Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 445. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 787  —  445. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðisnefnd.1. gr.

    Síðari málsliður 13. gr. laganna, sbr. lög nr. 120/2008, orðast svo: Þó skal ákvæði 10. gr., hvað varðar smásöluaðila, taka gildi 1. janúar 2010.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til að frestað verði enn hluta gildistöku 10. gr. laga nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Frestunin varðar eingöngu smásölu lyfja.
    Gildistökunni hefur í tvígang verið frestað, fyrst með lögum nr. 120/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, og þá til 1. janúar 2009. Með lögum nr. 146/2008 var gildistöku ákvæðisins að nýju frestað til 1. apríl 2009. Þegar það var gert var í undirbúningi nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja og ráðgert að það kæmi til framkvæmda í síðasta lagi 1. apríl 2009. Jafnframt var talið mikilvægt að afnám afslátta af lyfjum í smásölu héldist í hendur við innleiðingu hins nýja greiðsluþátttökukerfis. Nú er ljóst að það mun ekki líta dagsins ljós þann 1. apríl nk. og er því lagt til að gildistökunni verði frestað að nýju til áramóta svo að svigrúm skapist til að ljúka vinnu við nýtt greiðsluþátttökukerfi.