Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 656  —  390. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 90/2008, um leikskóla, og lögum nr. 91/2008, um grunnskóla.

Frá menntamálanefnd.Breyting á lögum nr. 90/2008, um leikskóla.

1. gr.

    Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um rétt foreldris sem ekki fer með forsjá barns til upplýsinga um barn sitt samkvæmt þessum lögum fer samkvæmt fyrirmælum 52. gr. barnalaga, nr. 76/2003.

Breyting á lögum nr. 91/2008, um grunnskóla.
2. gr.

    Við 2. mgr. 18. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um rétt foreldris sem ekki fer með forsjá barns til upplýsinga um barn sitt samkvæmt þessum lögum fer samkvæmt fyrirmælum 52. gr. barnalaga, nr. 76/2003.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Tilefni þessa frumvarps eru ábendingar sem fram hafa komið um mögulegt misræmi milli ákvæða 18. og 27. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, og 9. gr. laga nr. 90/2008, um leikskóla, annars vegar og ákvæða 2. mgr. 52. gr. barnalaga, nr. 76/2003, hins vegar. Í tilvitnuðum ákvæðum laga um grunnskóla og laga um leikskóla er fjallað um aðgang foreldra að upplýsingum um börn sín, þar á meðal upplýsingum um námsmat. Foreldrar samkvæmt lögunum teljast þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga. Í tilvitnuðu ákvæði barnalaga er á hinn bóginn fjallað um rétt forsjárlausra foreldra til upplýsinga um börn sín frá m.a. leikskólum og grunnskólum. Ákvæði 52. gr. barnalaga hafa verið skýrð svo að með upplýsingum sé átt við munnlegar upplýsingar en ekki bréfleg gögn eða ljósrit af þeim. Í fyrirspurnarbréfi umboðsmanns Alþingis til menntamálaráðuneytisins 3. febrúar sl. eru framangreind ákvæði rakin og bent á að þau kunni að vera efnislega ósamþýðanleg og að eftir setningu laga um grunnskóla og laga um leikskóla kunni að ríkja ákveðin réttaróvissa í ljósi samspils þeirra ákvæða við 2. mgr. 52. gr. barnalaga hvað varði inntak og afmörkun réttar forsjárlausra foreldra til upplýsinga um skólagöngu barna sinna. Í þeim tilgangi að bregðast við framansögðu er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að um rétt forsjárlausra foreldra til upplýsinga um börn sín samkvæmt lögum um leikskóla og grunnskóla fari skv. 52. gr. barnalaga. Breytingin sem lögð er til í frumvarpi þessu er í samræmi við þann vilja menntamálanefndar sem fram kom við afgreiðslu á lögunum um leikskóla og grunnskóla sem samþykkt voru á 135. löggjafarþingi.