Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 790  —  281. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21 26. mars 1991 (greiðsluaðlögun).

Frá allsherjarnefnd.    Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur nefndin fjallað um málið að nýju. Nefndin fékk á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Ásu Ólafsdóttur frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.

Umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun.
    Nefndin ræddi sérstaklega þá breytingu sem hún lagði til á frumvarpinu að umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun gæti verið á hendi sýslumanns, eins eða fleiri, eða annars opinbers aðila, samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra. Fyrir nefndinni komu fram upplýsingar um að þetta nýja hlutverk gæti skarast við innheimtuhlutverk sýslumanna og nauðsynlegt væri að hafa lengri tíma til að undirbúa þá breytingu þar sem slík breyting kallaði á tilfærslu verkefna milli sýslumanna. Í því gæti falist frekari endurskoðun verkefna milli sýslumanna, svo sem á þann veg að eitt embætti á höfuðborgarsvæðinu gæti sinnt þjónustuverkefnum gagnvart almenningi. Nefndin leggur því til breytingar á frumvarpinu um að ráðherra verði heimilt að fela einum sýslumanni eða opinberri stofnun umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun í stað þess að vera það skylt eins og nefndin lagði til í fyrri breytingartillögu sinni.
    Mikið ríður á að greiðsluaðlögunarferlið geti hafist sem allra fyrst. Því telur nefndin rétt að lögmenn hafi þetta hlutverk með höndum fyrst um sinn eins og lagt er til í frumvarpinu. Þar er nú þegar fyrir hendi reynsla af búskiptum og þrotameðferð, sem nýtist vel í störfum umsjónarmanns. Nefndin telur þó rétt að leggja einnig til að kostnaður umsjónarmanns greiðist úr ríkissjóði, en kostnaður er háður ákvörðun dómara. Þá leggur nefndin einnig til að greiðsla fyrir umsjón með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar verði ákveðin af dómara og geti að hámarki orðið 200 þús. kr. Jafnframt gerir nefndin þá tillögu að greiðslan verði innt af hendi í einu lagi eftir að starfi umsjónarmanns lýkur. Ástæða þess er sú að miklu skiptir að starf umsjónarmanns sé unnið með skilvirkum hætti og gangi hratt fyrir sig.

Ábyrgðarmenn.
    Nefndin ræddi einnig að nýju réttaráhrif nauðasamnings til greiðsluaðlögunar gagnvart þriðja manni en skv. 4. mgr. 60. gr. gjaldþrotalaga haggar nauðasamningur ekki ábyrgð þriðja manns á kröfum skuldara. Í því sambandi ræddi nefndin frumvarp til laga um ábyrgðarmenn, þskj. 135, 125. mál. Þar er tekið sérstaklega fram í 3. mgr. 9. gr. að nauðasamningur eða önnur eftirgjöf sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka hafi sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni. Þannig ábyrgist ábyrgðarmaður lán lántaka eins og það stendur hverju sinni gagnvart lánveitanda þannig að ábyrgðarmaður verði ekki sóttur sérstaklega vegna greiðslna sem felldar eru niður í samningi lánveitanda og lántaka. Forsenda þriðjamannsábyrgðar er að kröfuhafi eigi val um að hverjum skuldara hann beini kröfu sinn er sú að ábyrgðarmaður á endurkröfu fyrir greiddri skuld á hendur aðalskuldara. Sú forsenda brestur ef aðalkrafan er lækkuð gagnvart aðalskuldara. Af þessum ástæðum telur nefndin óhjákvæmilegt að krafa lækki með sama hætti gagnvart ábyrgðarmanni og aðalskuldara í greiðsluaðlögun og að tryggingaréttindi fyrir upphaflegri fjárhæð falli þá jafnframt niður. Þessi breyting haggar í engu rétti kröfuhafa samkvæmt gildandi lögum til að beina kröfu fyrst að þeim skuldara sem hann telur líklegastan til að greiða kröfuna.
    Fyrir nefndinni kom fram að viðskiptanefnd Alþingis hefur lagt til breytingu á ábyrgðarmannafrumvarpinu í þá veru að tekið verði fram að þrátt fyrir ákvæði gjaldþrotalaga falli nauðasamningar og nauðasamningar til greiðsluaðlögunar undir ákvæði 9. gr. þess frumvarps um takmarkanir á ábyrgðum. Verði frumvarpið að lögum munu þau ganga framar gjaldþrotalögum við lögskýringu þar sem sérlög ganga framar almennum lögum, þ.e. ,,lex specialis“-reglan. Telur nefndin þessa tilhögun mun sanngjarnari gagnvart aðalskuldara og ábyrgðarmönnum og telur að annars nái úrræðið ekki tilgangi sínum. Það er því skilningur nefndarinnar að með fyrirhugaðri ábyrgðarmannalöggjöf verði með fullnægjandi hætti tryggt að lækkun kröfu gagnvart aðalskuldara í greiðsluaðlögun leiði til samsvarandi lækkunar kröfunnar gagnvart ábyrgðarmönnum. Þannig fellur brott ábyrgðaryfirlýsing þriðja manns að því marki sem hún er umfram það sem hin lækkaða krafa kveður á um.
    Nefndin leggur til að 6. tölul. 3. mgr. g-liðar 2. gr. (63. gr. g) falli brott þar sem efni þess töluliðar tengist bráðabirgðaákvæði sem þegar hefur verið fellt brott að tillögu nefndarinnar.
    Nefndin leggur einnig til að lögin öðlist gildi hinn 1. apríl nk. til þess að tími gefist til undirbúnings.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


1.      Við 2. gr.
     a.      Í stað 3. mgr. d-liðar komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Um skipun og stöðu umsjónarmanns með greiðsluaðlögun fer skv. 2. mgr. 39. gr. Þóknun umsjónarmanns greiðist úr ríkissjóði ásamt öðrum kostnaði af greiðsluaðlögun samkvæmt ákvörðun héraðsdómara. Þóknunin skal þó aldrei vera hærri en 200 þús. kr.
                 Dómsmálaráðherra er heimilt að fela sýslumanni, einum eða fleiri, eða opinberri stofnun umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun.
     b.      6. tölul. 3. mgr. g-liðar falli brott.
2.      Við 4. gr. Greinin orðist svo:
              Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2009.

Alþingi, 24. mars 2009.


Árni Páll Árnason,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Birgir Ármannsson.Ágúst Ólafur Ágústsson.


Ólöf Nordal.


Árni Þór Sigurðsson.Sigurður Kári Kristjánsson.


Siv Friðleifsdóttir.


Jón Magnússon.