Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 365. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 750  —  365. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á tollalögum, nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti, Snorra Olsen frá tollstjóra, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins og Andrés Magnússon frá Samtökum verslunar og þjónustu. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, ríkisendurskoðun, Seðlabanka Íslands, tollstjóra, Viðskiptaráði Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda og sameiginlega frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Í frumvarpinu er lagt til að aðilar sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum og vörugjöldum geti óskað eftir breytingu á fyrirkomulagi gjalddaga vegna uppgjörstímabila á árinu 2009. Einnig er lögð til breyting sem á að tryggja fullan innskattsrétt þrátt fyrir umræddar breytingar á fyrirkomulagi gjalddaga aðflutningsgjalda.
    Fram kom á fundi nefndarinnar að frumvarpið væri í samræmi við tillögur Samtaka iðnaðarins og Samtaka verslunar og þjónustu sem settar voru fram í ljósi þess að stór hluti fyrirtækja ætti erfitt með að standa í skilum með opinber gjöld vegna efnahagsástandsins. Samtökin óskuðu einnig eftir því að greiðsluaðlögun í anda ákvæða frumvarpsins yrði látin taka til virðisaukaskatts í innanlandssölu.
    Eftir ábendingu fjármálaráðuneytis og tollstjóra leggur nefndin til þá breytingu að í stað þess að gera greiðsluaðlögun aðflutningsgjalda og vörugjalda samkvæmt ákvæðum frumvarpsins valkvæða skuli greiðsluaðlögun (þ.e. dreifing gjalddaga) vera hin almenna regla vegna uppgjörstímabila aðflutningsgjalda og vörugjalda á árinu 2009 og gilda sjálfkrafa um þá sem njóta greiðslufrests á tolli. Þannig verður jafnræði með greiðendum meira auk þess sem ekki verður þörf á að reikna vexti frá hefðbundnum gjalddaga til hinna nýju gjalddaga eins og ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir.
    Að því gefnu að breytingin verði samþykkt ræddi nefndin um stöðu þeirra greiðenda sem að fullu hafa staðið skil á aðflutningsgjöldum sem koma áttu til greiðslu 15. mars 2009. Nefndin leggur til að frumvarpið gildi afturvirkt frá og með þeim degi og að umræddir aðilar geti farið fram á hlutfallslega endurgreiðslu og þar með hagað greiðslu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
    Vegna samkomulags stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var á fundi nefndarinnar óskað eftir upplýsingum um hver áhrif umræddra breytinga yrðu á tekjur ríkissjóðs.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ellert B. Schram var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 17. mars 2009.



Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Svavarsson.



Bjarni Benediktsson.


Árni Þór Sigurðsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Jón Bjarnason.


Birkir J. Jónsson.