Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 710  —  281. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21 26. mars 1991 (greiðsluaðlögun).

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Ásu Ólafsdóttur frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd, Ragnhildi Helgadóttur frá Háskólanum í Reykjavík, Karl Axelsson hrl., Harald Steinþórsson frá fjármálaráðuneyti, Snorra Olsen og Eddu Símonardóttur frá tollstjóranum í Reykjavík, Jónas Guðmundsson og Guðgeir Eyjólfsson frá Sýslumannafélagi Íslands, Írisi Björk Hreinsdóttur og Árna Huldar Sveinbjörnsson frá Fjármálaeftirlitinu, Snorra Stefánsson frá Samkeppniseftirlitinu, Evu Bryndísi Helgadóttur frá Lögmannafélagi Íslands, Ingvar Rögnvaldsson frá ríkisskattstjóra, Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Stefán Aðalsteinsson frá BHM, Sonju Ýr Þorbergsdóttur frá BSRB, Gísla Tryggvason talsmann neytenda, Magnús Norðdahl frá ASÍ, Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum, Ástu S. Helgadóttur frá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Arneyju Einarsdóttur og Ástu Rut Jónsdóttur frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Helga Sigurðsson frá Nýja Kaupþingi, Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Odd Ólason og Hauk Skúlason frá Nýja Glitni, Önnu B. Sigurðardóttur og Guðlaugu B. Ólafsdóttur frá NBI (Nýja Landsbanka), Davíð B. Gíslason frá Momentum, Gunnhildi Gunnarsdóttur og Karl F. Jóhannsson frá Íbúðalánasjóði, Sigurð Örn Guðleifsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Guðjón Guðmundsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Hrafn Magnússon, Stefán Árna Auðólfsson og Tómas N. Möller frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Björn Þorra Viktorsson og Karl Georg Sigurbjörnsson frá Félagi fasteignasala, Þorstein Arnalds frá Fasteignaskrá Íslands, Rakel Sveinsdóttur frá Credit Info, Sigurð Arnar Jónsson og Bjarna Þór Óskarsson frá Intrum.
    Nefndinni bárust umsagnir frá ríkisskattstjóra, Neytendasamtökunum, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Landssamtökum lífeyrissjóða, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Fjármálaeftirlitinu, Momentum greiðsluþjónustu ehf., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hagsmunasamtökum heimilanna, Bændasamtökum Íslands, Íbúðalánasjóði, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, tollstjóranum í Reykjavík, Viðskiptaráði Íslands, Samkeppniseftirlitinu, Lögmannafélagi Íslands og talsmanni neytenda.

Markmið frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að í lög um gjaldþrotaskipti verði bætt nýju úrræði sem ber heitið greiðsluaðlögun. Löng og farsæl reynsla er af úrræðum af þessum toga annars staðar á Norðurlöndum, eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins.
    Með úrræðinu er gert ráð fyrir að skuldari geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar og er lagt til grundvallar að beitt sé gildandi reglum um nauðasamninga með þeim frávikum sem reglur frumvarpsins hafa að geyma. Þessi frávik eru í fyrsta lagi að skuldari þarf ekki að afla skriflegrar yfirlýsingar um meðmæli lánardrottna. Ákvörðun um greiðsluaðlögun er því ekki háð samþykki kröfuhafa. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að dómskipaður umsjónarmaður taki rökstudda afstöðu til þess hvort hann mæli með því að greiðsluaðlögun komist á fyrir skuldara. Í þriðja lagi er lagt til að kostnaður við að koma á greiðsluaðlögun falli að verulegu leyti á ríkissjóð.
    Með greiðsluaðlögun er greiðslugeta skuldara lögð til grundvallar skuldaskilum. Aðferðin býður upp á einfalda og skilvirka leið til að takast á við þær aðstæður þegar skuldari getur ekki efnt skuldbindingar sínar. Annars vegar felur greiðsluaðlögun í sér einfalda, ódýra og sársaukalitla leið til að afskrifa kröfur sem í reynd eru þegar tapaðar. Hins vegar felur greiðsluaðlögun í sér þann ávinning fyrir kröfuhafa að aflahæfi skuldara er að ákveðnu leyti bundið í þágu kröfuhafa á greiðsluaðlögunartímanum. Ávinningurinn fyrir skuldarann er að honum er gert kleift að efna skuldbindingar sínar eftir getu um leið og hann kemst hjá gjaldþroti.
    
Almennt um greiðsluaðlögun.
    Með greiðsluaðlögun er gert ráð fyrir að einstaklingur sem ekki getur staðið við skuldbindingar sínar geti með einföldum og skilvirkum hætti efnt þær eftir því sem aðstæður hans leyfa. Gjaldþrot einstaklinga hafa í för með sér margháttaðar neikvæðar afleiðingar fyrir samfélagið og mikla erfiðleika fyrir þá sem verða úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir upplifa mikið skipbrot og geta oft átt erfitt með að koma fótum undir sig á ný. Margir þeir einstaklingar sem lenda í þeirri stöðu að ráða ekki við skuldbindingar sínar hafa engu síður greiðsluvilja og greiðslugetu, jafnvel þótt hún dugi ekki fyrir öllum þeim skuldbindingum sem þeir þurfa að standa skil á. Við þær aðstæður er það mikill galli að ekki skuli vera í lögum skilvirkur farvegur til að auðvelda þeim sem lenda í þessari stöðu að standa skil á því sem þeir ráða við.
    Með greiðsluaðlögun er komið á slíku úrræði. Einstaklingum sem uppfylla skilyrði fyrir greiðsluaðlögun verður þá kleift að skuldbinda sig til að binda aflahæfi sitt til lúkningar þeirra skulda sem þeir ráða við í einhvern afmarkaðan tíma, gegn því að eftirstöðvar skulda, ef einhverjar verða, falli niður að þeim tíma loknum. Af þessu leiðir að greiðsluaðlögun getur bæði átt við um þá einstaklinga sem komnir eru í verulega greiðsluerfiðleika og vilja forðast gjaldþrotameðferð og einnig um þá sem þegar eru komnir í gjaldþrotameðferð og vilja ljúka henni með skipulegum hætti og í samræmi við greiðslugetu og þannig komist hjá neikvæðum afleiðingum gjaldþrots.
    Samfélagslegir hagsmunir af þessu úrræði eru miklir. Mikilvægt er að fólk sjái almennt hag sínum best borgið með því að standa skil á eins miklu af skuldum sínum og kostur er. Það er einnig mikilvægt að auðvelda þeim einstaklingum sem eru viljugir til að axla ábyrgð á þeim skuldbindingum sem þeir hafa stofnað til og gera þeim unnt að greiða þær niður eftir getu. Á hinn bóginn er jafnmikilvægt að tryggt sé að greiðsluaðlögun sé tímabundin og að hún standi í afmarkaðan sanngjarnan tíma, svo að skuldari sjái fyrir endann á erfiðleikum sínum með þessu úrræði.
    Við þær aðstæður sem nú eru í efnahagslífinu hefur úrræði af þessum toga mikla þýðingu. Fordæmi frá öðrum löndum sem lent hafa í erfiðri efnahagskreppu benda til þess að ef margir verða gjaldþrota fylgi því mikil hætta á margháttuðum neikvæðum afleiðingum, m.a. að efnahagskreppan þróist í djúpa félagslega kreppu.
    
Gildissvið frumvarpsins.
    Samkvæmt frumvarpinu er einungis heimilt að gera nauðasamning til greiðsluaðlögunar þegar um samningskröfur er að ræða, en það eru allar kröfur á hendur skuldara aðrar en þær sem eru undanþegnar áhrifum af nauðasamningi eða falla niður við staðfestingu hans, sbr. 1. og 3. mgr. 28. gr. laganna, sem þýðir í reynd að úrræðið tekur til allra krafna sem ekki eru tryggðar með veði, t.d. skulda við banka vegna yfirdráttarlána, greiðslukortaskulda og þess sem eftir stendur af bifreiðaláni þegar búið er að selja bifreiðina.
    Í frumvarpinu er þó að finna ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að heimilt sé að kveða á um það í nauðasamningi til greiðsluaðlögunar að unnt verði að breyta skilmálum krafna sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað er til eigin nota skuldara. Þá er einnig kveðið á um það í bráðabirgðaákvæðinu að sá hluti skuldarinnar sem falli utan andvirðis eignarinnar teljist til samningskrafna.
    Umfjöllun um frumvarpið fyrir nefndinni snerist að miklu leyti um þær takmarkanir sem í bráðabirgðaákvæðinu fólust og hvort og þá hvernig mögulegt væri að láta greiðsluaðlögun, eins og hún er skilgreind í frumvarpinu, taka til krafna sem tryggðar eru með veði í fasteign. Sérstök sjónarmið giltu að sumu leyti um slíkar kröfur og mikilvægt væri að lagatextinn tæki með ótvíræðum hætti á þeim álitamálum sem sköpuðust ef slíkar kröfur féllu undir úrræðið. Þá var þeim sjónarmiðum hreyft fyrir nefndinni að bráðabirgðaákvæðið fæli í sér mismunun og jafnvel brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár þar sem með því sé í reynd verið að hygla viðskiptamönnum ríkisbanka og Íbúðalánasjóðs umfram viðskiptamenn annarra fjármálastofnana, t.d. einkarekinna lánafyrirtækja og sparisjóða. Þá kom einnig fram að þessi tilhögun gæti haft áhrif á samkeppni milli opinberra lánastofnana og einkarekinna lánastofnana þegar til lengri tíma er litið og gæti jafnvel verið túlkuð sem ólöglegur ríkisstyrkur.
    Eftir umræður í nefndinni beindi formaður nefndarinnar því til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og réttarfarsnefndar að leitað yrði leiða til að útfæra með fullnægjandi hætti almenna greiðsluaðlögun veðkrafna á þann veg að skuldsettu fólki í hóflegu húsnæði sem ekki réði við greiðslubyrði sína yrði gefið tækifæri til greiðsluaðlögunar án hefðbundinna nauðungarsölu- og gjaldþrotaúrræða.
    Í kjölfar þessa hóf dóms- og kirkjumálaráðuneytið undirbúning löggjafar um tímabundna greiðsluaðlögun veðlána. Nefndin fagnar því og hefur sammælst um að flytja frumvarp sem unnið hefur verið á grundvelli þeirrar vinnu sem fram hefur farið í nefndinni. Af þeim sökum leggur nefndin til að ákvæði til bráðabirgða, sem tekur einungis til veðlána sem veitt hafa verið af ríkisbönkum og Íbúðalánasjóði, verði fellt úr frumvarpinu.

Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar.
    Nauðasamningur til greiðsluaðlögunar er heiti sem lýsir markmiðinu með úrræðinu vel. Úrræðið felur í reynd í sér að greiðslugeta skuldara er lögð til grundvallar og umsjónarmanni gert kleift að skipta því fé sem skuldari getur aflað milli kröfuhafa og forða þannig skuldara frá gjaldþroti. Í lokamálsgrein 1. gr. a í frumvarpinu, sem verður 63. gr. a í lögunum, er tekið fram að almennar reglur laganna gildi um nauðasamning til greiðsluaðlögunar eftir því sem við getur átt nema annað leiði af ákvæðum X. kafla a og þeim sérreglum sem ætlað er að gilda um greiðsluaðlögun, sbr. athugasemdir í greinargerð. Þá er sérstaklega tekið fram í greininni að leita megi „nauðasamnings til greiðsluaðlögunar“ og er þar með áréttað að greiðsluaðlögun er í raun sérstök tegund nauðasamnings, sem ekki aðeins önnur ákvæði 3. þáttar laganna taka til, heldur einnig sérhver fyrirmæli um nauðasamninga annars staðar í þeim lögum eða utan þeirra. Þá var því hreyft fyrir nefndinni að taka þyrfti fram að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar hafi ekki áhrif á kröfur sem njóta forgangs við gjaldþrotaskipti á búi skuldara, sbr. 28. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Nefndin telur því nauðsynlegt að taka skýrt fram að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar er sérstök tegund nauðasamnings og nær því ekki til þessara krafna enda leiðir það af fyrrnefndri lokamálsgrein 1. gr. a (63. gr. a) þar sem segir að almennar reglur laganna gildi um þessa tegund nauðasamninga eftir því sem við getur átt og annað leiði ekki af ákvæðum kaflans.
    Fyrir nefndinni kom fram að í viðskiptaráðuneytinu sé unnið að breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki og að við þá vinnu hafi komið fram að misræmi sé í meðferð svokallaðra víkjandi lána þegar um gjaldþrotaskipti er að ræða annars vegar og hins vegar í nauðasamningum. Í nauðasamningum er þessum kröfum gert hærra undir höfði en í gjaldþrotaskiptum. Þessar kröfur geta haft áhrif á nauðasamning og fellt hann jafnvel þótt þær eigi að standa aftast í skiptaröð sbr. ákvæði 114. gr. gjaldþrotalaga. Nefndin telur nauðsynlegt að leggja til lagfæringu á lögunum að þessu leyti og leggur til að tilvísun í 1..3. og 5. tölul. í 3. mgr. 28. gr. falli brott.
    Nefndin telur einnig nauðsynlegt að taka í þessu sambandi skýrt fram, vegna athugasemda í umsögn til nefndarinnar, að eignaauki sem stafar af eftirgjöf skulda við nauðasamninga telst ekki til skattskyldra tekna sbr. 3. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, enda hafi skuldirnar ekki myndast í sambandi við atvinnurekstur skattaðila og á það samkvæmt framansögðu við um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eins og hefðbundna nauðasamninga. Til að taka af allan vafa í því efni hefur fjármálaráðherra lagt fram frumvarp þess efnis á þskj. 618 . 366. mál.

Fyrir hverja er úrræðið?
    Einnig var rætt í nefndinni fyrir hverja úrræðið er en það er ætlað almennum launþegum og í undantekningartilfellum þeim sem hafa stundað atvinnurekstur. Í fjölda atvinnugreina vinna menn í auknum mæli sem verktakar en eru í reynd ekki sjálfstæðir atvinnurekendur nema að nafninu til þar sem þeir ráða ekki vinnutíma sínum og hafa ekki stofnað til skulda svo nokkru nemi vegna rekstrarins. Frumvarpinu er ætlað að taka til slíkra aðila. Úrræðið er þó háð því að viðkomandi hafi hætt atvinnurekstri.
    Í þessu sambandi ræddi nefndin einnig nokkuð um stöðu annarra atvinnurekenda sem stunda rekstur í eigin nafni og voru bændur sérstaklega nefndir í því sambandi. Nefndin telur eðlilegra að tekið sé með sérstökum hætti á greiðsluerfiðleikum bænda, enda hentar úrræðið ekki vel fyrir þann atvinnurekstur vegna víðtækra veðsetninga bújarða, bústofns og jafnvel íbúðarhúsnæðis bænda vegna reksturs búanna. Þá kom fram fyrir nefndinni að annars staðar á Norðurlöndum hefur úrræðið ekki verið látið ná til atvinnustarfsemi, nema í undantekningartilfellum eins og lagt er til í frumvarpinu, en litið svo á að nauðasamningsúrræðið henti betur í þeim tilfellum og fellst nefndin á þau sjónarmið. Nefndin telur þó ástæðu til að beina því til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að kannað verði hvernig nauðasamningaúrræðið henti smáum atvinnurekstri og að leitað verði leiða til að einfalda slíkt ferli í ljósi fyrirsjáanlegs vanda margra smærri atvinnurekenda.
    Nefndin ræddi einnig d-lið 1. gr. frumvarpsins (63. gr. d.) en þar er tekið fram að auk þeirra ástæðna sem skv. 1. mgr. 38. gr. laganna skulu leiða til þess að héraðsdómari synji um heimild til að leita nauðasamnings geti hann hafnað beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef ákveðin tilgreind skilyrði (ástæður) eru fyrir hendi, t.d. að skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Hér er m.a. átt við það þegar vörslusköttum hefur ekki verið skilað og var þeim sjónarmiðum hreyft fyrir nefndinni að ekki sé rétt að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar við þessar aðstæður. Nefndin telur hins vegar ekki rétt að þrengja úrræðið umfram það sem frumvarpið gerir og bendir á að í flestum tilfellum eru skuldir vegna virðisaukaskatts, staðgreiðslu og annara opinberra gjalda greiddar fyrst. Þá er úrræðið ætlað almennum launþegum en sjálfstæðum atvinnurekendum í undantekningartilfellum og þá með því skilyrði að atvinnurekstri sé hætt. Það væri því í algjörum undantekningartilfellum sem héraðsdómari mundi heimila sjálfstæðum atvinnurekanda nauðasamning til greiðsluaðlögunar og þá væntanlega þegar um mjög óverulegar skuldir er að ræða.
    Í frumvarpinu er lagt til að dómsmálaráðherra sé heimilt að ákveða með reglugerð að skuldara bjóðist endurgjaldslaus aðstoð hjá opinberri stofnun eða öðrum við gerð beiðni og fylgigagna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Nefndin telur mjög mikilvægt að þeir sem eiga í greiðsluerfiðleikum geti þannig leitað til og fengið aðstoð sérfræðinga við að finna úrlausn sinna mála án mikilla fjárútláta.

Verkefni umsjónarmanns með greiðsluaðlögun.
    Mikilvægasta gagnið sem þarf að fylgja beiðni um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar er greiðsluáætlun. Greiðsluáætlun þjónar þeim tilgangi að sýna lánardrottnum jafnt sem umsjónarmanni með greiðsluaðlögun fram á hver sé fyrirsjáanleg geta skuldarans til að greiða af skuldum sínum á komandi árum og kemur í stað frumvarps til nauðasamnings. Með frumvarpinu er lagt til að afborgunarfjárhæð samkvæmt greiðsluáætlun verði bundin við launavísitölu eða á annan hátt við tilteknar verðlagsmælingar og telur nefndin það eðlilegt þegar litið er til þess að úrræðinu er ætlað að standa í nokkur ár.
    Nefndin ræddi nokkuð um stöðu og heimildir umsjónarmanns en samkvæmt frumvarpinu er hlutverk hans að meta hvort rétt sé að veita skuldara heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
    Í nefndinni var sérstaklega rætt um framkvæmd þessa verkefnis og þann kostnað sem af störfum umsjónarmanns kann að hljótast. Sérstaklega var bent á að mikil óvissa væri um hvernig úrræði þetta reyndist, vera kynni að margir vildu reyna að nýta sér það við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu og því væri mikilvægt að tryggja einsleitni í beitingu þess sem kostur væri og draga úr kostnaði. Af þeim sökum var niðurstaða nefndarinnar að rétt væri að heimila dóms- og kirkjumálaráðherra að fela sýslumannsembætti eða öðrum opinberum aðila hlutverk umsjónarmanns. Með slíkri lausn væri tryggð yfirsýn yfir notkun og beitingu úrræðisins frá upphafi og jafnframt auðveldað að koma á samræmdu verklagi og festu í framkvæmd þess. Hugsanlegt er að færa önnur innheimtuverkefni frá því sýslumannsembætti sem fengi þetta verkefni og tryggja þannig hlutleysi þess sýslumanns sem falið yrði verkefnið. Rétt væri síðar að endurmeta reynsluna og fela þá eftir atvikum öðrum aðilum hlutverk umsjónarmanna. Nefndin leggur því til breytingu á frumvarpinu að þessu leyti.

Forsendubrestur og tímalengd úrræðis.
    Á fundum sínum ræddi nefndin einnig nokkuð um tímalengd úrræðisins og endurskoðun þess á gildistímanum en í frumvarpinu er ekki kveðið á um það. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í norrænum rétti hafi mótast sú venja að greiðsluaðlögunartímabil sé þrjú til fimm ár. Í Noregi er tímabilið fimm ár. Nefndin telur ekki efni til að fastsetja ákveðinn tímaramma í löggjöf, enda geti verið misjafnt hvað henti viðkomandi skuldara og því eðlilegt að umsjónarmaður leggi mat á það í sinni greinargerð.

Sérstök sjónarmið um stöðu skuldara.
    Nefndin minnir á að við þær efnahagslegu aðstæður sem nú ríkja og erfiðleika sem margir standa frammi fyrir er nauðsynlegt að lögfesta úrræði sem hafi að markmiði að viðhalda greiðsluvilja skuldara og styðja við sjálfsbjargarviðleitni þeirra sem lenda í vanskilum. Af þeim ástæðum telur nefndin rétt að horfa til ýmissa atriða í íslenskri löggjöf sem ekki hafa þau áhrif að auðvelda skuldurum að standa í skilum. Sérstaklega var á það bent fyrir nefndinni að sú tilhögun að kröfuhafi hafi sjálfdæmi um að ráðstafa innborgunum á skuld fyrst til greiðslu kostnaðar og vaxta og síðan til höfuðstóls hafi augljós neikvæð áhrif á greiðsluvilja skuldara. Nefndin fagnar af þeirri ástæðu því frumkvæði fjármálaráðherra að breyta þessari tilhögun tímabundið að því er varðar kröfur ríkisins.
    Þá var nefnt að sú staðreynd að erfitt er að ljúka gjaldþroti hafi augljós neikvæð áhrif á skuldara og þátttöku hans í samfélaginu. Með núverandi löggjöf séu skuldarar í reynd þvingaðir til svartrar atvinnustarfsemi eða til þess að skjóta undan tekjum til að verjast kröfuhöfum, sem endalaust geta haldið kröfum á lífi. Með greiðsluaðlögun er komið til móts við skuldara að því leyti að greiðsluaðlögun opnar einfalda og skilvirka leið fyrir þá sem vilja ráðstafa hluta aflahæfis síns til greiðslu skulda til að greiða það sem unnt er að greiða en fá eftirstöðvar krafna felldar niður. Með greiðsluaðlögun skapast því nýr möguleiki fyrir gjaldþrota einstaklinga að ljúka gjaldþroti sem þegar er orðið og hefja nýjan kafla í lífinu.
    Þótt greiðsluaðlögun sé komið á geta kröfuhafar áfram gengið að ábyrgðarmönnum og t.d. veði þriðja manns óháð greiðsluaðlögunarúrræðinu. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að ábyrgð þriðja manns er mun algengari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum þó að dregið hafi úr notkun hennar síðustu ár. Nefndin telur óhjákvæmilegt að fram fari endurskoðun á heimildum til samninga með ábyrgð þriðja manns og beinir því til ríkisstjórnar að það verði athugað og bendir enn fremur á þingskjal nr. 135 . 125. mál.
    Nefndin telur mikla þjóðhagslega hagsmuni af því að skuldarar sjái tilgang í að halda áfram að greiða af skuldum. Óhætt er að segja að í íslenskri löggjöf er mikið ójafnvægi milli hagsmuna skuldara og kröfuhafa, þeim fyrrnefnu í óhag. Við þessar aðstæður er að áliti nefndarinnar brýnt að endurmeta löggjöf og venjur í því skyni að auka á jafnvægi milli hagsmuna skuldara og kröfuhafa og gera skuldurum auðveldara og hagfelldara að standa við skuldbindingar sínar. Nefndin vill því beina þeim tilmælum til ríkisstjórnar að hún hlutist til um að tafarlaust verði gerð athugun á þeim hindrunum sem eru í löggjöf og réttarvenju að þessu leyti og undirbúi frumvarp til úrbóta.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGUM:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Tilvísunin „1..3. og 5. tölul.“ í 3. mgr. 28. gr. laganna fellur brott.
     2.      3. mgr. d-liðar 1. gr. orðist svo:
                  Umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun er á hendi sýslumanns eins eða fleiri eða annars opinbers aðila, samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra.
     3.      Ákvæði til bráðabirgða falli brott.
                                  

Alþingi, 12. mars 2009.Árni Páll Árnason,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Birgir Ármannson,


með fyrirvara.Ágúst Ólafur Ágústsson.


Ólöf Nordal,


með fyrirvara.


Árni Þór Sigurðsson.Sigurður Kári Kristjánsson,


með fyrirvara.


Siv Friðleifsdóttir.


Jón Magnússon,


með fyrirvara.