Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 393. máls.

Þskj. 663  —  393. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 135 11. desember 2008,
um embætti sérstaks saksóknara.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað 3. málsl. 2. mgr. koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sé þess óskað skulu þessar stofnanir, svo og skilanefndir og aðrir sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum fjármálafyrirtækja, láta hinum sérstaka saksóknara í té upplýsingar um stöðu annarra mála en greinir í 1. málsl. og gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum og hinn sérstaki saksóknari telur að hafi þýðingu við rannsókn sakamáls eða ákvarðanatöku um hvort rétt sé að hefja slíka rannsókn. Sama skylda hvílir á þeim fjármálafyrirtækjum sem stofnuð voru um hluta af rekstri framangreindra fjármálafyrirtækja á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með gögnum er meðal annars átt við skýrslur, minnisblöð, bókanir og samninga. Skylt er að verða við kröfu hins sérstaka saksóknara um að láta í té upplýsingar eða gögn þótt þau séu háð þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, og er slík afhending óháð því hvort meint brot hafi verið kærð til lögreglu.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef skilanefnd, aðstoðarmaður við greiðslustöðvun, umsjónarmaður með nauðasamningi eða skiptastjóri fjármálafyrirtækis fær vitneskju í starfi sínu um atvik sem talið er að geti gefið tilefni til rökstudds gruns um að fjármálafyrirtæki eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi skal tilkynningu um slíkt beint til embættisins í samræmi við ákvæði þetta.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
    Embætti sérstaks saksóknara tók til starfa í byrjun febrúarmánaðar og þegar hefur nokkur reynsla fengist af störfum þess. Með frumvarpinu er lagt til að heimildir embættisins til þess að kalla eftir upplýsingum og gögnum verði gerðar skýrar og ótvíræðar. Er breytingunum ætlað að efla og styrkja embættið og gera því enn frekar kleift að upplýsa, rannsaka og eftir atvikum gefa út ákærur í málum sem falla undir lög nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara.
    Er í fyrsta lagi lagt til að afmarkaðar verði með skýrum hætti í lögum þær heimildir sem hinn sérstaki saksóknari hefur til öflunar upplýsinga og gagna gagnvart þeim stofnunum og aðilum sem vísað er til í ákvæðinu, þ.e. Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu, skattrannsóknarstjóra ríkisins og öðrum eftirlits- og réttarvörslustofnunum, skilanefndum og öðrum sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum fjármálafyrirtækja. Um rökstuðning er vísað til athugasemda við a-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Í öðru lagi eru lagðar til rýmri heimildir embættisins til upplýsinga- og gagnaöflunar og að þar undir falli skilanefndir gömlu bankanna og aðrir sem vinna að gjaldþrotaskiptum, greiðslustöðvun eða nauðasamningi fjármálafyrirtækja. Með ákvæðinu eru tekin af tvímæli um skyldu nýju bankanna þriggja sem stofnaðir voru um hluta af rekstri Glitnis hf., Kaupþings hf. og Landsbankans hf. til þess að afhenda hinum sérstaka saksóknara gögn. Er þetta nauðsynlegt í ljósi þess að gera má ráð fyrir því að umræddir aðilar kunni að hafa undir höndum mikilvægar upplýsingar eða gögn sem hinn sérstaki saksóknari telur að geti nýst embættinu í starfi sínu.
    Þá er í þriðja lagi lagt til að skylt sé að verða við kröfu hins sérstaka saksóknara um að láta í té upplýsingar eða gögn þótt þau séu háð þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja. Um röksemdir er vísað til athugasemda við a-lið 1. gr. frumvarpsins.
    Loks er í fjórða lagi mælt fyrir um tilkynningarskyldu til hins sérstaka saksóknara. Byggist skyldan á sambærilegu ákvæði og er í 84. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Um a-lið.


    Ástæða þykir til þess að víkka út gildissvið ákvæðisins þannig að það nái ekki einungis yfir upplýsingar um stöðu annarra mála en greinir í 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 135/2008 heldur einnig til gagna sem Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið, skattrannsóknarstjóri ríkisins, aðrar réttarvörslu- og eftirlitsstofnanir, skilanefndir og aðrir sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum fjármálafyrirtækja kunna að hafa undir höndum. Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi eru og þeirrar staðreyndar að afar mikilvægt er að brugðist verði eins skjótt og hægt er við rannsókn þessara mál er talið nauðsynlegt að afmarka með óyggjandi hætti í lögum þær heimildir sem hinn sérstaki saksóknari hefur gagnvart þeim stofnunum og aðilum sem vísað er til í ákvæðinu. Með gögnum er t.d. átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir og samninga, og gæti því fleira fallið þar undir en það sem beinlínis er talið upp í ákvæðinu.
    Þá eru lagðar til þær breytingar að skilanefndir gömlu bankanna, þ.e. Glitnis hf., Kaupþings hf. og Landsbankans hf., og aðrir þeir sem vinna að gjaldþrotaskiptum, greiðslustöðvun eða nauðasamningi fjármálafyrirtækja, skuli veita hinum sérstaka saksóknara upplýsingar um einstök mál og gögn sem þessir aðilar kunna að hafa undir höndum og saksóknarinn telur að hafi þýðingu við rannsókn sakamáls eða ákvörðunartöku um hvort rétt sé að hefja slíka rannsókn. Ástæða þykir til þess að láta ákvæðið ná einnig til skilanefndanna enda má gera ráð fyrir að þær kunni að hafa undir höndum gögn sem hinn sérstaki saksóknari telur að geti nýst embættinu í starfi sínu. Í ljósi aðstæðna þykir rétt að leggja enn fremur slíkar skyldur á þau fjármálafyrirtæki sem stofnuð hafa verið eða kunna að verða stofnuð um rekstur eða hluta af rekstri þeirra fjármálafyrirtækja þar sem Fjármálaeftirlitið hefur gripið til sérstakra ráðstafana á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
    Loks er lagt til að skylt sé að verða við kröfu hins sérstaka saksóknara um að láta í té upplýsingar eða gögn þótt þau séu háð þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja. Verður að telja að lög um embætti sérstaks saksóknara nái ekki þeim tilgangi sínum að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í tengslum við hið svokallaða bankahrun, ef reglur um þagnarskyldu standa því í vegi að hann fái aðgang að upplýsingum eða gögnum sem hann telur að geti gagnast embættinu við störf sín. Heimild til afhendingar gagna er óháð því að meint brot hafi verið kærð til lögreglu, svo sem eftir reglum laga nr. 161/2002, með síðari breytingum, og er vikið frá þeirri reglu vegna þeirra sérstöku aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði á haustmánuðum 2008 sem leiddu til setningar laga nr. 125/2008.
     Um b-lið.
    Með fyrirhugaðri breytingu er lagt til að samsvarandi tilkynningarskylda og hvílir á umsjónarmanni með nauðasamningi og skiptastjóra fjármálafyrirtækis verði lögð á skilanefndir fjármálafyrirtækja og aðstoðarmann við greiðslustöðvun og að slíkum tilkynningum um atvik sem talið er að geti gefið tilefni til rökstudds gruns um að fjármálafyrirtæki eða aðilar því tengdir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi verði beint til embættis sérstaks saksóknara. Með ákvæðinu eru tekin af öll tvímæli um tilkynningarskyldu fyrrgreindra aðila. Eins og ráð er gert fyrir í a-lið 1. gr. frumvarpsins er létt af þeim aðilum þagnarskyldu í samskiptum þeirra við embætti sérstaks saksóknara. Í 84. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., er að finna sambærilega heimild og þykir rétt að taka af öll tvímæli um hvert beina eigi tilkynningum þeirra aðila sem taldir eru upp í ákvæðinu og að fella undir slíka tilkynningarskyldu skilanefndir og aðstoðarmenn við greiðslustöðvun fjármálafyrirtækis.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 135/2008,
um embætti sérstaks saksóknara.

    Með frumvarpi þessu er verið að afmarka með skýrari hætti í lögum og rýmka þær heimildir sem sérstakur saksóknari hefur til öflunar upplýsinga og gagna vegna rannsóknar einstakra mála. Þetta á við um upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu, skattrannsóknarstjóra ríkisins og öðrum eftirlits- og réttarvörslustofnunum, skilanefndum og öðrum sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum fjármálafyrirtækja. Auk þess er lagt til að skylt sé að verða við kröfu embættisins um að láta í té upplýsingar og gögn þótt þær séu háðar þagnarskyldu samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja. Í frumvarpinu er áréttuð sú skylda sem hvílir á starfsmönnum skilanefnda fjármálafyrirtækja, aðstoðarmanna í greiðslustöðvun, umsjónarmanna við nauðasamninga eða skiptastjóra að beina tilkynningum um atvik sem talið er að geti gefið tilefni til rökstudds gruns um refsivert athæfi til embættis sérstaks saksóknara.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð.