Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 451. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 820  —  451. mál.




Fyrirspurn



til dómsmálaráðherra um skipun skiptastjóra.

Frá Helgu Sigrúnu Harðardóttur.



     1.      Eru fordæmi fyrir því að skipaðir séu fleiri en einn skiptastjóri fyrir þrotabú hérlendis, sbr. 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, þar sem segir að ef sýnt þyki að störf skiptastjóra verði umfangsmikil geti héraðsdómari skipað tvo menn eða fleiri til að gegna þeim, og ef svo er, í hvaða tilvikum var það gert?
     2.      Hvernig er hæfi skiptastjóra metið innan dómstólanna? Telur ráðherra í anda reglu 6. tölul. 1. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 að skipa skiptastjóra í þrotabúi mann sem hefur unnið að verkefnum tengdum félaginu sem tekið er til gjaldþrotaskipta eða öðrum verkefnum tengdum því í gegnum sama eignarhald? Telur ráðherra hætt við að slíkur skiptastjóri sé farinn að dæma í eigin málum?
     3.      Hvaða reglur gilda um úthlutun þrotabúa til skiptastjóra hjá héraðsdómstólum og eru þær nægjanlega gagnsæjar?


Skriflegt svar óskast.