Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 416. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 705  —  416. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997.

Flm.: Gunnar Svavarsson, Ármann Kr. Ólafsson, Ásta Möller,


Björgvin G. Sigurðsson, Björk Guðjónsdóttir, Ellert B. Schram,
Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Illugi Gunnarsson,
Jón Bjarnason, Kristján Þór Júlíusson, Magnús Stefánsson,
Steinunn Valdís Óskarsdóttir.


1. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ríkisendurskoðun er heimilt að veita fjárlaganefnd Alþingis aðgang að þeim gögnum sem hún aflar skv. 1. mgr. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef ríkisendurskoðandi kveður svo á um.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um Ríkisendurskoðun sem heimilar stofnuninni að veita fjárlaganefnd aðgang að þeim gögnum sem hún aflar skv. 1. mgr. 10. gr. laganna.
    Mikilvægur þáttur í störfum fjárlaganefndar er eftirlit með framkvæmd fjárlaga og að því hefur verið unnið náið með Ríkisendurskoðun og fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Forsenda þess að fjárlaganefnd geti rækt eftirlitshlutverk sitt er að hún hafi greiðan aðgang að upplýsingum og því er tilefni til að bæta aðgang þingsins að upplýsingakerfum ríkisins.
    Í fjárreiðulögum eru ríkisstofnanir og fyrirtæki sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins flokkaðar í hluta A, B, C, D og E og hefur aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingum um þessa aðila ráðist af því hvaða flokki þau tilheyra. Í lögunum er m.a. gert ráð fyrir að hefðbundnar ríkisstofnanir tilheyri A-hluta en sameignar- og hlutafélög sem ríkið á að hálfu eða meira heyri til E-hluta.
    Fram til þessa og á grundvelli 3. mgr. 25. gr. þingskapalaga hefur fjárlaganefnd átt þess kost að afla milliliðalaust upplýsinga frá forstöðumönnum ríkisstofnana en öðru máli gegnir um E-hluta fyrirtækin. Tregðu hefur gætt hjá stjórnendum þessara fyrirtækja eða, eftir atvikum, hlutaðeigandi ráðuneytum sem fara með eignarhlut ríkisins til að afhenda upplýsingar um starfsemina. Er því þá jafnan borið við að um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar sem með hliðsjón af hagsmunum fyrirtækisins, hluthafa eða viðsemjenda þess sé ekki hægt að afhenda enda beri ekki skylda til með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga, stjórnsýslulaga og fleiri laga.
    Ekki verður því á móti mælt að gæta þurfi varúðar við meðferð ýmissa upplýsinga sem varða umrædd fyrirtæki eða aðila þeim tengda. Þá hagsmuni verður samt sem áður að vega á móti öðrum hagsmunum sem felast í því að fjárlaganefnd taki upplýstar ákvarðanir við rækslu eftirlitsstarfa sinna. Er farin sú leið í frumvarpinu að heimila Ríkisendurskoðun, sem starfar á vegum Alþingis, að veita fjárlaganefnd upplýsingar sem aflað er á grundvelli 10. gr. laga nr. 86/1997. Falla þar m.a. undir öll gögn sem máli skipta í tengslum við endurskoðun hlutafélags, sameignarfélags, viðskiptabanka eða sjóða sem ríkissjóður á helmingshlut í eða meira.
    Tilgangur frumvarpsins er ekki að þrengja heimildir fjárlaganefndar til upplýsingaöflunar samkvæmt núgildandi lögum heldur að rýmka með það að leiðarljósi að nefndin eigi þess kost að afla upplýsinga um fyrirtæki sem falla undir E-hluta. Ríkisendurskoðun verði falið vald til að ákveða hvort veita eigi umbeðnar upplýsingar og í því tilviki sem fallist er á beiðni geti ríkisendurskoðandi mælst til þess að nefndarmenn verði bundnir þagnarskyldu um það sem leynt á að fara. Á þessi regla sér hliðstæðu í 24. gr. þingskapalaga.
    Telja verður að mikilvægi þessa frumvarps verði ekki síst að skoða í ljósi núverandi efnahagsástands sem gert hefur að verkum að mörg fyrirtæki á markaði eru komin í ríkiseigu.