Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 659, 136. löggjafarþing 196. mál: loftferðir (flugvernd, gjaldtaka, EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 15 12. mars 2009.

Lög um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr. a, sem orðast svo:
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að fela viðurkenndum aðila skrásetningu loftfara af tiltekinni tegund eða flokki í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Um skilyrði skráningar, réttaráhrif skráningar og afskráningu gilda að öðru leyti ákvæði þessara laga.

2. gr.

     Á eftir 28. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 28. gr. a – 28. gr. f, sem orðast svo:
     
     a. (28. gr. a.)
     Nú vill aðili hljóta viðurkenningu til eftirlits með starfrækslu og lofthæfi loftfara af tiltekinni tegund eða flokki og skal hann þá sækja um viðurkenningu til Flugmálastjórnar Íslands.
     Veita skal viðurkenningu sé þeim skilyrðum fullnægt sem kveðið er á um í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     Viðurkenningu má taka aftur ef aðili fullnægir eigi þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfseminni eru sett eða brýtur í rekstri sínum í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglugerða. Nú verða verulegar breytingar á samþykktum félagsins, umfangi starfsemi og eðli og skal þá á ný sækja um viðurkenningu.
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að afturkalla viðurkenningu tímabundið eða takmarka viðurkenningu félagsins að hluta telji stofnunin vafa leika á að félagið geti fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru um starfrækslu þess með þeim hætti að telja megi að flugöryggi kunni að vera stefnt í hættu.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um:
  1. heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með viðurkenndum aðilum og skilyrði til framsals eftirlits;
  2. kröfur um viðurkenningu, framkvæmd og starfrækslu, þ.m.t. um félagaform, fjármögnun, fjárhagsstöðu, reikningsskil og vátryggingar, auk krafna um kennslu, þjálfun, prófanir og eftirlit;
  3. menntun og hæfni kennara og þeirra er annast prófanir og eftirlit;
  4. trúnaðarmenn og samþykki þeirra;
  5. upplýsingamiðlun og skýrslugjöf til Flugmálastjórnar Íslands.

     
     b. (28. gr. b.)
     Nú vill aðili hljóta vottun eða viðurkenningu til verklegrar og/eða bóklegrar kennslu, þjálfunar og prófunar:
  1. flugliða loftfara;
  2. öryggis- og þjónustuliða loftfara;
  3. flugvéltækna;
  4. viðhaldsvotta;
  5. flugumsjónarmanna;
  6. á sviði flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar, þ.m.t. til stjórnunar flugumferðar; og
  7. þeirra er starfa að flugvernd, eftirliti með flugvernd og framkvæmd flugverndar;
og skal aðili þá sækja um vottun eða viðurkenningu til Flugmálastjórnar Íslands.
     Veita skal vottun eða viðurkenningu sé þeim skilyrðum fullnægt sem kveðið er á um í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     Vottun eða viðurkenningu má taka aftur ef aðili fullnægir eigi þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfseminni eru sett eða ef aðili brýtur í rekstri sínum í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglugerða.
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að afturkalla vottun eða viðurkenningu tímabundið eða takmarka hana að hluta telji stofnunin vafa leika á að aðili geti fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru um starfrækslu þess með þeim hætti að telja megi að flugöryggi kunni að vera stefnt í hættu.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um:
  1. heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með vottuðum eða viðurkenndum aðilum, þar á meðal heimildir til framsals eftirlits til óháðra viðurkenndra eða vottaðra aðila;
  2. eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd eftirlits;
  3. kröfur um vottun eða viðurkenningu, þ.m.t. um fjármögnun, fjárhagsstöðu, reikningsskil og vátryggingar, auk krafna um framkvæmd kennslu, þjálfunar og prófana, afköst og þjónustustig, umráð loftfara og búnaðar;
  4. trúnaðarmenn og samþykki þeirra;
  5. búnað sem nýttur er til þjálfunar og prófunar og vottun hans;
  6. menntun og hæfni kennara og þeirra er annast prófanir; og
  7. upplýsingamiðlun og skýrslugjöf til Flugmálastjórnar Íslands.

     
     c. (28. gr. c.)
     Nú vill aðili hljóta tilnefningu og samþykki sem fluglæknir eða til reksturs fluglæknaseturs og skal hann þá sækja um slíka tilnefningu og samþykki til Flugmálastjórnar Íslands.
     Veita skal tilnefningu og samþykki sé þeim skilyrðum fullnægt sem kveðið er á um í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     Tilnefningu og samþykki má taka aftur ef aðili fullnægir eigi þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfseminni eru sett eða ef aðili brýtur í rekstri sínum í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglugerða.
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að afturkalla tilnefningu og samþykki sitt tímabundið eða takmarka það að hluta telji stofnunin vafa leika á að aðili geti fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru um starfrækslu þess með þeim hætti að telja má að flugöryggi kunni að vera stefnt í hættu.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um tilhögun og fjölda tilnefndra fluglækna og fluglæknasetra, framkvæmd heilbrigðisskoðana, starfrækslu fluglæknasetra, heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með fluglæknum og fluglæknasetrum, upplýsingagjöf, menntun á sviði fluglæknisfræði og útgáfu heilbrigðisvottorða.
     
     d. (28. gr. d.)
     Flugmálastjórn Íslands skal hafa eftirlit með því að vottaður eða viðurkenndur aðili skv. 28. gr. a, 28. gr. b og 28. gr. c uppfylli þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar og sinni þeim skyldum sem hann tekur að sér. Stofnunin getur m.a. í því skyni beitt úrræðum 84. gr.
     
     e. (28. gr. e.)
     Eigendur og umráðendur loftfara sem starfrækt eru í almannaflugi skulu uppfylla þær kröfur sem settar eru í reglugerð sem ráðherra setur um skilyrði til öruggrar starfrækslu. Í reglugerðinni má m.a. kveða nánar á um lofthæfi, undirbúning flugs og verklags í flugi, afkastagetu og starfrækslulágmörk og lágmarksbúnað, þ.m.t. flugleiðsögu.
     
     f. (28. gr. f.)
     Eigendur og umráðendur loftfara sem starfrækt eru til verkflugs, hvort heldur í einkaflugi eða í verkflugi í atvinnuskyni, skulu uppfylla þær kröfur sem settar eru í reglugerð sem ráðherra setur um örugga starfrækslu. Í reglugerðinni má m.a. kveða nánar á um lofthæfi, heimildir til tegundar verkflugs, undirbúning flugs og verklags í flugi, afkastagetu og starfrækslulágmörk og lágmarksbúnað, þ.m.t. flugleiðsögu.
     Um skilyrði til verkflugs í atvinnuskyni gilda ákvæði IX. kafla laga þessara að öðru leyti.

3. gr.

     4. mgr. 37. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um réttindi og skyldur flugrekenda, flugverja og viðurkenndra aðila sem sinna flugkennslu og þjálfun hvað varðar:
  1. hámarksvinnutíma, hámarksflugvakt og lágmarkshvíldartíma og
  2. skráningu flugvaktar, vinnu- og hvíldartíma.


4. gr.

     2. og 3. mgr. 47. gr. a laganna orðast svo:
     Óheimilt er að veita þriðja aðila aðgang að upplýsingum eða tilkynningum sem berast skv. 47. gr. Þetta á ekki við um upplýsingar sem veittar eru:
  1. erlendum ríkjum, stofnunum eða samtökum á grundvelli þjóðréttarlegra skuldbindinga ef tilgangurinn er að vinna að auknu flugöryggi;
  2. rekstraraðilum er varða starfsemi þeirra sjálfra; og
  3. hagsmunaaðilum sem eru í þeirri stöðu að geta unnið að bættu flugöryggi.

     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um gagnagrunninn, þar á meðal um:
  1. aðgang að upplýsingum úr grunninum;
  2. úrvinnslu á grundvelli gagna úr grunninum;
  3. miðlun upplýsinga til hagsmunaaðila úr grunninum;
  4. form, móttöku, skráningu, málsmeðferð og afgreiðslu beiðna um upplýsingar úr grunninum;
  5. þagnarskyldu aðila og starfsmanna á hans vegum auk afléttingar hennar;
  6. takmörkun á notkun upplýsinga úr grunninum;
  7. skyldu til skráningar grunnupplýsinga um rannsókn flugslysa og alvarlegra flugatvika sem tilkynningarskyld eru skv. 47. gr. í gagnagrunninn meðan á rannsókn stendur.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Flugmálastjórn setur nánari reglur“ í 1. málsl. kemur: Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði.
  2. Á eftir orðinu „öryggi“ í 1. og 2. málsl. kemur: og heilbrigði.


6. gr.

     57. gr. a laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Flugleiðsöguþjónusta og rekstrarstjórnun flugumferðar.
     Með flugleiðsöguþjónustu er átt við flugumferðar- og fjarskiptaþjónustu, leiðsögu- og kögunarþjónustu, veðurþjónustu fyrir flugleiðsögu og upplýsingaþjónustu flugmála. Með rekstrarstjórnun flugumferðar er átt við flugumferðarþjónustu, loftrýmisstjórnun og flæðisstjórnun flugumferðar. Rekstraraðili flugleiðsöguþjónustu er hver sá opinberi aðili, stofnun eða fyrirtæki, sem veitir flugleiðsöguþjónustu fyrir flugumferð og sinnir rekstrarstjórnun flugumferðar að hluta eða öllu leyti.
     Nú vill aðili hefja starfrækslu flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar og skal þá umráðamaður og/eða eigandi sækja um starfsleyfi til Flugmálastjórnar Íslands minnst þremur mánuðum fyrir upphaf þjónustunnar.
     Að fullnægðum þeim kröfum og stöðlum sem Flugmálastjórn metur fullnægjandi skal gefa út starfsleyfi. Í leyfi skal m.a. koma fram nafn leyfishafa og gildistími ásamt þeim takmörkunum og skilyrðum sem í leyfinu felast. Ráðherra staðfestir gjaldskrá þjónustunnar.
     Heimilt er ráðherra að tilnefna lögaðila til að sjá um afmarkaða þætti flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar. Aðeins má tilnefna þá sem hafa gilt starfsleyfi.
     Flugmálastjórn Íslands, eða aðili sem hún samþykkir, skal hafa eftirlit með því að sá sem veitir flugleiðsöguþjónustu og sinnir rekstrarstjórnun flugumferðar uppfylli gerðar kröfur og sinni þeim skyldum sem hann tekur að sér. Stofnunin getur m.a. í því skyni beitt úrræðum 84. gr.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um:
  1. tilnefningu veitanda þjónustu, þar á meðal framkvæmd tilnefningar, hámarkstímalengd tilnefningar og önnur skilyrði;
  2. heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar, þar á meðal heimildir til framsals eftirlits til óháðra viðurkenndra eða vottaðra aðila;
  3. eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd eftirlits á sviði flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar;
  4. skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis, þ.m.t. um öryggi, stjórnun, fjármögnun, fjárhagsstöðu og reikningsskil, gerð ársskýrslu auk krafna um starfrækslu, afköst og þjónustustig;
  5. framkvæmd og starfrækslu flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar;
  6. búnað og vottun hans vegna flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar;
  7. menntun og hæfni starfsmanna sem veita flugleiðsöguþjónustu og sinna rekstrarstjórnun flugumferðar;
  8. skilyrði fyrir vottun eða viðurkenningu þeirra sem sinna þjálfun á sviði flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar;
  9. upplýsingamiðlun um eftirlit með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðarsamstarfs;
  10. samvinnu á sviði flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnunar flugumferðar við erlend ríki og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. b laganna:
  1. Við greinina bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Nú er flugvöllur, sem opinn er fyrir flugumferð í atvinnuskyni, undir tilgreindum viðmiðunarmörkum er varðar fjölda farþega og magn farms og er rekstraraðila flugvallar heimilt að fengnu samþykki Flugmálastjórnar Íslands, og að þeim skilyrðum uppfylltum sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur, að takmarka fjölda þeirra aðila sem heimilt er að veita flugafgreiðslu. Heimilt er ráðherra að kveða á um eftirlit með þeim sem sinna flugafgreiðslu í reglugerð.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Rekstraraðila flugvallar er heimilt að afhenda þriðja aðila stjórn sérstakra mannvirkja á flugvelli sem notuð eru við flugafgreiðslu og getur hann skyldað þá sem sjá um flugafgreiðslu og flugvallanotendur sem sjá um eigin afgreiðslu til að nota slík mannvirki. Þetta á við um mannvirki sem eru svo flókin eða kostnaðarsöm eða hafa svo mikil umhverfisáhrif að ekki er unnt að skipta þeim niður eða hafa fleiri en eitt af þeim, t.d. stjórn farangursflokkunar, afísingar, vatnshreinsunar og eldsneytisdreifingar. Ráðherra skal kveða nánar á um skilyrði slíks framsals á stjórnun mannvirkja og skyldu til nýtingar þeirra í reglugerð.


8. gr.

     Við 57. gr. c laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð, þar á meðal um:
  1. tilnefningu flugvallar með tilliti til skipulagningar afgreiðslugetu flugvallarins;
  2. skipun samráðs- eða samræmingarstjóra flugvallar og starfsskyldur þeirra;
  3. skipun samræmingarnefndar tilnefnds flugvallar auk verkefna hennar;
  4. skyldu flugrekenda, m.a. til upplýsingagjafar og starfrækslu flugstarfsemi á ákveðnum tímum;
  5. heildarskrá afgreiðslutíma, úthlutun og breytingar á honum;
  6. kvaðir á úthlutun afgreiðslutíma vegna opinberrar þjónustu á flugleiðum;
  7. kvartanir og áfrýjunarrétt; og
  8. takmörkun á bótaábyrgð samræmingarstjóra.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
  1. 3.–6. mgr. falla brott.
  2. Greinin fær nýja fyrirsögn sem orðast svo: Flugvernd.


10. gr.

     Á eftir 70. gr. laganna koma sex nýjar greinar, 70. gr. a – 70. gr. f, sem orðast svo:
     
     a. (70. gr. a.)
     Flugmálastjórn Íslands skal hafa eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar, m.a. rekstraraðilar flugvalla og flugstöðva, flugrekendur og rekstraraðilar flugleiðsöguþjónustu, ræki skyldur sínar á sviði flugverndar í samræmi við lög, reglugerðir, reglur og samþykktir sem um starfsemina gilda og flugverndaráætlun sem stofnunin skal gera og viðhalda fyrir Ísland. Eftirlitsskyldir aðilar skulu leggja flugverndaráætlun sína fyrir stofnunina til samþykktar. Flugmálastjórn Íslands skal gæta þess að kröfum um leynd og varðveislu verndaráætlana og annarra trúnaðarupplýsinga sé fullnægt.
     
     b. (70. gr. b.)
     Rekstraraðila flugvallar, með samþykki vegna flugverndar, Flugmálastjórn Íslands eða þeim sem falin er framkvæmd flugverndar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim er heimilt að leita á mönnum, í farangri, farmi, pósti, rekstrarvörum og öðrum varningi áður en hann er færður um borð í loftfar, inn á haftasvæði flugverndar eða aðgreind flugverndarsvæði. Sá sem sætir hand- og líkamsleit getur krafist þess að vitni sé tilkvatt. Handleit og líkamsleit skal ætíð framkvæmd af einstaklingi af sama kyni. Líkamsleit skal aðeins framkvæmd af lögreglu.
     Synja skal þeim um aðgang að aðgreindu flugverndarsvæði og haftasvæði flugverndar eða um brottför og komu sem neita að undirgangast leit. Leit skal framkvæmd með eins mikilli tillitssemi og unnt er og hún má aldrei verða víðtækari en nauðsynlegt er.
     
     c. (70. gr. c.)
     Flugmálastjórn Íslands eða þeim sem hún felur eftirlit með flugvernd samkvæmt lögum þessum er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki viðkomandi einstaklings, að fela lögreglu athugun á viðkomandi í skrám lögreglu og öflun upplýsinga um bakgrunn og sakaferil sem lið í mati á því hvort óhætt sé að heimila honum aðgang að haftasvæði flugverndar og aðgengi að upplýsingum um framkvæmd og eftirlit flugverndar. Endurtaka skal athugunina með reglulegu millibili og eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.
     Rekstraraðila flugvallar, með samþykki vegna flugverndar, er heimilt að fela lögreglu bakgrunnsathugun vegna útgáfu aðgangsheimilda með sama hætti og greint er í 1. mgr.
     Lögregla skal upplýsa um niðurstöður sínar annaðhvort með jákvæðri eða neikvæðri umsögn um viðkomandi einstakling. Einstaklingi er heimilt að óska eftir rökstuðningi sé umsögn neikvæð. Ákvörðun lögreglu um niðurstöður bakgrunnsathugunar sætir kæru til samgönguráðuneytisins samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
     
     d. (70. gr. d.)
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um:
  1. heimildarveitingar og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands á sviði flugverndar, þar á meðal heimildir til framsals eftirlits til sjálfstæðra vottunaraðila;
  2. eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA með framkvæmd flugverndar hér á landi;
  3. áhættumat og vástig vegna flugverndar;
  4. hverjir teljist eftirlitsskyldir aðilar á sviði flugverndar, þ.m.t. erlendir aðilar;
  5. efni og útgáfu flugverndaráætlunar og framkvæmd hennar, þ.m.t. takmörkun á birtingu efnis að hluta eða í heild;
  6. kröfur til eftirlitsskyldra aðila, þ.m.t. kröfur er varða gerð flugverndaráætlunar eftirlitsskyldra aðila, gæðakerfis og þjálfunar- og viðbúnaðaráætlana;
  7. hvaða hluti sé óheimilt að flytja í handfarangri, lestarfarangri, pósti og farmi í almenningsflugi;
  8. framkvæmd flugverndar, þ.m.t. aðgangsstýringar flugvalla og flugstöðva, útgáfu aðgangsheimilda, leitar á mönnum, í farangri, pósti og farmi vélknúinna ökutækja, vinnuvéla og búnaðar og aðföngum til starfrækslu almenningsflugs, reksturs flugvalla og flugstöðva, kröfur til búnaðar sem nota skal vegna flugverndaraðgerða og ráðstafana til verndar loftförum og mannvirkjum á flugvelli og nánari kröfur til eftirlitsskyldra aðila sem ekki geta sætt birtingu skv. f-lið;
  9. skipulag og skilgreiningu svæða innan flugvallar;
  10. hæfniskröfur við ráðningu og þjálfun þeirra er starfa að flugvernd, framkvæmd flugverndar og eftirlits með flugvernd;
  11. kröfur um viðurkenningu umboðsaðila og þekktra sendenda;
  12. kröfur um vottun eða viðurkenningu þeirra sem sjá um þjálfun á sviði flugverndar;
  13. kröfur um útgáfu skírteinis eða vottorðs um hæfni og þjálfun þeirra sem starfa að flugvernd, hafa eftirlit með flugvernd og þeirra sem annast kennslu og þjálfun á sviði flugverndar;
  14. athuganir á bakgrunni vegna flugverndar, sem leiðir m.a. af athugun á viðkomandi í skrám lögreglu og öflun upplýsinga um sakaferil sem framkvæmd er af lögreglu að beiðni Flugmálastjórnar Íslands og viðkomandi rekstraraðila flugvallar, og almenn viðmið um slíkt mat;
  15. gagnkvæma viðurkenningu á sviði flugverndar við erlend ríki;
  16. upplýsingamiðlun um flugvernd; og
  17. samstarf og samvinnu á sviði flugverndar við erlend ríki og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir.

     Ráðherra er heimilt að birta aðeins að hluta eða öllu leyti efni reglugerðar skv. h-lið 1. mgr. þeim einstaklingum sem starfs síns vegna þurfa að hafa vitneskju um efni hennar, enda varði efni reglugerðarinnar beina flugverndarhagsmuni og öryggi og leynd leiði af þjóðréttarlegum skuldbindingum á sviði flugverndar. Miðlun upplýsinga skv. h-lið 1. mgr. skal tryggð með sannanlegum hætti.
     Flugmálastjórn Íslands setur reglur um skipan og starfsemi flugverndarráðs og flugverndarnefnda.
     Rekstraraðilum flugvalla er heimilt að setja reglur um aðgangsstýringu og afmörkun aðgreindra flugverndarsvæða og haftasvæða á flugvelli.
     
     e. (70. gr. e.)
     Þeim sem starfa að flugvernd ber þagnarskylda um þau atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfa sinna og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna eða hagsmuna í þágu flugverndar. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna, sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða framkvæmd flugverndar og fyrirhugaðar aðgerðir vegna flugverndar og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, reglum eða eðli máls.
     Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
     
     f. (70. gr. f.)
     Nú segir maður, sem falin hafa verið trúnaðargögn í samræmi við 2. mgr. 70. gr. d, frá nokkru er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða hann er bundinn trúnaði um og varðar framkvæmd flugverndar, og skal hann þá sæta fangelsi allt að einu ári.
     Hafi hann gert það til þess að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings eða noti hann slíka vitneskju í því skyni má beita fangelsi allt að 3 árum.
     Sömu refsingu skal sá sæta sem látið hefur af starfi og eftir það segir frá eða misnotar á sama hátt vitneskju sem hann hafði fengið í stöðu sinni og leynt á að fara.
     Brot á þagnarskyldu opinberra starfsmanna skv. 1. og 2. mgr. 70. gr. e er refsivert skv. 136. gr. almennra hegningarlaga.

11. gr.

     71. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Gjaldtaka.
     Rekstraraðila flugvallar er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugvallar og fyrir þeirri aðstöðu, búnaði og mannvirkjum sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýtir á flugvellinum.
     Rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar, þar sem slík þjónusta er veitt, og þeim búnaði og mannvirkjum sem starfsemin nýtir.
     Gjaldskrá skal birt með tryggum hætti þar sem m.a. er kveðið nánar á um fjárhæð gjalds, sundurliðun þess ef við á og innheimtu. Ráðherra staðfestir gjaldskrá þjónustunnar.
     Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um forsendur og útreikning kostnaðar, forsendur og útreikning gjaldtöku, gagnsæi kostnaðargrunns og gjaldtöku, leyfilegar undanþágur frá gjaldtöku, hvatakerfi, reglubundið samráð við hagsmunaaðila um gjaldtöku, fyrirkomulag við setningu gjaldskrár og málsmeðferð, fyrirkomulag við innheimtu og eftirlit með gjaldtöku.

12. gr.

     71. gr. a laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Notendanefnd.
     Rekstraraðili flugvallar eða flugvallakerfis þar sem farþegar eru fleiri en ein milljón á ári skal setja á stofn notendanefnd sem er vettvangur skoðanaskipta milli hans og notenda um málefni flugvallar. Fjöldi fulltrúa notenda og samsetning í notendanefnd skal ráðast af stærð og umsvifum flugvallar. Fundir í notendanefnd flugvallar skulu haldnir eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
     Á notendafundi skal notendum veitt tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en teknar eru mikilvægar ákvarðanir um rekstur, þjónustu, gjaldtöku eða önnur atriði sem snerta mikilvæga hagsmuni þeirra.
     Nú vill rekstraraðili flugvallar leggja fram tillögu um ákvörðun um:
  1. hækkun gjalds;
  2. breytingu gjalds;
  3. nýtt gjald; eða
  4. aðrar mikilvægar ráðstafanir sem snerta beint hagsmuni notenda;
og skal slík tillaga lögð fram með rökstuðningi a.m.k. fjórum mánuðum fyrir áætlaða gildistöku ákvörðunar. Notendum skulu veittar fullnægjandi upplýsingar með áherslu á gagnsæi svo að þeir geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra breytinga og nýmæla sem fyrirhuguð eru.
     Notendanefnd skal leitast við að ná samkomulagi um fyrirhugaðar ákvarðanir, en náist ekki samkomulag skal rekstraraðili flugvallar óbundinn af sjónarmiðum notenda flugvallar. Verði ágreiningur í notendanefnd geta notendur farið fram á frekari rökstuðning og annan fund til frekari viðræðna.
     Rekstraraðili flugvallar skal tilkynna um ákvörðun sína skv. 2. mgr. með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara fyrir gildistöku.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um notendanefndir flugvalla þar sem m.a. er kveðið á um skipun nefndarinnar, skipunartíma, hlutverk, fundarboðun og meðferð ágreiningsmála og upplýsingaskyldu til Flugmálastjórnar Íslands.

13. gr.

     71. gr. b laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Gagnsæi gjalda.
     Rekstraraðili flugvallar eða flugvallakerfis skal eigi sjaldnar en árlega leggja fram sundurliðun kostnaðar sem lagður er til grundvallar gjaldtöku. Við sundurliðunina skal a.m.k. leggja til grundvallar:
  1. þá þjónustu og innviði sem gjald er tekið fyrir;
  2. aðferðina við útreikning gjalds;
  3. heildarsamsetningu kostnaðar á flugvelli eða innan flugvallakerfis;
  4. tekjur af mismunandi gjöldum og heildarkostnað að baki gjaldtöku;
  5. fjármögnun ríkis, sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila til þeirrar þjónustu sem gjald er tekið fyrir;
  6. spá um þróun á viðkomandi flugvelli/flugvöllum varðandi gjaldtöku og flugumferð. Séu fjárfestingar í innviðum hluti af kostnaðargrunni gjalda skulu áætlanir þar um einnig sundurliðaðar;
  7. nýtingu stofninnviða og búnaðar yfir tiltekið tímabil; og
  8. áætlun um framlegð einstakra fyrirhugaðra fjárfestinga og áhrif þeirra á afkastagetu flugvallarins og gæði þjónustu.
Aðgreina skal í bókhaldi einstaka kostnaðarliði sem lagðir eru til grundvallar gjaldi.
     Flugrekendum, sem nýta aðstöðu flugvalla hér á landi, ber að upplýsa rekstraraðila flugvallar reglulega um áætlanir sínar m.a. varðandi tíðni flugs á hverri flugleið, fjölda farþega, samsetningu flugvélaflotans, fyrirhuguð verkefni á flugvelli og þarfir fyrir aðstöðu á honum. Rekstraraðili flugvallar skal meðhöndla upplýsingar, sem veittar eru samkvæmt þessari grein, sem trúnaðarupplýsingar.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði m.a. um sundurliðun gjalda, hvaða gjöld beri að sundurliða, birtingu upplýsinga um gjöld og aðferð við framsetningu.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 78. gr. laganna:
  1. Orðin „beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis“ í 3. mgr. falla brott.
  2. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð, að höfðu samráði við dómsmálaráðherra, um hæfni og þjálfun vopnaðra varða sem og fyrirkomulag við vopnaburð, verklag, samþykki þess og eftirlit.


15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 132. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Ráðherra kveður á um stjórnun leitarstarfs fram til þess að slysstaður finnst, en þá taka lögregluyfirvöld við og bera ábyrgð á vettvangsstjórn. Ráðherra getur með samningi falið félagasamtökum eða fyrirtækjum að hafa umsjón með framkvæmd leitarstarfa að hluta til eða öllu leyti. Rannsóknarnefnd flugslysa fer með yfirstjórn vettvangsrannsóknar og ber lögregluyfirvöldum að aðstoða við hana í hvívetna.
  3. Í stað orðanna „skal Flugmálastjórn“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: er.


16. gr.

     146. gr. b laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Heimild ríkisstjórnar til samningagerðar.
     Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja og alþjóðlegar og svæðisbundnar stofnanir um gagnkvæma viðurkenningu réttinda, skírteina, heimilda, starfsleyfa, vottunar og úttekta á sviði flugs, þ.m.t. á sviði flugverndar.

17. gr.

     Á eftir 146. gr. b laganna kemur ný grein, 146. gr. c, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Tölvufarskráningarkerfi.
     Tölvufarskráningarkerfi er kerfi þar sem m.a. er að finna upplýsingar flugrekenda um ferðaáætlanir, laus sæti, fargjöld og aðra tengda þjónustu, ýmist með eða án búnaðar til farskráningar eða útgáfu ferðaheimilda að því marki sem áskrifendur kerfisins fá aðgang að þessari þjónustu að hluta eða að fullu. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð m.a. um starfrækslu slíkra kerfa, aðgengi, áreiðanleika og röðun upplýsinga, skilmála, bann við mismunun, eftirlit með starfsemi tölvufarskráningarkerfa, ráðstafanir til varnar jafnri samkeppni og vernd persónuupplýsinga.

18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Heimilt er að innheimta gjöld fyrir framkvæmd flugverndar á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga þessara, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 11. gr. og 13. gr., þar til ný gjaldskrá hefur verið birt, eigi síðar en 1. júlí 2009.

Samþykkt á Alþingi 5. mars 2009.