Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 321. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 668  —  321. mál.




Breytingartillaga



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar (PHB).



    Við 3. gr. Greinin orðist svo:
    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. laganna er á tímabilinu frá 1. apríl 2009 til 31. desember 2010 vörsluaðila séreignarsparnaðar skv. 3.–5. mgr. 8. gr. heimilt að greiða út séreignarsparnað óski eigandi séreignarsparnaðar þess, skv. II. kafla, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæði þessu.
    Skilyrði heimildar til tímabundinnar útgreiðslu séreignarsparnaðar skv. 1. mgr. er að útgreiðsla, að frádreginni greiðslu tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, renni beint, fyrir tilstilli viðkomandi vörsluaðila, til greiðslu skulda þess rétthafa sem óskar eftir útgreiðslu, sbr. 4. mgr. Vörsluaðila er heimilt að inna greiðsluna af hendi með útgáfu skuldabréfs til þeirra aðila, sem eiga að fá greiðslu, skattstjóri meðtalinn, og er þeim skylt að taka skuldabréfið sem greiðslu. Skuldabréfið njóti að öllu leyti sömu kjara varðandi ávöxtun og greiðslur eins og rétthafinn hefði fengið.
    Óski rétthafi séreignarsparnaðar eftir útgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða að fullu, skal hann leggja fram umsókn þess efnis hjá viðkomandi vörsluaðila. Með umsókn skal fylgja staðfest yfirlit yfir skuldir rétthafa ásamt veðbókarvottorði. Enn fremur vottorð frá sérfræðingi um að slík útgreiðsla komi mjög líklega í veg fyrir gjaldþrot rétthafans.
    Vörsluaðili séreignarsparnaðar fer yfir umsókn rétthafa og vottorð skv. 3. mgr. og hefur umsjón með útgreiðslu á séreignarsparnaði hans. Við útgreiðslu séreignarsparnaðar skal vörsluaðili fylgja eftirfarandi forgangsröð við uppgreiðslu skulda rétthafa:
     1.      Lán tryggð með veði í íbúðarhúsnæði rétthafa.
     2.      Lán tryggð með veði í öðru en íbúðarhúsnæði rétthafa.
     3.      Aðrar skuldir rétthafa við lánastofnun eða lífeyrissjóð.
    Vörsluaðila er heimilt að taka þóknun fyrir þá þjónustu sem kveðið er á um í ákvæði þessu og skal sú þóknun að hámarki standa undir þeim kostnaði sem til fellur hjá vörsluaðila við að veita umrædda þjónustu.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um fyrirkomulag tímabundinnar útgreiðslu séreignarsparnaðar samkvæmt þessu ákvæði.