Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 770  —  376. mál.
Viðbót.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Árna Leóssyni, starfsmanni VR, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Tryggingastofnun ríkisins, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins sameiginlega og frá Viðskiptaráði Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæðis til að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli verði framlengdur til 31. desember 2009. Að auki er lagt til að Vinnumálastofnun fái auknar heimildir til að stunda eftirlit með framkvæmd laganna og að kveðið sé nánar á um skyldur atvinnuleitenda til að upplýsa stofnunina um breytingar sem verða á högum þeirra. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem varða sjálfstætt starfandi einstaklinga, m.a. þannig að þeir geti talist hlutfallslega tryggðir en ekki ávallt að fullu tryggðir óháð þeim fjárhæðum sem þeir greiða til skattyfirvalda. Skilgreining sjálfstætt starfandi er jafnframt þrengd þannig að hún eigi einungis við þá sem starfa við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélagi, hlutafélagi eða sameignarfélagi verða því skilgreindir sem launamenn. Auk þessara breytinga er lagt til að sá sem tekur fæðingarorlof geti geymt áunna atvinnuleysistryggingu í 24 mánuði.
    Ákvæði um hlutabætur á móti skertu starfshlutfalli var lögfest í nóvember sl. og ætlað að gilda út apríl 2009. Taldi nefndin við meðhöndlun þess máls rétt að hafa gildistímann afmarkaðan þar sem það byði upp á endurskoðun ákvæðisins miðað við þá reynslu sem fengist á gildistímanum. Nefndin lagði þó jafnframt áherslu á að þrátt fyrir afmarkaðan gildistíma væri vilji nefndarinnar að áframhaldandi úrræðum yrði beitt ef ástandið á vinnumarkaði kallaði á það. Ljóst er að nauðsynlegt er að framlengja gildistíma ákvæðisins enda hefur atvinnuleysi aukist mikið síðustu mánuði. Ákvæðinu er ætlað að hvetja vinnuveitendur til að lækka starfshlutfall starfsmanna frekar en að segja þeim upp og því telur nefndin um þarft vinnumarkaðsúrræði að ræða.
    Nefndin telur þó nauðsynlegt að veita Vinnumálastofnun skýrari heimildir til að staðreyna upplýsingar um starfshlutfall þannig að komið sé í veg fyrir að tilgreint sé hærra starfshlutfall í vottorði vinnuveitanda en hinn tryggði gegndi þar sem tryggingahlutfall hans getur aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili, sbr. 4. mgr. 15. gr. laganna. Á þetta einnig við um þá sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum, en þá er miðað við að þeir séu í fullu starfi og hafi fengið greidd laun í samræmi við viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein, eins og skattyfirvöld gera ráð fyrir. Er með þessu leitast við að gæta betra jafnvægis milli inn- og útstreymis Atvinnuleysistryggingasjóðs og þá ekki síst á því tímabili þegar tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru greiddar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þá leggur nefndin til breytingu á 25. gr. frumvarpsins þannig að sömu reglur gildi um sjálfstætt starfandi einstaklinga og gilda um launamenn hvað varðar ávinnslutímabil og rétt til geymslu áunninnar atvinnuleysistryggingar vegna minnkaðs starfshlutfalls.
    Auk framangreindra breytinga er lögð til breyting til leiðréttingar á vísun milli lagagreina.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Á eftir 10. gr. komi tvær nýjar greinar sem orðist svo:
                  a.      (11. gr.)
                     Við 2. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar staðreyna skal starfshlutfall hins tryggða sem tilgreint er í vottorði vinnuveitanda skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meðal annars líta til þess hvort laun hins tryggða hafi verið í samræmi við tilgreint starfshlutfall á ávinnslutímabilinu og skal þá miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem hinn tryggði starfaði eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


                  b.      (12. gr.)
                     Í stað orðanna „3. mgr. 19. gr.“ í g-lið 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: 5. mgr. 19. gr.
     2.      Við 25. gr., er verði 27. gr., bætist nýr efnismálsliður, svohljóðandi: Ákvæði 24. gr. skal þó gilda um alla þá sem nýta sér heimild 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum eftir gildistöku laga þessara.

    Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. mars 2009.



Þuríður Backman,


varaform., frsm.


Helga Sigrún Harðardóttir.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Atli Gíslason.


Kristinn H. Gunnarsson.