lífeyrissjóðir, viðurkenndar menntastofnanir innan hins almenna menntakerfis og skólar á háskólastigi skulu láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ tvívegis í 1. mgr. kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.
     b.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 5. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.

9. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 5. mgr. 14. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      5. mgr. orðast svo:
                  Verkfall eða verkbann sem tekur til starfa launamanns á ávinnslutímabilinu telst til starfstíma á því tímabili. Við mat á starfshlutfalli launamanns í verkfalli eða verkbanni skal miða við starfshlutfall hans í almanaksmánuðinum áður en verkfall eða verkbann hófst.
     b.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 10. mgr. kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. og 2. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.
                  Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.
                  Til að reikna út tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklings sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári skal finna mánaðarlegar meðaltekjur hins tryggða í formi reiknaðs endurgjalds yfir síðasta tekjuár áður en að hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Telst hann að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á síðasta tekjuári sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði og tryggingagjald. Hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á sama tímabili sem eru lægri en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði skal tryggingahlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.
                  Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi einu sinni á ári sem er að meðaltali lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði á síðasta tekjuári áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar.
     b.      4. og 5. málsl. 3. mgr., sem verður 5. mgr., falla brott.
     c.      4. mgr., sem verður 6. mgr., orðast svo:
                  Tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklings getur þó aldrei orðið hærra en sem nemur því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 14. gr.
     d.      5. mgr. fellur brott.
     e.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 9. mgr., sem verður 10. mgr., kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

12. gr.

    Við 1. mgr. 23. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við þegar sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum tekur ólaunað leyfi frá störfum samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sama á við um sjálfstætt starfandi einstakling, sbr. b-lið 3. gr., sem greiðir staðgreiðsluskatt af lægra reiknuðu endurgjaldi en áður sem jafnframt er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein, sbr. 2. mgr. 19. gr., eða ræður sig til starfa sem launamaður í hlutastarf, sbr. 22. gr.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um þann tíma er sjálfstætt starfandi einstaklingur greiðir staðgreiðsluskatt af hærra reiknuðu endurgjaldi þannig að hann greiði af sömu eða hærri fjárhæð en áður.
     c.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Á sama hátt fyrir sjálfstætt starfandi einstakling skal líta til þeirra tólf mánaða sem hinn tryggði greiddi staðgreiðsluskatt af hæsta reiknaða endurgjaldi á síðustu 36 mánuðum fyrir móttöku umsóknar.

14. gr.

    Á eftir 24. gr. laganna kemur ný grein, 24. gr. a, sem orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Fæðingarorlof.

    Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og tekur fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof getur geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hóf töku fæðingarorlofs.
    Sá tími sem hinn tryggði starfar á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu skv. 1. mgr. telst til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. eftir því sem við á.
    Við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til síðustu tólf mánaða sem hinn tryggði hefur starfað á innlendum vinnumarkaði á síðustu 36 mánuðum fyrir móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögum þessum.
    Sæki hinn tryggði ekki um atvinnuleysisbætur innan 24 mánaða frá þeim degi er hann sannanlega hvarf af vinnumarkaði fellur réttur hans til að geyma atvinnuleysistrygginguna niður.
    Ákvæði þetta á ekki við um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla fyrir sama tímabil.

15. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ tvívegis í 3. mgr. 33. gr. laganna kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.

16. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ tvívegis í 2. mgr. 36. gr. laganna kemur: félags- og tryggingamálaráðherra.

17. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 4. mgr. 39. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

18. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 6. mgr. 42. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „telst ekki tryggður“ í 1. mgr. kemur: samkvæmt lögum þessum.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Vinnumálastofnun skal meta sérstaklega hvort sá er stundar nám í framhaldsskóla eða háskóla uppfylli skilyrði laganna þrátt fyrir námið enda um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

20. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 2. mgr. 62. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

21. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 63. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

22. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 64. gr. laganna kemur: Félags- og tryggingamálaráðherra.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                  Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. og 22. gr. skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall verið lækkað um 10% hið minnsta og hinn tryggði haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli. Á þetta við hvort sem hinn tryggði fær greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur eða grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. Aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá fyrir sama tímabil frá vinnuveitanda skulu koma til frádráttar greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði án tillits til frítekjumarks skv. 2. mgr. 36. gr. Hið sama gildir um greiðslur frá öðrum aðilum en vinnuveitanda.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum og gögnum frá viðkomandi vinnuveitanda hafi hinn tryggði misst starf sitt að hluta vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem hann starfar hjá vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starfseminni, svo sem fækkun verkefna eða samdráttur í þjónustu. Skal þá trúnaðarmaður stéttarfélags eða fulltrúi starfsmanna þar sem trúnaðarmaður er ekki til staðar staðfesta upplýsingarnar og gögnin.
     c.      Í stað orðanna „1. maí“ í 5. mgr. kemur: 31. desember.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum:
     a.      Við 2. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar tilfallandi verkefni stendur yfir í lengri tíma en einn mánuð en endurgjaldið fyrir verkefnið er greitt einu sinni eða óreglulega skal dreifa tekjunum jafnt yfir tímabilið sem verkefnið stóð yfir og koma þær þannig til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða á því tímabili að teknu tilliti til frítekjumarks skv. 2. málsl. í hverjum mánuði. Vinnumálastofnun skal meta hvort verkefni geti talist tilfallandi og hvort um verulegan samdrátt er að ræða í rekstri sjálfstætt starfandi einstaklings. Við matið skal stofnunin þá meðal annars líta til viðmiðunarfjárhæða fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein sem og reksturs hlutaðeigandi á allt að þremur síðustu tekjuárum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til stofnunarinnar.
     b.      Í stað orðanna „1. maí“ í 4. mgr. kemur: 31. desember.

25. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þær breytingar sem mælt er fyrir um í lögum þessum skulu ekki gilda um þá sem þegar fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði við gildistöku laga þessara, nema breytingarnar leiði til betri réttar fyrir hinn tryggða og skal hann þá óska leiðréttingar á greiðslum úr sjóðnum hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. júní 2009.

26. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta byggist á tillögum samráðshóps félags- og tryggingamálaráðuneytis, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Samtaka atvinnulífsins en hlutverk hans var meðal annars að fara yfir reynsluna af framkvæmd laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, síðustu mánuði og þá sérstaklega bráðabirgðaákvæði laganna sem samþykkt voru á Alþingi í nóvember sl., sbr. lög nr. 131/2008. Lítið reyndi á atvinnuleysistryggingakerfið frá þeim tíma er því var breytt sumarið 2006 fram til haustsins 2008 enda var skráð atvinnuleysi mjög lítið hér á landi á því tímabili. Hins vegar hefur reynt afar mikið á kerfið síðan í nóvember 2008 þegar atvinnuleysi fór að aukast hröðum skrefum. Skráð atvinnuleysi mældist 1,3% í september 2008 en var komið í 6,6% í janúar 2009. Í lok janúarmánaðar voru 12.407 einstaklingar á atvinnuleysisskrá og voru þar af ríflega 2.100 einstaklingar í hlutastörfum eða rúm 17% þeirra sem voru á skrá.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis laganna um heimildir til að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna verði framlengdur til 31. desember 2009. Þykir þessi heimild hafa sýnt ágæti sitt sem vinnumarkaðsúrræði þar sem að starfsmenn eru áfram virkir á vinnumarkaði í að minnsta kosti 50% starfshlutfalli í stað þess ef til vill að missa vinnu sína að fullu. Í lok janúar voru 1.279 einstaklingar sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli þessarar heimildar en af þeim voru um 38% í hálfu starfi. Fleiri konur en karlar voru í hálfu starf eða 46% kvenna á móti 32% karla. Fleiri karlar voru í 75–80% starfshlutfall eða 35% karlanna og 22% kvenna. Meðalstarfshlutfall þeirra sem fengu greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur samhliða skertu starfshlutfalli var 66%. Ekki eru lagðar til breytingar á skilyrðum fyrir rétti til hlutabóta frá því sem nú er að öðru leyti en því að lagt er til að starf hlutaðeigandi þurfi að skerðast að lágmarki um 10%. Þá er Vinnumálastofnun fengin heimild til að leita eftir nánari rökstuðningi hjá vinnuveitanda fyrir samdrætti í rekstri hans sem leiðir til þess að minnka þarf starfshlutfall starfsmanna í þeim tilvikum sem stofnunin telur ástæðu til. Er þá jafnframt miðað við að trúnaðarmaður eða fulltrúi starfsmanna þegar trúnaðarmaður er ekki fyrir hendi staðfesti þær upplýsingar eða gögn sem vinnuveitandi lætur Vinnumálastofnun í té.
    Í ljósi reynslunnar þótti ástæða til að skoða réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga heildstætt innan kerfisins. Er því lagt til að sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar verði einungis þeir sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi en að litið verði á aðra þá sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum sem launafólk. Er þetta einkum gert til einföldunar á kerfinu og til betra samræmis við þær upplýsingar sem liggja fyrir um skattskil þessara aðila hjá skattyfirvöldum.
    Sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa ávallt talist að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins hafi þeir greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald mánaðarlega samfellt í tólf mánuði áður en þeir sækja um atvinnuleysisbætur. Það hefur sætt nokkurri gagnrýni að slíkt hafi verið raunin án tillits til þeirra fjárhæða sem þeir hafa greitt til skattyfirvalda og þar með inn í Atvinnuleysistryggingasjóð á þeim tíma. Jafnframt hefur verið gagnrýnt að sjálfstætt starfandi einstaklingar sem greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári til skattyfirvalda hafa ekki talist tryggðir innan kerfisins. Þá hafa komið fram athugasemdir um að sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa ekki átt kost á að geyma áunninn rétt sinn til atvinnuleysistrygginga. Hefur slíkt leitt til þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar geta átt mjög skertan rétt til atvinnuleysisbóta og jafnvel ekki talist tryggðir innan kerfisins þar sem þeir hafi ekki haft tekjur í einhvern tíma áður en þeir sækja um atvinnuleysisbætur enda þótt að þeir hafi haft tekjur af rekstrinum í mörg ár þar á undan.
    Með hliðsjón af framangreindu er því lagt til að réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga verði færður til betra samræmis við rétt launafólks innan kerfisins enda þótt taka verði áfram tillit til þess að nokkur eðlismunur er talinn vera á starfstengdum aðstæðum þessara hópa. Á sama tíma er gætt betra samræmis í inn- og útstreymi sjóðsins. Þannig er gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar kunni, á sama hátt og launamenn, að vera hlutfallslega tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og er þá miðað við viðmiðunarfjárhæðir fyrir reiknað endurgjald sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Þannig telst sá að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins er greitt hefur mánaðarlega staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Þeir sem greiða staðgreiðsluskatt í skemmri tíma en samt sem áður í lengri tíma en þrjá mánuði eða staðgreiðslu af lægra endurgjaldi teljast þá hlutfallslega tryggðir. Jafnframt er gert ráð fyrir að þeir sem greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári til skattyfirvalda kunni að teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Þá er einnig gert ráð fyrir að áunninn réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga geti geymst í allt að 24 mánuði í tilvikum er þeir greiða staðgreiðsluskatt af lægra endurgjaldi en þeir höfðu gert áður en reksturinn fór að dragast saman en samdráttur í rekstri er oft undanfari atvinnumissis sjálfstætt starfandi einstaklinga.
    Lagt er til að gildistími bráðabirgðaákvæðis er gildir um réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga verði framlengdur til 31. desember 2009 enda þykir mikilvægt að þeir eigi þess kost að halda áfram að vera virkir á vinnumarkaði í einhverjum mæli þrátt fyrir verulegan samdrátt í starfsemi þeirra. Þó er lagt til að skýrar verði kveðið á um hvernig endurgjaldið fyrir tilfallandi verkefni kemur til frádráttar atvinnuleysisbótunum í ljósi þess að sjálfstætt starfandi einstaklingar kunna að fá mjög óreglulega greitt fyrir störf sín. Enn fremur er lagt til að komið verði meiri festu á framkvæmdina þannig að tekin verði af öll tvímæli um hlutverk Vinnumálastofnunar við mat á því hvað geti talist til tilfallandi verkefna í skilningi ákvæðisins sem og hvort raunverulega sé um verulegan samdrátt að ræða í starfsemi hlutaðeigandi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagðar eru til breytingar á því hverjir teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar innan atvinnuleysistryggingakerfisins þannig að einungis þeir sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi teljist til sjálfstætt starfandi einstaklinga í skilningi laganna. Þessi breyting leiðir til þess að þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum eða hlutafélögum teljast launamenn og ákvarðast réttur þeirra til atvinnuleysistrygginga á þeim ákvæðum laganna er lúta að réttindum launafólks innan kerfisins. Breytingar þessar leiða til ákveðinnar einföldunar við framkvæmd laganna og eru í betra samræmi við þær upplýsingar sem liggja fyrir um skattskil þessara einstaklinga hjá skattyfirvöldum samkvæmt gildandi lögum og reglum um tekjuskatt. Jafnframt er lögð til sú breyting að þeir sem greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári teljist sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi laganna og kunni því að vera tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
    Enn fremur eru lagðar til breytingar á því hvað telst vera nám í skilningi laganna þannig að eingöngu verði litið til hvers konar nám sé um að ræða óháð námshlutfalli.

Um 2.–6. gr.

    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.
    

    Lagt er til að skýrar verði kveðið á um skyldu atvinnuleitenda sem fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar til að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar sem kunna að verða á högum þeirra eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt þeirra samkvæmt lögunum frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur var skilað inn til Vinnumálastofnunar. Á þetta meðal annars við þegar atvinnuleitandi hættir virkri atvinnuleit og hefur nám eða tekur að sér tilfallandi verkefni. Láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.
    Í ljósi þess að einstaklingar sem stunda nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, teljast ekki tryggðir samkvæmt lögunum á sama tímabili og þeir stunda nám sitt enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna, er lagt til að skólum innan hins almenna menntakerfis á Íslandi og skólum á háskólastigi verði gert skylt að láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við eftirlit með framkvæmd laganna með sama hætti og öðrum þeim aðilum sem þegar eru taldir upp í lögunum. Er þetta einkum lagt til í því skyni að undirstrika tilgang Atvinnuleysistryggingasjóðs sem og mikilvægi þess að jafnræði ríki meðal nemenda í skólum landsins að þessu leyti. Megintilgangur Atvinnuleysistryggingasjóðs er einkum að tryggja einstaklingum, sem hafa tímabundið misst starf sitt, framfærslu þann tíma sem það tekur að finna nýtt starf enda áhersla lögð á að hinn tryggði sé í virkri atvinnuleit meðan hann nýtur greiðslna úr sjóðnum. Það hefur hins vegar ekki verið talið hlutverk sjóðsins að tryggja framfærslu þeirra sem stunda hefðbundið nám á framhaldsskólastigi eða í háskóla enda öðrum kerfum ætlað það hlutverk, svo sem Lánasjóði íslenskra námsmanna, með hliðsjón af því að þeir sem leggja stund á nám teljast ekki vera í virkri atvinnuleit á sama tíma.

Um 8. og 9. gr.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Lagt er til að fæðingarorlof teljist ekki til starfstíma launafólks á ávinnslutímabili skv. 15. gr. laganna eins og verið hefur heldur teljist það til þeirra tilvika sem launafólki og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að geyma áunninn rétt til atvinnuleysistrygginga, sbr. einnig 14. gr. frumvarps þessa. Þessi tilhögun þykir í betra samræmi við önnur sambærileg tilvik þar sem réttur til atvinnuleysistrygginga geymist, sbr. V. kafla laganna. Engu síður er lagt til að verkfall og verkbann teljist áfram til starfstíma launamanna þegar verkfall eða verkbann stendur yfir á ávinnslutímabili enda tengist verkfall og verkbann mjög aðstæðum í starfi hlutaðeigandi. Mun sá tími því áfram teljast með við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 32. gr. laganna.

Um 11. gr.

    Lagðar eru til tilteknar breytingar á því hvernig tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklinga er ákvarðað. Þessar breytingar eru lagðar til í ljósi reynslunnar af atvinnuleysistryggingakerfinu sem tók gildi um mitt ár 2006 en við framkvæmd laganna hefur komið fram að aðstæður sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sækja um atvinnuleysisbætur geta verið mjög mismunandi. Í því sambandi hefur til dæmis sú tilhögun sætt gagnrýni að svokallaðir ársmenn, þ.e. þeir sem greiða staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári til skattyfirvalda, hafi ekki talist tryggðir innan kerfisins enda þótt aðrir sem standa reglulega í skilum við skattyfirvöld hafi öðlast fullan rétt óháð þeim fjárhæðum sem þeir greiða í lögboðna skatta og gjöld til skattyfirvalda. Þá þykir eðlilegt að færa rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til betra samræmis við rétt launafólks enda þótt taka verði áfram tillit til þess að nokkur eðlismunur er talinn vera á starfstengdum aðstæðum þessara hópa auk þess sem breytingunum er ætlað að tryggja betra samræmi milli inn- og útstreymis úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Er því lagt til að fallið verði frá þeirri reglu að sjálfstætt starfandi einstaklingar teljist ávallt vera að fullu tryggðir hafi þeir greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en þeir sóttu um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, óháð þeim fjárhæðum sem þeir hafa greitt til skattyfirvalda. Í stað þess verði miðað við að þeir kunni að vera hlutfallslega tryggðir á sambærilegan hátt og launafólk. Sem dæmi má nefna að við mat á réttindum launafólks er meðal annars litið til kjara launafólks þegar starfshlutfall þess samkvæmt vinnuveitandavottorði er skoðað í tilvikum er endurgjaldið þykir óeðlilega lágt miðað við ætlað starfshlutfall. Er þá miðað við lágmarksákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem hlutaðeigandi starfaði á. Í tilvikum sjálfstætt starfandi einstaklinga er hins vegar gert ráð fyrir að litið verði til viðmiðunarfjárhæða sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun þessa lágmarksendurgjalds er höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Þannig er lagt til að sá sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í þeirri starfsgrein er hann starfar við, sem og tryggingagjald, samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun teljist að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Hafi hann greitt af þessari fjárhæð í skemmri tíma en þó lengur en þrjá mánuði á sama tímabili telst hann tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd þess tíma sem hlutaðeigandi greiddi staðgreiðsluskatt og tryggingagjald að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
    Í tilvikum er sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur greitt mánaðarlega staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar fjármálaráðherra, sbr. þó aðrar takmarkanir sem vísað er til.
    Hinar almennu reglur 1. og 2. mgr. gilda um alla sjálfstæða einstaklinga nema þá sem hafa uppfyllt skilyrði skattyfirvalda til að standa einungis einu sinni á ári skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi. Í 3. mgr. er lögð til sérregla vegna þessara svokölluðu ársmanna, þ.e. einstaklinga sem standa einungis einu sinni á ári skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi til skattyfirvalda. Þar er gert ráð fyrir að tekjum þeirra í formi reiknaðs endurgjalds sem greitt er af skuli dreift á allt tekjuárið sem tekjurnar eru ætlaðar fyrir í því skyni að finna út mánaðarlegar meðaltekjur viðkomandi. Í tilvikum ársmanna er ávinnslutímabilið því í raun síðasta tekjuárið áður en viðkomandi verður atvinnulaus enda ekki önnur viðmið fyrir hendi um atvinnuþátttöku þessara einstaklinga. Þá er lagt til að sams konar reglur gildi um ársmenn og lagt er til að gildi um aðra sjálfstætt starfandi einstaklinga hvað varðar útreikning á tryggingahlutfalli þeirra.
    Enn fremur er lagt til að sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein teljist ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins en það er í samræmi við skilyrði er gildir um vinnuframlag launafólks. Hið sama er lagt til að gildi um sjálfstætt starfandi einstakling sem greiðir staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi einu sinni á ári sem er að meðaltali fyrir hvern mánuð lægra en 25% af framangreindri viðmiðunarfjárhæð á síðasta tekjuári áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Er þá átt við að þær tekjur sem ársmaður hafði í formi reiknaðs endurgjalds skiptist jafnt yfir alla tólf mánuði tekjuársins sem um er að ræða og reynist meðaltekjurnar í hverjum mánuði vera lægri en 25% af viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir viðkomandi starfsgrein telst sá hinn sami ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.
    Í samræmi við framangreindar breytingar og jafnframt til að gæta enn frekar samræmis við aðstæður launafólks er lagt til í 13. gr. frumvarps þessa að áunninn réttur sjálfstætt starfandi einstaklings innan atvinnuleysistryggingakerfisins geti geymst í allt að 24 mánuði í tilvikum er sjálfstætt starfandi einstaklingur tekur að greiða staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra eða lægra en hann hefur áður greitt enda hafði hann áður reiknað sér endurgjald sem var lægra en viðmiðunarfjárhæðin. Er með þessu komið til móts við þá staðreynd að rekstur sjálfstætt starfandi einstaklinga gengur oft illa í einhvern tíma áður en kemur til atvinnumissis hlutaðeigandi. Það getur haft þau áhrif að sjálfstætt starfandi einstaklingur greiði af lægri fjárhæðum en áður til skattyfirvalda síðustu mánuðina áður en sótt er um atvinnuleysisbætur og jafnvel eru þekkt dæmi þess að hlutaðeigandi hafi ekki reiknað sér endurgjald fyrir vinnu sína á því tímabili þar sem rekstrarkostnaður hafi verið umfram tekjur. Í slíkum tilvikum hafa sjálfstætt starfandi einstaklingar átt skertan rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins og sumir með öllu ótryggðir þrátt fyrir að hafa greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi í mörg ár þar á undan. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 13. gr. frumvarps þessa.

Um 12. gr.
    

    Lagt er til að sama gildi hvort sem þeir sem teljast tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar hverfa tímabundið af vinnumarkaði eða taka ólaunað leyfi frá störfum samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Þannig er lagt til að tímabil, svo sem þegar foreldrar taka foreldraorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof eða fara í launalaust leyfi í kjölfar fæðingarorlofs samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, teljist ekki ávinnslutímabil skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar enda þótt viðkomandi hafi gildan ráðningarsamning við vinnuveitanda sinn. Fer þá um það tímabil eins og önnur tilvik sem leiða til þess að þegar áunninn réttur til atvinnuleysistrygginga geymist skv. 23. gr. laganna.

Um 13. gr.

    Í      ljósi þess að lagðar eru til breytingar á því hvernig tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklaklinga er ákveðið skv. 11. gr. frumvarps þessa er gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti geymt þegar áunninn rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að 24 mánuði. Sem dæmi má nefna sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur ávallt greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra en síðan dregst reksturinn saman sem leiðir til þess að tekjur hans minnka og þar með staðgreiðsla af reiknuðu endurgjaldi. Ári síðar sér hann ekki aðrar leiðir færar en að hætta rekstri og sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Hann telst þá engu síður að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Er því gert ráð fyrir að sama gildi um sjálfstætt starfandi einstaklinga og launafólk þannig að við umsókn um atvinnuleysisbætur sé litið til þeirra tólf mánaða sem sjálfstætt starfandi einstaklingur reiknaði sér hæsta endurgjaldið og greiddi af því staðgreiðslu ásamt tryggingagjaldi á síðustu 36 mánuðum miðað við móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.
    Er með þessu verið að koma til móts við þá staðreynd að sjálfstætt starfandi einstaklingar byrja oft á því að reikna sér lægra endurgjald til að geta staðið skil á öðrum rekstrarkostnaði þegar verulega dregst saman í rekstri þeirra sem oft er undanfari þess að þeir hætta rekstri og sækja um atvinnuleysisbætur. Hefur þá sætt gagnrýni að þeir hafi ekki átt rétt til atvinnuleysistrygginga enda þótt þeir hafi greitt staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi sem nemur viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra sem og tryggingagjald í mörg ár þar á undan.
    Í þessu sambandi ber jafnframt að líta til þess að þegar fólk skiptir um starfsvettvang á þessu tímabili með því að verða sjálfstætt starfandi einstaklingar frá því að vera launafólk eða öfugt þá ber að líta til þeirra mánaða sem umsækjandi var í hæsta starfshlutfalli eða greiddi staðgreiðsluskatt af hæsta reiknaða endurgjaldinu á síðustu 36 mánuðum fyrir móttöku umsóknar.

Um 14. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um tilvik þegar sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar tekur fæðingarorlof samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof en hann getur þá geymt þegar áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði. Þessi tilhögun þykir í betra samræmi við önnur sambærileg tilvik sem fjallað er um í ákvæðum V. kafla laganna þannig að réttur til atvinnuleysistrygginga geymist. Við mat á tryggingahlutfalli umsækjanda er þá litið til þess tíma er hlutaðeigandi var á vinnumarkaði fyrir töku fæðingarorlofsins og þá einnig miðað við tekjur hans á því tímabili, skv. 32. gr. laganna.

Um 15.–18. gr.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.
         

    Meginregla laganna um atvinnuleysistryggingar er að sá sem stundar nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar telst ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins á sama tímabili enda teljist námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna. Tvenns konar undanþágur hafa verið veittar frá þessari meginreglu, sbr. 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna, sem hafa þótt leiða til ákveðinnar misnotkunar á atvinnuleysistryggingakerfinu. Eitt aðalhlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs er að tryggja einstaklingum, sem hafa áður verið virkir á vinnumarkaði en missa starf sitt tímabundið, framfærslu þann tíma sem það tekur að finna nýtt starf enda áhersla lögð á að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit. Hefur verið litið svo á að þegar fólk stundar nám sé það ekki á sama tímabili í virkri atvinnuleit líkt og lögin gera ráð fyrir enda megi gera ráð fyrir að viðkomandi sé á námstímanum ekki jafnvakandi fyrir þeim tækifærum sem kunna að bjóðast hvað varðar atvinnu. Þykir því mikilvægt að skýrt sé kveðið á um í lögunum að almenna reglan sé sú að einstaklingar sem stunda nám eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta á sama tímabili, ekki síst þegar námið telst lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Hins vegar þykir jafnframt eðlilegt að veita Vinnumálastofnun áfram ákveðið svigrúm til mats á því hvort einstaklingur teljist í virkri atvinnuleit í skilningi laganna og uppfylli skilyrði laganna að öðru leyti kjósi hann að halda áfram námi sínu eftir atvinnumissi hafi hann stundað námið áður samhliða atvinnu sinni. Er jafnframt lagt til að sama gildi um þá sem vilja leggja stund á einstök námskeið á framhaldsskóla- eða háskólastigi enda viðurkennt að það geti verið atvinnuleitanda til góðs að vera virkur í samfélaginu með einum eða öðrum hætti. Í báðum þessum tilvikum á þetta ekki við sé það nám sem viðkomandi stundar lánshæft samkvæmt reglum um Lánasjóð íslenskra námsmanna enda sá sjóður ætlaður til framfærslu námsfólks. Í slíkum tilvikum metur Vinnumálastofnun aðstæður umsækjanda og þá eftir atvikum hvort hlutaðeigandi geti þá talist í leit að hlutastarfi sem hann getur stundað samhliða náminu og þar með hlutfallslega tryggður. Þarf þá meðal annars að líta til þess hvernig tímasókn í skóla er háttað, í því skyni að meta líkur á því að hlutaðeigandi geti tekið almennu starfi samhliða náminu. Enn fremur ber að líta til umfangs námsins en miðað er við að um mjög lágt námshlutfall sé að ræða.

Um 20.–22. gr.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.

Um 23. gr.

    Lagt er til að áfram verði unnt að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli og þá án þess að föst laun fyrir hlutastarfið komi til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 36. gr. laganna. Áfram er gert að skilyrði að launamaður haldi þá a.m.k 50% starfshlutfalli hjá vinnuveitanda þannig að stuðlað verði að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt enda þótt nauðsynlegt kunni að vera að skerða starfshlutfall þeirra að einhverju leyti. Í ljósi reynslunnar þykir jafnframt eðlilegt að miðað verði við að fyrra starfshlutfall launafólks hafi lækkað um 10% hið minnsta. Þannig á launamaður ekki rétt á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu skerðist starfshlutfall hans um minna en 10% og getur þá launamaður að hámarki verið í 90% starfshlutfalli hafi hann áður verið í fullu starfi til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu. Tilgangur þessa er einkum sá að gæta meira jafnræðis milli þeirra sem annars vegar verða að taka á sig launalækkun án skerðingar starfshlutfalls vegna samdráttar í rekstri vinnuveitanda í kjölfar sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði og hins vegar þeirra sem verða fyrir tiltölulega lítilli skerðingu á starfshlutfalli af sömu ástæðum og þar með launaskerðingu. Eins og verið hefur er áfram gert ráð fyrir að aðrar greiðslur komi til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 36. gr. laganna og þá án tillits til frítekjumarks 2. mgr. 36. gr. enda hefur ótilgreint frítekjumark þegar verið nýtt vegna teknanna fyrir hlutastarfið. Með öðrum greiðslum er meðal annars átt við yfirvinnugreiðslur og hvers konar árangurstengdar greiðslur. Þetta felur hvorki í sér breytingu frá efni ákvæðisins eða framkvæmd þess en mikilvægt þykir að skýrar sé tekið á þessu í lögunum en verið hefur.
    Enn fremur eru ekki lagðar til breytingar á því skilyrði að hinn tryggði hafi misst starf sitt að hluta vegna samdráttar í rekstri hlutaðeigandi fyrirtækis sem hann starfar hjá svo unnt sé að beita þessari undanþágu. Hið sama á við hafi hann misst starf sitt að öllu leyti og ráðið sig í hlutastarf hjá öðrum vinnuveitanda í lægra starfshlutfalli enda eigi viðkomandi að mati Vinnumálastofnunar ekki kost á að ráða sig til starfa í sama starfshlutfalli og hann var í áður vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Hins vegar er lögð til sérstök heimild til handa Vinnumálastofnun til að óska eftir upplýsingum og gögnum frá viðkomandi vinnuveitanda þegar stofnunin telur ástæðu vera til þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starfseminni. Sem dæmi kæmi þá þar fram nánari greining á því í hverju fækkun verkefna felst eða hvernig fyrirhugað er að mæta samdrætti á þjónustu fyrirtækis eða stofnunar sem meðal annars leiði þá til þess að minnka þarf starfshlutfall starfsfólksins. Lagt er til að gildistími bráðabirgðaákvæðis V í lögunum verði framlengdur tímabundið til 31. desember 2009.

Um 24. gr.

    Í ljósi reynslunnar er lagt til að taka skuli tillit til þess að verkefni sjálfstætt starfandi einstaklinga kunna að standa yfir fleiri mánuði en einn enda þótt þau geti talist tilfallandi sem og að greiðslur komi einungis í lok verkefnis eða með óreglulegum hætti. Þykir því eðlilegra að tekjurnar komi til frádráttar atvinnuleysisbótum fyrir alla þá mánuði sem verkefnið stendur yfir en ekki einungis atvinnuleysisbóta í þeim mánuði þegar greiðslurnar koma til. Til skýringa á þessu er dæmi um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur tekið að sér lítið verkefni sem þó þarf að inna af hendi yfir fjögurra mánaða tímabil. Greitt er fyrir verkefnið í lok þess og eru tekjur hlutaðeigandi fyrir verkefnið 600.000 kr. Þá hefur hlutaðeigandi fengið að jafnaði 150.000 kr. á mánuði og getur nýtt sér frítekjumark að 100.000 kr. í hverjum mánuði. Hann er á grunnatvinnuleysisbótum og samanlagðar bætur og tekjur eru því 299.523 kr. á mánuði. Helmingur þeirrar fjárhæðar sem fer yfir 249.523 kr. (149.523 + 100.000 kr.) kemur til frádráttar atvinnuleysisbótum. Mismunurinn nemur 50.000 kr. (299.523 - 249.523 kr.) þannig að 25.000 kr. koma til frádráttar atvinnuleysisbótum hans og á hann þá rétt á sem nemur 124.523 kr. í stað 149.523 kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði fyrir þetta fjögurra mánaða tímabil sem verkefnið stóð yfir. Hinn tryggði ber að upplýsa Vinnumálastofnun um þessi verkefni og þá einnig yfir hvaða tíma þau standa, sbr. 7. gr. frumvarps þessa.
    Vert er að ítreka að með verulegum samdrætti í rekstri er átt við að fram komi veruleg lækkun á reiknuðu endurgjaldi frá því sem var á fyrri tekjuárum, sem og að reksturinn hafi nánast stöðvast fyrir utan einstaka tilfallandi verkefni. Þannig fá skattyfirvöld og Vinnumálastofnun séð að um raunverulegt atvinnuleysi sé að ræða hjá viðkomandi og geta fylgst með þróuninni í atvinnurekstri hans. Er því lagt til að það komi ávallt í hlut Vinnumálastofnunar að meta hvort verkefni sjálfstætt starfandi einstaklinga teljist tilfallandi í skilningi ákvæðis þessa og þá einnig hvort um verulegan samdrátt sé að ræða í rekstri umsækjanda um atvinnuleysisbætur. Lagt er til að kveðið verði á um það að við matið hafi Vinnumálastofnun meðal annars hliðsjón af viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein, sem og rekstri hlutaðeigandi allt að síðustu þrjú tekjuárin áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur. Þykir það gefa góða mynd af rekstri hlutaðeigandi.
    Þá er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis VI verði framlengdur tímabundið til samræmis við gildistíma bráðabirgðaákvæðis V eða til 31. desember 2009.

Um 25. gr.
         

    Ástæða þykir að leggja til að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu hafi ekki áhrif á rétt þeirra sem þegar fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði verði frumvarp þetta að lögum, nema breytingarnar leiði til betri réttar fyrir hinn tryggða og skal hann þá óska leiðréttingar á greiðslum úr sjóðnum hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. júní 2009.

Um 26. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006,
um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

    Helstu breytingarnar með frumvarpinu á núgildandi lögum eru að í fyrsta lagi er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis núgildandi laga til að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli verði framlengdur til 31. desember 2009. Upphaflega var gert ráð fyrir að heimildin mundi gilda út apríl 2009. Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar breytingar er varða sjálfstætt starfandi einstaklinga þannig að þeir geti talist hlutfallslega tryggðir en ekki ávallt að fullu tryggðir óháð þeim fjárhæðum sem þeir greiða til skattyfirvalda, þá m.a. tryggingargjald. Einnig er lagt til að skilgreining á sjálfstætt starfandi einstaklingum verði þrengd þannig að hún eigi einungis við um þá sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum, sameignarfélögum og hlutafélögum verða launamenn innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Auk þess er lagt til að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti geymt þegar áunninn rétt til atvinnuleysistrygginga í allt að 24 mánuði þegar hefur dregist saman í rekstri þeirra. Í þriðja lagi er lagt til að fæðingarorlof teljist ekki til starfstíma launafólks á ávinnuslutímabili en það hefur áhrif á tekjutengingu atvinnuleysisbóta. Jafnframt er lagt til að sá sem tekur fæðingarorlof geti geymt áunna atvinnuleysistryggingu í allt að 24 mánuði. Í fjórða lagi er lagt til að Vinnumálastofnun fái heimildir til að afla ýmissa upplýsinga fyrir sitt eftirlit. Lögð er til sérstök heimild til handa Vinnumálastofnun til að óska eftir upplýsingum og gögnum frá viðkomandi vinnuveitanda þegar stofnunin telur ástæðu vera til þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starfseminni. Þá er lagt til að nánar verði kveðið á um skyldur atvinnuleitenda sem fá greiddar atvinnuleysisbætur til að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar sem kunna verða á högum þeirra. Á þetta m.a. við þegar atvinnuleitandi hættir virkri atvinnuleit og hefur nám eða tekur að sér tímabundið verkefni.
    Að mati fjármálaráðuneytisins bera breytingarnar í frumvarpinu með sér talsverðar líkur á auknum útgjöldum. Mikil óvissa er þó um hver stærðargráðan á þeirri aukningu gæti orðið. Reiknað er með að framlenging um átta mánuði á gildistíma bráðabirgðaákvæðis um hlutaatvinnuleysisbætur gæti aukið útgjöld ríkissjóðs. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun voru í janúar 1.367 launþegar sem fengu greiddar hlutaatvinnuleysisbætur samkvæmt bráðabirgðaheimildinni. Einnig fengu 676 sjálfstætt starfandi einstaklingar greiddar atvinnuleysisbætur vegna verulegs samdráttar í rekstri. Í nýjustu spá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að atvinnuleysi í ár verði að meðalatali um 7,8%. Framreiknað út frá þessum tölum gætu útgjöld ríkissjóðs í maí og út desember á þessu ári aukist um 1.630 m.kr. vegna framlengingar á bráðabirgðaákvæði um hlutaatvinnuleysisbætur. Sú útkoma miðast við að ákvæðið um hlutaatvinnuleysisbætur hafi ekki áhrif á ákvarðanir um uppsagnir, þ.e. að starfsmönnum sé ýmist sagt upp að hluta eða að fullu án tillits til bótaréttarins. Á hinn bóginn, ef atvinnurekendur taka mið af rétti til hlutaatvinnuleysisbóta og lækka starfshlutföll í stað þess að segja starfsfólki alveg upp þá gæti það vegið á móti útgjaldaaukningu vegna hlutaatvinnuleysisbóta og jafnvel gott betur þannig að nettósparnaður hljótist af því. Á móti er einhver hætta á misnotkun með þeim hætti að hlutaatvinnuleysisbætur verði í raun notaðar til að greiða niður launakostnað atvinnurekenda. Einnig er hætt við því að sjálfstætt starfandi einstaklingar noti hlutaatvinnuleysisbætur til að greiða niður sinn rekstur. Mjög erfitt er að hafa eftirlit með slíku, sérstaklega í ljósi þess að hlutatvinnuleysisbætur geta verið alveg niður í 10% af starfshlutfalli. Talið er að aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu hafi minni háttar áhrif á útgjöld ríkissjóðs.