Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 394. máls.

Þskj. 664  —  394. mál.Frumvarp til laga

um heimild til samninga um álver í Helguvík.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)1. gr.
Heimild.

    Iðnaðarráðherra er veitt heimild til að gera samning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar innan ramma þessara laga við Century Aluminum Company (eigandinn) og Norðurál Helguvík ehf. (félagið) en félagið mun reisa og reka álver á Íslandi (verkefnið).
    Samningurinn skal kveða á um þær skuldbindingar af hálfu ríkisins, eigandans og félagsins sem kunna að þykja nauðsynlegar og viðeigandi fyrir félagið og starfsemina, þar með talin framkvæmd á ákvæðum laga þessara. Í slíkum samningi skal ákveðið hversu lengi ákvæði hans skuli gilda og skulu þau eigi gilda skemur en í 20 ár frá því að framleiðsla hefst í álverinu.
    Samningur sá sem iðnaðarráðherra undirritar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkvæmt lögum þessum (fjárfestingarsamningurinn) um meginatriði verkefnisins skal birtur í B-deild Stjórnartíðinda.
    Starfsemi félagsins skal vera í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

2. gr.
Verkefnið.

    Verkefnið sem lög þessi taka til felur í sér að félagið byggir álver í Helguvík á Reykjanesi til framleiðslu á áli og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu og skyldri starfsemi eins og nánar verður kveðið á um í fjárfestingarsamningi sem gerður verður innan ramma laga þessara á milli iðnaðarráðherra, félagsins og eigandans. Álverið er hannað til framleiðslu á allt að 360.000 tonnum af áli á ári.

3. gr.
Undanþágur frá lögum.

    Félagið skal undanþegið ákvæðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sem setur það skilyrði að 4/ 5 hlutar hlutafjár hlutafélags sé eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar.
    Félagið skal undanþegið ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, eða ákvæðum síðari laga um sameiginlega skyldutryggingu húseigna, enda verði með öðrum hætti tryggilega séð fyrir brunatryggingum. Ákvæði laga nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, skulu ekki eiga við um félagið. Félagið skal viðhalda fullnægjandi viðlagatryggingu.

4. gr.
Skattlagning.

    Félagið skal greiða skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í lögum þessum:
     1.      Þrátt fyrir breytingar sem síðar kunna að verða á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal félagið greiða 15% tekjuskatt með eftirfarandi sérákvæðum:
                  a.      Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er lægra en 15% skal hið lægra tekjuskattshlutfall gilda um félagið á upphaflegum gildistíma fjárfestingarsamningsins og á framlengingartíma hans. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað að nýju skal það gilda um félagið en skal þó aldrei vera hærra en 15%.
                  b.      Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa frá skattskyldum tekjum vegna fleiri ára, sbr. þessa málsgrein, skal sama gilda um félagið. Verði árunum fækkað síðar skal það sama gilda um félagið, þó þannig að því skal ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu tíu almanaksára.
                  c.      Varanlegir rekstrarfjármunir vegna byggingar álversins skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum hlutföllum sem samið verður um. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna viðhalds eða endurbóta á álverinu, skulu flokkaðir í samræmi við 37. og 38. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fyrningu skal hagað í samræmi við 3. tölul. þessarar greinar.
     2.      Félagið skal undanþegið iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald, með síðari breytingum, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 160/2002, um útflutningsaðstoð, með síðari breytingum, sem og sköttum eða gjöldum sömu eða að verulegu leyti svipaðrar tegundar sem síðar kunna að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir iðnaðarmálagjald eða markaðsgjald.
     3.      Á því ári þegar nýjar eignir eru teknar í notkun getur félagið valið að fyrna þær í hlutfalli við notkun á árinu í stað fullrar árlegrar fyrningar skv. 34. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar að fullu.
     4.      Stimpilgjöld sem greiða bæri samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjöld, skulu vera 0,15% af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við byggingu og rekstur álversins. Öll skjöl sem lúta að endurfjármögnun, svo og hlutabréf í félaginu, skulu undanþegin stimpilgjöldum og hvers kyns sams konar eða efnislega svipuðum sköttum eða gjöldum er kunna síðar að vera lögð á til viðbótar við eða í staðinn fyrir slík gjöld.
     5.      Félagið skal undanþegið ákvæðum 1., 4. og 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
     6.      Félagið skal þrátt fyrir 35. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, greiða skipulagsgjald, sem nemur 180.000 bandaríkjadölum, vegna byggingar álvers með allt að 360.000 tonna ársframleiðslugetu. Greiðslur skulu standa í hlutfalli við framvindu byggingar álversins.
     7.      Eftir undirritun fjárfestingarsamningsins skal félagið undanþegið breytingum, sem kunna að verða á ákvæðum laga um tekjuskatt, varðandi frádrátt vaxtakostnaðar, að teknu tilliti til meginreglna OECD um viðskipti tengdra aðila og milliverðlagningu.
     8.      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Garði heimilt að semja um fyrirkomulag við álagningu fasteignaskatts, þar með talið um stofn til álagningar í stað fasteignamats.
     9.      Með samningum, sem gerðir verða innan ramma laga þessara, má ákveða að félagið skuli greiða umsamda fjárhæð til Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs í stað byggingarleyfisgjalds samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.
    Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að:
     a.      ekki skuli leggja á félagið umhverfisgjöld eða umhverfisskatta, sem tengjast losun lofttegundanna CO 2 og SO 2 eða annarri losun eða öðrum mengunarvöldum, nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þar með talin öll önnur álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
     b.      ekki skuli leggja skatta eða gjöld á raforkunotkun félagsins eða útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slík gjöld eða skattar séu jafnframt lögð með almennum hætti á öll önnur íslensk fyrirtæki, þar með talin álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti,
     c.      ekki skuli leggja á gjöld eða skatta í tengslum við raforkukaup og/eða raforkunotkun félagsins nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þar með talin öll önnur álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti.
    Almenn ákvæði íslenskra laga um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á og í gildi eru á hverjum tíma og varða skattframtal, framtalsfrest, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu, sem og aðrar uppgjörsreglur varðandi tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld sem sveitarfélög leggja á, auk andmæla og ágreinings í tengslum við þau, skulu gilda um félagið.
    Á upphaflegum gildistíma fjárfestingarsamningsins getur félagið valið að almenn ákvæði íslenskra skattalaga, eins og þau eru á hverjum tíma, gildi um það. Beiðni um slíka breytingu skal gerð með skriflegri tilkynningu sem lögð skal fram eigi síðar en 1. júní almanaksárið áður en breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni skulu ríkisstjórnin, eigandinn og félagið þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattakerfi. Ríkisstjórnin, eigandinn og félagið skulu koma sér saman um aðferðir við framkvæmd slíkrar breytingar. Eftir það skal félagið lúta almennum íslenskum skattalögum það sem eftir er af gildistíma fjárfestingarsamningsins.

5. gr.
Reikningsskilareglur.

    Með samningi, sem gerður er samkvæmt lögum þessum, má ákveða sérstakar reikningsskilareglur fyrir félagið sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og breytingum sem taldar eru viðeigandi. Í þessum reikningsskilareglum er heimilt að hafa ákvæði þar sem félaginu er heimilað að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í bandaríkjadölum, í samræmi við almennt viðurkenndar reikningsskilareglur sem gefnar eru út af Alþjóðlega reikningsskilaráðinu. Slíkt fyrirkomulag má fela í sér undanþágur frá ákvæðum laga um tekjuskatt.

6. gr.
Innflutningur.

    Innflutningur og kaup félagsins eða einhvers fyrir þess hönd hérlendis á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir álverið og tengd mannvirki, svo og til reksturs þeirra, skulu vera undanþegin tollum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, sem og sams konar skattar eða gjöld er kunna síðar að verða lögð á til viðbótar eða í staðinn fyrir framangreind gjöld. Með samningum, sem gerðir eru innan ramma laga þessara, er heimilt að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar álversins.

7. gr.
Framsal.

    Heimilt er að semja um framsal félagsins og eigandans á fjárfestingarsamningnum með tilteknum skilyrðum sem fram skulu koma í fjárfestingarsamningnum.

8. gr.
Lögsaga og lausn deilumála.

    Uppbygging, túlkun og framkvæmd samninga, sem gerðir eru innan ramma þessara laga, skal lúta lögsögu íslenskra laga. Heimilt er þó að vísa ágreiningi til gerðardóms.

9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að ríkisstjórn Íslands og iðnaðarráðherra fyrir hennar hönd verði veitt heimild til að semja við Norðurál Helguvík ehf. og eiganda þess, Century Aluminum Company, um álver í Helguvík á Reykjanesi í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er veitt heimild til að semja við Century Aluminum Company og Norðurál Helguvík ehf. um að hið síðarnefnda reisi og reki álver til framleiðslu á allt að 360.000 tonnum af áli á ári. Kveðið er á um að Norðurál Helguvík ehf. starfi samkvæmt ákvæðum íslenskra laga.
    Í öðru lagi er kveðið á um skattlagningu vegna reksturs álversins en hún verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum.
    Í þriðja lagi er kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla og stöðu gerðardóms, auk þess sem íslensk lög ráði um túlkun og skýringu fjárfestingarsamningsins.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir aðdraganda fjárfestingarsamnings við Norðurál Helguvík ehf. Einnig er að finna í frumvarpinu lýsingu á fyrirhuguðu álveri og eignarhaldi þess, frávikum frá reglum um skatta og gjöld,umhverfismálum tengdum hinu fyrirhugaða álveri og spá um áhrif þess á þjóðarhag.
    Í fylgiskjölum með frumvarpinu er að finna lýsingu á fyrirhuguðu verkefni (fskj. I), helstu efnisatriðum fyrirhugaðs fjárfestingarsamnings (fskj. II), helstu ákvæðum samnings um leyfisveitingar og gjaldtöku við sveitarfélög (fskj. III), helstu ákvæðum hafnarsamnings (fskj. IV), helstu ákvæðum lóðarsamnings (fskj. V), helstu ákvæðum raforkusamnings við Orkuveitu Reykjavíkur (fskj. VI), helstu ákvæðum raforkusamnings við HS Orku hf. (fskj. VII) og á helstu ákvæðum flutningssamnings við Landsnet (fskj. VIII). Einnig eru birt sem fylgiskjöl starfsleyfi frá Umhverfisstofnun (fskj. IX) og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum (fskj. X).

1. Aðdragandi fjárfestingarsamningsins.
    Í maímánuði árið 2005 hittu forsvarsmenn Century Aluminum Company fulltrúa frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í því skyni að kynna fyrir þeim áform sín um byggingu og rekstur álvers í Helguvík á Reykjanesi. Í framhaldinu ritaði félagið ráðuneytinu bréf þar sem staða málsins var rakin og óskað eftir samstarfi af hálfu ráðuneytisins.
    Hinn 3. nóvember 2005 undirrituðu fulltrúi Fjárfestingastofu, Norðuráls ehf. og Reykjanesbæjar aðgerðaáætlun um verkefnið (e. Joint Action Plan). Í aðgerðaáætluninni komu aðilar sér saman um framkvæmd nauðsynlegrar undirbúningsvinnu vegna byggingar álvers með allt að 250 þúsund tonna framleiðslugetu á ári sem gæti hafið starfsemi á árinu 2010 eða a.m.k. ekki síðar en 2015. Í áætluninni var sett á laggirnar samstarfsnefnd sem hafði það verkefni að hrinda undirbúningsverkefnum í framkvæmd.
    Hinn 27. apríl 2006 var undirritaður lóðarsamningur (e. The Smelter Site Agreement) milli Norðuráls ehf. og Reykjaneshafnar vegna lóðar undir álverið. Samningurinn gildir til fimmtíu ára og felur m.a. í sér ákvæði um leigugjald, notkunarheimildir og skyldur félagsins þegar samningi lýkur. Með bréfi dagsettu 11. október 2007 var tilkynnt að Norðurál Helguvík sf. hefði yfirtekið réttindi og skyldur Norðuráls ehf. samkvæmt lóðarsamningnum. Fyrsti viðauki við lóðarsamninginn var undirritaður 29. apríl 2008. Í viðaukanum var lóð undir væntanlega verksmiðju stækkuð og náði þar með inn fyrir lögsagnarmörk sveitarfélagsins Garðs. Félagið Norðurál Helguvík ehf. yfirtók réttindi og skyldur Norðuráls Helguvíkur sf. samkvæmt lóðarsamningnum frá og með 1. janúar 2009.
    Hinn 27. apríl 2006 var einnig undirritaður hafnarsamningur milli Norðuráls ehf. og Reykjaneshafnar um þjónustu hafnarinnar í tengslum við byggingu og rekstur álversins (e. Harbour Agreement). Með bréfi dagsettu 11. október 2007 var tilkynnt að Norðurál Helguvík sf. hefði yfirtekið réttindi og skyldur Norðuráls ehf. samkvæmt hafnarsamningnum. Félagið Norðurál Helguvík ehf. yfirtók réttindi og skyldur Norðuráls Helguvíkur sf. samkvæmt hafnarsamningnum frá og með 1. janúar 2009.
    Hinn 27. apríl 2006 var einnig undirritaður samningur milli Norðuráls ehf. og Reykjanesbæjar um leyfisveitingar og gjaldtöku vegna fyrirhugaðs álvers með 120.000–180.000 tonna framleiðslugetu. Í samningnum var að finna ákvæði um gatnagerðagjöld, sérreglur um mat á fasteignum og greiðslu fasteignagjalda, byggingarleyfi og byggingarleyfissgjald. Samkomulagið var fellt úr gildi við undirritun nýs samnings hinn 4. janúar 2007 milli Norðuráls ehf., Reykjanesbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Reykjaneshafnar um leyfisveitingar og gjaldtöku. Í samningnum er að finna ákvæði um skipulagsmál og gatnagerðargjöld, fasteignaskatt og byggingarleyfi. Gildistaka samningsins er háð því að áform Norðuráls ehf. um byggingu 250.000 tonna álvers í Helguvík gangi eftir en allar samningsskuldbindingar falla niður ef lóðar- og hafnarsamningar verða ekki virkir.
    Norðurál upplýsti iðnaðarráðuneytið um stöðu verkefnisins með bréfi dagsettu 17. apríl 2007. Í bréfinu er jafnframt vikið að byggðakorti fyrir Ísland sem eftirlitsstofnun EFTA hafði þá nýverið samþykkt. Byggðakortið, sem tók gildi 1. janúar 2008 og gildir til ársins 2013, afmarkar það svæði þar sem ríkisstyrkir eru heimilir samkvæmt þeim reglum sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu. Á byggðakortinu er allt suðurkjördæmi Íslands. Í bréfinu lýsti Norðurál þeirri skoðun sinni að þar með væru fyrir hendi forsendur fyrir því að ríkið gerði fjárfestingarsamning við félagið, sambærilega þeim sem gilda vegna álversins á Grundartanga og álversins á Reyðarfirði. Í framhaldinu áttu fulltrúar iðnaðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis nokkra fundi með fulltrúum Norðuráls um málið en ekki var vilji til þess af hálfu hins opinbera að ráðast í samningsgerð sambærilega fyrri samningum enda var það álit stjórnvalda að starfsskilyrði fyrirtækja á Íslandi væru almennt orðin það góð með tilliti til skattareglna að ekki væri þörf á undanþágum.
    Með bréfi dagsettu hinn 8. október 2008 gerði Norðurál iðnaðarráðuneytinu grein fyrir stöðu verkefnisins og var beiðni um fjárfestingarsamning við fyrirtækið ítrekuð. Í framhaldi þess hófust viðræður fulltrúa iðnaðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis við fyrirtækið. Í þeim viðræðum kom fram af hálfu fyrirtækisins að með hliðsjón af breyttum aðstæðum á fjármálamörkuðum væri fjárfestingarsamningur við íslenska ríkið talinn mjög mikilvægur og ein af forsendum þess að fjármögnun verkefnisins tækist. Á næstu vikum funduðu samningsaðilar um málið og lauk þeim viðræðum með samkomulagi um drög að fjárfestingarsamningi í desember 2008. Drög þessi að fjárfestingarsamningi eru í öllum aðalatriðum sambærileg þeim samningum sem gilda fyrir álverin á Grundartanga og á Reyðarfirði. Samningsdrögin lagði iðnaðarráðherra fyrir ríkisstjórn hinn 23. desember 2008. Fulltrúar iðnaðarráðuneytis og Norðuráls árituðu drögin á gamlársdag 2008. Í ársbyrjun 2009 var svo hafist handa við ritun frumvarps til heimildarlaga vegna fjárfestingarsamningsins og tilkynningar til eftirlitsstofnunar EFTA.

2. Lýsing á fyrirhuguðu álveri í Helguvík.
    Álverið mun standa á nýrri iðnaðarlóð við Berghóla í sveitarfélaginu Garði og á iðnaðarsvæðinu við Helguvík í Reykjanesbæ. Álverið mun rísa stutt frá Helguvíkurhöfn og samkvæmt samningi sem Norðurál Helguvík ehf. og Reykjanesbær hafa gert sín á milli mun Reykjaneshöfn sjá Norðuráli fyrir nauðsynlegri hafnaraðstöðu í Helguvík. Áætlað er að flutningur á byggingarefni á framkvæmdatíma muni fara um Helguvíkurhöfn, sem og rekstrarvörur og ál til útflutnings þegar álverið hefur hafið starfsemi.
    Áformað er að byggja álverið í fjórum 90.000 tonna áföngum og að ársframleiðsla þess verði allt að 360.000 tonn. Undirbúningsframkvæmdir við fyrsta áfanga álversins hófust árið 2008. Áætlanir miða að því að gangsetja 1. áfanga 2011 en áfangaskipting og byggingartími munu taka mið af orkuöflun fyrir álverið og öðrum aðstæðum. Öll tækni og tæki álversins verða ný, byggð á nýjustu tækni og af bestu fáanlegu gerð.
    Sú framleiðslutækni sem notast verður við í álverinu er svokölluð AP3X-tækni. Einkennandi fyrir þá tækni eru stór þverstæð ker sem komið er fyrir í tveimur samsíða kerskálum, ein röð í hvorum skála sem saman mynda eina kerlínu. Rafstraumur, um 360.000 amper, verður svo leiddur frá einu keri til annars. Tölvubúnaður sér um að mata hæfilegt magn af súráli og álflúoríði í kerið auk þess að stýra spennu kersins. Þessi tækni er almennt talin vera sú fremsta í heiminum bæði með tilliti til umhverfisáhrifa og rekstrarhagkvæmni.
    Áætlað er að álverið taki til starfa á seinni hluta árs 2011 og að fjöldi starfsmanna í fullu starfi verði þá um 210 talsins. Tólf til fimmtán mánuðum síðar er áætlað að framleiðslan aukist í 180.000 tonn og að starfsmenn verði um 290. Við gangsetningu þriðja áfanga er áætlaður starfsmannafjöldi 400 og þegar álverið verður fullbyggt verði þar 540 starfsmenn í fullu starfi. Nánar er fjallað um fyrirhugað álver í fylgiskjali I.

3. Eignarhald álversins í Helguvík.
    Félagið Norðurál Helguvík ehf. mun byggja og reka álverið í Helguvík. Norðurál Helguvík ehf. tók við öllum réttindum og skyldum sameignarfélagsins Norðurál Helguvík sf. sem nú hefur verið slitið. Norðurál Helguvík ehf. er að fullu í eigu Norðuráls ehf. sem er félag stofnað samkvæmt íslenskum lögum.
    Norðurál ehf. er að fullu í eigu Century Aluminum Company sem rekur, auk starfsemi sinnar á Íslandi, álver og súrálsvinnslu í Bandaríkjunum og báxítvinnslu á Jamaíka. Framleiðslugeta fyrirtækisins er tæplega 800 þúsund tonn af áli og 1,2 milljónir tonna af súráli á ári. Árið 2007 framleiddi fyrirtækið 767 þúsund tonn af áli og tekjur þess voru um 1.800 milljónir bandaríkjadala.
    Century Aluminum Company var stofnað árið 1995 af Svissneska fyrirtækinu Glencore og skráð á hlutabréfamarkað árið 1996. Árið 1999 seldi félagið alla starfsemi sína aðra en rekstur álvera til franska fyritækisins Pechiney. Árið 2004 keypti Century Aluminum Company Norðurál af Kenneth Peterson stofnanda þess. Century Aluminum Company er með starfsemi á Íslandi, í V-Virginíu, Kentucky og Louisiana í Bandaríkjunum og á Jamaíka, auk þess sem það á um helmingshlut í álveri í S-Karólínufylki í Bandaríkjunum.
    Century Aluminum Company hefur höfuðstöðvar í Monterey í Kaliforníu. Það er skráð á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum og var auk þess skráð á íslenskan hlutabréfamarkað í júní 2007 en þá varð allt að 10% hlutafjár í eigu íslenskra aðila. Forstjóri Century Aluminum Company er Logan W. Kruger.

4. Frávik frá reglum um skatta og gjöld.
    Í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, og í lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, er kveðið á um að þar tilgreind félög, sem stofnuð eru í þeim tilgangi að reisa og reka viðkomandi álver, skuli greiða skatta og önnur opinber gjöld, sem almennt eru lögð á hér á landi, eftir þeim reglum sem um þau gilda samkvæmt lögum á hverjum tíma, nema að því leyti sem á annan veg er mælt í þeim lögum. Er síðan með tæmandi hætti talið upp í lögunum hvaða skattalegu frávik gilda fyrir viðkomandi félög, með sams konar hætti og talið er upp í fjárfestingarsamningum sem gerðir voru vegna vegna álveranna.
    Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er með sams konar hætti og í framangreindum lögum og fjárfestingarsamningum gert ráð fyrir því að almennar skattareglur gildi um Norðurál Helguvík ehf. (félagið) vegna álvers í Helguvík (verkefnið), með tilteknum frávikum sem með tæmandi hætti eru tilgreind í frumvarpinu. Eru þau frávik að mestu leyti sambærileg þeim sem kveðið er á um í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003. Á þeim er þó sá munur að frávik samkvæmt frumvarpi þessu eru nokkuð minni en þau sem lögfest voru í framangreindum lögum. Þannig er t.d. ekki að finna í frumvarpi þessu, ólíkt því sem er í fyrrgreindum lögum, frávik frá greiðslum tekjuskatts á arð eða gatnagerðargjalda. Eðli máls samkvæmt er heldur ekki í frumvarpinu að finna frávik frá greiðslu eignarskatts, ólíkt því sem er í áðurgreindum lögum, þar sem hann hefur nú verið afnuminn. Nánar er vísað til umfjöllunar um 4. gr. frumvarpsins varðandi upptalningu á þeim frávikum á sköttum og gjöldum sem lögð eru til með frumvarpinu, en í stuttu máli koma fram eftirfarandi þættir:
     1.      Tryggt er að tekjuskattshlutfall verði ekki hærra en 15%.
     2.      Sérreglur varðandi fyrningu eigna.
     3.      Undanþága frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi.
     4.      Sérreglur varðandi stimpilgjöld.
     5.      Sérreglur varðandi útreikning fasteignaskatts.
     6.      Sérreglur varðandi byggingarleyfisgjald og skipulagsgjald.
     7.      Undanþága frá rafmagnsöryggisgjaldi.
     8.      Ýmis öryggisákvæði varðandi upptöku nýrra skatta.
    Öll eru frávikin afmörkuð við félagið Norðurál Helguvík ehf. Í heild eru þessi frávik sem áður segir sambærileg en þó minni en þau sem lögfest voru með lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003, í tengslum við álverksmiðjur á Grundartanga og í Reyðarfirði.
    Í samræmi við 61. gr. EES-samningsins hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verið tilkynnt um þá ríkisaðstoð (byggðaaðstoð) sem í þessu fyrirkomulag felst, með sama hætti og gert var vegna áðurgreindra laga nr. 62/1997 og nr. 12/2003. Eins og fram kemur í drögum að fjárfestingarsamningi við Norðurál Helguvík ehf. verður hann gerður með fyrirvara um samþykki ESA.

5. Umhverfismál.
5.1. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.
    Hinn 4. október 2007 sendi Skipulagsstofnun frá sér álit um mat á umhverfisáhrifum vegna álvers í Helguvík, skv. 11. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Álitið miðast við álver með ársframleiðslugetu á allt að 250 þúsund tonnum af áli. Álitið tekur einungis til áhrifa álversins á umhverfið en ekki er fjallað um áhrif þeirra virkjunarkosta sem áformað er að ráðast í vegna álversins. Í álitinu er einnig vísað til þess að óvissa gildi um flutningsleiðir raforku til álversins og að fyrirhugaður rekstur þurfi losunarheimildir skv. 7. gr. laga nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda.
    Helsta niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fyrirhugað álver í Helguvík muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag. Niðurstaðan er þó sett fram með þeim fyrirvara að umhverfisáhrif tengdra framkvæmda liggi ekki fyrir. Álit Skipulagsstofnunar er birt í heild sinni sem fylgiskjal X með frumvarpi þessu.

5.2. Starfsleyfi.
    Hinn 10. september 2008 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Norðuráli Helguvík sf. vegna reksturs álvers í Helguvík með allt að 250 þúsund tonna ársframleiðslugetu á áli. Starfsleyfið sem gildir til 31. desember 2024 er veitt í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og samkvæmt reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Umhverfisstofnun féllst á tilfærslu á framangreindu starfsleyfi til Norðuráls Helguvíkur ehf. með bréfi dagsettu 2. janúar 2009. Starfsleyfið er birt sem fylgiskjal IX með frumvarpi þessu.

5.3. Byggingarleyfi.
    Byggingarleyfi vegna framkvæmda við álverið var gefið út af Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Garði 4. júlí 2008. Byggingarleyfið tekur til byggingar fyrsta áfanga kerskála, jarðvegsframkvæmda fyrir bráðabirgðaaðstöðu og athafnasvæðis verktaka og verkkaupa, girðingar á lóðarmörkum og mótunar jarðvegsmana að Stakksbraut 1, 230 Reykjanesbæ/Stakksbraut 1, 250 Garði.

5.4. Losun gróðurhúsalofttegunda.
    Úthlutunarnefnd losunarheimilda starfar á grundvelli laga nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna er atvinnurekstri sem felur í sér staðbundna iðnaðarframleiðslu, sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega, og atvinnurekstri sem felur í sér staðbundna orkuframleiðslu með brennslu jarðefnaeldsneytis, sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega, óheimilt að starfa á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 nema hann hafi aflað sér losunarheimilda eða lagt fram áætlun um hvernig slíkra heimilda verði aflað.
    Við fyrstu úthlutun nefndarinnar, 27. september 2007, var einungis úthlutað heimildum til starfandi atvinnurekstrar. Við aðra úthlutun nefnarinnar, 30. september 2008, var Norðuráli úthlutað 539.000 losunarheimildum vegna álvers í Helguvík. Úthlutunin tekur til áfanga með ársframleiðslugetu á allt að 150 þúsund tonnum af áli.

6. Samningar vegna kaupa á raforku og flutningi á raforku til álversins í Helguvík.
    Gerðir hafa verið tveir raforkusamningar vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík annars vegar við HS Orku ehf. og hins vegar við Orkuveitu Reykjavíkur. Þá hefur Norðurál Helguvík ehf. gert samning um flutning raforku fyrir rekstur álversins við Landsnet hf. Lýsingar á öllum þessum samningum er að finna í fylgiskjölum.

7. Áhrif á þjóðarhag.
    Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins vann svokallaða stóriðjufráviksspá fyrir iðnaðarráðuneytið í ársbyrjun 2009 vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver í Helguvík og mögulegrar stækkunar álversins í Straumsvík. Niðurstöður þeirrar spár eru eftirfarandi:
    Fyrirhugaðar álversframkvæmdir við Helguvík og Straumsvík og tengdar orkuöflunarframkvæmdir er áætlað að nemi um 400 milljörðum kr. á nafnvirði á tímabilinu 2008–2015 og er þá miðað við að meðalgengi bandaríkjadals á tímabilinu verði 105 kr. Þetta er um 2,9% af áætlaðri landsframleiðslu tímabilsins. Ef gert er ráð fyrir að meðalgengi bandaríkjadals á tímabilinu verði 120 kr. gætu framkvæmdirnar numið um 450 milljörðum kr. og um 350 milljörðum kr. ef meðalgengi dalsins verður 90 kr. Krafturinn í framkvæmdunum verður mestur árin 2010–2012 en einnig verða miklar framkvæmdir árin 2013 og 2014. Ef gert er ráð fyrir að ekkert verði úr fyrirhugaðri stækkun álversins í Straumsvík má gera ráð fyrir að framkvæmdirnar gætu numið um 340–345 milljörðum kr. miðað við að meðalgengi bandaríkjadals verði 105 kr. á tímabilinu.

Stofnkostnaður orku- og stóriðjuframkvæmda á verðlagi hvers árs,
meðalgengi 105 kr./bandaríkjadalur.

2008 2009 2010 2011 2012 2013 2014 2015 Samtals
Norðurál v/Helguvíkur 9.450 6.018 26.265 41.017 35.967 32.152 28.419 15.743 195.031
HS og OR v/Helguvíkur 5.000 14.271 18.644 23.465 18.955 18.955 23.762 9.441 132.493
Straumsvík, stækkun 10.000 10.000 10.000 30.000
Landsvirkjun v/Straumsvíkur 7.500 10.000 7.500 25.000
Landsnet 5.000 5.000 5.000 2.500 17.500
Samtals 14.450 20.288 67.410 89.482 77.421 53.607 52.181 25.184 400.024
VLF 1.414.005 1.518.064 1.532.605 1.634.627 1.735.682 1.824.200 1.955.117 2.109.846 13.724.146
Hlutfall af VLF 1,0% 1,3% 4,4% 5,5% 4,5% 2,9% 2,7% 1,2% 2,9%
    Áætlað er að á tímabilinu 2009–2016 muni landsframleiðslan aukast um 750 milljarða kr. á nafnvirði komi til framkvæmdanna beggja sem er um 3,2% aukning á landsframleiðslu á föstu verðlagi. Á fyrri hluta tímabilsins er aukin landsframleiðsla að mestu tilkomin vegna aukinnar atvinnuvegafjárfestingar til stóriðju en á seinni hluta tímabilsins er aukin landsframleiðsla að mestu tilkomin vegna aukins útflutnings. Framkvæmdirnar hafa í för með sér að vaxtastigið verður hærra en ella sem gerir það að verkum að einkaneyslan verður minni, sérstaklega á seinni hluta tímabilsins, ef af framkvæmdunum verður. Hærra vaxtastig mun einnig hafa áhrif á aðra atvinnuvegafjárfestingu en til stóriðju þegar á framkvæmdatímann líður og hún mun dragast lítið eitt saman. Innflutningur vöru og þjónustu mun þar af leiðandi verða minni en ella ef af framkvæmdunum verður á seinni hluta tímabilsins vegna minni innflutnings neyslu- og fjárfestingarvara. Innflutningur mun aftur á móti aukast á fyrri hluta tímabilsins vegna aukins innflutnings fjárfestingarvara og á heildina litið aukast lítið eitt á tímabilinu. Útflutningur vöru- og þjónustu mun aftur á móti aukast jafnt og þétt á tímabilinu og er helsti drifkraftur aukinnar landsframleiðslu á tímabilinu, auk stóriðjufjárfestingarinnar. Á heildina litið auka framkvæmdirnar landsframleiðslu yfir allt tímabilið en síðan dregur lítillega úr áhrifunum í lok tímabilsins þegar framkvæmdum er lokið.
    Á skýringarmyndum 1–9 eru fyrirhugaðar framkvæmdir í Helguvík og Straumsvík ásamt tilheyrandi framkvæmdum við orkuöflun taldar með í grunnspám. Fráviksspár eru aftur á móti gerðar án þessara framkvæmda.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Afgangur á vöru- og þjónustuskiptajöfnuði af landsframleiðslu er minni en ella á fyrri hluta tímabilsins ef af framkvæmdunum verður vegna aukins innflutnings fjárfestingarvara, en síðan eykst afgangurinn á seinni hluta tímabilsins vegna stóraukins útflutnings áls, auk þess sem innflutningurinn dregst saman á seinni hluta tímabilsins. Afgangur á viðskiptajöfnuði mun sömuleiðis verða minni á fyrri hluta tímabilsins vegna aukins innflutnings ef af framkvæmdunum verður, en á seinni hluta tímabilsins mun halli á viðskiptajöfnuði breytast í afgang.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Atvinnuleysi minnkar nokkuð á tímabilinu ef af framkvæmdum verður. Minna atvinnuleysi er mest áberandi þegar framkvæmdir standa sem hæst árin 2010–2012 en síðan dregur úr áhrifunum jafnt og þétt þegar líður á tímabilið og almennt atvinnuleysi fer minnkandi. Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins á lögmáli Okuns, sem sýnir tölfræðilegt samband atvinnuleysis og hagvaxtar, má gera ráð fyrir því við skilyrði sem ríkja hér á landi að fyrir hvert stig aukins hagvaxtar dragi úr atvinnuleysi sem hlutfalli af vinnuafli um u.þ.b. 0,2 prósentustig. Þar sem um vinnuaflsfrekar aðgerðir er að ræða, auk þess sem almennt atvinnuleysi verður mikið í upphafi framkvæmda, má gera ráð fyrir að áhrifin verði lítið eitt meiri. Ef við skoðum einstök ár í spánni má sjá t.d. á mynd 2, að árið 2010 er áætlað að framkvæmdirnar muni auka hagvöxt um rúm 2 prósentustig. Á mynd 5 sést svo að sama ár mun draga úr atvinnuleysi um rúmt 0,5 prósentustig sem jafngildir því að um 850 viðbótarársverk muni skapast.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Gera má ráð fyrir að einkaneysla minnki þegar líður á framkvæmdatímann vegna hækkandi vaxta (mynd 6). Fjárfesting í atvinnuvegum eykst umtalsvert við framkvæmdirnar á árunum 2009–2015 eins og fram kemur á mynd 7. Innflutningur á vöru og þjónustu mun aukast á fyrri hluta framkvæmdanna vegna innkaupa á vélum og búnaði og uppsetningar þeirra með erlendu vinnuafli, en eftir árið 2013 þegar útflutningur á framleiðsluvörum álveranna eykst snýst dæmið við og innflutningur minnkar í samanburði við fráviksspána (mynd 8). Ef eingöngu er skoðaður útflutningur á vöru og þjónustu á föstu verðlagi sést á mynd 9 að útflutningstekjur aukast jafnt og þétt frá þeim tíma að álverin hefja eða auka framleiðslu og nær hámarki þegar fullum afköstum er náð eftir 2015.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er iðnaðarráðherra heimilað að ganga til samninga á grundvelli frumvarps þessa við Century Aluminum Company (eigandinn) og Norðurál Helguvík ehf. (félagið) um byggingu og rekstur álvers í Helguvík. Í fjárfestingarsamningi við félagið skal kveðið á um skuldbindingar ríkisins og félagsins og eigenda þess sem hin fyrirhugaða starfsemi gefur til kynna. Þar skal einnig fjallað um framkvæmd ákvæða laganna, eftir því sem nauðsynlegt er talið. Í samningnum skal kveðið á um gildistíma ákvæða hans sem ekki skal vera skemmri en 20 ár frá því að framleiðsla hefst í álverinu.
    Gert er ráð fyrir að fjárfestingarsamningurinn um verkefnið verði birtur í B-deild Stjórnartíðinda að undirritun lokinni. Þá skal félagið starfa samkvæmt íslenskum lögum og reglum með þeim frávikum sem í frumvarpi þessu greinir.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um verkefnið sem lögin fjalla um. Verkefninu er lýst í 2. kafla almennra athugasemda og í fylgiskjali I. Verkefnið er skilgreint sem bygging álvers í Helguvík á Reykjanesi til framleiðslu á allt að 360 þúsund tonnum af áli á ári og aðstöðu sem tengist slíkri framleiðslu og skyldri starfsemi.

Um 3. gr.

    Þar sem erlendur aðili er eigandi að Norðuráli ehf., sem er eigandi Norðuráls Helguvík ehf., er talið nauðsynlegt að heimila frávik frá því skilyrði laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna að 4/ 5 hlutar hlutafjár hlutafélags sé eign íslenskra ríkisborgara og að meiri hluti atkvæða á hluthafafundum sé í höndum íslenskra ríkisborgara og að allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er það á færi ráðherra að veita undanþágur frá ákvæðinu en með tilliti til stærðar verkefnisins þykir eðlilegt að fjalla um undanþáguna í frumvarpi þessu.
    Félagið verður samkvæmt frumvarpi þessu undanþegið ákvæðum laga um skyldutryggingar brunatjóns og viðlaga. Vegna stærðar verkefnisins fellur það illa að ákvæðum laga um þessar skyldutryggingar. Þess í stað skulu eignirnar vera tryggðar á þann hátt sem tíðkast í álframleiðslu.

Um 4. gr.

    Fjárfestingarsamningurinn sem vísað er til í frumvarpinu (og ráðgert er að gera á grundvelli laganna verði frumvarpið að lögum) byggist á því að íslensk skattalög gildi nema kveðið sé á um annað í fjárfestingarsamningnum og frumvarpi þessu. Í upphafi greinarinnar er sett fram sú aðalregla að félagið greiði alla almenna skatta og opinber gjöld hér á landi vegna álversins samkvæmt lögum sem gilda á hverjum tíma með þeim sérákvæðum sem í greininni eru tilgreind. Önnur ákvæði greinarinnar eru því tæmandi upptalning frávika frá aðalreglunni. Gert er ráð fyrir því að félagið verði sjálfstæður skattaðili.
    Í 1. tölul. 1. mgr. er að finna ákvæði um tekjuskatt félagsins. Félagið mun greiða 15% tekjuskatt í samræmi við almennar reglur.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir þremur frávikum frá almennum skattlagningarreglum lögaðila að því er snýr að tekjuskatti.
    Í a-lið 1. tölul. er kveðið á um að ef tekjuskattshlutfall á hlutafélög er lækkað niður fyrir það sem nú er þá gildi hin nýja almenna skattprósenta einnig fyrir félagið. Ástæða þessarar undanþágu er að samið er um starfsemi sem ekki hefur framleiðslu fyrr en árið 2011 ef allar áætlanir standast. Þykir eðlilegt að félagið njóti þeirra breytinga í sama mæli og önnur fyrirtæki fram að þeim tíma er rekstur hefst. Í ákvæðinu er einnig kveðið á um að verði síðari hækkanir á skatthlutfallinu þá skuli hærra skatthlutfall gilda fyrir félagið, þó þannig að skatthlutfallið verði aldrei hærra en 15%. Efnislega sams konar ákvæði, með því tekjuskattshlutfalli sem gilti á þeim tíma, er að finna í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003.
    Í b-lið 1. tölul. er heimild til að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu almanaksárum með þeim skilyrðum sem fram koma í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um að ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartaps fleiri ára frá skattskyldum tekjum skuli hið sama gilda um félagið. Þá er gert ráð fyrir því að ef árunum verði síðar fækkað skuli hið sama gilda um félagið, þó þannig að því sé ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa vegna síðustu tíu almanaksára. Er ákvæðið í samræmi við 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003 þar sem umrædd heimild er tíu ár.
    Í c-lið 1. tölul. er ákvæði um fyrningargrunn eigna en um skiptingu hans vegna byggingar álvers er samið fyrir fram í tilteknum hlutföllum, sem nánar er kveðið á um í viðauka við fjárfestingarsamninginn. Fyrningu skal hagað skv. 3. tölul. 1. mgr. en að öðru leyti gilda ákvæði laga um tekjuskatt.
    Í 2. tölul. 1. mgr. er félagið undanþegið iðnaðarmálagjaldi samkvæmt lögum um iðnaðarmálagjald, nr. 134/1993, og markaðsgjaldi samkvæmt lögum um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002. Þetta þykir eðlilegt þar sem um er að ræða markaðar tekjur til verkefna sem félagið hefur ekki not af. Sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003.
    Í 3. tölul. 1. mgr. er vikið að fyrningarreglum varðandi eignir félagsins. Annars vegar getur það valið að afskrifa eign í hlutfalli við notkunartíma á fyrsta ári hennar í stað þess að nota fulla ársafskrift. Í öðru lagi er félaginu heimilað að afskrifa eignir að fullu í stað þess að bókfæra hrakvirði eins og lög nr. 90/2003 kveða á um.
    Í 4. tölul. 1. mgr. er stimpilgjald af ákveðnum tegundum stimpilskyldra skjala ákveðið 0,15%. Lán sem tekin eru til endurfjármögnunar fjárfestingarlána, sem og hlutabréf í félaginu, skulu undanþegin stimpilgjaldi. Sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003.
     Í 5. tölul. 1. mgr. er félagið undanþegið tilteknum gjaldaákvæðum laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og 12/2003 en þó er hér bætt við undanþágu frá 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 136/1996. Samkvæmt því ákvæði skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur á rafföngum greiða gjald vegna yfireftirlits og eftirlits með rafföngum á markaði sem Neytendastofa lætur framkvæma. Gjaldið má vera allt að 0,15% af tollverði innfluttrar vöru. Þau rafföng sem félagið flytur inn og kunna að falla undir þetta ákvæði munu ekki fara á almennan markað og Neytendastofa mun ekki hafa eftirlit með þeim. Af þeim sökum þykir ekki óeðlilegt að félagið verði undanþegið gjaldtökunni.
    Í 6. tölul. 1. mgr. er veitt heimild til að ákveða að greiða skuli umsamda fjárhæð, 180.000 bandaríkjadali, sem skipulagsgjald samkvæmt lögum nr. 73/1997. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003.
    Í 7. tölul. 1. mgr. er kveðið á um að félagið skuli, eftir undirritun fjárfestingarsamningsins, undanþegið breytingum sem kunna að verða á ákvæðum laga um tekjuskatt varðandi frádrátt vaxtakostnaðar, að teknu tilliti til reglna OECD um viðskipti tengdra aðila og milliverðlagningu. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003.
    Í 8. tölul. 1. mgr. er kveðið á um heimild til handa Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Garði til að semja um fyrirkomulag við álagningu fasteignaskatts. Um er að ræða frávik frá 2. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, sem kveður á um að stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skuli vera fasteignamat þeirra. Heimildir til sérreglna um ákvörðun fasteignagjalda er einnig að finna í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003
    Í 9. tölul. 1. mgr. er kveðið á um heimild til fráviks frá 53. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, sem kveður á um að greiða skuli byggingarleyfisgjald í samræmi við gjaldskrá sem sveitarstjórn setur og birtir í B-deild Stjórnartíðinda. Vegna sérstöðu mannvirkjanna þykir eðlilegt að heimila frávik hvað þessa gjaldtöku varðar.
    Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að í fjárfestingarsamningi verði heimilt að kveða á um eftirtalin atriði:
     a.      Ekki skuli lögð umhverfisgjöld eða umhverfisskattar, sem tengjast losun lofttegundanna CO2 og SO2 eða annarri losun eða öðrum mengunarvöldum, á félagið nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þar með talin öll önnur álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti. Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin samningsmarkmið Íslands fyrir næsta tímabil loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna 2013–2020. Þau lúta að því að sú viðurkenning sem Ísland hlaut með Kyotó-bókuninni á fyrsta losunartímabilinu 2008–2012 haldist áfram við upphaf annars tímabils en minnki síðan ár frá ári. Ljóst má vera að stefnt er að því að hvers konar losun gróðurhúsalofttegunda minnki og að Ísland muni þurfa að bera hlutfallslega álíka byrgðar og önnur Evrópuríki. Í þessu felst að íslensk iðnfyrirtæki munu þurfa að vera undirbúin því að taka á sig samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eða afla losunarheimilda í gegnum viðurkennd viðskiptakerfi eða með öðrum hætti. Í ákvæðinu felst að íslensk stjórnvöld munu ekki leggja umhverfisgjöld eða umhverfisskatta vegna losunar gróðurhúsalofttegunda á félagið umfram það sem önnur sambærileg fyrirtæki á Íslandi kunna að þurfa að bera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
     b.      Ekki skuli leggja skatta eða gjöld á orkunotkun félagsins eða útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slíkir skattar og gjöld séu jafnframt lögð með almennum hætti á öll önnur íslensk fyrirtæki, þar með talin álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti.
     c.      Ekki skuli leggja á gjöld eða skatta í tengslum við raforkukaup og/eða raforkunotkun félagsins nema slík gjöld eða skattar séu almennt lagðir á önnur fyrirtæki á Íslandi, þar með talin öll önnur álver, og mismuni ekki félaginu að öðru leyti.
    Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003.
    Í 3. mgr. er tekið fram með ótvíræðum hætti að félagið verði háð almennum reglum íslenskra laga varðandi skattframtal, álagningu, viðurlög og málskot. Ágreiningi um túlkun samningsákvæða má þó skjóta til gerðardóms samkvæmt ákvæðum fjárfestingarsamningsins. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að á upphaflegum gildistíma fjárfestingarsamningsins sé félaginu heimilt að velja þann kost að lúta almennum íslenskum skattalögum sem í gildi eru hverju sinni. Beiðni um slíka breytingu skal lögð fram skriflega eigi síðar en 1. júní þess almanaksárs sem fer á undan því almanaksári sem breytingin á að taka gildi. Berist slík beiðni, skulu ríkisstjórnin, eigandinn og félagið þegar ganga til samninga um breytinguna yfir í hið almenna skattakerfi. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og nr. 12/2003.

Um 5. gr.

    Í greininni er ákveðið að aðilar geti samið um sérstakar reikningsskilareglur fyrir félagið sem grundvallaðar eru á íslenskum lögum með þeim skýringum og undanþágum sem taldar eru viðeigandi. Heimila má félaginu að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í bandaríkjadölum, í samræmi við reglur Alþjóðlega reikningsskilaráðsins. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og 12/2003.

Um 6. gr.

    Samkvæmt tollalögum er heimilt að fella niður tolla og vörugjöld af hráefnum og efnivörum til iðnaðarframleiðslu, svo og af vélum og tækjum til framleiðslunnar. Engin gjöld eru nú á hráefnum og efnivörum. Eins er um fjárfestingarvörur sem fluttar eru inn frá EES- ríkjum og öðrum löndum sem fríverslunarsamningar eru við. Í fyrri málslið greinarinnar er við það miðað að felldir verði niður tollar og vörugjöld af innflutningi og kaupum félagsins á byggingarefnum, vélum og tækjum og öðrum fjárfestingarvörum og varahlutum fyrir álver félagsins og tengd mannvirki, sem kunna að verða flutt inn frá öðrum löndum og bera tolla eða vörugjöld. Í síðari málslið greinarinnar er veitt heimild til að fella niður eða endurgreiða tolla og vörugjöld á vöru og þjónustu sem keypt er innan lands vegna byggingar álversins. Efnislega sams konar ákvæði er að finna í lögum nr. 62/1997 og 12/2003.

Um 7. gr.

    Í greininni kemur fram að semja megi um að félaginu og eiganda þess sé heimilt að framselja fjárfestingarsamninginn við tilteknar afmarkaðar aðstæður.

Um 8. gr.

    Við uppbyggingu, túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir verða innan ramma laga þessara skal farið að íslenskum lögum. Heimild skal þó vera til þess að vísa ágreiningi til gerðardóms.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal I.


Lýsing á fyrirhuguðu álveri í Helguvík.


    Norðurál og móðurfyrirtæki þess, Century Aluminum Company í Bandaríkjunum hafa í hyggju að reisa og reka álver á iðnaðar- og hafnarsvæði við Helguvík með allt að 360.000 tonna grunn framleiðslugetu á ári.
    Century Aluminum var stofnað árið 1995 og rekur, auk starfsemi sinnar á Íslandi, álver og súrálsvinnslu í Bandaríkjunum, og báxítvinnslu á Jamaica. Century Aluminum hefur höfuðstöðvar í Monterey í Kaliforníu og er skráð á Nasdaq hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum og á First North Iceland markaðinn í Kauphöll Íslands. Stofnað hefur verið sérstakt félag um uppbyggingu álvers í Helguvík, Norðurál Helguvík ehf.
    Markmið Norðuráls með byggingu álvers í Helguvík er að auka álframleiðslu sína á Íslandi og að styrkja markaðshlutdeild sína í viðskiptum með ál og álafurðir. Helstu rök fyrir staðsetningu þess við Helguvík eru góðar hafnaraðstæður, nálægð við öflug þjónustu-, byggingar- og þekkingarfyrirtæki, hagkvæmni í flutningi á raforku og stór vinnumarkaður.
     Gert er ráð fyrir að byggja álverið upp í fjórum 90.000 tonna áföngum og að ársframleiðsla þess verði allt að 360.000 t. Undirbúningsframkvæmdir við fyrsta áfanga álversins hófust árið 2008. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að gangsetja 1. áfanga árið 2011 en áfangaskipting og byggingartími munu taka mið af orkuöflun til álversins auk annarra aðstæðna.
    Helstu mannvirki fyrirhugaðs álvers eru kerskálar, steypuskáli, skautsmiðja, hreinsivirki, súrálssíló og aðrar hráefnageymslur. Öll tækni og tæki álversins verða ný, byggð á nýjustu tækni og af bestu fáanlegu gerð (BAT)

1     Staðsetning
    Álverið mun standa á nýrri iðnaðarlóð við Berghóla í sveitarfélaginu Garði og á iðnaðarsvæðinu við Helguvík, Reykjanesbæ. Þessi staðsetning býður upp á nálægð við góða höfn og stutt er í öflug þjónustu- byggingar- og þekkingarfyrirtæki. Um er að ræða stórt vinnumarkaðssvæði og flutningur á raforku til svæðisins er hagkvæmur.

2     Helguvíkurhöfn
    Þann 27. apríl 2006 undirrituðu Norðurál og Reykjaneshöfn, sem er í eigu Reykjanesbæjar, hafnarsamning vegna fyrirhugaðs álvers. Samningurinn kveður á um að Reykjaneshöfn sjái Norðuráli fyrir nauðsynlegri hafnaraðstöðu í Helguvík. Í því skyni er ráðgerður nýr viðlegukantur, 360 m langur, sem notaður yrði ásamt núverandi viðlegukanti, sem er 150 m langur.
    Samkvæmt hafnarsamningnum verður Norðuráli heimilt að koma fyrir og starfrækja byggingar og tækjabúnað á hafnarbakkanum og á hafnarsvæðinu til að þjónusta álverið. Um 30.000 m 2 athafna- og geymslusvæði verður útbúið á hafnarsvæðinu fyrir aðföng og framleiðsluvörur álversins auk þess sem gengið verður frá reit undir súrálssíló.
    Fyrirkomulag verður skv. mynd 1. Samkvæmt því geta allt að 60.000 brúttólesta skip lagst þar að. Einnig er gert ráð fyrir að útbúin verði viðbót við núverandi brimvarnargarð. Hér er um að ræða um 150 m langan grjótgarð með legu til austsuðausturs. Efni í hann kemur til með að koma úr dýpkun innan hafnar og frá sprengingum á landi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1. Fyrirkomulag hafnarmannvirkja vegna álvers í Helguvík


3     Flutningar
    Flutningar á byggingarefni á framkvæmdatíma og hráefni, rekstrarvörum og áli til útflutnings munu fara um Helguvíkurhöfn. Á framkvæmdatíma er gert ráð fyrir að um 200.000 tonn af byggingarefni verði flutt inn. Þegar álverið verður komið í fullan rekstur (360.000 tonn af áli framleidd á ári) er áætlað að flutningsmagn verði eftirfarandi:

Vörur Innflutningur Útflutningur
Ál til útflutnings 360.000 tonn
Súrál 690.000 tonn
Rafskaut 185.000 tonn
Rafskautaleifar 35.000 tonn
Aðrar rekstrarvörur 30.000 tonn

4     Orkuöflun
    Norðurál hefur samið við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um öflun orku fyrir álverið í Helguvík og Landsnet um flutning orkunnar. Heildar orkuþörf 360.000 tonna álvers er um 625 MW.
     Þessi fyrirtæki hafa öll hafið undirbúning framkvæmda sinna, með mati á umhverfisáhrifum, fjármögnun og hönnun framkvæmda.

5     Framleiðsluferlið
    Ál er framleitt með rafgreiningu þar sem súrál er leyst upp í raflausn sem haldið er bráðinni í þar til gerðum kerjum. Botn kersins myndar bakskaut og safnast rafgreint ál þar fyrir. Kolarafskautum er komið fyrir í bráðinni raflausninni nokkru fyrir ofan álið sem safnast fyrir. Þessi kolarafskaut mynda forskautin þar sem súrefni í súrálinu afoxast. Jafnóðum hvarfast súrefnið við kolaatóm í forskautum og koldíoxíð myndast. Með rafgreiningu er súrál klofið í frumefni sín, ál (Al) og súrefni (O), með rafstraumi. Við ferlið safnast afoxaða álið við bakskautin en súrefnið hvarfast við kolefni forskautanna og myndar koldíoxíð sem rýkur í burtu sem lofttegund. Ferlið verður samkvæmt eftirfarandi efnajöfnu:

2Al2O3 + 3C . 4Al + 3CO2


    Að jafnaði er ekki er hægt að framleiða ál beint úr bráðnu súráli vegna þess hve bræðslumarkið er hátt eða 2.053°C. Þess í stað er súrálið leyst upp í bráðnu krýolíti sem hefur bræðslumark um 850°C. Krýólít er natríum álflúoríð (Na 3AlF 6) og blanda þess með súráli er að jafnaði kölluð raflausn.

5.1     Framleiðslutækni
    Norðurál og Century Aluminum Co. hafa samið við franska tækniframleiðandann Pechiney um kaup á svokallaðri AP3X tækni fyrir álverið í Helguvík. Einkennandi fyrir þessa tækni eru stór þverstæð ker sem komið er fyrir í tveimur samsíða kerskálum, ein röð í hvorum skála sem saman mynda eina kerlínu. Rafstraumur um 360.000 amper er síðan leiddur frá einu keri til annars. Tölvubúnaður sér um að mata hæfilegt magn af súráli og álflúoríði í kerið auk þess að stýra spennu kersins. Megnið af vinnu starfsfólks í kerskálum er unnin úr þjónustukrönum þar sem starfsmaður situr í húsi sambyggðu krananum við stjórnun hans. Þar hefur starfsmaður góða yfirsýn yfir kerið þegar unnið er t.d. við skautskiptingu.
    Þessi tækni er almennt talin vera sú fremsta í heiminum í dag bæði með tilliti til umhverfisáhrifa og rekstrarhagkvæmni.
    Í hefðbundnu álveri skiptast framleiðslueiningar í:
     *      Kerskála þar sem álið er framleitt með rafgreiningu.
     *      Skautsmiðju þar sem vinnsla og viðhald rafskauta fer fram.
     *      Steypuskála þar sem álið er unnið og mótað í söluhæfa afurð.
     *      Kersmiðju þar sem ker eru fóðruð og viðhaldið.
     *      Spenni- og afriðlastöð þar sem raforka frá flutningskerfi er spennt niður frá og breytt í jafnstraum.
     *      Hreinsivirki þar sem afsogsloft frá rafgreiningarkerum er hreinsað.

5.2     Rafgreining á áli í kerskálum
    Rafgreining súráls fer fram í stálkerum, fóðruðum með einangrandi steinum og eldföstum múrsteinum. Kolefnisblokkir með járnleiðara sem standa út úr kerskelinni mynda bakskaut í botni ásamt fljótandi áli. Bráðið álið flýtur ofan á bakskautinu og á milli þess og forskautanna er bráðna raflausnin. Skýringarmynd af keri er sýnd á mynd 2. Yfirbyggingin samanstendur af skautbrú sem forskautin eru fest á og geymslutönkum fyrir súrál og álflúoríð. Tölvustýrður búnaður sér um að skammta súráli og álflúoríði eftir þörfum í kerin, sem eru raðtengd þannig að þau mynda framleiðslulínur. Heildarspenna yfir eitt ker er um 4 V og samtals 1200–1.650 V frá fyrsta keri til hins síðasta vegna raðtengingarinnar.
    Til að hindra að lofttegundir sem myndast við rafgreiningarferlið sleppi út í kerskála eru léttar álþekjur á yfirbyggingunni. Lofttegundir sem myndast í kerjunum eru sogaðar burtu með afsogskerfi og leiddar til þurrhreinsistöðva þar sem megnið af vetnisflúoríði er hreinsað frá með hreinu súráli. Þannig er flúoríð í útblæstri endurnýtt. Álflúoríð er svo notað til að bæta inn flúoríði í stað þess flúoríðs sem tapast. Með reglubundnu millibili er nauðsynlegt að opna þekjurnar til að skipta um forskaut sem eyðast upp við rafgreiningarferlið, aftöppunar á fljótandi áli og vegna viðhalds. Þegar ker eru opnuð er afsog aukið á viðkomandi kerjum til að draga úr líkum á að kergas sleppi úr kerinu og fari óhreinsað upp um rjáfur kerskálans.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 2. Skýringarmynd af keri.


5.3     Skautsmiðja
    Í skautsmiðju eru aðflutt forbökuð kolefnirafskaut fest á skautgaffla. Til að forðast ónauðsynlegan loftbruna á skautunum og til að halda hitajafnvægi í kerinu er efsti hluti skautanna hulinn með blöndu af frosinni raflausn og súráli, svonefndu þekjuefni. Forskautin brenna smám saman upp við rafgreininguna, eins og fyrr segir, þegar kolefni í forskautunum gengur í samband við súrefni úr súrálinu og rýkur burt sem CO 2. Þegar forskaut hefur brunnið upp að ákveðnum mörkum er skautgaffall með skautleif tekinn upp úr kerinu og keyrt inn í kælibyggingu þar sem skautið er látið kólna, eins og áður segir. Að kólnun lokinni eru skautgafflar með skautleifum fluttir yfir í skautsmiðju þar sem þekjuefni er hreinsað af skautleifunum, það endurunnið og sent til notkunar í kerskála að nýju. Skautleifar eru því næst losaðar frá tindum með skautbrjóti. Skautgafflar eru hreinsaðir, gert við þá ef þörf krefur og sett á þá ný skaut. Skautleifar og kolaryk sem myndast í skautsmiðju er endurunnið af skautframleiðanda.

5.4     Steypuskáli
    Í steypuskála er fljótandi áli frá kerskálum umbreytt í framleiðsluvörur. Ferlið er þannig að fljótandi áli er dælt upp úr kerunum í þar til gerðar deiglur og síðan flutt yfir í steypuskála þar sem það er steypt í hleifa eða aðra vöru að óskum viðskiptavina. Framleiðslan er síðan flutt á markað.
    Vegna hitans og tilvistar andrúmslofts myndast álgjall á yfirborði fljótandi áls. Álgjall á yfirborði áls í deiglum og biðofnum er fjarlægt, það kælt og komið til endurvinnslu.
    Í álverinu í Helguvík er gert ráð fyrir að framleiða hleifa og þegar síðari áfangar álversins eru komnir í gang verði farið í frekari úrvinnslu, s.s. framleiðslu bolta til völsunar o.fl.

5.5     Hreinsivirki
    Afsogsloft frá kerum er leitt til hreinsivirkis. Þar er loftið leitt í gegnum hvarfahólf þar sem súrál bindur vetnisflúoríð úr afsogsloftinu og síðan eru pokasíur notaðar til að fjarlægja rykagnir. Við ferlið er um 99,5% af heildarflúoríði fjarlægt úr afsogsloftinu. Súrál, sem hefur bundist flúoríði úr afsogslofti er kallað hlaðið súrál og er það leitt aftur í kerin. Þannig er flúoríð sem annars tapaðist úr ferlinu endurnýtt til að viðhalda krýólíti raflausnarinnar. Hreinsað afsogsloft er leitt um reykháf út í andrúmsloftið. Auk þess að hreinsa megnið af vetnisflúoríðinu og ryki úr afsogslofti, fer megnið af PAH efnum aftur inn í kerin í þessu ferli.
    Í mati á umhverfisáhrifum var skoðað hvort notkun vothreinsunar til viðbótar væri nauðsynleg en niðurstaðan var sú að ekki verður beitt vothreinsun í Helguvík. Um þetta segir í áliti Skipulagsstofnunar um Mat á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík: „Skipulagsstofnun telur að með þeim samanburði sem framkvæmdaraðili hefur gert á umhverfisáhrifum álvers með þurrhreinsibúnaði og þurrhreinsibúnaði að viðbættri vothreinsun fáist skýrari mynd af hugsanlegum umhverfisáhrifum álvers í Helguvík. Skipulagsstofnun telur að umræddur samanburður styðji þá niðurstöðu framkvæmdaraðila að notast eingöngu við þurrhreinsun og telur hana ásættanlega.“

6     Aðföng
    Súrál er meginhráefnið við vinnslu áls. Það er unnið úr báxíti með svokallaðri Bayer aðferð og flutt sjóleiðina til Íslands. Þar er því skipað upp með sogkrana og flutt frá hafnarsvæði í súrálsgeyma í lokuðu flutningskerfi.
    Forskaut, sem notuð eru við rafgreininguna, eru forbökuð kolefnisskaut. Hráefnið í þeim er olíukoks (65–70%) sem fellur til sem aukaafurð við olíuhreinsun, steinkolabik (15%) sem notað er sem bindiefni er tengir koksagnirnar saman og skautleifar (15–20%). Steinkolabikið er unnið úr steinkolum og fellur til sem aukaafurð við koksframleiðslu fyrir stáliðnaðinn. Skautleifarnar koma frá álframleiðendum. Koksið og skautleifarnar eru möluð, hituð og hnoðuð saman ásamt heitu biki.
    Forskautin er aðaluppspretta koldíoxíðs (CO 2) og brennisteinsdíoxíðs (SO 2) í útblæstri álvera. Sett eru ákveðin mörk af yfirvöldum á magn brennisteinsdíoxíðs í útblæstri. Þess vegna er leitast við að halda magni brennisteins í skautunum undir ákveðnum mörkum. Við álframleiðsluna eru notuð ýmis íblöndunarefni. Í kerunum er, auk súráls, bráðið krýólít (Na 3AlF 6). Krýólítið er í dag myndað með því að hvarfa saman natríum karbónat og álflúoríð. Þetta er þó nær eingöngu gert þegar mörg ker eru gangsett. Kerin framleiða í nokkru magni raflausn vegna hvarfs natríums úr súrálinu við óbundið flúoríð í raflausninni, sem endurheimt er frá útblásturshreinsuninni.
    Ofnar í steypuskála verða hitaðir með rafmagni en almennt eru steypuskálar álvera utan Íslands annað hvort kynntir með olíu eða gasi. Hér á Íslandi hefur verið unnið markvisst að því að nota rafmagn til hitunar í stað olíu eða gass.
    Hráefni, afurðir og úrgangsefni eru geymd í sérhönnuðum geymslum á iðnaðarlóð.
    Í töflu 1 má sjá áætlaðar tölur yfir megin hráefnis- og orkuþörf álvers með 250.000 tonna ársframleiðslu.

Tafla 1. Áætluð hráefnis- og orkunotkun álvers með 250.000 t ársframleiðslu.

Hráefni Eining Magn
Súrál Tonn á ári 690.000
Álflúoríð " 5.800
Rafskaut " 190.000
Gas Tonn á ári 650
Neysluvatn l/s 1
Iðnaðarvatn l/s 12
Orka GWh á ári 5.300

    Á mynd 3 má sjá skýringarmynd af framleiðsluferli álvers, þar sem sýndar eru uppsprettur útblásturs, frárennslis og annars úrgangs.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 3 Skýringarmynd af framleiðsluferli álvers.

7     Umhverfismál
    Öll tækni og tæki álversins verða ný, byggð á nýjustu tækni og af bestu fáanlegu gerð (BAT). Hreinsun á útblæstri fer fram í þurrhreinsivirki eins og lýst hefur verið hér að framan. Gert er ráð fyrir að farga kerbrotum í flæðigryfju, en góð reynsla er af slíkri förgun hér á landi.
    Mat á umhverfisáhrifum fyrir 250.000 tonna álver í Helguvík hefur þegar farið fram og skilaði Skipulagsstofnun jákvæðu áliti 4. október 2007. Í helstu niðurstöðum Skipulagsstofnunar segir meðal annars:

        „Skipulagsstofnun telur að áhrif álverksmiðju í Helguvík á vinnumarkað komi að miklu leyti til með að ráðast af stöðu atvinnumála á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild bæði á byggingartíma og þegar rekstur hefst.
             Skipulagsstofnun telur að sú ráðstöfun að farga kerbrotum í flæðigryfju í Selvík sé ásættanleg lausn.
             Skipulagsstofnun telur þá niðurstöðu framkvæmdaraðila að notast eingöngu við þurrhreinsun ásættanlega.
             Skipulagsstofnun telur að fyrirhugað álver Norðuráls Helguvík sf., með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.“

    Í september 2008 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir 250.000 tonna álver í Helguvík og úthlutunarnefnd losunarheimilda úthlutaði álverinu losunarheimildum fyrir tímabilið 2008 til 2012. Í starfsleyfinu er þynningarsvæði afmarkað þar sem leyfilegt er að loftmengun fari yfir almennar loftgæðakröfur.
    Þar sem nú er áformað að reisa álver með 360.000 tonna grunn framleiðslugetu þarf að uppfæra mat á umhverfisáhrifum með tilliti til þess. Norðurál hefur gert frummat á helstu umhverfisþáttum og samkvæmt því er ekki þörf á breytingum á skipulagi eða þynningarsvæði álversins þrátt fyrir aukna framleiðslu.

8     Starfsmannafjöldi
    Áætlað er að álverið taki til starfa seinni hluta árs 2011 og að starfsmannafjöldi verði þá um 210 starfsmenn í fullu starfi. Tólf til fimmtán mánuðum síðar er áætlað að framleiðslan aukist í 180 þúsund tonn og að starfsmenn verði um 290. Við gangsetningu þriðja áfanga er áætlaður starfsmannafjöldi 400 og þegar álverkið verður fullbyggt verða um 540 starfsmenn í fullu starfi. Að auki er Norðurál að meta valkosti til aukinnar fullvinnslu í steypuskála í Helguvík sem mundi auka framleiðsluverðmæti og starfsmannafjölda nokkuð. Að teknu tilliti til þessa má áætla að heildar starfsmannafjöldi verði 600–700 manns.
    Fyrir liggur eftirfarandi áætlun um menntunarkröfur starfsmanna:

              Háskólamenntun, tæknimenntun eða sambærilegt 15 %
              Iðnmenntun, stúdentspróf eða sambærilegt 30 %
              Ófaglærðir en sérþjálfaðir framleiðslustarfsmenn 55 %

    Í megin starfsstöðvum framleiðslunnar verður unnin vaktavinna, 8 tíma eða 12 tíma vaktir. Á ákveðnum svæðum er gert ráð fyrir að starfsmenn geti að stýrt sínum vöktum sjálfir. Tæpur helmingur starfa verða unnin í dagvinnu. Yfirmenn og leiðtogar verða ráðnir snemma á undirbúningstímanum og hafa þannig tækifæri á að taka þátt í uppsetningu og innleiðingu búnaðar. Framleiðslustarfsmenn verða ráðnir 3–8 mánuðum áður en rekstur hefst. Stefnt er að því að hlutfall kynja og aldursdreifing starfsmanna verði sem jöfnust.

9     Áætlaðar framkvæmdir
    Áformað er að reisa álverið í fjórum áföngum sem hver hefur um 90.000 tonna framleiðslugetu á ári. Samið hefur verið við Íslenska Aðalverktaka um byggingu kerskála og hófust framkvæmdir í júní 2007 og hafa undirstöður vegna fyrsta áfanga þegar verið steyptar. Unnið er áfram að byggingu kerskálans en eftir fall íslensku bankanna í október 2008 var hægt á framkvæmdum á meðan unnið er að frágangi lánsfjármögnunar. Samið hafði verið við Landsbankann og Kaupþing auk eins erlends banka um lánsfjármögnun vegna verkefnisins en sá samningur komst aldrei til framkvæmda. Eiginfjármögnun verkefnisins lauk árið 2007 og hafa allar framkvæmdir hingað til verið fjármagnaðar af eigin fé Norðuráls Helguvíkur.
    Auk þess að vinna að lánsfjármögnun hefur verið unnið að endurskoðun verkefnisins til lækkunar kostnaðar, enda hefur niðursveifla í efnahagslífi heimsins minnkað mjög eftirspurn eftir hráefni og tækjabúnaði og því líklegt að lækka megi kostnað. Að auki er reynt að flytja öll möguleg störf vegna hönnunar, smíði, samsetningar og annars til Íslands. Með þessu hefur áætluðum ársverkum við byggingu álversins fjölgað verulega.
    Áætlað er að ársverk við bygginu álversins verði um 4000 og að á verktímanum, frá 2010–2015 verði 800–1200 manns að störfum við byggingu álversins. Fjöldi starfa nær hámarki á árinu 2011 og verða þá 1200–1500 manns við störf þegar mest er. Ætla má að fjöldi starfa við tengd orkuverkefni sé svipaður eða aðeins meiri en við byggingu álversins. Því er áætlað að á árinu 2011 verði allt að 2500–3000 manns við störf í verkefnum tengdum byggingu álvers í Helguvík. Áformað er að innlent vinnuafl verði mikill meirihluti starfsmanna við bygginguna eða allt að 90%.
    Enn fremur er áformað að hönnun og stjórnun framkvæmda verði í höndum innlendra verkfræðifyrirtækja. Samningum við erlend verkfræðifyrirtæki, sem unnu að verkefninu í upphafi þess hefur verið sagt upp, og unnið er að samningum við íslensk fyrirtæki. Það mun verða í fyrsta skipti sem íslenskar verkfræðistofur taka að sér utanumhald um svo stórt verkefni. Áætlað er að vinnumagn við þennan þátt verði um 600–700 mannár.
    Áætlaður kostnaður við byggingu álversins er um 1,8 milljarðar bandaríkjadala.
    Áformað er að framleiðsla áls hefjist síðari hluta árs 2011. Verkáætlun fyrir byggingu álversins er sýnd á mynd 4.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fyrirkomulag mannvirkja er áformað eins og sést á mynd 5. Súrálstankar og losunarbúnaður súráls eru á athafnasvæði við Helguvíkurhöfn. Súrál verður flutt með lokuðu flutningskerfi frá höfninni upp á álverslóðina þar sem öll meginstarfsemi álversins fer fram.
    Álverslóðin er um 120 hektarar að stærð og leigir Norðurál hana af Reykjaneshöfn. Breytingum á aðal- og deiliskipulagi Reykjanesbæjar og sveitarfélagsins Garðs er lokið.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 5. Fyrirkomulag bygginga

Fylgiskjal II.


Lýsing á meginatriðum í drögum að fjárfestingarsamningi milli
ríkisstjórnar Íslands, Century Aluminum og Norðuráls Helguvíkur ehf.
(drög dagsett 31. desember 2008).


1. Inngangur
    Í fjárfestingarsamningi ríkisstjórnar Íslands, Century Aluminum Company (hér eftir nefnt „Century“) og Norðuráls Helguvíkur ehf. er kveðið á um grundvöll verkefnisins, breytingar á eignaraðild, rekstur, tryggingar, skatta og gjöld til ríkis, ábyrgðir, undanþágur frá lögum og lagaákvæðum og fleira. Hér eftir fer stutt lýsing á einstökum greinum fjárfestingarsamningsins til útskýringa á efni hans, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn á efni hans.

2. Lýsing á einstökum ákvæðum fjárfestingarsamningsins.

Inngangur.
    Í inngangi samningsins er fjallað um aðdraganda samningsins, aðila hans og undirbúning verkefnisins.

Grein 1.
    Í 1. gr. samningsins eru skýrð ýmis hugtök, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna umfjöllun um hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.

Grein 2.
    Í 2. gr. er fjallað um uppbyggingu verkefnisins, markmið og undanþágur frá lögum. Í greininni kemur fram að Century hafi stofnað Norðurál ehf. hér á landi í samræmi við íslensk lög og sé eini hluthafi þess. Norðurál Helguvík ehf. (hér eftir nefnt „félagið“) hafi svo verið stofnað hér á landi af Norðuráli ehf. um rekstur og eignarhald álversins.
    Í greininni er enn fremur kveðið á um tilgang félagsins en það er framleiðsla á áli auk annarra tengdra verkefna.
    Félagið er undanþegið ákvæðum 4 tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Félaginu er einnig veitt undanþága frá ákvæðum laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, og lögum nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, en það skilyrði jafnframt sett að félagið sjái um að eignirnar séu tryggðar á þann hátt sem teljist venjulegur í álframleiðslu.
    Í greininni er þá kveðið á um að ríkisstjórnin ábyrgist útgáfu tilskilinna leyfa og undanþága.
    Loks er í greininni mælt fyrir um að félagið hafi heimild til framleiðslu á álafurðum eftir frumframleiðslu þess sem og hverri annarri starfsemi, ótengdri framleiðslu áls, sem heimil er á Íslandi. Slík ótengd starfsemi skal þó, sé ekki um annað samið við ríkisstjórn Íslands, fara fram með sérstökum lögaðila, stofnuðum undir íslenskum lögum og fellur undir íslenska skattalöggjöf.

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um framsal hluta í félaginu. Þar er kveðið á um að þar til álverið hefur framleiðslu geti yfirfærsla hluta Century í félaginu ekki átt sér stað nema með samþykki ríkisstjórnar Íslands. Ekki skal synja eða fresta slíku samþykki með ósanngjörnum hætti þegar um er að ræða (a) framsal til samstarfsaðila Century sem hefur aðsetur í OECD-landi eða (b) ef hlutabréf hafa verið sett að veði til tryggingar láni sem Century, dótturfélög þess eða/og félagið hefur tekið til fjármögnunar á verkefninu.
    Í greininni er einnig kveðið á um að framselja megi minni hluta hlutabréfa ef framsalshafi hefur aðsetur í OECD-ríki.
    Í greininni kemur loks fram að ef ekki er á annan hátt um samið milli aðila geti Century, eftir bygging álversins er lokið, frjálst selt hluti sína í félaginu til annars félags sem hefur aðsetur í öðru OECD-ríki. Einnig er kveðið á um að félag, sem eignast hluti í félaginu með þeim hætti sem nánar er um rætt í greinum 3.1. og 3.2. skuli talið aðili samningsins og skuli staðfesta það með því að afhenda ríkisstjórninni tilkynningu þar um.

Grein 4.
    Í 4. gr. samningsins er fjallað um verkframkvæmdir og leyfisveitingar vegna þeirra. Í greininni er kveðið á um að félagið skuli hefja framkvæmdir í samræmi við orkusamninga, lóðaleigusamning og hafnarsamning með það að markmiði að vinnsla geti hafist á árinu 2011. Í greininni er kveðið á um útgáfu iðnaðarleyfis. Þá er kveðið á um aðrar skyldur aðila til að tryggja framgang verkefnisins.

Grein 5.
    Í 5. gr. samningsins er fjallað um umhverfismál. Í henni kemur annars vegar fram að álverið og starfsemi félagsins við höfnina skuli rekin í samræmi við starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út til félagsins.
    Hins vegar segir að ríkisstjórnin skuli ekki leggja neina umhverfisskatta eða -gjöld tengd losun CO 2 og SO 2 eða annarrar losunar á félagið nema slík gjöld eða skattar hafi almennt verið lagðir á önnur iðnfyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. álver og gangi ekki með óréttlátum hætti á hlut félagsins.
    Loks kemur fram að ríkisstjórnin muni upplýsa félagið um þróun varðandi þennan málaflokk, leitast við að tryggja alþjóðleg skilyrði sem gera sjálfbæran fjárhagslegan vöxt kleifan og tryggja að samkeppnishæfi Íslands sé sambærilegt að þessu leyti við skilyrði annarra þjóða innan og utan Evrópu.

Grein 6.
    Í 6. gr. er fjallað um meginreglur skattlagningar. Þar segir að félagið skuli greiða þá skatta og gjöld sem lögð eru á samkvæmt íslenskum lögum á hverjum tíma, nema öðruvísi sé um samið í samningnum.

Grein 7.
    Í 7. gr. er fjallað um skatta sem ríkið leggur á. Í greininni kemur fram að þrátt fyrir hugsanlegar breytingar á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt með síðari breytingum, skuli félagið greiða 15% tekjuskatt samkvæmt ákveðnum sérákvæðum sem talin eru upp í samningnum. Helstu atriði sérákvæðanna eru:
     a.      Ef tekjuskattshlutfall á félög með takmarkaðri ábyrgð verður lægra en 15% skal það hlutfall gilda um félagið á gildistíma samningsins (20 ár frá fyrsta framleiðsludegi) og sérhverja framlengingu hans. Verði tekjuskattshlutfallið hækkað á framangreindu tímabili skal það gilda um félagið en þó aldrei hærra en 15%.
     b.      Fastafjármunir vegna byggingar álversins skulu teljast byggingar, vélar og tæki í ákveðnum umsömdum hlutföllum líkt og lýst er í Viðauka A við samninginn. Fastafjármunir, sem að öðru leyti er aflað vegna viðhalds eða endurbóta á álverinu, skulu flokkaðir í samræmi við 37. og 38. gr. laga nr. 90/2003. Fyrning skal ákveðin líkt og mælt er fyrir um í grein 7.3. samningsins.
     c.      Félaginu skal heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu almanaksárum eins og nánar er kveðið á um í 8. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2003. Ef íslenskum fyrirtækjum verður heimilað að draga eftirstöðvar rekstrartapa fleiri ára frá skattskyldum tekjum þá skal það sama gilda um félagið. Verði árunum fækkað síðar á gildistíma samningsins og sérhverri framlengingu hans skal það sama gilda um félagið, þó þannig að því skal ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu tíu almanaksára.
    Í greininni kemur einnig fram að félagið skuli vera undanþegið iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi.
    Einnig er félaginu heimiluð sérregla varðandi fyrningar nýrra eigna og þá skal félaginu heimilt að fyrna eignir sínar þannig að ekki standi eftir niðurlagsverð.
    Þá er kveðið á um að félagið megi skrá viðskipti sín í Bandaríkjadölum. Einnig er kveðið á um að til útreiknings á skattskyldum hagnaði félagsins skuli umbreyta fjárhæðum á fjárhagsyfirlitum úr bandaríkjadölum í íslenskar krónur í samræmi við tilteknar reglur.
    Í greininni er svo mælt fyrir um að skatta, tolla eða önnur gjöld megi ekki leggja á orkunotkun félagsins eða losun lofttegunda eða losun úrgangs nema slík gjöld eða skattar hafi almennt verið lögð á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. álver og gangi ekki með óréttlátum hætti á hlut félagsins
    Þá er loks kveðið á um að heimildir til frádráttar vaxtagjalda svo sem þær eru við undirritun samningsins, skuli haldast óbreyttar á gildistíma hans að teknu tilliti til leiðbeiningarreglna OECD um meginreglur viðskiptaskilmála og verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila..

Grein 8.
    Í 8. gr. samningsins er fjallað um gjöld á innflutning. Þar segir að innflutningur eða kaup félagsins innanlands á hráefni, byggingarefnum, vélum, búnaði, öðrum fastafjármunum og varahlutum í verksmiðjuna og á tilheyrandi mannvirkjum og rekstri þeirra sé undanþeginn inn- og útflutningsgjöldum og vörugjöldum samkvæmt lögum nr. 97/1987 um vörugjald með áorðnum breytingum.
    Í greininni kemur einnig fram að félaginu verði veittur frestur til greiðslu á virðisaukaskatti (tollkrít), samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, fram að gjalddaga fyrir endurgreiðslu, vegna viðkomandi uppgjörstímabils. Með sama hætti skal veittur greiðslufrestur á virðisaukaskatti vegna kaupa á rafmagni.

Grein 9.
    Í 9. gr. samningsins er fjallað um aðra skatta og gjöld. Í greininni er kveðið á um að stimpilgjöld af kaup- eða leigusamningum sem útgefnir eru eða gerðir af hálfu félagsins og af fjárfestingarlánum sem félagið kann að taka í sambandi við byggingu og rekstur álverksmiðjunnar skuli vera 0,15%. Einnig er kveðið á um að öll skjöl í sambandi við endurfjármögnun félagsins sem og hlutabréf í félaginu skuli undanþegin stimpilgjöldum.
    Þá er kveðið á um að félagið skuli greiða umsamda fjárhæð vegna skipulagsgjalds samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 fyrir álver með framleiðslugetu u.þ.b. 360.000 tonn á ári. Greiðsla þess skal vera í hlutfalli við framvindu uppbyggingar álversins.
    Einnig er kveðið á um að félagið skuli ekki greiða sérstaka rafmagnsskatta og gjöld vegna kaupa eða notkunar félagsins nema slík gjöld eða skattar hafi almennt verið lögð á önnur fyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. álver og gangi ekki með óréttlátum hætti á hlut félagsins.
    Loks er félagið undanþegið ákvæðum 1., 4. og 5. tölul. 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Grein 10.
    Í 10. gr. samningsins er fjallað um framlag til íslensks vísinda- og tæknisamfélags. Samkvæmt greininni munu félagið og ríkisstjórnin stuðla að menntun óþjálfaðs starfsfólks og iðnaðarmanna, og leggja áherslu á að skapa sérstaka alþjóðlega samkeppnishæfni með íslensku vísinda og tæknisamfélagi.
    Félagið viðurkennir samfélagslega ábyrgð sína og skuldbindur sig til þess að starfa með ríkisstjórn, menntastofnunum, fyrirtækjum eða/og einstaklingum vegna rannsókna og þróunar á sviðum, s.s. (1) rafgreiningu (2) framleiðslu orku með vatnsafli og jarðvarma (3) sjálfbæra þróun, þ.m.t. nýsköpunaraðferðir hvað varðar takmörkun á útblæstri (4) menntun handverksmanna og á háskólastigi og (5) öðrum sviðum sem gildi hafa fyrir álframleiðslu.

Grein 11.
    Í 11. gr. er fjallað um reikningsskilareglur. Þar kemur fram að við gerð fjárhagsyfirlita í Bandaríkjadölum skuli beita þeim reikningsskilareglum sem gefnar eru út af Alþjóðlega reikningsskilaráðinu (e. International Accounting Standards Board), enda séu þær ekki í andstöðu við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Enn fremur segir að félaginu sé heimilt að skrá allar færslur og gefa út fjárhagsyfirlit í Bandaríkjadölum. Í greininni er einnig kveðið á um að almenn ákvæði íslenskrar löggjafar um tekjuskatt, virðisaukaskatt og gjöld til sveitarfélaga skuli gilda um skattframtal, framtalsreglur, álagningu, endurskoðun, endurálagningu, innheimtu, gjalddaga og greiðslu og aðrar uppgjörsreglur vegna tekjuskatts, virðisaukaskatts og gjalda sem sveitarfélög leggja á, nema um annað sé samið í samningnum.

Grein 12.
    Í 12. gr. er fjallað um endurskoðun skattfyrirkomulags. Í greininni er kveðið á um að á samningstímabilinu geti félagið valið að íslensk skattalög skuli gilda um það. Slík beiðni þarf að vera skrifleg og verður að vera komin fram fyrir 1. júní, ári áður en slík breyting skal koma til framkvæmda.

Grein 13.
    Í 13. gr. er fjallað um lagalega stöðu samninganna. Þar er kveðið á um að samningurinn skuli birtur í heild sinni á ensku og í íslenskri þýðingu í B-deild Stjórnartíðinda. Tekið fram að samningurinn öðlist gildi samkvæmt ákvæðum sínum óháð birtingunni. Fyrrnefnt gildir einnig um síðari breytingar á samningnum.

Grein 14.
    Í 14. gr. er fjallað um ábyrgðir ríkisstjórnarinnar. Þar segir að ríkisstjórnin skuli gera allt sem nauðsynlegt er til að tryggja að Century og félagið njóti allra þeirra réttinda og hlunninda sem þeim eru veitt samkvæmt samningnum og að ekkert verði gert sem takmarki eða á annan hátt hafi óhagstæð áhrif á framkvæmd verkefnisins, og starfsemi/rekstur félagsins og/eða Century.

Grein 15.
    Í 15. gr. er fjallað um lög þau sem farið skal eftir og lausn deilumála. Þar segir að með samninginn skuli farið að íslenskum lögum, nema kveðið sé á um annað í samningnum.
    Í greininni segir að sérhvern ágreining skuli aðeins bera undir íslenska dómstóla, nema annar hvor aðilanna kjósi að vísa máli til gerðardóms.
    Þrátt fyrir ofangreint getur hvor aðilinn sem er vísað máli til gerðardóms sem leysir úr því á grundvelli gerðardómsreglna Gerðardómsstofnunar Verslunarráðsins í Stokkhólmi (e. Arbitration Institute of the Stockholm Chamber of Commerce) eins og þær eru þegar samningur þessi er undirritaður.
    Enn fremur segir að aðilarnir skuldbindi sig til að hlíta niðurstöðum gerðardóms án tafar og afsali sér rétti til hvers konar áfrýjunar að svo miklu leyti sem slíkt afsal getur átt sér stað með gildum hætti. Aðilarnir eru sammála um að niðurstöður gerðardóms skuli vera endanlegar og bindandi frá þeim degi sem þær eru gerðar. Aðilar samningsins skulu halda áfram að sinna skyldum sínum samkvæmt samningnum þrátt fyrir útistandandi ágreining þeirra í milli.

Grein 16.
    Í 16. gr. er fjallað um óviðráðanleg atvik og áhrif þeirra á ábyrgð aðila vegna vanefnda af völdum slíkra atvika. Er þar kveðið á um hvers konar atvik teljist til óviðráðanlegra atvika. Enn fremur er kveðið á um að sá sem heldur því fram að brest á efndum megi rekja til slíkra atvika hafi sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu. Greinin mælir loks fyrir um tilkynningaskyldu aðila, til annarra samningsaðila, vegna óviðráðanlegra atvika sem leiða til brests á efndum. Sá aðili sem heldur fram óviðráðanlegum atvikum skal einnig gera sanngjarnar ráðstafanir til þess að takmarka áhrif vanefndar sem af því leiðir.

Grein 17.
    Í 17. gr. er fjallað um samningstíma og framlengingu samningsins. Þar segir að samningurinn skuli teljast hafa gildi frá undirritun aðila. Enn fremur segir að samningurinn skuli gilda til 20 ára frá upphafi framleiðslu og falli þá úr gildi eða verði framlengdur samkvæmt grein 17.3.
    Þá segir í greininni að hvenær sem er þar til einu ári fyrir lok gildistímans geti félagið geti Century eða félagið framlengt samninginn um 20 ár með sömu skilmálum, nema aðilar verði sammála um breytingar. Ákveði Century og félagið að framlengja ekki samninginn, skulu þeir tilkynna ríkinu a.m.k. einu ári fyrir lok gildistíma.
    Loks segir í greininni að gildistími samningsins skuli lengjast um þann tíma sem samsvarar töf vegna óviðráðanlegra atvika.

Grein 18.
    Í 18. gr. er fjallað um viðurkennda texta samningsins. Viðurkennt tungumál samningsins skal vera enska.

Grein 19.
    Í 19. gr. er fjallað um framsal réttinda. Þar kemur fram að hvers konar framsal réttinda og skyldna allra aðila samkvæmt samningnum sé háð samþykki aðilanna. Samþykkja skal framsal án ástæðulauss dráttar.
    Í greininni er og kveðið á um að þrátt fyrir ofangreint skuli félaginu heimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningnum án samþykkis ríkisstjórnarinnar til fjármögnunaraðila sem tryggingu vegna fjármögnunar á verkinu. Með fyrirvara um samning milli ríkisstjórnar og viðeigandi fjármögnunaraðila, sé gengið að tryggingunni, er ríkisstjórninni skylt að samþykkja framsal réttinda félagsins samkvæmt samningi þessum til hvaða aðila sem er.

Grein 20.
    Í 20. gr. er fjallað um breytingar og endurskoðun samningsins. Þar kemur fram að aðeins sé heimilt að breyta samningnum með skriflegum viðaukasamningi.
    Einnig er þar að finna ákvæði um gagnkvæma sanngirni samningsaðila við framkvæmd samningsins og breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar á honum vegna breyttra aðstæðna.
    Hvorugur samningsaðla getur þó beitt þessu ákvæði fyrir 31. desember 2018 og ekki oftar en einu sinni á samningstímabilinu.
    Í greininni er loks kveðið á um að greinin skuli gilda í stað ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936.

Grein 21.
    Í 21. gr. er fjallað um tilkynningar vegna samningsins. Í greininni er að finna ákvæði um með hvaða hætti tilkynningar skuli sendar og hvert beri að senda tilkynningar til einstakra aðila samningsins.

Grein 22.
    Í 25. gr. er fjallað um fjölda samningseintaka og tilkynningu ríkisstjórnarinnar til Eftirlitsstofnunar EFTA Í greininni er mælt fyrir um að gildistaka samningsins sé skilyrt við samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA.

Viðaukar.
    Samningnum fylgir einn viðauki, þ.e. Viðauki A um sundurliðun á varanlegum rekstrarfjármunum og fyrningartafla.Fylgiskjal III.


Lýsing á samningi um leyfisveitingar og gjaldtöku vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls ehf. á iðnaðarsvæði við Helguvíkurhöfn milli Reykjaneshafnar (hér eftir „RNH“), Reykjanesbæjar, sveitarfélagsins Garðs og Norðuráls Helguvíkur ehf. dags. 4. janúar 2007.


1. Inngangur.
    Einn þeirra samninga sem gerður var vegna verkefnisins var samningur um leyfisveitingar og gjaldtöku. Slíkur samningur var milli Reykjaneshafnar (hér eftir „RNH“), Reykjanesbæjar, sveitarfélagsins Garðs og Norðuráls Helguvíkur ehf. (hér eftir nefnt „félagið“). Kom samningurinn í stað fyrri samnings Norðuráls ehf. og Reykjanesbæjar, dags. 2.7 apríl 2006. Samningurinn er 4 greinar og fer hér á eftir lýsing á helstu atriðum samningsins til útskýringa, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn á efni samningsins.

2. Lýsing á einstökum atriðum samning um leyfisveitingar og gjaldtöku.
    Í inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda og aðila samningsins.

Grein 1.
    Í 1. gr. samningsins er fjallað um skipulagsmál og gatnagerðargjöld. Fyrst er kveðið á um að sveitarfélögin munu í sameiningu vinna að því að aðalskipulagi sveitarfélaganna og Keflavíkurflugvallar verði þannig að landsspilda innan núverandi varnarsvæðis og lögsagnarmarka Sveitarfélagsins Garðs, samtals 1.156.193,46 fermetrar að flatarmáli sbr. Fylgiskjal 1 við samninginn verði sameinað iðnaðarsvæðinu umhverfis Helguvíkurhöfn. Þá er kveðið á um að félagið skuli hvorki greiða gatnagerðargjöld samkvæmt lögum nr. 17/1996 til sveitarfélagsins né aðra skatta, gjöld eða þóknun sem kunna að verða lögð á í stað þeirra enda mun félagið á eigin kostnað sjá um gatnagerð innan lóðar sinnar á iðnaðarsvæðinu og þá verkþætti sem almennt eru látnir í té sem endurgjald fyrir álögð gatnagerðargjöld sveitarfélaga. Einnig er mælt fyrir um skyldu sveitarfélaganna til vegtenginga að lóðamörkum. Í greininni er loks vísað til skyldna Reykjanesshafnar og verkaskiptingar aðila samkvæmt lóðaleigusamningi.

Grein 2.
    Í 2. gr. samningsins er fjallað um fasteignaskatt. Í greininni kemur fram að sveitarfélögin muni leita eftir því við ráðherra að mannvirki þau sem reist kunna að verða af hálfu félagsins, verði undanþegin fasteignamati, samanber heimild í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Félagið mun greiða fasteignaskatt sem verður sambærilegur þeim sem greitt hefur verið vegna mannvirkja á Grundartanga, að teknu tilliti til stærðar mannvirkja og framleiðslugetu.
    Í greininni er mælt fyrir um að við ákvörðun og áætlun stofnverðs skuli fylgt sömu viðmiðunum og gert var við sambærilega ákvörðun skattstofns við álver Norðuráls á Grundartanga. Aðilar skuli í sameiningu ljúka þeirri áætlun, sem skal lokið eigi síðar en 1. október 2007 og miðast við verðlag á þeim tíma. Verði ágreiningur um niðurstöðu skal heimilt að vísa honum til meðferðar í samræmi við lóðar- og hafnarsamninga aðila.
    Í greininni kemur fram að framangreindur fasteignaskattur skuli lagður á og innheimtur á sama hátt og almennur fasteignaskattur, skv. lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
    Fasteignaskatturinn skal fyrst lagður á 1. janúar árið eftir að starfsræksla álversins hefst. Skatturinn skal verðtryggður með vísitölu byggingarkostnaðar.
    Í greininni kemur einnig fram að stofnverðið skuli tekið til endurskoðunar, verði verulegar breytingar á fyrirhuguðum byggingum sem leiða til þess að byggingarkostnaður hækkar eða lækkar um 5%. Við stækkun álversins skuli fara fram nýtt mat á stofnvirði, og verði skattur álagður og greiddur samkvæmt sömu viðmiðunum og mælt er fyrir um í greininni frá og með 1. janúar árið eftir að viðbótin er tekin í notkun.
    Í greininni er loks tekið fram að sveitarfélögin skipti tekjum af fasteignagjöldum á milli sín að jöfnu, miðað við álver með allt að 250 þúsund tonna ársframleiðslugetu. Komi til frekari stækkunar ráða lögsögumörk sveitarfélaganna að því er varðar fasteignagjöld af þeim viðbótarmannvirkjum sem reistu kunna að verða. Hvor aðili um sig getur óskað eftir endurskoðun á skiptingu fasteignagjalda að liðnum 20 árum frá því að framleiðslugta hefur náð um 250 þúsund tonnum á ári.

Grein 3.
    Í 3. gr. samningsins er fjallað um skipulagsmál og byggingarleyfi. Í greininni kemur fram að sveitarfélögin muni koma á sjálfstæðri bygginganefnd sem fjalla mun um öll byggingarmál álversins svo og byggingareftirlit meðan á framkvæmdum stendur.
    Þá kemur fram að byggingarnefndin muni gefa út byggingarleyfi til byggingar álversins og tilheyrandi aðstöðu, í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, byggingarreglugerðar og skilyrði sem sett kunna að vera við mat á umhverfisáhrifum. Komi til þess að lagaheimild þurfi til stofnunar slíkrar sjálfstæðrar sameiginlegrar byggingarnefndar munu byggingarnefndir sveitarfélaganna hvors fyrir sig gefa út nauðsynleg framkvæmda- og byggingaleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.
    Þá er kveðið á um að félagið greiði sveitarfélögunum byggingarleyfisgjald vegna útgáfu byggingarleyfis fyrir álverksmiðju með framleiðslugetu er nemur allt að 180.000 tonna álframleiðslu. Verði stækkun, endurnýjun og þess háttar skuli samið sérstaklega um greiðslu byggingarleyfisgjalda.

Grein 4.
    Í 4. gr. samningsins er fjallað um önnur ákvæði. Í greininni kemur fram að álagning gjalda miðist við álver með tiltekna framleiðslugetu. Í greininni er mælt fyrir um endurskoðun samningsins verði breytingar á gildistíma hans á lögum um tekjur sveitarfélaga þannig að heimilisfesti viðkomandi fyrirækis hafi áhrif á tekjuskiptingu á milli þeirra.
    Í greininni er mælt fyrir um að Reykjaneshöfn muni leita eftir því við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. (og eftir atvikum Varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins) að fá leigt land innan núverandi varnarsvæðis og innan lögsagnarmarka Sveitarfélagsins Garðs, eins og nánar er lýst í fylgiskjali við samninginn, samtals 1.156.193,46 fermetrar að flatarmáli. Á umræddri lóð er gert ráð fyrir að lóðin vestanverð, þ.e. frá álverinu að núverandi Garðsvegi, verði ekki tekin undir aðra starfsemi. Að liðnum 20 árum frá því að framleiðsla álversins er komin í 250 þúsund tonn á ári, getur farið fram endurskoðun á nýtingu þessa hluta lóðarinnar, enda sé fyrirsjáanlegt að félagið hyggist ekki nýta lóðina undir eigin starfsemi.
    Í greininni kemur fram að gildistaka samningsins sé háð því að áform félagsins um byggingu álvers í Helguvík gangi eftir og með fyrirvara um að lóðar- og hafnarsamningar verði virkir. Samningurinn gildir svo lengi sem lóðarsamningur við Reykjaneshöfn er í gildi.
    Í greininni er þá mælt fyrir um að verði ágreiningu um túlkun samningsins skulu aðilar leitast við að leysa ágreining sinn. Takist það ekki skuli mál borið undir Héraðsdóm Reykjaness.
    Í greininni kemur loks fram að samningurinn sé framseljanlegur af hálfu félagsins til hlutafélags eða sameignarfélags í eigu sömu aðila.

    Samningi um leyfisveitingar og gjaldtöku fylgir eitt fylgiskjal, (lóðakort) (1)Fylgiskjal IV.


Lýsing á hafnarsamningi milli
Reykjaneshafnar og Norðuráls Helguvíkur ehf.,
dags. 27. Apríl 2006, með síðari breytingum (13. maí 2008).


1. Inngangur.
    Einn þeirra samninga sem gerður var vegna verkefnisins var hafnarsamningur um stækkun og breytingu á aðstöðu við höfnina í Helguvík. Slíkur hafnarsamningur var milli Reykjaneshafnar (hér eftir „RNH“) og Norðuráls Helguvíkur ehf. (hér eftir nefnt „félagið“). Samningurinn er 15 greinar og fer hér á eftir lýsing á helstu atriðum samningsins til útskýringa, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn á efni samningsins. Til hægðarauka er látið nægja að vísa í lýsingu á lóðarsamningi þegar um sameiginleg ákvæði er að ræða.

2. Lýsing á einstökum atriðum hafnarsamnings.
    Í inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda og aðila samningsins.

Grein 1.
    Í 1. gr. samningsins eru skýrð ýmis aðilaheiti, önnur heiti og hugtök, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna útlistun á því hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.

Grein 2.
    Í 2. gr. er fjallað um rekstur hafnarinnar. Í greininni kemur fram að RNH skuli á eigin kostnað sjá um að viðhalda höfninni og hafnarmannvirkjum og veita álverinu þjónustu. Þá er enn fremur kveðið á um skyldur RNH, vegna tjóns eða eyðileggingar sem kann að verða á höfninni eða hafnarmannvirkjum.
    Í greininni er þá mælt fyrir um að RNH skuli uppfylla þær kröfur sem lýst er í í Viðauka C með hliðsjón af Viðauka D innan 24 mánaða eftir tilkynningardag, þ.e. þann dag sem félagið sendir RNH skriflega tilkynningu um að óskilyrtur rafmagnssamningur hafi verið undirritaður og að lokaákvörðun hafi verið tekin um að hefjast handa við verkefni. Þó skal félagið hafa aðgang að viðlegukanti E eigi síðar en 18 mánuðum eftir tilkynningardag í því skyni að hefja uppsetningu búnaðar og aðstöðu sem lýst er í Viðauka D.
    Í greininni kemur loks fram að komi til frekari stækkunar á álverinu kunni að reynast nauðsynlegt að gera frekari breytingar á höfninni en þeim sem lýst er í Viðauka C.

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um búnað, sem félagið kann að þurfa að setja upp vegna starfsemi sinnar og notkun á honum. Í greininni er kveðið á um að félagið hafi heimild til að setja upp og starfrækja á eigin kostnað og áhættu búnað, eins og nánar er tilgreint í Viðauka D, en félagið hafi einnig fullt eignarhald á hafnarbúnaði sínum og sé heimilt að fjarlægja hann hvenær sem er í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfis. Þegar gildistími samningsins er runninn út eða samningnum sagt upp skal félagið fjarlæga hafnarbúnað sinn innan sanngjarnra tímamarka eða eignaráð yfir slíkum búnaði flytjast yfir til RNH eftir samkomulagi.
    Í greininni segir að félagið skuli ekki greiða lóðarleigu eða önnur sambærileg gjöld til RNH fyrir afnot af hafnarsvæðinu undir hafnarbúnað sinn og aðra nauðsynlega starfsemi.
    Í greininni er einnig kveðið á um heimild RNH til að nota krana þá, sem félagið setur upp, í þágu annarra notenda hafnarinnar, með samþykki félagsins og gegn greiðslu sanngjarns endurgjalds ákveðnu af félaginu.

Grein 4.
    Í 4. gr. er fjallað um afnot félagsins af höfninni. Í greininni kemur fram að félagið samþykki og hefur kynnt sér ítarlega efni NATO samningsins, þ.e. samnings milli ríkisstjórnar Íslands og yfirmanns Atlantshafsflotadeildarinnar um notkun Helguvíkurhafnar í viðskiptaskyni, dags. 24. ágúst 1995, og forgangsrétt skipa NATO að tilteknum hlutum hafnarinnar.
    Þá er í greininni er kveðið á um forgangsrétt félagsins að viðlegukanti E í höfninni, sbr. Viðauka A. Meðan skip eru í höfninni á vegum álversins ber félaginu forgangsréttur að svæði A og B, samkvæmt lóðarkorti í Viðauka A. Félagið skal hafa samráð við önnur atvinnufyrirtæki sem nota svæðið og viðlegukantinn og RNH um notkunina. Enn fremur er kveðið á um fullan aðgang og afnot félagsins og umboðsmanna þess, starfsmanna og verktaka að höfninni, m.a. til lestunar og losunar á efni, búnaði og vöru til byggingar og rekstur álversins.
    Þá er og kveðið á um að félagið skuldbindi sig til þess að nota aðeins höfnina til alls venjulegs innflutnings á helstu hráefnum til álversins sem og til alls útflutnings á áli sem framleitt er í álverinu, enda séu hafnargjöld samkeppnishæf við gjöld sem lögð eru á í öðrum höfnum á Íslandi. Félagið mun leggja reglulega fyrir RNH áætlun með 14 daga fyrirvara um konur og brottfarir sem þjóna álverinu og tilkynna með amk 3 daga fyrirvara um áætlaða komu skipa.
    Í greininni er jafnframt kveðið á um ákveðna bótaskyldu RNH gagnvart félaginu, vanefni það skyldur sínar að tryggja félaginu þann forgang sem mælt er fyrir um í greininni. Réttur til ofangreindra skaðabóta fellur þó niður stafi slík vanefnd af starfsemi félagsins við höfnina, hafi félagið ekki sent RNH ofangreinda tilkynningu eða hafi félagið ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni.

Grein 5.
    Í 5. gr. er fjallað um skipulag og rekstur hafnarinnar. Samkvæmt greininni er höfnin og hafnarmannvirki í eigu og umsjón RNH. Höfnin er rekin sem almenn höfn í samræmi við hafnarlög. Í greininni kemur einnig fram að stjórn og rekstur hafnarinnar er í höndum hafnarstjórnar, fyrir hönd og á ábyrgð RNH. Hafnarstjóri sér um daglegan rekstur hafnarinnar fyrir hönd hafnarstjórnar.
    Í greininni er þá kveðið á um að siglingar í höfninni, þ. á m. reglur um hafnsögu og notkun dráttarbáta og umferð á hafnarsvæðinu skulu vera eins og nánar er kveðið á um samkvæmt lögum.
    Í greininni er enn fremur kveðið á um að rekstur hafnarinnar af hálfu RNH nái hvorki til lestunar eða losunar skipa í þágu félagsins, né starfrækslu eða viðhalds á eigin búnaði félagsins sem reist er á þess ábyrgð.
    Í greininni er að endingu kveðið á um að ef RNH hætti að vera til sem lögpersóna vegna gjaldþrots, niðurlagningar eða endurskipulagningar, heldur samningurinn gildi sínu og verður á ábyrgð nýrrar hafnarstjórnar (staðgengils) og/eða sveitarfélagsins.

Grein 6.
    Í 6. gr. er fjallað um hafnagjöld. Þar kemur fram að notkun hafnarinnar í þágu félagsins sé háð greiðslu hafnargjalda (skipagjalda og vörugjalda).
    Samkvæmt greininni skulu skipagjöld vegna skipa á vegum félagsins ekki vera hærri eða víðtækari en skipagjöld sem tíðkast í öðrum höfnum á Suðvesturlandi.
    Þá er kveðið á um ákveðna fjárhæð vörugjalda fyrir inn- og útflutning á hverja smálest, sem taka árlegum breytingum samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar. Þá er mælt fyrir um kjör félagsins, auki það framleiðslugetu sína að ákveðnu marki.
    Loks er í greininni kveðið á um að félaginu sé ekki skylt að greiða RNH viðbótargjöld fyrir afnot af höfninni í tilgangi sem kveðið er á um í samningnum. Gjöld fyrir notkun hafnarinnar teljast innifalin í hafnargjöldum.

Grein 7.
    Í 7. gr. samningsins er fjallað um stækkun hafnarinnar og hafnaraðstöðu. Í greininni segir að RNH beri ábyrgð á byggingu hafnarinnar og viðhaldi og að láta félaginu í té þá aðstöðu sem lýst er í Viðauka C með hliðsjón af efni Viðauka D. Hafnaraðstöðunni skal ekki breytt án samþykkis félagsins ef breytingar hafa áhrif á byggingu og rekstur álversins.
    Þá segir enn fremur í greininni að forgangsréttur félagsins samkvæmt 4. gr. eigi ekki við um stækkanir sem fyrst og fremst er ráðist í fyrir aðra notendur, enda hafi slík stækkun eða notkun hafnarinnar af hálfu þriðja aðila engin áhrif á notkun hafnarinnar af hálfu eða í þágu félagsins.

Grein 8.
    Hvað varðar lýsingu á 8. gr. (um lög sem gilda um deilumál) vísast til lýsingar á sambærilegu ákvæði í 5. gr. lóðarsamnings sem er efnislega samhljóða þessari grein.

Grein 9.
    Hvað varðar lýsingu á 9. gr. (um óviðráðanleg atvik) vísast til lýsingar á sambærilegu ákvæði í 6. gr. lóðarsamnings sem er efnislega samhljóða þessari grein.

Grein 10.
    Í 10. gr. er fjallað um samningstíma. Samningurinn öðlast gildi þann dag sem hann er undirritaður af hálfu samningsaðila. Hann gildir í 25 ár frá gangsetningardegi, það er þeim degi sem framleiðsla áls í atvinnuskyni er hafin í álverinu en framlengist eftir það sjálfkrafa með sömu skilyrðum og skilmálum til 15 ára í senn nema aðilar komist að samkomulagi um nýja skilmála og skilyrði. Að öðru leyti er greinin í megindráttum samhljóða 4. gr. lóðarsamnings.

    Um grein 12. (gildir textar), 13. (framsal), 14. (tilkynningar) og 15. (ýmis ákvæði) vísast til lýsingar á sambærilegum ákvæðum í 7., 8., 9., 10., 11. gr. í lóðarsamningi.

    Hafnarsamningnum fylgja fjórir viðaukar, lóðarkort (A), hafnarbúnaður (tæknilýsing) (B), Þarfir álversins fyrir hafnaraðstöðu (C) hafnarbúnaður (D).Fylgiskjal V.


Lýsing á lóðarsamningi milli
Reykjaneshafnar og Norðuráls Helguvíkur ehf.,
dags. 27. apríl 2006, með síðari breytingum (þann 29. apríl 2008).


1. Inngangur.
    Einn þeirra samninga sem gerður var vegna verkefnisins var lóðarsamningur vegna lands undir væntanlegt álver. Slíkur lóðasamningur er milli Reykjaneshafnar (hér eftir „RNH“) og Norðuráls Helguvíkur ehf. (hér eftir nefnt „félagið“). Samningurinn er 11 greinar og fer hér á eftir lýsing á helstu atriðum samningsins til útskýringa, en lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn á efni samningsins. Til hægðarauka er látið nægja að vísa í lýsingu á drögum að fjárfestingarsamningi þegar um sameiginleg ákvæði er að ræða.

2. Lýsing á einstökum atriðum lóðarsamnings.
    Í inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda og aðila samningsins.

Grein 1.
    Í 1. gr. samningsins eru skýrð ýmis aðilaheiti, önnur heiti og hugtök, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna útlistun á því hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.

Grein 2.
    Í 2. gr. er kveðið á um leigu á lóð undir álverið. Í greininni kemur m.a. fram að RNH leigi félaginu undir álverið (sjá Viðauka B) landrými nálægt höfninni, annars vegar 11,8 hektara eða 118.149 fermetra landrými innan umdæmis Reykjanesbæjar og hins vegar 113,7 hektara eða 1.136.743 fermetra landrýmis innan umdæmis sveitarfélagsins Garðs. Götuheiti lóðarinnar er Stakksbraut 1, 235 Reykjanesbær. Til viðbótar leigir RNH ákveðin svæði innan hafnarsvæðisins (sjá Viðauka A), í heild 15.618 fermetra. Götuheiti þeirrar lóðar er Stakksbraut 4, 235 Reykjanesbær.
    Þá kemur einnig fram í greininni að RNH ábyrgist að eiga lagalegan rétt og umboð til þess að leigja félaginu lóðina, að lóðin sé fallin til þeirra nota sem henni eru ætluð og að á henni hvíli engar kvaðir eða skyldur af neinu tagi.
    Í greininni segir að RNH taki að sér allan nauðsynlegan undirbúning á lóðinni undir framkvæmdir, samkvæmt áætlun, þ.m.t. tímaáætlun, um undirbúning lóðarinnar eins og nánar er kveðið á um í sérstökum Viðauka D með samningnum. RNH mun ekki hefja lóðaundirbúning fyrr en tilkynning berst frá félaginu (um að óskilyrtur rafmagnssamningur hafi verið undirritaður og að lokaákvörðun hafi verið tekin af hálfu félagsins um að hefjast handa við verkefnið). Greiðslum félagsins fyrir undirbúning og byggingarrétt til RNH er nánar lýst og þær áætlaðar í undirbúnings- og greiðsluáætlun í Viðauka D sem fylgir lóðarsamningnum.
    Félagið mun greiða RNH fyrirframgreiðslu að tiltekinni upphæð, ekki síðar en 1. desember 2006, vegna kostnaði af undirbúningi lóðar og hafnar. Þá er mælt fyrir um tilhögun endurgreiðslu RNH á fyrrnefndri fjárhæð, verði samningnum sagt upp. Á degi ofangreindar tilkynningar mun félagið inna af hendi aðra fyrirframgreiðslu að ákveðinni fjárhæð vegna kostnaðar af undirbúningi lóðar og hafnar.
    Í greininni segir að lóðin verði afhent félaginu án allra veðbanda, sérréttinda eða kvaða við undirritun samningsins og mælt er fyrir um heimild félagsins að leggja veðbönd, kvaðir eða veita annan fasteignarétt frá og með ofangreindum tilkynningadegi.
    Í greininni er einnig kveðið á um að félagið hafi rétt, með fyrirvara um lagalegar skyldur og stjórnsýslulegar kröfur, að starfsleyfinu meðtöldu, til fjarlægja mannvirki sín og aðstöðu af leigulóðinni á eigin kostnað án ábyrgðar félagsins gagnvart RNH.
    Þá er kveðið á um að félagið taki við vörslu leigulóðarinnar á afhendingardegi, þ.e. þegar félagið getur hafið byggingu álversins, og haldi þeim og afnotum af henni meðan lóðarsamningurinn er í gildi. Einnig kemur fram í greininni hver afnot félaginu skuli heimilt að hafa af lóðinni.
    Í greininni segir enn fremur að félagið skuli á eigin kostnað sjá um að halda lóðinni og öllum endurbótum í góðu ástandi og í samræmi við starfsleyfi, þeirra leyfa sem kunna að verða veitt til viðbótar eða í staðinn fyrir starfsleyfið, auk tilheyrandi laga og reglugerða meðan á leigutímanum stendur.
    Í greininni er að finna ákvæði um rétt félagsins til að auka starfsemi sína á lóðinni, að fengnum tilskildum leyfum.
    Þá er fjallað um leigugreiðslur. Þar kemur fram að félagið skuli árlega greiða RNH leigugjald. Leigugjald kemur ekki til greiðslu fyrr en á afhendingardegi, en ársleigan skal greidd 31. janúar fyrir viðkomandi ár.
    Í greininni er auk þessa kveðið á að félagið skuli hafa forkaupsrétt á leigulóðinni ef RNH, aðili sem tekur við af henni eða framsalshafi hyggist selja lóðina.
    Þá er einnig vikið að ábyrgð RNH hvað varðar hugsanlegar kröfur á hendur félaginu. Í greininni segir að RNH skuli ábyrgjast allar kröfur sem kunna að rísa á hendur félaginu í tengslum við umhverfi lóðarinnar, hvort sem þær hafa stofnast fyrir eða eftir undirritun samningsins og vegna aðgerða eða aðgerðarleysis fyrir undirritun sem hefur með einhverjum hætti áhrif á lóðina.
    Loks er í greininni vikið að ábyrgð félagsins gagnvart RNH. Þar segir að félagið skuli ábyrgjast allar kröfur sem kunna að rísa á hendur RNH í tengslum við vanrækslu félagsins á að viðhalda lóðinni í samræmi við ákvæði starfsleyfis, og/eða önnur svipuð leyfi sem kunna að verða veitt til viðbótar eða í staðinn fyrir starfsleyfið og gildandi lög og reglugerðir á samningstímanum.

Grein 3.
    Í 3. gr. er fjallað um rekstrarlok og uppsögn samningsins. Í greininni kemur fram að ef um endanlega stöðvun á starfrækslu álversins er að ræða skuli ekki gerðar neinar kröfur um frágang á lóðinni, að því tilskildu að félagið eða sá aðili, sem tekið hefur við starfseminni, ábyrgist að öll hættuleg úrgangsefni á yfirborðinu frá álverinu verði fjarlægð úr álverinu og af lóðinni. Félaginu skal ekki skylt að fjarlægja úrgang af urðunarsvæðum eða flæðigryfjum innan iðnaðarsvæðisins við höfnina, að svo miklu leyti sem slíkur úrgangur hefur hlotið meðferð í samræmi við starfsleyfið og/eða leyfi sem komið hefur í þess stað. Þá er félaginu gert skylt að fjarlægja innan sanngjarnra tímamarka álverið og tilheyrandi mannvirki en að öðrum kosti flytjist eignarráð yfir slíkum mannvirkjum, endurbótum og búnaði álversins til RNH. Í greininni segir einnig að RNH geti með 90 daga skriflegum fyrirvara sagt upp samningnum ef greiðslur, sem félagið átti að inna af hendi samkvæmt samningnum, hafa ekki verið greiddar innan 90 daga frá gjalddaga. Félaginu ber að greiða útistandandi fjárhæð ásamt vöxtum til RNH innan 30 daga frá uppsögninni og efna þannig endanlega og að fullu skyldur sína samkvæmt samningnum.

Grein 4.
    Í 4. gr. er fjallað um samningstímann. Samkvæmt greininni öðlast samningurinn gildi við undirskrift aðilanna og heldur gild í 50 ár frá þeim degi sem framleiðsla áls í atvinnuskyni er hafin í álverinu. Í lok þess tíma, framlengist samningurinn sjálfkrafa með sömu skilyrðum og skilmálum til 15 ára í senn nema aðilar komist að samkomulagi um nýja skilmála og skilyrði.
    Þá er einnig kveðið á um uppsagnarétt RNH hafi félagið ekki, innan 4 ára, sent tilkynningu um að óskilyrtur rafmagnssamningur hafi verið undirritaður og að lokaákvörðun hafi verið tekin um að hefjast handa við verkefnið, og ef félagið hefur ekki unnið af alvöru og góðri trú að framkvæmdum við verkefnið lengur en 6 mánuði. Slík uppsögn tekur gildi 6 mánuðum eftir móttökudag, en hefur ekkert gildi ef félagið hefur á því 6 mánaða tímabili eða eftir því sem við á rekstur eða byggingu álversins.
    Í greininni er loks kveðið á um uppsagnarrétt félagsins fyrir tilkynningardag.

Grein 5.
    Í 5. gr. er fjallað um lög þau sem farið skal eftir og lausn deilumála. Í greininni segir að með samninginn skuli farið að íslenskum lögum, nema kveðið sé á um annað í samningnum.
    Í greininni segir að ágreining varðandi samninginn skuli aðeins bera undir íslenska dómstóla, nema annar hvor aðilanna kjósi að vísa málinu til gerðardóms og tilkynni aðila um það skriflega.
    Þrátt fyrir ofangreint er mögulegt að vísa öllum deilumálum til gerðardóms sem leysir úr því á grundvelli gerðardómsreglna Gerðardómsstofnunar Verslunarráðsins í Stokkhólmi („Arbitration Institute of the Stockholm Chamber of Commerce“) eins og þær eru þegar samningur þessi er undirritaður.
    Enn fremur segir að aðilarnir skuldbindi sig til að hlíta niðurstöðum gerðardóms án tafar og afsali sér rétti til hvers konar áfrýjunar að svo miklu leyti sem slíkt afsal getur átt sér stað með gildum hætti. Enn fremur segir að aðilarnir séu sammála um að gerðardómur sé endanlegar og bindandi frá þeim degi sem þeir eru uppkveðnir.

Grein 6.
    Í 6. gr. er fjallað um óviðráðanleg ytri atvik og áhrif þeirra. Í greininni segir að ef gildistími samningsins skuli lengjast um þann tíma sem samsvarar töf vegna óviðráðanlegra atvika. Hvað varðar 6. gr. vísast annars til lýsingar á 16. gr. draga að fjárfestingarsamningi sem er efnislega samhljóða.

Grein 7.
    Í 7. gr. er mælt fyrir um viðurkenndan texta samningsins, en íslenski og enski textinn skulu hafa jafnt gildi. Þó er tekið fram að ef ósamræmis eða árekstra gæti milli textanna skuli tekið tillit til þess að samningaviðræður fóru fram á ensku.

Grein 8.
    Í 8. gr. er fjallað um framsal réttinda. Þar kemur fram að hvers konar framsal réttinda og skyldna allra aðila samkvæmt samningnum sé háð samþykki aðilanna. Samþykkja skal framsal án ástæðulauss dráttar.
    Í greininni er og kveðið á um að þrátt fyrir ofangreint skuli félaginu heimilt að framselja réttindi og skyldur samkvæmt samningnum án samþykkis RNH til fjármögnunaraðila sem tryggingu vegna fjármögnunar á verkinu. RNH ber að eiga samstarf við félagið að því er varðar hvers kyns ráðstafanir í tengslum við fjármögnun verkefnisins.
    Í greininni kemur þá fram að RNH sé samkvæmt samningnum heimilt, með tilkynningu til félagsins, að framselja réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum til Reykjanesbæjar, hlutafélags í meirihlutaeigu Reykjanesbæjar eða RNH og/eða annarra nágrannasveitarfélaga sem stjórna og viðhalda iðnaðarsvæðinu við höfnina.
    Í greininni kemur loks fram að félaginu sé heimilt þrátt fyrir ofangreint að framselja samninginn til tengdra fyrirtækja.

Grein 9.
    Í 9. gr. er mælt fyrir um breytingar og endurskoðun samningsins. Þar kemur fram að aðeins sé heimilt að breyta samningnum með skriflegum viðaukasamningi. Einnig er þar að finna ákvæði um gagnkvæma sanngirni samningsaðila við framkvæmd samningsins og breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar á honum vegna breyttra aðstæðna. Hvorugur samningsaðila getur þó beitt þessu ákvæði fyrir 1. janúar 2012 og ekki oftar en einu sinni á samningstímabilinu eða oftar en einu sinni á hverju 15 ára framlengingartíma. Í greininni er loks kveðið á um að greinin skuli gilda í stað ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936.

Grein 10.
    Í 10. gr. er fjallað um tilkynningar vegna samningsins. Í greininni er að finna ákvæði um með hvaða hætti tilkynningar skuli sendar og hvert beri að senda tilkynningar til einstakra aðila samningsins.

Grein 11.
    Í 11. gr. er fjallað um frest sem samningsaðilum er gefinn til þess að leiðrétta vanefnd sem og fjölda samningseintaka.

    Samningnum fylgja einnig fjórir viðaukar, þ.e. uppdráttur er sýnir iðnaðarsvæði við höfnina (A), lóðakort, þar sem sýnd eru stærð og mörk lóðarinnar, hafnarinnar og annarra landssvæða (B), veðbókarvottorð (C) og áætlun um undirbúning álverslóðar (D).
Fylgiskjal VI.


Orkusamningur milli Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls Helguvíkur ehf.
frá 7. júní 2007,
með breytingum frá 30. júní 2008 og 30. desember 2008.


Inngangur.
    Gerðir hafa verið tveir raforkusamningar fyrir fyrirhugað álver í Helguvík. Annar orkusamningurinn er á milli Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir vísað til sem „OR“) og Norðuráls Helguvíkur ehf. (hér eftir nefnt „félagið“). Hér á eftir fer stutt lýsing á samningnum til útskýringa á efni hans. Lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn á efni samningsins.

Forsendur samningsins
    Í inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda og aðila samnings. Samningurinn lýtur að sölu á raforku til álvers í Helguvík. Álverið mun verða reist í einu áfangaskiptu ferli, með grunnafkastagetu til framleiðslu á 360.000 tonnum á ári og er að því stefnt að starfræksla geti hafist árið 2011. Gert er ráð fyrir fjórum áföngum með 90.000 tonna ársframleiðslu.
    OR býst við að hafa tiltæka raforku fyrir starfrækslu álversins úr eftirfarandi virkjunum:
     1.      Hellisheiði (5) og (6), en áætlað er að hefja raforkuframleiðslu á öðrum og þriðja ársfjórðungi 2011.
     2.      Hverahlíð (1) og (2), en áætlað er að hefja raforkuframleiðslu á þriðja og fjórða ársfjórðungi 2012.
     3.      Gráuhnúkar (1), en áætlað er að hefja raforkuframleiðslu þar árið 2013.
    Ýmis hugtök eru þá skýrð, með tilliti til þess hvaða merkingu beri að leggja í þau í samningnum. Einnig er að finna umfjöllun um hvernig skýra beri hin ýmsu atriði samningsins.

Afhending raforku
    Samningurinn kveður á um það magn raforku sem OR ber að hafa tiltækt á hverjum tíma fyrir félagið samkvæmt gangsetningaráætlun. Nema annað sé um samið mun OR afhenda félaginu raforku samkvæmt eftirfarandi:

Áfangi Magn orku á hvern áfanga Samtals veitt orka
Áfangi 1., 47,5 MW 47,5 MW
Áfangi 2., 85 MW 132,5 MW
Áfangi 3., 42,5 MW 175 MW

    Síðar í samningnum er einnig kveðið á um að aðilar skuldbinda sig til þess að ganga til samningsviðræðna um 75 MW rafmagns fyrir áfanga 4.
    Umsamin raforka verður aðallega á tryggðum grundvelli (forgangsafl og forgangsorka) en einnig á ótryggðum grundvelli (afgangsafl og afgangsorka). Nánar tiltekið verður umsamin raforka eftir áföngum eftirfarandi:

Áfangi 1 Trygg Ótrygg Samtals
Afl áfanga 1
    (meðaltal á klst.) 42,8 MW 4,7 MW 47,5 MW
Orka á almanaksári 375 GWh 41 GWh 416 GWh
Áfangi 2 Trygg Ótrygg Samtals
Afl áfanga 2
    (meðaltal á klst.) 76,5 MW 8,5 MW 85 MW
Orka á almanaksári 670 GWh 74 GWh 744 GWh
Áfangi 3 Trygg Ótrygg Samtals
Afl áfanga 3
    (meðaltal á klst.) 38,3 MW 4,2 MW 42,5 MW
Orka á almanaksári 336 GWh 37 GWh 373 GWh

    Samtals verður umsamin raforka samkvæmt samningnum:

Áfangi 1–3 (Samtals) Trygg Ótrygg Samtals
Afl áfanga 1–3
    (meðaltal á klst.) 157,5 MW 17,5 MW 175 MW
Orka á almanaksári 1380 GWh 153 GWh 1533 GWh

    Í samningnum kemur fram að umsamin raforka skuli vera stöðugt tiltæk í áðurnefndu afl- og orkumagni án sérstakra takmarkana utan þeirra sem getið er í greininni.
    Dagssetningar afhendingar raforku skulu vera í samræmi við gangsetningaráætlun eða síðari dagssetningar sem kunna að verða ákveðnar af aðilum.
    Afhendingarstaður raforku mun vera samkvæmt flutningssamningi félagsins við Landsnet hf.
    Hvað varðar tryggð lágmarkskaup félagsins, þá skuldbindur það sig frá dagsetningum afhendinga að greiða fyrir tiltekið raforkumagn að lágmarki á sérhverju 12 mánaða tímabili, hvort sem það er nýtt eða ekki.

Mæling á afhentri raforku og flutningur
    Um mælingu á afhentri raforku og flutning hennar fer samkvæmt flutningssamningi félagsins við Landsnet hf.

Raforkuverð
    Samkvæmt samkomulagi um trúnað milli samningsaðila ber að fara með ákvæði samningsins um raforkuverð og kjör sem trúnaðarmál. Er því ekki unnt að greina frá ákvæðum þessum.

Almenn ákvæði
    Almenn ákvæði samningsins eru sambærileg því sem tíðkast hefur í samningum um orkusölu til álversins á Grundartanga hingað til.
    Í samningnum er mælt fyrir um að eigið fé félagsins skuli ávallt vera yfir ákveðnu hlutfalli og að lágmarki 150 milljónir bandaríkjadala eftir að 150 þúsund tonna árs framleiðslugetu hefur verið náð, nema OR samþykki annað.
    OR skuldbindur sig í samningnum til þess að ganga til samningaviðræðna við félagið um sölu á 75 MW rafmagns fyrir áfanga 4.
    Gildistími samningsins er 25 ár frá sérhverjum afhendingardegi raforku. Að liðnum 20 árum frá sérhverjum afhendingardegi raforku skulu samningsaðilar hafa lokið viðræðum varðandi framlengingu samningsins um ekki minna en 10 ár frá sérhverjum lokadagi hans með skilmálum sem báðir aðila geta fellt sig við.
    Samningnum verður ekki rift nema af ástæðum sem takmarkast við mjög stórfelldan efndabrest.
    Um samninginn gilda íslensk lög og sérhvern ágreining skal bera undir íslenska dómstóla, nema annar hvor aðilanna kjósi að vísa máli til gerðardómsmeðferðar.
    Efni samningsins er trúnaðarmál og ekki má upplýsa um efni hans nema með fyrirfram skriflegu leyfi samningsaðila.
    Framsal réttinda og skyldna aðila samkvæmt samningnum er háð samþykki gagnaðila.
    Hvað varðar breytingar á eignarhaldi á félaginu (e. Change of control) þá eru slíkar breytingar háðar samþykki OR samkvæmt sambærilegu ákvæði og lagt er til í drögum að fjárfestingarsamningi.
    Í samningum eru sett ákveðin skilyrði fyrir gildistöku hans. Hvað varðar OR telst samningurinn ekki bindandi fyrr en samþykki eigenda og stjórnar OR hefur fengist. Auk þess eru ákveðin skilyrði fyrir afhendingu varðandi hvern áfanga. Skilyrði þessi lúta að fjármögnun, skipulagsmálum, mati á umhverfisáhrifum, arðsemi einstakra virkjanna, niðurstöðum tilraunaboranna, öflun starfsleyfa og öðrum skuldbindingum OR. Hvað varðar félagið þá eru skilyrði hvað varðar samþykki stjórnar, fjármögnun og frekari orkuöflun.Fylgiskjal VII.


Orkusamningur milli HS Orku ehf. og Norðuráls Helguvíkur ehf.
frá 23. apríl 2007,
með breytingum frá 30. júní 2008 og 29. desember 2008.


Inngangur
    Gerðir hafa verið tveir raforkusamningar fyrir fyrirhugað álver í Helguvík. Annar orkusamningurinn er á milli HS Orku ehf. (hér eftir vísað til sem „HS“) og Norðuráls Helguvíkur ehf. (hér eftir nefnt „félagið“). Hér á eftir fer stutt lýsing á samningnum til útskýringa á efni hans. Lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn á efni samningsins.

Forsendur samningsins
    Í inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda og aðila samnings. Samningurinn lýtur að sölu á raforku til álvers í Helguvík. Félagið hyggst reisa álverið í einu áfangaskiptu ferli, með grunnafkastagetu til framleiðslu á allt að 360.000 tonnum á ári og er að því stefnt að starfræksla geti hafist árið 2011 og byggingu verði lokið árið 2015. Gerir félagið þannig ráð fyrir fjórum áföngum með 90.000 tonna ársframleiðslu.

Afhending raforku
    Samningurinn kveður á um það magn raforku sem HS ber að hafa tiltækt á hverjum tíma fyrir félagið samkvæmt gangsetningaráætlun. Nema annað sé um samið mun HS afhenda félaginu raforku samkvæmt eftirfarandi:
    Fyrir áfanga 1 skal HS afhenda félaginu samtals 100 MW. HS skal auk þess veita félaginu allt að 50 MW af viðbótarraforku á ákveðinni dagssetningu eða á dagssetningu sem kann að verða ákveðin af aðilum, byggðri á getu HS til þess að framleiða slíka raforku.
    HS skuldbindur sig jafnframt til vinna að sanngirni að því, með hliðsjón af raforku sem tiltæk er frá öðrum orkufyrirtækjum, að afla viðbótarraforku sem nauðsynleg getur verið til þess að ljúka byggingu á heilli kerlínu fyrir álverið. Mælt er fyrir um lágmarksarðsemi HS af eigin fé að ákveðnu hlutfalli.
    Umsamin raforka verður aðallega á tryggðum grundvelli (forgangsafl og forgangsorka) en einnig á ótryggðum grundvelli (afgangsafl og afgangsorka). Nánar tiltekið verður umsamin raforka eftirfarandi:

Áfangi 1 Trygg Ótrygg Samtals
Tiltækt afl (meðaltal á klst.) 135 MW 15 MW 150 MW
Orka á almanaksári 1182,6 GWh 131,4 GWh 1314 GWh

    Umsamin raforka skal stöðugt tiltæk í áðurnefndu afl- og orkumagni án sérstakra takmarkana utan þeirra sem getið er í samningnum.
    Félagið mun þarfnast raforku á meðan byggingarframkvæmdum stendur. Samningsaðilar munu vinna sameiginlega að því að ákvarða tímasetningu, skilmála og skilyrði afhendingar slíkrar raforku. Í samningnum er þá mælt fyrir um verð á slíkri raforku til byggingarframkvæmda.
    Fyrsti afhendingardagur áfanga 1 á raforku skal vera í samræmi við gangsetningaráætlun áfanga 1 eða síðari dagssetningu sem kunna að verða ákveðnar af aðilum.
    Afhendingarstaður rafmagns mun fara eftir flutningasamningi félagsins við Landsnet hf.
    Hvað varðar tryggð lágmarkskaup félagsins, þá skuldbindur félagið sig frá afhendingardegi áfanga 1 að greiða fyrir tiltekið raforkumagn að lágmarki á sérhverju 12 mánaða tímabili, hvort sem það er nýtt eða ekki.

Mæling á afhentri raforku og flutningur
    Um mælingu á afhentri raforku og flutning hennar fer samkvæmt flutningssamningi félagsins við Landsnet hf.

Raforkuverð
    Samkvæmt samkomulagi um trúnað milli samningsaðila bera að fara með ákvæði samningsins um raforkuverð og kjör sem viðskiptaleyndarmál. Er því ekki unnt að greina frá ákvæðum þessum í einstökum atriðum.

Almenn ákvæði
    Almenn ákvæði samningsins eru sambærileg því sem tíðkast hefur í samningum um orkusölu til álversins á Grundartanga hingað til.
    Í samningnum er mælt fyrir um að eigið fé félagsins skuli ávallt vera yfir ákveðnu hlutfalli og ekki minna en 150 milljónir bandaríkjadala þegar 150 þúsund tonna árlegri framleiðslugetu er náð, nema HS samþykki annað.
    Gildistími samningsins er frá undirritun samningsins í 25 ár eftir afhendingardag raforku. Að liðnum 20 árum frá afhendingardegi áfanga 1 skulu samningsaðilar hafa lokið viðræðum varðandi framlengingu samningsins um ekki minna en tíu ár frá viðeigandi lokadegi hans með skilmálum sem báðir aðila geta fellt sig við.
    Samningnum verður ekki rift nema af ástæðum sem takmarkast við mjög stórfelldan efndabrest.
    Um samningin gilda íslensk lög og skal sérhvern ágreining bera undir íslenska dómstóla, nema annar hvor aðila kjósi að vísa máli til gerðardómsmeðferðar.
    Efni samningsins er trúnaðarmál og ekki má upplýsa um efni hans nema með fyrirfram skriflegu leyfi samningsaðila.
    Framsal réttinda og skyldna aðila samkvæmt samningnum er háð samþykki gagnaðila.
    Hvað breytingar á eignarhaldi á félaginu (e. Change of control) varðar eru slíkar breytingar háðar samþykki HS samkvæmt sambærilegu ákvæði og lagt er til í drögum að fjárfestingarsamningi.
    Í samningnum eru sett ákveðin skilyrði fyrir gildistöku hans. Hvað HS varðar telst skuldbinding þess til afhendingar á umsaminni raforku ekki bindandi þar til samþykki stjórnar HS hefur fengist. Auk þess lúta skilyrðin að mati á umhverfisáhrifum, arðsemi einstakra virkjana, niðurstöðum tilraunaborana og samningagerð við sveitarfélög og flutningsaðila. Hvað varðar félagið eru skilyrði um samþykki stjórnar og fjármögnunaraðila, skilyrði annarra orkusamninga, flutningssamnings og öflun starfsleyfa.


Fylgiskjal VIII.


Tengi- og flutningssamningur varðandi flutning raforku til álvers Norðuráls Helguvíkur sf. í Helguvík milli Landsnets hf. og Norðuráls Helguvíkur ehf.
frá 3. október 2007.


Inngangur
    Gerður hefur verið samningur um flutning raforku fyrir rekstur álversins milli Landsnets hf. (hér eftir vísað til sem „Landsnet“) og Norðuráls Helguvíkur ehf. (hér eftir nefnt „félagið“) þann 3. október 2007. Um er að ræða hefðbundinn samning við stórnotanda sem tengist flutningskerfi Landsnets. Hér fer á eftir stutt lýsing til útskýringa á efni samningsins. Lýsingunni er ekki ætlað að vera tæmandi skýringargagn á efni hans.

Forsendur samningsins
    Í inngangi er fjallað stuttlega um aðdraganda og aðila samningsins. Samningurinn lýtur að flutningi á raforku til álvers í Helguvík. Félagið áformar að reisa álverið í einu áfangaskiptu ferli, með grunnafkastagetu til framleiðslu á allt að 360.000 tonnum á ári og er að því stefnt að starfræksla geti hafist árið 2011 og byggingu verði lokið árið 2015. Gerir félagið þannig ráð fyrir fjórum áföngum með 90.000 tonna ársframleiðslu.

Umfang samningsins
    Með samningnum skuldbindur Landsnet sig til að tryggja flutning á umsaminni raforku til álversins, standa að mannvirkjagerð vegna framkvæmda við flutningskerfið og sjá um tengingu álversins og orkuframleiðanda við flutningskerfið. Félagið skuldbindur sig til þess að móttaka umsamda raforku og að Landsneti verði greitt fyrir flutning þeirrar raforku. Samningurinn varðar því flutning umsaminnar orku frá afhendingarstað innmötunar og afhendingarstað úttektar.

Framkvæmdir við flutningskerfið
    Í samningnum er mælt fyrir um að Landsnet muni hanna og byggja flutningsvirki sem tilbúin verða fyrir áætlaða afhendingardaga. Landsnet mun gera sitt besta til þess að halda tímaáætluninni sem er til viðmiðunar.

Tenging við flutningskerfi
    Í samningnum segir að sú raforka sem OR og HS hafa samið við félagið verði afhent Landsneti við virkjanir og að Landsnet afhendi raforkuna við spennistöð félagsins við álverið.

Umsamin raforka
    Með samningnum skuldbindur Landnet sig til flutnings á umsaminni raforku til álversins miðað við áformað afl og orkumagn.

Gæði umsaminnar raforku
    Í samningnum eru þá ákvæði um straum og rafspennu. Landsnet mun ávallt hafa tiltækt reiðuafl vegna truflana á stærstu framleiðslueiningu flutningskerfisins. Skilgreiningu reiðuafls er að finna í skilmálum Landsnets.

Gjöld og skilmálar greiðslna
    Félagið mun sjá til þess að Landsneti verði greidd flutningsgjöld umsaminnar raforku samkvæmt gildandi gjaldskrá og skilmálum Landsnets (útgefnum og staðfestum af Orkustofnun) fyrir flutning raforku til stórnotenda.

Mælingar
    Umsamin raforka sem afhent er álverinu skal mæld á inntakslínum afhendingarstaðar úttektar líkt og nánar er mælt fyrir um í samningnum. Aflestur á mælum Landsnets skal inntur af hendi af Landsneti, en mælt magn á meginraforkumælum Landsnets skal notað til gjaldtöku.

Almenn ákvæði
    Almenn ákvæði samningsins eru að mestu sambærileg því sem tíðkast hefur í samningum um orkusölu til álversins á Grundartanga hingað til.
    Í samningnum er mælt fyrir um að eigið fé félagsins skuli ávallt vera yfir ákveðnu hlutfalli af bókfærðu virði heildareigna á samningstíma og ekki minna en 150 milljónir bandaríkjadala þegar álverið hefur náð 150 þúsund tonna árlegri framleiðslugetu, nema Landsnet samþykki annað.
    Gildistími samningsins er frá undirritun og í 25 ár frá afhendingardegi áfanga 1 að uppfylltum gildistökuskilyrðum samningsins. Þá er mælt fyrir um að er 20 ár verða liðin frá afhendingardegi áfanga 1 skulu samningsaðilar hafa lokið viðræðum varðandi framlengingu samningsins um ekki minna en 10 ár frá lokadegi hans, með skilmálum sem báðir aðilar geta fellt sig við.
    Efni samningsins, hvort heldur í heild eða hluta, eða sérhverjar upplýsingar um viðskipti, er trúnaðarmál og er samningsaðilum óheimilt er að upplýsa þriðja aðila um efni hans án fyrirfram skriflegs leyfis samningsaðila, nema slíkt efni sé opinberlega aðgengilegt.
    Í samningnum eru sett ákveðin skilyrði fyrir gildistöku hans, þ. á m. samþykki stjórnar Landsnets og stjórnar félagsins.
    Félaginu er heimilt að ákveða fyrir tilteknar dagsetningar hvort það heldur áfram með verkefnið, fresti því að hætti við það. Ákveði félagið að verkefninu skuli ekki áfram haldið fyrir þann dag fellur samningurinn úr gildi. Í því tilviki er mælt fyrir um endurgreiðslu kostnaðar Landsnets í tengslum við undirbúning og framkvæmdir við flutningskerfið en félaginu ber þá að sjá til þess að Landsneti verði greiddur uppsafnaður kostnaður á lokadegi. Ofangreindar bætur teljast endanlegar og eina úrræði Landsnets varðandi þetta tilvik. Ákveði Landsnet að halda áfram og ljúka framkvæmdum við flutningskerfið og nota undirbúnings- og byggingarframkvæmdir skal Landsnet endurgreiða félaginu kostnað í ákveðnum hlutföllum.


Fylgiskjal IX.


Starfsleyfi fyrir álver Norðuráls Helguvík sf.,
iðnaðarsvæðinu við Helguvík,
kt. 480207-2030.


    Gefið út af Umhverfisstofnun í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

1. ALMENN ÁKVÆÐI

1.1 Rekstraraðili
    Starfsleyfi þetta gildir fyrir Norðurál Helguvík s.f., kt. 480207-2030, til framleiðslu áls á iðnaðarsvæðinu við Helguvík. Komi nýr aðili að rekstri álversins getur hann sótt um að starfsleyfið verði fært yfir á hann, án þess að gefið verði út nýtt starfsleyfi, sbr. 27. gr. reglugerðar nr. 785/1999.
    Norðurál Helguvík sf. er hér eftir nefnt rekstraraðili.

1.2 Umfang starfseminnar
    Rekstraraðila er heimilt að framleiða allt að 250.000 tonn af áli á ári í kerskálum álversins, auk reksturs tilheyrandi málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir eigin framleiðsluúrgang, verkstæða og annarrar þjónustu fyrir eigin starfsemi.

1.3 Mengunarvarnir
    Rekstraraðila ber að uppfylla gildandi lög og reglugerðir á starfssviði sínu. Rekstraraðili skal nota bestu fáanlegu tækni (BAT) við mengunarvarnir og nýta orku vel. Þegar aðferðum er beitt við mengunarvarnir sem valda því að mengun færist á milli andrúmslofts, vatns og jarðvegs skal halda neikvæðum heildaráhrifum á umhverfið í lágmarki (samþættar mengunarvarnir). Tækninni hefur verið lýst í BREF 1 skjali um „non-ferrous“ málmiðnað, skv. ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins 96/61/EB um samþættar mengunarvarnir og eftirlit og verið skilgreind í tilmælum nr. 94/1 innan Parísarsamningsins um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum (PARCOM 2 ).

1.4 Breytingar á rekstri
    Rekstraraðili skal veita Umhverfisstofnun upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á atvinnurekstrinum með góðum fyrirvara áður en ráðist verður í þær sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 785/1999.

1.5 Gangsetning og stöðvun rekstrar
    Gera skal sérstaka áætlun um útblástur við gangsetningu, stöðvun eða bilanir í álverinu. Áætlunin skal lögð fyrir Umhverfisstofnun til yfirferðar og samþykktar a.m.k. einu ári fyrir gangsetningu álversins.
    Verði rekstri álversins eða verulegs hluta þess hætt tímabundið eða varanlega skal gera ráðstafanir til þess að úrgangi sé fargað á viðurkenndan hátt. Ganga skal frá húsnæði, tækjum og efnum í samræmi við fyrirframgerða áætlun. Áætlun um frágang vegna rekstrarstöðvunar skal skila til Umhverfisstofnunar eigi síðar en tólf mánuðum eftir gangsetningu álversins. Tilkynna skal eftirlitsaðila innan mánaðar um stöðvun rekstrar og ráðstafanir þar að lútandi.

1.6 Endurgangsetning rekstrar
    Tilkynna skal eftirlitsaðila þegar álverið eða einstakir kerskálar eru teknir í notkun aftur ef starfsemin hefur legið niðri í meira en mánuð.

1.7 Þynningarsvæði vegna loftmengunar
    Þynningarsvæði, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði, er tilgreint á uppdrætti í viðauka 1. Umhverfismörk fyrir flúoríð eru sett 0,3 .g/m 3 af vetnisflúoríði sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert.

1.8 Endurskoðun starfsleyfis
    Endurskoða skal starfsleyfið að jafnaði á fjögurra ára fresti sbr. 20. gr. reglugerðar, nr. 785/1999. Komi í ljós við endurskoðun að nauðsynlegt reynist að gefa út nýtt starfsleyfi skal fara eftir þeim reglum sem gilda um ný starfsleyfi.

1.9 Breyttar forsendur
    Ef mengun af völdum starfseminnar er meiri en gert er ráð fyrir við gerð starfsleyfisins, fram koma nýjar reglur um mengunarvarnir, eða ef breytingar verða á bestu fáanlegu tækni, skal rekstraraðili, í samráði við Umhverfisstofnun, hrinda í framkvæmd tímasettri áætlun um að draga úr mengun eins og kostur er. Ef áætlunin skilar ekki tilætluðum árangri getur Umhverfisstofnun krafist frekari aðgerða til úrbóta og endurskoðunar starfsleyfisins sbr. 21. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Rekstraraðili skal sækja um nýtt starfsleyfi ef nauðsyn krefur að mati Umhverfisstofnunar, skv. 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar.

1.10 Upplýsingaréttur almennings
    Almenningur á rétt á aðgengi að upplýsingum um starfsleyfi og starfsleyfisumsókn í samræmi við ákvæði XI. kafla reglugerðar nr. 785/1999, og upplýsingum um mengunarvarnaeftirlit í samræmi við VI. kafla reglugerðar nr. 786/1999, um mengunarvarnaeftirlit.

2. VARNIR GEGN MENGUN YTRA UMHVERFIS

LOFT

2.1 Rafgreining
    Rekstraraðili skal gera ráðstafanir til að draga úr losun mengunarefna. Rafgreiningarker skulu búin þéttum þekjum og nægilega skilvirku afsogi til að draga úr því eftir því sem unnt er að kergas sleppi út í kerskálana. Hönnun á þekjum og afsogsbúnaði frá rafgreiningarkerum og skipulag við opnun kera skal miða við að minna en 1% af kergasi sleppi út í kerskála. Einungis skulu notuð forbökuð rafskaut í rafgreiningarkerum.

2.2 Kerrekstur
    Súrálsflutningur, mötun á ker og fjöldi spennurisa skal vera með þeim hætti að ryk og kergas sem sleppur út í kerskála verði í lágmarki. Miða skal við að spennuris sé undir 0,1 á hvern kerdag miðað við 12 mánaða meðaltal.

2.3 Hreinsun kergass
    Ryk og loftkennt flúoríð í afsogslofti frá rafgreiningarkerum skal hreinsað í þurrhreinsibúnaði með súráli og pokasíum. Súrál frá pokasíu skal notað til vinnslu í rafgreiningarkerum. Hönnun hreinsistöðva skal vera með þeim hætti að hreinsun uppfylli ákvæði greinar 2.5 jafnvel þótt ein eining hreinsistöðvar sé tekin úr sambandi. Reyksöfnunarkerfið skal hannað þannig að afsog eykst frá kerum þegar kerþekja er opnuð.

2.4 Ryk
    Hönnun búnaðar skal miða við að rykmagn í útblásturslofti, sem berst út í andrúmsloftið frá tilteknum uppsprettum, að undanskildum útblæstri frá kerskálum og þurrhreinsibúnaði, þar sem ákvæði greinar 2.5 gilda, verði minna en 50 mg/Nm 3 miðað við klukkustundar meðalgildi og eðlilegt loftmagn frá viðkomandi starfsemi.

2.5 Losunarmörk
    Eftir fyrsta starfsár hvers áfanga skal magn mengunarefna í útblásturslofti (hreinsuðu gasi frá kerum og ræstilofti frá kerskála) ekki vera yfir neðangreindum mörkum miðað við heildarframleiðslu álversins:

Mengunarefni Ársmeðaltal
kg/t Al
Mánaðarmeðaltal
kg/t Al
Heildarflúoríð 0,45 0,8
Ryk 1,0 1,3
Brennisteinsdíoxíð 18 18

    Losun flúorkolefna skal vera innan við 0,14 tonn af koldíoxíðígildum á framleitt tonn af áli mælt sem ársmeðaltal frá og með fjórða framleiðsluári hvers áfanga. Fyrstu þrjú framleiðsluár hvers áfanga skal losunin vera innan við 0,20 tonn af koldíoxíðígildum á framleitt tonn af áli mælt sem meðaltal þeirra þriggja ára. Hámarkslosun fyrstu þriggja ára fyrsta áfanga skal þó vera 0,28 tonn af koldíoxíðígildum á framleitt tonn á ári að meðaltali.

2.6 Gangsetning kera eftir fyrsta rekstrarár
    Útblástur skal ætíð vera í samræmi við ofangreind mörk við reglubundna endurnýjun og gangsetningu kera. Gangsetning kera skal vera í samræmi við áætlun þar að lútandi, sbr. grein 1.5.

2.7 Reykháfur
    Útblástur úr hreinsibúnaði álvers skal leiddur út um reykháfa. Hæð reykháfa, útblásturshraði og hitastig í reykháfum skal vera nægilega hátt til að tryggja að ákvæði um loftgæði og þynningarsvæði séu uppfyllt.

2.8 Önnur losun til andrúmslofts
    Losun lífrænna efna skal eftir því sem við á vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 255/2002, um takmörkun á útstreymi rokgjarnra lífrænna efna vegna notkunar á lífrænum leysiefnum í tiltekinni starfsemi.
    Mengun sem getur borist langar leiðir eða til annarra landa skal haldið í lágmarki.
    Löndunar- og flutningskerfi fyrir súrál til kerskála álversins skal vera lokað með ryksöfnunarbúnaði við tengipunkta þannig að súrálsryk sem berst út í umhverfið sé í lágmarki. Uppskipun á öðrum efnum skal fara fram í samræmi við gildandi reglur um meðhöndlun slíkra efna.

VATN

2.9 Almennt
    Heimilt er að setja kælivatn frá afriðlum, vélbúnaði og steypuskála og hreinsað húsaskólp auk yfirborðsvatns í fráveitu frá framleiðslusvæðinu.

2.10 Fráveita
    Fráveitur skulu vera í samræmi við kröfur í reglugerð nr. 798/1999, um fráveitur og skólp, ákvæði í lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, og þannig að ákvæði reglugerðar nr. 796/1999, um varnir gegn mengun vatns, séu uppfyllt. Þar sem unnið er með olíur skal fráveita eftir því sem kostur er vera lokuð. Forvarnir gegn olíumengun skulu vera samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 35/1994, um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.

2.11 Olíuskilja
    Frárennsli sem getur innihaldið olíu eða önnur olíukennd efni skal leitt í olíuskilju. Styðjast skal við gildandi staðla um olíuskiljur varðandi frágang, eftirlit og viðhald. Stærð og gerð olíuskilja skal miðast við að olía í fráveituvatni sé að hámarki 15 mg/l. Aðstaða skal vera til að taka sýni af fráveituvatni þar sem það kemur úr olíuskiljum.

2.12 Seyra
    Seyru og annan úrgang frá hreinsibúnaði fráveitu skal endurvinna eða fjarlægja eftir þörfum og koma til viðurkennds endurvinnslu- eða förgunarstaðar í samræmi við kröfur laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

2.13 Yfirborðsvatn
    Yfirborðsvatn frá svæðum þar sem líklegt er talið að mengunarefni geti borist í vatn skal leitt um sandföng og olíuskiljur.

2.14 Kælikerfi
    Leita ber samþykkis Umhverfisstofnunar fyrir efnasamböndum sem innihalda hættuleg efni og rekstraraðili hyggst nota í kælikerfum álversins. Sjó má hafa í kælikerfum og til annarra sambærilegra iðnaðarnota og veita aftur í hafið, enda séu uppfyllt ákvæði greinar 2.15 og aðrar losunarkröfur varðandi aukið magn annarra efna í viðtaka.

2.15 Kælivatn
    Kælivatn frá kælikerfum má leiða til sjávar og skal það uppfylla eftirfarandi kröfur eftir meðhöndlun:

Efnisþáttur Hámarksstyrkur
Olía og fita 15 mg/l
Ál 20 mg/l
Flúoríð 50 mg/l
Svifagnir 50 mg/l

ÚRGANGUR

2.16 Almennt
    Rekstraraðili skal skrá allan úrgang sem til fellur við framleiðsluna, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 184/2002, um skrá yfir spilliefni og annan úrgang. Stuðla skal að nýtingu endurnýtanlegs hluta úrgangs, svo sem brotajárns, einangrunar úr kerum, bakskauta, forskauta, kolefnisríks ryks og úrgangs sem inniheldur ál í miklum mæli.

2.17 Förgun framleiðsluúrgangs
    Rekstaraðila er heimilt að farga í flæðigryfjur með útskolun sigvatns í sjó úrgang sem flokkast undir eftirtalin númer samkvæmt reglugerð nr. 184/2002;
     a.      fóðringar og eldföst efni (16.11.00),
     b.      gjall frá frumframleiðslu (10.03.04–10.03.05),
     c.      skánir (10.03.15–10.03.16),
     d.      kolaryk (10.03.18),
     e.      aðrar agnir (10.03.22).
    Meðhöndlun og frágangur úrgangs í flæðigryfjum skal vera í samræmi við aðlögunaráætlun og áhættumatsgreiningu, sem unnin er í samræmi við 25. gr. reglugerðar nr. 738/2003, um urðun úrgangs, og lið 3.4 í viðauka I í sömu reglugerð.

2.18 Flæðigryfjur
    Staðsetning flæðigryfja skal ákveðin í samráði við Umhverfisstofnun, bæjarstjórn/-ir og hafnaryfirvöld á staðnum. Flæðigryfja skal varin ágangi sjávar. Þegar förgun er lokið skal hylja úrgang með skeljasandi og þekjuefni sem fellur inn í umhverfið. Úrgang sem getur dreifst með vindi skal þekja án tafar eða farga með öðrum hætti. Hindra skal aðgang almennings að förgunarstað.

2.19 Annar úrgangur
    Almennan framleiðsluúrgang, sorp og umbúðir skal endurvinna eða skila á viðurkennda móttökustöð fyrir úrgang. Urðun, önnur en tilgreind er í grein 2.17, og brennsla hvers konar úrgangs á verksmiðjusvæðinu er óheimil.

2.20 Spilliefni
    Spilliefnum, öðrum en þeim sem tilgreind eru í grein 2.17, og verða til við vinnsluna eða starfsemi henni tengdri skal skila til viðurkenndrar spilliefnamóttöku.

ANNAÐ

2.21 Hávaði
    Rekstraraðlili skal draga úr hávaða frá starfseminni eins og kostur er, meðal annars með reglulegum úrbótaverkefnum og tryggja að hávaði frá iðnaðarstarfseminni sé í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 724/2008, um hávaða. Hávaði á lóð álversins fyrir utan húsvegg skal ekki fara yfir 70dB (A) og reiknað hljóðstig í íbúðabyggð skal uppfylla ákvæði reglugerðar um hávaða.

2.22 Geymsla hráefna
    Hráefni álversins skulu geymd í lokuðum geymslum. Geymsla lofttegunda skal vera í samræmi við sérstakar öryggisáætlanir til að lágmarka hættu á mengun andrúmslofts. Eldsneyti skal geymt í tönkum með lekavörn sem uppfyllir ákvæði reglugerðar nr. 35/1994, um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.

2.23 Geymsla utan dyra
    Öll geymsla hráefna og framleiðsluvöru utan dyra skal vera á afgirtu svæði þar sem aðgangur óviðkomandi er bannaður.

2.24 Skráning efna, leyfisveitingar og mat
    Rekstraraðili skal vinna samkvæmt lögum nr. 45/2008, um efni og efnablöndur. Þannig skal rekstraraðili sjá til þess að öll efni sem notuð eru eða framleidd séu skráð og uppfylli ákvæði reglugerðar nr. 750/2008, um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH), sbr. þó þær undantekningar um skráningar sem þar gilda.

3. INNRA EFTIRLIT FYRIRTÆKISINS

3.1 Mælingar og upplýsingagjöf
    Rekstraraðili skal útbúa vöktunaráætlun um mælingar útblásturs, frárennslis og hljóðstigs frá álverinu. Endanleg áætlun skal kynnt Umhverfisstofnun a.m.k. einu ári fyrir gangsetningu álvers og er háð samþykki Umhverfisstofnunar. Áætlunin skal ná yfir alla þá þætti sem tilgreindir eru í greinum 2.2, 2.4, 2.5, 2.11, 2.15, 2.17 og 2.21 ásamt öðrum þáttum sem kunna að hafa marktæk áhrif á styrk efna í umhverfinu. Drög að áætlun eru í viðauka 2.
    Mæliáætlun og mæliaðferðir skulu endurskoðaðar í fyrsta sinn þegar eitt ár er liðið frá því að mælingar hófust og síðan hvenær sem rekstraraðili eða Umhverfisstofnun óska eftir slíkri endurskoðun.
    Rekstraraðili skal, í samvinnu við Umhverfisstofnun, gera yfirlit yfir þær hávaðauppsprettur sem kunna að valda hávaða yfir leyfilegum mörkum, sbr. grein 2.21, utan iðnaðarsvæðisins í Helguvík. Kortlögð skal dreifing hávaða frá starfseminni í samræmi við framangreint yfirlit. Ef gerðar verða meiriháttar breytingar á rekstri sem geta haft áhrif á hávaða frá álverinu, skal endurmeta dreifingu hans.

3.2 Skráningar
    Rekstraraðili skal hafa eftirlit með rekstrarþáttum sem geta haft í för með sér mengun eða losun efna út í umhverfið. Skrá skal reglulega upplýsingar um eftirfarandi atriði og skulu skráningar vera aðgengilegar eftirlitsaðila:
     *      viðhald, eftirlit og bilanir í mengunarvarnabúnaði,
     *      mengunaróhöpp og viðbrögð við þeim,
     *      tæmingu olíugildra og setþróa ásamt staðfestingu á förgun efnis úr þeim,
     *      niðurstöður mengunarmælinga sem krafist er samkvæmt grein 3.1,
     *      prófun og kvörðun mælibúnaðar,
     *      efnainnihald hráefna og eldsneytis,
     *      magn og tegund úrgangs sem fer til endurnýtingar/endurvinnslu eða förgunar,
     *      niðurstöður hávaðamælinga.

3.3 Framkvæmd mælinga
    Rekstraraðili skal kosta og ábyrgjast framkvæmd mælinga, sem kveðið er á um í starfsleyfi þessu.

3.4 Prófun og kvörðun vöktunarbúnaðar
    Sjálfvirkur vöktunarbúnaður fyrir losun í andrúmsloft skal sæta eftirliti og gangast undir árlegar eftirlitsprófanir. Kvörðun samkvæmt tilvísunaraðferðum eða samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda vöktunarbúnaðar skal fara fram samhliða mælingum á a.m.k. þriggja ára fresti.

3.5 Grænt bókhald
    Rekstraraðili skal færa grænt bókhald í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 851/2002, um grænt bókhald.
    Rekstraraðili skal færa útstreymisbókhald í samræmi við reglugerð nr. 322/2002, um útstreymisbókhald.
    Skila skal árlega niðurstöðum bókhaldsins til Umhverfisstofnunar í samræmi við ákvæði viðeigandi reglugerða.

4. EFTIRLIT, STARFSHÆTTIR OG UMHVERFISMARKMIÐ

4.1 Starfshættir
    Rekstraraðili skal kappkosta að dregið verði sem mest úr því álagi á umhverfið sem starfsemi álversins veldur, þ.m.t. starfshættir, hávaði, öll meðferð úrgangs og förgun. Rekstraraðili skal stuðla að góðri nýtingu efna og því að losun mengunarefna frá álverinu verði eins lítil og kostur er.

4.2 Samskipti
    Sérstakur fulltrúi rekstraraðila skal vera tengiliður og bera ábyrgð á samskiptum rekstraraðila við Umhverfisstofnun hvað varðar eftirlit með mengunarvörnum innan fyrirtækisins. Rekstraraðili skal tilnefna fulltrúa sem eftirlitsaðili getur haft samband við utan hefðbundins vinnutíma ef þörf krefur.

4.3 Umhverfisstjórnun og markmið
    Rekstraraðili skal setja sér umhverfismarkmið og starfa samkvæmt þeim. Velja má staðlað umhverfisstjórnunarkerfi, t.d. ÍST EN ISO 14001:1996 eða þátttöku í umhverfismálakerfi ESB sbr. reglugerð nr. 990/2005, um frjálsa þátttöku iðnfyrirtækja í umhverfismálakerfi ESB, eða starfa samkvæmt eigin kerfi.

4.4 Viðbragðsáætlanir
    Rekstraraðili skal hafa tiltækar viðbragðsáætlanir til þess að taka á hugsanlegri hættu vegna bráðamengunar sjávar og andrúmslofts. Tryggja skal að starfsfólk hafi fullnægjandi þekkingu á eitrunarhættu og eiginleikum þeirra efna sem það vinnur með og skulu upplýsingar þar að lútandi ávallt vera tiltækar. Viðbragðsáætlunin skal vera aðgengileg eftirlitsaðila.

4.5 Tilkynning vegna mengunarslysa
    Verði óhapp eða slys sem hefur í för með sér losun mengandi efna út í umhverfið skal þegar í stað grípa til aðgerða skv. viðbragðsáætlun, sbr. grein 4.4, til þess að fyrirbyggja að mengun valdi skaða á umhverfi. Verði bilun í mengunarvarnabúnaði skulu þegar í stað hafnar nauðsynlegar lagfæringar. Ef þurrhreinsibúnaður stöðvast í meira en 1 klukkustund skal fylgja samþykktri áætlun um útblástur við gangsetningu, stöðvun eða bilanir í álverinu, sbr. grein 1.5. Tilkynna skal um slík óhöpp eða slys í samræmi við viðbragðsáætlun sbr. grein 4.4.

4.6 Tryggingar
    Rekstraraðili skal taka ábyrgðartryggingu eða leggja fram aðra fullnægjandi tryggingu sem Umhverfisstofnun metur gilda, allt að 1 milljón SDR, sbr. ákvæði 16. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda.

4.7 Eftirlit
    Umhverfisstofnun hefur eftirlit með starfsemi rekstraraðila. Umhverfisstofnun getur falið öðrum framkvæmd hluta eftirlits í samræmi við ákvæði greina 7.4 og 9.1 í reglugerð nr. 786/1999, um mengunarvarnaeftirlit.

4.8 Breytingar á mælingum
    Eftirlitsaðili getur, telji hann ástæðu til, farið fram á tíðari mengunarmælingar eða efnagreiningar eða heimilað að dregið verði úr tíðni mælinga eftir því sem við á.

4.9 Samráðsfundur
    Rekstraraðili boðar árlega fulltrúa Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja á samráðsfund. Fyrir fundinn skal rekstraraðili leggja fram yfirlit eða ársskýrslu um þau atriði sem fjallað er um í grein 3.1, 3.2, 3.5, 4.1 og kafla 5. Á þessum fundum verði m.a. rætt um rekstur mengunarvarna, niðurstöður mengunarmælinga, hugsanlega endurskoðun á starfsleyfi þessu svo og önnur atriði er kynnu að hafa komið upp og fulltrúar áðurnefndra aðila telja ástæðu til þess að ræða. Ofangreindir aðilar geta boðað til samráðsfundar oftar ef ástæða er til.

4.10 Aðrar skýrslur til eftirlitsaðila
    Rekstraraðili skal ársfjórðungslega senda Umhverfisstofnun niðurstöður mælinga og útreikninga í útblæstri í samræmi við grein 3.1. Einnig skal senda Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja afrit af öllum skýrslum og tilkynningum samkvæmt starfsleyfi þessu.

5. UMHVERFISVÖKTUN

5.1 Bakgrunnsmælingar
    Framkvæma skal bakgrunnsrannsóknir og meta ástand umhverfisins áður en rekstur álversins hefst samkvæmt sérstökum samningi milli Umhverfisstofnunar og hlutaðeigandi iðnrekenda á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

5.2 Vöktunarmælingar
    Rekstraraðili skal standa fyrir mælingum á helstu umhverfisþáttum í nágrenni álversins eftir gangsetningu í þeim tilgangi að meta það álag á umhverfið sem starfsemin veldur. Slíkar mælingar skulu gerðar samkvæmt áætlun sem rekstraraðili leggur fyrir Umhverfisstofnun til yfirferðar og samþykktar.
    Í áætluninni skal m.a. kveðið á um eftirlit með heilsufari grasbíta sem dvelja innan þynningarsvæðis og mælingar á flúor í gróðri á nánar tilgreindum stöðum innan svæðisins. Þá skal fylgjast með loftgæðum, úrkomu, veðurfari, mengun í tjörnum, gróðri, beitargróðri og heyi, jarðvegi og jarðvatni, sjávarseti og sjávarlífverum.

5.3 Aðrar rannsóknir
    Aðrar mælingar eða rannsóknir til samanburðar við bakgrunnsrannsóknir sem taldar eru nauðsynlegar af Umhverfisstofnun og rekstraraðila skulu framkvæmdar samkvæmt sérstökum samningi milli þessara aðila.

5.4 Skýrslugjöf
    Rekstraraðili skal fyrir 1. maí árlega senda Umhverfisstofnun skýrslu um umhverfisvöktun næsta árs á undan samkvæmt greinum 5.2 og 5.3.

5.5 Kostnaður
    Rekstraraðili skal greiða allan kostnað við rannsóknir á mengun í nágrenni álversins samkvæmt 5. kafla eða sinn hluta af kostnaðinum ef önnur fyrirtæki á svæðinu valda samskonar mengun. Mælingar skulu vera í höndum rekstraraðila eða aðila sem rekstraraðili tilnefnir og Umhverfisstofnun samþykkir.

6. GJALDSKYLDA

    Starfsemi þessi er flokkuð í 1. eftirlitsflokk skv. viðauka 1 í reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Rekstraraðili greiðir Umhverfisstofnun gjald vegna útgáfu og kynningar starfsleyfisins og greiðir eftirlitsaðila gjald vegna reglubundins eftirlits skv. gjaldskrá Umhverfisstofnunar. Gjald vegna viðbótareftirlits, svo sem vegna vanefnda eða rökstuddra kvartana, greiðist sérstaklega samkvæmt gjaldskrá.

7. GILDISTAKA.

    Starfsleyfi þetta, sem er veitt samkvæmt reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, öðlast þegar gildi, og gildir til 31. desember 2024.

Reykjavík 10. september 2008
Umhverfisstofnun


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI 1: Þynningarsvæði í Helguvík


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


VIÐAUKI 2: Áætlun um mælingar á útblæstri og frárennsli álvers Norðuráls í Helguvík.

Mengunarefni Mælistaður Tímabil meðaltals Mælieining Tíðni sýnatöku
Loftkennt flúoríð Hreinsað gas í reykháfi Mánuður kg/t Al Stöðug í reykháfi frá hreinsivirki
Flúoríð í ryki Hreinsað gas í reykháfi Árleg marktæk mæling kg/t Al Árleg úr reykháfi, nægilega stór sýnaröð til að fá tölfræðilega marktækt gildi
Ryk Hreinsað gas í reykháfi Mánuður kg/t Al Stöðug í reykháfi frá hreinsivirki
Brennisteinsdíoxíð Hreinsað gas í reykháfi Mánuður kg/t Al Stöðug í reykháfi frá hreinsivirki
Loftkennt flúoríð Ræstiloft frá kerskála Mánuður kg/t Al Samfelld mæling á dæmigerðum stöðum
Flúoríð í ryki Ræstiloft frá kerskála Árleg marktæk mæling kg/t Al Árleg, nægilega mörg sýni til að fá tölfræðilega marktækt gildi
Ryk Ræstiloft frá kerskála Árleg marktæk mæling kg/t Al Árleg, nægilega mörg sýni til að fá tölfræðilega marktækt gildi
Ryk, annað en frá þurrhreinsibúnaði Tilteknar uppsprettur Marktæk mæling mg/Nm3 Óregluleg
Olía Kælivatn frá afriðlum og steypuskála Marktæk mæling mg/l Tvisvar á áriFylgiskjal X.


ÁLVER Í HELGUVÍK,
ÁRSFRAMLEIÐSLA ALLT AÐ 250.000.
Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.


HELSTU NIÐURSTÖÐUR
    Skipulagsstofnun telur að áhrif álverksmiðju í Helguvík á vinnumarkað komi að miklu leyti til með að ráðast af stöðu atvinnumála á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild bæði á byggingartíma og þegar rekstur hefst.
    Skipulagsstofnun telur að sú ráðstöfun að farga kerbrotum í flæðigryfju í Selvík sé ásættanleg lausn.
    Skipulagsstofnun telur þá niðurstöðu framkvæmdaraðila að notast eingöngu við þurrhreinsun ásættanlega.
    Skipulagsstofnun bendir á að ráðgert er að fá efni til grófjöfnunar lóðar álversins frá framkvæmdum við stækkun Helguvíkurhafnar og því þurfi áform um stækkun hafnarinnar að vera skýr áður en framkvæmdir við byggingu álversins verða leyfðar.
    Skipulagsstofnun bendir á að þeir virkjunarkostir sem Hitaveita Suðurnesja hyggist nýta vegna fyrsta áfanga álversins eiga eftir að fara í umfjöllun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og suma á einnig eftir að fjalla um samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Sveitarfélögin þurfi að huga vel að þessari stöðu þegar kemur að leyfisveitingum.
    Skipulagsstofnun telur að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggur fyrir.
    Fyrirhugaður rekstur Norðuráls Helguvík sf. er háður 7. gr. laga nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda. Skipulagsstofnun telur því að áður en Norðuráli Helguvík sf. verður veitt framkvæmda- og byggingarleyfi þurfi að liggja fyrir hvort fyrirtækið fær þá losunarheimild sem það þarf eða hafi sýnt veitanda losunarheimilda fram á hvernig losun gróðurhúsalofttegunda verði mætt.
    Skipulagsstofnun telur að fyrirhugað álver Norðuráls Helguvík sf., með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.

Reykjavík, 4. október 2007


1     INNGANGUR
1.1     ATHUGUN SKIPULAGSSTOFNUNAR
    Þann 14. maí 2007 sendi Norðurál Helguvík sf. frummatsskýrslu um byggingu og rekstur álvers í Helguvík, með allt að 250.000 tonna ársframleiðslu í Sveitarfélaginu Garði og Reykjanesbæ til athugunar hjá Skipulagsstofnun, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b.
    Framkvæmdin og frummatsskýrslan voru auglýst opinberlega þann 16. maí 2007 í Lögbirtingablaðinu, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Einnig í Tíðindum og Víkurfréttum þann 17. maí. Frummatsskýrsla lá frammi til kynningar frá 16. maí til 28. júní 2007 á skrifstofu sveitarfélagsins Garðs, bæjarskrifstofu Reykjanesbæjar, bókasafni Gerðahrepps, bókasafni Reykjanesbæjar, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, og hjá Skipulagsstofnun. Frummatsskýrslan var einnig aðgengileg á Netinu:www.hrv.is og www.nordural.is. Skipulagsstofnun leitaði umsagnar Reykjanesbæjar, Sveitarfélagsins Garðs, Byggðastofnunar, Fornleifaverndar ríkisins, Hafrannsóknastofnunarinnar, iðnaðarráðuneytis, Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, Siglingastofnunar, Skipulags- og byggingarnefndar varnarsvæða, Umhverfisstofnunar og Veðurstofu Íslands. Á kynningartíma bárust Skipulagsstofnun 12 athugasemdir. Skipulagsstofnun sendi umsagnir og athugasemdir til Norðuráls Helguvík sf.
    Þann 3. september 2007 sendi Norðurál Helguvík sf. matsskýrslu um álver í Helguvík með allt að 250.000 tonna ársframleiðslu, í Sveitarfélaginu Garði og Reykjanesbæ, til Skipulagsstofnunar og óskað eftir áliti stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

1.2     GÖGN LÖGÐ FRAM VIÐ ATHUGUN SKIPULAGSSTOFNUNAR
Frummatsskýrsla.
Álver í Helguvík. Ársframleiðsla allt að 250.000 tonn. Sveitarfélagið Garður og Reykjanesbær. Frummatsskýrsla maí 2007. Norðurál Helguvík sf., ráðgjafafyrirtækið HRV.

Önnur gögn: Sérfræðiskýrslur.
Viðauki 1: Umhverfisstofnun, 2007. Drög að tillögu að starfsleyfi.
Viðauki 2: Vatnaskil, 2006. Dreifingarspá fyrir fyrirhugað álver í Helguvík.
Viðauki 3: Vatnaskil, 2006. Dreifing mengunarefna í Faxaflóa frá vothreinsibúnaði fyrirhugaðs álvers í Helguvík.
Viðauki 4: Hönnun, 2006. Hljóðvist umhverfis álver í Helguvík.
Viðauki 5: HRV, 2006. Úttekt á samfélagslegum áhrifum fyrirhugaðs álvers í Helguvík.
Viðauki 6: Fornleifastofnun Íslands, 2006. Fornleifakönnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Helguvík.
Viðauki 7: Þund og HRV, 2007. Gróðurrannsóknir við Helguvík.
Viðauki 8: Líffræðistofnun Háskólans, 2007. Könnun á lífríki á klapparbotni neðansjávar í Helguvík.
Viðauki 9: HRV og Norðurál, 2007. Áhættumat vegna fyrirhugaðrar flæðigryfju Norðuráls í Selvík.

Umsagnir bárust frá:
     *      Sveitarfélaginu Garði með bréfi dags. 7. júní 2007.
     *      Reykjanesbæ með bréfi dags. 8. júní 2007.
     *      Byggðastofnun með bréfi dags. 8. júní 2007.
     *      Fornleifavernd ríkisins með bréfi dags. 11. júní 2007.
     *      Hafrannsóknastofnuninni með bréfi dags. 11. júní 2007.
     *      Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja með bréfi dags. 29. júní 2007.
     *      Iðnaðarráðuneytinu með bréfi dags. 26. júní 2007.
     *      Siglingastofnun með bréfi dags. 30. maí 2007.
     *      Skipulags- og byggingarnefnd varnarsvæða með bréfi dags. 11. júlí 2007.
     *      Umhverfisstofnun með bréfi dags. 27. júní 2007.
     *      Veðurstofu Íslands með bréfi dags. 19. júní 2007.

Athugasemdir gerðu 12 aðilar:
     *      Anna Ágústsdóttir með bréfi dags. 28. júní 2007.
     *      Atvinnulífshópur Framtíðarlandsins með bréfi dags. 29. júní 2007.
     *      Daði Þorbjörnsson og Kai Westphal með bréfi dags. 29. júní 2007.
     *      Elvar Geir Sævarsson og Guðbjörg R. Jóhannesdóttir með bréfi dags. 28. júní 2007.
     *      Ingimundur Þór Þorsteinsson með bréfi dags. 23. júní 2007.
     *      Landvernd með bréfi dags. 29. júní 2007.
     *      Maria Elvira Méndez með bréfi dags. 27. júní 2007.
     *      Mission ehf. með bréfi dags. 23. júní 2007.
     *      Náttúruverndarsamtök Íslands með bréfi dags. 28. júní 2007.
     *      Sesselja Traustadóttir með bréfi dags. 28. júní 2007.
     *      Sigurður Hreinn Sigurðsson með bréfi dags. 27. júní 2007.
     *      Sunna Sigurðardóttir með bréfi dags. 28. júní 2007.

Matsskýrsla: Álver í Helguvík. Ársframleiðsla allt að 250.000 tonn. Sveitarfélagið Garður og Reykjanesbær. Ágúst 2007. Norðurál Helguvík sf., ráðgjafafyrirtækið HRV.

Önnur gögn: Sömu sérfræðiskýrslur fylgdu sem viðaukar við matsskýrslu og fylgdu frummatsskýrslu.

2     FRAMKVÆMD OG MARKMIÐ
    Fyrirhugað er að reisa nýtt álver Norðuráls í Helguvík með framleiðslugetu allt að 250.000 tonn af áli á ári. Álverið verður að stærstum hluta í landi Sveitarfélagsins Garðs, en hluti athafnasvæðis og nokkur mannvirki verða innan bæjarmarka Reykjanesbæjar. Í matsskýrslu eru lagðir fram tveir kostir við hreinsun útblásturs frá álverinu. Kostur Norðuráls Helguvík sf. er að nota eingöngu þurrhreinsun, en einnig er lagður fram sá kostur að nota vothreinsibúnað til viðbótar þurrhreinsibúnaði. Ráðgert er að farga kerbrotum í flæðigryfju í Selvík en jafnframt hefur verið skoðað hvort farga megi kerbrotum út af Hólmsvelli í Leiru. Umfjöllun um förgun kerbrota í matsskýrslu miðar að gerð flæðigryfju í Selvík en komi til að flæðigryfja fyrir förgun kerbrota verði staðsett utan Hólmsvallar í Leiru, mun sú framkvæmd verða tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. lið 13a í 2. viðauka laga nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum. Álverið verður byggt í áföngum og er gert ráð fyrir að undirbúningsframkvæmdir vegna fyrsta áfanga, með allt að 150.000 tonna framleiðslu, hefjist 2007 og verði hann gangsettur seinni hluta ársins 2010. Ákvörðun um aðra áfanga ræðst af orkuöflun til álversins en hugsanlega verður ráðist í framkvæmdir við annan áfanga í beinu framhaldi af gangsetningu fyrsta áfanga og yrði framkvæmdum þá lokið árið 2013 eða síðar.
    Samkvæmt matsskýrslu þarf um 70.000 m 2 svæði undir aðstöðu á framkvæmdatíma, en að honum loknum er gert ráð fyrir um 10–15.000 m 2 landssvæði undir mannvirki og starfsemi álversins. Helstu mannvirki álversins verða: kerskálar, tvö 60 m há súrálssíló, tvær hreinsivirkisbyggingar með 45 m háum reykháfum, 15 m hár steypuskáli, 15 m há skautsmiðja og þjónustu – og skrifstofubyggingar. Fyrirkomulag kerskála verður háð þeirri tækni sem valin verður. Annað hvort verður ein röð af kerjum í tveimur 17 m háum og 800 m löngum kerskálum eins og gert er ráð fyrir í matsskýrslu, eða tvær raðir í einum breiðari kerskála. Einnig er gert ráð fyrir um 1200 m löngu færibandi frá súrálssílóum að daggeymi. Þá er ráðgert að farga kerbrotum í flæðigryfju í Selvík. Gryfjan verður afmörkuð með grjótgarði og við urðun kerbrota innan hans verður til um 2,25 ha landfylling.

2.1 KOSTIR
    Í matsskýrslu er aðeins lagður fram einn staðsetningarkostur fyrir álverið, kostur A, þar sem gert er ráð fyrir að megin mannvirki verði innan Sveitarfélagsins Garðs.
    Kynntir eru kostir B og C sem fjallað var um í matsáætlun og rökstutt hvers vegna fallið er frá þeim. Í matsáætlun var álverið annars vegar staðsett norðvestan við núverandi hafnarbakka í Helguvík, hornrétt á ströndina (kostur C) og hins vegar þar sem álverinu hafði verið snúið 90° og var þá samsíða ströndinni (kostur B). Fallið var frá kosti C vegna þess hve þröngt yrði um álverið innan um núverandi fyrirtæki á svæðinu auk takmörkunar á lengd lóðar vegna kirkjugarðsins í vesturjaðri svæðisins. Kostur B var skoðaður nánar í umhverfismati aðalskipulagsbreytinga og hann borinn saman við nýjan kost, enn norðar (kostur A).
    Niðurstaða samanburðar við breytingar á aðalskipulagi sveitarfélaganna var sú að kostur A kom betur út m.t.t. hagsmuna framkvæmdaraðila og umhverfissjónarmiða. Fyrst og fremst yrði rýmra um allar byggingar álversins sem auðvelda myndi alla hönnun og skipulagningu við fyrirkomulag mannvirkja en einnig yrði meiri fjarlægð frá íbúðarbyggð Reykjanesbæjar m.t.t. loftmengunar, sjónrænna áhrifa og hljóðvistar.
    Samkvæmt matsáætlun var fyrirhugað að urða kerbrot í flæðigryfju í Stakksvík sunnan Hólmsbergsvita. Fallið var frá því þegar í ljós kom að Stakkur fellur undir bæjarvernd samkvæmt aðalskipulagi Reykjansbæjar og einnig vegna þess að Stakksvík er opnari en Selvík, sem er sá kostur sem kynntur er í matsskýrslunni.

3     NIÐURSTAÐA UM MAT Á UMHVERFISÁHRIFUM
3.1     ÁHRIF Á MENN OG SAMFÉLAG
3.1.1     Áhrif á vinnumarkað og sveitarfélög
    Í matsskýrslu kemur fram að á heildina litið skapi fyrirhuguð bygging álversins um 1.800 ársverk eða 225–300 verk á ári á 6–8 ára framkvæmdatíma. Búast megi við tímabundinni spennu á atvinnumarkaði á framkvæmdatíma en áfangaskipting og langur framkvæmdatími slái hins vegar á möguleg þensluáhrif á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að starfsmenn við bygginguna ferðist til vinnu á hverjum degi, svipað og raunin hafi verið við uppbyggingu álvers Norðuráls á Grundartanga á síðustu árum, en búi ekki í vinnubúðum. Fram kemur að sérhæft erlent vinnuafl við bygginguna ætti að verða innan við 10 % miðað við 20–30 % í síðari áfanga byggingar álvers á Grundartanga. Með tilliti til reynslu af uppbyggingu álvers á Grundartanga sé talið líklegt að um 65% áhrifa byggingaframkvæmdanna muni gæta í Reykjanesbæ, um 20% í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og um 15% á höfuðborgarsvæðinu.
    Í matsskýrslu kemur fram að áætluð íbúafjölgun sem leiðir af fyrirhuguðu álveri sé um 2.000 manns miðað við að störf sem skapist vegna reksturs álversins verði um 1.000. Byggt er á þeirri forsendu að þegar rekstur álversins hefjist verði nokkurn veginn fullt atvinnustig á svæðinu (1–2% atvinnuleysi). Viðbrögð á vinnumarkaði komi til með að ráðast að miklu leyti af því hver staða atvinnumála verði á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild, þegar rekstur hefjist. Samgöngur séu góðar og fjölbreytt atvinnu- og athafnalíf á áhrifasvæði álversins muni því að einhverju leyti stuðla að búferlaflutningum fólks til svæðisins.
    Fram kemur að sú staðreynd að unnt verði að sækja vinnu til Helguvíkur frá höfuðborgarsvæðinu dragi úr þeim miklu áhrifum sem annars gætu orðið á húsnæðismarkað á svæðinu. Auk þess hafi húsnæði losnað á varnarsvæðinu við brotthvarf varnarliðsins sem hægt væri að nýta ásamt öðru húsnæði á svæðinu og það gæti dregið verulega úr efnahagsáhrifum. Engu að síður verði þörf á nýju húsnæði og ætla megi að aukin þörf verði fyrir uppbyggingu atvinnuhúsnæðis strax á byggingartíma fyrirhugaðs álvers og sú uppbygging muni halda áfram á rekstrartíma þess. Fram kemur í matsskýrslu að rekstur álversins muni hafa talsverð jákvæð áhrif, bæði bein og óbein, á vinnumarkað á áhrifasvæðinu og allar líkur á því að áhrifin verði mest áberandi á Suðurnesjum.
    Fram kemur að áhrif álversins á aðrar atvinnugreinar og vinnuafl verði bein og varanleg þar sem stór vinnuveitandi komi nýr inn á svæðið. Álverið verði í fyrstu í sterkri samkeppnisstöðu um vinnuafl gagnvart öðrum fyrirtækjum á svæðinu og gæti því haft neikvæð áhrif á sjávarútveg, þjónustufyrirtæki sem þjónusta sjávarútveg og byggingariðnað á svæðinu þar sem menntun t.d. vélvirkja og annarra líkra starfsstétta sem álverið muni hafa þörf fyrir. Auk þess skapist fjöldi starfa sem ekki krefjist framhaldsmenntunar. Áhrifin verði þó einnig jákvæð þar sem tiltölulega vel launuðum störfum muni fjölga á svæðinu með tilkomu álversins. Áhrif álversins á aðrar starfsstéttir verði jákvæð þar sem álver muni skapa ný atvinnutækifæri svo sem í verslun og þjónustu. Heildaráhrif á aðrar atvinnugreinar verði því frá að vera nokkuð neikvæð vegna samkeppni um vinnuafl yfir í nokkuð jákvæð vegna aukinna viðskiptatækifæra.
    Fram kemur í matsskýrslunni að sveitarfélögin á áhrifasvæðinu muni njóta útsvarstekna af störfum sem skapist með óbeinum eða afleiddum hætti vegna reksturs álversins. Ennfremur aukist tekjur sveitarfélaganna vegna lóða- og fasteignagjalda álversins og tengdum byggingum. Rekstur álversins muni hafa jákvæð áhrif á rekstur Reykjaneshafnar með því að stuðla að bættri nýtingu á mannvirkjum sem fjárfest hafi verið í við Helguvíkurhöfn. Áhrif á sveitarfélögin verði bein, varanleg og talsvert jákvæð þar sem tekjur þeirra muni aukast.
    Í umsögn iðnaðarráðuneytisins kemur fram að í frummatsskýrslu vanti raunhæft mat á mögulegum áhrifum mannaflaþarfar álversins á aðra uppbyggingu á svæðinu og að jafnframt skorti nánari umfjöllun um áhrif uppbyggingar álversins á sog á vinnuafli frá landsbyggðinni til suðvesturhornsins. Þetta telur ráðuneytið einkum mikilvægt í ljósi nýlegrar úttektar þar sem fram kemur að miklir möguleikar séu í þróun nýsköpunar og nýrra atvinnugreina á Keflavíkursvæðinu en vinnuafl sé af skornum skammti.
    Í athugasemdum Önnu Ágústsdóttur, Mariu Elvira Méndez Pinedo, Sesselju Traustadóttir og Sigurðar Hreins Sigurðssonar er bent á að atvinnuleysi á svæðinu sé vart mælanlegt og þensla muni aukast í samfélaginu sem komi niður á almenningi í landinu. Atvinnulífshópur Framtíðarlandsins bendir m.a. á að atvinnusvæðið sé nátengt vinnumarkaði á höfuðborgarsvæðinu, margfeldisáhrif á vinnumarkaði séu stórlega ofmetin og lítil ástæða sé til aðgerða nema einna helst til að bæta atvinnuástandið hjá konum.
    Framkvæmdaraðili bendir á að við gerð matsskýrslunnar hafi verið greindur atvinnumarkaður á Suðurnesjum, rætt við marga málsmetandi aðila og byggt á fyrri reynslu Norðuráls um áhrif uppbyggingar álvers á Grundartanga. Athugasemd iðnaðarráðuneytisins byggi á skýrslu Pricewaterhouse Cooper fyrir Fjárfestingarstofuna þar sem reynt sé að meta hversu margir séu atvinnulausir á Suðurnesjum og þar með til reiðu fyrir ný fyrirtæki. Í skýrslunni virðist ekki reynt að leggja mat á framtíðarhorfur í atvinnulífi á Suðurnesjum. Framkvæmdaraðili telur að slíkar aðferðir gefi ekki rétta mynd af ástandi mála á Suðurnesjum á því tímabili sem um sé rætt í skýrslunni.
    Framkvæmdaraðili telur að á Suðurnesjum sé verulega vaxandi samfélag og mjög öflugt atvinnusvæði fyrir stóran vinnuveitanda eins og álverið verði. Bygging álvers í Helguvík falli vel að þeirri íbúafjölgun og atvinnuþróun sem verið hafi á svæðinu og bent er á að í umsögn Byggðastofnunar sé ekki gerð athugasemd við frummatsskýrsluna. Bent er á að mat á margfeldisáhrifum álvers í Helguvík hafi tekið mið af sambærilegum athugunum sem gerðar hafi verið vegna annarra svipaðra verkefna hérlendis og þar sé m.a. tekið tillit til aukinnar samkeppni um vinnuafl og sköpun nýrra tækifæra vegna betri grunngerðar. Varðandi framtíðarhorfur atvinnulífs á Suðurnesjum er m.a. bent á nýlega þjóhagsspá um atvinnuleysi og líkleg áhrif skerðingar þorskkvóta á atvinnuleysi. Jafnframt er bent á að hluti þeirra sem sagt hafi verið upp hjá varnarliðinu fyrir rétt rúmu ári, vinni á höfuðborgarsvæðinu eða í lægra launuðum störfum en áður sem þeir vilji hverfa frá. Einnig er bent á starfsemi Keilis á Keflavíkurflugvelli sem laði að fjölda fólks sem fyrir utan að stunda nám muni einnig vilja vinna á svæðinu og að framkvæmdaraðili muni leitast við að haga starfa- og vaktaskipulagi þannig að störfin henti bæði konum og körlum. Einnig er bent á reynslu Norðuráls frá Grundartanga þar sem að starfsfólki hafi fjölgað um ríflega 200 eftir að stækkun álversins hófst árið 2004 jafnframt því sem byggingarframkvæmdir hafi verið í gangi. Íbúum á atvinnusvæðinu fjölgi stöðugt og starfsemin á Grundartanga hafi reynst góð undirstaða fyrir fjölda lítilla og meðalstórra þjónustu- og verktakafyrirtækja sem byggst hafi upp og eflst samfara uppbyggingu á svæðinu.
    Skipulagsstofnun tekur undir mikilvægi þess sem fram kemur í umsögn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um að metin séu sem best möguleg áhrif mannaflaþarfar álversins á aðra uppbyggingu á svæðinu og á sog á vinnuafli frá landsbyggðinni til suðvesturhornsins.
    Skipulagsstofnun telur ljóst að samlegðaráhrif verða á mannaflaþörf, byggingar og reksturs álvers í Helguvík við hugsanleg fyrirtæki á sviði þróunar nýsköpunar og nýrra atvinnugreina á Reykjanesi. Hversu mikil þau verða er hins vegar ekkert hægt að fullyrða um á þessu stigi málsins.
    Skipulagsstofnun telur, í ljósi umfjöllunar í matsskýrslu, að á byggingartíma álvers Norðuráls við Helguvík séu líkur á að vinnuafl komi víðar að en frá Suðurnesjum.
    Skipulagsstofnun telur að áhrif álverksmiðju í Helguvík á vinnumarkað komi að miklu leyti til með að ráðast af stöðu atvinnumála á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild bæði á byggingartíma og þegar rekstur hefst. Gæta þarf þess megin sjónarmiðs að verkinu verði áfangaskipt með tilliti til þess að draga úr ruðningsáhrifum.
    Skipulagsstofnum telur að áhrif á rekstrartíma álversins á aðrar atvinnugreinar og vinnuafl verði bein og varanleg þar sem stór vinnuveitandi með vel launuð störf kemur inn á svæðið og verður í sterkri samkeppnisstöðu um vinnuafl, bæði faglært og ófaglært. Tilkoma álversins mun einnig skapa ný atvinnutækifæri, svo sem í verslun og þjónustu og auka verkefni minni fyrirtækja sem geti haft jákvæð áhrif á samkeppni þeirra um vinnuafl. Rekstur álversins mun hafa varanleg áhrif á íbúaþróun á Suðurnesjum, samanber reynslu sem Norðurál vísar til frá Grundartanga, með fjölgun íbúa en erfitt er að segja fyrir um hvaðan þeir munu koma af landinu og hvernig þeir munu dreifast um atvinnusvæðið. Gangi t.d. spár um atvinnuleysi eftir, áhrif kvótaskerðingar á atvinnu verði veruleg og að Suðurnesjamenn, sem sæki vinnu til höfuðborgarsvæðisins, hætti því og taki þátt í byggingu og rekstri álversins dregur það væntanlega úr sogi á vinnuafli frá landsbyggðinni til suðvesturhornsins.
    Ljóst er að unnt verður að sækja vinnu til Helguvíkur frá höfuðborgarsvæðinu og að húsnæði hefur losnað á varnarsvæðinu sem dregur úr þeim miklu áhrifum sem annars gætu orðið í byggingariðnaði og á húsnæðismarkaðnum. Hins vegar má ætla að aukin þörf verði fyrir uppbyggingu atvinnuhúsnæðis strax á byggingartíma álversins. Íbúafjölgun og jákvæð atvinnuþróun á sér stað á Suðurnesjum, þrátt fyrir uppsagnir starfsmanna á vegum varnarliðsins fyrir rúmu ári og verður að draga þá ályktun að í því ljósi séu sveitarfélögin allvel undirbúin til að taka við því fólki sem bygging og rekstur álversins hefur í för með sér. Einnig skiptir þar verulegu máli að álverið verði byggt upp í 250.000 tonna stærð í tveimur eða fleiri áföngum á nokkrum árum.

3.1.2 Áhrif á landnotkun
    Í matsskýrslu kemur fram að samkvæmt tillögu að þynningarsvæði séu syðri mörk þess svæðis um 300 m frá nyrstu íbúðarhúsum Reykjanesbæjar. Í fyrirliggjandi tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjanesbæjar sé ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð norðar en nú er, heldur að framtíðaruppbygging verði til austurs. Í tillögu að breyttu aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs og aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar sé auk þess gert ráð fyrir að breyta landnotkun svæðisins norðan sveitarfélagamarkanna og austan Garðskagavegar, allt að golfvellinum í Leiru, í iðnaðarsvæði. Áhrif útblásturs frá álverinu og þeirra takmarkana á landnotkun sem gilda innan tillögu að þynningarsvæði verði því óveruleg.
    Umhverfisstofnun bendir á, í umfjöllun um loftmengun, fjarlægð syðri marka þynningarsvæðisins frá ystu byggð í Reykjanesbæ sem setji ákveðna takmörkun á útvíkkun íbúðarbyggðar til þeirrar áttar og leggur áherslu á að viðkomandi sveitarstjórnir og íbúar séu meðvituð um þá stöðu. Ennfremur er minnt á að eitt af meginmarkmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum sé að kynna fyrir almenningi hver verði umhverfisáhrif viðkomandi framkvæmdar og mótvægisaðgerðir og telur að nokkuð hafi skort þar á.
    Framkvæmdaraðili bendir á að fyrirhuguð álversáform hafi verið kynnt á fjölmörgum fundum, bæði hjá félagasamtökum og á opnum fundum og fundum um aðalskipulagsbreytingar. Kynning á fyrirhugaðri framkvæmd hafi því verið fullnægjandi.
    Skipulagsstofnun telur stefnu sveitarfélaganna um landnotkun skýra sbr. auglýstar breytingar á aðalskipulagi. Þar er m.a. undirstrikuð sú stefna Reykjanesbæjar að íbúðarbyggð verði ekki lengra til norðurs, í átt að iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Skipulagsstofnun telur kynningu á fyrirhugaðri framkvæmd og möguleika almennings til að kynna sér hana hafa verð góða.

3.1.3 Sjónræn áhrif og ásýnd
    Í matsskýrslu kemur fram að helstu sjónræn áhrif álvers Norðuráls í Helguvík verði vegna bygginga álversins, haugsetningar jarðvegs á byggingarlóð og af varnargarði er muni mynda rúmlega 2 ha flæðigryfju í Selvík. Byggingarnar verði mest áberandi séð frá Garðskagavegi, frá hesthúsabyggð, reiðleiðum og kirkjugarði. Frá byggð verði þær helst áberandi frá nyrstu húsum Reykjanesbæjar en frá golfvellinum í Leiru muni aðeins reykháfar þurrhreinsivirkjanna verða sýnilegir. Til að draga úr sjónrænum áhrifum verði gerðar jarðvegsmanir og haft samráð við heimafólk við útfærslu á hönnun þeirra. Einnig muni hönnun bygginga hafa það að markmiði að lágmarka sjónræn áhrif. Með fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum muni álverið verða lítt sýnilegt frá íbúðarbyggð og þær draga úr sjónrænum áhrifum frá Garðskagavegi. Á heildina litið sé talið að sjónræn áhrif vegna mannvirkja álversins verði nokkuð neikvæð. Flæðigryfja til förgunar kerbrota muni hafa áhrif á ásýnd strandarinnar, einkum grjótgarðurinn, séð frá sjó en verði lítið sjáanleg frá landi þar sem bergið sé um 20 m hátt og gryfjan því ekki sýnileg fyrr en komið er út á bjargbrúnina. Fram kemur að á heildina litið séu áhrif grjótgarðsins á ásýnd strandarinnar bein, nokkuð neikvæð, en þó afturkræf.
    Í matsskýrslu kemur fram að magn jarðvegs sem kemur af framkvæmdasvæðinu verði um 500.000 m 3 og gert sé ráð fyrir að setja hann á lóð álversins og nýta við frágang svæðisins til að draga úr sjónrænum áhrifum.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram það álit að draga megi enn frekar úr sjónrænum áhrifum en framkvæmdaáætlun geri ráð fyrir, m.a með sléttun og lækkun lands á byggingarsvæði og þar með bygginga og með gerð jarðvegsmana einnig vestan við álverið. Þá bendir Umhverfisstofnun á að gæta þurfi hófs við uppgræðslu jarðvegsmana og vanda til þess, þar sem þekkt svæði á Reykjanesi hafi verið klædd gróðri og skeri sig allnokkuð úr næsta umhverfi.
    Framkvæmdaraðili bendir á að unnið sé að hönnun jarðvegsmana, sem staðsetja eigi þannig að þær dragi úr innsýn þaðan sem byggingarnar verði mest áberandi. Ekki sé talin þörf á lækkun lands, sem hefði í för með sér mun meira rask vegna sprengivinnu. Hugmyndir arkitekta varðandi litaval á byggingum felist í að byggingar verði brotnar upp með mismunandi litum sem falli vel að umhverfinu. Þá verði skoðað hvort nýta megi núverandi gróðurþekju til uppgræðslu jarðvegsmana.
    Skipulagsstofnun telur að neikvæð sjónræn áhrif framkvæmdanna verði aðallega vegna mjög umfangsmikilla bygginga bæði langra og hárra sem breyti óhjákvæmilega ásýnd óbyggðs svæðis. Skipulagsstofnun telur að með litavali á byggingar megi draga úr neikvæðum sjónrænum áhrifum þeirra. Að mati Skipulagsstofnunar þarf að leggja áherslu á að haga lögun, áferð og uppgræðslu jarðvegsmana m.t.t þess að þær verði ekki sjálfar útlitslýti í landinu og hafi neikvæðari sjónræn áhrif en byggingarnar sem þær eiga að skýla. Skipulagsstofnun telur nauðsynlegt að við útlitshönnun mannvirkja og jarðvegsmana verði haft samráð við heimamenn. Skipulagsstofnun telur jafnframt nauðsynlegt að staðsetning og gerð vegar að flæðigryfju taki mið af því að hún valdi sem minnstum breytingum á ásýnd umhverfisins við ströndina.

3.1.4 Áhrif á hljóðvist
    Í matsskýrslu kemur fram að við byggingu fyrirhugaðs álvers verði flutningur á byggingarefni og vélbúnaði að mestu um Helguvíkurhöfn. Hávaði í Reykjanesbæ og nágrenni á framkvæmdatíma verði einkum vegna sprenginga og annarra athafna á iðnaðarsvæðinu sem og vegna aukinna flutninga á steypuefni og ýmiss konar aðföngum auk ferða starfsmanna til og frá framkvæmdasvæðinu. Talið sé að hávaði á byggingartíma, í íbúðarbyggð í Reykjanesbæ, verði innan viðmiðunarmarka reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða og þar verða áhrifin því óveruleg. Nokkuð neikvæð áhrif verði í næsta nágrenni framkvæmdasvæðisins. Áhrif reksturs álversins á hljóðvist í byggð og á iðnaðarsvæði í nágrenninu eru talin verða óveruleg.
    Umhverfisstofnun telur umfjöllun um hljóðvist við hesthúsa og kirkjugarð ónóga og lýsingu á tilhögun framkvæmda og hugsanlegum mótvægisaðgerðum skorti.
    Framkvæmdaraðili bendir á að í matsskýrslu komi fram að töluverðar sprengingar verið við Helguvíkurhöfn og samkvæmt upplýsingum frá hafnarstjóra Reykjaneshafnar hafa aldrei borist kvartanir vegna hávaða frá þeim. Bent er á að um tímabundin áhrif verði að ræða. Þó ekki sé gert ráð fyrir að þau valdi ónæði muni framkvæmdaraðli sjá til þess að uppmokstri lausra jarðvegsefna verði fyrst komið fyrir í nánd við kirkjugarðinn og mótaðar þar jarðvegsmanir sem muni draga úr óæskilegum áhrifum, bæði gagnvart hljóði og ásýnd.
    Skipulagsstofnun telur nægilega fjallað um hljóðvist á framkvæmda- og rekstrartíma og að áhrif vegna hávaða frá starfseminni verði ekki veruleg. Stofnunin tekur undir að þó ónæði vegna hávaða verði tímabundið á framkvæmdatímanum sé æskilegt að haft verði samráð við stjórnendur kirkjugarðsins um mótvægisaðgerðir, svo sem um gerð hljóðmanar.

3.1.5 Áhrif efnisflutninga á byggingartíma
    Í matsskýrslu kemur fram að gert sé ráð fyrir að stór hluti fyllingarefnis, eða um 300.000 m³, í framkvæmdir á álverslóðinni komi úr framkvæmdum vegna hafnargerðar og úr lóðinni sjálfri. Um 150.000 m³ þarf af steypuefni en óvíst sé hvort efni sem falli til við hafnargerðina henti sem steypuefni. Ef sækja þarf steypuefni annað verði það sótt í Stapafellsnámu og ef miðað sé við að hver flutningabíll taki að lágmarki 10 m³ af efni verði það að hámarki 15.000 ferðir. Til samanburðar sé meðaltalsumferð um Reykjanesbraut um 10.000 bílar á dag.
    Umhverfisstofnun telur nokkuð skorta á umfjöllun í matsskýrslu um akstur með efni til og frá framkvæmdasvæðinu, svo sem varðandi akstursleiðir, tímasetningu og áhrif á umferðaröryggi. Framkvæmdaraðili bendir á að akstursleiðin úr Stapafellsnámu yrði um kafla á Hafnavegi og inn á Reykjanesbraut við Fitjar að Rósaselstorgi, ofan byggðarinnar, að Mánatorgi og síðan eftir Garðskagavegi og Stakksbraut að framkvæmdasvæðinu í Helguvík.
    Skipulagsstofnun telur ekki líklegt að áhrif efnisflutninga á byggingartíma verði veruleg.

3.1.6 Áhrif á menningarminjar
    Í matsskýrslu kemur fram að athugun hafi farið fram á fornleifum í nágrenni Helguvíkur árið 2006. Innan athugunarsvæðis hafi fundist 30 minjastaðir, tveir þjóðsögustaðir, fjórar tóftir, 10 hleðslur og 14 vörður. Flestar séu minjarnar í jaðri athugunarsvæðisins og utan framkvæmdasvæðisins. Að mati framkvæmdaraðila hafi tekist að staðsetja framkvæmdasvæðið þannig að tvær vörður sem hætta hafi verið á að yrði raskað standi áfram. Reynist það ekki mögulegt muni Fornleifavernd ríkisins koma að frekari ákvörðunum varðandi viðeigandi ráðstafanir.
    Umhverfisstofnun telur í umsögn sinni að huga þurfi betur að þeim þekktu þjóðleiðum sem vörður og vörðubrot kunni að marka. Fornleifavernd ríkisins bendir á að umfjöllun vanti um hugsanleg áhrif sem förgun kerbrota í Selvík kunni að hafa á fornleifar.
    Framkvæmdaraðili greinir frá því að til að gæta fyllstu varúðar verði verktökum við jarðvinnslu gert kunnugt um vörðurnar næst framkvæmdasvæðinu líkt og Fornleifavernd ríkisins fari fram á í umsögn sinni. Þá svarar framkvæmdaraðili því til að ekki hafi verið útfært hvernig kerbrotum verði komið niður að flæðigryfju í Selvík og því ekki ljóst hvort förgun kerbrota kunni að hafa áhrif á skráðar fornleifar þar. Leitast verði við að varðveita minjarnar án röskunar. Reynist það ekki unnt muni framkvæmdaraðili óska leyfis hjá Fornleifavernd ríkisins til að fjarlægja þær.
    Skipulagsstofnun telur að umfjöllun um fornleifar sé fullnægjandi og að áhrif á þær verði minniháttar með því verklagi sem framkvæmdaraðili hyggst viðhafa til að vernda vörður 075 og 076. Skipulagsstofnun áréttar þó að hafa þarf samráð við Fornleifavernd ríkisins þegar fyrir liggur hvernig aðkomu að flæðigryfju í Selvík verður háttað.

3.2 ÁHRIF ÚTBLÁSTURS Á LOFTGÆÐI, GRÓÐUR OG DÝRALÍF
3.2.1 Áhrif á loftgæði
    Í matsskýrslu kemur fram að við framleiðslu áls með rafgreiningu losna efnasambönd sem ýmist séu loftkenndu formi, uppleyst eða í föstu formi og geti haft áhrif á umhverfið. Unnt sé að draga úr umhverfisáhrifum með vali á hráefni sem innihaldi lágmarksmagn af þessum efnum og með því að nýta bestu fáanlegu tækni til að draga úr myndun aukaefna með hreinsun útblásturs. Mat á styrk mengunarefna í andrúmslofti vegna útblásturs frá fyrirhuguðu álveri hafi verið gert með líkanreikningum hjá Verkfræðistofunni Vatnaskil. Fram kemur að sett hafi verið fram tillaga að þynningarsvæði út frá niðurstöðum dreifingarreikninga þannig að umhverfismörk og viðmiðanir fyrir loftgæði verði uppfyllt burtséð frá því hvort notuð verði þurrhreinsun eingöngu eða þurrhreinsun að viðbættri vothreinsun. Utan þynningarsvæðis séu áhrif af útblæstri úr þurrhreinsivirki talin óveruleg. Innan þynningarsvæðis geti áhrif vegna losunar á flúoríðum og brennisteinstvíoxíði orðið nokkuð neikvæð með tilliti til gróðurs þar sem viðkvæmari tegundir geti hopað og harðgerðari tegundir komi í staðinn. Þá geti útblásturinn líka haft nokkuð neikvæð áhrif á dýr sem lifi á gróðri innan þynningarsvæðis. Í matsskýrslu er fjallað um einkenni áhrifa á loftgæði fyrir þurrhreinsun annars vegar og fyrir þurrhreinsun að viðbættri vothreinsun hins vegar.

3.2.1.1 Þurrhreinsun
    Fram kemur að ef eingöngu sé notast við þurrhreinsun séu helstu lofttegundir, sem huga þurfi að dreifingu á, brennisteinstvíoxíð (SO 2), loftkennt flúoríð (HF) og PAH auk svifryks (PM10). Samkvæmt líkanreikningum á styrk mengunarefna í lofti muni öll umhverfismörk fyrir SO 2 verða uppfyllt utan þynningarsvæðis og einnig innan þess að undanskildu meðalgildi sólarhrings með 98% líkum. Niðurstöður útreikninga sýni að styrkurinn geti orðið yfir sólarhringsmeðaltali á um 400–500 m breiðri tungu sem teygir sig um 700 m í suðsuðvestur frá syðri enda kerskála og einnig um 500 m norðnorðvestur af kerskála. Þynningarsvæðið sé meðal annars skilgreint með tilliti til þessara niðurstaðna. Fram kemur að meðaltalsstyrkur fyrir flúoríð (HF) sé eingöngu skoðaður fyrir vaxtartíma gróðurs, sem sé skilgreindur frá 1. apríl til 30. september, þar sem horft er til umhverfismarka sem miði að verndun vistkerfa. Umhverfisstofnun hafi sett viðmiðunarreglur fyrir álver á Íslandi, er varða flúoríð, sem byggja á norskum viðmiðum og er viðmiðunargildið 0,3 .g/m³ fyrir meðaltal vaxtartímabilsins. Samkvæmt niðurstöðum loftdreifingarlíkans fari meðalstyrkurinn yfir viðmiðunarmörkin á um 1,5 km breiðu (frá vestri til austurs) og um 2,5 km löngu (frá norðri til suðurs) svæði, eða um 1 km suður af enda fyrirhugaðra kerskála. Sett sé fram tillaga að þynningarsvæði með tilliti til þessara niðurstaðna. Fram kemur að engin viðmiðunarmörk séu í gildi fyrir PAH efni á Íslandi og í matsskýrslunni sé stuðst við viðmiðunarmörk Evrópusambandsins sem hafi verið kynnt árið 2004 og taki gildi árið 2007, en þurfi ekki að uppfylla fyrr en í lok árs 2012. Viðmiðunarmörkin sem þar eru sett séu 1,0 ng/m³ sem ársmeðaltal fyrir Benzo(a)Pyrene (B(a)P), en B(a)P er eitt PAH sambandanna, notað sem mælikvarði á krabbameinsvaldandi þátt þeirra. Niðurstaða líkanreikninga er að styrkur PAH efna í andrúmslofti vegna útblásturs frá álverinu við Helguvík verði alls staðar innan allra umhverfismarka og viðmiðana sem sett hafi verið á Íslandi og í Evrópusambandinu. Samkvæmt loftdreifingarspá muni styrkur svifryks verða vel innan umhverfismarka og mestur um helmingur af umhverfismörkum í allra næsta nágrenni bygginga fyrirhugaðs álvers.

3.2.1.2 Þurrhreinsun og vothreinsun
    Í matsskýrslu kemur fram að þegar búið sé að bæta vothreinsun við þurrhreinsun sýni loftdreifingarspár að öll umhverfismörk fyrir SO 2 sem séu í gildi muni verði uppfyllt, bæði utan og innan þynningarsvæðis. Bent er sérstaklega á að ástæða þess að reiknuð gildi styrks SO 2 lækka ekki í réttu hlutfalli við styrk efnisins í útblæstri, með tilkomu vothreinsibúnaður til viðbótar þurrhreinsibúnaði, er sú að útblásturinn er kældur í vothreinsivirkjunum. Kaldari útblástur fellur fyrr til jarðar en heitur útblástur, sem rís upp og dreifist, á þettta einnig við um HF, PAH og svifryk. Líkt og í tilfellinu, sem miðast eingöngu við þurrhreinsun, fer reiknað meðaltal HF yfir vaxtartíma gróðurs aðeins yfir viðmiðunargildi (0,3 .g/m³) næst álverinu vegna þess að meginlosun HF er um rjáfur í kerskála og dreifingin úr reykháfi er lakari vegna kaldari útblásturs. Styrkur B(a)P verður alls staðar vel undir viðmiðunarmörkum Evrópusambandsins (1 ng/m³) eins og í tilfellinu með þurrhreinsun eingöngu. Styrkur PAH efna í útblæstri minnkar eilítið við vothreinsun þar sem hluti skolast út í frárennsli. Líkt og í tilfellinu þar sem eingöngu er notuð þurrhreinsun mun styrkur svifryks verða innan allra viðmiðunarmarka en hugsanlega eitthvað lægri.
    Skipulagsstofnun telur samanburð í matsskýrslu á áhrifum á loftgæði frá álveri með þurrhreinsibúnaði og þurrhreinsibúnaði að viðbættri vothreinsun skýran. Megin niðurstaða er að ef bætt er við vothreinsun verði styrkur SO 2 undir viðmiðunarmörkum utan sem innan þynningarsvæðis, styrkur PAH efna minnkar eilítið, styrkur og dreifing HF yfir vaxtartímann verður sambærilegur og með þurrhreinsun eingöngu og svifryk muni hugsanlega minnka eitthvað. Skipulagsstofnun telur að umræddur samanburður styðji þá niðurstöðu framkvæmdaraðila að notast megi eingöngu við þurrhreinsun og telur hana ásættanlega.

3.2.2 Áhrif á gróður og dýralíf
    Í matsskýrslu kemur fram að næst álverinu, innan tillögu að þynningarsvæði, megi gera ráð fyrir að breytingar verði á gróðri vegna flúors. Tegundir eins og mosar og fléttur muni hopa á meðan aðrar þolnari tegundir eins og krækilyng sækja á. Áhrif á gróður, innan þynningarsvæðis, eru talin verða frá því að vera nokkuð neikvæð næst álverinu til að vera óveruleg þegar fjær dregur.
    Fram kemur að rjúpur séu helstu villtu grasbítarnir á svæðinu. Hesthús séu innan tillögu að þynningarsvæði en hestar þoli flúorríkan gróður einna best af grasbítum og því sé ekkert því til fyrirstöðu að hafa hesthúsin áfram þar sem þau eru en fóðra hrossin einnig á heyi sem aflað er utan þynningarsvæðisins. Áhrif á dýralíf á landi eru að mestu talin verða óveruleg en gætu þó orðið nokkuð neikvæð innan þynningarsvæðis.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir hugsanlegum áhrifum álversins á tjarnir sem lendi að hluta innan þynningarsvæðis og séu sjaldgæfar á Reykjanesskaga. Einnig skorti umfjöllun um hesthúsabyggð, aðliggjandi tún og Hólmsbergskirkjugarð.
    Framkvæmdaraðili tekur fram að grunnrannsóknir verði gerðar á lífríki tjarnanna og það vaktað. Talið sé óhætt að hafa hesta áfram í hesthúsunum, m.a. að mati Umhverfistofnunar, enda fái þeir aðflutt hey að hluta og hestamönnum hafi verið gerð grein fyrir málinu á fundi. Gert sé ráð fyrir vöktun á magni flúors í gróðri á beitarsvæðum hrossanna og ef niðurstöður þess gefi tilefni til verði kannað hvort flúoráhrif finnist hjá hrossunum. Að mati kirkjugarða Keflavíkur séu tillögur um mótvægisaðgerðir til mikilla bóta þar sem þær skapi aukið skjól í kirkjugarðinum. Fyrirhugað sé að vakta áhrif flúors á gróður í kirkjugarðinum og leiðbeina um val á þolnari plöntum.
    Skipulagsstofnun telur að umfjöllun í matsskýrslu um áhrif framkvæmdarinnar á gróður sé nægileg en undirstrikar mikilvægi vöktunar með tilliti til áhrifa á gróður. Niðurstaða vöktunar er undirstaða frekari þekkingar á áhrifum á gróður og þróun mótvægisaðgerða er kunna bæði að miða að aðgerðum til að draga úr loftmengun og vali á þolnari tegundum. Stofnunin tekur undir mikilvægi þess að fylgst verði með hvort hætta sé á að flúor í grasi og heyi hafi áhrif á hross á svæðinu.

3.2.3 Áhrif förgunar kerbrota og frárennslis á mengun sjávar og dýralíf
3.2.3.1 Áhrif frá kerbrotagryfju
    Í matsskýrslu er greint frá fyrirhugaðri förgun kerbrota og kola- og stálsandsryki ásamt eldföstum fóðringum í flæðigryfju í Selvík. Fyrirhugað er að farga árlega 3500–6000 tonnum af kerbrotum. Fram kemur að förgun kerbrota í flæðigryfju sé ein þeirra aðferða sem mælt sé með í BAT skýrslu Evrópusambandsins. Þessi aðferð hafi gefist vel bæði hjá Norðuráli á Grundartanga og ALCAN í Hafnarfirði. Flæðigryfjan afmarkast af um 20 m hárri bergbrún við ströndina og grjótgarði sem verður byggður til að loka víkinni. Miðað er við að garðurinn verði 5 m hærri en meðalstórstraumsfjara og því lægri en bergbrúnin. Áætlað efnismagn í garðinn sé um 50.000 m 3 og verði efnið að öllum líkindum fengið úr landjöfnun vegna stækkunar Helguvíkurhafnar. Fram kemur að endingartími flæðigryfjunnar sé áætlaður um 30 ár og hafi þá myndast um 2,25 ha landfylling. Á milli kerbrotalaga í gryfjunni verði settur skeljasandur, til að auka útfellingu á flúor, en þegar efri mörkum fyllingarinnar er náð verði hún hulin jarðvegi og skeljasandi. Vegna sjávarfalla muni verða sífelld endurnýjun á sjó innan gryfjunnar sem leysir upp uppleysanleg efni, sem ýmist verði næring fyrir örverur eða falli út vegna basavirkni sjávar og áhrifa skeljasandsins. Fram kemur að rannsóknir hafi verið gerðar á lífríki sjávar í nágrenni Helguvíkur. Í Selvík reyndist þaraskógur rýr og fylgir fjölbreytileiki smádýra ásigkomulagi hans. Framkvæmdaraðili hefur framkvæmt áhættumatsgreiningu í samræmi við reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs og sé mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar flæðigryfju byggt á þekktum útskolunarprófum og samanburði við niðurstöður úr mælingum við sambærilega flæðigryfju álvers Norðuráls á Grundartanga. Helstu efni sem skolast geta úr flæðigryfjum eru:
     Sýaníð. Fram kemur að efnið sé hvarfgjarnt og bindist fljótt öðrum efnum og því lítil hætta á að það berist óbundið út í umhverfið. Útþynning, niðurbrot, binding í önnur efnasambönd ásamt hraðri útskolun muni valda því að sýaníð muni hafa lítil áhrif á lífríki utan flæðigryfju.
     Flúoríð. Fram kemur að þegar flúor losnar úr kerbrotum í sjó falli það út sem torleyst kalsíumflúoríð og þar sem bæði sjór og skeljasandur sem lagður verði á milli kerbrotslaga sé kalsíumríkur, tryggi það útfellingu flúorsins. Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir með íblöndun skeljasands og hár náttúrulegur styrkur kalsíums í sjó muni gera flúoríðið óskaðlegt lífríki sjávar.
     Önnur efni. Fram kemur að PAH efni leysist ekki upp í vatni en berist um sjóinn ásoguð á agnir og því ætti uppsöfnun PAH efnanna að verða í seti, en vegna vinds og strauma sé lítil sem engin setmyndun í nágrenni Selvíkur. Því sé gert ráð fyrir að bæði PAH efni og þungmálmar dreifist og þynnist hratt út á stóru svæði og verði á mörkum þess að vera mælanleg. Því séu litlar líkur á að PAH efni og þungmámar hafi skaðleg áhrif á lífverur.
    Fram kemur að góð reynsla hafi fengist af að rækta krækling í búrum í nágrenni flæðigryfja til að greina hugsanleg áhrif uppsöfnunar efna í sjávarlífverum og verði það gert við Selvík á að minnsta kosti 4 stöðum í nágrenni flæðigryfjunnar auk viðmiðunarstaðar norðar. Gert er ráð fyrir að tveimur árum eftir að rekstur hefst fari fram mælingar á styrk sýaníðs, flúors og þungmálma í sjó utan og innan flæðigryfju. Áframhaldandi vöktun verði ákveðin í ljósi niðurstaðna.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telur að urðun kerbrota í flæðigryfju, þar sem er nægur straumur og mikil þynning, sé ásættanleg. Hafrannsóknarstofnunin gerir ekki athugsemd við urðun í flæðigryfju í Selvík en telur að besti kostur við förgun kerbrota sé að senda þau til endurvinnslu erlendis. Daði Þorbjörnssonar og Kai Westphal gera athugasemdir m.a. varðandi hugsanlega endurvinnslu kerbrota og annarra efna sem falla til. Þeir benda á óvissu um efnainnihald kerbrota (sem geti verið mismunandi eftir álfyrirtækjum) og annarra efna sem urðuð verða í gryfju, gera athugsemdir við tíðni rannsókna við flæðigryfju við álver Norðuráls í Hvalfirði og spyrja hvaðan upplýsingar um styrk uppleysts járns í grunnvatni, sem hjálpi til við útfellingu sýaníðs, koma. Þá gera þeir athugsemdir varðandi fullyrðingar um að verið sé að beita bestu fáanlegu mengunarvörnum með notkun flæðigryfju.
    Í svörum Norðuráls, sem snúa að mögulegri endurvinnslu kerbrota kemur fram að flutningur þeirra og geymsla utan flæðigryfja sé háð takmörkunum. Í Noregi sé lítill hluti kerbrota endurunninn og ekki hafi fundist umhverfislega og efnahagslega hagkvæm leið heldur séu þær orkufrekar og afurðirnar takmörkum háðar. Efnainnihald kerbrotanna sé vel þekkt, breytileiki sé einhver í snefilefnum í kerbrotum en ekki merkjanlegur á milli álfyrirtækja. Endurvinnsla uppsóps af gólfi skautsmiðju og stálssandsryks sé ekki möguleg og verði því fargað í flæðigryfju. Hreinir kolaafgangar sem falla til í skautsmiðju verða sendir til endurvinnslu. Einnig verður meirihluti þess járns sem fellur til innan verksmiðju endurunninn og jafnframt eldfastur steinn úr deiglum, eftir því sem kostur er. Varðandi rannsóknir sem gerðar hafa verið við flæðigryfju Norðuráls á Grundartanga þá er bent á að sýnataka hafi verið 15–27 sinnum á ári, samtals 110 sýni á 5 árum. Lögð sé áhersla á að efnagreina sjó sem streymir frá gryfju um þremur tímum eftir háflóð. Framkvæmdaraðili bendir á heimildir varðandi upplýsingar um styrk uppleysts járns í sjó. Ýmsar rannsóknir hafi verið gerðar og greinar birtar sem sýna fram á jákvæð áhrif járns við útfellingu sýaníðs og sé það í samræmi við mælingar í og við flæðigryfju álversins á Grundartanga, en þar sé sýaníið að mestu bundið, en komi ekki fram sem frítt efni. Samkvæmt BAT skýrslu Evrópusambandsins séu flæðigryfjur einn þriggja kosta við förgun kerbrota og teljist til bestu fáanlegu tækni, sérstaklega ef skeljasandi er blandað saman við kerbrotin.
    Skipulagsstofnun telur að sú ráðstöfun að farga kerbrotum í umrædda flæðigryfju verði í samræmi við bestu fáanlegu tækni sbr. BAT skýrslu Evrópusambandsins og sé ásættanleg lausn sbr. umsagnir Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar. Skipulagsstofnun telur, í ljósi umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar, að framkvæmdaraðili þurfi að fylgjast vel með þeirri þróun sem á sér stað í endurvinnslumöguleikum kerbrota og komi fram tækni sem teljist umhverfislega betri kostur skuli hann huga að honum, enda í samræmi við lög og reglugerðir sem kveða á um „ bestu fáanlegu tækni“. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdaraðili hafi með áhættugreiningu og tilvísun í mælingar við flæðigryfju álversins á Grundartanga sýnt fram á að styrkur sýaníðs, flúoríðs, PAH-efna og þungmálma við flæðigryfju verði innan viðmiðunarmarka. Þá séu náttúrulegar aðstæður, þ.e mikið dýpi og miklir sjávarstraumar, til þess fallnar að draga mjög úr hættu á að styrkur skaðlegra efna fari yfir viðmiðunarmörk í nágrenni flæðigryfjunnar. Skipulagsstofnun telur að í starfsleyfi þurfi að vera áætlun um mælingar þeirra efna sem nauðsynlegt er að fylgjast með og að í leyfinu verði greint frá bakgrunnsgildum er sýna grunnástand svæðisins. Í starfsleyfi þarf jafnframt að greina frá mótvægisaðgerðum og viðbrögðum við bráðamengun. Í ljósi þess að rannsóknir á lífríki á svæðinu hafa leitt í ljós að einstakar athugunarstöðvar á sjávarbotni eru mjög ólíkar m.t.t tegundasamsetningar þarf að taka mið af því við val rannsóknarstaða í framtíðarvöktun.

3.2.3.2 Áhrif vegna frárennslis
    Í matsskýrslu eru borin saman áhrif frárennslis frá álveri með þurrhreinsun og með þurrhreinsun að viðbættri vothreinsun. Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir að skólp verði leitt í fráveitu- og skólpkerfi Reykjanesbæjar.

Álver eingöngu með þurrhreinsun.
    Fram kemur að ef eingöngu sé notast við þurrhreinsun verði hreinsað frásogsloft leitt út um reykháfa, efni úr frásogi kerja verði eftir í hreinsivirkinu en berist að öðru leyti út í andrúmsloftið og engin efni fari úr því út í frárennsli. Frárennsli frá álverinu verði þá aðeins afrennsli af þökum og lóðinni. Afrennsli frá gólfum verkstæða og annarra bygginga þar sem olía verði notuð verði leitt gegnum olíusíur. Við meðhöndlun hráefnis og mengandi efna innan lóðar verði reynt að lágmarka hættu á mengun yfirborðsvatns.

Álver með þurrhreinsun að viðbættum vothreinsibúnað.
    Í matsskýrslu er því lýst að við vothreinsun er útblástur frá þurrhreinsun leiddur í vothreinsivirki þar sem hann er þveginn með sjó. Við þá meðhöndlun er aðallega verið að fjarlægja SO 2 úr útblæstrinum, sem ásamt öðrum útskolunarefnum er leitt í útrás í sjó. Niðurstöður úr dreifingarspám efnanna frá útrás í sjó sýna að efnin berast bæði inn og út með ströndinni og gefa til kynna að meira en hundraðföld þynning verði orðin utan 1 km langs beltis er nái 100–200 m út frá ströndinni og meira en tvöhundruðföld þynning utan 400–500 m breiðs og 3 km langs svæðis. Megin niðurstöður varðandi dreifingu einstakra efna eru eftirfarandi.
     Flúoríð. Styrkur flúoríðs í frárennslinu verði 1,9 mg/l en nær náttúrulegum gildum sjávar stutt frá útrás. Til hliðsjónar má benda á að viðmiðunargildi fyrir íslenskt neysluvatn er 1,5 mg/l og viðmiðunarmörk frá Bretlandi og löndum ESB til verndar lífríkis í saltvatni eru 5 mg/l.
     Svifagnir. Styrkur svifagna í frárennsli verði 1,1 mg/l og verði orðinn sambærilegur náttúrulegum gildum, 0,3 mg/l, utan allra næsta nágrennis útrásar.
     Köfnunarefni og fosfór. Vegna þynningar nái efnin ekki að hafa áhrif á náttúrulegan styrk efnanna utan næsta nágrennis útrásar.
     Uppleyst súrefni. Styrkur uppleysts súrefnis muni reiknast undir mettunarstyrk á um 3 km kafla meðfram strandlengjunni. Allra næst útrás mun mettunarstyrkurinn líklega verða yfir íslenskum viðmiðunarmörkum.
     Breytingar á sýrustigi. Sýrustig muni lækka um 0,05 á 100–200 m breiðu belti út frá ströndinni um 0,5 km inn og út með henni. Allra næst útrásinni mun lækkun á sýrustigi líklega verða yfir íslenskum viðmiðunarmörkum.
     PAH-efni. Gert er ráð fyrir að styrkur PAH-16 í frárennslinu verði 2,8 .g/l en til samanburðar eru íslensk viðmiðunarmörk 0,1 .g/l. Vegna þynningaráhrifa verði styrkur PAH-efna í 50 m fjarlægð frá útrásarenda kominn niður í 0,005 .g/l. Gert sé ráð fyrir að 10% PAH-16 verði bundið svifögnum. Miðað við gefnar forsendur sé reiknaður styrkur PAH í seti yfir mörkunum 300 .g/kg á 1–1,5 km breiðu og 7 km löngu belti meðfram ströndinni. Miðað við norsk viðmið teldist mengun PAH á því svæði vera í II.–IV. flokki, þ.e nokkur til mikil. Þar fyrir utan væri mengunin óveruleg til lítil. Í þeim útreikningum sem lagðir eru til grundvallar er ekki tekið tillit til misdreifingar setsins vegna uppróts af botni.
     B(a)P Miðað við gefnar forsendur verði styrkur B(a)P, sem verði um 1% af PAH efnum, í seti meiri en 50 .g/kg á um 1 km breiðu og 6 km löngu belti meðfram ströndinni. Skv. norskum viðmiðunarreglum myndi set með slíkan styrk lenda í II.–IV. flokki, þ.e töluvert til mikið mengað. Utan beltisins flokkaðist mengunin óveruleg eða nokkur.
    Ef vothreinsun yrði sett upp er í matsskýrslu gerð tillaga um 10 km 2 þynningarsvæði í sjó, sem ráðist af reiknuðum styrk PAH og B(a)P í seti. Samkvæmt því ætti sjór utan þynningarsvæðisins að flokkast í flokk I, þ.e. óveruleg eða lítil mengun m.t.t. PAH, en flokk II, þ.e nokkur eða minni mengun m.t.t B(a)P í seti.
    Umhverfisstofnun gerir athugasemdir við að ekki sé fjallað nægjanlega um hugsanleg áhrif PAH efna á lífríki, innan og utan þynningarsvæðis og að óheppilegt sé að gera ráð fyrir útrás frá vothreinsun í sömu vík og flæðigryfjur verði í. Umhverfisstofnun mælir ekki með notkun vothreinsibúnaðar miðað við þær aðstæður sem lýst er í frummatsskýrslu. Í athugasemdum Önnu Ágústdóttur, Mariu Elvira Pinedo, Sesselju Traustadóttur og Sigurðar Hreins Sigurðarsonar er bent á að reikna megi með neikvæðum áhrifum á 10 km 2 svæði í sjó. Framkvæmdaraðili segir að rannsóknir hafi leitt í ljós að mjög lítil setmyndun sé á svæðinu og því myndi dreifing PAH efna verða betri en reiknilíkön geri ráð fyrir. Á svæðinu hafi fundist kræklingur, smár og lítt nýtanlegur og vegna óhentugra aðstæðna sé ekki vitað til að ræktun hans á svæðinu sé fyrirhuguð.
    Framkvæmdaraðili greinir frá því að vegna kröfu Skipulagsstofnunar hafi verið borin saman umhverfisáhrif þurrhreinsunar og þurrhreinsunar að viðbættum vothreinsibúnaði. Niðurstaðan hafi verið að nota ekki vothreinsibúnað og því þurfi ekki að skilgreina umrætt 10 km 2 þynningarsvæði í sjó. Þá telur framkvæmdaraðili ekki ástæðu til að skoða frekar samspil efna í útrás vothreinsunar og frá kerbrotum í ljósi þeirrar niðurstöðu í matsskýrslu að lítill sem enginn ávinningur felist í vothreinsun. Undir þetta taki Umhverfisstofnun síðar í umsögn sinni og mælir ekki með notkun vothreinsibúnaðar miðað við þær aðstæður sem lýst er í matsskýrslu.
    Skipulagsstofnun telur að með þeim samanburði sem framkvæmdaraðili hefur gert á umhverfisáhrifum álvers með þurrhreinsibúnaði og þurrhreinsibúnaði að viðbættri vothreinsun fáist skýrari mynd af hugsanlegum umhverfisáhrifum álvers í Helguvík. Í ljósi þess verði ákvarðanataka um val hreinsibúnaðar upplýstari. Skipulagsstofnun telur að umræddur samanburður styðji þá niðurstöðu framkvæmdaraðila að notast eingöngu við þurrhreinsun og telur hana ásættanlega.

3.2.3.3 Áhrif á fuglabyggðir
    Umhverfisstofnun telur að ekki sé gerð nægjanlega góð grein fyrir áhrifum flæðigryfju á nálægar fuglabyggðir til þess að stofnunin geti tekið afstöðu til staðsetningar hennar.
    Í svörum framkvæmdaraðila kemur fram að vegna athugasemda Umhverfisstofnunar hafi sjófuglar í Selvík verið taldir þann 25. júní 2007 og fundust eingöngu fýlar verpandi og voru það 38 áætluð varppör. Í Stakksvík, verpa ritur auk fýls og silfurmáfs (1 par 25. júní 2007) og var fjöldi rituhreiðra áætlaður 143. Við gerð kerbrotagryfjunnar verði eflaust einhver röskun á varpi fýls í Selvík og þó hönnun á aðkomu í víkina sé ekki lokið megi reikna með að einhver fýlsparanna tapi varpstað sínum en gætu fundið sér nýjan. Umferð í kerbrotagryfjuna á rekstrartíma verður um einn bíll á dag að meðaltali og ætti truflun vegna umferðar því ekki að vera mikil þannig að varp fýls í víkinni verði þar líklega eitthvað áfram. Bent er á að ritubyggð í Stakksvík sé í hvarfi frá kerbrotagryfjunni þannig að ólíklegt sé að áhrifa af henni gæti á ritubyggðina, nema hugsanlega við byggingu garðs í mynni Selvíkur og ef sprengja þurfi bergið til að skapa aðkomu í víkina. Þau áhrif yrðu þó tímabundin. Stofnar þessara fugla séu mjög stórir og þeir algengir varpfuglar á Reykjanesi og því ólíklegt að framkvæmdin hafi áhrif á þá.
    Skipulagsstofnun telur upplýsingar og umfjöllun í matsskýrslu um bjargfugl ásættanlega nema hvað varðar áhrif af byggingu grjótgarðs og aðkomu að kerbrotagryfju. Að því þarf að hyggja við gerð deiliskipulags með það að markmiði að lágmarka röskun fuglalífs.

3.2.3.4 Sjóflutningar
    Í matsskýrslu kemur fram að mest allir flutningar til og frá álverinu verði um höfnina í Helguvík og muni skipaumferð um höfnina því aukast verulega. Áætlað er að um 25 skip komi árlega með súrál og um 15 skip með önnur aðföng til álversins og fari til baka með afurðir (ál). Ekki sé talið að hætta á slysum vegna aukinnar skipaumferðar utan hafnarinnar aukist frá því sem nú er og súrálsskip séu álíka stór og olíuskipin sem leggjast reglulega að olíuhöfninni í Helguvík. Hingað til hafi siglingar olíuskipa verið án vandræða enda mjög góð aðsigling að höfninni vegna mikils dýpis utan hennar.
    Í umsögn Umhverfisstofnunar er bent á að stofnunin hafi ekki upplýsingar um að mengunarvarnabúnaður sé til staðar í Helguvíkurhöfn. Í svörum framkvæmdaraðila kemur fram að nýr mengunarvarnabúnaður hafi verið fenginn til Helguvíkurhafnar.
    Skipulagsstofnun telur ekkert hafa komið fram sem bendir til aukinnar hættu af skipaumferð til Helguvíkurhafnar og í matsskýrslu sé gerð nægjanleg grein fyrir flutningum á sjó og mengunarvörnum í Helguvík.

3.3 TENGDAR FRAMKVÆMDIR
3.3.1 Höfn
    Í matsskýrslu kemur fram að samkvæmt samningnum við Reykjaneshöfn verði Norðuráli heimilt að koma fyrir og starfrækja byggingar og tækjabúnað á hafnarbakkanum og á hafnarsvæðinu í Helguvík til að þjónusta álverið. Gert sé ráð fyrir um 30.000 m² athafna- og geymslusvæði auk reits undir súrálssíló. Fram kemur að gert sé ráð fyrir að nýta hluta þess efnis, sem falli til við hafnarframkvæmdina, til grófjöfnunar lóðar undir fyrirhugað álver.
    Í matsskýrslu kemur fram að Skipulagsstofnun hafi bent á að fyrirhugaðar framkvæmdir við Helguvíkurhöfn feli í sér viðbót utan við núverandi brimvarnargarð og dýpkun innan hafnar þar sem farga þarf dýpkunarefni sem kann að vera efnamengað. Skipulagsstofnun lítur því svo á að fyrirhuguð hafnarframkvæmd falli undir lið 13a í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum m.s.b. og sé því tilkynningarskyld en tilkynning um framkvæmdina hefur ekki borist stofnuninni.
    Skipulagsstofnun bendir á að byggingaraðili álversins gerir ráð fyrir að fá efni til grófjöfnunar lóðar álversins frá framkvæmdum við stækkun Helguvíkurhafnar og að rekstur álversins er háður henni. Stofnunin telur því engan vafa leika á að markvissara hefði verið að meta áhrifin í heild og þurfi áform um stækkun hafnarinnar því að vera skýr áður en framkvæmdir við byggingu álversins verða leyfðar.

3.3.2 Orkuöflun
    Í matsskýrslu kemur fram að Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur hafi undirritað viljayfirlýsingu um raforkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Í viljayfirlýsingunni sé gert ráð fyrir að orkuframleiðendurnir reyni að útvega allt að 435 MWe, sem dugi fyrir allt að 250.000 t afkastagetu álversins á ári. Til fyrsta áfanga, sem verði með allt að 150.000 tonna ársframleiðslu, útvegi Hitaveita Suðurnesja allt að 150 MWe en Orkuveita Reykjavíkur allt að 100 MWe.
    Fram kemur að til þess að uppfylla sinn hluta samkomulagsins vinni Orkuveita Reykjavíkur að stækkun Hellisheiðarvirkjunar úr 90 MWe í 270 MWe og undirbúningur sé hafinn að byggingu allt að 135 MWe virkjunar á Ölkelduhálssvæði og allt að 90 MWe virkjun við Hverahlíð.
    Fram kemur að Hitaveita Suðurnesja sé með til athugunar stækkun Reykjanesvirkjunar um allt að 75 MWe (600 GWh/ári) og stækkun í Svartsengi um 10 MWe (85 GWh/ári). Ennfremur liggi fyrir rannsóknarleyfi í Krýsuvík, það er fyrir Sandfell, Seltún og Austurengjar og Trölladyngju. Allar þessar framkvæmdir falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum nema ef til vill stækkunin í Svartsengi. Gera megi ráð fyrir að matsferli vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar geti hafist haustið 2007 en matsferli vegna hinna virkjunarstaðanna í fyrsta lagi um áramótin 2007/2008.
    Fram kemur að hlutaðeigandi sveitarfélög og virkjunaraðili muni fjalla um umhverfismat þeirra skipulagsáætlana sem kunni að þarfnast breytinga vegna fyrirhugaðra virkjana. Auk framangreindra virkjunarkosta sé hugsanlegt að Landsvirkjun geti útvegað orku.
    Í athugasemdum Landverndar, Náttúruverndarsamtala Íslands og samtakanna Sól á Suðurnesjum er farið fram á að umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, einkum orkuöflunar og orkuflutnings, séu metin samtímis umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers og því beint til Skipulagsstofnunar að gefa ekki út álit sitt á framkvæmdinni fyrr en frummatsskýrslur um tengdar framkvæmdir liggja fyrir.
    Framkvæmdaraðili telur eðlilegra að kanna fyrst hvort staðsetning álvers teljist ásættanleg áður en lagt er í kostnað við mat á flutningi og öflun raforku.
    Iðnaðarráðuneytið telur að fram þurfi að koma með greinilegri hætti hvernig Norðurál hyggst afla raforku til reksturs álversins, fyrir fyrsta og annan áfanga.
    Framkvæmdaraðili vísar til neðangreindrar töflu um virkjunarkosti og áætlaðan afhendingartíma raforku sem orkufyrirtækin áforma fyrir álver í Helguvík.

Tafla. Áætlaður afhendingartími raforku til álvers í Helguvík frá líklegustu virkjunarkostum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur samkvæmt upplýsingum frá orkufyrirtækjunum 17. febrúar 2009
Virkjun Skýring Afl (MW) Tímasetning
Hitaveita Suðurnesja:
Reykjanesvirkjun, 3. túrbína Stækkun 50 Haust 2010
Reykjanesvirkjun
Eldvörp/Svartsengi
20–35 MW frá hvorri virkjun 50 Haust 2010
Eldvörp/Svartsengi
Krýsuvík I a.
20–40 MW frá hvorri virkjun 50 2011
Eldvörp/Svartsengi
Krýsuvík
Orkumagn frá hvoru svæði ræðst
af reynslu úr fyrri áfanga
110 Áfangi II
Orkuveita Reykjavíkur:
Hverahlíð
Bitra
25 MW frá hvorri virkjun 50 Haust 2010
Hverahlíð
Bitra
25 MW frá hvorri virkjun 50 2011
Hverahlíð
Bitra
Hellisheiðarvirkjun (stækkanir)
Orkumagn frá hverju svæði
ræðst af reynslu úr fyrri áfanga
75 Áfangi II

    Ennfremur er bent á að mögulegir virkjunarkostir sem Hitaveita Suðurnesja hafi, anni vel ríflega þeirri orku sem fara á til álversins af hálfu Hitaveitu Suðurnesja.
    Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsáætlun álvers í Helguvík taldi stofnunin ekki verjandi að krefjast þess að metin yrðu samtímis umhverfisáhrif álverksmiðjunnar sjálfrar og tengdra framkvæmda í ljósi þess hve mikil óvissa ríkti um hvaðan og eftir hvaða leiðum orka bærist álverinu. Enn í dag er veruleg óvissa um orkuöflun þar sem þeir kostir sem nefndir eru til orkuöflunar eru mjög mismunandi á vegi staddir hvað varðar rannsóknir, skipulagsumfjöllun sveitarfélaga og mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun telur hins vegar ekki lagastoð fyrir því að fresta að gefa álit sitt á matsskýrslu Norðuráls, eins og óskað hefur verið eftir, á þeim grundvelli að óvissa sé um orkuöflun og raforkuflutninga til álversins.
    Skipulagsstofnun undirstrikar að þeir virkjunarkostir sem bent er á að Hitaveita Suðurnesja hyggist nýta vegna fyrsta áfanga álversins eiga eftir að fara í umfjöllun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og suma á einnig eftir að fjalla um samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Þetta á við um orkuöflun fyrir meira en helming þeirrar orku sem þarf til reksturs fyrsta áfanga álversins. Skipulagsstofnun telur því að vegna óvissu um virkjunarkosti þurfi að huga vel að þessari stöðu þegar kemur að leyfisveitingum.

3.3.3 Flutningsleiðir raforku
    Í matsskýrslu kemur fram að skoðaðir hafi verið nokkrir kostir í legu háspennulínu síðasta spölinn að álverinu þ.e. loftlína umhverfis Keflavíkurflugvöll, lagning jarðstrengs milli flugvallar og byggðar í Reykjanesbæ og lagning jarðstrengs í sjó frá Fitjum eða Vogum að álveri. Einnig kemur fram að gert sé ráð fyrir nýrri 220 kV línu frá Reykjanesvirkjun að Rauðamel, 245 kV línu frá Trölladyngju og að öllum líkindum 245 kV línu frá Hamranesi við Hafnarfjörð. Í umræðum sem fram hafi farið um skipulagsbreytingar á milli Reykjanesbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar vegna fyrirhugaðs álvers sé stefnt að því að leggja jarðtrengi frá Fitjum að iðnaðarsvæðinu. Fram kemur að hafa verði þann fyrirvara á að skoðun línuleiða sé enn á frumstigi og eftir sé að meta umhverfisáhrif þeirra sem og að framkvæma umhverfismat viðeigandi skipulagsáætlana, sem gæti leitt til breytinga.
    Í athugasemdum Landverndar er bent á að þar sem ákveðið sé að flytja raforku frá Fitjum að álverslóð með jarðstreng gefi það tilefni til ítarlegri umfjöllunar um afhendingaröryggi á raforku og þar með starfsöryggi starfsmanna álversins.
    Framkvæmdaraðli bendir á að gert sé ráð fyrir að leggja þrjá jarðstrengi þ.e. tvo til vara ef eitthvað kemur upp á.
    Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt matsskýrslu þurfa flutningsleiðir raforku til álversins að liggja um önnur sveitarfélög en þau sem álverið verður í. Ekki liggur t.d. fyrir hvort lagðar verða loftlínur eða jarðstrengir um lengri eða skemmri veg eða hvort það kunni að hafa áhrif á orkuverð til álversins sem hafi áhrif á rekstragrundvöll þess.
    Skipulagsstofnun telur því að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggur fyrir.

3.4 LOSUN GRÓÐURHÚSALOFTTEGUNDA
    Í matsskýrslu kemur fram að miðað við að heildarlosun koltvíoxíðs á framleitt tonn af áli sé um 1,46 t muni álver í Helguvík losa 365.000 t/ári af CO 2. Að teknu tilliti til annarra hugsanlegra stóriðjuframkvæmda á næstu árum brjóti fyrirhugað álver í Helguvík ekki í bága við Kyoto-bókunina, losun CO 2 á árunum 2008–2012 verði að meðaltali innan við 1,6 milljónir tonna. Þessi skilningur hafi verið staðfestur af iðnaðarráðuneytinu og sé í samræmi við sviðsmyndir sem finna megi á vefsvæði umhverfisráðuneytisins sem og svar umhverfisráðherra við fyrirspurn á Alþingi um losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju þar sem segi að heimildin nái til meðaltalslosunar á ári. Í ályktun Alþingis frá apríl 2002 um aðild Íslands að Kyotobókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sé gert ráð fyrir að losun fyrirtækja í áliðnaði á flúorkolefnum (PFC efnum) sé innan við 0,14 t af CO 2 ígildum fyrir hvert unnið áltonn. Norðurál muni stefna að því að ná þessu marki í álverinu við Helguvík. Losun fyrirhugaðs álvers í Helguvík á PFC efnum er því áætluð um 35.000 t/ári af CO 2 ígildum.
    Fram kemur að í steypuskála og skautsmiðju verði ofnar hitaðir með rafmagni fremur en olíu eða gasi til að halda losun gróðurhúsalofttegunda í lágmarki. Þar sem þörf sé á hitun bygginga verði það annað hvort gert með rafmagni eða heitu vatni. Norðurál muni hafa samráð við íslensk stjórnvöld um viðeigandi mótvægisaðgerðir vegna útstreymis gróðurhúsalofttegunda frá fyrirhuguðu álveri í Helguvík. Norðurál sé í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og Háskóla Íslands um að vinna saman að því að finna leiðir til að hefta losun gróðurhúsalofttegunda. Saman hyggist þessir aðilar þróa aðferðir til að safna koltvísýringi úr útblæstri álvera og annað hvort nýta hann eða binda öðrum efnum, til dæmis í jarðlögum.
    Í umsögn iðnaðarráðuneytisins kemur fram að búast megi við vaxandi kröfum um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda og telur ráðuneytið líklegt að Ísland verði af þeim sökum að axla frekari skuldbindingar í næstu framtíð. Í því ljósi telur ráðuneytið nauðsynlegt að í matsskýrslunni verði mun ítarlegri grein gerð fyrir því hvernig fyrirtækið hyggst safna og/eða eyða koltvísýringi úr útblæstri álvera. Ráðuneytið telur eðlilegt að þess sé freistað að leggja mat á hversu raunhæfar þessar hugmyndir séu og hvenær þær gætu hugsanlega orðið að veruleika.
    Umhverfisstofnun bendir á í umsögn sinni að ekki komi fram mögulegar mótvægisaðgerðir í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða bregðast við umframlosun fari svo að ekki fáist nægilegar heimildir hjá stjórnvöldum fyrir CO 2 losun.
    Í svörum Norðuráls kemur fram að til að draga úr neikvæðum áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda hafi náðst mjög góður árangur við að draga úr tíðni og lengd spennurisa og þar með dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda (flúorkolefna). Þá sé vonast til að rannsóknir á því hvort safna megi koltvísýringi úr útblæstri álvera og binda hann í bergi skili niðurstöðum eftir 3 ár. Þær niðurstöður muni hins vegar aðallega segja til um hvort verkefnið er mögulegt og raunhæft. Ef svo er muni taka við þróun aðferða til að innleiða þessa ferla í raunverulegu umhverfi. Norðurál telji að ekki sé raunhæft að raunveruleg og umtalsverð minnkun CO 2 í útblæstri álvera með umræddum aðgerðum verði að veruleika fyrr en eftir 8–12 ár. Jafnframt eru í undirbúningi verkefni sem lúta að skoðun á því hvort hægt sé að nýta koltvísýring á annan hátt. Ef svo er mun taka við þróun aðferða til að innleiða þessa ferla í raunverulegu umhverfi. Norðurál hafi skoðað ýmis verkefni tengd skógrækt og uppgræðslu á Íslandi. Á svæðum nærri miðbaug séu einnig möguleikar á að sameina ræktun og aðstoð við að afla íbúum vatns og lífsviðurværis, auk þess sem árangur til bindingar kolefnis þar sé mun meiri vegna mun lengri vaxtartíma gróðurs en hér á landi. Það sé sameiginlegt með framangreindum verkefnum, og ýmsum öðrum verkefnum á þessu sviði, svo sem tilraunum með farartæki knúin vetni, að þau eru skammt á veg komin. Það er skilningur og túlkun Norðuráls að samkvæmt Kyotobókuninni og miðað við stöðu annarra verkefna sé CO 2 kvóti Íslendinga nægur út skuldbindingartímabilið.
    Skipulagsstofnun dregur ekki í efa útreikninga Norðuráls á meðaltalslosun gróðurhúsalofttegunda stóriðjuverkefna sem tiltekin voru í matsskýrslu. En gangi þau eftir þá er ljóst að losun á hverju ári eftir árið 2012 verður mun meiri en þær 1,6 milljónir tonna sem er losunarheimild fyrir hvert ár, að meðaltali, á fyrsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar. Skipulagsstofnun telur árangur Norðuráls líkt og annarra álvera við að draga úr losun flúorkolefna (PFC) á síðustu árum lofsverðan. Jafnframt telur Skipulagsstofnun jákvætt að Norðurál, í samstarfi við háskóla og orkufyrirtæki, vinni að því að leita leiða til að binda kolefni í jarðefnum. Hins vegar sé með öllu óljóst um árangur þeirra rannsókna þó svo að þær lofi um margt góðu. Skipulagsstofnun telur því að álver Norðuráls í Helguvík muni hafa verulega neikvæð áhrif vegna losunar gróðurhúsalofttegunda enda reiknast losunin um 13% af heildarlosun Íslendinga viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar árið 1990. Fyrirhugaður rekstur Norðuráls Helguvík sf. er háður 7. gr. laga nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda sem m.a kveður á um að staðbundinni iðnaðarframleiðslu sem losar meira en 30.000 tonn árlega sé óheimilt að starfa á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012, nema hún hafi aflað losunarheimilda eða lagt fram áætlun um hvernig slíkra heimilda verði aflað. Skipulagsstofnun telur því að áður en Norðuráli Helguvík sf. verður veitt framkvæmda- og byggingarleyfi þurfi að liggja fyrir hvort fyrirtækið fær þá losunarheimild sem það þarf eða hafi sýnt veitanda losunarheimilda fram á hvernig losun gróðurhúsalofttegunda verði mætt.

3.5 VÖKTUN
    Í matsskýrslu kemur fram að í vöktunaráætlun, sem birt er í töflu í skýrslunni, sé gert ráð fyrir mælingum á veðurfarsþáttum, vöktun á tilteknum efnum í lofti, úrkomu, tjörnum, gróðri, beitargróðri og heyi, jarðvegi og jarðvatni, hrossum, sjávarseti og sjávarlífverum (kræklingum). Gert sé ráð fyrir grunnrannsóknum á ofangreindum þáttum áður en rekstur hefjist til að fá viðmiðanir og viðmiðunargildi. Lífríkisrannsóknir (gróðurrannsókn, úttekt á fuglum, rannsókn á lífríki sjávarbotns) á Helguvíkursvæðinu sumarið 2006 tengist ekki vöktunaráætluninni eins og hún er sett fram en muni nýtast sem grunnur ef lífríkisrannsóknir verði endurteknar síðar. Fram kemur að vöktunaráætlunin taki mið af því að hér á landi hafi álver verið starfrækt í töluverðan tíma og ágætis reynsla því komin á tilhögun og aðferðir við vöktun á starfsemi þeirra. Í starfsleyfi verði nánar kveðið á um þá þætti sem vaktaðir verða eftir að starfsemi álversins er hafin.
    Umhverfisstofnun bendir á að hún telur að fylgjast þurfi reglulega með ástandi hrossa, meðal annars hvort í þeim gæti ummerkja flúorskaða í tönnum. Stofnunin gerir ráð fyrir því að fastir vöktunarstaðir gróðurs verði á túnum og beitarstöðum hrossa, í kirkjugarði og við tjarnir norðaustan við álverið. Framkvæmdaraðili tekur fram að gert sé ráð fyrir að dýralæknir skoði hross áður en rekstur álversins hefst, ástand þeirra verði einnig kannað að hausti næstu tvö ár eftir að rekstur hefst og eftir það verði það kannað ef mælingar á beitargróðri gefa tilefni til að ætla að hrossin gætu hafa orðið fyrir flúorskaða. Fram kemur að fastir vöktunarstaðir fyrir gróður hafi ekki verið ákveðnir en framkvæmdaraðili sjái ekkert því til fyrirstöðu að þeir verði á þeim stöðum sem Umhverfisstofnun nefnir.
    Skipulagsstofnun telur áætlun um söfnun bakgrunnsgilda og síðan vöktun, í matsskýrslunni, gerð góð skil en undirstrikar mikilvægi þess að í starfsleyfi verði vöktunaráætlun skýrt fram sett.

3.6 STAÐA SKIPULAGS OG LEYFISVEITINGA
    Varðandi stöðu skipulags og leyfisveitinga vegna byggingar álvers í Helguvík, Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Garði með allt að 250.000 tonna ársframleiðslu bendir Skipulagsstofnun á eftirfarandi:
    Framkvæmdin er í samræmi við auglýsta breytingu á Aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2005–2025 og breytingar sem samþykktar hafa verið í sveitarstjórn Reykjanesbæjar á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995–2015 og af sveitarstjórn Sveitarfélagsins Garðs á Aðalskipulagi Gerðahrepps 1998–2018. Aðalskipulagsbreytingarnar hafa ekki verið staðfestar af ráðherra.
    Deiliskipulag er forsenda byggingarframkvæmda auk starfsleyfis. Unnið er að breytingu á deiliskipulagi fyrir athafnasvæði fyrirhugaðs álvers í Reykjanesbæ og unnið að gerð deiliskipulags fyrir ráðgert iðnaðarsvæði í Sveitarfélaginu Garði. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að í deiliskipulagi verði hugað að staðsetningu og lagningu vegar frá álveri að flæðigryfju í Selvík, m.t.t fornminja, fuglalífs og áhrifa á ásýnd Selvíkur og að umfangi og staðsetningu jarðvegsmana m.t.t áhrifa á ásýnd svæðisins.
    Framkvæmdin er háð bygginga- og framkvæmdaleyfi Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs skv. 27. gr. og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir byggingu álversins, uppsetningu vinnubúða og förgunar kerbrota í flæðigryfju.
    Framkvæmdin er háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum nr. 33/2004 um lög um varnir gegn mengun hafs og stranda og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Gerð hafa verið drög að tillögu að starfsleyfi.
    Framkvæmdin er háð 7. gr. laga nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda sem m.a kveður á um að staðbundinni iðnaðarframleiðslu sem losar meira en 30.000 tonn árlega sé óheimilt að starfa á tímabilinu 1. janúar 2008 – 31. desember 2012, nema hún hafi aflað losunarheimilda eða lagt fram áætlun um hvernig slíkra heimilda verði aflað. Framkvæmdaraðili hefur ekki fengið umræddra losunarheimild eða lagt fram áætlun um hvernig hennar verður aflað en þarf að uppfylla annað hvort skilyrðanna til þess að geta hafið starfssemi.
    Framkvæmdin er háð leyfi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja samkvæmt reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.
    Framkvæmdin er háð sérstöku starfsleyfi frá Vinnueftirliti ríkisins vegna reksturs álversins, skv. 95. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað nr. 46/1980.

4     NIÐURSTAÐA SKIPULAGSSTOFNUNAR
    Í samræmi við 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu Norðuráls Helguvík sf. sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga. Matsskýrsla Norðuráls Helguvík sf. byggði á auglýstri frummatsskýrslu, umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma frummatsskýrslu og afstöðu Norðuráls Helguvík sf. til þeirra.
    Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla Norðuráls Helguvík sf. hafi uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar þau atriði sem getið er í 18. grein reglugerðar nr. 1123/2005. Einnig telur stofnunin að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir athugasemdum og umsögnum sem bárust á kynningartíma frummatskýrslu og þeim sé svarað.
    Skipulagsstofnun telur að áhrif álverksmiðju í Helguvík á vinnumarkað komi að miklu leyti til með að ráðast af stöðu atvinnumála á Suðurnesjum, á höfuðborgarsvæðinu og landinu í heild bæði á byggingartíma og þegar rekstur hefst. Gæta þarf þess megin sjónarmiðs að verkinu verði áfangaskipt með tilliti til þess að draga úr ruðningsáhrifum.
    Skipulagsstofnum telur að áhrif á rekstrartíma álversins á aðrar atvinnugreinar og vinnuafl verði bein og varanleg þar sem stór vinnuveitandi með vel launuð störf kemur inn á svæðið og verður í sterkri samkeppnisstöðu um vinnuafl, bæði faglært og ófaglært. Tilkoma álversins mun einnig skapa ný atvinnutækifæri, svo sem í verslun og þjónustu og auka verkefni minni fyrirtækja.
    Ljóst er að unnt verður að sækja vinnu til Helguvíkur frá höfuðborgarsvæðinu og að húsnæði hefur losnað á varnarsvæðinu sem dregur úr þeim miklu áhrifum sem annars gætu orðið í byggingariðnaði og á húsnæðismarkaðnum. Stofnunin telur að sveitarfélögin séu allvel undirbúin til að taka við því fólki sem bygging og rekstur álversins hefur í för með sér. Einnig skiptir þar verulegu máli að álverið verði byggt upp í 250.000 tonna stærð í tveimur eða fleiri áföngum á nokkrum árum.
    Skipulagsstofnun telur að neikvæð sjónræn áhrif framkvæmdanna verði aðallega vegna mjög umfangsmikilla bygginga bæði langra og hárra sem breyti óhjákvæmilega ásýnd svæðisins. Skipulagsstofnun telur að með litavali á byggingar megi draga úr neikvæðum sjónrænum áhrifum þeirra. Leggja þarf áherslu á að lögun, áferð og uppgræðslu jarðvegsmana m.t.t þess að þær verði ekki sjálfar útlitslýti í landinu og hafi neikvæðari sjónræn áhrif en byggingarnar sem þær eiga að skýla.
    Skipulagsstofnun telur nægilega fjallað um hljóðvist á framkvæmda- og rekstrartíma og að áhrif vegna hávaða frá starfseminni verði ekki veruleg.
    Skipulagsstofnun telur að umfjöllun um fornleifar sé fullnægjandi og að áhrif á þær verði minniháttar. Hafa þarf samráð við Fornleifavernd ríkisins þegar fyrir liggur hvernig aðkomu að flæðigryfju í Selvík verður háttað.
    Skipulagsstofnun telur að umfjöllun í matsskýrslu um áhrif framkvæmdarinnar á gróður sé nægileg en undirstrikar mikilvægi vöktunar.
    Skipulagsstofnun telur að sú ráðstöfun að farga kerbrotum í flæðigryfju í Selvík verði í samræmi við bestu fáanlegu tækni og sé ásættanleg lausn, en fylgjast þarf vel með þeirri þróun sem á sér stað í endurvinnslumöguleikum kerbrota. Skipulagsstofnun telur að í starfsleyfi þurfi að vera áætlun um mælingar þeirra efna sem nauðsynlegt er að fylgjast með og greint frá bakgrunnsgildum er sýna grunnástand svæðisins. Í ljósi þess að rannsóknir á lífríki á svæðinu hafa leitt í ljós að athugunarstöðvar á sjávarbotni eru mjög ólíkar m.t.t. tegundasamsetningar þarf að taka mið af því við val rannsóknarstaða í framtíðarvöktun.
    Skipulagsstofnun telur að með þeim samanburði sem framkvæmdaraðili hefur gert á umhverfisáhrifum álvers með þurrhreinsibúnaði og þurrhreinsibúnaði að viðbættri vothreinsun fáist skýrari mynd af hugsanlegum umhverfisáhrifum álvers í Helguvík. Skipulagsstofnun telur að umræddur samanburður styðji þá niðurstöðu framkvæmdaraðila að notast eingöngu við þurrhreinsun og telur hana ásættanlega.
    Skipulagsstofnun telur upplýsingar og umfjöllun í matsskýrslu um bjargfugl ásættanlega nema hvað varðar áhrif af byggingu sjóvarnargarðs og aðkomu að kerbrotagryfju. Að því þarf að hyggja við gerð deiliskipulags með það að markmiði að lágmarka röskun fuglalífs.
    Skipulagsstofnun telur ekkert hafa komið fram sem bendir til aukinnar hættu af skipaumferð til Helguvíkurhafnar.
    Skipulagsstofnun bendir á að byggingaraðili álversins gerir ráð fyrir að fá efni til grófjöfnunar lóðar álversins frá framkvæmdum við stækkun Helguvíkurhafnar og að rekstur álversins er háður henni. Stofnunin telur því engan vafa leika á að markvissara hefði verið að meta áhrifin í heild og þurfi áform um stækkun hafnarinnar því að vera skýr áður en framkvæmdir við byggingu álversins verða leyfðar.
    Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsáætlun álvers í Helguvík taldi stofnunin ekki verjandi að krefjast þess að metin yrðu samtímis umhverfisáhrif álverksmiðjunnar sjálfrar og tengdra framkvæmda í ljósi þess hve mikil óvissa ríkti um hvaðan og eftir hvaða leiðum orka bærist álverinu. Enn í dag er veruleg óvissa um orkuöflun þar sem þeir kostir sem nefndir eru til orkuöflunar eru mjög mismunandi á vegi staddir hvað varðar rannsóknir, skipulagsumfjöllun sveitarfélaga og mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun telur hins vegar ekki lagastoð fyrir því að fresta að gefa álit sitt á matsskýrslu Norðuráls, eins og óskað hefur verið eftir, á þeim grundvelli að óvissa sé um orkuöflun og raforkuflutninga til álversins.
    Skipulagsstofnun telur að í matsskýrslu sé gerð ásættanleg grein fyrir hugmyndum um orkuöflun. Stofnunin undirstrikar þó að þeir virkjunarkostir sem bent er á að Hitaveita Suðurnesja hyggist nýta vegna fyrsta áfanga álversins eiga eftir að fara í umfjöllun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og suma á einnig eftir að fjalla um samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Þetta á við um orkuöflun fyrir meira en helming þeirrar orku sem þarf til reksturs fyrsta áfanga álversins. Skipulagsstofnun telur að sveitarfélögin þurfi að huga vel að þessari stöðu þegar kemur að leyfisveitingum.
    Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt matsskýrslu þurfa flutningsleiðir raforku til álversins að liggja um önnur sveitarfélög en þau sem álverið verður í. Umfjöllun um flutningsleiðir raforku í viðkomandi sveitarfélögum er ekki lokið. Ekki liggur t.d. fyrir hvort lagðar verða loftlínur eða jarðstrengir um lengri eða skemmri veg eða hvort það kunni að hafa áhrif á orkuverð til álversins sem hafi áhrif á rekstragrundvöll þess. Ekki liggur fyrir ótvíræð ákvörðun um flutningsleiðir í gegnum Reykjanesbæ þó fram komi í matsskýrslunni að stefnt sé að lagningu jarðstrengs frá Fitjum að iðnaðarsvæðinu. Skipulagsstofnun telur því að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggur fyrir.
    Skipulagsstofnun dregur ekki í efa útreikninga Norðuráls á meðaltalslosun gróðurhúsalofttegunda stóriðjuverkefna sem tiltekin voru í matsskýrslu. Gangi þau verkefni eftir þá er ljóst að losun á hverju ári eftir árið 2012 verði mun meiri en þær 1,6 milljónir tonna sem er losunarheimild fyrir hvert ár, að meðaltali, á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar.
    Fyrirhugaður rekstur Norðuráls Helguvík sf. er háður 7. gr. laga nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda sem m.a. kveður á um að staðbundinni iðnaðarframleiðslu sem losar meira en 30.000 tonn árlega sé óheimilt að starfa á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012, nema hún hafi aflað losunarheimilda eða lagt fram áætlun um hvernig slíkra heimilda verði aflað. Skipulagsstofnun telur því að áður en Norðuráli Helguvík sf. verður veitt framkvæmda- og byggingarleyfi þurfi að liggja fyrir hvort fyrirtækið fær þá losunarheimild sem það þarf eða hafi sýnt veitanda losunarheimilda fram á hvernig losun gróðurhúsalofttegunda verði mætt.
    Skipulagsstofnun telur að fyrirhugað álver Norðuráls Helguvík sf., með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.

Reykjavík, 4. október 2007.

Þóroddur F. Þóroddsson     Rut KristinsdóttirFylgiskjal XI.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík.

    Markmið þessa frumvarps er að veita ríkisstjórn Íslands og iðnaðarráðherra fyrir hennar hönd heimild til að semja við Norðurál Helguvík ehf. og eiganda þess, Century Aluminium Company, um álver í Helguvík á Reykjanesi í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Áformað er að byggja álverið í fjórum 90.000 tonna áföngum og að ársframleiðsla þess verði allt að 360.000 tonn. Gert er ráð fyrir að álverið taki til starfa seinni hluta árs 2011 og að starfsmenn þess verði þá 210 en verði 540 þegar álverið verður fullbyggt. Ákvæði samningsins skulu gilda eigi skemur en í 20 ár frá því að framleiðsla hefst í álverinu. Í tengslum við verkefnið hefur auk þess verið gerður hafnarsamningur um stækkun og breytingu á aðstöðu við höfnina í Helguvík milli Reykjaneshafnar og Norðuráls Helguvíkur ehf. Gert er ráð fyrir að Reykjaneshöfn muni sjá um að viðhalda höfninni og hafnarmannvirkjum á eigin kostnað og að notkun hennar í þágu félagsins, þ.e. Norðuráls ehf., verði háð greiðslu hafnargjalda.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að þrátt fyrir að almennar skattareglur skuli gilda um starfsemi álversins í Helguvík, verði því veittar ýmsar ívilnanir í formi frávika frá reglum um skatta og gjöld. Eru þau frávik þó að mestu leyti sambærileg þeim sem kveðið er á um í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, og lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Á þeim er þó sá munur að frávik þau sem kveðið er á um í þessu frumvarpi eru nokkuð minni en þau sem lögfest voru í framangreindum lögum. Þannig er t.d. ekki að finna í frumvarpinu frávik frá greiðslum tekjuskatts á arð eða gatnagerðargjalda og þá er eðli máls samkvæmt ekki að finna frávik frá greiðslu eignarskatts þar sem hann hefur nú verið afnuminn. Frávik þau sem gert er ráð fyrir að Norðurál ehf. skuli njóta frá reglum um skatta og gjöld samkvæmt frumvarpinu snúa að eftirfarandi þáttum en í greinargerð frumvarpsins er fjallað nánar um einstök skattaleg ákvæði frumvarpsins:
     1.      Tryggt að tekjuskattshlutfall verði ekki hærra en 15%.
     2.      Sérreglur varðandi fyrningu eigna.
     3.      Undanþága frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi.
     4.      Sérreglur varðandi stimpilgjöld.
     5.      Sérreglur varðandi skipulagsgjald.
     6.      Undanþága frá rafmagnsöryggisgjaldi.
     7.      Ýmis öryggisákvæði varðandi upptöku nýrra skatta.
    Í tengslum við frumvarpið fór fram vinna á vegum iðnaðarráðuneytisins þar sem fjárhagslegt umfang þessara tilteknu skattalegu ívilnana var metið. Í stórum dráttum er þar lagt mat á tekjur hins opinbera næstu 20 árin annars vegar miðað við gildandi skattareglur og hins vegar miðað við þau frávik frá þeim sem samningurinn gerir ráð fyrir. Samkvæmt niðurstöðum þeirrar úttektar er gert ráð fyrir að fjárhagsleg ívilnun frumvarpsins sé metin að núvirði á um 16,2 millj. USD á þessu 20 ára tímabili en nánari útlistun á matinu er að finna í fylgiskjölum með frumvarpinu. Sé miðað við að gengi bandaríkjadals gagnvart íslensku krónunni sé 113, þá gera þetta alls um 1,8 milljarða íslenskra króna yfir tímabilið eða 90 m.kr. að meðaltali á ári. Stærstu liðirnir snúa í fyrsta lagi að því að gert er ráð fyrir að félaginu verði veitt undanþága frá rafmagnsöryggisgjaldi en það er metið sem ívilnun að fjárhæð 7,2 millj. USD. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að félaginu verði veitt undanþága frá iðnaðarmálagjaldi sem er metið sem 4 millj. USD ívilnun. Þá er í þriðja lagi gert ráð fyrir sérreglum varðandi stimpilgjöld en það er metin sem ívilnun að fjárhæð 2,2 millj. USD. Aðrir þættir vega minna. Ekki er hægt að segja fyrir um það hvort ákvæði um að tekjuskattshlutfall vegna starfsemi álversins í Helguvík verði ekki hærra en 15% muni fela í sér ívilnun.
    Á hinn bóginn er reiknað með að ef af þessari starfsemi verður þá muni álverið skila 48,1 millj. USD í tekjum á núvirði til ríkisins og sveitarfélaga á þessu tímabili sem annars hefðu ekki fallið til. Það svarar til um 5,4 milljarða króna m.v. sama gengi bandaríkjadals. Auk þess má gera ráð fyrir auknum skatttekjum á meðan á framkvæmdunum stendur. Efnahagsskrifstofa fjármálaráðuneytisins áætlar að fyrirhugaðar framkvæmdir við álver í Helguvík geti aukið hagvöxt um tæplega 3 prósentustig á tímabilinu 2009–2016 og dregið úr atvinnuleysi um allt að hálft prósentustig á ári. Á fyrri hluta tímabilsins verður aukinn hagvöxtur að mestu drifinn áfram af aukinni atvinnuvegafjárfestingu en á seinni hluta tímabilsins koma til áhrif af auknum útflutningi. Að öllu samanlögðu má því gera ráð fyrir, verði frumvarpið óbreytt að lögum og ráðist verði í framkvæmdirnar, að tekjur ríkissjóðs muni aukast og afkoma ríkissjóðs þar af leiðandi batna.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi umtalsverð bein áhrif á útgjaldahlið ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum að öðru leyti en því að greiðslur vegna atvinnuleysisbóta gætu orðið minni en ella næstu árin.
Neðanmálsgrein: 1
    1 BREF stendur fyrir „BAT Reference“ eða „Best Available Technology Reference“
Neðanmálsgrein: 2
    2 PARCOM stendur fyrir Paris Commission