Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 805  —  385. mál.
Breytingartillagavið frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Frá Helga Hjörvar, Atla Gíslasyni, Birki J. Jónssyni,


Ármanni Kr. Ólafssyni og Grétari Mar Jónssyni.Við bætist ný grein er verði 1. gr., svohljóðandi:
Á eftir orðinu „ætternis“ í 1. mgr. 65. gr. laganna kemur: fötlunar.

Greinargerð.


Jafnræðisreglan er skýrt orðuð í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að. Hún er afdráttarlaust orðuð í 26. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hún er einnig orðuð í 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem veitt var lagagildi með lögum nr. 62 frá 19. maí 1994, en í lögunum ber ákvæðið fyrirsögnina: „Bann við mismunun“.
    Í 65. gr. stjórnarskrárinnar eru talin upp sérstaklega nokkur atriði sem óheimilt er að byggja mismunun á. Upptalningin tekur að miklu leyti mið af orðalagi fyrrnefndra greina.
    Frá því að hinu mikilvæga ákvæði um jafnræðisregluna var bætt inn í stjórnarskrána hefur komið fram nýr alþjóðasamningur, um réttindi fólks með fötlun. Markmið þessa samnings er að útfæra jafnræðisregluna með ítarlegri hætti en áður hefur verið gert í tengslum við fatlaða, sem eru einn sá hópur sem sérstaklega þykir hætta á að geti sætt mismunun.
    Af þessum sökum þykir einnig rétt að fötluðum verði sérstaklega bætt við upptalningu 65. gr. stjórnarskrárinnar, enda er þeim nú ætluð sérstök vernd að alþjóðalögum. Sérstaklega er í þessu sambandi bent á alþjóðasamning um réttindi fólks með fötlun, sem undirritaður var af Íslands hálfu 30. mars 2007 og tók gildi 3. maí 2008. 137 þjóðir hafa nú undirritað samninginn og 81 þjóð valfrjálsa bókun við hann. Þessi samningur er mannréttindasáttmáli líkt og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, en hann skýrir réttarstöðu fatlaðra og kveður á um rétt þeirra til að standa jafnfætis öðrum.
    Nú liggur fyrir íslensk þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun (http://www.felagsmalaraduneyti.is/media/acrobat-skjol/Samningur_fatladra.pdf) og valfrjálsu bókuninni við hann (http://www.felagsmalaraduneyti.is/media/acrobat-skjol/Samningur_fatladra_-_valfrjals_bokun.pdf). Unnið er að fullgildingu samningsins hér á landi þar sem m.a. er kannað hvort lög og reglugerðir hér á landi uppfylli kröfur sem lagðar eru á þau ríki sem fullgilda hann.