Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 289. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 637  —  289. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti, Jón Guðmundsson frá ríkisskattstjóra, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Árna Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Magnús Stefánsson frá Meistarafélagi húsasmiða, Sigríði Magnúsdóttur frá Arkitektafélagi Íslands, Magnús Baldursson frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga og Félagi sjálfstætt starfandi arkitekta, Árna B. Björnsson frá félögum verkfræðinga og tæknifræðinga og Geir Þorsteinsson og Þóri Hákonarson frá Knattspyrnusambandi Íslands. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum fjármálafyrirtækja, Viðskiptaráði Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Starfsgreinasambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Neytendasamtökunum, Húseigendafélaginu, Félagi löggiltra endurskoðenda, Knattspyrnusambandi Íslands, Eyþingi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Íbúðalánasjóði og Ríkisendurskoðun. Þá barst nefndinni sameiginleg umsögn frá Arkitektafélagi Íslands, Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Félagi sjálfstætt starfandi arkitekta, Verkfræðingafélagi Íslands, Stéttarfélagi verkfræðinga og Tæknifræðingafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að hlutfall endurgreiðslu á virðisaukaskatti skv. 1. mgr. 42. gr. laganna hækki tímabundið í 100% með það að markmiði að hvetja til aukinnar starfsemi á byggingarmarkaði og draga úr atvinnuleysi. Þá er einnig lagt til að reglugerðarheimild í 6. málsl. umræddrar lagagreinar verði látin taka til verksmiðjuframleiddra húseininga og er hún rökstudd með vísan til breyttra byggingarhátta og jafnræðis í skattalegu tilliti.
    Nefndin ræddi hvort aðrar leiðir en sú sem lögð er til í frumvarpinu varðandi tímabundna hækkun á hlutfalli endurgreiðslu væru betur til þess fallnar að ná fram markmiði þess, þ.e. að þeirri tekjuskerðingu sem ríkið kann að verða fyrir vegna endurgreiðslunnar sé betur ráðstafað með öðrum hætti. Telur nefndin að sú leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé vel til þess fallin að auka atvinnu og draga úr svartri atvinnustarfsemi.
    Nefndin ræddi einnig gildistöku frumvarpsins og hvort endurgreiðsla samkvæmt frumvarpinu yrði miðuð við tímasetningu framkvæmda eða útgáfu reiknings. Kom fram sá skilningur að útgáfa reiknings væri ákvarðandi í því efni.
    Þá ræddi nefndin hvort ástæða væri til að láta hagræðið taka til fleiri sviða atvinnulífsins og möguleg áhrif þess á samkeppni. Nefndin tók í því sambandi sérstaklega til skoðunar hvort tilefni væri til að láta heimild til endurgreiðslu taka til fleiri starfsstétta en 2. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir og inna ekki þjónustu sína af hendi á vettvangi framkvæmda undir öllum kringumstæðum. Má þar nefna arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga sem að mati gesta sem nefndin ræddi við búa við sérstaklega slæma verkefnastöðu um þessar mundir.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að tímabundin hækkun á hlutfalli endurgreiðslu væri í samræmi við tillögur Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins. Margir umsagnaraðilar óskuðu eftir að láta skatthagræði frumvarpsins taka til frístundahúsnæðis í ljósi þess að víða um land stæðu frístundahús ókláruð. Enn fremur komu fram kröfur um að sama regla yrði látin gilda um mannvirki í eigu sveitarfélaga önnur en íbúðarhús, þ.m.t. íþróttamannvirki. Fulltrúi fjármálaráðuneytisins tók fram af því tilefni að erfitt væri að meta kostnaðaráhrif slíkrar breytingar og að hún kynni að valda erfiðleikum í framkvæmd.
    Endurgreiðsla virðisaukaskatts rýrir tekjur ríkissjóðs og telur Seðlabanki Íslands að ríkið þurfi í ljósi efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að skera niður útgjöld til að mæta umræddu tekjutapi. Á móti hefur verið á það bent á fundum nefndarinnar að tilgangur frumvarpsins er að fjölga störfum sem fært getur fært ríkinu auknar tekjur í formi skatta og dregið úr kostnaði þess vegna atvinnuleysistrygginga. Þá megi búast við að verði frumvarpið samþykkt muni skattskil ýmissa atvinnugreina batna.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til nokkrar breytingar. Nefndin leggur til að tímabil endurgreiðslunnar verði lengt til 1. janúar 2011 og er sú breyting m.a. lögð til með hliðsjón af efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í annan stað er lagt til að endurgreiðsla skv. 2. gr. frumvarpsins verði ekki einskorðuð við byggingu íbúðarhúsnæðis og endurbætur og viðhald á þess háttar húsnæði heldur verði hún jafnframt látin taka til frístundahúsnæðis eins og það er skilgreint í lögum nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús. Einnig er lögð til sú breyting að heimildin taki til virðisaukaskatts af þjónustu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga vegna hönnunar, verkumsjónar og eftirlits með umræddum framkvæmdum. Loks er lagt til að 2. gr. frumvarpsins verði látin gilda um annað húsnæði en íbúðarhúsnæði og frístundahús og sé það húsnæði alfarið í eigu sveitarfélaga eða, eftir atvikum, stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu þeirra. Framangreindar breytingar gera ráð fyrir að ráðherra verði veitt heimild til að setja nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslunnar í reglugerð.
    Af ástæðum sem þegar hafa verið raktar telur nefndin að erfitt sé að geta sér til um áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs en að fengnum upplýsingum frá fjármálaráðuneyti má ætla að sú breyting sem mestu veldur sé sú sem varðar sveitarfélögin.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 3. mars 2009.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Ellert B. Schram.



Gunnar Svavarsson.


Bjarni Benediktsson.


Árni Þór Sigurðsson.



Ragnheiður E. Árnadóttir.


Jón Bjarnason.


Birkir J. Jónsson.