Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 453. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 828  —  453. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2008.

1. Inngangur.
    Árið 2008 var ályktað um fjölmörg mikilvæg mál á vettvangi Evrópuráðsþingsins.
    Í fyrsta lagi var tekist á um afstöðu til framtíðarstöðu Kósóvó-héraðs í Serbíu á fyrsta fundi þingsins í janúar og tvær ályktanir samþykktar. Í þeirri fyrri var skorað á öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að gera allt sem í þess valdi stæði til að vinna áfram að málamiðlunarlausn deilunnar. Í hinni voru aðildarríki Evrópusambandsins hvött til að móta sér sameiginlega afstöðu til framtíðar Kósóvó-héraðs. Framhald varð síðar á umræðunni um Kósóvó í apríl þegar rætt var um áhrif sjálfstæðisyfirlýsingar héraðsins.
    Í öðru lagi varð framhald á umræðu síðasta árs um aðgerðir aðildarríkja Evrópuráðsins og Bandaríkjanna í baráttunni gegn hryðjuverkum með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði mannréttinda og réttarfars. Skýrsla var lögð fram á þinginu í júní um svarta lista öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins sem heimila refsiaðgerðir á borð við frystingu bankainnstæðna og ferðabönn einstaklinga og hópa sem taldir eru vera í vitorði með Osama bin Laden, hryðjuverkasamtökunum Al-Kaída eða talibönum. Samþykkt var ályktun þar sem verklagið við gerð listanna var gagnrýnt fyrir að fela í sér alvarlegt brot á grundvallarmannréttindum. Jafnframt var hvatt til þess að réttindaleysi viðkomandi einstaklinga yrði leiðrétt hið fyrsta til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda og réttarfars.
    Í þriðja lagi var umræða á þinginu í lok september um afleiðingar átakanna sem brutust út á milli Georgíu og Rússlands vegna aðskilnaðarhéraðanna Suður-Ossetíu og Abkasíu. Í máli þingmanna frá Rússlandi var því haldið fram að íbúar héraðanna hefðu óumdeilanlegan rétt til sjálfsákvörðunar, en að Rússlandi undanskildu hefur aðeins Níkaragva viðurkennt sjálfstæði héraðanna. Almenn skoðun þingmanna Evrópuráðsþingsins var aftur á móti sú að um harmleik væri að ræða enda í fyrsta sinn síðan Evrópuráðið var stofnað að tvö aðildarríki þess fara í stríð hvort við annað. Samstaða var meðal þingmanna um að horfa til framtíðar og reyna að vinna að varanlegri lausn á deilunni.
    Í fjórða lagi skipuðu málefni Kína og Tyrklands nokkurn sess á fundum Evrópuráðsþingsins auk þess sem fram fór umræða um framtíðarlausn Kýpur-deilunnar.
    Í fimmta lagi átti Íslandsdeild frumkvæði að utandagskrárumræðu í nóvember um beitingu breskra stjórnvalda á hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum í Bretlandi. Jafnframt að laga- og mannréttindanefnd þingsins tæki til skoðunar aðgreiningu á milli löggjafar sem nær til hryðjuverka og löggjafar sem tekur til viðbragða við annars konar ógn eins og hættu á fjármálakreppu (sjá nánar umfjöllun um stjórnarnefndarfund 28. nóvember).
    Að lokum má þess geta að René van der Linden lét af embætti forseta í lok janúar og við tók spænski þingmaðurinn og formaður flokkahóps jafnaðarmanna, Lluís Maria de Puig. Á sama tíma skiptu flokkahóparnir með sér formennsku í fastanefndum þingsins. Formennska í jafnréttisnefnd féll flokkahópi vinstrimanna í hlut og var Steingrími J. Sigfússyni falið að gegna formennsku. Er það í fyrsta sinn síðan jafnréttisnefnd var stofnuð árið 1989 að karlmaður er valinn formaður nefndarinnar.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Til þess beitir ráðið sér fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og varð aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa pólitíska heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 318 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu málefnanefndum og 24 undirnefndum þeirra en einnig starfa í þinginu fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn málefnanefnda og formenn flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess, og sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Stjórnarnefnd kemur saman til fundar á sama tíma og þing eru haldin og á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins saman í hvert sinn sem Evrópuráðsþingið kemur saman.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
     .      eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
     .      hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir í þeim tilvikum sem misbrestur er þar á og
     .      vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða álitum er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin.
    Evrópuráðsþingið er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Ólíkt Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem menn starfa saman á jafnræðisgrundvelli og bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs þingmanna heima fyrir. Hefur þetta farsæla samstarf hraðað mjög og stutt við þá öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Mið- og Austur-Evrópu á undangengnum árum. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

3. Skipan Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins.
    
Í upphafi árs 2008 voru aðalmenn Íslandsdeildar Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ellert B. Schram varaformaður, þingflokki Samfylkingar, og Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Árni Páll Árnason, þingflokki Samfylkingar, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Magnea Marinósdóttir var ritari Íslandsdeildar.
    Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir Evrópuráðsþingsins í lok árs 2008 var sem hér segir:

    Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd:     Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Stjórnarnefnd:     Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Stjórnmálanefnd:     Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Laga- og mannréttindanefnd:     Ellert B. Schram
    Jafnréttisnefnd:     Steingrímur J. Sigfússon
    Efnahags- og þróunarmálanefnd:     Steingrímur J. Sigfússon
    Umhverfis- og landbúnaðarnefnd:     Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Þingskapanefnd:     Ellert B. Schram
    Menningar-, mennta- og vísindanefnd:     Guðfinna S. Bjarnadóttir
    Félags- og heilbrigðismálanefnd:     Ellert B. Schram
    Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna:     Steingrímur J. Sigfússon

4. Starfsemi Íslandsdeildar 2008.
    
Íslandsdeild hélt sjö fundi á árinu. Auk þess fundaði Guðfinna S. Bjarnadóttir, formaður Íslandsdeildar, með Margit F. Tveiten, sendiherra Noregs á Íslandi, í lok nóvember. Tilefni fundarins var framboð Thorbjørns Jaglands, fyrrum forsætis- og utanríkisráðherra Noregs og núverandi forseta norska Stórþingsins, til embættis framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Kosning framkvæmdastjóra fer að öllum líkindum fram á fundi Evrópuráðsþingsins í júní 2009. Norska utanríkisráðuneytið vinnur að framboði hans og hefur m.a. leitað eftir yfirlýstum stuðningi allra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.
    Hvað viðvíkur trúnaðarstörfum fyrir Evrópuráðsþingsins þá var Steingrímur J. Sigfússon valinn formaður jafnréttisnefndar í janúar og skýrsluhöfundur um aukinn hlut karlmanna í að ná jafnrétti kynjanna. Lokaafgreiðsla skýrslunnar fór fram á stjórnarnefndarfundi 28. nóvember í Madríd en fyrir utan sérfræðinga jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins veitti Ingólfur Gíslason, lektor í félagsfræði á sviði karlafræði við Háskóla Íslands, umsögn um skýrsluna. Guðfinna S. Bjarnadóttir var valin sem skýrsluhöfundur um nýtingu jarðvarma af umhverfisnefnd Evrópuráðsþingsins.
    Að lokum átti Steingrímur frumkvæði að því að fram fór utandagskrárumræða að beiðni Íslandsdeildar á stjórnarfundi Evrópuráðsþingsins 28. nóvember um beitingu breskra stjórnvalda á hryðjuverkalöggjöf sinni gagnvart útibúi Landsbankans í Bretlandi. Steingrímur flutti ræðu og tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd Íslandsdeildar. Í kjölfar utandagskrárumræðunnar fór Íslandsdeildin þess á leit við framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins að málinu yrði vísað áfram til skýrslugerðar í laga- og mannréttindanefnd þar sem kannað yrði að hversu miklu leyti löggjöf sem nær til hryðjuverka er skilmerkilega aðgreind frá löggjöf sem nær til viðbragða við annars konar ógn eins og hættu á efnahags- eða fjármálakreppu.
    Til viðbótar sendi Íslandsdeildin svör við spurningalista sem var liður í eftirfylgni við ályktun Evrópuráðsþingsins nr. 1582 (2007) um samvinnu þjóðþinga í því að stemma stigu við ofbeldi gegn konum. Svör voru send til skrifstofu jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins og birt ásamt svörum frá öðrum landsdeildum á fundi þingsins í apríl. Að lokum má geta þess að Íslandsdeildin vakti athygli á starfsemi sinni og Evrópuráðsþingsins í íslenskum fjölmiðlum með viðtölum og greinaskrifum.

5. Fundir Evrópuráðsþingsins 2008.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins fara fram í Evrópuhöllinni í Strassborg og eru þeir haldnir fjórum sinnum á ári, að jafnaði í lok janúar, apríl, júní og september. Auk þess kemur framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiðir mál sem æðsta vald Evrópuráðsþingsins.

Fyrsti fundur Evrópuráðsþingsins 21.–25. janúar 2008.
    Dagana 21.–25. janúar var fyrsti þingfundur Evrópuráðsþingsins árið 2008 haldinn. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður, Ellert B. Schram varaformaður og Steingrímur J. Sigfússon, auk Magneu Marinósdóttur ritara.
    Í upphafi þings tók spænski þingmaðurinn og formaður flokkahóps jafnaðarmanna, Lluís Maria de Puig, við embætti forseta Evrópuráðsþingsins af René van der Linden. Samhliða forsetakjörinu fór einnig fram val á formönnum í málefnanefndir þingsins. Flokkahópur vinstrimanna fékk formennsku í jafnréttisnefnd. Steingrímur J. Sigfússon var valinn til að sinna formennsku fyrir hönd flokkahópsins. Er það í fyrsta sinn síðan jafnréttisnefnd var stofnuð árið 1989 að karlmaður gegnir formennsku.
    Framtíðarstaða Kósóvó-héraðs í Serbíu var hitamál fundarins en 10. desember rann út frestur sérlegs samningamanns Sameinuðu þjóðanna og fyrrum forseta Finnlands, Martti Ahtisaari, til að miðla málum í deilum serbneskra stjórnvalda og leiðtoga Kósóvó-Albana en héraðið hefur verið undir stjórn Sameinuðu þjóðanna síðan 1999. Skýrsluhöfundur stjórnmálanefndar, breski þingmaðurinn og lávarðurinn Russel-Johnston, kynnti tvær ályktunartillögur. Í þeirri fyrri beindi Evrópuráðsþingið þeim tilmælum til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að fundin yrði lausn á deilunni sem serbnesk stjórnvöld og leiðtogar Kósóvó-Albana yrðu að sætta sig við. Serbneska landsdeildin gagnrýndi það að ályktunartillagan gerði í raun ráð fyrir því að allir möguleikar til samningaviðræðna og málamiðlana væru ekki lengur fyrir hendi. Það væri ekki rétt skilið og að frumkvæði serbnesku landsdeildarinnar var tillagan felld í atkvæðagreiðslu og breytingartillaga hennar samþykkt í staðinn, þar sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er hvatt til að gera allt sem í þess valdi stendur til að vinna áfram að málamiðlunarlausn. Í seinni tillögu skýrsluhöfundar voru aðildarríki Evrópusambandsins hvött til að móta sér sameiginlega stefnu um framtíðarstöðu Kósóvó-héraðs, þar með talið einhliða yfirlýsingar um sjálfstæði héraðsins. Formaður serbnesku landsdeildarinnar andmælti tillögunni. Hann benti á að stuðningur við einhliða yfirlýsingu um sjálfstæði bryti í bága við alþjóðalög og grundvallargildi Evrópuráðsins um að leysa deilur í krafti samningaviðræðna og málamiðlana. Ályktun Evrópuráðsþingsins gengi í berhögg við 1. gr. C í stofnsáttmála Evrópuráðsins þar sem segir: „Þátttaka í Evrópuráðinu skal á engan hátt hafa áhrif á samvinnu þátttökuríkja þess innan Sameinuðu þjóðanna eða annarra alþjóðastofnana eða bandalaga, sem þeir eru aðilar að.“ Allt kom fyrir ekki og var tillagan samþykkt með 3/4 hlutum atkvæða.
    Sama dag voru ályktunartillögur um áhrif loftslagsbreytinga og umhverfisvernd á norðurslóðum teknar til umræðu. Íslandsdeildin hafði lagt fram sjö breytingartillögur við ályktunardrög um umhverfisvernd á norðurslóðum og fengið til þess stuðning frá norsku landsdeildinni. Markmið breytingartillagnanna var í fyrsta lagi að láta ályktunina taka í meira mæli til réttinda og hagsmuna íbúa á norðurslóðum, eða hinnar mannlegu víddar. Í öðru lagi að vísa í mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til viðbótar við tvíhliða samvinnu milli landa og fjölþjóðlegrar innan ramma Norðurskautsráðsins. Allar breytingartillögur Íslandsdeildarinnar voru samþykktar einróma í umhverfisnefnd og á þinginu.
    Guðfinna S. Bjarnadóttir og Steingrímur J. Sigfússon tóku bæði þátt í sameiginlegri umræðu um ályktanirnar. Guðfinna lagði áherslu á mikilvægi rannsóknar- og tækniþróunar sem leið til að draga úr mengun og losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Í því sambandi vísaði hún til reynslu Íslendinga, einkum á sviði jarðvarmanýtingar, og benti á að jarðvarmi væri vannýtt auðlind víðs vegar um heiminn. Steingrímur tók til máls sem talsmaður flokkahóps vinstrimanna. Í ræðu sinni vék hann að þeirri siðferðilegu skyldu sem iðnríkin hefðu þegar kæmi að aðgerðum til að stemma stigu við og takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga sem kæmu ekki síst fram á norðurskautinu. Hann lagði áherslu á að tækifæri á sviði auðlindanýtingar og siglingaleiða í kjölfar hlýnunar yrðu ekki nýtt á kostnað frumbyggja og umhverfis- og náttúruverndar og undirstrikaði að lokum mikilvægi fjölþjóðlegrar samvinnu um verndun norðurskautsins.
    Þingmaðurinn og fyrrum ríkissaksóknari í Sviss, Dick Marty, lagði fram þriðju skýrslu sína frá því að rannsókn Evrópuráðsþingsins hófst árið 2005 á aðgerðum í baráttunni gegn hryðjuverkum sem kunna að brjóta í bága við grundvallarmannréttindi og meginreglur réttarríkisins. Í skýrslunni er fjallað um svarta lista öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og Evrópusambandsins (ESB) sem heimila refsiaðgerðir eins og frystingu bankainnstæðna og ferðabönn á einstaklinga og hópa sem taldir eru vera í vitorði með Osama bin Laden, hryðjuverkasamtökunum Al-Kaída og/eða talibönum. Í ályktun sem var samþykkt á þinginu voru gerðar alvarlegar athugasemdir við gerð listanna. Kjarninn í gagnrýninni snýr að veikri réttarstöðu þeirra sem taldir eru vera viðriðnir hryðjuverk í samanburði við réttarstöðu sakborninga almennt. Skýrsluhöfundur tók sem dæmi að engar vitnaleiðslur færu fram í máli meintra vitorðsmanna. Tilgreind ástæða væri að vitnaleiðslur mundu kalla á að ríkisleyndarmál yrðu upplýst. Annað sem þykir gagnrýnisvert er að einstaklingar á listunum hafa ekki getað komið athugasemdum um veru sína á listanum áleiðis til SÞ eða ESB nema með milligöngu síns heimaríkis. Heimaríkið er hins vegar vanalega sá aðili sem kemur því upphaflega til leiðar að viðkomandi einstaklingur er settur á svartan lista og situr því beggja vegna borðsins. Einstaklingar á listanum hafa heldur ekki getað áfrýjað til dómstóla þar sem vera þeirra á listunum er ekki tilkomin vegna dómsúrskurðar. Til að nafn einstaklings sé tekið af listanum þarf því að berast beiðni frá heimaríki viðkomandi um endurskoðun og síðan samþykki viðkomandi heimaríkis og einróma samþykki refsinefndar (e. sanctions committee) SÞ eða ESB. Reynslan hefur sýnt að ríki hafa ekki farið fram á endurskoðun og eðli málsins samkvæmt allra síst í þeim tilvikum þar sem um er að ræða ríkisborgara þar sem takmörkuð virðing er borin fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. Til viðbótar hafa hingað til ekki verið nein formleg tímamörk á því hversu lengi einstaklingar hafa verið á svörtum lista án endurskoðunar. Bág réttarstaða einstaklinga á listanum hefur verið staðfest í tilvikum þar sem ákæru ríkissaksóknara hefur verið beitt sem nokkurs konar réttarfarsúrræði. Nöfn meintra vitorðsmanna hafa hins vegar haldið áfram að vera á svörtum lista þrátt fyrir að ákæru ríkissaksóknara á hendur þeim hafi verið vísað frá eftir áralanga lögreglurannsókn vegna skorts á sönnunum. Sá möguleiki að nöfn saklausra einstaklinga séu á listanum hefur verið réttlættur í nafni þjóðaröryggis sem fórnarkostnaður í baráttunni gegn hryðjuverkum. Í ályktun Evrópuráðsþingsins er skorað á stjórnvöld að leiðrétta réttindaleysi viðkomandi einstaklinga til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda og réttarfars.
    Í umræðu um nauðsyn þess að vernda íþróttir gegn spillingu, mismunun og skipulagðri glæpastarfsemi eins og peningaþvætti og mansali tók Ellert B. Schram til máls sem talsmaður flokkahóps jafnaðarmanna. Í ræðu hans kom m.a. fram mikilvægi knattspyrnuíþróttarinnar í því að skapa mönnum jöfn tækifæri óháð félagslegri stöðu, kyni, kynþætti, trúarbrögðum og öðrum þáttum sem aðgreina fólk. Í knattspyrnunni kæmu ólíkir einstaklingar saman á grundvelli þess sem þeir ættu sameiginlegt. Þar með væri knattspyrna mikilvægur vettvangur til þess að skapa samfélagslega samkennd og stuðla að umburðarlyndi og mikilvægt að svo yrði áfram.
    Sameiginleg umræða fór fram um þrjár skýrslur sem allar lúta að tengslum Evrópuráðsins við lönd utan Evrópu til samræmis við áherslu stofnunarinnar í þá veru. Til umræðu að þessu sinni voru í fyrsta lagi tengsl við Maghreb-löndin svonefndu í Norður-Afríku, sem eiga landamæri að Evrópu við Miðjarðarhaf, þ.e. Marokkó, Alsír og Túnis, en vöxtur öfgafullra íslamstrúarhópa þar og tengsl þeirra við hryðjuverkastarfsemi þykir áhyggjuefni. Í öðru lagi við Mið-Asíuríkin fimm, þ.e. Kasakstan, Túrkmenistan, Úsbekistan, Kirgisistan og Tadsjikistan, þar sem sjónum er beint að aukinni samvinnu á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarfars. Í þriðja lagi tengsl við áheyrnarríki Evrópuráðsins, sem eru Bandaríkin, Ísrael, Japan, Kanada, Mexíkó og Vatíkanið. Umræðan snerist um aðild þeirra sem er með þrenns konar mismunandi hætti, en þörf þykir á því að samræma aðildina og kveða skýrar á um stöðu þeirra, réttindi og skyldur.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu þingið: Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, Ján Kubism, utanríkisráðherra Slóvakíu og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, Frans Timmermans, ráðherra Evrópumála í Hollandi, Ferenc Gyurc Sâny, forsætisráðherra Ungverjalands, Terry Davis, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Bamir Topi, forseti Albaníu, Abdelaziz Ziari, forseti þjóðþings Alsír, Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu (UEFA), og Mikheil Saakashvili, forseti Georgíu, sem nýverið hafði verið endurkjörinn. Í ávarpi hans í tengslum við skýrslu eftirlitsnefndar Evrópuráðsþingsins um Georgíu kom m.a. fram að Georgía ætti enn nokkuð langt í land eins og skýrslan staðfesti og leita þyrfti lausna á þeim „frosnu átökum“ sem eru í landinu. Vísaði hann þar með til tveggja aðskilnaðarhéraða í landinu, þ.e. Suður-Ossetíu og Abkhazíu, sem njóta stuðnings Rússa. Forsetinn, sem við annað tækifæri kynnti friðaráætlun sína fyrir Evrópuráðsþinginu, sagði í ávarpi sínu að hann teldi það ekki leysa neinn vanda að þjóðernishópar innan ríkisins segðu sig frá ríkinu heldur væri sjálfbær lausn fólgin í því að finna leiðir til að allir hópar gætu búið saman í sátt og samlyndi innan landamæra Georgíu.

Annar fundur Evrópuráðsþingsins 14.–18. apríl.
    Dagana 14.–18. apríl fór vorfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar þau Ellert B. Schram varaformaður, Steingrímur J. Sigfússon og Birgir Ármannsson, auk Magneu Marinósdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru kosningaeftirlit, fóstureyðingar, staða Kína og baráttan fyrir mannréttindum.
    Alls voru fimm kosningaeftirlitsskýrslur til umræðu í þinginu, þ.e. um forsetakosningar í Armeníu, Rússlandi, Serbíu og Svartfjallalandi og þingkosningar í Mónakó. Jafnframt var samþykkt að taka til sérstakrar umræðu stöðu lýðræðis í Armeníu í ljósi atburðanna sem áttu sér stað eftir að tilkynnt var um að forsætisráðherra Armeníu hefði unnið þar yfirburðasigur. Í kjölfarið var efnt til mótmæla vegna meintra kosningasvika þar sem um tíu manns létu lífið auk þess sem tugir manna voru fluttir særðir á sjúkrahús og lýst var yfir neyðarástandi. Skýrsla og tilmæli Evrópuráðsþingsins, auk umræðunnar sem átti sér stað, var til vitnis um getu þingsins til að bregðast skjótt við nokkurs konar lýðræðislegu neyðarástandi. Í umræðunum kom fram að sameiginleg yfirlýsing erlendra kosningaeftirlitsmanna þar sem því var lýst að kosningarnar hefðu „í meginatriðum“ samræmst alþjóðlegum reglum þrátt fyrir annmarka hefði hugsanlega skapað reiði í röðum mótmælenda. Í umræðunni á þinginu var talað um að gæta yrði að því að kosningar hlytu ekki jákvæða umsögn út á það eitt að vera betri en þær síðustu.
    Í framhaldinu fór fram umræða um mikilvægi þess að laga annmarka núverandi kosningaeftirlitskerfis. Tryggja þyrfti að allir eftirlitsaðilar fylgdu sömu viðmiðum. Það mundi auðvelda raunhæfan samanburð á milli kosninga bæði innan sama ríkis og milli landa. Sameiginlegar viðmiðanir mundu jafnframt draga úr ágreiningi þegar kæmi að því að gefa kosningum „lokaeinkunn“. Í umræðunni var einnig bent á að annar annmarki kosningaeftirlits væri að einstakir þættir væru ekki vegnir innbyrðis, sem gerði það að verkum að erfitt væri að skera úr um t.d. hvort sá þáttur að allir kjósendur geti greitt atkvæði á kjördag án vandkvæða hafi meira eða minna vægi í samanburði við að kjósandi hafi raunverulega valkosti. Eins og staðan væri núna væri algengt að menn yrðu að semja um lokaniðurstöðu vegna ólíkra viðmiðana og skoðana. Að lokum var talað um mikilvægi þess að fjölþjóðastofnanir settu sér sameiginlegar viðmiðanir um hvenær þær tækju þátt í kosningaeftirliti og hvenær ekki. Forsetakosningarnar í Rússlandi voru teknar sem dæmi en þá tóku sumar stofnanir þátt í kosningaeftirliti á meðan aðrar sátu heima.
    Mesta hitamál þingsins var ályktun jafnréttisnefndar um aðgang að öruggum og löglegum fóstureyðingum. Andstæðingar ályktunarinnar litu á hana sem yfirlýsingu um að öll aðildarríkin ættu að lögfesta rétt til fóstureyðinga en í sumum þeirra eru fóstureyðingar alfarið bannaðar eða því sem næst. Steingrímur J. Sigfússon, formaður jafnréttisnefndar, sagði að ályktunin væri ekki sett fram til að ýta undir fóstureyðingar eins og andstæðingar hennar héldu fram. Grundvallarforsenda ályktunarinnar væri réttur kvenna til lífs. Fóstureyðingar væru úrræði sem meiri hluti kvenna gripi til í neyð óháð því hvort þær væru löglegar eða ólöglegar. Markmið ályktunarinnar væri í ljósi þeirrar staðreyndar að þrýsta á ríkisvaldið að það tryggði konum öruggan og löglegan aðgang að fóstureyðingum og varna því þar með að konur legðu líf sitt í hættu við að fara í fóstureyðingu og gerðust jafnframt brotlegar við lög. Þegar til lokaafgreiðslu kom lágu fyrir rúmlega 70 breytingartillögur og tæplega 50 manns voru á mælendaskrá. Að lokum var ályktunin samþykkt af um 70% þeirra þingmanna sem þátt tóku í atkvæðagreiðslu.
    Í umræðu um íslam og öfgahyggju, sem margir hafa vaxandi áhyggjur af, kom fram að mikilvægt væri að gera greinarmun á íslam sem trú annars vegar og pólitískri hugmyndafræði sem lýtur að sambandi ríkis og trúar og öfgahyggju hins vegar. Aðskilnaður ríkis og kirkju í löndum Evrópu gerði það að verkum að svigrúm væri fyrir fleiri en ein trúarbrögð innan sama ríkis. Það væri öfugt á við það sem gilti í mörgum þeirra landa sem aðfluttir múslimar kæmu frá. Vandamálið í löndum Evrópu væri því ekki íslam sem trú heldur „innflutningur“ á þeirri hugmynd að ríki og trú séu ekki aðskilin. Afleiðingarnar væru í sumum tilvikum þær að samfélög múslima í Evrópu segðu sig í reynd úr lögum við það ríki sem þau eru hluti af, eða a.m.k. í þeim tilvikum sem lög íslam (sharia) ganga í berhögg við landslög eða grundvallarmannréttindi. Öfgahyggju sé að finna innan annarra trúarbragða en íslam en meiri hætta sé á því að öfgar þrífist í einöngruðum samfélögum múslima á Vesturlöndum vegna fyrrnefndrar togstreitu. Það kalli aftur á móti á aðgerðir til að stemma stigu við átökum sem af þeirri togstreitu getur stafað.
    Í utandagskrárumræðu um afleiðingar sjálfstæðisyfirlýsingar Kósóvó kom fram að um fimmtungur aðildarlanda Sameinuðu þjóðanna væru búin að lýsa yfir stuðningi við eða viðurkenna sjálfstæði Kósóvó. Jafnframt væri ljóst að a.m.k. sjö ríki mundu aldrei viðurkenna sjálfstæði Kósóvó. Önnur ríki biðu átekta í ljósi fordæmisgildisins sem viðurkenning gæti haft, bæði almennt og með tilliti til eigin þjóðarhagsmuna. Sem dæmi um þá flóknu stöðu sem upp væri komin var tekið dæmi af stöðu flóttamanna, Kósóvó-Albana, sem óska eftir því að snúa aftur til síns heima. Evrópusambandið sendi umsóknir flóttafólksins áfram til stjórnvalda í Serbíu sem enn er heimaríki þeirra samkvæmt alþjóðlegum viðtökusamningum. Í ljósi þessa vakna upp ýmsar spurningar um framtíðarstöðu Kósóvó, ekki síst hvort Kósóvó verði hálfgildingsríki um alla tíð ef héraðið fær ekki algilda viðurkenningu á sjálfstæði sínu.
    Auk umræðna á þinginu héldu tvær fastanefndir opna fundi meðan á þinghaldi stóð, stjórnmálanefnd og laga- og mannréttindanefnd. Stjórnmálanefnd hélt fund um stöðu mannréttindamála í Kína. Á fundinum var m.a. Yang Jianli frá Kína, stofnandi og forseti mannréttindasamtakanna Initiatives for China. Hann býr í Bandaríkjunum en losnaði skömmu fyrir fundinn úr fimm ára fangelsisvist í Kína eftir að hafa tekið þátt í baráttu fyrir stofnun verkalýðsfélags í norðurhluta landsins árið 2003. Auk hans voru fulltrúi Dalai Lama, leiðtoga útlagastjórnar Tíbeta, og fulltrúi Amnesty International meðal frummælenda á fundinum. Jianli og fulltrúi Amnesty International voru þeirrar skoðunar að ástand mannréttindamála hefði ekki batnað í aðdraganda Ólympíuleikanna. Aðferðafræði stjórnvalda væri hins vegar breytt í þá veru að í stað þess að beina spjótum sínum beint að málsvörum mannréttinda væri aðgerðum beint gegn fjölskyldum þeirra. Frummælendur voru þeirrar skoðunar að ekki ætti að sniðganga Ólympíuleikana heldur þvert á móti nota tækifærið og beita kínversk stjórnvöld þrýstingi með því að ljá máls á mannréttindamálum við kínversk stjórnvöld hvenær sem tækifæri gæfist til. Ástæðan væri sú að kínversk stjórnvöld væru móttækileg fyrir þrýstingi þar sem þeim væri annt um opinbera ímynd sína. Það að breyta stefnu stjórnvalda í mannréttindamálum væri hins vegar langtímaverkefni. Því væri mikilvægt að stjórnmálamenn og viðskiptamenn héldu áfram að beita þrýstingi eftir leikana í opinberum heimsóknum og við gerð viðskiptasamninga, þar sem dropinn holar steininn. Fulltrúi Dalai Lama tók í sama streng. Hann sagði að Tíbetar hefðu ekkert á móti Kínverjum, eingöngu stefnu kínverskra stjórnvalda, kúgun og yfirgangi. Ólympíuleikarnir opnuðu á möguleika til að þrýsta á kínversk stjórnvöld, ekki síst hvað varðar málefni Tíbeta sem fara fram á menningarlegt og stjórnmálalegt sjálfsforræði en ekki sjálfstæði.
    Laga- og mannréttindanefnd hélt fund um stöðu þeirra sem taka að sér að vera baráttumenn í þágu mannréttinda í heimalöndum sínum. Umræða um stöðuna í Rússlandi var fyrirferðarmikil á fundinum en ástand mannréttindamála þykir hafa farið versnandi undanfarin ár að mati þeirra sem tóku til máls. Fulltrúi samtakanna Memorial sagði að stefna Vladimir Pútíns, fyrrum Rússlandsforseta, hefði verið sú að kæfa mannréttindasamtök í skrifræði leyfisveitinga, eftirlits í formi skyndiskoðana og málsókna fyrir minnstu sakir. Annar frummælandi á fundinum var frá Center of International Protection sem eru mannréttindasamtök lögfræðinga. Undanfarin 15 ár hafa samtökin veitt einstaklingum aðstoð við að undirbúa málsóknir fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Kom fram að samtökin hefðu starfað nokkurn veginn óáreitt þangað til fyrir nokkrum árum þegar þau fóru að vinna mál gegn rússneska ríkinu. Í kjölfarið hafi samtökin verið kærð fyrir skattsvik auk þess sem nýverið hefði verið brotist inn í skrifstofu þeirra og hún lögð í rúst, að öllum líkindum að undirlagi stjórnvalda. Stefnu stjórnvalda var lýst í anda herkænsku Sun-Tzu þess efnis að drepa einn og hræða þar með þúsundir. Ástand mannréttindamála væri grafalvarlegt og mikið varnarleysi einkenndi stöðu þeirra sem ynnu í þágu mannréttinda.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu þingið: Ivan Gasparovi forseti og Ján Kubis utanríkisráðherra Slóvakíu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, talaði af eigin reynslu um misrétti og mannréttindi, en hún var ríkisborgari Austur-Þýskalands fyrstu 35 ár ævi sinnar. Í máli hennar kom fram mikill stuðningur og skilningur á hlutverki Evrópuráðsins, þingsins og dómstólsins. Mannréttindi væru algild en ekki afstæð. Hún lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að öll opinber stefnumótun taki mið af grundvallarmannréttindum. Hún sagði að afstaða Rússlands til viðauka 14 við mannréttindasáttmála Evrópu, sem miðar að því að gera nauðsynlegar endurbætur á dómstólnum, væri í raun aðför að þeim grundvallargildum sem Evrópa stæði sameinuðu um. Þakkaði hún þeim rússnesku þingmönnum sem hafa unnið að því að fá viðauka 14 samþykktan en sjálf hefur hún í viðræðum sínum við þáverandi forseta landsins, Vladimir Pútín, og þingmenn gert hið sama. Að lokum sagði hún að ósk sína vera þá að ESB gerðist aðili að mannréttindasáttmála Evrópu, en bæði ályktun og tilmæli þess efnis var samþykkt á Evrópuráðsþinginu.
    Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, vék einnig að mikilvægu hlutverki Evrópuráðsins, þingsins og dómstólsins. Hann sagði að dómstóllinn væri fórnarlamb eigin velgengni og hvatti að lokum Rússa til að fullgilda viðauka 14 og ESB til að gerast aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu. Júlía Tímósjenkó, forsætisráðherra Úkraínu, vék einkum í ræðu sinni að erfiðleikum heima við að gera hugsjónir appelsínugulu byltingarinnar að veruleika. Það tæki tíma að reisa traustar stoðir lýðræðislegra stofnana, eins og dómskerfisins, enda viðnámið mikið vegna rótgróinnar spillingar sem erfitt væri að uppræta. Þakkaði hún stuðning Evrópuráðsþingsins í því að veita landinu aðhald og ráðleggingar í þessum efnum. Hún sagði að lokum að Úkraína stefndi að því að verða traust og áreiðanlegt samstarfsríki innan Evrópu og bætti því við að hún vildi tryggja hagsmuni landsins og öryggi með því að tilheyra sameiginlegu efnahags- og öryggissamfélagi Evrópu en sagði jafnframt að endanleg ákvörðun um aðild að NATO væri þjóðarinnar að taka en ekki stjórnvalda.

Stjórnarnefndarfundur 29. maí.
    Stjórnarnefndarfundur Evrópuráðsþingsins var haldinn 29. maí í Stokkhólmi. Fundinn sóttu Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður og Steingrímur J. Sigfússon, formaður jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins, auk Magneu Marinósdóttur ritara. Auk þess sótti Steingrímur fund framkvæmdastjórnar.
    Stjórnarnefndarfundurinn var settur af Lluís Maria de Puig, forseta Evrópuráðsþingsins. Cecilia Malmström, ráðherra ESB-mála, gerði því næst grein fyrir áherslum Svía sem formennskuríkis Evrópuráðsins. Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs og fyrrum utanríkisráðherra Finnlands, fjallaði m.a. um hvernig Norðurlöndin hefðu verið í fararbroddi við að opna samfélög sín gagnvart umheiminum og koma á sameiginlegum réttindum norrænna ríkisborgara. Hann kom einnig inn á frumkvæði Norðurlandanna að stofnun Norðurskautsráðsins og hinnar norðlægu víddar ESB.
    Fyrsta mál á dagskrá að loknum framsögum var umræða um þingkosningarnar í Serbíu, sem haldnar voru 11. maí. Kosningarnar fengu almennt jákvæða umsögn þrátt fyrir athugasemdir við hluti eins og kosningaáróður þar sem hvatt var til að lífláta ákveðna frambjóðendur auk þess sem það var gagnrýnt að úthlutun þingsæta eftir kosningar hefði ekki alltaf verið í samræmi við röðun frambjóðenda á lista.
    Fjármál Evrópuráðsins fyrir árið 2009 voru næst til umræðu. Skýrsluhöfundur sagði að undanfarin fjögur ár hefði þingið lagt fram tillögur um gerð fjárlaga til nokkurra ára í senn. Markmiðið væri að skapa meiri samfellu í starfi Evrópuráðsins og auka svigrúm til langtímaskuldbindinga. Undanfarin ár hefur þingið einnig gagnrýnt þá stefnu að auka ekki framlög til Evrópuráðsins milli ára og að framlagið sé óverðtryggt, sem jafngildi niðurskurði. Einnig var gagnrýnt að aukin framlög til Mannréttindadómstóls Evrópu væru á kostnað þingsins. Þingið væri komið að endimörkum hagræðingar og frekari samdráttur mundi koma niður á starfsemi þess. Skýrsluhöfundur sagði að þingið hefði lagt til við ráðherranefndina að staðið yrði sameiginlega að endurskoðun á því hvernig fjármunum til dómstólsins væri varið og fjárþörf hans til framtíðar metin. Hvatti hann að lokum formenn landsdeilda til að vekja athygli á stöðu mála við sína utanríkisráðherra.
    Að lokum fór fram umræða og atkvæðagreiðslur um nokkrar skýrslur og ályktanir. Í einni þeirra er hvatt til þess að aflétt verði leynd á skjölum sem hafa að geyma upplýsingar um nákvæma staðsetningu efnavopna sem bandamenn í síðari heimsstyrjöldinni komu fyrir á um 40–50 metra dýpi í Norðursjó og Eystrasalti eftir lok stríðsins. Alls er talið að um sé að ræða 300 þúsund tonn 14 mismunandi efnavopna sem upphaflega átti að urða í Norður-Atlantshafi á 1.000 metra dýpi. Ætlunin var að aflétta leyndinni af skjölunum eftir 50 ár en sá gildistími var framlengdur um 20 ár til viðbótar. Kveður ályktunin á um nauðsyn þess að aflétta leynd skjalanna sem allra fyrst svo hægt sé að fyrirbyggja möguleg mengunar- og umhverfisslys, m.a. vegna lagningar gasleiðslna um Eystrasaltið.

Þriðji fundur Evrópuráðsþingsins 23.–27. júní.
    Dagana 23.–27. júní fór sumarfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar þau Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður, Ellert B. Schram varaformaður, Steingrímur J. Sigfússon og Kristinn H. Gunnarsson, auk Magneu Marinósdóttur ritara.
    Árlegt lýðræðisþema þingsins að þessu sinni var lýðræði, alþjóðlegir fólksflutningar og hvernig auka megi lýðræðislega þátttöku innflytjenda í Evrópu. Auk þess fór fram umræða um jafnrétti kynjanna og hlut kynjajafnréttis á Norðurlöndunum í auknum hagvexti og velferð. Til hliðar við þingið var síðan sérstakur fundur í tilefni af útgáfu bókarinnar „The Most favoured European Women Clause“ sem Steingrímur J. Sigfússon stýrði sem formaður jafnréttisnefndar. Bókinni var ritstýrt af franska lögfræðingnum og fyrrum þingkonunni Giséle Halmi en í henni er að finna safn laga og lagagreina frá mismunandi Evrópulöndum sem lúta að jafnrétti kynjanna og taldar eru vera til eftirbreytni. Má þar nefna lög um skilnað á Spáni, barneignarleyfi í Svíþjóð og nálgunarbann í Austurríki.
    Umræða um stöðu mála í Kína og Tyrklandi var nokkuð fyrirferðarmikil á þinginu. Kína hafði verið í brennidepli fyrir fundinn vegna Ólympíuleikanna og stöðu mannréttindamála. Skorað var á þingmenn og einnig viðskiptalífið að ræða mannréttindamál við kínverska ráðamenn og koma sjónarmiðum Evrópuráðsins á framfæri.
    Tilefni umræðunnar um Tyrkland var sú ákvörðun stjórnarskrárdómstóls Tyrklands að taka til dómsmeðferðar ákæru ríkissaksóknara landsins þar sem farið er fram á að stjórnarflokkur landsins, AK-flokkurinn, verði lagður niður á grundvelli þess að hafa brotið ákvæði stjórnarskrár landsins. Ákæra ríkissaksóknara kom í kjölfar þeirrar ákvörðunar stjórnarskrárdómstólsins að fella úr gildi þá ákvörðun tyrkneska þingsins að heimila konum að vera með slæður um hárið í háskólum landsins en stjórnarskráin kveður á um bann við trúarlegum táknum í opinberum byggingum. Bann á flokkinn þýddi að um 70 flokksfélögum, þar á meðal forsætisráðherra og forseta landsins, yrði bannað taka þátt í stjórnmálastarfi næstu fimm árin. AK-flokkurinn, sem kennir sig við íslam, fékk 47% atkvæða í þingkosningunum árið 2007 og er með hreinan meiri hluta á þingi, 340 af 550 þingsætum. Í umræðunni á Evrópuráðsþinginu lýstu menn miklum áhyggjum af stöðu mála með vísan til hugsanlegra afleiðinga fyrir lýðræðislegar endurbætur og stöðugleika. Fyrrum forseti Evrópuráðsþingsins, René van der Linden, var ómyrkur í máli þegar hann hélt því fram að ef AK-flokkurinn yrði bannaður jafngilti það valdaráni. Bann við stjórnmálaflokkum væri brot á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Máli sínu til staðfestingar benti hann á að frá árinu 1961 hefði fjöldi stjórnmálaflokka verið bannaður í Tyrklandi en þeim dómsúrskurðum hefði öllum verið hnekkt af Mannréttindadómstól Evrópu. Í umræðunni kom einnig fram að krafan um aðskilnað ríkis og trúar ætti við um ríkið en ekki stjórnmálaflokka. Stjórnmálaflokkar gætu kennt sig við trúarbrögð en ekki ríkið eða stefnumótun þess. Niðurstaðan var sú að Evrópuráðsþingið hvatti stjórnvöld og dómstóla í Tyrklandi til að virða þrískiptingu valdsins og taka á málum í samræmi við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og tilmæli Feneyjanefndar Evrópuráðsins.
    Steingrímur J. Sigfússon stýrði umræðu um skýrslu jafnréttisnefndar um hvernig styrkja megi konur í fjölmenningarsamfélögum nútímans. Mikil umræða varð um kynjakvóta sem leið til að jafna valdahlutföllin milli karla og kvenna. Það sjónarmið kom fram að kynjakvótar væru konum til minnkunar og konur ættu að fá að komast áfram á eigin verðleikum án stuðningsaðgerða. Sem mótrök var bent á að karlar hefðu um langa tíð komist áfram á óformlegum kynjakvótum án þess að það hafi verið talið þeim til minnkunar. Í máli Steingríms kom fram að þrátt fyrir ágreining um kynjakvóta hefði skýrsluhöfundur og nefndin verið sammála um að kynjakvótar væru tímabundið neyðarúrræði sem ætti að vera hægt að grípa til þegar þróun í átt að jafnrétti kynjanna gengi hægt.
    Í umræðu um mengun í Svartahafi, stærsta innhafi veraldar, kom fram að 21 af 26 fisktegundum í hafinu væri útdauð vegna ofveiði og mengunar. Alls eiga sex ríki strandlínu að Svartahafi auk þess sem þrjár ár renna út í það. Rætt var um mikilvægi þess að koma á svæðisbundinni aðgerðaáætlun um hreinsun og vernd svæðisins með aðstoð Evrópusambandsins. Steingrímur J. Sigfússon tók til máls í umræðunni sem talsmaður flokkahóps vinstrimanna. Í máli sínu lagði hann áherslu á þann mikla ávinning sem fólginn væri í því að snúa þessari þróun við og vísaði til reynslu Íslendinga í þeim efnum. En til þess að svo gæti orðið væri nauðsynlegt að koma á svæðisbundinni stofnun sem hefði vald- og fjárheimildir á grundvelli lagalega bindandi sáttmála til að hreinsa upp mengun, hafa virkt eftirlit með mengun og ofveiði og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða.
    Annað sem var rætt á þinginu voru niðurstöður eftirlits með þingkosningum í Georgíu og Makedóníu og staða mála eftir kosningarnar í Armerníu. Umsögn um kosningarnar í Georgíu var frekar jákvæð þar sem litið var til þess að stjórnvöld hefðu fært margt sem gagnrýnt hafði verið í forsetakosningunum 5. janúar til betri vegar þrátt fyrir að enn væri svigrúm til endurbóta. Hvað varðar Makedóníu fengu kosningarnar falleinkunn þar sem þær þóttu hvorki hafa uppfyllt skilyrði Evrópuráðsins né Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Í kosningunum gætti mikillar spennu í albanska hluta landsins sem braust út í ógnunum og ofbeldi á sumum stöðum sem varð til þess að endurtaka varð 1. júní kosningar að hluta tveimur vikum síðar, eða 15. júní. Í umræðunni um Armeníu var fyrst og fremst litið til þess hvort stjórnvöld hefðu farið að tilmælum Evrópuráðsþingsins í kjölfar óeirðanna sem urðu eftir að úrslit forsetakosninganna þar í landi voru tilkynnt í vor. Niðurstaða hópsins sem hafði umsjón með að fylgja málum eftir var að mörg tilmælanna væru ekki komin til framkvæmda, enda þyrfti í mörgum tilvikum meira en tvo mánuði til að koma þeim í framkvæmd, eins og í tilviki lagabreytingar. Það var þó tvennt sem þótti óviðunandi. Í fyrsta lagi rannsókn á aðdraganda atburðanna 1. mars og í öðru lagi aðgangur að upplýsingum um þá sem voru fangelsaðir þennan dag og ákærðir.
    Að lokum má geta þess að Ellert B. Schram tók þátt í heimsókn laga- og mannréttindanefndar til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þar var þingmönnum gerð grein fyrir skipulagi dómstólsins, stöðu mála og framtíðarsýn.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu þingið: Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, formennskuríkis Evrópuráðsins; Jean Lemierre, forseti Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu; Jan Niessen, formaður Migration Policy Group; Miklos Marschall, svæðisstjóri Evrópu og Mið-Asíudeildar Tansparency Internatinonal; Boris Tadic, forseti Serbíu; og Jakob Kellenberger, forseti alþjóðaráðs Rauða krossins.

Fjórði fundur Evrópuráðsþingsins 29. september til 3. október.
    Dagana 29. september til 3. október fór fjórði þingfundur Evrópuráðsþingsins fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar þau Guðfinna S. Bjarnadóttir formaður, Ellert B. Schram varaformaður og Steingrímur J. Sigfússon, auk Magneu Marinósdóttur ritara. Þau mál sem voru í kastljósinu voru afleiðingar átakanna í Georgíu, endurskoðun kjörbréfs rússnesku þingmannasendinefndarinnar og staða mála á Kýpur.
    Afleiðingar átakanna í Georgíu var mesta hitamál þingsins en aðfaranótt 8. ágúst brutust út átök milli hers Georgíu og Rússlands í aðskilnaðarhéraðinu Suður-Ossetíu, sem tilheyrir Georgíu þrátt fyrir að hafa meira og minna verið undir „verndarstjórn“ Rússa síðan Georgía hlaut sjálfstæði árið 1991. Í umræðunni kom m.a. fram í máli rússneskra þingmanna að stuðningur við yfirlýsingu Kósóvó um sjálfstæði í febrúar hefði gert það að verkum að friðhelgi landamæra væri ekki lengur algild regla. Forseti Georgíu, Mikheil Saakashvili, hafi í nafni landamærafriðhelgi gert tilraun til þjóðernishreinsana með árás í Suður-Ossetíu. Mikið væri vísað til stóra Rússlands og litlu Georgíu, en hvað með stóru Georgíu og litlu Suður-Ossetíu? Einnig gagnrýndu rússneskir þingmenn þá miklu hernaðaruppbyggingu, sem þeir töldu að hefði átt sér stað í Georgíu, og spurðu hvaða tilgangi hún þjónaði og hver styddi við bakið á Georgíu í þeim efnum. Að lokum var bent á að árás stjórnarhers Georgíu á héraðið væri ekki fyrsta árásin sem gerð hefði verið. Viðbrögð Rússa í þetta skiptið hafi verið fyrirsjáanleg og nauðsynleg varnaraðgerð. Í raun hefðu rússnesk stjórnvöld átt að grípa í taumana mun fyrr. Nú væri svo komið að íbúar héraðanna hefðu óumdeilanlegan rétt til sjálfsákvörðunar, rétt sem Rússar viðurkenndu, og aðrir ættu að gera slíkt hið sama, en að Rússlandi undanskildu hefur aðeins Níkaragva viðurkennt sjálfstæði héraðanna.
    Þingmannasendinefnd Georgíu hélt sig að miklu leyti til hlés í umræðunni. Þingmenn almennt létu hins vegar í ljós þá skoðun sína að um harmleik væri að ræða enda í fyrsta sinn síðan Evrópuráðið var stofnað árið 1949 að tvö aðildarríki þess fara í stríð hvort við annað. Ríkin hefðu framið alvarlegt brot á skuldbindingum sínum sem aðildarríki sem kallaði á viðbrögð. Þau úrræði sem þingið getur gripið til ef ríki er talið hafa brotið í bága við skuldbindingar sínar eru tvenns konar, þ.e. að ógilda kjörbréf eða takmarka þátttökurétt með afturköllun atkvæðaréttar en síðarnefnda úrræðinu var beitt í apríl árið 2000 gegn landsdeild Rússlands vegna Tsjetsjeníustríðsins. Í upphafi þings hafði ályktun um ógildingu kjörbréfs rússnesku þingmannanefndarinnar verið lögð fram í þinginu, undirrituð af 24 þingmönnum. Ályktunin var hins vegar felld í atkvæðagreiðslu með þeim rökum að ekki væri tímabært að grípa til aðgerða áður en sérstök rannsóknarnefnd, sem stofnuð var af þinginu til þess að kanna tilurð átakanna og atburðarás, væri búin að skila skýrslu. Auk þess var talið að aðgerðir gegn Rússlandi á þessum tímapunkti gengju í berhögg við ákvörðun Evrópuráðsins frá því í september þar sem ákveðið hafði verið að einangra ekki Rússland pólitískt eða beita það þvingunum af neinu tagi. Það væri von allra að Rússland sýndi ábyrgð sem aðildarríki Evrópuráðsins og reynt yrði að vinna að varanlegri lausn á deilunni með því að halda viðræðum áfram í góðri trú.
    Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, formennskuríkis Evrópuráðsins, ávarpaði því næst þingið í stað Carls Bildts utanríkisráðherra. Í ræðu sinni gerði forsætisráðherrann grein fyrir fundi utanríkisráðherra Evrópuráðsins í New York í september en til fundarins var boðað af formanni ráðherranefndar Evrópuráðsins, sænska utanríkisráðherranum, vegna átakanna í Georgíu. Utanríkisráðherrar Evrópuráðsins ákváðu á fundinum að auka eftirlit með aðildarskuldbindingum Georgíu og Rússlands, auka samvinnu við þau með það að markmiði að þau virtu betur skuldbindingar sínar og fá mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins, Thomas Hammarberg, til að kanna afdrif íbúanna á átakasvæðunum með hliðsjón af mannréttindasjónarmiðum og skuldbindingum landanna sem aðildarríkja Evrópuráðsins. Thomas Hammarberg kynnti í kjölfarið fyrstu skýrslu sína. Lofuðu þingmenn starf hans en jafnframt var gagnrýnt hversu lítið væri gert í málefnum flóttamanna.
    Staða samningaviðræðna um framtíðarlausn fyrir Kýpur var næst á dagskrá þingsins en þær höfðu staðið yfir síðan 3. september með aðstoð Sameinuðu þjóðanna milli Demetric Christofias, forseta Kýpur og Mehmet Ali Talat, leiðtoga tyrkneska samfélagsins á Kýpur. Í ræðu forsetans kom fram að hann hefði boðið sig fram til embættis forseta til að vinna að hugsjón sinni um Kýpur sem sambandsríki tyrkneskra og grískra borgara en frá árinu 1974 hefur Kýpur í raun verið tvö aðskilin ríki gríska meiri hlutans og tyrkneska minni hlutans sem hvor um sig hafa haft sitt eigið stjórn- og hagkerfi. Tveggja-ríkja lausn væri ekki valkostur að mati forsetans auk þess sem nauðsynlegt væri að Tyrkland styddi hugmyndina um sambandsríki með því að hverfa með her sinn frá Kýpur, en Tyrkland hefur haft hersetu á eyjunni síðan árið 1974. Leiðtogi tyrkneska samfélagsins, sem um 20% íbúa Kýpur tilheyra, talaði næstur. Hjá honum kom fram að frá 1974 hafi íbúar Kýpur af tyrkneskum uppruna haft tvo valkosti, þ.e. að reiða sig á aðstoð frá Tyrklandi eða að hverfa í burtu frá Kýpur. Þeir óski eftir varanlegum friði, sem hafi m.a. sést í stuðningi þeirra við svonefnda sameiningaráætlun Sameinuðu þjóðanna sem var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2004 vegna andstöðu um 70% íbúa Kýpur af grískum uppruna. Núna sé hins vegar tækifæri til sátta þar sem við völd sé forseti sem gefi nýja von. Í almennum þingumræðum kom fram mikill stuðningur við samningaviðræður leiðtoganna og von um að þeir gætu í sameiningu stuðlað að varanlegri lausn Kýpur-deilunnar.
    Í umræðu um frumvarp til laga í Bretlandi um að víkka heimild lögreglu úr 28 dögum í allt að 42 daga til að setja meinta hryðjuverkamenn í gæsluvarðhald án ákæru kom fram að þar sem málið snýr að lagasetningu í Bretlandi væri það ekki hlutverk laganefndar Evrópuráðsþingsins að taka málið fyrir. Framkvæmdastjórn þingsins var hins vegar á öðru máli og setti málið á dagskrá. Í umræðunni kom fram að í samanburði við önnur lönd væru Bretar nú þegar með mun víðtækari heimild en þekkist annars staðar. Auk þess gengi lagafrumvarpið gegn 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem snýr að lagalegri aðstoð og vernd þeirra sem sæta gæsluvarðhaldi. Rýmri tímamörk gætu aukið líkurnar á misbeitingu og pyntingum. Mælt var með því að vísa málinu til umsagnar Feneyjanefndar Evrópuráðsins.
    Að lokum var tekin til umræðu skýrsla og ályktun jafnréttisnefndar þar sem mælt var með því við ráðherranefndina að gerður yrði Evrópusáttmáli um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum í framhaldi af baráttuherferð Evrópuráðsins og þingsins um það mál. Mælt var með að slíkur rammasamningur næði til algengustu tegunda ofbeldis gegn konum, þ.e. heimilisofbeldis, kynferðisofbeldis, kynferðislegrar áreitni, nauðungarhjónabanda, svonefndra heiðursmorða og limlestinga á kynfærum kvenna. Til viðbótar var mælt með því að koma á fót eftirlitsnefnd til að hafa eftirlit með framfylgni við samninginn. Að lokum var vikið að mikilvægi þess að Evrópuráðið kæmi að baráttuherferð Sameinuðu þjóðanna gegn heimilisofbeldi sem stendur til ársins 2015.
    Eftirfarandi tignargestir ávörpuðu þingið auk þeirra fyrrnefndu: Jorge Sampaio, fulltrúi Sameinuðu þjóðanna um bandalag siðmenninga, en það samanstendur af 99 þjóðum og er svar við tilgátu fræðimannsins Samuel Huntingtons um átök milli menningarheima. Evrópuráðið og bandalagið hafa undirritað samstarfssamning sín á milli. Yavuz Mildon, forseti sveitarstjórnaþings Evrópuráðsins, vísaði í átökin í Georgíu og á Kýpur þegar hann benti á að margs konar fyrirmyndir væri að finna hjá sveitarstjórnaþinginu um hvernig væri hægt að tryggja ákveðið sjálfsforræði svæða innan landamæra ríkis. Hann upplýsti einnig að til stæði að hann heimsækti stjórnvöld í Georgíu 2. desember 2008 til að kynna valkosti í þessum efnum. Jorge Pizarro, forseti þings Mið- og Suður-Ameríku, sem samanstendur af 22 löndum, vék einkum að því hvernig fátækt og önnur vandamál, eins og ofbeldisglæpir, umhverfisspjöll og spilling væri viðvarandi vandamál þrátt fyrir aukinn hagvöxt í álfunni. Hann lagði til að Evrópuráðsþingið gerði samstarfssamning við þing Mið- og Suður-Ameríku til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum. Haris Silajdzic, einn af þremur forsetum Bosníu og Hersegóvínu, vék að undirritun stöðugleikasamkomulags við ESB í júní og ræddi um vandamálin sem enn er við að glíma, eins og rétt flóttamanna til að snúa aftur til síns heima. Angel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, ræddi um orsakir og afleiðingar fjármálakreppunnar í heiminum, m.a. hvernig hún getur grafið undan mannréttindum og valdið óstöðugleika, auk þeirra áskorana sem við er að eiga vegna loftslagsbreytinga, fæðuskorts og fólksflutninga. Að lokum kynnti Nyamko Sabuni, ráðherra jafnréttis- og aðlögunarmála útlendinga í Svíþjóð, opnun ungmennamiðstöðvar Evrópuráðsins en hlutverk hennar lýtur að því að miðla gildum Evrópuráðsins til komandi kynslóða.

Stjórnarnefndarfundur 28. nóvember.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sótti Steingrímur J. Sigfússon fund stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins, auk Magneu Marinósdóttur ritara. Fyrir fundinn hafði Íslandsdeildin sent beiðni til forseta Evrópuráðsþingsins um utandagskrárumræðu (e. current affairs debate) vegna beitingar breskra stjórnvalda á hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum sem og annarra aðgerða bresku ríkisstjórnarinnar gagnvart íslenskum bönkum og stjórnvöldum.
    Steingrímur hóf utandagskrárumræðuna. Hann greindi frá og vék að afleiðingunum sem harkalegar aðgerðir breskra stjórnvalda höfðu haft fyrir íslenskt fjármálalíf og efnahagskerfið í landinu, bæði fyrirtæki og einstaklinga. Þá vakti hann sérstaka athygli á hugsanlegri misbeitingu breskra stjórnvalda á hryðjuverkalöggjöf sinni og því slæma fordæmi sem af því gæti hlotist. Einnig benti hann á hvernig misbeiting hryðjuverkalaga græfi undan trúverðugleika þeirra í baráttunni gegn raunverulegum hryðjuverkum eins og þeim sem framin voru í Mumbai í Indlandi um það leyti sem fundurinn fór fram. Að lokum fór Steingrímur þess á leit að bresk stjórnvöld gerðu skýran greinarmun á löggjöf sem ætti við í baráttunni gegn hryðjuverkum og lögum sem lúta að viðbrögðum við annars konar ógn eins og hættu á fjármála- eða efnahagskreppu.
    Alls tóku sjö þingmenn til máls á eftir Steingrími. David Wilshire, breskur stjórnarandstöðuþingmaður Íhaldsflokksins og þáverandi varaformaður flokkahóps hægrimanna, sagði að sá hluti hryðjuverkalaganna, sem notaður var til að frysta eignir Landsbankans, hefði verið samþykktur á þeirri forsendu að lögunum yrði eingöngu beitt gegn óvinveittum ríkjum eða samtökum. Hann setti því spurningarmerki við beitingu laganna gegn Landsbankanum með vísan til lögmætis, réttmætis og þess hvort aðgerðirnar hefðu verið í réttu hlutfalli við tilefnið. Hann taldi svo ekki vera og tók dæmi máli sínu til stuðnings. Wilshire sagði að lokum að svarið við þeirri spurningu hvort beiting laganna hefði verið umfram meðalhóf væri háð því hvort aðrir möguleikar til að leysa þann vanda sem upp var kominn hefðu verið kannaðir til þrautar og afleiðingarnar af beitingu hryðjuverkalaganna fyrir efnahagskerfi Íslands metnar. Spurningin væri með öðrum orðum sú hvort beiting laganna hefði verið innan ramma þeirra skuldbindinga sem bresk stjórnvöld hefðu gengist undir með aðild sinni að Evrópuráðinu. Wilshire gerði það að tillögu sinni að unnin yrði skýrsla í efnahags- og viðskiptanefnd Evrópuráðsþingsins þar sem leitað yrði svara við þessum spurningum.
    Alan Meale, breskur stjórnarþingmaður, varði beitingu laganna. Hann sagði m.a. að 123 sveitarfélög hefðu sett fjármuni inn á innstæðureikninga Landsbankans og það væri skylda breskra stjórnvalda að tryggja hagsmuni þeirra. Hann var samþykkur því að málið yrði skoðað nánar en ekki einskorðað við Ísland og Bretland heldur næði einnig til Hollands og Þýskalands þar sem Landsbankinn var einnig með útibú. Þingmaður frá Þýskalandi tók undir orð hans. Hann sagði að hlutverk þingmanna væri að vernda hag þegnanna sem margir óttuðust að vera búnir að missa háar upphæðir eftir að hafa sett peninga sína inn á reikning íslenskra banka í trausti þess góða orðspors sem fór af landinu. Í ljósi þess að bankarnir hefðu verið ríkisvæddir væri hlutverk þingmanna að leggja sparifjáreigendum lið við að endurheimta sinn sparnað.
    Tiny Kox, þingmaður frá Hollandi og formaður flokkahóps vinstrimanna, fagnaði orðum Steingríms þess efnis að íslensk stjórnvöld og stjórnendur bankanna bæru mikla ábyrgð á því hvernig komið væri á Íslandi og annars staðar þar sem íslenskir bankar voru með starfsemi enda lítið farið fyrir yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda um eigin ábyrgð. Hann fordæmdi hins vegar beitingu hryðjuverkalaga sem hann lýsti sem fjandsamlegri aðgerð stærra ríkis gegn smærra ríki. Að hans mati hefðu aðgerðir breskra stjórnvalda aukið vanda Íslands verulega og lokað fyrir samningaleiðir. Einnig bæru aðgerðir breskra stjórnvalda vott um skort á samstöðu í röðum aðildarríkja Evrópuráðsins sem sjálfviljug hefðu skuldbundið sig til að leysa ágreining sín á milli á grundvelli virðingar fyrir meginreglum réttarfarsríkisins, mannréttindum og lýðræðislegum gildum. Hann kastaði að lokum fram þeirri spurningu hvort skilyrði ESB fyrir afgreiðslu láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þess efnis að íslensk stjórnvöld samþykktu kröfur um ábyrgð gagnvart innstæðueigendum í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi þar sem Landsbankinn var með útibú væri dæmi um misbeitingu valds og fór fram á að málinu yrði vísað til nefndar til frekari skoðunar.
    Andreas Gross, svissneskur þingmaður og formaður flokkahóps jafnaðarmanna, lagði til að málinu yrði vísað til laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins til að fá úr því skorið hvort beiting hryðjuverkalaganna stæðist lagaleg sjónarmið í réttarfarsríki en Michael Hancock, þingmaður Frjálslynda flokksins í Bretlandi, vildi á hinn bóginn að úr því yrði skorið fyrir dómstólum.
    Mátyás Eörsi, þingmaður frá Ungverjalandi og formaður flokkahóps frjálslyndra, sagði að hann hefði ekki hafa miklar upplýsingar um málið en drægi tvær meginniðurstöður af því sem hann vissi þá þegar. Í fyrsta lagi að Ísland væri rík þjóð sem hingað til hefði ekki talið að hún hefði þörf fyrir að tilheyra stærra samfélagi þjóða. Annað hefði komið á daginn og benti hann á að ESB-aðild fæli í sér góða „tryggingavernd“ eins og hefði sýnt sig í tilviki Ungverjalands þegar fjármálakreppan skall á þar. Í öðru lagi að þörf væri á endurskoðun reglugerða um fjármálamarkaði.
    Í lokin tók Steingrímur aftur til máls. Hann benti á að það lægi ekki ljóst fyrir hver lagaleg skuldbinding ríkisins um lágmarkstryggingu væri í tilviki alþjóðlegrar fjármálakreppu enda hefði enginn gert ráð fyrir slíkri kreppu við setningu viðkomandi ESB-tilskipana. Hann benti jafnframt á þær sérstöku aðstæður sem ríktu á Íslandi þar sem eignir bankanna höfðu verið rúmlega 10 sinnum umfram þjóðarframleiðslu. Íslendingum sviði vissulega tap sparifjáreigenda. Það sem kreppan hefði í raun leitt í ljós var hversu mikil áhætta var fólgin í því að setja sparnað í vörslu einkaaðila. Framtíðarspurningin væri hvort ríki vildu leysa þann áhættuvanda með því að vera með ríkistryggingu á bak við allt einkavædda bankakerfið eða leita annarra leiða.
    Eftir að umræðunni lauk tók Miguel Ángel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, undir orð þeirra þingmanna sem lýstu vonbrigðum sínum með að ríki leystu ekki ágreiningsmál sín innan ramma þeirra gilda sem Evrópuráðið stendur fyrir eða með aðstoð ráðsins. Máli sínu til stuðnings vísaði hann til Georgíu og Rússlands annars vegar og Bretlands og Íslands hins vegar.
    Að utandagskrárumræðunni lokinni voru önnur mál á dagskrá rædd og afgreidd, m.a. skýrsla um leiðir til að auka hlut karlmanna í að ná fram jafnrétti kynjanna, breyta kynjuðum staðalímyndum og samþætta kynjasjónarmið inn í opinbera stefnumótun. Steingrímur var skýrsluhöfundur og hafði fengið Ingólf Gíslason, lektor í félagsfræði á sviði karlafræði við Háskóla Íslands, til að veita umsögn við gerð skýrslunnar. Við afgreiðslu skýrslunnar flutti Steingrímur ræðu þar sem hann vék að fundi jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins sem haldinn var á Íslandi árið 2005 þar sem m.a. var fjallað um mikilvægi þess að breyta viðhorfum karlmanna til að ná árangri í jafnréttisbaráttunni. Að lokum vék hann að mikilvægi lagasetningar og nefndi sem dæmi lög gegn heimilisofbeldi á Spáni sem þykja til fyrirmyndar í Evrópu sem og hvernig æðstu ráðamenn þar í landi, ekki síst forsætisráðherra landsins, Jose Luis Rodriguez Zapatero, áttu þátt í því að vekja athygli á vandanum opinberlega.

6. Nefndarfundir utan þinga.
    Guðfinna S. Bjarnadóttir sótti stjórnarnefndarfund í Stokkhólmi í lok maí sem formaður Íslandsdeildar og fund umhverfisnefndar í Madríd í september eftir að hafa orðið við ósk formanns þeirrar nefndar um að verða skýrsluhöfundur um nýtingu jarðvarma.
    Ellert B. Schram fór með laga- og mannréttindanefnd þingsins í heimsókn í júní í Mannréttindadómstól Evrópu þar sem þingmönnum var gerð grein fyrir skipulagi dómstólsins, stöðu mála og framtíðarsýn.
    Steingrímur J. Sigfússon, sem formaður jafnréttisnefndar, sótti fjóra nefndarfundi, þrjá framkvæmdastjórnarfundi og tvo stjórnarnefndarfundi.
    Til hliðar við þingið sótti Steingrímur alþjóðlega ráðstefnu um opinbera ímynd kvenna sem haldin var í Malaga á Spáni, tók þátt í lokadegi baráttuherferðar Evrópuráðsþingsins gegn heimilisofbeldi í Vín og stýrði sérstökum fundi sem var haldinn í tilefni af útgáfu bókarinnar „The Most favoured European Women Clause“ sem franski lögfræðingurinn og fyrrum þingkonan Giséle Halmi ritstýrði. Í bókinni er að finna safn laga og lagagreina frá mismunandi Evrópulöndum sem lúta að jafnrétti kynjanna og taldar eru vera til eftirbreytni.

Alþingi, 11. mars 2009.



Guðfinna S. Bjarnadóttir,


form.


Ellert B. Schram,


varaform.


Steingrímur J. Sigfússon.




Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2008.



    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2008:

Fyrsti hluti þingfundar 21.–25. janúar:
     *      ályktun 1595 um framtíðarstöðu Kósóvó,
     *      ályktun 1596 um umhverfisvernd á norðurskautinu,
     *      ályktun 1597 um bannlista öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins,
     *      ályktun 1598 um styrkingu samvinnu við Maghreb-ríkin,
     *      ályktun 1599 um stöðu mála í Mið-Asíu,
     *      ályktun 1600 um áheyrnarríki Evrópuráðsins – núverandi staða og staðan fram undan,
     *      ályktun 1601 um viðmiðunarreglur um réttindi og skyldur stjórnarandstöðu í lýðræðislegum löggjafarsamkundum,
     *      ályktun 1602 um nauðsyn þess að vernda evrópska íþróttamódelið,
     *      ályktun 1603 um efndir skuldbindinga og skyldna Georgíu sem aðildarríkis,ályktun 1604 um opinbert eftirlit með myndbandsupptökuvélum.
     *      ályktun 1604 um opinbert eftirlit með myndbandsupptökuvélum,
     *      tilmæli 1822 um framtíðarstöðu Kósóvó,
     *      tilmæli 1823 um loftslagsbreytingar,
     *      tilmæli 1824 um bannlista öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins,
     *      tilmæli 1825 um að styrkja samstarf við Maghreb-löndin,
     *      tilmæli 1826 um stöðu mála í Mið-Asíu,
     *      tilmæli 1827 um áheyrnarríki Evrópuráðsins – núverandi staða og staðan fram undan,
     *      tilmæli 1828 um hvarf ungbarna til ólöglegra ættleiðinga í Evrópu,
     *      tilmæli 1829 um samvinnu landamæraríkja,
     *      tilmæli 1830 um opinbert eftirlit með myndbandsupptökuvélum,
     *      álit 267 um viðbótarbókun við sáttmála Evrópuráðsins um mannréttindi og lífvísindi um erfðafræðilegar prófanir í þágu heilbrigðismála.

Annar hluti þingfundar 14.–18. apríl:
     *      ályktun 1605 um samfélög múslima í Evrópu og öfgahyggju,
     *      ályktun 1606 um misnotkun réttarkerfisins í Hvíta-Rússlandi,
     *      ályktun 1607 um aðgang að öruggum og löglegum fóstureyðingum í Evrópu,
     *      ályktun 1608 um sjálfsvíg barna og unglinga í Evrópu: alvarlegt heilbrigðisvandamál,
     *      ályktun 1609 um virkni lýðræðisstofnana í Armeníu,
     *      ályktun 1610 um aðild Evrópusambandsins að mannréttindasáttmála Evrópu,
     *      ályktun 1611 um fólksflutninga frá sunnanverðri Afríku,
     *      tilmæli 1831 um samfélög múslima í Evrópu og öfgahyggju,
     *      tilmæli 1832 um misnotkun réttarkerfisins í Hvíta-Rússlandi,
     *      tilmæli 1833 um að stuðla að kennslu evrópskra bókmennta,
     *      tilmæli 1834 um aðild Evrópusambandsins að mannréttindasáttmála Evrópu,
     *      tilmæli 1835 um sjálfbæra þróun og ferðamennsku: vöxtur í átt að auknum gæðum.

Stjórnarnefndarfundur 29. maí:
     *      ályktun 1612 um urðun efnavopna á botni Eystrasalts,
     *      ályktun 1613 um að nýta reynsluna af notkun sannleiksnefnda,
     *      tilmæli 1836 um að nýta sem best möguleika fjarnáms á sviði menntunar og þjálfunar,
     *      álit 268 um fjárlög Evrópuráðsins fyrir árið 2009,
     *      álit 269 um útgjöld Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2009.

Þriðji hluti þingfundar 23.–27. júní:
     *      ályktun 1614 um virkni lýðræðislegra stofnana í Aserbaídsjan,
     *      ályktun 1615 um styrkingu kvenna í fjölmenningarsamfélögum nútímans,
     *      ályktun 1616 um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, lykilstofnun umbreytinga,
     *      ályktun 1617 um stöðu lýðræðis og áskoranir í Evrópu, fjölbreytileika og fólksflutninga,
     *      ályktun 1618 um stöðu lýðræðis í Evrópu, leiðir til að bæta lýðræðislega þátttöku innflytjenda,
     *      ályktun 1619 um stöðu lýðræðis í Evrópu, virkni lýðræðislegra stofnana í Evrópu og framgang aðgerða Evrópuráðsþingsins á sviði eftirlits með skuldbindingum,
     *      ályktun 1620 um eftirfylgni Armeníu við ályktun Evrópuráðsins nr. 1609 (2008),
     *      ályktun 1621 um stöðu mála í Kína,
     *      ályktun 1622 um virkni lýðræðislegra stofnana í Tyrklandi: þróun mála,
     *      ályktun 1623 um starfsemi alþjóðaráðs Rauða krossins,
     *      ályktun 1624 um aðgerðir til að fyrirbyggja fyrstu gerð ofbeldis gegn börnum, að yfirgefa barn við fæðingu,
     *      ályktun 1625 um Gökceada (Imbros) og Bozcaada (Tenedos), verndun menningarlegs fjölbreytileika hinna tveggja tyrknesku eyja sem fyrirmyndar að samvinnu milli Tyrklands og Grikklands í þágu hagsmuna viðkomandi hópa,
     *      tilmæli 1837 um aðgerðir gegn umhverfisskaða í Svartahafi,
     *      tilmæli 1838 um styrkingu kvenna í fjölmenningarsamfélögum nútímans,
     *      tilmæli 1839 um stöðu lýðræðis og áskoranir í Evrópu: fjölbreytileiki og fólksflutningar,
     *      tilmæli 1840 um stöðu lýðræðis í Evrópu, leiðir til að bæta lýðræðislega þátttöku innflytjenda,
     *      tilmæli 1841 um stöðu lýðræðis í Evrópu, virkni lýðræðislegra stofnana í Evrópu,
     *      tilmæli 1842 um starfsemi alþjóðaráðs Rauða krossins.

Fjórði hluti þingfundar 29. september til 3. október:
     *      ályktun 1626 um framfylgni við skyldur og skuldbindingar Bosníu og Hersegóvínu,
     *      ályktun 1627 um frambjóðendur til setu í Mannréttindadómstól Evrópu,
     *      ályktun 1628 um ástandið á Kýpur,
     *      ályktun 1629 um Efnahags- og framfarastofnun Evrópu og hagkerfi heimsins,
     *      ályktun 1630 um endurnýjun ungmennastefnu Evrópuráðsins,
     *      ályktun 1631 um endurskoðun á kjörbréfi þingmannasendinefndar Rússlands á efnislegum forsendum,
     *      ályktun 1632 um ástand þjóðernisminnihlutahópa í Vojvodina og um rúmenska minni hlutann í Serbíu,
     *      ályktun 1633 um afleiðingar stríðsins milli Georgíu og Rússlands,
     *      ályktun 1634 um fyrirhugað 42 daga gæsluvarðhald án ákæru í Bretlandi,
     *      ályktun 1635 um baráttuna gegn ofbeldi gegn konum – drög að Evrópusáttmála,
     *      ályktun 1636 um viðmiðanir fyrir fjölmiðla í lýðræði,
     *      tilmæli 1843 um framfylgni við skyldur og skuldbindingar Bosníu og Hersegóvínu,
     *      tilmæli 1844 um endurnýjun ungmennastefnu Evrópuráðsins,
     *      tilmæli 1845 um ástand þjóðernisminnihlutahópa í Vojvodina og um rúmenska minni hlutann í Serbíu,
     *      tilmæli 1846 um afleiðingar stríðsins milli Georgíu og Rússlands,
     *      tilmæli 1847 um baráttuna gegn ofbeldi gegn konum – drög að Evrópusáttmála,
     *      tilmæli 1848 um viðmiðanir fyrir fjölmiðla í lýðræði,
     *      tilmæli 1849 um að stuðla að lýðræðismenningu og mannréttindum í gegnum kennaramenntun,
     *      álit 270 um drög að Evrópusáttmála um aðgang að opinberum skjölum.

Stjórnarnefndarfundur 28. nóvember:
     *      ályktun 1637 um innflytjendur sem koma sjóleiðina til Suður-Evrópu eða „bátafólk“ Evrópu,
     *      ályktun 1638 um verklag við verndun handverks og menningarlegrar arfleifðar,
     *      ályktun 1639 um fólksflutninga og hreyfanleika í löndum á mörkum Evrópu og Asíu,
     *      ályktun 1640 um tvískipt hlutverk þingmanna í þjóðþingum og á Evrópuráðsþinginu,
     *      ályktun 1641 um hlutdeild karlmanna í að ná jafnrétti kynjanna,
     *      tilmæli 1850 um innflytjendur sem koma sjóleiðina til Suður-Evrópu eða „bátafólk“ Evrópu,
     *      tilmæli 1851 um verklag við verndun handverks og menningarlegrar arfleifðar,
     *      tilmæli 1852 um fólksflutninga og hreyfanleika í löndum á mörkum Evrópu og Asíu,
     *      tilmæli 1853 um hlutdeild karlmanna í að ná jafnrétti kynjanna.