Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 321. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 667  —  321. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Undirritaður spurði á fundum nefndarinnar hvaða vanda ætlunin væri að leysa með frumvarpinu, hvaða upphæðir væru á séreignarsparnaði og hvaða vandi brynni á fjölskyldum landsins sem þyrfti leysa sem fyrst. Ekki fengust viðhlítandi svör við því. Upplýsingar um inneignir í séreignarsjóðum liggja ekki á lausu þar sem fólk getur átt séreignarsparnað í mörgum bönkum og lífeyrissjóðum.
    Ekki kom heldur fram á fundum nefndarinnar hvaða vanda frumvarpinu væri ætlað að leysa. Eins og frumvarpið lítur út virðist því ætlað að leysa neysluvanda, þ.e. vanda þeirra fjölskyldna, sem ekki eiga fyrir afborgunum af lánum og daglegum útgjöldum en eru með tiltölulega litlar upphæðir í vanskilum. Ætlunin er að greiða 1 millj. kr. á 10 mánuðum sem þýðir að mánaðarlega eru greiddar út 100 þús. kr. sem eftir skatt þýðir um 63 þús kr. til ráðstöfunar eða alls 630 þús. kr. Það er ljóst að með slíkri upphæð verða einungis minni vanskil leyst en hún getur hugsanlega nýst sem viðbótar atvinnuleysisbætur. Auðvitað munar um þessa upphæð ef hjón leysa upp séreignarsparnað beggja. En jafnvel þá er einungis um 1,25 millj. kr. að ræða í heildina til að lækka skuldir og vanskil. Mun mörgum finnast það smátt í sniðum.
    Sú lága upphæð sem nefnd er hér að ofan dugar engan vegin til að bjarga málum þeirra fjölskyldna, sem eiga góða upphæð í séreignarsjóði (5–15 millj. kr.) og eru með mikil vanskil (5–20 millj. kr.). Fyrir slíkar fjölskyldur er mikilvægt að losa um séreignarsparnaðinn sem er fastur og greiða með honum vanskilin sem eru líka föst því fjölskyldan getur ekki greitt neitt að ráði. Þannig væri fjölskyldunni forðað frá uppboði og jafnvel missi heimilis. Frumvarpið leysir alls ekki slíkan vanda því fjölskyldan getur lent í því að missa heimilið á uppboði vegna þess að 0,6 millj. kr. eða 1,2 millj. kr. duga engan veginn til lausnar vanda hennar og heimilið fer á uppboð, jafnvel þó að fjölskyldan eigi tug milljóna króna enn á séreignarsparnaði.
    Lausnin felst í því að vörsluaðili séreignarsparnaðarins gefur út yfirlýsingu um að eigandinn megi framselja séreignarsparnaðinn sinn til annars vegar þeirrar lánastofnunar sem hann skuldar og svo hins vegar til skattstjóra, sem fær heimild til að taka við skatti með þessum hætti. Hvort þetta yrði gert með skuldabréfi eða yfirlýsingu þarf að finna út úr. Vörsluaðili lífeyrissjóðsins er eðli máls samkvæmt mjög góður skuldari og hann ætti að öllu jöfnu a skila sæmilegri ávöxtun. Þessi lausn hefur þann kost umfram þá lausn, sem frumvarpið gengur út frá að ekkert útstreymi er úr séreignarsjóðunum, ekki þarf að selja neinar eignir og engin hætta vofir yfir öðrum sparendum. Gerð er krafa um að vandinn sé umtalsverður og að hann verði leystur með slíkri útgreiðslu séreignarsparnaðarins. Þessi lausn fylgir í meðfylgjandi breytingartillögu sem tekur mið af frumvarpi á þskj. 498 – 279. mál.
    Ekki er í frumvarpinu tekið á þeim vanda sem skapast ef þetta úrræði, að fá upphæð greidda úr séreignarsjóði, dugar ekki til að forða fjölskyldunni frá gjaldþroti. Þá tapast þessi upphæð en væri örugg ef hún hefði ekki verið greidd út. Mikils er vert að fram fari einstaklingsbundin könnun á því hvort úrræðið muni ekki örugglega duga. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu eða breytingartillögum meiri hlutans. Mikils er til vinnandi að slík könnun fari fram jafnvel þó að hún kosti nokkurt fé og umstang. Gert er ráð fyrir slíkri könnun í meðfylgjandi breytingartillögum.
    Í frumvarpinu og í nefndaráliti meiri hlutans er talað um að aðgerðin þurfi að vera almenn til þess að standast jafnræðisákvæði og þess vegna er tekin sú áhætta að mikið verði tekið út af séreignarsparnaði, jafnvel þannig að til mikilla vandræða horfi fyrir þá sem ekki taka út sinn sparnað, og upphæðin takmörkuð þannig að engin lausn fæst fyrir flest heimili. Það er álit minni hlutans að mjög víða í velferðarkerfinu sé um bætur að ræða, sem tengjast erfiðum aðstæðum fjölskyldna, tekjuleysi, fátækt, veikindum og elli, án þess að talið sé að allir þurfi að fá slíkar bætur. Má nefna endurgreiðslu fasteignagjalda sveitarfélaga og ellilífeyri sem dæmi og greiðslur til þeirra sem eru 60 ára og eldri án frekari skilyrða. Yfirvofandi uppboð á heimilum fólks og nauðungarsala á hugsanlega lágu verði er augljóslega dæmi um slíkar aðstæður. Verður ekki séð að slíkt brjóti jafnræði. Þessi afstaða endurspeglast í tillögum minni hlutans en hann tekur ekki afstöðu til þess hvort falla eigi frá tillögum meiri hlutans og frumvarpsins þar sem það leysi mjög takmarkaðan vanda. Það þyrfti að skoða betur. Nokkrar tillögur meiri hlutans eru til bóta til að minnka áhrif útgreiðslu á ýmsar bætur en slíkt væri mjög óeðlilegt þar sem um frjálsan sparnað er að ræða sem einungis ætti að skatta.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 6. mars 2009.

Pétur H. Blöndal.