Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 405. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 741  —  405. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Ásmund Helgason frá skrifstofu Alþingis og Skúla Guðmundsson frá Þjóðskrá.
    Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við lög um kosningar til Alþingis ákvæði til bráðabirgða um breytingar á ýmsum frestum sem gilda í aðdraganda kosninga. Gert er ráð fyrir að viðmiðunardagur staðfestrar kjörskrár verði fjórum vikum fyrir kjördag í stað fimm vikna. Þá skuli birta almenningi kjörskrá átta dögum fyrir kjördag í stað tíu daga. Mörk kjördæmanna í Reykjavík skuli birta með auglýsingu þremur vikum fyrir kjördag í stað fjögurra vikna. Þá renni frestur til að tilkynna framboð út kl. 12 á hádegi 11 dögum fyrir kjördag í stað 15 daga og skulu auglýsingar á framboðum birtast eigi síðar en fimm dögum fyrir kjördag í stað tíu daga.
    Einnig eru í frumvarpinu gerðar breytingar á nokkrum ákvæðum laganna sem eru til frekari skýringar á þeim. Jafnframt er lagt til að gerðar verði lagfæringar vegna breyttra aðstæðna, m.a. er í frumvarpinu uppfærður listi með sveitarfélögum landsins miðað við breytingar sem hafa orðið út af sameiningu sveitarfélaga eða út af breytingum á heitum þeirra.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ágúst Ólafur Ágústsson, Ólöf Nordal og Siv Friðleifsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. mars 2009.Árni Páll Árnason,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Álfheiður Ingadóttir.Árni Þór Sigurðsson.


Siguður Kári Kristjánsson.


Jón Magnússon.