Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 437. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 742  —  437. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2008.

1. Inngangur.
    Það sem setti hvað mestan svip á starfsemi ÖSE-þingsins á árinu voru umræður um átökin í Georgíu. Eka Tkeshelashvili, utanríkisráðherra Georgíu, og Vitaly Churkin, fastafulltrúi Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, voru frummælendur á haustfundi ÖSE-þingsins sem þótti sæta nokkrum tíðindum þar sem ríkin slitu stjórnmálasamstarfi í kjölfar átakanna sem brutust út í ágúst.
    Í öðru lagi bar það til tíðinda að forseti ÖSE-þingsins, Göran Lennmarker, forseti ÖSE- þingsins, kom í heimsókn til Íslands í apríl. Var það í fyrsta sinn sem forseti ÖSE-þingsins sækir Ísland heim en heimsókn Lennmarkers var liður í því að efla tengsl við þau 56 þjóðþing sem eiga aðild að ÖSE-þinginu og gera grein fyrir hlutverki og starfsemi ÖSE-þingsins.
    Í þriðja lagi hélt umræðan um samvinnu ÖSE-þingsins og lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODIHR) við kosningaeftirlit áfram. Vonir voru bundnar við að nýr forseti ÖSE- þingsins, Joao Soares frá Portúgal, og nýr yfirmaður ODIHR, Janez Lenarcic, gætu náð samkomulagi um samvinnu stofnananna við kosningaeftirlit.
    Í fjórða lagi kom fram að framhald yrði á þeirri viðleitni að auka þátttöku þingmannasendinefnda frá löndum Mið-Asíu sem eru fimm talsins, þ.e. Kasakstan, Túrkmenistan, Úsbekistan, Kirgisistan og Tadsjikistan. Liður í því var að halda ársfund ÖSE-þingsins í Astana, höfuðborg Kasakstans, auk þess sem að sérstakur fundur um Mið-Asíu var haldinn á ársfundi ÖSE-þingsins í Toronto í Kanada.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, eða til ársins 1995) starfar á grundvelli Helsinkisáttmálans (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn sem komi saman einu sinni á ári. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði en ólíkt öðrum fjölþjóðlegum stofnunum liggur enginn hefðbundinn stofnsáttmáli þeim til grundvallar.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 56 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Til að sinna hlutverki sínu er rætt og ályktað um málefni ÖSE á ársfundum ÖSE-þingsins. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri til ráðherraráðs ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráðs ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE sem funda vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE virkar þingið sem hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherranefndar ÖSE (e. Chairman-in-Office) þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans. ÖSE ber þó ekki skylda til að svara fyrirspurnum þingmanna strangt til tekið. Þá tekur ÖSE-þingið þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið á samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE um kosningaeftirlit. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um verkaskiptingu milli stofnananna þrátt fyrir samstarfssamning á milli þeirra frá árinu 1997. Einnig er ÖSE-þingið í samvinnu við önnur fjölþjóðleg þing eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið um kosningaeftirlit.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki taka að sér að halda ársfundi. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum ÖSE- þingsins í formi ályktunar ársfundar. Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórn- og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð eru fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín eins og fyrr segir. Fyrir utan árs- og vetrarfund er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd (e. Standing Committee) og framkvæmdastjórn (e. Bureau) þingsins kemur saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna ÖSE-þingsins fer fram á sama tíma.
    Fyrir utan fastanefndir þingsins, stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa (e. Special Representative) og þingið skipað tímabundið sérnefndir til að taka til skoðunar og vera ráðgefandi um aðkallandi mál. Sem dæmi var starfandi sérstakur fulltrúi vegna fangabúða Bandaríkjahers í Guantanamo á Kúbu fyrir meinta hryðjuverkamenn og sérnefnd vegna stjórnmálaástandsins í Hvíta-Rússlandi.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru í upphafi árs 2008 Einar Már Sigurðarson, formaður, þingflokki Samfylkingar, Pétur H. Blöndal varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Valgerður Sverrisdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru þau Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingar, Björk Guðjónsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks. Magnea Marinósdóttir var ritari Íslandsdeildar.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2008 var eftirfarandi:
     1.      Nefnd um stjórnmál og öryggismál:     Pétur H. Blöndal.
     2.      Nefnd um efnahagsmál, vísindamál,
              tæknimál og umhverfismál:     Valgerður Sverrisdóttir.
     3.      Nefnd um lýðræði og mannréttindamál:     Einar Már Sigurðarson.

4. Lýðræðislegt eftirlit með fjármálum ÖSE.
    Pétur H. Blöndal, þáverandi formaður Íslandsdeildar, var skipaður sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins, Görans Lennmarkers, um fjárreiður ÖSE í september 2006. Nýr forseti, Joao Soares, sem tók við embætti á ársfundinum 2008 óskaði eftir að Pétur héldi áfram starfi sínu.
    Pétur lagði fram tvær skýrslur á árinu, aðra á haustfundinum og hina á ársfundinum, auk þess sem hann heimsótti bæði skrifstofu lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE í Varsjá, sem sér m.a. um kosningaeftirlit, og ríkisendurskoðun Noregs í Osló sem sér um endurskoðun ársreikninga ÖSE. Hann átti einnig fund með Ríkisendurskoðun og utanríkisráðuneytinu hérlendis.
    Eftirlit norsku ríkisendurskoðunarinnar felur m.a. í sér skyndiskoðanir þar sem starfsmenn ríkisendurskoðunarinnar fara með skömmum fyrirvara og taka út stöðuna hjá einstökum ÖSE- skrifstofum eða ÖSE-verkefnum í einstökum aðildarlöndum. Að því loknu er stöðuskýrslu skilað til höfuðstöðva ÖSE í Vín og utanríkisráðherra viðkomandi aðildarríkis ef þess er óskað. Hingað til hefur verið um að ræða trúnaðarskýrslur sem aðrir hafa ekki haft aðgang að. Á haustfundi ÖSE-þingsins í febrúar gagnrýndi Pétur að ÖSE-þingið og ráðgjafarnefnd ÖSE um rekstur og fjármál (e. Advisory Committee on Management and Finance), sem í eiga sæti fulltrúar allra aðildarríkjanna, fái ekki eintak af skýrslum ríkisendurskoðunar Noregs. Í máli Péturs kom fram að án eintaks af skýrslunum geti ÖSE-þingið, fyrir hönd þeirra 56 þjóðþinga sem fjármagna starfsemi ÖSE, ekki haft raunverulegt eftirlit með nýtingu fjármuna. Í fyrirspurnartíma þingmanna með Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, formennskuríkis ÖSE, varpaði Pétur fram þeirri spurningu hvernig stæði á því að skýrslur ríkisendurskoðunar Noregs um einstakar stofnanir ÖSE væru trúnaðarmál og hvort hann teldi ekki eðlilegt að fulltrúi ÖSE-þingsins fyrir hönd þjóðþinganna 56 fengi eintak af öllum skýrslunum. Svar ráðherra var á þá leið að það væri örugglega hægt að fá eintak af skýrslunum þrátt fyrir að þær væru ekki gefnar út opinberlega ef þess væri óskað sérstaklega.
    Á ársfundi ÖSE-þingsins í Astana gagnrýndi Pétur H. Blöndal að fjárlögin fyrir árið 2009 væru sama nafnupphæð og undanfarin ár. Sú staðreynd að fjárhæðin tæki ekki mið af verðbólgu þýddi í raun niðurskurð í fjárframlögum til ÖSE milli ára sem væri áhyggjuefni. Hann tók sem dæmi að 2% verðbólga á ársgrundvelli þýddi í raun og veru 11% samdrátt yfir sex ára tímabil sem samsvaraði því að leggja niður starfsemi einnar stofnunar af níu sem ÖSE rekur. Pétur ítrekaði í því samhengi þá tillögu sína að ákveða starfsemina til lengri tíma en eins árs í senn með það fyrir augum að skerpa á markmiðum og stefnumótun, sjá betur fyrir lok verkefna og tryggja fjármagn til starfseminnar til lengri tíma. Hann ítrekaði þessa tillögu sína m.a. í ljósi þess hversu langan tíma það tók að ná samstöðu um fjárlögin fyrir árið 2008 en þau voru fyrst samþykkt 7. mars 2008. Að venju sat Pétur einnig fund stjórnarnefndar þar sem framkvæmdastjóri ÖSE, Marc Perrin de Brichambaut, gerði grein fyrir fjármálum ÖSE og fjárlagatillögu ÖSE (e. Program Outline for the OSCE Budget) fyrir árið 2009.
    Í lok september heimsótti Pétur skrifstofu lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE í Varsjá til að kynna sér verkefni hennar og rekstur. Einnig heimsótti hann ríkisendurskoðun Noregs í Osló. Þar var m.a. rætt um aðlögun stofnunarinnar að þeim nýmælum sem komu til framkvæmda árið 2008 og felast í því að ekki er eingöngu skoðað hvort rekstur sé í samræmi við fjárhagsáætlun heldur er einnig lagt mat á það hvort markmiðum einstakra verkefna sé náð. Slíkar árangursmælingar eru í samræmi við áherslur Péturs um að meta ekki eingöngu hvernig fjármunum ÖSE er varið heldur einnig hvort settum verkefnamarkmiðum sé náð.

5. Heimsókn forseta ÖSE-þingsins til Íslands 21.–22. apríl.
    Dagana 21.–22. apríl 2008 kom Göran Lennmarker, forseti ÖSE-þingsins, í heimsókn til Íslands. Er það í fyrsta sinn sem forseti ÖSE-þingsins sækir Ísland heim. Með honum voru Tina Schøn, aðstoðarframkvæmdastjóri ÖSE-þingsins og Ann-Sofi Lindenbaum, ritari sænsku landsdeildar ÖSE-þingsins.
    Lennmarker átti fund með Sturlu Böðvarssyni, forseta Alþingis, Pétri H. Blöndal og Valgerði Sverrisdóttur í Íslandsdeild ÖSE-þingsins, utanríkismálanefnd og embættismönnum utanríkisráðuneytis. Þá átti Lennmarker fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra og hitti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra að máli. Að lokum hélt Lennmarker framsögu á opnum fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs 21. apríl á Hótel Sögu þar sem hann fjallaði um stjórnmálaástandið í Rússlandi og fordæmisgildi viðurkenningar á sjálfstæði Kósóvó fyrir „frosin átök“ í Austur-Evrópu þar sem Rússland telur sig eiga hagsmuna að gæta.
    Heimsókn Lennmarkers var liður í því að efla tengsl við þau 56 þjóðþing sem eiga aðild að ÖSE-þinginu. Á fundum sínum hérlendis gerði hann grein fyrir hlutverki og starfsemi ÖSE-þingsins. Í máli hans kom fram að ÖSE-þingið beindi sjónum sínum einkum að þremur þáttum.
    Í fyrsta lagi að stuðla að samvinnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við ríki Mið- Asíu. Markmiðið væri ekki síst að miðla reynslu af lýðræði, markaðs- og velferðarkerfi og af svæðisbundnu samstarfi til þingmanna frá Mið-Asíu. Að mati Lennmarkers væri samstarf landa Mið-Asíu við Norðurlöndin á margan hátt ekki eins pólitískt viðkvæmt og samstarf þeirra við önnur vestræn ríki. Styrkur væri af aðkomu Eystrasaltsríkjanna vegna sameiginlegrar reynslu þeirra og landa Mið-Asíu af því að heyra undir Sovétríkin og vegna reynslu Eystrasaltsríkjanna af svæðisbundnu samstarfi.
    Í öðru lagi legði ÖSE-þingið áherslu á kosningaeftirlit og síðast en ekki síst á hlutverk og framlag þingmanna í þágu markmiða ÖSE á því víðfeðma landsvæði sem stofnunin nær til í 56 ríkjum í þremur heimsálfum. Tók hann sem dæmi átökin milli Armeníu og Aserbaídsjan um Nagorno-Karabakh hérað og framlag þingmanna til að finna lausn í þeirri deilu, bæði þingmanna frá svæðinu og utanaðkomandi. Lagði hann áherslu á að framlag þingmanna væri óháð stærð þeirra þjóða sem þeir kæmu frá. Sem dæmi tók hann starf Péturs H. Blöndals sem verið hefur sérlegur fulltrúi forsetans varðandi fjárreiður ÖSE síðan árið 2006. Starf hans fæli ekki eingöngu í sér lýðræðislegt eftirlit með því hvernig ÖSE ver fjármunum sínum heldur einnig því hvernig ÖSE gangi að ná markmiðum sínum með starfi sínu á vettvangi (e. political auditing).
    Á fundi með Sturlu Böðvarssyni, forseta Alþingis, beindi Lennmarker þeirri spurningu til forsetans hvort Alþingi gæti mögulega haldið vorfund, haustfund eða ársfund ÖSE-þingsins á Íslandi. Í umræðum á fundinum kom fram að helst kæmi til greina að halda haustfund hér á landi en þeir fundir eru haldnir í september og sóttir af um 200–250 þing- og embættismönnum.
    Á fundi með þingmönnum Íslandsdeildar ÖSE-þingsins, þeim Pétri H. Blöndal og Valgerði Sverrisdóttur, var rætt nánar um hugsanlegan haustfund hér á landi. Jafnframt var hugmynd Péturs um virkari samskipti milli landsdeilda ÖSE-þingsins rædd. Lennmarker tók vel í hugmyndina og í framhaldinu var rætt nánar hvernig skrifstofa ÖSE-þingsins og einstök sendiráð gætu komið að málum við að skipuleggja t.d. tvíhliða fundi landsdeilda meðan á árs- eða vetrarfundum stæði.
    Á fundi með utanríkismálanefnd kom m.a. fram að samvinna ÖSE-þingsins, ekki síst Norðurlandanna við lönd austan ESB og NATO eins og Hvíta-Rússland og ríki Mið-Asíu væri mjög mikilvæg, enda ættu þau ekki lýðræðislega granna í austri. Í svari við spurningu um hvort einhverri þeirra fjölþjóðastofnana sem störfuðu innan Evrópu, eins og ÖSE, Evrópuráðinu, Evrópusambandinu eða NATO, væri ofaukið kom fram í máli Lennmarkers að alls hefðu 24 ný ríki orðið til eftir fall Sovétríkjanna árið 1991. Að hans mati væri því starfandi fjölþjóðastofnunum ekki ofaukið þrátt fyrir skörun verkefna. Þær styddu allar við kjarnastarf hver annarrar með því að festa í sessi lýðræðisleg gildi og leikreglur sem væru forsenda friðar og stöðugleika í álfunni til framtíðar.
    Að lokum var kosningaeftirlit rætt. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að sátt ríkti um kosningaeftirlit og að sameiginleg viðmið væru höfð að leiðarljósi hjá öllum kosningaeftirlitsaðilum innan sama lands og milli landa. Í því sambandi fjallaði Lennmarker um áhuga Samveldis sjálfstæðra ríkja (e. Commonwealth of Independent States) um þátttöku í kosningaeftirliti og sagði mikilvægt að þau notuðu sömu viðmið og ÖSE. Að lokum kom fram í máli Lennmarkers að áhugi væri á því að afla þess stuðnings að heimastjórn Palestínu gæti fengið aðild að ÖSE og ÖSE-þinginu. Það væri liður í stuðningi við friðarumleitanir fyrir botni Miðjarðarhafs.

6. Kosningaeftirlit.
    Kosningaeftirlit og umræða um það var nokkuð fyrirferðarmikil sem endranær. ÖSE-þingið leggur mikla áherslu á að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu kosningaeftirliti enda eitt mikilvægasta hlutverk ÖSE að hafa eftirlit með og aðstoða aðildarríkin við að uppfylla skuldbindingar sínar á sviði mannréttinda og lýðræðis.
    ÖSE-þingið og lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) hafa átt samstarf um kosningaeftirlit síðan 1993. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um hvernig samvinnu og verkaskiptingu á milli þeirra skuli háttað þrátt fyrir samstarfssamning milli þeirra frá árinu 1997. Ágreininginn má að vissu leyti rekja til þess að um er að ræða tvær stofnanir sem hvor um sig gerir sterkt tilkall til þessa hlutverks enda vægi kosningaeftirlits mikið þar sem 56 ríki í þremur heimsálfum eiga aðild að ÖSE. Ágreiningur milli stofnananna kom m.a. í ljós þegar lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE hætti við að taka þátt í eftirliti með kosningunum í Rússlandi 2. desember 2007 vegna skilyrða sem rússnesk stjórnvöld settu. Skilyrðin voru talin vera frávik frá þeirri almennu vinnureglu ÖSE, sem gildir samkvæmt Parísarsáttmálanum frá 1990, að boð aðildarríkis til ÖSE um kosningaeftirlit væri skilyrðislaust. Olli það nokkrum titringi að ÖSE-þingið skyldi ekki að sama skapi hætta við þátttöku sína í eftirlitinu. Það má hins vegar útskýra að nokkru leyti með vísan í þá hefðbundnu verkaskiptingu sem ríkir milli ÖSE og ÖSE-þingins þar sem ÖSE sinni langtímaeftirliti en ÖSE-þingið sinnir skammtímaeftirliti. Skilyrði rússneskra stjórnvalda gerðu það að verkum að ÖSE gat ekki sinnt hefðbundnu eftirliti sínu til lengri tíma en komu ekki í veg fyrir að ÖSE-þingið gæti sinnt skammtímaeftirliti sem felst að jafnaði í viku viðveru í landinu og virku eftirliti á kjördag með framkvæmd kosninga. Það sama gilti um kosningaeftirlitssendinefndir frá Evrópuráðsþinginu og Norðurlandaráði, enda tóku þær stofnanir þátt í eftirlitinu ásamt ÖSE-þinginu. Í kjölfar þessa atviks kom samt sem áður fram þrýstingur um að settar yrðu samræmdar viðmiðanir um þátttöku alþjóðastofnana í kosningaeftirliti eða undir hvaða kringumstæðum hætta ætti við kosningaeftirlit. Þetta varð m.a. til þess að hvorki ÖSE né ÖSE-þingið tóku þátt í kosningaeftirliti með rússnesku forsetakosningunum 2. mars 2008.
    Enginn þingmaður Íslandsdeildar tók þátt í kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins árið 2008.

7. Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra fundahalda þrisvar sinnum árlega, þ.e. til ársfundar að sumri og haust- og vetrarfundar.

Vetrarfundur stjórnarnefndar og málefnanefnda í Vínarborg.
    Dagana 21.–22. febrúar komu málefnanefndir ÖSE-þingsins og stjórnarnefnd þess saman til funda í Vínarborg. Var þetta í sjöunda sinn sem efnt var til svonefndra vetrarfunda ÖSE- þingsins eftir ákvörðun stjórnarnefndar þar að lútandi í febrúar árið 2001. Fundunum er einkum ætlað að gefa þingmönnum færi á að eiga fund með fulltrúum ÖSE. Alls sóttu fundinn 240 þingmenn frá 48 af 56 aðildarlöndum ÖSE-þingsins. Fyrir hönd Íslandsdeildar sóttu fundinn þau Einar Már Sigurðarson, formaður, Pétur H. Blöndal, varaformaður, og Valgerður Sverrisdóttir, auk Magneu Marinósdóttur, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Göran Lennmarker, forseti ÖSE-þingsins, setti fund stjórnarnefndar en auk hans voru framsögumenn á fundinum Hans Raidel, gjaldkeri ÖSE-þingsins, Spencer Oliver, framkvæmdastjóri þess, og Marc Perrin de Brichambaut, framkvæmdastjóri ÖSE.
    Lennmarker fór í upphafsorðum sínum yfir embættisverk sín undanfarna mánuði. Eitt af því sem hann hefur lagt mikla áherslu á er að kynna starfsemi ÖSE-þingsins í heimsóknum til aðildarlandanna, sbr. heimsókn hans til Íslands í apríl og heimsókn til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Hann greindi síðan frá því helsta sem fram undan væri í starfsemi þingsins eins og að efla enn frekar tengsl við Samveldi sjálfstæðra ríkja og Kákasus-lýðveldin. Forsetinn gerði því næst grein fyrir opinberri heimsókn sinni og Alexanders Stubbs, utanríkisráðherra Finnlands, til Suður-Kákasus, nánar tiltekið Armeníu, Georgíu og Aserbaidsjan 25.–28. febrúar. Í máli Lennmarkers kom fram að hann hefur lengi unnið ásamt öðrum að lausn staðbundinna átaka á svæðinu, einkum varðandi Nagorno-Karabakhérað, sem tilheyrir Aserbaidsjan en tengist sögulega Armeníu sem náði hluta héraðsins á sitt vald með stuðningi Rússa í aðskilnaðarstríði sem stóð á árunum 1988–1994. Forsetinn greindi einnig frá heimsókn sinni til Ísraels og Jórdaníu. Að lokum lýsti hann því yfir að hann vonaðist til að heimastjórn Palestínu gæti fengið aðild að ÖSE.
    Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, fjallaði um kosningaeftirlit á vegum þingsins sem hann sagði að um 250 þingmenn hefðu tekið þátt í frá því á vetrarfundinum 2007 í alls sex löndum. Hann fjallaði því næst um framtíðarhlutverk ÖSE, einkum með vísan til ágreinings sem ríkir milli Rússlands og Bandaríkjanna um kosningaeftirlit. Bandaríkin og önnur aðildarríki vilja efla kosningaeftirlit en Rússar hafa sett skilyrði sem takmarka það svigrúm sem lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE hefur haft til eftirlits. Það olli því að ÖSE tók ekki þátt í eftirliti með þingkosningunum 2. desember 2007 og hvorki ÖSE né ÖSE- þingið höfðu eftirlit með rússnesku forsetakosningunum 2. mars. Í máli rússneskra þingmanna var gagnrýnt að lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE kæmi fram eins og hún hefði æðsta vald þegar kæmi að kosningum og hafa þeir óskað eftir að sett verði á stofn ráð til að skoða verklag lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE. Kom fram í máli fastafulltrúa Finnlands á sameiginlegum fundi allra málefnanefnda ÖSE-þingsins að Finnar væru að íhuga stofnun vinnuhóps um kosningaeftirlit til að vinna að sátt um framkvæmd þess og verkaskiptingu milli stofnananna. Í máli framkvæmastjóra ÖSE kom jafnframt fram að annað brýnt viðfangsefni væri öryggismál í Afganistan og hlutverk ÖSE í því sambandi. Það varðaði m.a. samstarf við ríki Mið-Asíu um landamæravörslu og aðgerðir til að stemma stigu við eiturlyfjasmygli, hryðjuverkum og mansali auk þess sem hann lagði áherslu á mikilvægi þess að vernda mikilvæg orkumannvirki. Þetta væru viðfangsefni sem sneru að grundvallarhlutverki ÖSE og sem núverandi formennskuteymi ÖSE, þ.e. Finnland, Grikkland, Kasakstan og Litháen, þyrfti að móta stefnu um.
    Að loknum erindum æðstu embættismanna ÖSE-þingsins voru lagðar fram kosningaeftirlitsskýrslur frá Úkraínu, Rússlandi, Kirgisistan, Georgíu og Armeníu. Skýrsluhöfundar nefndu sérstaklega að þeir hefðu átt gott samstarf við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE í þremur síðastnefndu kosningum. Fráfarandi yfirmaður lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, Christian Strohal, tók undir þau orð. Að lokum hvatti sænska þingkonan Tone Tingsgård, sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í jafnréttismálum innan ÖSE, til þess að kona yrði valin næsti yfirmaður stofnunarinnar.
    Skýrslur sérnefnda voru því næst kynntar. Ein þeirra fjallaði um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi. Þingkosningar fóru þar fram 28. september og höfðu stjórnmálaleiðtogar þar í landi óskað bæði eftir lang- og skammtímakosningaeftirliti. Beiðnin var talin vera liður í þeirri viðleitni stjórnvalda að rjúfa einangrun Hvíta-Rússlands innan Evrópu. Hvatti forseti ÖSE- þingsins til þátttöku þingmanna í kosningaeftirliti, enda eitt mikilvægasta framlag þingmanna í þágu þess að tryggja framgang lýðræðis.
    Sérlegir fulltrúar forseta ÖSE-þingsins lögðu að lokum fram skýrslur sínar. Pétur H. Blöndal lagði fram skýrslu um verkefni sín eftir ársfundinn í Kænugarði, þ.m.t. um heimsókn sína til vettvangsskrifstofu ÖSE í Albaníu árið 2007, og verkáætlun sína fyrir árið 2008, þ.m.t. fyrirhugaða heimsókn til lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE í Varsjá.
    Að loknum stjórnarnefndarfundi fór fram sameiginlegur fundur allra þriggja málefnanefna ÖSE-þingsins þar sem Barbara Prammer, forseti austurríska þingsins og Ilkka Kanerva, utanríkisráðherra Finnlands, ávörpuðu fundarmenn. Fastafulltrúi Finnlands gagnvart ÖSE, Antti Turunen, gerði því næst grein fyrir áherslum Finnlands sem formennskuríkis, þ.e. að vinna að lausn átaka, stemma stigu við ólöglegri vopnasölu, stuðla að samvinnu á sviði samgangna á sjó og landi og orkuöryggis. Fastafulltrúinn bætti við að sérstök áskorun fyrir formennskuríkið væri áframhald á starfi ÖSE í Kósóvó, að ná sátt um kosningaeftirlit bæði meðal aðildarríkja og stofnana ÖSE, og að standa vörð um samninginn um hefðbundinn herafla í Evrópu (CFE-samningurinn um takmörkun vígbúnaðar) en rússnesk stjórnvöld sögðu þeim samningi í raun upp í desember 2007 í mótmælaskyni við áætlanir bandarískra stjórnvalda um uppsetningu eldflaugavarnarkerfis í Evrópu.
    Þegar fastafulltrúinn hafði lokið máli sínu tók við umræða um fyrirhugað eldflaugavarnakerfi Bandaríkjanna og NATO í Póllandi og Tékklandi og samninginn um hefðbundinn herafla í Evrópu. Í umræðunni komu fram ólík sjónarmið. Í máli þingmanns frá Póllandi var því haldið fram að ekkert beint samband væri milli eldflaugavarnarkerfisins og samningsins. Í máli þingmanns frá Tékklandi kom fram að það væri sameiginlegt verkefni að tryggja öryggi Evrópu. Nauðsynlegt væri að vera viðbúinn því versta og þeirri skyldu væru tékknesk stjórnvöld að sinna með þátttöku sinni í eldflaugavörnum. Í máli bresks þingmanns var sú ákvörðun Rússa að segja upp samningum um hefðbundinn herafla fordæmd. Með ákvörðun sinni væru þeir að ýta undir nýtt vopnakapphlaup og spurt var með hvaða hætti eldflaugavarnakerfið ógnaði kjarnorkuveldi Rússlands. Í máli þingmanns frá Rússlandi kom fram að stjórnvöld væru í sjálfu sér ekki mótfallin eldflaugavörnum. Þau væru hins vegar mótfallin því að sett yrði upp kerfi í bakgarðinum hjá þeim, án nokkurs samráðs, sem m.a. varnaði eldflaugum sem eingöngu væri að finna í vopnabúri Rússa. Rússnesk stjórnvöld væru tilbúin til viðræðna um samvinnu um eldflaugavarnir eins og samvinnu um sameiginlegt eftirlit með Mið-Austurlöndum þaðan sem ógnin er talin koma og sameiginlegar aðgerðir í þeim tilvikum sem grípa þyrfti til aðgerða. Samráðsleysið gerði það hins vegar að verkum að Rússar teldu varnarkerfið raska núverandi hernaðarjafnvægi. Það væri neyðarúrræði að segja upp samningnum um hefðbundinn herafla þar til Bandaríkin og önnur NATO-ríki væru til í að vinna með Rússum og hlusta á sjónarmið þeirra. Á vetrarfundinum fór einnig fram sérstök umræða um Kósóvó. Í umræðunni komu fram andstæð sjónarmið um alþjóðalög, meginreglur þjóðaréttar, fordæmi og óumflýjanleika þess að Kósóvó hlyti sjálfstæði í ljósi þeirra hörmungaratburða sem áttu sér þar stað og voru forsenda þess að þjóðþing Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði.

Ársfundur ÖSE þingsins í Astana, Kasakstan.
    Dagana 29. júní til 3. júlí 2008 fór 17. ársfundur ÖSE-þingsins fram í Astana, höfuðborg Kasakstans. Til hliðar við dagskrá ársfundar voru fundir um jafnréttismál og málefni Mið- Asíu. Að hálfu Íslandsdeildar sóttu fundinn þau Einar Már Sigurðarson, formaður, Pétur H. Blöndal, varaformaður, og Valgerður Sverrisdóttir auk Magneu Marinósdóttur ritara Íslandsdeildar.
    Ársfundurinn hófst með hefðbundnum aðalfundarstörfum stjórnarnefndar. Göran Lennmarker, fráfarandi forseti þingsins, R. Spencer Oliver, framkvæmdastjóri þess, og Hans Raidel, gjaldkeri, gerðu grein fyrir starfsemi og fjármálum þingsins undanfarið ár. Sérlegir fulltrúar forseta ÖSE-þingsins gerðu því næst grein fyrir starfi sínu undanfarið ár, þar á meðal Pétur H. Blöndal (sjá kafla 4).
    Að loknum stjórnarnefndarfundi var ársfundur ÖSE-þingsins formlega settur með ávarpi þáverandi forseta þingsins, Görans Lennmarkers. Í máli hans kom fram að þetta væri í fyrsta sinn sem ársfundur væri haldinn í Mið-Asíu. Það væri til marks um mikilvægi svæðisins fyrir starfsemi ÖSE og ÖSE-þingsins sem nær til landa beggja vegna Atlantsála. Mið-Asía væri mikilvæg brú milli Evrópu og Asíu og styrkti hlutverk ÖSE, ekki síst í því að ná að stuðla að friði og stöðugleika í Afganistan sem væri forgangsmál í formennskutíð Finnlands. Formennska Kasakstans í ÖSE árið 2010 mundi enn frekar styðja það markmið. Lennmarker vék því næst að mikilvægi kosningaeftirlits og þess að sátt ríkti um það en frá árinu 1993 hafa 2.700 þingmenn tekið þátt í kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins. Að lokum leit hann yfir farinn veg og þakkaði fyrir stuðning við sig í starfi undanfarin tvö ár en hann lét af forsetaembætti í lok fundar og við tók Joao Soares frá Portúgal sem var einn í framboði. Því næst tóku til máls Nursultan Nazarbayev, forseti Kasakstans, Kassym-Jomart Tokayev, forseti efri deildar þingsins í Kasakstan, og Aslan Mussin, forseti neðri deildar þess.
    Forseti Kasakstans vék að hlutverki ÖSE-þingsins við að skapa gagnkvæmt traust og skilning milli aðildarlandanna. Auk þess talaði hann um mikilvægi ÖSE fyrir ríki sem eru á vegferð í átt til lýðræðislegra stjórnarhátta og mikilvægi ÖSE við að bregðast við öryggisáskorunum sem við er að eiga í víðtækum skilningi. Forsetinn vék því næst að hlutverki Kasakstans við að stuðla að friði og stöðugleika. Tók hann sem dæmi þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að Kasakstan yrði kjarnorkuvopnalaust ríki eftir að það hlaut sjálfstæði og um stofnun Ráðstefnu um samskipti og traust í Asíu (e. Conference on Interaction and Confidence-Building in Asia) sem á sér fyrirmynd í forvera ÖSE, þ.e. Ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu. Forsetinn lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að stofna efnahagsbandalag Mið-Asíuríkja til að stuðla að auknum efnahagslegum stöðugleika og þróun í Mið-Asíu. Forsetinn benti því næst á að lýðræði í Kasakstan væri fólgið í því að stuðla að jafnræði þeirra 130 þjóðernishópa og 46 trúarbragðahópa sem er að finna í landinu. Kasakstan væri land sem gæti þjónað sem brú milli Evrópu og Asíu og milli kristni og íslam. Astana, hin tíu ára gamla höfuðborg landsins, væri hugsuð sem miðstöð umburðarlyndis milli mismunandi trúarbragðahópa en árið 2009 stendur til að halda þar alþjóðlega ráðstefnu um trú og umburðarlyndi undir merkjum Sameinuðu þjóðanna en tvær slíkar ráðstefnur hafa farið fram í borginni frá árinu 2003. Að lokum vék forsetinn að hvítbók sem stjórnvöld hafa gefið út undir heitinu „Evrópuvegurinn“ og tengist formennsku Kasakstans í ÖSE árið 2010. Bókin fjallar um hvernig auka megi samstarf milli Kasakstans og Evrópulanda á sviði orku, samgangna, tækniyfirfærslu, menntunar og mannúðarmála.
    Ársfundurinn tók til umræðu og afgreiðslu skýrslur og ályktunardrög úr öllum þremur málefnanefndum þingsins auk þess sem á fundinum voru afgreiddar 19 ályktunartillögur sem þingmenn höfðu lagt fram um einstök mál.
    Efni ályktunar stjórnmála- og öryggisnefndar (1. nefndar) var verktakavæðing hernaðar eða úthýsing herþjónustu frá ríkinu yfir til einkaaðila og samspil þeirrar þróunar við alþjóðleg mannúðarlög sem taka til hernaðar, þ.e. Genfarsamninganna. Íslandsdeild ÖSE-þingsins lagði fram sex breytingartillögur við ályktunardrögin. Fjórar þeirra náðu fram að ganga. Einar Már Sigurðarson mælti fyrir þeim á ársfundinum. Þrjár þeirra voru samþykktar og ein felld. Í tveimur tilvikum studdi skýrsluhöfundur nefndarinnar breytingartillögur Íslandsdeildar umfram aðrar breytingartillögur sem höfðu verið lagðar fram um sama efni. Sú tillaga sem hlaut einróma stuðning sneri að ábyrgð ríkisins við gerð samninga við einkafyrirtæki, sem taka að sér ákveðna verkþætti á sviði hernaðar eða öryggismála, um að setja ákvæði í samningana þar sem kveðið er á um virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, réttindi og skyldur, og viðurlög við brotum á lögum eða settum siðareglum.
    Íslandsdeildin lagði einnig fram eina breytingartillögu við ályktunardrög efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismálanefndar (2. nefndar) sem Valgerður Sverrisdóttir mælti fyrir á fundinum. Efni ályktunarinnar var um nýtingu grænnar orku og þróun umhverfisvænnar orkutækni. Breytingartillagan var í formi viðbótarmálsgreinar þar sem tvennt var lagt til. Í fyrsta lagi að nýta jarðvarma sem hvergi var minnst á í upprunalegu tillögunni. Í öðru lagi að stuðla að samvinnu milli landa á sviði rannsókna og tækniyfirfærslu þegar kemur að virkjun grænna orkugjafa eins og jarðvarma, kortlagningu svæða þar sem orku er að finna og áætlunargerðar um orkunýtingu með hliðsjón af varúðarreglunni. Var tillagan samþykkt einróma.
    Að lokum mælti Pétur H. Blöndal fyrir sjö breytingartillögum í nafni Íslandsdeildar við ályktunardrög nefndar um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál (3. nefnd) sem fjallaði um varðveislu skjala og aðgang að skjalasöfnun. Breytingartillögurnar voru tengdar innbyrðis sem þýddi að þegar sú fyrsta var felld með naumum meiri hluta þá féllu hinar sjálfkrafa niður.
    Samhliða þingfundinum var fundur um jafnréttismál og málefni Mið-Asíu sem þingmenn frá öllum löndum Mið-Asíu að Úsbekistan undanskildu og sendiherrar og sérfræðingar ÖSE sóttu. Á fundinum um jafnréttismál gerði Pétur H. Blöndal stutta grein fyrir lögum um feðraorlof á Íslandi. Í máli hans kom fram að það sem gerði þau frábrugðin því sem gerist annars staðar þar sem feður hefðu rétt til barneignarleyfis væri að réttur föður á Íslandi væri ekki yfirfæranlegur til móður. Rétturinn félli með öðrum orðum niður ef hann væri ekki nýttur af föður. Þetta gerði það m.a. að verkum, öfugt við annars staðar, að flestir feður á Íslandi nýttu sér sinn rétt. Það stuðlaði síðan enn fremur að því að kostnaður atvinnurekanda við ráðningu karls og konu yrði sá sami og þar með stuðluðu lögin að auknu og raunverulegu jafnrétti kynjanna.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Toronto.
    Haustfundur ÖSE-þingsins fór fram dagana 18.–21. september í Toronto í Kanada. Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildar Einar Már Sigurðarson, formaður, Pétur H. Blöndal, varaformaður, og Valgerður Sverrisdóttir, auk Magneu Marinósdóttur, ritara Íslandsdeildar.
    Yfirskrift haustfundarins var „ÖSE í hnattrænum heimi: Viðskipti, öryggi og fólksflutningar“. Umræðan um öryggismál snerist um Georgíu í ljósi átakanna sem hófust þar aðfaranótt 8. ágúst. Sérstakir gestir fundarins voru af því tilefni Eka Tkeshelashvili, utanríkisráðherra Georgíu, og Vitaly Ivanovich Churkin, fastafulltrúi Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ).
    Fundurinn hófst á erindi Gareth Evens, forseta International Crisis Group og fyrrum þingmanns og utanríkisráðherra Ástralíu. Evens gagnrýndi stjórnvöld Georgíu og Rússlands fyrir að hafa ögrað hvort öðru. Hann gagnrýndi forseta Georgíu, Mikheil Saakashvili, fyrir að hafa ekki tekið mark á viðvörunum þeirra sem ráðlögðu honum frá því að beita vopnavaldi gegn aðskilnaðarsinnum. Evens gagnrýndi einnig gagnárás Rússa. Hún hefði ekki verið réttlætanleg með tilliti til öryggis borgaranna heldur hefðu Rússar með henni verið að refsa Georgíu og senda aðvörun til Úkraínu en bæði ríkin óska eftir aðild að NATO. Evens bætti því við að NATO hefði gert ákveðin mistök með því að halda Rússlandi á hliðarlínunni á meðan bandalagið var opnað öðrum fyrrum austantjaldslýðveldum. Það hefði endurvakið togstreitu kalda stríðsins í stað þess að draga úr henni. Að lokum vék hann að mikilvægu hlutverki ÖSE. Ólíkt NATO ætti ÖSE rætur að rekja til samstöðu og samvinnu frekar en aðgreiningar og ágreinings sem þýddi að engin önnur alþjóðastofnun nyti viðlíka trausts og ÖSE innan Evrópu. ÖSE hefði því mikilvægu hlutverki að gegna í málum Georgíu.
    Í máli utanríkisráðherra Georgíu kom fram að notkun hugtaksins „frosin átök“ um deilurnar um héruðin Suður-Ossetíu og Abkasíu hafi verið misvísandi. Hugtakanotkunin hefði gefið til kynna að lausn á átökunum gæti komið til sögunnar þegar fram liðu stundir í formi málamiðlunar sem yrði undirstaða varanlegs friðar. Undanfarin 15 ár hafi aftur á móti verið tímabil ögrunar Rússa við fullveldi Georgíu sem hafi færst í aukana eftir að Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði og leiðtogafund NATO í Búkarest í febrúar. Að mati ráðherrans var atburðarásin í Georgíu skipulögð fyrir fram af hálfu rússneskra stjórnvalda með það að markmiði að stigmagna spennuna í samskiptum ríkjanna. Nefndi hún sérstaklega í því sambandi 16. apríl eða daginn sem rússnesk yfirvöld komu á óformlegu stjórnmálasambandi við yfirvöld í héruðunum tveimur. Rússar hefðu vitað að Georgía mundi ekki láta slíka ákvörðun óátalda. Að mati ráðherrans væri nauðsynlegt að vinna að varanlegri lausn en það væri hins vegar erfitt í ljósi viðurkenningar Rússa á sjálfstæði héraðanna. Ráðherrann lauk máli sínu með því að benda á mikilvægi þess að Rússar risu undir þeim væntingum að vera áreiðanlegt ríki sem hægt væri að treysta í milliríkjasamskiptum.
    Sendiherra Rússlands tók til máls á eftir utanríkisráðherranum. Hann hóf mál sitt á því að vísa til sögunnar og óttans sem gripið hefði um sig meðal íbúa héraðanna árið 1991 við það að tilheyra ríki undir forustu leiðtoga sem héldu á lofti slagorðinu „Georgía fyrir Georgíumenn“. Með íhlutun Rússlands, auk Sameinuðu þjóðanna og ÖSE á sínum tíma, hefði verið bundinn endi á borgarastríð og öryggi íbúanna tryggt. Síðan þá hafi farið fram samningaviðræður milli yfirvalda í héruðunum tveimur og stjórnvalda Georgíu og Rússlands um framtíðarlausn mála. Staða samningaviðræðna hafi hins vegar farið versnandi eftir að núverandi forseti Georgíu, Mikheil Saakashvili, tók við völdum árið 2004. Í byrjun ágúst hafi rússnesk stjórnvöld varað við hugsanlegri árás stjórnarhers Georgíu inn í Suður-Ossetíu í öryggisráði SÞ og ESB og öðrum alþjóðastofnunum í ljósi vopnaflutninga til öryggissvæðisins innan héraðsins í trássi við gildandi samninga. Allt hafi komið fyrir ekki og í því ljósi væri erfitt að segja til um hvernig Rússar hefðu átt að bregðast öðruvísi við árás stjórnarhers Georgíu 8. ágúst sem kölluð var „hreinsunaraðgerðin“ (e. Operation Clear Field). Þar fyrir utan hafi sáttatillaga Rússa innan öryggisráðs SÞ 8. ágúst verið hafnað. Það kalli á að litið sé til þáttar Bandaríkjanna. Í máli sendiherrans komu að lokum fram ásakanir um tvískinnung þegar Rússar væru gagnrýndir fyrir gagnárás sína og viðurkenningu á sjálfstæði héraðanna Abkasíu og Suður-Ossetíu í ljósi loftárása NATO á Serbíu árið 1999, stuðnings við sjálfstæði Kósóvó og staðsetningar bandarískra herstöðvar og fyrirhugaðs eldflaugavarnakerfis við landamæri Rússlands.
    Aleksi Härkönen fastafulltrúi Finnlands, formennskuríkis ÖSE, lýsti yfir ánægju með fundinn, sérstaklega í ljósi þess að Georgía væri búin að slíta formlegu stjórnmálasambandi við Rússland. Hann fór síðan yfir aðgerðir ÖSE í samvinnu við SÞ og ESB. Að lokum greindi Göran Lennmarker, fyrrum forseti ÖSE-þingsins og sérlegur fulltrúi núverandi forseta í málefnum Georgíu, frá skýrslu sem hann hafði tekið saman eftir heimsókn sína til landsins eftir að átökunum lauk. Í máli þeirra og almennum umræðum á þinginu kom sterkt fram að um harmleik væri að ræða. Ekki væri skynsamlegt að finna einn sökudólg, enda um flókna sögu og atburðarás að ræða þar sem allir deiluaðilar bæru vissa ábyrgð. Mikilvægt væri að fram færi óháð rannsókn á átökunum og aðdraganda þeirra og að vinna að varanlegri lausn vandans með vísan til framtíðar í stað fortíðar. Utanríkisráðherra Georgíu og sendiherra Rússlands tóku bæði undir það að nauðsyn væri á óháðri rannsókn.
    Í umræðunni um fólksflutninga voru frummælendur þau Peter Schatzer frá Alþjóðafólksflutningastofnuninni (IOM) og Ratna Omidvar, stofnandi og forseti atvinnumiðlunar innflytjenda í Toronto. Í erindum þeirra kom m.a. fram að innflytjendastefna landa verði að miða að því að skapa farveg fyrir þá jákvæðu eiginleika sem innflytjendur búa yfir eins og áræði og dug og þar með gefa þeim tækifæri til að færa sig af jaðrinum inn að miðju samfélagsins. Það séu margar aðferðir til þess eins og tungumálakennsla og réttur til lýðræðislegrar þátttöku. Einnig væri mikilvægt að koma upp kerfi sem gerir fólki kleift að öðlast vinnu með löglegum hætti til að vinna gegn mansali og misnotkun. Í því sambandi var vísað í það sem kallað er hringafólksflutningar. Það er kerfi sem miðar að því að gera fólki kleift að fá vinnu með löglegum hætti en á sama tíma ávinnur fólk sér ekki réttindi á við ríkisborgara landanna. Markmiðið er að fólk sé með tímabundna búsetu vegna vinnu í viðkomandi landi en snúi að lokum aftur til síns heima.
    Gilles Mentré, framkvæmdastjóri Miðjarðarhafsvinnuhóps ESB, og Mara Marinaki, fastafulltrúi Grikklands hjá ÖSE og formaður samstarfshóps ÖSE við lönd við Miðjarðarhaf, voru frummælendur á fundi um Miðjarðarhafssamstarf ÖSE. Í máli Mentré kom fram að vinnuhópurinn hefði verið stofnaður að frumkvæði Frakklandsforseta til að blása nýju lífi í Barcelona-sáttmála ESB sem miðar m.a. að því að auka viðskipti og fjárfestingar ESB í löndum við Miðjarðarhaf og vinna þar gegn fólksflutningum og óstöðugleika sem eru samfara miklu atvinnuleysi. Fyrsti ráðherrafundur vinnuhópsins var 13. júlí og annar 3.–4. nóvember í Amman í Jórdaníu. Í máli Marinaki kom fram að hin þriggja-vídda öryggisnálgun ÖSE ætti eins mikið erindi í löndum við Miðjarðarhaf eins og í aðildarlöndum ÖSE. Sérstakur sjóður, sem byggist á frjálsum framlögum, hafi verið settur á stofn til að standa straum af kostnaði við kynningu á öryggisnálgun ÖSE. Fulltrúar samstarfslanda ÖSE við Miðjarðarhaf fögnuðu frumkvæði Frakklandsforseta og ÖSE. Fulltrúi Ísrael hélt því fram að friður væri best tryggður á grundvelli samstarfs sem fæli í sér gagnkvæman ávinning eins og samstarfsverkefni á sviði drykkjarvatns frekar en á grundvelli samningaviðræðna. Fulltrúar Tyrklands tóku í sama streng en voru svartsýnir á að þeir fjármunir sem settir væru í verkefnið mundu geta staðið undir þeim væntingum sem gerðar væru til samstarfsins.

Alþingi, 4. mars 2009.



Einar Már Sigurðarson,


form.


Pétur H. Blöndal,


varaform.


Valgerður Sverrisdóttir.



Fylgiskjal.


Ályktanir og skýrslur ÖSE-þingsins árið 2008.



    Eftirfarandi ályktanir og skýrslur voru samþykktar á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2008:
          Ályktun um gegnsæi og frekari umbætur innan ÖSE: styrkingu þingmannasamstarfs innan ÖSE.
          Ályktun um lausn átaka innan ÖSE-svæðisins.
          Ályktun um bann við klasasprengjum í þátttökulöndum ÖSE.
          Ályktun um öryggi í himingeimnum og netglæpi.
          Ályktun um öryggisástandið í Georgíu.
          Ályktun um Afganistan.
          Ályktun um fríverslunarsvæði landa við Miðjarðarhaf.
          Ályktun um að auka frjáls viðskipti milli Norður-Ameríku og Evrópu.
          Ályktun um stjórnsýslu vatnsmála á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um aukið gagnsæi innan hráefnisvinnsluiðnaðar.
          Ályktun um ólöglegan loftflutning smá- og léttvopna auk skotfæra.
          Ályktun um Tjérnóbíl.
          Ályktun um að yfirfæra Parísar-skuldbindingarnar yfir á starfsemi skuldasjóða (e. vulture funds).
          Ályktun um að vinna gegn kynferðislegri misnotkun á börnum.
          Ályktun um ofbeldi gegn konum.
          Ályktun um viðurkenningu á efnahagslegu, menningarlegu, pólitísku og félagslegu framlagi innflytjenda.
          Ályktun um að stemma stigu við gyðingahatri, einkum innan fjölmiðla og æðri menntastofnanna.
          Ályktun um Holodomor í Úkraínu á árunum 1932–1933.
          Ályktun um að efla aðgerðir gegn mansali og koma á móts við þarfir barna sem eru fórnarlömb mansals.
          Ályktun um kosningaeftirlitsnefndir.
          Skýrsla stjórn- og öryggismálanefndar um verktakavæðingu á sviði hernaðar.
          Skýrsla nefndar um efnahagsmál, tækni, vísindi og umhverfismál um aukna nýtingu grænna orkuauðlinda og þróun vistvænnar orkutækni.
          Skýrsla nefndar um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál um verndun og aðgang að opinberum skjalasöfnun sem leið til að gera upp sögulega atburði.