Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 406. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 815  —  406. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um listamannalaun.

Frá 2. minni hluta menntamálanefndar.    Með frumvarpinu er lagt til að fjölga mánaðarlaunum sem úthlutað er sem starfslaunum úr 1.200 í 1.600 eða um 400. Þá er og lögð til sú breyting að mánaðarlaun starfslauna verði ákveðin upphæð, 266.737 kr., sem komi til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga hvert ár með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tveimur nýjum launasjóðum, fyrir sviðslistafólk og hönnuði, þá er og lagt til að stjórn listamannalauna fái heimild til að flytja umsóknir á milli launasjóða og lagðar til breytingar á störfum stjórnarinnar, m.a. varðandi stefnumótun og áherslur við úthlutun.
    Helsta ákvæðið sem hefur áhrif á útgjöld ríkisins er fjölgun mánaðarlauna um 400 og miðað við að fyrirhuguð mánaðarlaun verði 266.737 kr. þýðir það 107 millj. kr. aukningu á útgjöldum ríkisins. Einnig er talið að útgjöld ríkisins gætu aukist vegna aukinnar umsýslu vegna fjölgunar mánaðarlauna og vinnu við stefnumörkum.
    Ekki er gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 né í áætluðum útgjöldum næstu fjögur árin. Því þarf vegna mikils halla ríkissjóðs að fjármagna útgjöldin með lántökum.
    2. minni hluti fellst ekki á að það sé raunhæf leið til atvinnu- og verðmætasköpunar að auka útgjöld ríkisins með þessum hætti.
    2. minni hluti leggur til að ekki verði hróflað við núgildandi lögum um listamannalaun.

Alþingi, 24. mars 2009.Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Einar K. Guðfinnsson.