Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 410. máls.

Þskj. 695  —  410. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     1.      Þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. 3. mgr. B-liðar 68. gr. laganna skulu viðmiðunarfjárhæðir, sem þar eru tilgreindar, vera 692.955, 909.702 og 1.126.447 við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2009 vegna tekna og eigna á árinu 2008.
     2.      Þrátt fyrir ákvæði 10. og 12. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna skulu viðmiðunarfjárhæðir, sem þar eru tilgreindar, vera 237.446, 305.374, 392.667 og 865 við ákvörðun vaxtabóta á árinu 2009 vegna tekna og eigna á árinu 2008.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til afturvirkar breytingar á lögum um tekjuskatt er varða hækkun á viðmiðunarfjárhæðum vaxtabóta. Vegna breytinga á gengi og aukinnar verðbólgu eftir hrun bankakerfisins og þess efnahagsvanda sem kom í kjölfarið hefur vaxtabyrði heimilanna vaxið gríðarlega. Hér er um að ræða einskiptisaðgerð sem ætlað er að létta undir með heimilum landsins við álagningu á árinu 2009 vegna tekna ársins 2008. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hámarksupphæð greiddra vaxta svo og vaxtabótanna sjálfra hækki um 25%, til viðbótar við 5,7% sem gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga 2009 eða samtals um 32% frá því sem gilti við síðustu álagningu á árinu 2008. Ekki er gert ráð fyrir öðrum breytingum á útreikningi vaxtabóta. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna úttektar séreignarlífeyrissparnaðar nýtist til þessarar hækkunar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að viðmiðunarfjárhæðum vaxtabóta á árinu 2009 vegna tekna og eigna ársins 2008 verði breytt og þær hækkaðar. Vegna breytinga á gengi og aukinnar verðbólgu eftir hrun bankakerfisins og þess efnahagsvanda sem í kjölfarið hefur komið, hefur vaxtabyrði heimilanna vaxið gríðarlega. Eins og fram kemur í athugasemd með frumvarpinu er hér um að ræða tímabundna aðgerð sem ætlað er að létta undir með heimilum landsins við álagningu á þessu ári. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hámarksupphæð greiddra vaxta, svo og vaxtabótanna, sjálfra hækki um 25%, til viðbótar við 5,7% sem gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga 2009, eða samtals um 32% frá því sem gilti við síðustu álagningu á árinu 2008. Ekki er gert ráð fyrir öðrum breytingum á útreikningi vaxtabóta.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs vegna vaxtabóta á þessu ári hækki um rúma 2 milljarða króna. Ekki er gert ráð fyrir þessum aukaútgjöldum í fjárlögum fyrir árið 2009.